Mæður og feður, systur og bræður

Fyrir skömmu las ég afar merka og nánast óþekkta bók, sem heitir þeim veglega titli Elskulega móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur (Sigrún Sigurðardóttir tók saman, útgef. Háskólaútgáfan). Það sem gerir þessa bók merkilega er að um er að ræða að stofninum til bréfaskriftir innan stórrar fjölskyldu frá síðustu áratugum 19. aldar og blábyrjun 20. aldar eða á tímabilinu 1878-1902. Bókin var sú þriðja í bókaflokknum Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar og kom út árið 1999, en útkomnar bækur í þessum athyglisverða flokki eru nú orðnar 15 talsins. Áður hafði ég aðeins lesið eina þeirra, Orð af eldi, sem fjallaði um áratugalöng (en heldur gloppótt) bréfaskipti Þorsteins Erlingssonar og Ólafar frá Hlöðum, og nú er á efnisskránni hjá mér að lesa nýjustu bókina í flokknum, sem hefur að geyma dagbækur Elku Björnsdóttur frá um 1915.

 

Elskulega móðir mín ... hefir að geyma bréfaskifti mjög sérstakrar fjölskyldu Jóns Borgfirðings, lögregluþjóns og alþýðufræðimanns. Um er að ræða bréf milli fjölskyldumeðlima, Jóns sjálfs, Önnu Guðrúnar eiginkonu hans (sem lést 1881) og næstu afkomenda þeirra. Þau áttu sex börn saman og hér er að finna bréf frá og á milli fjögurra þeirra, sem og einnar lausaleiksdóttur Jóns og sonar hennar.

 

Vert er að nefna strax að þessi fjölskylda er hin merkasta. Jón Borgfirðingur var bláfátækur, sjálfmenntaður alþýðumaður, sem lagði alla áherslu á að koma börnum sínum (einkum sonum) til mennta og tókst það betur en flestum samtímamönnum. Allir 4 synirnir luku stúdentsprófi, sem þótti merkilegt á þeim tíma, og 2 þeir elstu einnig háskólaprófi frá Höfn. Elsti sonurinn, Finnur Jónsson, varð prófessor við Hafnarháskóla og einn merkasti íslenskufræðingur síns samtíma, og sá næstelsti, Klemens, komst í hóp helstu valdsmanna landsins, varð sýslumaður, landritari (og þá um leið nánasti samstarfsmaður Hannesar Hafstein ráðherra Íslands), þingmaður og um síðir ráðherra. Elsta dóttirin, Guðrún Borgfjörð, þjónaði í reynd alla tíð á heimilum ættfólks síns, fyrst hjá foreldrunum, síðan hjá föðurnum sem ekkli og loks við heimilishald Klemensar bróður síns; hún hefur þó máske orðið þekktust þeirra systkina vegna stórmerkilegra æviminninga, sem hún ritaði á gamals aldri og veita fágæta innsýn í líf kvenna í íslensku breytingaþjóðfélagi á s.hl. 19. aldar. Fjórða systkinið, Vilhjálmur, á einnig allmörg bréf hér; hann sigldi líka til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn, en lauk aldrei háskólaprófi og starfaði sem kennari og póstmaður á stuttri ævi. Þau tvö, sem ekki eiga hér bréf, eru dóttirin Guðný, sem varð sýslumannsfrú, og bróðirinn Ingólfur, sem gerðist verslunarmaður. Á þau er þó alloft minnst í bréfunum.

 

Hérna eru samankomin sendibréf þessa fólks upp á þéttar og rúmar 300 blaðsíður með smáu letri. Það sem er máske merkilegast við þennan fjársjóð er varðveisla bréfanna sjálfra (og rétt er að taka fram að þetta er ekki allur afrakstur bréfaskifta fjölskyldunnar á tímabilinu). Þrátt fyrir að ýmsar trúnaðarupplýsingar gangi þeirra á milli, bæjarfréttir og slaður og leyndarmál eigin ættmenna, og þótt stundum ljúki bréfum á því að hvatt sé til þess að þeim sé eytt, þá hafa viðtakendurnir (og það á við um nánast alla í fjölskyldunni) kosið að geyma þau. Þetta má máske rekja til þeirrar virðingar fyrir rituðu orði og mikilvægi þess, sem ætla má að Jón Borgfirðingur hafi innprentað börnum sínum. Hann var ástríðufullur bókasafnari, átti fjölda handrita og hélt afar merkilegar dagbækur í um hálfa öld; þær eru geymdar í Þjóðskjalasafni og hef ég gluggað í þær oftar en einu sinni. Raunar var boðað eitt verkefni þessarar ritraðar um Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar að þar í röðum skyldu vera dagbækur Borgfirðingsins, en mér vitanlega hafa þær ekki verið gefnar út. Þær eru stútfullar af fróðleik um lífið í Reykjavík (og um tíma á Akureyri), sem oft er hvergi annars staðar að finna.

 

Borgfirðingurinn og börn hans virðast semsagt hafa haldið þann sið að geyma bréfin og ekki er laust við að kvikni grunur um að það hafi verið vegna aukinnar þjóðfélagslegrar meðvitundar um eigin bættu stöðu; hvernig meðlimir fjölskyldunnar eru að rísa frá fátækt til valda og metorða í þjóðfélagi sem er undirorpið örum breytingum. Þótt þær systur, Guðrún og Guðný, hafi ekki notið mikillar menntunar, þá voru þær nógu mikils metnar til að vera boðið til þátttöku í Thorvaldsens-félaginu, sem stofnað var og stýrt af helstu mektarkonum bæjarins. Virðist það skv. bréfunum að miklu leyti mega þakka saumaskap og handverki Guðrúnar Borgfjörð fyrir þessar tilhaldsfraukur, en á hitt ber að líta að ekkert bréf er í bókinni frá Guðnýju, sem rétt gæti hlut hennar. Er eftirtektarvert að víða í bréfum frá Guðrúnu kemur fram stirt samkomulag og sundurlyndi þeirra systra, en að sama skapi virðist einkar kært á milli tveggja elstu systkinanna, Finns og Guðrúnar. Formlegustu bréfin á svo hinn löglærði Klemens. Nefna má að öll þrjú létu eftir sig mikið efni á prenti, Guðrún fyrrnefndar endurminningar, Finnur einnig endurminningar og hinar margvíslegu fræðibækur og loks Klemens, sem skrifaði Sögu Reykjavíkur í tveimur stórum bindum, auk margvíslegra tímaritsgreina um æskuárin í Reykjavík, en heyrt hef ég því fleygt að einnig sé til í vörslu afkomenda hans sjálfsæviágrip, óprentað.

 

Vandi er þeim með höndum, sem býr efni sendibréfa til prentunar. Lesa þarf rækilega í gegnum öll bréfin og ráða í merkingu, hversu skýr eða óskýr sem rithöndin er. Hér sýnist mér Sigrúnu Sigurðardóttur hafa tekist mjög vel upp með vandvirknina. Í einstaka tilvikum hafa þó slæðst inn villur, sem stundum stafa af mislestri, en hægt hefði verið að komast fyrir, ef lesandi rithandanna hefði þekkt betur til sögu tímabilsins. Þannig kemur á einum stað fyrir skammstöfunin K.Kr.Fr., sem ég held að hljóti að eiga að vera H.Kr.Fr. (þ.e. Halldór Kr. Friðriksson). Á öðrum stað er lesið út úr sendibréfi skipsnafnið Camoeus, sem ég held að hljóti að eiga að vera Camoëns, allþekkt hrossa- og fjárflutningaskip, sem sigldi frá Bretlandi hingað til lands fram til ársins 1888. Alvarlegasti mislesturinn held ég að hljóti þó að vera á bls. 221, þar sem Guðrún skrifar frá Íslandi til Finns í Kaupmannahöfn í ágústmánuði 1884: „... ljótt er að heira með Gísla, en það uppátæki að fara að drífa sig, svona ungur, og eiga unnustu, nl. Sigríði hjá rektor, hún er komin í allt svart ..." Hér held ég að drífa sig hljóti að vera mislestur fyrir að drepa sig; hér ræðir nefnilega um Gísla frá Bollastöðum, sem svipti sig lífi um þessar mundir, en um hann hefur Þorsteinn Antonsson tekið saman mikið ágæta Örlagasögu. Þá þótti mér heldur skorta á viðbótarupplýsingar í formi neðanmálsskýringa eða súbnótna, því að oft er óljóst út frá efni bréfanna einna hvað bréfritari er að fara, nema menn þekki sögu tímabilsins þeim mun betur. Loks má nefna að nafnaskrá skorti aftast í bókina; þótt hún hefði aldrei getað orðið fullkomin (þar sem við sögu koma allmargar tilfallandi persónur, sem erfitt er að gera grein fyrir), þá gæti hún létt verkið þeim, sem vinna vill með bókina.

 

Þrátt fyrir þessa annmarka er Elskulega móðir ... fágætur fjársjóður fyrir hvern þann, sem vill kynnast hugsunarhætti alþýðufjölskyldu á uppleið í Reykjavík á síðustu áratugum 19. aldar, daglegu lífi þessa fólks, bæjarslúðrinu og þjóðmálunum, ástum og sorgum (á umræddum tíma deyja jú fjölskyldumeðlimir, hús brenna, ástarsorgir og harmur ganga yfir, sem og vonir og vonbrigði). Ég stóð upp frá lestri töluvert ríkari en áður, þökk sé þeim sem stóðu að því ágæta framtaki að gefa út þessi sendibréf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Leitt er að byrja athugasemdir á að leiðrétta sjálfan sig. En rangt er það sem segir hér að ofan um að dagbækur Jóns Borgfirðings séu geymdar á Þjóðskjalasafni. Þær eru vitaskuld til varðveislu á handritadeild Þjóðarbókhlöðu. Er beðist velvirðingar á þessari fljótfærni.

Helgi Ingólfsson, 19.7.2012 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband