Minn maður, Mensalder

Ég les hraðar en ég skrifa. Sem endranær er ég skrilljón bókum á eftir í bókabloggi og næ sennilega aldrei að fjalla um allar skruddurnar, sem ég hef plægt mig í gegnum að undanförnu. Eina skáldsögu hef ég þó nýlokið við og finnst full ástæða að hrósa í hástert. Umrædd bók er Mensalder eftir Bjarna Harðarson.

Mensalder segir sögu fjarskylds ættfólks Bjarna og þá sérstaklega Mensalders Rabens Mensalderssonar (já, ég hváði líka, þegar ég heyrði þetta nafn fyrst - er þetta virkilega íslenskt? spurði ég). Sagan hefst rétt fyrir 1890 og spannar nákvæmlega einn mannsaldur, sem er skemmtileg tilviljun með hliðsjón af nafni titilpersónunnar. Sögusviðið er að langmestu leyti heimasveitir fólks í vestanverðu Rangárþingi, en teygir sig einnig til uppsýslunnar, vestur yfir sýslumörkin og jafnvel til Reykjavíkur. Helstu karlhetjurnar eru þeir feðgar, Mensalder eldri, sem er fyrirferðarmeiri fyrstu 100 blaðsíðurnar, uns hann drepst úr skitusting, garnaflækju eða öðru óútskýrðu innanmeini, og Mensalder yngri sem á sviðið eftir það. Lykilpersóna sögunnar er þó máske Manga gamla, „tveggja álna uppkreistingur", sem teygir litríka ævina yfir 80% sögunnar, framan af sem matselja og lagskona Mensalders eldri, þá sem fóstra Mensalders yngri. Gunna frá Húsum, „þessi með brjóstin", langtímaunnusta og síðan kona Mensa yngri, er líka fyrirferðarmikil, einkum þegar líður á söguna. Í bakgrunni er síðan sægur misskýrra persóna, margra eftirminnilegra og sumra svo áhugaverðra að maður óskaði þess helst að þær væru ekki dregnar alveg svo snöggum dráttum - þær eru máske efni sem Bjarni treinir sér í aðra bók?

Stíllinn er knappur og glæsilegur, myndirnar jafnan sem gripnar á lofti og settar fram sem leiftur, oft með dýrðlegri blöndu hlutlægra lýsinga og huglægra hugleiðinga persóna. Umhverfið kviknar til lífsins - baðstofan, torfkofarnir, fénaður, náttúran öll, leiti, hvörf og engjar. Áberandi er orðfæri sem vísar til gamla bændasamfélagsins - það kann að fæla frá einhvern, sem ekki þekkir vel til eða nennir ekki að fletta upp í orðabók, en höfundur er viðfangsefni sínu trúr og býður engar málamiðlanir - lesandinn verður að teygja sig inn í hans uppdigtaða heim, ekki öfugt. Sérlega er aðdáunarvert hvernig Bjarni nær alþýðlegu málfari sveitafólks gengins tíma, hvort heldur í samtölum eða hugsunum. Mensalder sýnir að ekki þarf yfirdrifna dramatík eða morð á hverri síðu til að skrifa fantagóða bók; þvert á móti er það hið lágstemmda og hversdagslega, sem ræður ríkjum, dregið fram í gegnum skondin eða sorgleg atvik úr lífi alþýðufólks. Fólk fæðist, elst upp, verður kynþroska, giftist, vinnur, sefur, borðar, prjónar, les (eða fær lesið fyrir sig), veikist og deyr. Jú, ein nauðgun er í bókinni - og harðræði við þurfalinga og niðursetninga kemur fyrir, en grimmdin er aðeins einn flötur mannlífsins og ekki það mikilsverðasta. Á endanum skín í gegnum söguna mannúðin, mildin og lífshamingjan. Samlífi bændafólks, samskipti kynja, umgengni manns við náttúru. Ég á erfitt með að finna sambærilega bók við Mensalder í íslenskri bókmenntaflóru, en helst álít ég hana líkjast að efni og gæðum Hraunfólki Björns Th. Björnssonar, annarri feiknasterkri skáldsögu um gamla samfélagið, skrifaðri af svipaðri næmni, þekkingu og innsæi.

Bókin Mensalder er lágstemmdur og launfyndinn orðagaldur. Og ekki bara launfyndinn, vegna þess að á hverri blaðsíðu brosti ég út í annað, en á þriðju hverri síðu skellti ég upp úr. Oft fer saman í bókinni djúp speki krydduð kímni. Má sem dæmi nefna að þótt kotbóndinn Mensalder sé svo fátækur að hann eigi ekki nokkurn skapaðan hlut, þá er hann samt ríkastur manna í sinni sveit vegna þess að hinir bændurnir, líka þeir „betri", eru skuldum vafnir upp fyrir haus eftir vélakaup. Hvað þá með þessa lýsingu: „Í hrossum eru ár talin á tönnum þeirra en í kerlingum sem engar hafa slíkar í munni eru árin óteljandi líkt og keldurnar í Holtunum." (187). Þá þótti mér stórkostlega orðað: „Baðstofan var svo lítil að hún rúmaði fráleitt meira en eina sögu í senn." Tildragelsi Mensalders og Gunnu er lýst á kostulegan hátt; hún er nokkrum árum eldri og sækir í hann í vegavinnunni: „Sjálfur hafði hann bara einu sinni verið skotinn og það bara mjög lítið. Hún hét Ólöf og gekk með honum til spurninga. Þegar fermt var vantaði hana og seinna frétti hann að daginn fyrr hefði hún drukknað í Rangá. Gunna var ekki eins og falleg og hún, en um það þýddi ekki að fást fyrst Ólöf var dauð." Og stuttu síðar hugsar Mensalder um Gunnu: „Kannski var hún ekki andlitsfríð en hún var falleg þegar hún hljóp og falleg þegar brjóstin gengu upp og niður og sá ofan í hálsmálið. Þá var hún falleg." (126).

Manga gamla er, sem fyrr segir, ein höfuðpersóna bókarinnar, brennimerkt grimmilegri fátækt úr æsku og stundum hörð af sér og fruntaleg, en stór í anda, „tuldrandi gamlar vísudruslur" og sannfærð um að góðtemplarastúkur séu upprunnar í helvíti. Hún er fóstra Mensa yngri og þegar þau tvö, eftir greftrun Mensa eldra, bægslast heim að vetrarlagi í svartamyrkri og slagviðri, þá álpast hún ofan í poll og skrækir: „Fóturinn, það er einhver andskotans útburðurinn sem bítur hér í fótinn á mér, losaðu helvítið af mér. Stúkudjöfull." Í ljós kemur að hún hefur flækt fótinn í gaddavír, hruflað sig illa og snúið fótinn, svo að Mensalder skellir fóstru sinni á bakið og slammar í hálkunni heim í Ranakot, meðan hún heldur sér með annarri hendi, en: „Hún bandaði lausu hendinni út í buskann og tuðaði um að gaddavír væri fundinn upp af andskotanum í útlandinu til þess að ræna íslenska sauðamenn vinnunni, holrífa hrekklausar kerlingar til dauðs og gera landið allt að einu helvíti." (124). Enda fer stúkan að lokum „til helvítis, þar sem hún á heima" (195). Og þegar Manga gamla prjónar heima í Ranakoti, glymur svo í sprotunum að þeir segja sögu hennar úr fyrnsku og er sú eftirminnilegasta af seytján daga sandstorminum.

Þótt ég finni varla missmíð á Mensalder sem skáldsögu, vil ég nefna að stundum fannst sögunördinum mér gæta dálítillar sagnfræðilegrar ónákvæmni. Í Mensalder er ekki alltaf fylgt ýtrustu krónólógíu, en oft gefnar vísbendingar um sögulega þekkt fyrirbæri sem má tímasetja. Til dæmis er brúin, sem vígð er um það leyti þegar Litli-Mensi er sjö ára, nokkuð augljóslega Þjórsárbrúin, sem kæmi vel heim og saman við rétt ártal, 1895. Nema hvað á þeim tíma hefði ekki verið viðstaddur „ráðherra sem orti um brúarvígsluna", heldur Mangi landshöfðingi. Þá er á því skeiði í sögunni, sem gerist um 1905 (út frá skírskotunum), talað um íslenskan mann sem á að hafa farist með togara - og á þeim tíma er fyrsti togarinn rétt að koma til landsins. Í kringum 1909 (og jafnvel fyrr) er talað í sögunni eins og skollið sé á áfengisbann, en svo varð ekki í reynd fyrr en 1915. Þá er Mensalder yngri í kringum 1910 (af samhengi að ráða) að leggja vegi og lendir í stórhættu, þegar bíll kemur brunandi að þeim vegalagningarmönnum, einn á dag. En á þeim tíma var eingöngu einn bíll á öllu landinu, og sá var norður í Eyjafirði, þekktur sem Grundarbíllinn, enda búið að senda Thomsens-drusluna úr landi og þriðji bíllinn kom ekki fyrr en 1913. Og jafnvel þótt nær sé farið okkur í tíma, allt til um 1930, þá var bílaeign nær eingöngu bundin við þéttbýli við sjávarsíðuna.

En allt er nöldur sagnfræðingsins léttvægt fis og Bjarni Harðarson hefur fullt skáldaleyfi til að hliðra efni svo að þjóni sögu hans betur. Jafnvel svo það geri góða sögu frábæra. Enda er Mensalder bók sem ég ætla að byrja að lesa að nýju á komandi jólanótt og njóta til fullnustu, eins og konfektmola sem bráðnar í munni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Afskaplega forvitnileg umsögn um bók  svo ekki sé nú meira sagt...

P.Valdimar Guðjónsson, 1.11.2012 kl. 22:38

2 identicon

Mér fannst stór kostur við bókina að höfundur heldur sig við gamalt orðalag. (Var að klára Skáld eftir Einar Kárason og er ekkert voðalega sátt við málfar og stíl sem truflaði mig miklu meira en í fyrri tveimur bókunum Einars - í þessari tríólógíu.)

Og mér fannst Manga langeftirminnilegasta persónan! Bókin er allt eins um hana eins og um Mensa.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 2.11.2012 kl. 17:08

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Harpa (aths. 2):

Ég vil nú ekki gera lítið úr ljúfmenninu Mensa, en sú lágvaxna Manga er allt eins eftirminnileg, það er rétt. Hún er stórbrotin þrátt fyrir smæðina.

-----

Skáld Einars Kárasonar er í sigtinu hjá mér, næst á eftir Málara Ólafs Gunnarssonar. Finnst þér ekki annars merkilegt að í 750 ár hafði enginn hugmynd um höfunda Njálu og Eglu - og núna eiga þeir báðir að vera fundnir!

Helgi Ingólfsson, 3.11.2012 kl. 11:20

4 identicon

Kannski rétt að vara þig við að í Skáldi finnast höfundar fleiri verka en þessara tveggja ;)

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2012 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband