Með vantrú á Vantrú

Ég er einn af þeim sem beið spenntur eftir viðbrögðum félagsins Vantrúar við býsna mergjaðri grein Barkar Gunnarssonar úr Lesbók Morgunblaðsins síðasta laugardag, sem vakið hefur ýmsar spurningar og umræður.

-----

Skemmst frá að segja varð ég fyrir vonbrigðum með viðbrögð Vantrúar.

-----

Fyrst af öllu vil ég taka fram að ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum Vantrúarmanna og hef ekkert við þær að athuga, þótt ég sé ekki alltaf sáttur við framsetningu þeirra skoðana. Hins vegar hef ég mikinn áhuga á starfsaðferðum þeirra og þeirri hugmyndafræði sem virðist liggja þar til grundvallar.

-----

Einnig, áður en lengra skal haldið, vil ég greina frá því hvað mér finnst mikilvægast í þessu máli öllu. Það er spurningin um hvort hugmyndafræðilegir þrýstihópar eigi að geta haft áhrif á eða stjórnað hvernig kennslu er háttað við Háskóla Íslands, hvað megi segja þar og hvað ekki. Það mál er þó ekki einhlítt og er annar flötur á málinu, þess eðlis að ekki sé kennara heimilt að setja fram hvað sem honum sýnist, á hvaða sem er. Það er af þessari síðari ástæðu sem ég held að kærur Vantrúar (þrjár að tölu upphaflega, til þriggja ólíkra aðila, en oft talað um þær sem eina) eru sprottnar. Eðlilegt getur verið að koma með aðfinnslur, athugasemdir, umkvartanir eða - ef menn telja kennslu eða framsetningu námsefnis stórlega ábótavant - kærur. Félagið Vantrú kaus síðasta kostinn og þar með, getum við sagt, hörkustig málsins. Í samhengi við málið í heild má velta fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt fyrir háskólastofnanir að haga siðareglum sínum með þeim hætti að ekki sé líklegt að látið verði undan kröfum þrýstihópa, sem sagt að ekki dugi til siðanefnd ein í grafalvarlegum málum, og að nærtækara sé að háskólasamfélagið allt geti átt aðkomu að þeim. Þetta gerðist einmitt í kærumálum Vantrúar á hendur Bjarna, að fram komu stuðningsmenn við akademískt sjálfstæði á mikilvægum tímapunkti, og kann það að hafa bjargað sjálfstæði Háskólans undan fljótfærnislegri ákvörðun. Reyndar sýnist mér þrennt hafa snúið þessu máli frá þeirri upphaflegu framvindu sem það virtist að stefna í: Stuðningur kennara Hugvísindadeildar við Bjarna á krítísku augnabliki, síðan aðkoma lögfræðings hans að málinu og loks gögn sem hann fékk í hendur úr herbúðum Vantrúar.

----

Þá aftur að viðbrögðum Vantrúar, eins og þau birtust á vef félagsins í gær. Þar ber fyrst að nefna grein í nafni ritstjórnar, sem hét "Hvað gekk á í Guðfræðideild?" Þessi grein er allrar athygli verð. Þarna er hlutur Vantrúar í málinu öllu gerður sem minnstur, en málið blásið töluvert upp sem innanhúsmál innan HÍ. Orðalag allt hefur breyst; þar sem áður voru "kærur" er nú alltaf talað um "erindi" Vantrúar til HÍ og þannig reynt að milda þátt félagsins og fjarlægja það málinu. Virðist reynt að gera Pétur Pétursson, þáverandi deildarforseta að "vonda kallinum" í málinu (með myndbirtingu af Pétri samlagaðri undirskrift hans) gagnvart (hinni upphaflegu) siðanefnd Háskólans, sem verður þá "góði gæinn"(án myndbirtingar), en félagið Vantrú virðist ótrúlega "stikkfrí". Öll þessi umfjöllun er athyglisverð í ljósi þess sem Börkur Gunnarsson segir um Overton-gluggann og tilfærslu á málflutningi. Hjá því verður ekki horft að félagið Vantrú var málshefjandi í þessum málabúnaði öllum og ákvað hörkustigið sem fyrr sagði. Málið allt hefur valdið ýmsum aðilum skaða, jafnvel óbætanlegan, og því verður vart hjá því komist að spyrja: Hver er ábyrgð Vantrúar á því tjóni - siðferðilega, lagalega og jafnvel fjárhagslega? Spyr sá sem ekki veit; ég er þess ekki umkominn að setjast í dómarasæti.

 

Í annarri grein gærdagsins á vef Vantrúar, "Hvaða einelti?" eftir Egil Óskarsson (sú grein er væntanlega samþykkt af ritstjórn Vantrúar því að öðruvísi komast greinar ekki þangað inn, skilst mér) er í lokin lagt töluvert upp úr sáttfýsi Vantrúar, en ekki gagnaðila. Þar segir orðrétt: "Sættir sem Vantrú var alltaf tilbúin til að fallast á en ekki kennarinn og hans fólk." Hér er vert að staldra við. Fyrst af öllu spyr maður sig að því: Til hvers að kæra kennarann (mesta hörkustig) og vera svo fljótt reiðubúinn til að fallast á sættir? Í skýrslu rannsóknarnefndar HÍ um störf siðanefndar HÍ í þessu máli (sem ég lagði á mig að lesa alla í gær) kemur skýringin. Þarna er að finna einu útlistunina á svonefndum "sáttum" í málinu, sem ég hef fundið. Þar (bls. 37) kemur fram að fyrsta svonefnd "sátt" fyrir tilstilli siðanefndar fólst í raun og veru í því að guðfræðideildin ætti að samþykkja kæruatriði Vantrúar, þ.e. viðurkenndi að kennsluefnið fæli ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið - og það án þess að Bjarni kæmi að málinu. Þessi svonefnda "sátt" hefði því þýtt í reynd fullnaðarsigur Vantrúar í málinu og verið áfellisdómur yfir kennslu Bjarna. Í kjölfarið virðist koma fram gagnsáttatilboð frá guðfræðideild, þar sem Bjarni m.a. biðjist afsökunar á einni glæru. Ekki kemur fram í skýrslunni hvernig því tilboði lyktaði, en stuttu síðar er haldinn fundur 23 kennara og doktorsnema við HÍ, sem hafnar ákvörðun Siðanefndar að birta áfellisdóm í formi "sáttatillögu". Í skýrslunni kemur síðar fram að þann 21. janúar 2011 hafi komið fram sáttatillögur á grundvelli hugmynda Bjarna, en ekki borið árangur.

Þá kemur að einum sérkennilegasta anga þessa máls: Einhvers konar sáttatillögu vegna vanhæfi Siðanefndar HÍ um að Háskólinn taki þátt í útgáfukostnaði ritverks á vegum Vantrúar. Ekki sá ég upphæð nefnda í skýrslu rannsóknarnefndar HÍ, en samkvæmt grein Barkar var um að ræða 750 þúsund krónur. Í þetta er vel tekið af hálfu Vantrúar og Reynir Harðarson talar um þetta sem "spennandi verk" sem Hugvísindadeild sé að koma þarna að.

Hvergi kemur fram hvað kom út úr þessu undarlega boði, hvort það sé enn í gangi eða annað, en maður hlýtur að spyrja sig hvort eðlilegt sé að kærumál til Háskóla Íslands vegna kennslu og framsetningu námsefnis geti haft fólginn í sér eða leitt af sér beinan fjárhagslegan ávinning kæranda.

-----

Athyglisvert er orðfæri í grein Egils (og víðar á vef Vantrúar) varðandi gögn sem farið hafa í heimildarleysi á milli herbúða. Upphaf málsins má rekja til þess að félagið Vantrú "áskotnaðist með ansi sérstökum hætti" (eins og Egill orðar það) glærurnar úr námskeiði Bjarna, sem eru rót kærurnar og félagið Vantrú birti síðar heimildarlaust á vef sínum, í trássi m.a. við höfundarréttarlög. Rúmu hálfu ári síðar (sýnist mér) kemst Bjarni yfir eða fær í hendur gögn, sem eru útprentun af innri spjallvef Vantrúar um málið, þar sem kemur fram að ýmsir hafa lagt orð í belg um mál hans, jafnvel svo að sumir vilja túlka sem samblástur (og þaðan er "eineltisumræðuhlið" málsins komin). Eftirtektarvert er að Egill talar fullum fetum um þau gögn sem "þjófstolin", en ekki á sama hátt um þau gögn sem Vantrú varð sér úti um áður í heimildarleysi, þótt sumpart sýnist mega leggja málin að jöfnu.

-----

Einn angi málsins er fyrrgreind umræða um mögulegt einelti. Aldrei mundi ég vilja ganga svo langt að vilja tala um "einelti" í þessu máli, þótt ekki væri nema fyrir þá ástæðu eina að varast ber að nota hugtakið yfir hvers konar deiluefni sem upp koma, og útvatna þannig þetta alvarlega hugtak. Hvort kalla megi kærur Vantrúar á hendur Bjarna "aðför" er annar handleggur. Vantrú talar um í fyrirsögn í einni ritstjórnargrein sinni á netinu um "Aðför Guðna Elíssonar að Siðanefnd HÍ og Vantrú" (Guðni fór fyrir háskólakennurum sem studdu Bjarna í málinu). Ef tiltölulega lítill þáttur Guðna í heildarmyndinni allri getur kallast "aðför", hvað má þá kalla framkomu Vantrúar á hendur Bjarna?

-----

Eitt er mér með öllu óskiljanlegt: Hvers vegna dró Vantrú kæru sína til baka? Hví ekki að fylgja málinu eftir til enda? Af rannsóknarskýrslu HÍ um siðanefnd HÍ má ætla að Vantrú hafi framan af í málinu talið sig hafa siðanefnd HÍ hliðholla sér. Forsendur virðast síðan breytast þegar formaður siðanefndar segir af sér, m.a. vegna aðkomu háskólakennaranna. En þrátt fyrir allan darraðardansinn innan HÍ, þá skil ég ekki hvers vegna félagið Vantrú beið ekki bara þar til komin væri starfhæf siðanefnd eða hliðstæður aðili til að taka á málinu. Ég fæ ekki betur séð en að Vantrú hefði á öllum stigum málsins getað sagt: „Ja, við bíðum bara af okkur innbyrðis deilur Háskóla Íslands þar til komin er starfhæf siðanefnd og fáum þá úrskurð í málinu." Um leið og farið var af stað með kærurnar var þetta orðið grafalvarlegt mál. Ég sé ekki að sá alvarleiki hverfi þótt kærurnar hverfi, einkum í ljósi þess tjóns sem þær hafa valdið. Hvers vegna voru þá kærurnar dregnar til baka? Vænt þætti mér að heyra svar Vantrúarmanna við þeirri spurningu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Óskarsson

Sæll Helgi.

Það er margt við þessa grein þína að athuga en ég ætla fyrst að nefna tvennt.

Það eru ekki til nein stigvaxandi hörkustig í erindum/kærum til Vantrúar. Í siðareglum HÍ er talað um erindi og félagið notaði það orðalag frá upphafi en það að tala um kærur sáum við fyrst þegar við fengum viðbrögð frá HÍ. Það var því ekki Vantrú sem valdi að fara í eitthvert 'efsta' hörkustig.

Þú segir þetta: „Upphaf málsins má rekja til þess að félagið Vantrú "áskotnaðist með ansi sérstökum hætti" (eins og Egill orðar það) glærurnar úr námskeiði Bjarna“

Þarna hefur þú misskilið illa. Ég mæli með því að þú lesir greinina betur.

Ég svara þér mögulega betur á eftir en mér finnst þú ansi litaður í þessari grein.

Egill Óskarsson, 7.12.2011 kl. 15:40

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll Egill.

Ertu að segja mér að Vantrú hefði ekki getað komið með athugasemd, aðfinnslu eða kvörtun til einhvers tiltekins aðila innan HÍ án þess að það væri strax orðið að kæru (skýrsla rannsóknarnefndar HÍ notar t.d. jöfnum höndum orðið "kærur" og "erindi")? Þið senduð jú erindi inn til þriggja aðila, ekki satt? Bendir það ekki til tiltekinnar hörku? Hefði aðfinnsla til guðfræðideildar ekki nægt?

Viðvíkjandi seinna atriðið, þá biðst ég velvirðingar á orðalaginu "Upphaf málsins má rekja til..." - það kann að vera ónákvæmt, því að þannig séð má líklega rekja þetta mál aftur til stofnunar Vantrúar. Eða stofnunar þjóðkirkju. Eða tilkomu kristni. Ég átti vitaskuld við "Upphaf kærumálsins..." Eða "Upphaf erindisins", ef þú vilt það heldur. Hitt er svo bein tilvitnun í þig - ég vildi benda á mismunandi orðfæri þitt í greininni varðandi það að ykkur "áskotnaðist", en gagnaðilinn er með "þjófstolin" gögn.

Endilega fræddu mig meira, ég er opinn fyrir hvers konar réttri og sannri upplýsingargjöf. Ég lagði jú á mig að lesa alla skýrslu rannsóknarnefndarinnar í gærkvöldi. Geturðu t.d. sagt mér hvers eðlis 750 þús. króna útgáfu - málið er, hvort það hafi verið tilboð til Vantrúar eða bara tilbúningur, hvort því hafi verið tekið eða sópað af borðinu? Upplýstu mig líka um hverja þú telur ábyrgð Vantrúar vera á þeim skaða sem málið hefur valdið - siðferðilega, lagalega, fjárhagslega etc? Er hún engin?

Helgi Ingólfsson, 7.12.2011 kl. 16:25

3 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Athyglisverð og góð samantekt Helgi.

Guðmundur St Ragnarsson, 7.12.2011 kl. 16:53

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mjög góð grein, Helgi. Ég sé að Egill bregst við henni með orðhengilshætti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.12.2011 kl. 17:04

5 Smámynd: Egill Óskarsson

Okkur þótti bara tilefni til þess að láta á það reyna hvort að þetta stæðist siðalög HÍ.

Þú ert enn ekki að ná að lesa rétt. Ég segi hvergi í greininni að félaginu hafi áskotnast glærurnar með ansi sérstökum þætti. Það sem ég segi er eftirfarandi: „Eftir að hafa fengið upplýsingar um að í námskeiði við Háskóla Íslands væri fjallað um Vantrú með ansi sérstökum hætti áskotnuðust félaginu glærurnar sem BRS notaðist við þegar hann fjallaði um félagið og trúleysi.“

Það er umfjöllunin um Vantrú sem var með ansi sérstökum hætti og ég skil nú ekki hvernig er hægt að rugla þessu saman.

„Hver er ábyrgð Vantrúar á því tjóni - siðferðilega, lagalega og jafnvel fjárhagslega?“

Lagalega og fjárhagslega engin. Lestu siðareglur HÍ. Vantrú var tilbúin til að ljúka málinu með sátt allt frá upphafi eða að leyfa siðanefnd að klára málið. Ég veit ekki hvaða siðferðilegu ábyrgð þú vilt leggja á félagið umfram það.

„Fyrst af öllu spyr maður sig að því: Til hvers að kæra kennarann (mesta hörkustig) og vera svo fljótt reiðubúinn til að fallast á sættir?“

Nú það er einmitt af því að Vantrú var ekki að velja sér neitt 'mesta hörkustig' með kærunni.

„Virðist reynt að gera Pétur Pétursson, þáverandi deildarforseta að "vonda kallinum" í málinu (með myndbirtingu af Pétri samlagaðri undirskrift hans) gagnvart (hinni upphaflegu) siðanefnd Háskólans, sem verður þá "góði gæinn"(án myndbirtingar), en félagið Vantrú virðist ótrúlega "stikkfrí".“

Vantrú er alls ekki að reyna að gera Pétur að einhverjum vondum kalli. Vantrú er einfaldlega að benda á staðreyndir í málinu. Pétur sendi þetta bréf til siðanefndar, það liggur fyrir. Þar segir hann að hann og aðrir leiðtogar deildarinnar hafi sammælst um það með Bjarna að það heyri upp á hann að ræða við siðanefnd. Nefndin fer svo eftir þessu, sem eftirá að hyggja var líklega stjórnsýslulega rangt hjá henni.

„Einhvers konar sáttatillögu vegna vanhæfi Siðanefndar HÍ um að Háskólinn taki þátt í útgáfukostnaði ritverks á vegum Vantrúar.“

Ritið átti ekki að vera á vegum Vantrúar og félagið hefði ekki fengið krónu af þeim peningum sem voru ætlaðir í kostnað þess. Ritið hefði verið gefið út af HÍ og undir stjórn manna þaðan.

„Hvergi kemur fram hvað kom út úr þessu undarlega boði, hvort það sé enn í gangi eða annað, en maður hlýtur að spyrja sig hvort eðlilegt sé að kærumál til Háskóla Íslands vegna kennslu og framsetningu námsefnis geti haft fólginn í sér eða leitt af sér beinan fjárhagslegan ávinning kæranda.“

Það segir sig sjálft að fyrst að sáttatillagan var ekki samþykkt þá féllu þessar hugmyndir um sjálfa sig. Og félagið Vantrú hefði ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af þessu verkefni eins og áður sagði. Þetta átti að vera fræðirit um trúleysi og trúlausar lífsskoðanir, unnið af fræðimönnum.

„Eftirtektarvert er að Egill talar fullum fetum um þau gögn sem "þjófstolin", en ekki á sama hátt um þau gögn sem Vantrú varð sér úti um áður í heimildarleysi, þótt sumpart sýnist mega leggja málin að jöfnu.“

Gögnum af lokuðu innra spjalli Vantrúar var komið með ólöglegum hætti til BRS. Það er engan vegin hægt að leggja það að jöfnu við að nemandi í námskeiði dreifi glærum. Glærur í kennslu við HÍ, þar sem tímar eru opnir öllum innan skólans sem vilja sækja þá, eru ekki trúnaðargögn á borð við þau sem þarna fóru í umferð.

„...hvað má þá kalla framkomu Vantrúar á hendur Bjarna?“

Hvaða framkomu? Það eina sem Vantrú gerði á hendur Bjarna í þessu máli var að leggja fram erindi/kæru til siðanefndar HÍ eins og siðareglur skólans gefa félaginu rétt til. Svo var jú fjallað um þessar glærur á vefriti félagsins. Ef þú ert að vísa til þess sem Bjarni hefur verið að dreifa af innra spjallinu þá vil ég vekja athygli á tvennu: a) þar er ekki um opinberar umræður að ræða heldur voru félagsmenn að ráðfæra sig, í trúnaði, um þetta mál. b) orð eins og 'heilagt stríð' og 'einelti' voru ekki meint bókstaflega. Það er augljóst af samhenginu (og meðfylgjandi brosköllum) að svo var ekki.

Varðandi það af hverju Vantrú dró kæruna til baka þá var það einfaldlega af því að HÍ bauð upp á þessi málalok. Tveir formenn siðanefnda höfðu hætt störfum, kallaðir höfðu verið aukamenn inn í nefndina og málið var komið á hreint ótrúlegt flækjustig. Í raun voru engar forsendur til þess að halda að hægt væri að ljúka málinu í siðanefnd eins og staðan var. Þess vegna sættist Vantrú á þessi málalok.

En annað atriði varðandi þetta, mjög augljós skýring sem þú virðist algjörlega hundsa, er að við í Vantrú séum bara ekki þetta vonda fólk sem þú virðist vilja trúa og að við höfum bara hreinlega ekki verið svona einbeitt í því að klekkja á Bjarna Randveri. Að heiftin sem fólk, þmt talin þú, virðist halda að hafi rekið félagið af stað í þessu máli sé bara ekki til staðar.

Heldur þú að það geti verið möguleiki Helgi?

Egill Óskarsson, 7.12.2011 kl. 17:30

6 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Þakka þér fyrir athugasemdirnar, leiðréttingarnar og upplýsingarnar, Egill.

Ég viðurkenni mislesturinn í upphafi, en eftir stendur samt þessi gríðarlegi greinarmunur á "að áskotnast" og vera "þjófstolið", sem þið Vantrúarmenn virðist gera, en fáir aðrir. Telur þú ykkur í Vantrú t.d. hafa brotið höfundarrétt með því að birta glærur Bjarna opinberlega? (Leiðréttu mig, ef ég fer rangt með, en þið birtuð þær á vef ykkar fáum dögum eftir að þið senduð inn kæru ykkar/ erindi, er það ekki, þrátt fyrir að sú myndbirting væri með öllu óviðkomandi erindinu?) 

Þú heldur áfram að tala um "sáttatillögur"; rannsóknarskýrsla HÍ virðist taka af öll tvímæli um að a.m.k. sumar svonefndar "sáttatillögur" hafi  í reynd verið sá "áfellisdómur" yfir Bjarna sem þið leituðust við að ná fram af HÍ.

Hvað finnst þér um orðalag ykkar um "aðför" Guðna Elíssonar að Vantrú og siðanefnd HÍ? Er í lagi að Vantrú noti það orðalag þar, en ekki um klöguefni ykkar á hendur Bjarna?

Það sem ég er að reyna að vekja athygli á með færslu minni er sú aðferðafræði ykkar að vilja ráða orðfærinu, stjórna umræðunnni, flytja hana yfir á ykkar svæði, nota hana þegar ykkur hentar en öðrum ekki o.s.frv.

Ég trúi almennt ekki að Vantrúarfólk sé vont fólk - þar ert þú að gera mér upp skoðanir. Ég er bara að reyna að komast að sannleikanum í þessu máli. Eða má ég ekki lýsa vonbrigðum með því hvernig þið hafið brugðist við staðhæfingum úr grein Barkar? Ég fæ ekki séð að þið hafið gert mikið til að hrekja þær, eins og ég hefði búist við.

Þar sem þú virðist vel inni í málunum, geturðu þá frætt mig um frá hverjum hugmyndin um bókaútgáfuna er komin? Ég verð að játa að mér finnst hún með því sérkennilegra í þessu máli öllu saman. Hvaða stórmerkilega verk átti að gefa út (sem Reynir Harðarson kallar "spennandi" skv. skýrslu rannsóknarnefndar HÍ)?

Og í fullri alvöru, Egill, finnst þér Vantrú getað fríað sig á siðferðilegri ábyrgð í þessu máli? Mér sýnist þorri landsmanna vera á annarri skoðun.

Að endingu vil ég þakka þér þær leiðréttingar sem þú hefur komið fram með. Ég vil bara að sannleikurinn komi fram í þessu máli, ekki annað. Þú líka, Egill?

Helgi Ingólfsson, 7.12.2011 kl. 18:18

7 identicon

Eins og svo oft í íslenskri umræðu, þá snýst þessi grein um það hvort einhver hafi verið nógu kurteis og svo sögulegar skýringar á því hver málsferð hafi eða hefði átt að vera.

Það eru ekki aðal atriði málsins.

Háskólakennarar njóta akademísks frelsis. Því fylgja skyldur og ábyrgð sem m.a. eru útlistaðar í siðareglum HÍ. Ef einhver telur að kennsla eða framganga kennara við skólann sé athugaverð, þá er fullkomlega eðlilegt að koma því á framfæri við siðanefnd skólans. Hún ákveður þá hvort ástæða sé til að fjalla efnislega um málið. Það er ekki síst mikilvægt fyrir skólann að hafa slíkt eftirlit með gæðum kennslu, miklu frekar en að vera farvegur til að sætta ólík viðhorf.

Að siðanefnd HÍ hafi ekki tekist að fjalla á eðlilegan hátt um þetta mál er ömurlegt og álitshnekkur fyrir skólann. Það munu alltaf koma upp deilur um störf háskólakennara og því mikilvægt að skólar hafi nægilega vandaða stjórnsýslu til að leiða slík ágreiningsmál til lykta. Að það hafi ekki tekist, hvort sem það var vegna ófaglegra vinnubragða nefndarinnar sjálfrar eða atgangs utanaðkomandi manna, er algjörlega óásættanlegt.

Menn geta svo lesið skýrslu óháðu rannsóknarnefndarinnar og séð hvers vegna siðnefnd tókst ekki að ljúka málinu.

Jóhann (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 18:27

8 Smámynd: Egill Óskarsson

"Telur þú ykkur í Vantrú t.d. hafa brotið höfundarrétt með því að birta glærur Bjarna opinberlega? "

Ef til vill. En Bjarni notaði höfundarréttarvarið efni frá meðlimum í Vantrú, t.d. ljósmyndir, án leyfis.

"Ég viðurkenni mislesturinn í upphafi, en eftir stendur samt þessi gríðarlegi greinarmunur á "að áskotnast" og vera "þjófstolið", sem þið Vantrúarmenn virðist gera, en fáir aðrir."

Munurinn er augljós og ég hef þegar bent á hann.

"Hvað finnst þér um orðalag ykkar um "aðför" Guðna Elíssonar að Vantrú og siðanefnd HÍ? Er í lagi að Vantrú noti það orðalag þar, en ekki um klöguefni ykkar á hendur Bjarna?"

Í kjölfarið á aðgerðum Guðna sagði þáverandi formaður siðanefndar af sér og brugðið var á það ráð að fá tvo aukameðlimi í nefndina vegna þess á hvað stig málið komst með afskiptum Guðna. Mér finnst stór munur á því sem Guðni gerði í þessu máli og svo því að leggja fram erindi/kæru til siðanefndar.

"Það sem ég er að reyna að vekja athygli á með færslu minni er sú aðferðafræði ykkar að vilja ráða orðfærinu, stjórna umræðunnni, flytja hana yfir á ykkar svæði, nota hana þegar ykkur hentar en öðrum ekki o.s.frv."

Og sýnist þér við vera einir um það í þessu máli?

"Ég trúi almennt ekki að Vantrúarfólk sé vont fólk - þar ert þú að gera mér upp skoðanir. Ég er bara að reyna að komast að sannleikanum í þessu máli. Eða má ég ekki lýsa vonbrigðum með því hvernig þið hafið brugðist við staðhæfingum úr grein Barkar? Ég fæ ekki séð að þið hafið gert mikið til að hrekja þær, eins og ég hefði búist við."

Ég biðst afsökunar á því að hafa gert þér upp skoðanir. Ég velti þessu upp af því að mér fannst þú loka augunum fyrir öðrum skýringum en heift illgirni Vantrúar. Það er augljóslega röng ályktun hjá mér en þú hefðir nú getað verið skýrari varðandi þetta finnst mér.

"Þar sem þú virðist vel inni í málunum, geturðu þá frætt mig um frá hverjum hugmyndin um bókaútgáfuna er komin?"

Ég hreinlega man það ekki en hún var allavega aldrei hluti af neinum kröfum sem Vantrú setti fram í málinu.

"Og í fullri alvöru, Egill, finnst þér Vantrú getað fríað sig á siðferðilegri ábyrgð í þessu máli? Mér sýnist þorri landsmanna vera á annarri skoðun."

Þorri landsmanna já. Ég efast um að þú hafir séð meira en 10% þjóðarinnar tjá sig um þetta og ekki hafa nú allir verið á þessari skoðun.

Ég verð eiginlega að spyrja, siðferðislegri ábyrgð á hverju? Á því að kæran og málsmeðferðin hafi valdið Bjarna erfiðleikum? Ég tel kæruna hafa verið eðlilegt útspil og sé ekki af hverju við ættum að biðjast afsökunar á henni. Akademísk störf, hvort sem það er kennsla eða fræðimennska, mega ekki vera hafin yfir gagnrýni. Siðanefnd er augljósasta leið þeirra sem hafa eitthvað við vinnubrögð fræðimanna við HÍ að athuga.

Málsmeðferðin, þær tafir sem þar urðu og þau vinnubrögð sem siðanefndin viðhafði, er ekki á ábyrgð Vantrúar. Félagið stjórnar ekki siðanefnd HÍ og því hvernig hún vinnur.

Jú, ég vil líka að sannleikurinn komi fram. Þess vegna fannst mér morgunblaðsgreinin svo slæm.

Egill Óskarsson, 7.12.2011 kl. 18:34

9 Smámynd: Egill Óskarsson

Eftir að hafa skoðað þetta nánar virðist sem svo að hugmyndin um ritið hafi komið frá fulltrúum guðfræðideildar.

Egill Óskarsson, 7.12.2011 kl. 18:54

10 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll Jóhann.

Þakka þér fyrir málefnalegt innlegg - þú kemst vel að kjarna efnisins, sérstaklega varðandi eftirlitshlutverk háskólans með kennslu innan sinna veggja. En eftirlitsaðilar skólans verða að gæta þess að verða ekki leiksoppar tiltekinna þrýstihópa, sérstaklega ekki þeirra sem byggja á "pólitískri rétthugsun", eins og mér sýnist ýmsir háskólakennarar og doktorsnemar Hugvísindadeildar hafa haft áhyggjur af, er það ekki?

Egill: "Málsmeðferðin, þær tafir sem þar urðu og þau vinnubrögð sem siðanefndin viðhafði, er ekki á ábyrgð Vantrúar," segir þú. Ég fæ ekki heldur séð að afskipti háskólakennara Hugvísindadeildar að málinu sé Vantrú viðkomandi eða geti skoðast sem "aðför" að þeim félagsskap. Ég hefði haldið að það væru "innri málefni háskólans" og Vantrú óviðkomandi.

Egill: Geturðu frætt mig meira um hugmyndafræði Vantrúar? Er það rétt að þið byggið á þeirri grundvallarreglu að "ekki þurfi að sýna skoðunum annarra virðingu"?

Helgi Ingólfsson, 7.12.2011 kl. 20:01

11 Smámynd: Egill Óskarsson

Aðförin gegn Vantrú og einstökum félögum í Vantrú fólst í ýmsu sem enn hefur ekki komið fram opinberlega Helgi. En ég tek fram í greininni á Vantrú að svo virðist sem að upplýsingum af lokaða spjallinu, þar sem félagar í Vantrú ræða saman í trúnaði, hafi verið dreift þannig að það kæmi ákveðnum félagsmönnum sem verst. Og oftar en ekki voru það hlutir sem voru teknir úr samhengi og mönnum jafnvel eignuð orð sem þeir sjálfir sögðu aldrei.

En ég hef í nógu öðru að snúast þessa dagana þannig að ég ætla bara að benda þér á vefritið sjálft ef þú vilt fræðast um Vantrú. Ég vona að þú virðir það við mig.

Um Vantrú: http://www.vantru.is/um-vantru/

Um vefritið: http://www.vantru.is/um-vefritid/

Spurt og svarað: http://www.vantru.is/sos_spurt_og_svarad/

Varðandi þetta með að bera virðingu fyrir skoðunum annara þá er það rétt að flestir félagar í Vantrú telja að skoðanir einar og sér kalli ekki sjálfkrafa á virðingu. Þetta er þó engin grundvallarregla félagsins sjálfs.

Til að taka dæmi þá tel ég sjálfur algjör óþarfi að sýna þeirri skoðun virðingu að allir bandarískir hermenn eigi skilið að deyja vegna þess að herinn í BNA banni ekki samkynhneigðun að innritast eins og lítill ofsatrúarsöfnuður í BNA heldur fram. Skoðanir Anders Breivik eru annað dæmi um skoðanir sem ég virði ekki.

Ég get hins vegar borið virðingu fyrir fólki þó að ég virði ekki allar skoðanir þess. En ég ber reyndar ekki virðingu fyrir þeim sem ég nefni í dæmunum, svo að það sé á hreinu.

Egill Óskarsson, 7.12.2011 kl. 20:17

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Þó svo að það sé auðvitað rétt að vera umhugað um að þrýstihópar hafi ekki óeðlileg áhrif á starfsemi HÍ, þá finnst mér það svolítið fyndið að vera hræddur um að Vantrú sé sá hópur sem þurfi að hafa áhyggjur af varðandi kennslu í guðfræðideildinni. Ég meina, það er kennari þar (eða var amk, held að það sé enn þannig) í deildinni sem er borgaður af Þjóðkirkjunni. Þjóðkirkjan gefur út ýmsar kennslubækur sem eru notaðar í deildinni. Guðfræðideildin hefur síðan líka fulltrúa á æðstu samkomum Þjóðkirkjunnar (prestastefnu, Kirkjuþing) og tekur þátt í að kjósa biskupinn.

Ætli það myndi ekki heyrast eitthað ef það sama ætti við um t.d. stjórmálfafræðina og Sjálfstæðisflokkinn. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 7.12.2011 kl. 20:25

13 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Hjalti Rúnar: Mér finnst líka svolítið fyndið að miðað við allan þennan málatilbúnað og hvernig hann hefur farið úr böndunum, þá kemur þetta allt saman einhvern veginn þannig út, að minnsta kosti í augum leikmanns, að Bjarni Randver virðist vera hættulegasti maður Háskólans í augum Vantrúar.

Egill: Ég skil vel tímafaktorinn - mál er að þessum orðaskylmingum linni að sinni. Við tökum ef til vill upp þráðinn síðar.

Helgi Ingólfsson, 7.12.2011 kl. 20:33

14 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Sæll, Helgi

Hafði ekki tekið eftir þessari nýjustu bloggfærslu hjá þér í dag, þegar ég svaraði þeirri fyrri. En þú fékkst alla vega langhund inn þar.

Með kærri kveðju,

Snæbjörn

Snæbjörn Guðmundsson, 7.12.2011 kl. 21:36

15 identicon

Sæll, Helgi og þakka þér fyrir að koma svona vel frá þér þinni sýn á þetta. Þú hefur greinilega kynnt þér málið vel, andstætt við suma sem hafa skrifað um það, hvort sem þeir hafa tekið afstöðu með eða á móti einhverju í málinu eða reynt að bera klæði á vopnin.

Sjálfur er ég mjög svo andstæður þeim aðferðum sem Vantrú og fylgisfólk þess félags hefur beitt á undanförnum árum til að koma boðskap sínum á framfæri. Þessi aðferð hefur falist í að taka fólk fyrir, koma höggi á það persónulega, skrumskæla skoðanir þess og lífssýn, níða það í vefskrifum og lítillækka það sem mest, oft með beinum lygum og lygaáburði.

Svo vælir Vantrúarfólkið ógurlega ef einhver stingur á þeim á móti, rétt eins og núna þegar þeir tala um "hatursáróður" gagnvart sér út af þessu máli þar sem allar staðreyndir blasa við eins og stafur í bók fyrir fólk sem kynnir sér málið.

En ... burtséð frá þessu ... það sem ég ætlaði að segja er að ég tel að það langbesta sem getur komið fyrir er að sem allra flestir fari inn á Vantrúarvefinn og lesi hann og umræðurnar sem þar hafa oft skapast. Lesi líka "spjallið" sem Vantrúarmenn nota óspart við að ráðast á þá sem eru andstæðir málatilbúnaði þeirra, svo ekki sé minnst á einkabloggin og athugasemdir Vantrúarmanna á bloggum annarra.

Ég held nefnilega að öllu heiðarlegu og heilbrigðu fólki verði ljóst með slíkum lestri hvers konar illkynja æxli er á ferðinni þarna. Og þá er ég ekki að meina tilgang Vantrúar heldur aðferðir þeirra sem þar ráða ríkjum og eru mest áberandi fyrir þeirra hönd.

Ég hef séð nokkra hafa ahyggjur af því að þessi öfgahópur sé að fá of mikla athygli út af þessu Bjarnamáli. Að mínu mati þá er það hið besta mál að sem allra flestir kynni sér Vantrúarvefinn til hlýtar því þar stendur það algjörlega svart á hvítu hvernig þetta fólk starfar og hver hugsanagangurinn í hópnum er.

Það vita allir sem rætt hafa við Vantrúarmenn að þeir biðja alla stöðugt um að "nefna dæmi". Svo þegar dæmið blasir við snúa þeir út úr því og reyna að breiða yfir það.

Ég hef nú um nokkurt skeið sagt að Vantrúarvefurinn í heild sé langbesta "dæmið" sem er til um ofstopann í þessu fólki og því vil ég hvetja alla til að lesa hann, ekki bara varðandi þetta mál sem um er rætt, heldur kynna sér málatilbúnað Vantrúarmanna í öðrum málum líka.

Þeir afhjúpa sig nefnilega best sjálfir og hafa margoft skotið sig í innra lærið áður en þetta glærumál kom upp. Það hefur bara ekki farið eins hátt.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 23:32

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Helgi hefur lagt hér á sig verulega vinnu og staðið sig afar vel í greiningu þessa máls alls. Honum sé þökk fyrir það. Ályktunum hans (og vinnutilgátum, ef ég má orða það svo) er ég flestum sammála.* Umræðan heldur þó vafalaust áfram.

Helgi, þú munt vera rithöfundurinn sem gert hefur fornrómverska sögu að skáldsöguefni. Þér er sómi að því, að þín klassíska gagnmenntun skín hér í gegn í skipulegri rökhugsun.

* Undantekning: að tala um "einelti" af hálfu Vantrúarmanna í málinu virðist mér–––andstætt Helga–––engan veginn of langt gengið, enda jafnvel expliciter til þess stofnað, virðist manni af orðum eins Vantrúar-foringjans.

Jón Valur Jensson, 8.12.2011 kl. 01:17

17 identicon

Kærar þakkir fyrir mjög greinargóða samantekt um þetta mál, Helgi. Ég las færsluna fyrr í dag og benti fésbókarvinum á hana en gleymdi að kvitta :) Ég er impóneruð yfir hvernig þér tekst að rekja þessa þvælu á merkilega skiljanlegan máta! Og svo er ég algerlega sammála þér.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 01:41

18 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

....enda jafnvel expliciter til þess stofnað, virðist manni af orðum eins Vantrúar-foringjans.

Þau ummæli voru tekin gróflega úr samhengi. Talið um einelti var grín (og ég get komið með dæmi á opnum vettvangi ef þú vilt sjá eins grín), þar sem að kirkjunnar menn virðast túlka svör við málflutningi sínum sem einelti. 

Ef maður las alla athugasemdina, þá gat hver einasti maður séð að "eineltið" sem formaðurinn (af hverju skrifarðu "foringi"?) var að samþykkja var að skrifa grein fyrir vefritið um ummæli sem viðkomandi aðili lét falla um Vantrú í útvarpsviðtali. 

Ef það er einelti, þá leggur þú evrópusinna í einelti. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.12.2011 kl. 01:42

19 identicon

Og mikið rosalega langar mig að vita hvers lags rit þetta átti að vera og hvaða innanbúðarmenn í HÍ áttu að standa að útgáfunni, sbr. það sem einhver Vantrúarmaður segir hér að ofan [tilvitnun í þig fyrst]:

"„Einhvers konar sáttatillögu vegna vanhæfi Siðanefndar HÍ um að Háskólinn taki þátt í útgáfukostnaði ritverks á vegum Vantrúar.“

Ritið átti ekki að vera á vegum Vantrúar og félagið hefði ekki fengið krónu af þeim peningum sem voru ætlaðir í kostnað þess. Ritið hefði verið gefið út af HÍ og undir stjórn manna þaðan. "

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 01:46

20 identicon

Mig langar til að bæta einu við ef ég má ... til að árétta að Vantrú er ekki, ég endurtek, EKKI málsvari trúleysingja á Íslandi þótt sumir reyni að mála þetta félag þannig. Enginn trúleysingi með snefil af sómatilfinningu vill láta kenna sig við þetta illviljaða batterí.

Þetta er fámenn klíka illgjarnra manna sem á nokkrum árum hefur safnað um sig ótrúlega leiðitömum ... ja ... sauðum, verð ég að segja ... sem flestir eru þarna vegna þess að þeim finnst einfaldlega gaman að gera öðrum illt og þykir einhvers konar vegsauki fylgja því að tilheyra "the bullies" í þjóðfélaginu.

Sumt fólk fær eitthvað út úr slíku og það fólk er velkomið í Vantrú.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 01:49

21 identicon

Helgi, varðandi orð þín:

"En eftirlitsaðilar skólans verða að gæta þess að verða ekki leiksoppar tiltekinna þrýstihópa, sérstaklega ekki þeirra sem byggja á "pólitískri rétthugsun", eins og mér sýnist ýmsir háskólakennarar og doktorsnemar Hugvísindadeildar hafa haft áhyggjur af, er það ekki?"

Ef stjórnsýslubatterí eins og siðanefnd HÍ á að geta gegnt sínu hlutverki, þá gengur ekki að utanaðkomandi geti takið það í sínar hendur að forða henni frá því að verða "loksopp[u]r tiltekinna þrýsihópa" eins og þú orðar það. Þá er hún bara orðinn leiksoppur annars þrýstihóps. Siðanefnd verður að geta starfað og afgreitt mál án þess að láta utanaðkomandi þrýsting hafa áhrif á störf sín. Annars er hún vita gagnslaus.

Jóhann (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 01:56

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta þurfti ekki til, Hjalti Rúnar, það sem þú nefnir, eitthvað sem hafi verið grín (og ég er ekki viss um að sé rétt hjá þér; eða hvernig tóku aðrir félagar þínir hvatningunni; gagnrýndu þeir Reyni eða létu þeir hann æsa sig upp til annars og meira?). Atsóknin að Bjarna og níðsk ummæli um hann (sjá vefsíðu Jóns Baldurs L'Orange) voru ekki eðlilegir hlutir og víðs fjarri akademískri krítík og þær aðferðir viðkomandi ábyrgðarmanna miklu fremur réttnefndar einelti að mínu mati. Jafnvel það eitt að hrekja Bjarna Randver svona út í horn í vörn gegn harðskeyttum langtíma-árásum, svo að leita varð hann sér dýrkeyptrar varnar, var einnig einelti í sjálfu sér að mínu mati.

Jón Valur Jensson, 8.12.2011 kl. 02:53

23 Smámynd: Skeggi Skaftason

ÞURFTI Bjarni Randver að ráða sér einn reyndasta og virtasta lögmann landsins?

Vegna aðgerða og athafna Vantrúar??

HVAÐ hefði gerst, ef Bjarni Randver hefði ekki ráðið sér lögmanninn?

Voru Vantrú með dýran lögmann á sínum snærum?

Skeggi Skaftason, 8.12.2011 kl. 09:34

24 identicon

Skeggi ... þar sem spurningum þínum er ekki beint neitt sérstakt skal ég svara þeim fyrir mitt leyti:

----------------

Þurfti Bjarni Randver að ráða sér einn reyndasta og virtasta lögmann landsins?

Mitt svar: Hann hefur greinlega metið það þannig.

----------------

Vegna aðgerða og athafna Vantrúar?

Ja, Vantrú kærði, er það ekki? Þannig að upphafið er hjá þeim hvað sem síðar gerðist sem fékk Bjarna til að ráða sér lögfræðing í málið.

----------------

HVAÐ hefði gerst, ef Bjarni Randver hefði ekki ráðið sér lögmanninn?

Mitt svar: Skeggi. Hvernig á ég að vita hvað HEFÐI gerst? Eða einhver?

----------------

Voru Vantrú með dýran lögmann á sínum snærum?

Mitt svar: Veit ekki, hverjir eru í Vantrú? Þeir eru alla vega með sálfræðing á sínum snærum, hann Reyni formann. Veit ekki hvaða menntun hinir hafa.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 10:03

25 Smámynd: Skeggi Skaftason

Bergur, takk fyrir svörin.

Tekurðu undir þær kröfur Bjarna Randvers að HÍ greiði lögmannskostnað hans?

Skeggi Skaftason, 8.12.2011 kl. 10:14

26 identicon

Tekurðu undir þær kröfur Bjarna Randvers að HÍ greiði lögmannskostnað hans?

Verð því miður að svara þessu með spurningum á móti:

Hefur Bjarni gert slíka kröfu? Ég myndi vilja lesa hana áður en ég treysti mér til að taka afstöðu til hennar. Veistu hvar þessa kröfu er að finna eða geturðu vísað mér á hana?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 10:37

27 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Ég vil þakka öllum fyrir skoðanaskiptin sem hér hafa átt sér stað. Ég hef líka átt umræðu í morgun um síðustu bloggfærslu mini sama efnis - og hún er um margt upplýsandi, m.a. varðandi hugmyndina um bókaútgáfu. Þeir sem hafa áhuga á, ættu ef til vill að skoða líka þær umræður - þær eru fróðlegar og gagnlegar.

Þá vil ég hvetja fólk til að lesa sem allra mest um málið, frá öllum hliðum. Í dag er t.d. fróðleg grein eftir Þórð Harðarson, formann "fyrri" Siðanefndar HÍ í  Morgunblaðinu. Af henni sýnist mér helst mega álykta að siðanefndin hafi helst sett út á umfjöllun Bjarna um "mótmælanda Íslands". En kannski skil ég þetta ekki rétt.

Harpa: Takk fyrir kommentin.:) Samt er málið allt ekki eins einhlítt eða klippt og skorið eins og hér mætti ætla.

P.S. Harpa: Berðu saman bls. 179-181 í Glæsi og kafla 37 í Eyrbyggju og segðu mér hvað þér finnst.;)

Helgi Ingólfsson, 8.12.2011 kl. 10:51

28 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann, færsla 21:

Ég er þér hjartanlega sammála um nauðsyn þess að siðanefnd þurfi að geta starfað óháð utanaðkomandi þrýstingi.

Þess vegna finnst mér eftirfarandi vera umhugsunarefni:

1) Þann 10. feb. 2010 eru kærur Vantrúar lagðar inn, skilst mér.

2) Þann 15. febr. 2010 hefst umfjöllun Vantrúar um glærur Bjarna á vef Vantrúar og þær eru birtar í 11 (stigvaxandi) "glærupökkum" fram til  4. mars 2010.

Á þessum sama tíma hefði mátt ætla að þeir, sem væru að kynna sér málið hjá HÍ, leituðu inn á vef Vantrúar og að þetta væri fyrsta efnið sem mætti þeim. Eru þessar tímasetningar tilviljun? Hvers vegna lét Vantrú ekki umfjöllun sína um kæruefni í þagnargildi liggja, meðan kæran var til meðferðar hjá siðanefnd, til að tryggja fullkomlega hlutlausa umfjöllun? Eða var ofangreindum "glærupökkum" Vantrúar mögulega ætlað að hafa áhrif á þann sem vildi kynna sér málið? Spyr sá sem ekki veit.

Helgi Ingólfsson, 8.12.2011 kl. 11:18

29 Smámynd: Skeggi Skaftason

Hér:

http://mbl.is/frettir/innlent/2011/12/06/vill_ad_hi_baeti_mannordstjon_og_kostnad/

„Það tjón sem ég hef orðið fyrir er óbætt. Háskólinn hefur ekki bætt mér lögfræðikostnaðinn [...]"segir Bjarni Randver Sigurvinsson, stundakennari í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Skeggi Skaftason, 8.12.2011 kl. 11:26

30 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Er ekki málið að formaður siðanefndar ætlaði bara að láta undan kröfum Vantrúar? Jú, held það. Átti klukkustundar fund með Vantrú þar sem nefnd Vantrú lagði fram hvað átti að gera gegn kennaranum. þetta eru búllýar. Vantrúarfélagið. Búllýar. Síðan þegar knnarinn neitaði að láta búllýast á seé þá rann Vantrú á rassinn með alltsaman enda stóðst upplegg þeirra enga skoðun. Stóðst enga skoðun. Nema hugsanlega á ,,innra vef" Vantrúar. þar stóðst það fullkomlega skoðun.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.12.2011 kl. 11:31

31 identicon

Skeggi, þetta er ekki krafa. Þetta er frétt í Mogganum. Ég get ekki tekið afstöðu til kröfu sem er ekki komin fram. Bjarni segist í fréttinni ætla að fylgja þessu eftir með kærum sem þá væntanlega innihalda kröfurnar. Ég bíð eftir þeim áður en ég tek afstöðu.

Mæli með því að þú gerir það líka.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 12:16

32 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Sæll Helgi.

Erindi Vantrúar voru lögð inn þann 4.2. Ellefu dögum síðar hefst umfjöllun á málið á Vantrú. Í millitíðinni, þann 8.2 sendi félagið Bjarna Randver póst og tilkynni honum að við ætluðum að fjalla um glærunar á vef okkar. Pósturinn var sendur á póstfangið sem gefið var upp í kennsluskrá Háskóla Íslands. Síðar sagðist Bjarni ekki nota þetta póstfang og hefði því ekki séð póstinn.

Umfjöllunin á Vantrú var unnin úr erindinu sem við sendum inn en var aðeins ítarlegri umfjöllun.

Ástæðan fyrir því að umfjöllunin birtist í 11 greinum er að ein eða tvær greinar hefðu orðið gríðarlega langar. Rætt var um það innan félagsins hvort við hefðu dregið umfjöllunina of mikið á langinn. Mín skoðun er að vefgreinar mega ekki vera lengri en þessar greinar um málið.

Greinarnar eru "stigvaxandi" vegna þess að glærurnar eru stigvaxandi. Við vildum sýna allar glærurnar í glærukaflanum um Vantrú svo ljóst væri að við værum ekki að velja úr bestu bitana. Okkur þótti það sanngjörn umfjöllun. Allan tímann gátu lesendur gert athugasemdir við greinar okkar.

Bjarni Randver hefur krafist þess að HÍ greiði kostnað hans. Það er hægt að sjá í fundargerðum Háskólaráðs. Hluti af kostnaði Bjarna er fólginn í því að starfsmenn lögfræðistofu lásu í gegnum stolin trúnaðargögn. Bjarni hefði sparað sér mikinn pening ef hann hefði neitað að taka við þessum gögnum.

> "Eru þessar tímasetningar tilviljun? Hvers vegna lét Vantrú ekki umfjöllun sína um kæruefni í þagnargildi liggja, meðan kæran var til meðferðar hjá siðanefnd, til að tryggja fullkomlega hlutlausa umfjöllun?"

Það er ekki hlutverk Vantrúar að tryggja fullkomlega hlutlausa umfjöllun. Vantrú ber að kynna mál sitt. Umfjöllunin á vef Vantrúar byggir á erindinu sem sent hafði verið siðanefnd.

Vonandi svarar þetta einhverju.

Matthías Ásgeirsson, 8.12.2011 kl. 14:47

33 identicon

Matthísa segir: Allan tímann gátu lesendur gert athugasemdir við greinar okkar.

-------------------

Ég var einn þeirra sem gerði athugasemd. Hún hlaut vægast sagt slæmar undirtektir og ég lenti í einum af þessum "hýenuárásum" sem Vantrúarfólk er þekkt fyrir að gera á fólk þar sem málefnið skiptir engu, en persónuárásin öllu.

Eftir að umræðunni var lokið tók ofangreindur Matthías sig til, tók út flest, ef ekki öll ummæli mín í þræðinum og færði þau yfir á "spjallborðið". Þar með klippti hann þráðinn í heild algjörlega úr samhengi og falsaði hann gróflega, nýbúinn að senda inn kæru á Bjarna og saka hann um að klippa sín ummæli úr samhengi.

Skoðið hvernig hann og annað Vantrúarfólk hagaði sér síðan gagnvart mér á þessum tímapunkti í umræðunni: Spjallborð Vantrúar

Þessi hegðun er algjörlega dæmigerð fyrir hegðun Vantrúarfólks gagnvart andmælendum þeirra í gegnum árin.

Enginn þeirra, jafnvel ekki hinn sannleikselskandi Valgarður Guðjónsson, sem kannast aldrei við að Vantrú geri neitt rangt, gerði minnstu athugasemd við þessa meðferð.

Skoðið málið í heild og dæmið sjálf: Smellið hér.

Matthías ... eins og ég hef sagt þá ættuð þið í Vantrú núna að sjá sóma ykkar í að biðja alla þá sem þið hafið sært í gegnum árin afsökunar á hegðun ykkar. Þá fyrst getur uppbygging hafist á ný.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 16:25

34 identicon

Biðja þig afsökunar Guðbergur Gubbi fífl. við biðjum ekki hálfvita fsökunnar fyrir að vera hálviti.sorrí.

Arnar (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 17:02

35 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Guðbergur Ísleifsson, fyrirgefðu, ég skal endurorða:

"Allan tímann gátu lesendur, sem höfðu eitthvað málefnalegt fram að færa, gert athugasemdir við greinar okkar."

Vantrú gerir afar lítið af því að ritskoða athugasemdir. Þú ert einn af þremur einstaklingum sem hefur afrekað það að komast á svarta listann. Athugasemdir á vantrúarvefnum um 35 þúsund.

Ég hvet fólk endilega til að lesa umræðurnar hans Guðbergs sem ég færði á spjallborðið. Ég held að eigandi þessarar bloggsíðu sjái fljótt að Guð-bergur Ísleifsson er ekki beinlínis viðræðuhæfur náungi.

Hér getið þið lesið dæmi um orræðu Guð-Bergs Ísleifssonar, skrifað undir dulnefni á moggabloggsíðu sem síðar var lokað.

Matthías Ásgeirsson, 8.12.2011 kl. 17:23

36 Smámynd: Egill Óskarsson

Ómar Bjarki segir: „Átti klukkustundar fund með Vantrú þar sem nefnd Vantrú lagði fram hvað átti að gera gegn kennaranum.“

Þú ert væntanlega að vísa til fundar sem Þórður Harðarsson, þá formaður siðanefndar HÍ, átti með Reyni Harðarsyni formanni Vantrúar. Eins og fram hefur komið, t.d. í greinargerð Þórðar um málið sem birtist í morgunblaðinu þá átti hann samskonar fundi með Pétri Péturssyni. Þannig að þessi tilgáta þín er fallin um sjálfa sig.

Erindið stenst vel skoðun enda hefði siðanefnd líklega einfaldlega vísað því frá ef engin tilefni hefðu verið til þess að skoða það nánar.

Egill Óskarsson, 8.12.2011 kl. 17:51

37 identicon

Jesús minn og Petur í efstabæ.

Þessir menn hafa hvorki samvisku né skömm.

Jæja, áfram heldur þá ævintýrið og sagan mun dæma.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 18:19

38 identicon

En verð að segja ... að Matthías Ásgeirsson er einhver forhertasti einstaklingur sem hlýtur að fyrirfinnast á þessari jörð. Algjörlega út úr kú-persóna non grata sem er svo gjörsamlega úr tengslum við raunveruleikann að það væri ekki einu sinni hægt að bródera hann í ull. Þvílík sóun á líffærum - því miður. Og leikskólakennarinn Egill er ekki langt í burtu.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 18:46

39 Smámynd: Egill Óskarsson

Hvað koma menntun mín og starf þessu við?

Egill Óskarsson, 8.12.2011 kl. 19:34

40 identicon

Ansans, nú er ég búin að skila Glæsi! Reyni að dobbla bókavörðinn og verða mér út um hana aftur því ég er náttúrlega forvitin að sjá hvað kemur í ljós við samanburðinn :)  Svo varð ég að sleppa umfjöllun um fjölda margt - það er svo ótrúlega margt sem hægt er að finna í Glæsi. Og talsvert gefið í skyn að Snorri blessaður (og jafnvel Arnkell líka, "BF junior") sé "successful psychopath" eins og margir viðskiptajöfrar/ viðskiptasvindlarar hafa verið greindir ... en ég hafði ekki rúm til að fara út í þau einkenni og lýsingar.Annað: Þórður Harðarson skrifar undir greinargerð sína í Mbl. í dag: "Höfundur er prófessor og er formaður siðanefndar Háskóla Íslands." Svo til að flækja málið enn meir virðist hann hafa sagt sig frá þessu eina máli (sem hann hafði vissulega klúðrað rækilega þótt hann segi annað í greinargerðinni) og tekið svo aftur við formennsku siðanefndarinnar. Í ljósi gagnrýni óháðrar nefndar á vegum Háskólans á störf siðanefndar í þessu máli (þ.e. upphaflegu nefndarinnar) finnst mér merkilegt að þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson skuli ekki hafa haft næga sómakennd til að segja af sér störfum og enn merkilegra að karlinn gamli, Þórður, skuli áfram vera formaður sömu nefndar. En vissulega kann þetta að gleðja Vantrú.Enn eitt: Það er kannski áhugaverðast sem ekki er: Af hverju heyrist ekkert frá formanni Vantrúar, Reyni Harðarsyni? Er það mögulega vegna þess að séu tilvitnanir í hann af spjallþræði Vantrúar (þjófstolnar eða ekki, með eða án broskarla) rétt eftir hafðar hefur hann brotið siðareglur Sálfræðingafélags Íslands sem hann er meðlimur í? Ég vísa þarna til margívitnaðra orða um heilagt stríð og einelti gegn Stefáni  Einari Stefánssyni viðskiptasiðfræðingi (og Borgnesingi ;)

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 21:25

41 identicon

Og tæknipúkinn eyddi öllum greinaskilum svo athugasemdin að ofan lítur út eins og óttalegt kraðak ... því miður.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 21:27

42 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Merkilegt hvað staðreyndir málsins skipta litlu máli þegar fólk er búið að mynda sér skoðun.

Matthías Ásgeirsson, 8.12.2011 kl. 21:31

43 identicon

Las meira af blogginu þínu, Helgi, mér til ánægju og yndisauka. Og fattaði hvað þú átt við með samanburðartillögunni. Ég fyrirgef honum Ármanni nú alveg að taka drjúgt úr Eyrbyggju, jafnvel orðrétta langa kafla. Og af því ég las (og eignaðist) Minningar Guðrúnar Borgfjörð eftir að ég hafði lesið frábæra sögulega skáldsögu sem fékk mig til að lesa sem mest um það tímabil (meira að segja blaðið hans Jóns Hjaltalín sem er inni á timarit.is) er ég viss um að þú fyrirgefur þetta líka  

Hins vegar er sannleikurinn sá að ég hef ekki lesið neina bók sem jafnast á við "Þegar kóngur kom" frá því sú kom út! Hún fjallar um efni sem ég hafði engan sérstakan áhuga á fyrirfram en hreif mig gersamlega og síðan hef ég lagst í allskonar sögulegar pælingar, mér að óvörum.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 22:22

44 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jón Valur og Harpa, varðandi eineltisummælin, þá langar mig að spyrja ykkur hvernig þið skiljið þessi ummæli mín (tekin héðan):

Þórhallur er kominn með nýja færslu í trúarjátningablogginu sínu, og ég ætla að halda áfram að leggja hann í einelti.  
Er ég þarna að segja að ég sé að leggja Þórhall Heimisson í einelti?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.12.2011 kl. 22:37

45 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Kæri Bergur (færsla 38): Stóryrði hjálpa engum málstað, heldur afvegaleiða umræðuna.

Egill og Matthías: Ég get ekki beðist afsökunar á ummælum Bergs - það verða mælendur sjálfir að gera. Hins vegar get ég beðist afsökunar á því að þessi ummæli komi fram á mínu athugasemdasvæði og geri það hér með. Og ég er sammála þér, Matthías, með það sem þú segir í færslu 42.

En Matthías (færsla 32): Þú vitnar í lok athugasemdar þinnar (færslu 32) í spurningar mínar varðandi tímasetningar þess að Vantrú setti glærurnar á netið: "Eru þessar tímasetningar tilviljun? Hvers vegna lét Vantrú ekki umfjöllun sína um kæruefni í þagnargildi liggja, meðan kæran var til meðferðar hjá siðanefnd, til að tryggja fullkomlega hlutlausa umfjöllun?"

Síðan heldur þú beint áfram og segir: "Það er ekki hlutverk Vantrúar að tryggja fullkomlega hlutlausa umfjöllun. Vantrú ber að kynna mál sitt. Umfjöllunin á vef Vantrúar byggir á erindinu sem sent hafði verið siðanefnd."

Þetta er með því merkilegra sem hefur verið sagt í umræðunni, einkum í ljósi þess að ég spurði m.a. um hvort glærurnar hefðu mögulega verið settar inn til að hafa áhrif á þann, sem vildi eða þyrfti að kynna sér félagsskap Vantrúar nánar, þar með (mögulega) meðtalda nefndarmenn siðanefndar HÍ á þeim tíma.

----

Harpa: Kærar þakkir. Og Glæsir er, þrátt fyrir allt, vel fyrir ofan meðallag, þótt ég sé ef til vill ekki alveg jafn hrifinn og þú. Ármann vinnur jafnan vandvirkt.

Helgi Ingólfsson, 8.12.2011 kl. 22:38

46 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Helgi, ég ítreka að innihald í þessum færslum var efnislega það sama og í erindinu sem við sendum til siðanefndar. Þannig að færslunarn voru varla til að hafa áhrif á siðanefndina. En við vildum kynna málstað okkar og vekja athygli á því sem okkur þótti gróf skrumskælingn á málstað og málflutningi okkar.

Hefði það breytt einhverju hvað þig varðar ef þetta hefðu verið fjórar mjög langar færslur? Við ræddum það nefnilega hvernig við ættum að birta þetta og það var ég sem benti á að vefgreinar mega ekki vera langar, því afar fáir lesa langar greinar á vefnum.

Þú þarft ekkert að afsaka stóryrði og dónaskap Bergs. Þetta er eitt af því sem við í Vantrú höfum þurft að fást við frá stofnun vefritsins og félagsins. Eitt af því sem mér finnst afar ósanngjarnt við kennslu Bjarna Randvers er að hann nefnir ekki nokkurt samhengi þegar hann dregur fram dónaskap vantrúarsinna. Þannig er það rétt að ég hef kallað fólk nöfnum á netinu, en ég fullyrði að í mörkum tilvikum var ég að bregðast við skrifum eins og þeim sem Bergur sýndi hér.

Segjum sem svo að ég hefði brugðist við þessari athugasemd Bergs með því að segja eitthvað eins: "þú ert nú bölvaður bjáni" þá er hætt við því að það hefði endað í greinargerð eða á glæru hjá kennara í guðfræði. Þetta er ekkert grín, ég hef alveg sambærileg dæmi.

Að mínu mati væri óheiðarlegt að klippa slíka athugasemd frá mér úr því samhengi til að sýna hvað ég væri mikill dóni.

Matthías Ásgeirsson, 8.12.2011 kl. 22:49

47 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,þá átti hann samskonar fundi með Pétri Péturssyni. Þannig að þessi tilgáta þín er fallin um sjálfa sig."

þetta er ekkert ,,tilgáta mín". Hann átti fund með svokölluðum formanni vantrúar. Og já já líka þessum PP.

Fudur með PP var bara snakk þar sem það bar helst til tíðinda að formaður sáttanefndar sýndi PP einhverjar klénlega ortar vísur. Maður skilur ekki svona.

það sem blasir við að flestir eins og veigri sér við að taka slaginn við búllýanna. Að sumu leiti er það skiljanlegt. það er ekkert gamanmál að vera settur útaf sakramentinu hjá umræddum hópi. þeir eru viðskotaillir.

það sem þessi hópur, almennt séð, leiðir líka í ljós, hve fámennur, skipulagður og harðsnúinn hópur getur haft mikil áhrif langt útfyrir það sem eðlilegt getur talist. Og þannig misnotað lýðræðið í raun.

Aðalatriðið er að þessi för umrædds hóps í upphafi var útí hött. Líklega má samt segja að almennt séð beri að reyna einhversslags sættir samkvæmt ritjúalinu og manni skilst það á Þórði. Í framhaldinu verður svo ljóst að sættir samkvæmt þeim hópi er til umræðu er felst í atriðum sem óásættanlegar eru auðvitað fyrir kennarann sem gerði ekkert af sér nema að greina hóp þann er til umræðu er fræðilega samkvæmt viðurkenndum fræðilegum stöðlum. Allt og sumt.

Annars er ljóst að hópurinn vill ekki og ætlar sér ekki að viðurkenna neinar misfellur svo þetta verður bara í skotgröfunum áfram, býst eg við.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.12.2011 kl. 23:42

48 identicon

Stóryrði mín? Hver eru þau? Að ekki sé sé hægt að bródera Matthías í ull?

Hvar er nú húmorinnsem Vantrúarmenn eru svo frægir fyrir?

Að leggja Stefán Einar, þennan plebba, í einelti? Ha, ha, ha ... sálfræðingurinn, formaðurinn er svo fyndinn.

Að bródera Matthías í ull ... sýnir hvurslags viðbjóður maðurinn er, þessi Bergur.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 23:48

49 identicon

Talandi um Reyni sálfræðing, formann Vantrúar ... þann mikla húmorista. Hvar er hann eiginlega og af hverju hefur ekkert heyrst í honum frá því greinargerð Barkar birtist í Mogganum á Sunnudag, heldur einungis í óbreyttum meðlimum Vantrúar? Reynir átti nú stóran hlut að máli og gæti kannski útskýrt ýmislegt.

Hvar er Reynir?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 00:15

50 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ómar, hvernig veistu hvað fór fram á fundi Péturs og Þórðar? Af hverju heldur þú að fundur Reynis og Þórðar hafi farið öðruvísi fram?

Matthías Ásgeirsson, 9.12.2011 kl. 01:08

51 identicon

Helgi, ég biðst afsökunar á að hafa látið þessi ummæli út úr mér hér á bloggsíðunni þinni og hef líka beðið Matthías afsökunar á hans bloggsíðu hér.

Svona getur dottið út úr mér stundum og er mér ekki til þess sóma sem ég vil annars ástunda. Mér til afsökunar í þetta sinn er að ég lét reiðina ná tökum á mér eftir að hafa rifjað upp meðferðina sem ég fékk á sínum tíma hjá Matthíasi og Vantrúarmeðlimum í umræðunum og spjallþræðinum sem ég tengdi í hér að ofan.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 02:32

52 Smámynd: Sveinn Þórhallsson

Ég ætla að byrja á að taka það fram að ég er ekki meðlimur í Vantrú og hef aldrei verið.

Ómar

Aðalatriðið er að þessi för umrædds hóps í upphafi var útí hött. Líklega má samt segja að almennt séð beri að reyna einhversslags sættir samkvæmt ritjúalinu og manni skilst það á Þórði. Í framhaldinu verður svo ljóst að sættir samkvæmt þeim hópi er til umræðu er felst í atriðum sem óásættanlegar eru auðvitað fyrir kennarann sem gerði ekkert af sér nema að greina hóp þann er til umræðu er fræðilega samkvæmt viðurkenndum fræðilegum stöðlum. Allt og sumt. (Feitletrun mín)

Þarna liggur hundurinn grafinn - því einmitt um þetta atriði er deilt. Vantrú er ekki sammála þessari skoðun þinni og leitaði réttar síns eftir réttum leiðum. 

Hvað sem þér kann svo að finnast um það skiptir engu máli. Ég vona að þú myndir gera það sama ef þér þætti á þér brotið - þó mér myndi ekki finnast að það hafi verið brotið á þér.

Helgi

Guð-Bergur er svo sannarlega ekki að láta reiðina ná tökum á sér núna af því að það rifjaðist upp fyrir honum einhver "meðferð" sem hann fékk frá Vantrúarmeðlimum. Hann hefur alltaf verið svona í samskiptum sínum við þá. Bara svo það sé á hreinu. Þetta segi ég sem utanaðkomandi aðili, þó ég hafi stöku sinnum svarað honum. Það eru mistök.

Sveinn Þórhallsson, 9.12.2011 kl. 04:25

53 identicon

Sveinn, mér þætti nú vænt um ef þú slepptir því að þykjast vita fyrir mig, og betur en ég, hvernig mér líður. Telur þú þig hafa einhverja slíka yfirnáttúrlega hæfileika að þú getir greint líðan mína án þess einu sinni að hitta mig?

Og nafn mitt er ekki skrifað Guð-Bergur frekar en þitt nafn er skrifað Sve-Inn. Sjá útskýringu hér.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 05:04

54 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Harpa (færsla 40): Þú spyrð hvers vegna ekkert heyrist í Reyni Harðarsyni, formanni Vantrúar, í allri þessari umræðu. Getur verið að það sé vegna þess að umræðan snýst m.a. að hluta um einelti (skv. grein Barkar) og Reynir er sálfræðingur, sem gæti gert stöðu hans sérstaka í slíku ljósi? Reynir var jú sá aðili, sem mest kom fram í málinu gagnvart HÍ skv. skýrslu rannsóknarnefndar HÍ. Annars geta líka verið ýmsar aðrar eðlilegar ástæður fyrir fjarveru hans. Hann gæti verið lasinn, í fríi eða annað.

Bergur (færsla 51): Mér þykir vænt um þessa afsökunarbeiðni.

Matthías: Ég á eftir að spyrja þig nánar út í hvers vegna Vantrú lét ekki málið liggja í þagnargildi, meðan það var til meðferðar hjá siðanefnd HÍ. Má ekki túlka það svo að framsetning Vantrúar á glærunum á þessum tímapunkti gæti talist tilraun til að hafa áhrif á framgang málsins innan HÍ?

Allir: Ég vil benda öllum á að lesa grein Péturs Péturssonar, forstöðumanns guðfræðideildar, í Morgunblaðinu í dag, en þar svarar hann Þórði Harðarsyni, formanni siðanefndar HÍ, og virðist bera honum á brýn misfærslur, ef ég skil greinina rétt.

Helgi Ingólfsson, 9.12.2011 kl. 08:46

55 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Það er áhugaverður punktur í lokaorðum Þórðar:

"Þórður Harðarson telur sig ekki hafa neitt vald sem formaður siðanefndar og starfa eingöngu í sáttahug. Hvorugt er rétt. Áminning af hálfu siðanefndar gerir út um frama viðkomandi einstaklings innan háskólasamfélagsins."

Ef áminning af hálfu siðanefndar er svona gríðarlega alvarleg (sem ég verð að játa að ég gerði mér ekki grein fyrir), er þá ekki enn ríkari ástæða til að gera sem allra mest til að ljúka málinu með sátt - í stað þess að taka það til formlegrar meðferðar hjá nefndinni?

> "Má ekki túlka það svo að framsetning Vantrúar á glærunum á þessum tímapunkti gæti talist tilraun til að hafa áhrif á framgang málsins innan HÍ?"

Jú, það "má túlka það þannig". Ég spyr. Er óeðlilegt að Vantrú kynni mál sitt og leggi sig fram um að gera það með vönduðum hætti?

Þegar Vantrú birti fyrstu greinina voru liðnir 9 dagar frá því erindið var sent inn - þannig að aðilar hefðu átt að hafa fengið góðan tíma til að kynna sér það.

Ég skil ekki alveg vandamálið við að Vantrú fjalli um málið á síðu sinni. Er eflaust eitthvað að misskilja þig.

Nær öll opinber framsetning á málstað, eins og t.d. þessar bloggfærslur þínar, eru í einhverjum skilningi tilraun til að hafa áhrif á framgang mála.

Vantrú óttaðist mjög að erindi okkar yrði ekki tekið alvarlega, að því yrði vísað frá, afgreitt sem eitthvað væl yfir því að um okkur væri yfir höfuð fjallað (eins og afskaplega margir virðast enn halda). Við vildum sýna, með vönduðum hætti, að við hefðum ástæðu til að kvarta undan umfjöllun um okkur.

Matthías Ásgeirsson, 9.12.2011 kl. 09:35

56 Smámynd: Jón Valur Jensson

Greinin merkilega, Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar H.Í., eftir dr. Pétur Pétursson prófessor virðist manni hið endanlega rothögg á gagnrýisverða meðferð siðanefndar H.Í. og einkum formannsins á þessu máli.

Jón Valur Jensson, 9.12.2011 kl. 10:22

57 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Matthías: Af hverju óttaðist Vantrú að "erindi" ykkar (Þórður Harðarson talar jafnan um "kærur" og sjaldan um "erindi", í grein sinni í gær) yrði ekki tekið alvarlega? Þið senduð jú erindi á 3 staði innan Háskóla Íslands, ekki satt? Hvaða ástæður höfðuð þið til að óttast að málið yrði "afgreitt sem eitthvað væl"? Treystuð þið ekki því að a.m.k. 1 þessara aðila myndi fella efnislegan dóm?

Og Matthías: Ég sé enn enga ástæðu fyrir Vantrú að hafa ekki látið málið liggja í þagnargildi, meðan það var til meðferðar hjá HÍ til að gefa aðilum þar næði til að kynna sér málið, ef það átti að fá fullkomlega hlutlæga efnisumfjöllun. Sjá aðrir ástæðu þess, spyr ég bara? Hvers konar kærumál er það, þar sem kærum er skilað inn og málinu síðan fylgt eftir af kæranda með af mjög hlutdrægum greinarflokki á því vefsvæði þar sem líklegt er að úrskurðaraðilar muni leita sér upplýsinga?

----

Viðvíkjandi (fyrri) siðanefnd HÍ, þá tel ég að það sé allt sómafólk; það nýtur í mínum huga fullkomins trausts sem vandaðir og virtir fræðimenn, hver á sínu sviði. En samt má spyrja út í ákveðin atriði í málsmeðferðinni. Eins og t.d.: Hver er reynsla þeirra sem kennara af notkun glæra í kennslustund? Þetta er ákveðið höfuðatriði - vegna þess að málatilbúnaður allur byggir jú á glærunotkun, ekki satt? - og kennarar, sem mikið notast við glærur í kennslu eru líklegri til að þekkja kosti þeirra og annmarka, en þeir kennarar sem lítið eða ekkert nota glærur, eru líklegri til að dæma glærur Bjarna út frá glærunum sjálfum eingöngu, en ekki út frá því munnlega samhengi, sem kennarinn gæti hafa sett þær í. Á hinn bóginn, ef allir 3 siðanefndarmennirnir hafa mikla reynslu af glærunotkun, þá hafa þeir ótvírætt verið hæfari til að fjalla um kæruna. Eitt nýtt og áður óbirt atriði kemur fram í grein Péturs Péturssonar í dag: Að Bjarni hafi látið fylgja leiðbeiningar til nemenda sinna varðandi notkun glæranna (sem ég tel til mikillar fyrirmyndar, ef rétt er að staðið; aldrei hefur mér hugkvæmst það á mínum langa kennsluferli). Fróðlegt væri að sjá umræddar leiðbeiningar, ef rétt er haft eftir Pétri.

Annað, sem má velta fyrir sér varðandi skipun siðanefndarinnar - og aftur verð ég að taka fram að ég vil ekki halla á neinn og tel þetta allt sómafólk og  fullkomlega hæft til akademískra starfa - er samsetning hennar, en í henni sátu 2 raunvísindamenn á móti einum fulltrúa þess sem mætti kalla "túlkunarvísindi". Nú vil ég ekki gera neinum neitt upp, vil ég undirstrika, en ég spyr: Gæti þessi samsetning hafa haft áhrif á nálgun hennar í málinu?

 -----

Annars (í gríni) held ég að ég sé kominn með Salómonsdóminn og allsherjarlausnina sem leysir alla þræði málsins nema hinn fjárhagslega. Uppástunga mín er eftirfarandi: "Bjarni Randver fær að kenna áfram glærur sínar um Vantrú að öllu leyti óbreyttar nema hvað hann skeytir broskalli aftan við hverja setningu." Hvernig líst ykkur á? (Ef ég á það á hættu að einhver misskilji þetta síðastnefnda atriði, þá vil ég ítreka að þetta er sett fram í gríni).

Helgi Ingólfsson, 9.12.2011 kl. 11:09

58 Smámynd: Sveinn Þórhallsson

Helgi, ég skil ekki hvers vegna þú heldur áfram að tönnlast á því að Vantrú hafi birt greinargerð á sínu vefsvæði og það að það geti haft áhrif á dóm úrskurðaraðila. Mér finnst Matti hafa svarað því nokkuð vel:

Í fyrsta lagi var greinargerðin sem birtist á vefnum aðeins ítarlegri, en ekki efnislega öðruvísi, en sú greinargerð sem send var með erindinu/kærunni. Þeir sem lásu erindið/kæruna og greinargerðina með henni hefðu s.s. ekki fundið neitt nýtt á vefsíðunni.

Í öðru lagi hófst birting ítarlegu greinargerðarinnar meira en viku eftir að erindið var sent inn. Úrskurðaraðilar hafa því fengið rúman tíma til að kynna sér málið á hlutlægan hátt.

Ég skil ekki hvers vegna þessi svör duga þér ekki.

Með vinsemd og virðingu.

Sveinn Þórhallsson, 9.12.2011 kl. 12:37

59 identicon

Ja, við skulum vona að hann Reynir, formaður Vantrúar, sé ekki lasinn, það er svo leiðinlegt að liggja lasinn heima og missa af öllu fjörinu ;)

Kannski skiptir það máli í algerri þögn hans að í Siðareglum Sálfræðingafélags Íslands segir:

Forðast misnotkun /skaða

Sálfræðingurinn reynir að koma í veg fyrir að sálfræðileg þekking eða aðferðir séu misnotaðar og ber ábyrgð á að sá skaði sem af hlýst, sem hægt er að sjá fyrir en ekki hægt að koma í veg fyrir, verði sem minnstur.

Sálfræðingurinn tekur ekki þátt í aðgerðum (“innrætingu”, “heilaþvotti”, pyndingum), t.d. líkamlegum eða andlegum þvingunum - eða með hótunum um slíkt, sem hafa þann tilgang:

· að knýja fram upplýsingar eða játningar,

· að reyna að fá einhvern til að ljóstra upp, afneita eða breyta lífsviðhorfum sínum eða annarra, pólitískri, trúarlegri eða siðferðilegri sannfæringu.

Sálfræðingurinn reynir af fremsta megni að koma í veg fyrir að sálfræðileg þekking sé notuð á ofangreindan hátt.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 12:42

60 identicon

Mér finnst Salomónsdómurinn þinn, Helgi, um að framvegis verði Vantrúar einungis getið á glærum með viðskeyttum broskörlum vera mjög góður. Broskarlarnir eru einmitt vel við hæfi og þetta ættu Vantrúarmenn að geta sætt sig við, miðað við eigin málflutning. Sjálf passaði ég að hengja 3 brosmerki aftan á komment sem ég skrifaði á síðuna þeirra rétt í þessu, til að brjóta ekki norm Vantrúar.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 12:46

61 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> Treystuð þið ekki því að a.m.k. 1 þessara aðila myndi fella efnislegan dóm?

Nei, við treystum því ekkert sérstaklega. Við gerðum satt að segja ráð fyrir að Háskólinn myndi standa með sínu fólki.

Finnst þér það óeðlilegt?

Ég er búinn að svara þessu með greinarnar.

Varðandi leiðbeiningar Bjarna til nemenda. Hann sendi nemendum þetta tveim sólarhringum fyrir próf. Glærurnar í námskeiðinu voru 1700.

Staðreyndin er að nemendur Bjarna hafa notað þessar glærur Bjarna án samhengis á vefnum, löngu áður en þetta mál kom upp.

Matthías Ásgeirsson, 9.12.2011 kl. 12:58

62 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Harpa, mér finnst þú hegða þér barnalega í þessu máli. Það er eins og það hlakki í þér yfir óförum vantrúarfólks. Þú leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér, en mér finnst eins og þú sért rosalega ánægð með þann djúpstæða hatursáróður sem fram hefur farið gegn félaginu í vikunni.

Engu máli skiptir hvað við segjum til að rétta okkar hlut. Okkar hlið skiptir engu máli.

Matthías Ásgeirsson, 9.12.2011 kl. 13:00

63 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Ekki alveg rétt hjá þér, Matthías. Ykkar hlið skiptir víst máli: Af gefnu tilefni vil ég vekja athygli á því ójafnvægi, sem felst í því að Bjarni Randver skuli hafa fengið að kynna mál sitt í Kastljósi, en Vantrú ekki.

En ef til vill hefur ykkur verið boðið að kynna málflutning Vantrúar og þið hafnað? Ég bara hef ekki minnstu vitneskju um þá hlið málsins. Hefur Kastljós boðið ykkur að kynna ykkar hlið, Matthías? Ef svo, hafið þið þá brugðist við?

Og Matthías, hvað finnst þér með vangaveltur mínar varðandi a) Þekkingu siðarnefndarmanna á glærunotkun, og b) Samsetningu nefndarinnar út frá raunvísindum/ hugvísindum? (Og hér verð ég enn að ítreka að ég tel alla meðlimi siðanefndarinnar valinkunna fræði- og vísindamenn og sómafólk.)

Helgi Ingólfsson, 9.12.2011 kl. 13:28

64 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Matthías: Hef ég gerst sekur um hatursáróður í garð Vantrúar? Ég hef eingöngu reynt að grennslast um hið sanna í þessu flókna máli öllu og leyft mér að setja spurningarmerki við aðferðafræði ykkar.

Helgi Ingólfsson, 9.12.2011 kl. 13:30

65 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> En ef til vill hefur ykkur verið boðið að kynna málflutning Vantrúar og þið hafnað?

Nei, við höfum haft samband við Kastljós og sagt að við séum tilbúin að mæta.

Ég var alls ekki að saka þig um hatursáróður Helgi, fyrirgefðu ef ég gaf það í skyn. Ef þú skoðar umræðu síðustu daga um Vantrú er gríðarlega mikið af hatrömmum skrifum um félagið og einstaka meðlimi, bæði á bloggsíðum, í fjölmiðlum og á Facebook.

Ég held að meðlimir siðanefndar hafi verið vandað fólk með góðar forsendur til að fjalla um málið. Mér finnst afar leiðinlegt að sjá hversu hörð og neikvæð umræða hefur verið um það.

Þegar ég mætti fyrir siðanefnd og kynnti erindi okkur (sem við kölluðum aldrei kæru, enda talað um erindi hér: http://www.hi.is/skolinn/sidanefnd ) á mætti ég fólki sem hafði kynnt sér Vantrú og málflutning okkar, spurði gagnrýnna spurninga og hlustaði á það sem við höfðum fram að færa.

Í seinni siðanefnd (því hin fyrri fékk aldrei ráð á að kalla okkur fyrir, voru m.a.: eðlisfræðingur, kennslufræðingur, siðfræðingur, heimspekingur (ég man ekki hvað sá fimmti var menntaður). Auk þess var lögmaður nefndinni til aðstoðar.

Matthías Ásgeirsson, 9.12.2011 kl. 13:49

66 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Í seinni siðanefndinni voru tveir kennslufræðingar (þar á meðal formaðurinn), heimspekingur, siðfræðingur og eðlisfræðingur, sem er reyndar prófessor í eðlisfræði með vísindasögu sem sérsvið. Þannig eru allir nefndarmenn með e-n bakgrunn í húmanískum fræðum og kennslufræðum, sem eru ,túlkunarvísindi‘, og raunar bara einn af fimm sem má segja að sé með e-n bakgrunn í raunvísindum (annar af kennslufræðingunum var reyndar upphaflega með BA í landfræði). Í fyrri siðanefndinni var þessu vissulega öfugt farið, en sú nefnd náði aldrei að taka efnislega afstöðu til málsins, eins og Matti segir.

Snæbjörn Guðmundsson, 9.12.2011 kl. 14:30

67 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Matthías og Snæbjörn: Þakka ykkur kærlega fyrir upplýsingarnar, þær eru gagnlegar.

Mér finnst ámælisvert að Kastljós hafi ekki leyft ykkur í Vantrú að koma fram með ykkar hlið á málinu. (Og þá er ég ekki að segja þetta til að draga enn fleiri sökudólga inn í málið.)

Ég held að ég fari nú að hætta afskiptum af þessu máli - það virðast endalaust kvikna nýjar spurningar af svörum við þeim síðustu. Þó vil ég nefna eftirfarandi: Jóhanna Magnúsdóttir birti í morgun á bloggsíðu Svans Gísla Þorkelssonar fyrirmæli Bjarna Randvers um glærunotkun, sem hann sendi til nemenda sinna þann 6. des. 2009 (2 dögum fyrir próf og 2 mánuðum fyrir kærur/erindi Vantrúar), þar sem hann hefur m.a. eftirfarandi fyrirvara á kennslunni í 2. lið: "Nauðsynlegt er að nálgast allt sem tengist fræðigreininni með bæði gagnrýnu og hlutlægu hugarfari. Það gildir ekki aðeins um þær trúarhreyfingar sem til umfjöllunar eru í námskeiðinu heldur einnig kennsluna hjá mér og sjálft kennsluefnið. ... Þess vegna skiptir máli að þið látið ekki mata ykkur gagnrýnilaust heldur kynnið ykkur sjálf hlutina og sannreynið þá."

Þetta finnst mér vera eitt sterkasta málsvarnarskjal Bjarna Randvers (og treysti því að rétt sé eftir haft; maður þorir varla að fella út úr tilvitnunum lengur, ég hvet alla til að lesa skjalið). Þess vegna vil ég, vonandi að lokum, spyrja þig, Matthías:

1) Var ykkur hjá Vantrú kunnugt um þessi fyrirmæli, þegar þið fóruð af stað með erindi/kærur ykkar 2 mánuðum síðar?

2) Ef svo, létuð þið það þá fylgja með málsgögnum kærunnar til að tryggja að Bjarni Randver nyti fullrar sanngirni?

3) Ef ekki, finnst ykkur þetta skjal ekki fela í sér málsvörn?

-----

Að lokum: Matthías: Ég tek hatt minn ofan fyrir rökfestu þinni og þrautseigju (þótt ég trúi ekki að rökfestan ein sé lykilatriði; það er að sjálfsögðu málstaðurinn sem skiptir máli, og þú trúir (ef ég má nota þá sögn) sýnilega staðfastlega á hann). Einnig finnst mér elja þín aðdáunarverð - þú virðist vakinn og sofinn í málinu. 

Þig, Snæbjörn, kveð ég með öllum mínum vanalegu vinakveðjum.

Að svo mæltu vona ég að afskiptum mínum af "Stóra Vantrúarmálinu" sé lokið. Ég þakka öllum, sem lögðu orð í belg, og kveð ykkur vonandi með vinsemd og virðingu.

Helgi Ingólfsson, 9.12.2011 kl. 16:20

68 identicon

Það er náttúrlega álitamál hvort ég á að svara Matthíasi á síðu Helga en ég tek mér bessaleyfi, sem mér skilst að sé viðtekið leyfi Vantrúar: Það hlakkar ekkert sérstaklega í mér yfir þessu máli. Mér finnast hins vegar athugasemdir Vantrúarmanna margar fyndnar. Er það slæmt? (Mér finnst ekki margt fyndið þessa dagana svo það er vissulega plús fyrir mig að Vantrú létti mér lund.) Málarekstur Vantrúar gegn Bjarna Randveri og viðbrögð siðanefndar HÍ finnast mér hins vegar grafalvarlegt mál og full ástæða til að vega og meta hvernig maður getur lagt sitt af mörkum til að tálma vaxandi öfgahyggju þegar maður sér hve langt örlítill minnihlutahópur hefur náð í tilraun sinni til að hirða æruna af einum háskólakennara (sem skv. mínum heimildum er annálaður fyrir að vilja efla gagnrýna hugsun og fá nemendur sína til að líta mál frá mörgum hliðum).

Þér er að sjálfsögðu frjálst að telja mig barnalega, Matthías, en ég er ansi hrædd um að þú getir hvorki kært mig né "borið upp erindi" gegn mér nokkurs staðar fyrir ótilhlýðilegan barnaskap. Ef þig langar samt voðamikið til þess legg ég til að þú beinir slíkum erindum til Tryggingastofnunar ríkisins eða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Öðrum stofnunum tengist ég ekki.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 17:02

69 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> 1) Var ykkur hjá Vantrú kunnugt um þessi fyrirmæli, þegar þið fóruð af stað með erindi/kærur ykkar 2 mánuðum síðar?

Nei.

Við teljum aftur á móti að þetta bréf réttlæti ekki grófar rangfærslur.

Harpa, ef þú lofar að leita aldrei réttar þíns í nokkru máli skal ég íhuga hið sama. Og þó.

Matthías Ásgeirsson, 9.12.2011 kl. 17:13

70 Smámynd: Jón Valur Jensson

Innlegg Hörpu Hreinsdóttur kl. 12:42 í dag, varðandi siðareglur sálfræðinga, er þarft og gott, og ágætt er þetta hér á undan líka, kl. 17:02.

Matthías er merkileg týpa. Hann hefur komið fram í Kastljósi fyrir nokkrum árum og kom þar afar vel og skynsamlega fyrir (þótt ég væri alls ekki sammála honum) og án þess grófa talsmáta sem oft hafði mátt sjá í skrifum hans á Vantrúarnetinu. Þannig er ljóst, að Matti getur þetta, en hann var hins vegar ekki í þeim velsæmisgírnum, þegar hann tók fullan þátt í því að hamast gegn Bjarna Randveri. Matti, sem ennfremur hafði verið formaður Vantrúar, verður því að sæta því að vera talinn með öllum mjalla (ólíkt kannski einhverjum í umræðunni hans megin) og að bera þannig óneitanlega ábyrgð á orðum sínum (ólíkt fyrrnefndum svigamönnum, sem hafa kannski enga sjálfstjórn og sízt á tölvuputtum sínum).

En eins og Helgi gefur til kynna hér í grein sinni hér ofar, voru þeir í Vantrú fljótir að snúa við blaðinu frá stórorðustu skrifum sínum um þetta mál, eftir að það var orðið alvarlegt fyrir orðstír þeirra með birtingu Moggagreina Barkar Gunnarssonar um síðustu helgi, og nú eru þeir í stíl Kastljóss-Matta komnir með hið sakleysislegasta yfirbragð og hafa örugglega aldrei farið harkalega að trú og trúuðu fólki í landinu, hvað þá veitzt að akademísku frelsi og heiðri fræðimanna!

Jón Valur Jensson, 9.12.2011 kl. 17:24

71 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þetta er bara rugl Jón Valur. Skoðið bara skrifið á Vantrú.is síðustu þrjú ár. Þetta er að langstærstum hluta óskaplega hógvær skrif. Hvar eru þessi hrikalegu skrif sem um er rætt?

> hafa örugglega aldrei farið harkalega að trú og trúuðu fólki í landinu, hvað þá veitzt að akademísku frelsi og heiðri fræðimanna!

Hvar veitumst við að trúuðu fólki? Ef það að gagnrýna trúarhugmyndir, er að veitast að trú, þá höfum við að sjálfsögðu gert það.

Ef þeir sem senda erindi til siðanefndar HÍ eru sjálfkrafa að veitast að akademísku frelsi, þá er hægt að saka mun fleiri en okkur um það.

Heiður fræðimanna veltur á verkum þeirra.

Matthías Ásgeirsson, 9.12.2011 kl. 17:52

72 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Þakka þér einnig fyrir samræðurnar, Helgi. Ef þú hefur e-r frekari spurningar um þetta mál, eða hvað sem er annað, þá veistu alla vega hvar okkur Vantrúarmenn er að finna, og að við erum allir af vilja gerðir til að svara spurningum frá okkar hlið og greiða úr öllum vangaveltum sem koma upp. Ég vona að þú sjáir í það minnsta að hvað sem megi segja um okkar aðferðir og meintan munnsöfnuð að þá höfum við ríka réttlætiskennd og við leggjum okkur alltaf fram um að vera heiðarlegir, einnig gagnvart „andstæðingum“ okkar :) Ég vil bara enda á að benda þér á nýjustu greinina á Vantrú, sem er raunar stuttur pistill upphaflega af facebook eftir Carlos Ferrer, þjóðkirkjuprest sem nú er búsettur úti í Strasbourg. Get alveg mælt með þeirri lesningu :)

Með kærri kveðju, vinsemd og virðingu,

Snæbjörn

Snæbjörn Guðmundsson, 9.12.2011 kl. 18:35

73 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Já, ég gleymdi að setja tengil á Vantrúargreinina: http://www.vantru.is/2011/12/09/12.00/

Hér er svo viðtal frá því í dag úr Harmageddon, útvarpsþætti á X-inu, við Matta. Get líka mælt með því, svo þú heyrir meira frá okkar hlið: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP8063

Með kærri kveðju,

Snæbjörn

Snæbjörn Guðmundsson, 9.12.2011 kl. 19:16

74 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jæja, Matti, "að langstærstum hluta óskaplega hógvær skrif" á vef Vantrúar síðustu þrjú árin?!!" Þú ert nú meiri pacifistinn, þegar þú snýrð þessari hliðinni að fólki! En þetta er notkunarvænt!

Jón Valur Jensson, 9.12.2011 kl. 19:55

75 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég stend við það sem ég segi.

Matthías Ásgeirsson, 9.12.2011 kl. 22:44

76 identicon

"...fer ekki lagið að verða búið" (Megas)

Einn þáttur í baráttu felst í því að viðurkenna ósigur. Það felur ekki í sér að baráttan sé töpuð.

Ég ráðlegg Vantrúarmönnum að blása til undanhalds, safna liði og koma sterkari (og prúðari) tilbaka.

Jóhann (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 22:58

77 identicon

Sem utanaðkomandi óháður "voyeur" sem finnst fátt skemmtilegra en að fylgjast með net-umræðum að þá verð ég að segja að þetta er allt saman einn sá stærsti stormur í vatnsglasi sem að ég hef um ævina séð...grínlaust, hverjum er ekki sama um þetta rifrildi. Trúfélög eða þeir sem þeim tengjast vs. trúlausir...er í alvöru ekkert betra til að rífast um í þessu þjóðfélagi?

Gylfi Freyr (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 23:42

78 identicon

jú Gylfi Freyr.

Svo skal böl bæta

að benda á annað verra.

Jóhann (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 00:20

79 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Matthías, ég ætlaði ekki að trufla þig frekar. En þú ferð beinlínis með rangt mál í færslu nr. 62. Þar segir þú: "Þegar ég mætti fyrir siðanefnd og kynnti erindi okkur (sem við kölluðum aldrei kæru, enda talað um erindi hér: http://www.hi.is/skolinn/sidanefnd )..."

Annars vegar talið þið beinlínis um"KÆRU" (og "erindi" einnig) í greininni um "Aðför Guðna Elíssonar..."

Þess utan er ekki rétt eftir haft um vefslóð siðanefndar innan Háskólans, sem þú tilfærir hér að ofan (http://www.hi.is/skolinn/sidanefnd). Þar er EINMITT talað um "KÆRUR" í tvígang, en eingöngu einu sinni í lokin nefnt "erindi" og þá bara til að tilgreina heimilisfangið sem senda eigi á.

-----

Í grein ykkar, "Þrautarmein Háskóla Íslands", af vef Vantrúar, ræðið þið um sameiginlega trúleysisvísindaritið, sem átti að gefa út í samstarfi við hugvísindadeild. og tilgang þess í háskólakennslu um trúleysi: "Þá gætu nemendur skólans gengið að óbrjáluðum upplýsingum um efnið," segið þið. Lesandinn virðist af þessu eiga að álykta að það sem frá Bjarna Randveri komi sé hitt viðmiðið, þ.e. "brjálaðar upplýsingar". Þykir mér þarna ansi langt gengið í niðrandi dylgjum í garð Bjarna.

-----

Svo segirðu að ykkur Vantrúarmönnum hafi verið ókunnugt um glæruleiðbeiningar Bjarna frá des. 2009, þegar þið fóruð af stað með kærur ykkar til Háskólans um 2 mánuðum síðar. En fenguð þið ekki ("áskotnaðist", afsakaðu) glærurnar frá nemanda á ykkar vegum sem sótti kúrsinn? Fékk þá þessi flugumaður ykkar ekki tölvupóst Bjarna viðvíkjandi glærufyrirmælin? Láðist honum að koma þeim í ykkar hendur? Eða létuð þið (þægilega) undir höfuð leggjast að taka tillit til fyrirmælanna af því að það þjónaði tilgangi ykkar, enda nemendur hvattir til að umgangast glærurnar með gagnrýnu og hlutlausu hugarfari í fyrirmælum Bjarna?

Þú segir um glærufyrirmæli Bjarna: "Við teljum aftur á móti að þetta bréf réttlæti ekki grófar rangfærslur." Mér sýnist bréfið hins vegar beinlínis hvetja nemendur til að taka glærurnar ekki of alvarlega og þar með vara við mögulegum rangfærslum. Sú staðreynd að bréfið var skrifað 2 mánuðum áður en kæran kom fram finnst mér í raun réttri styrkja málstað Bjarna mjög og í sjálfu sér kollvarpa öllum málarekstri ykkar.

Helgi Ingólfsson, 10.12.2011 kl. 02:51

80 identicon

Þar sem ég hef nú verið ráðinn blaða- og upplýsingafulltrúi Vantrúar vil ég fá að svara þessum endalausa óhróðri í garð Vantrúar varðandi þetta glærumál í eitt skipti fyrir öll:

---------------

Nei, nei, no, nei, no, nei, nei.

Nei, nei, no, no, nei, nei.

Nei, nei, no, no, nei, nei, nei.

Nei, nei, no, nei, no, nei.

- Höf. Ég, í skriflegri samvinnu við stjórn Vantrúar.

--------------------

Vona að þetta svar sýni skýrt og greinilega, og taki af öll tvímæli um, að Vantrú hefur EKKERT gert af sér frekar en meðlimirnir í þessari aðför að Bjarna. Þetta er jafnframt lokasvar Vantrúar í málinu.

--------

(Vinsamlega athugið að þetta er grín. Eða á að vera það.)

ps. Matti, ef þú kópí/peistar þetta inn á síðuna þína til að sýna vinum þínum ... þá, þá, þá gerirðu það bara.)

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 08:58

81 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Helgi, þú ert flottur í röksemdunum!

Til að undirstrika hug Bjarna, vil ég líka benda á ummæli hans á Facebook 5. desember sl. þegar að viðmælandi hans talar um Vantrú sem glæpasamtök: 

"Bjarni Randver Sigurvinsson Ég myndi ekki kalla Vantrú glæpasamtök en félagsmennirnir eru samt ekki hafðir yfir gagnrýni og ég verð að segja að ég er ósáttur við aðgerðir þeirra gegn mér síðastliðin tvö ár. Mörg sjónarmið vantrúarfélaga eiga alveg rétt á sér og það ber að gæta að réttindum þeirra og auðsýna þeim sanngirni. En þetta er allt dapurlegt og ég skil vel að þú sért ósáttur."

Jóhanna Magnúsdóttir, 10.12.2011 kl. 09:49

82 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Helgi, það að við tölum um "kæru" mörgum mánuðum síðar breytir því ekki að Vantrú talaði aldrei um "kæru" þegar við sendum erindi okkar inn - og að það er talað um erindi á síðu siðanefndar.

Ég ítreka að glærurnar voru 1700 og hafði verið dreift til allra nemenda í námskeiðinu. Ég bendi einnig á að við höfum dæmi þess að nemandi Bjarna notar efni af þessum glærum - og túlkar nákvæmlega eins og blasir við - m.ö.o. þá hafði sá nemandi, sem hafði lokið kúrs hjá Bjarna, tekið rangtúlkanir trúanlegar.

Upplýsingar Bjarna Randvers um Vantrú voru a.m.k. ekki eðlilegar.

Nemandinn sem lét okkur fá glærurnar sendi okkur ekki þennan tölvupóst. Ég fæ ekki séð að tölvupósturinn réttlæti þá meðferð á Vantrú sem við fáum á glærunum. Bendi auk þess á að eftir þetta skrifaði Bjarni Randver tæplega 200bls greinargerð þar sem sömu vinnubrögð eru ítrekað notuð - texti skrumskældur og orð tekin afar gróflega úr samhengi.

Læt ég þetta duga hér.

Matthías Ásgeirsson, 10.12.2011 kl. 12:27

83 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhanna: Takk fyrir hrósið.:) En ég vil vara fólk við að draga óviðeigandi hugtök eða óviðurkvæmileg orð inn í umræðuna - þú skilur örugglega til hvers ég vísa og notar sennilega það orð aldrei aftur í þessu máli.:)

Jóhanna: Annars hef ég á tilfinningunni að til þess að fá nákvæmar upplýsingar í málinu af hendi Vantrúarmanna þurfi að spyrja svo hnífréttra spurninga að þær koma yfirleitt ekki í ljós fyrr en þegar umræðan er orðin "þreytt og þvæld" svo að öllum er sama. Mig mundi til dæmis langa að spyrja Matthías þriggja spurninga ("a. Á hvaða tímapunkti vissi félagið Vantrú að Bjarni Randver hefði sent nemendum sínum nákvæmar leiðbeiningar um hvernig ætti að umgangast glærurnar? b. Kom til tals í röðum Vantrúarmanna, á þeim tímapunkti þegar félagið vissi af tilvist þessa leiðbeiningapósts, að draga kærurnar til baka? c. Hvers vegna tekur Reynir Harðarson ekki þátt í allri þessari umræðu um Vantrú, þar sem hann er formaður félagsins,  var málshefjandi kærumálsins opinberlega (skilst mér) og kom helst fram fyrir hönd félagsins gagnvart HÍ?")

Hins vegar hef ég eiginlega lýst aðkomu minni að málinu lokið, Jóhanna, svo að ég eftirlæt einhverjum öðrum að spyrja þeirra, ef viðkomandi hefur áhuga eða nennu.

Helgi Ingólfsson, 10.12.2011 kl. 14:19

84 Smámynd: Egill Óskarsson

Sæll Helgi

Varðandi glærufyrirmælin frá Bjarna: hvort teldir þú sem kennari að réttara væri. A) að taka þetta fram í upphafi námskeiðsins eða b) að taka þetta fram tveimur dögum fyrir lokapróf í námskeiðinu?

Hafðu í huga að glærurnar í námskeiðinu voru 1700 talsins og bara í þeim sem viðvíkja Vantrú (um 40 glærur eða ca. 2% af heildarglærufjöldanum) eru fjölmargar frumheimildir sem þyrfti að skoða til að fá rétt samhengi. Sumar frumheimildirnar þar eru raunar ekki gefnar upp og raunar ekki lengur til staðar nema þá í skjalasafni Bjarna Randvers.

Mér finnst liggja beint við að þessi fyrirmæli hans er fjarri því að vera jafn sterkt vopn í höndum hans í þessu máli og þú telur.

Egill Óskarsson, 10.12.2011 kl. 14:27

85 Smámynd: Egill Óskarsson

Æi, af hverju skiptir svona miklu máli að Reynir tjái sig? Hann hefur sínar ástæður fyrir því og, með fullri virðingu, þær koma ykkur bara ekki við.

Egill Óskarsson, 10.12.2011 kl. 14:34

86 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> " Annars hef ég á tilfinningunni að til þess að fá nákvæmar upplýsingar í málinu af hendi Vantrúarmanna þurfi að spyrja svo hnífréttra spurninga..."

Þetta finnst mér ómálefnalegt. Ég hef t.d. svarað b) lið spurningar þinnar óbeint hér, en í raun þarf ég að svara henni nákvæmlega svo þú sért sáttur.

Ég veit ekki hvenær nákvæmlega við í Vantrú fréttum af þessu bréfi, en það var löngu eftir að við sendum erindið inn. Vantrú fékk afar lítið af gögnum í þessu máli allt þa til lögfræðingur Bjarna Randvers komst í málið - þá fyrst fengum við (eins og hann) ýmis gögn sem lögðu höfðu verið fram.

Nei, það kom ekki til tals að draga kæruna til baka útaf þessu bréfi. Að mínu persónulega mati réttlætir þetta bréf ekki vinnubrögð Bjarna Randvers. Við erum ekki að tala um túlkanir heldur skrumskælingar.

Hvaða máli skiptir hvort Reynir eða einhver annar svarar fyrri þetta? Málið snýst ekkert um hann persónulega, þetta snýst um félagið Vantrú. Fólk sem vill persónugera þetta gagnvart honum er á afskaplega hálum ís að mínu persónulega mati.

Matthías Ásgeirsson, 10.12.2011 kl. 14:37

87 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Egill (færsla 84): Er útilokað að kennarinn hafi látið fyrirmælin koma fram munnlega í upphafi misseris? Skiptir auk þess máli hvort fyrirmælin koma 2 dögum fyrir próf - það var jú löngu fyrir kæru ykkar samt. Og skiptir fjöldi glæranna máli? Fyrirmælin ná til þeirra allra, ekki satt?

Matthías (færsla 86): Þú svarar ekki spurningunni um tímasetninguna.

----

Báðir: Það er rétt hjá ykkur, Reynir getur haft margar ástæður fyrir að taka ekki þátt í umræðunni og þær ber að virða. En það hlýtur samt að vera heimilt að spyrja spurninga, er það ekki? Og ég tel þetta mál svo miklu stærra en að það beri að persónugera nokkuð í því.

-----

Svo vil ég nefna að Börkur Gunnarsson er með annan pistil í Lesbók Morgunblaðsins í dag um málið.

-----

 En nú er ég hættur. Lofa.

Helgi Ingólfsson, 10.12.2011 kl. 15:00

88 identicon

Harpa Hreinsdóttir: Mér finnst spes að sjá til þín hér og hvernig þú hefur komið að því að setja út á Vantrú og erindi þeirra til siðanefndar HÍ.

Hvernig þú gagnrýndir höfund bókarinnar Saga Akraness fyrir hans vinnubrögð sem sum vissulega voru gagnrýni verð.

Að þú virðist ekkert setja út á það hvernig Bjarni Randver fjallar um félagið Vantrú. Í stað þess að taka fyrir og leita á vef félagsins www.vantru.is að þá grefur maðurinn upp og leitar að efni m.a úr einka bloggum meðlima, sum margra ára gömul og fyrir stofnun félagsins. Allt í því skyni finnst manni, að gefa eins ljóta mynd af félaginu og hægt var. Þegar þessar glærur eru skoðaðar að þá er ekki hægt að segja annað.

Vildi bara koma þessu að. Finnst þetta spes því að ég veit að þú hefur mikið út á léleg vinnubrögð að setja.

Getur það verið vegna þess að þú þekkir Bjarna Randver persónulega?

Hvað varðar umfjöllun morgunblaðsins að þá er það eitthvað fyrir siðanefnd blaðamannsélagsins að skoða.

Einar Gísli (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 15:54

89 identicon

Ég ætla að blanda mér aðeins í langt komna umræðu (ef henni er ekki hreinlega lokið) en, já, held að glærufjöldinn skipti máli í þessu.

Ég er sjálfur stundakennari við háskólann og nota glærur býsna mikið (sérstaklega í einu námskeiði sem ég kenni). Ég hef komist að því að ég kemst nánast aldrei upp með að vera með fleiri en 25 glærur í kennslustund (sem er 2 x 45 min.) Alls eru tólf kennsluvikur á Hugvísindasviði og 10 eininga námskeið er kennt tvisvar í viku, þ.a.l. eru 24 fyrirlestrar alls. Þá væri, skv. þessu mati mínu, hámark að vera með um 600 glærur en reyndin er sú að ég er með innan við 450 í heildina. Samt fæ ég ábendingar í kennslukönnunum um að stundum megi ég fara aðeins hægar yfir glærurnar! (Þetta eru nafnlausar ábendingar frá nemendum -- sumum þeirra í guðfræðideild.)

Hversu hratt er þá farið yfir ef glærurnar hafa verið 1700? Gefur sá fjöldi tilefni til þess að ætla að kennari hafi varið miklum tíma í að setja efni hverrar glæru í samhengi? Þótt hann hefði kennt þrisvar í viku hefði hann samt verið með rúmlega 47 glærur í tíma að meðaltali. Svarið er nei, það er ótrúverðugt að hann hafi varið miklum tíma í að setja efni glæranna í samhengi.

Eins og Matthías og Egill hafa bent á hér að ofan er líka til mikils að ætla að nemendur nálgist efni glæranna í reynd með gagnrýnu viðhorfi ef fjöldinn er svona gríðarlegur. Þá væru nemendur sennilega ekki að gera neitt annað í námskeiðinu en að tékka af glærur kennarans. Var ekki sett fyrir neitt annað lesefni í námskeiðinu?

Að lokum sjá allir í hendi sér, vænti ég, að ef skrumskæling á viðhorfi eða skoðun einhvers er nægilega mikil, þá nægja að sjálfsögðu engin fyrirmæli um að nálgast efnið á gagnrýninn hátt. Það má sýna fram á það með svolítið ýktu dæmi: Hvað ef við værum með stjórnmálafræðikúrs og kennarinn segði nemendum að vera nú gagnrýnir á efnið og framsetningu þess en færi að svo búnu máli að fjalla um Sjálfstæðisflokkinn sem öfgahægriflokk, sem kyndir undir foringjaræði, valdsdýrkun og þjóðernisstefnu sem leiðir til fasisma, með tilheyrandi ofbeldi gagnvart útlendingum og minnihlutahópum og þar fram eftir götunum? Nú brosir kannski einhver út í annað og hugsar með sér að foringjahollusta hafi í gegnum tíðina óvíða verið meiri en einmitt í Sjálfstæðisflokknum; og hann telst nú auðvitað hægri flokkur o.s.frv. En auðvitað er þetta í heildina alger skrumskæling sem heldur engu vatni. Allir á Íslandi þekkja fjórflokkinn, allir sæju í gegnum skrumskælinguna. Punkturinn er hins vegar sá að framsetningin væri samt óafsakanleg, þrátt fyrir leiðbeiningar um gagnrýninn lestur á efninu.

Ég vil taka skýrt fram að ég er ekki að segja að Bjarni Randver hafi afbakað viðhorfin sem Vantrú stendur fyrir í sama mæli og í þessu ýkta dæmi. Ég er bara að nota (viljandi) ýkt dæmi til að varpa ljósi á þá staðreynd að ef afbökunin er nægilega mikil, þá dugar ekki að afsaka sig með tilvísun til svona leiðbeininga um hvernig eigi að nálgast efnið. Um það eru væntanlega allir sammála, hvort sem allir eru nú sammála því eða ekki að Bjarni Randver hafi borið fram brenglaða mynd af Vantrú. En í tilviki Vantrúar (ólíkt t.d. einhverjum fjórflokknum) þá vita einmitt ekki allir fyrir hvað Vantrú stendur og það sjá ekki allir umsvifalaust í gegnum skrumskælingu (ef einhver hefur verið) á þeirra viðhorfum. Þess vegna má líka taka með varúð vitnisburði nemenda um að ekki hafi hallað á Vantrú í framsetningu Bjarna Randvers, því það er ekki víst að þeir hafi haft (eða hafi jafnvel enn) nægilega þekkingu til að leggja mat á það.

Geir Þórarinsson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 16:34

90 identicon

Geir, bara tvær spurningar í framhaldi af því sem þú segir og eingöngu fyrir mínar forvitnissakir.

Einu glærurnar sem ég hef séð eru þær sem Vantrú birti á vef sínum með greinargerðinni frægu.

1. Hefur þú farið yfir allar glærurnar?

3. Er hægt að nálgast glærurnar á Netinu einhvers staðar?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 22:59

91 identicon

Bergur: Nei, ég hef ekki farið yfir allar glærurnar hans Bjarna Randvers, bara þær sem Vantrú hefur birt. Ég hef ekki hugmynd hvort eða hvar hægt er að nálgast allar glærurnar.

Geir Þórarinsson (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 14:26

92 identicon

Svar til Einars Gísla, aths. nr. 88:

1. Ég þekki Bjarna Randver ekki neitt.

2. Ég skrifaði sögu Sögu Akraness, sem þú getur halað niður héðan: http://harpahreins.com/Saga_Sogu_Akraness.pdf

Þar fjallar ég um sagnaritun Akraneskaupstaðar frá því fyrstu hugmyndir um hana vöknuðu þótt aðaláherslan sé á þá tvo sagnaritara sem þáðu laun fyrir verkið, frá 1987 til vorsins 2011.

3. Mér er fyrirmunað að sjá nokkur tengsl milli orða sem ég hef látið falla um aðför ("kæru", "erindi", "heilagt stríð" eða annað orðalag, veljist eftir smekk) Vantrúar að Bjarna Randver og umfjöllunar minnar um sagnaritun á kostnað Akraneskaustaðar, sem að mestu er byggð á fundargerðum kaupstaðarins, afritum af samningum við báða sagnaritara bæjarins, sundurliðuðu yfirliti yfir kostnað bæjarins af sagnaritun frá 1987-2011 og fleiri opinberum gögnum fengnum frá Akraneskaupstað með formlegum hætti, fundargerðum bæjarins á skjalasafni og vef sama bæjar og örfáum blaðagreinum og viðtölum við sagnaritarana tvo, auk umfjöllunar minnar um bækur beggja sagnararitar. Raunar fjallaði ég einungis um mjög takmarkaðan hluta I. bindis Gunnlaugs Haraldssonar og tók einmitt skýrt fram að umfjöllunin gæti ekki talist hefðbundinn ritdómur því hún fjallaði einungis um fjórðung I. bindisins, þ.a.l. heitir hún "Fjórðungsdómur um 18 marka bók". Þessi dómur er ein af sautján upphaflegum færslum um sögu Sögu Akraness og er ekki aðalatriði í þessari færsluröð um sagnaritun kaupstaðarins.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband