Um Evu Hauksdóttur, Stóra Vantrúarmálið og pólitíska rétthugsun.

Eva Hauksdóttir birtir stundum beittar ádrepur. Nýlega tók hún fyrir Stóra Vantrúarmálið, sem svo hefur verið nefnt, og nefnist færslan Fram, fram, aldrei að víkja (pistillinn.is, 15. okt. 2012), en þar þykir mér henni bregðast bogalistin og vil gera við hana nokkrar athugasemdir.

Fyrst vil ég nefna að ég er hjartanlega sammála Evu um mikilvægi þess að berjast gegn gervivísindum og trúboði. Hins vegar tel ég skipta máli að það sé gert á siðferðilega traustum forsendum. Ég trúi ekki að tilgangurinn helgi meðalið í þeim efnum eða að illt skuli með illu út reka.

Ljóst er að samúð Evu liggur hjá Vantrú, enda sér hún ástæðu til að nefna það tvisvar í greininni. Ég er einn þeirra, sem hafa fylgst gaumgæfilega með þessu máli undangengið ár og haft úthald til að lesa flest það, sem um málið hefur verið skrifað á þeim tíma, sem og gögn langt aftur í tímann. Ekki sýnist mér Eva Hauksdóttir hafa kynnt sér málavexti ýkja vel út frá áðurnefndum pistli.

Evu verður tíðrætt um rétt Vantrúar til að skjóta máli sínu til siðanefndar. Hún orðar það m.a. svo: „Það er eitthvað gruggugt við afstöðu háskólafólks til akademísks frelsis, ef það flokkast sem ofsóknir að nýta ferli sem er sérstaklega til þess ætlað að fá úr því skorið hvort kennari hefur gerst sekur um ófagleg vinnubrögð og má einu gilda hversu mikla andúð kærandinn hefur á viðkomandi kennara." Og síðar bætir hún við: „Vantrúarmenn voru í fullum rétti með að kæra Bjarna Randver til siðanefndar."

Mér vitanlega hefur ekki nokkur maður á nokkru stigi málsins véfengt rétt Vantrúar til að kæra til siðanefndar. Ef Evu er kunnugt um þann, sem hefur véfengt þennan rétt, þá væri óskandi að hún benti á hann. Að öðrum kosti virðist tilgangur hennar með ofangreindum ummælum vera sá að vekja undarlegar grunsemdir um „afstöðu háskólafólks til akademísks frelsis" og tengja það við „eitthvað gruggugt".

Vert er að staldra við og rifja upp nokkra meginþræði þessarar harmsögu. Málatilbúnaður Vantrúar laut að notkun nokkurra glæra í kennslu. Allir kennarar, sem notað hafa glærur, vita að auðvelt getur verið að slíta þær úr samhengi eða túlka á einkennilegan hátt, ef ekki fylgja munnlegar útskýringar úr kennslustund. Sérstaklega á þetta við á þeim fræðasviðum, sem kenna má við túlkunarvísindi, en máske síður um raunvísindi. Umræddur kennari geymdi glærurnar á lokuðu vefsvæði innan Háskóla Íslands og ætlaði þær engum öðrum en nemendum námskeiðsins til skoðunar. En glærurnar komust í hendur Vantrúarmanna, að margra mati á vafasaman hátt. Síðan hófu Vantrúarmenn margra mánaða samblástur og undirbúning að stórfelldum kærum.

Sjálfur hef ég margoft skoðað þessar glærur - af vef Vantrúar sem er eini aðilinn, mér vitanlega, sem sett hefur þær í almenna dreifingu (sem ekki var ætlun kennarans). Sem alvanur notandi glærusýninga við kennslu get ég sagt að ég hefði sjálfur farið fram á nánari útskýringu einnar glæru, hugsanlega annarrar líka, en hinar hefði ég talið að allar mætti réttlæta með viðeigandi útskýringum í kennslustund.

En félagið Vantrú fór ekki þá leið að biðja um útskýringar eða leiðréttingu á kennsluefninu af hálfu kennarans sjálfs, eins og eðlilegt hefði mátt teljast. Þess í stað var hafinn mikilfenglegur málatilbúnaður, sem varla verður líkt við annað en stórskotaliðsárás: Lagðar inn 3 kærur hjá Háskóla Íslands (og þannig í reynd gengið framhjá hinu eðlilega fyrsta skrefi að leita til kennarans og fá útskýringar hans). Kærunum var fylgt eftir í sama mánuði með rækilegri útlistun á glærunum á vef Vantrúar, í fullkomnu heimildarleysi. Kærurnar tíunduðu hvert smávægilegasta gagnrýnisatriði, sem Vantrúarmenn gátu fundið, og mátti af því helst álykta að þeir væru klaksárir og vandlætingarfullir kórdrengir, sem ekki mættu vamm sitt vita, þegar þeir höfðu í reynd oft sýnt af sér harðfylgi og notað sóðalegt málfar í orðaskaki við andstæðinga sína. Þessi málatilbúnaður Vantrúar var svo langt utan allrar hófsemdarreglu að helst mætti líkja við að skjóta flugu með fallbyssukúlu.

Í fyrstu voru Vantrúarmenn sigurreifir. Töldu þeir engu varða þótt þeir nemendur, sem sóttu námskeiðið, hafi talið kennarann gæta fyllsta hlutleysis í umfjöllun um félagið á námskeiðinu. En málin tóku óvænta stefnu þegar siðanefnd HÍ gerðist sek um afdrifaríka handvömm og vegna þess að kennarinn fékk í hendur gögn af innra neti Vantrúar, þar sem sýnt var fram á að atlagan var rækilega skipulögð, ekki af vandlætingarfullri hryggð, heldur hömlulausri þórðargleði. Ég ætla ekki að rekja málavexti lengra; þeir sem áhuga hafa geta fræðst um það í umfangsmikilli umfjöllun á vef Vantrúar, vantru.is, og í afar rækilegri útlistun Hörpu Hreinsdóttur á harpa.blogg.is. Allt þetta efni hef ég lesið og margfalt meira til, til að kynna mér málið sem best.

Sumir hafa viljað ganga svo langt að líta á kærur Vantrúar, málafylgju og offors sem einelti gagnvart kennaranum og færir Harpa Hreinsdóttir t.d. allsterk rök í þá veru. Má í því sambandi benda á að málið var í gangi í tvö ár og átta mánuði, og hefur Vantrú séð rækilega um að halda því gangandi undangengið ár. Sjálfur var ég efins í byrjun hvort kalla mætti málið einelti, en eftir því sem málsgögn hafa afhjúpast og málið þróast sýnist mér ástæða til að fá þartilbæra opinbera aðila til að skera úr um hvort svo sé. Máske er ekki síst þörf á því í ljósi þess að kennarinn hefur verið fullkomlega hreinsaður af öllum áburði af Siðanefnd Háskóla Íslands.

Nýjasta útspil Vantrúar í þessari lönguvitleysu birtist á vef félagsins um síðustu helgi, en þá var þar þjófkenndur nafngreindur einstaklingur, sem á að hafa komist yfir trúnaðargögn félagsins, sem lágu á glámbekk þegar málið reis sem hæst, hraus hugur við atlögunni og orðfæri þar og kom þessum upplýsingum í hendur kennaranum, sem á þeim tíma átti í nauðvörn. Þessi þjófkenning Vantrúar vekur upp einkar margar spurningar í ljósi þess að hún kemur fram eftir að Siðanefnd Háskóla Íslands hefur hreinsað kennarann af áburði Vantrúar og eftir að lögreglan hefur vísað frá kæru Vantrúar þess eðlis að rannsakaður yrði stuldur á trúnaðargögnunum.

Eva Hauksdóttir hefur gefið sig út fyrir að vera ötull talsmaður þeirra sem eiga undir högg að sækja. En þegar kemur að íslenskum fræðimanni, sem sætir ágangi herskás félags í rækilega undirbúinni atlögu og er sýknaður af þartilbærum yfirvöldum, eftir að hafa varið óhemju tíma og fjárútlátum til varnar mannorði sínu, kennarastarfi og fræðimannsferli, þá liggur samúð hennar frekar með ofsækjandanum en hinum ofsótta. Af lestri pistils hennar mætti ætla að hún hafi mótað sér skoðanir, ekki með því að kynna sér málsatvik í þaula, heldur út frá eigin pólitíska rétttrúnaði. Til útskýringar skal nefnt að Eva skilgreinir í annarri bloggfærslu (Hvernig veit ég hvað feministar hugsa, pistillinn.is, 17. okt 2012) pólitískan rétttrúnað ágætlega á eftirfarandi hátt: „Pólitískur rétttrúnaður er það þegar hollusta við tiltekinn málstað verður heilbrigðri skynsemi yfirsterkari. Þeir rétthugsandi eru tilbúnir til að taka undir hvaða vitleysu sem er ef sá sem heldur henni fram er með þeim „í liði" og gefa vísvitandi rangar upplýsingar ef það er talið þjóna málstaðnum." Þessi útlistun sýnist mér eiga ágætlega við um ýmislegt í framferði Vantrúar í þessu undarlega máli. Og eftir þennan pistil Evu veltir maður fyrir sér hvort hann sé ritaður af fylgisspekt við tiltekinn málstað fremur en að kynna sér málið í þaula?

Að endingu vil ég nefna eftirfarandi: Í fyrstu þóttu mér Vantrúarsamtökin næstum virðingarverð. Síðar þóttu mér þau hlægileg. Þá hryggileg. Loks heimskuleg. Og í dag er ég kominn á þá skoðun að ofstækistrúleysi sé orðið jafnmikið - ef ekki meira - samfélagsmein og ofstækistrú.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takið eftir að Helgi leggur að jöfnu þetta vantrúarmál og svo ofstækistrú, rosalega trúarofstækisfull og talibanísk hugsun hjá Helga; Svona er það þegar menn eru partur af samfélagsmeininu sem trúarbrögð eru, menn eru of ástfangnir af sjálfum sér og meintu framhaldslífi til að sjá að meinið liggur í trúnni

DoctorE (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 13:29

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

DoctorE:

Þú ert nafnleysingi og þar af leiðandi ómerkingur í umræðunni.

Helgi Ingólfsson, 19.10.2012 kl. 14:14

3 identicon

Doctor ... Þetta umrædda Vantrúarmál gegn Bjarna snýst alls ekkert um trú. Þú heldur það bara.

Helgi ... ég vissi ekki af þessum pistli Evu og las hann því áðan. Mitt álit er að Eva er þarna að ræða það sem hún hefur séð og orðið vör við og gerir það hvorki á óheiðarlegan né ómálefnalegan hátt að mínu mati.

Hins vegar er ljóst að hún hefur ekki skoðað málið niður í kjölinn (tekur t.d. ekki tillit til að kærur Vantrúar voru algjörlega tilefnislausar) og því verður takmörkuð yfirborðssýn hennar á það skiljanleg.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 14:55

4 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Bergur (aths. 3):

Alveg sammála þér. Eva er yfirleitt málefnaleg og einn af mínum eftirlætisbloggurum, kannski á eftir Ómari Ragnarssyni og Kristni Theódórssyni. En þarna virðist færslan snúast um svona eg-held-með viðhorf, án þess að hafa kynnt sér málið rækilega, og finnst mér það miður. 

Helgi Ingólfsson, 19.10.2012 kl. 15:20

5 identicon

Hér svarar Noam Chomsky því hverjum augum hann lítur á kumpána eins og Sam Harris og Hitchens, en þeirra líkar eru í hávegum hafðir hjá Vantrúarhópnum. (hann byrjar eiginlegt svar 2:16, en formálinn er fallegur):

http://www.youtube.com/watch?v=zt9QCAUPPeY

Jóhann (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 22:20

6 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Þakkir, Jóhann, fyrir slóðina (aths. 5):

Ég hlýddi á myndskeiðið með Chomsky og fannst það býsna athyglisvert. Einnig horfði ég á nokkur myndbönd með Hitchens og Harris. Allir þrír eru þeir guðleysingjar, en munurinn virðist vera að Chomsky telur trú samt geta þjónað friðsömum og mannúðlegum tilgangi, en hinir ekki. Sjálfur get ég tekið undir með Chomsky - sem er líklega mesti núlifandi hugsuður - en hinir tveir virðast herskárri - málflutningur þeirra og dæmi er þó ekki án raka. Athyglisvert er þó hvernig þeir virðast allir beina spjótum sínum að islam - þeir eru síst að pönkast á kristni, ögn meira á gyðingdómi og mest á islam.

Helgi Ingólfsson, 19.10.2012 kl. 23:58

7 Smámynd: Skeggi Skaftason

Ég hef skoðað þessar glærur. Sem alvanur notandi glæra tel ég að þær sé nokkrar á gráu svæði. Verið að varpa myndum af nafngreindum einstaklingum upp á vegg og slíta í sundur tilvitnanir í orð þeirra, ýjað að því að lítill netspjall-klúbbur stuðli að ófriði og fordómum eins og gyðingahatri.

Ósmekklegt og kjánalegt, finns mér.

EF ég hefði setið í Siðanefnd hefði ég viljað kveða upp úrskurð um að þetta væru illa unnar glærur, en að kennarinn væri í fullum rétti til að nota þær, enda hefur hann mikið frelsi til að sinna kennslu sinni. Glærurnar hefðu þurfti að vera svæsnari til að teljast brot á siðareglum, að mínu mati.

En ég sit ekki í siðanefnd Háskólans. Og ekki heldur Helgi Ingólfsson.

Vantrú fór fram með nokkru offorsi. Getur það verið vegna þess, að þeir séu í raun í baráttu gegn guðfræðideildinni? Ríkisrekinni háskóladeild sem fyrst og fremst sinnir því hlutverki að unga út prestum fyrir trúfélag sem byggir á tiltekinni lífsskoðun og átrúnaði á yfirnáttúruleg fyrirbæri og ýmsar (en alls ekki eingöngu) siðferðislega vafasamar goðsögur?

Skeggi Skaftason, 20.10.2012 kl. 08:31

8 identicon

Skeggi, má ég spyrja þig ... hefur þú lesið þetta innra spjall þeirra Vantrúarmanna þar sem þeir eru að skipuleggja kærurnar á Bjarna?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 08:36

9 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll Skeggi (aths. 7):

Ég er næstum viss um að þú sért nafnleysingi og þar með marklaus í umræðu. Sannfærðu mig um annað, en ég skal láta þig njóta vafans þangað til.

----

Við rökflutning þinn má gera 4 athugasemdir:

1) Þú segir: "Ég hef skoðað þessar glærur. Sem alvanur notandi glæra tel ég að þær sé nokkrar á gráu svæði. Verið að varpa myndum af nafngreindum einstaklingum upp á vegg og slíta í sundur tilvitnanir í orð þeirra, ýjað að því að lítill netspjall-klúbbur stuðli að ófriði og fordómum eins og gyðingahatri.

Ósmekklegt og kjánalegt, finns mér."

Hér fellur þú nákvæmlega í sömu gildru og svo margir aðrir, að meta kennsluefnið eingöngu út frá grlærunum, óháð þeim málflutningi kennarans sem kann að hafa fylgt. Kennsla með glærum felst í fleiru en að "varpa myndum...upp á vegg".

-----

 2) Síðan segir þú (og rétt er að benda á hið stóra "EF" sem þú lætur fara fremst: "EF ég hefði setið í Siðanefnd hefði ég viljað kveða upp úrskurð um að þetta væru illa unnar glærur, en að kennarinn væri í fullum rétti til að nota þær, enda hefur hann mikið frelsi til að sinna kennslu sinni. Glærurnar hefðu þurfti að vera svæsnari til að teljast brot á siðareglum, að mínu mati.

En ég sit ekki í siðanefnd Háskólans. Og ekki heldur Helgi Ingólfsson."

Einmitt. Hvorugt okkar sat í Siðanefnd og hvorugu okkar ber að dæma (á þetta hefur Vantrú alltaf lagt áherslu á). Siðanefnd hefur fellt sinn fullnaðarúrskurð og hann ber að virða. Vantrú hefur hins vegar hegðað sér eins og ásækjandi, dómari og böðull í öllu þessu máli - og ekki hætt eftir málalok.

-----

3) Þú segir fremst í athugasemd þinni að þú sért "alvanur notandi glæra". Hvort er það sem höfundur þeirra eða sem nemandi? Hér er nefnilega mikill munur á; höfundur glæra ber ábyrgð á framsetningu glæranna. Sem kennari hef ég sjálfur stórlega dregið úr glærunotkun minni eftir að Stóra Vantrúarmálið kom upp - maður veit aldrei hverjum maður gæti troðið um tær.

-----

4) Þú segir að lokum: "Vantrú fór fram með nokkru offorsi. Getur það verið vegna þess, að þeir séu í raun í baráttu gegn guðfræðideildinni? Ríkisrekinni háskóladeild sem fyrst og fremst sinnir því hlutverki að unga út prestum fyrir trúfélag sem byggir á tiltekinni lífsskoðun og átrúnaði á yfirnáttúruleg fyrirbæri og ýmsar (en alls ekki eingöngu) siðferðislega vafasamar goðsögur?"

Hér kemur þú, held ég, að kjarna málsins, sem ekki má nefna, hinum augljósa fíl, sem allir láta eins og sé ósýnilegur. Vantrú á í rauninni í baráttu gegn guðfræðideildinni. Að mínu mati bjó nefnilega ekki (nema mögulega að afar litlu leyti) persónuleg móðgun - aðalatriðið var að koma höggi á tiltekinn meginandstæðing. Það eitt getur útskýrt allan atgang félagsins í þessu ótrúlega máli. Kærurnar áttu nefnilega fyrst og fremst að vera eitt stórkostlegt auglýsingar-stönt til framdráttar félaginu, óháð því hvaða peðum kynni að vera fórnað í ferlinu. Sú blaðra sprakk hins vegar laglega í andlitið á þeim - og verði þeim að góðu.

Helgi Ingólfsson, 20.10.2012 kl. 11:18

10 identicon

Ég er sammála því að Eva hafi skotið yfir markið í þessari færslu enda byggði hún á yfirborðskenndri vitneskju en hafði ekki lagt á sig að skoða mál ofan í kjölinn. Sumir félagsmenn í Vantrú halda að Eva Hauksdóttir sé þeirra málpípa og túlka pistla hennar þannig, sjá t.d. athugasemd Matthíasar Ásgeirssonar við færsluna Að klæða virðingarleysi í kurteislegan búning. Ég held að þetta sé dálítill misskilningur Matthíasar.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 09:46

11 identicon

Og ég er búin að fara gegnum sama fasann og þú, Helgi, hvað varðar viðhorf til félagsins Vantrúar. Akkúrat núna er mér aftur farið að finnast umfjöllun á vef Vantrúar fyndin ;)

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 09:48

12 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jamm, Harpa mín, eiginlega finnst mér þetta líka orðið heldur grátbroslegt allt saman. Þessi krúttkynslóðar-aktívismi er bara kominn út í soddan vitleysu. Hann gengur út á að hinir meintu aktívistar megi bölsótast til vinstri og hægri og ata auri þá sem þeim sýnist - og síðan grenja þeir og klaga, ef einhver svo mikið sem andar á þá á móti. Og blása saman grenjukór. Sveiattan barasta.

Helgi Ingólfsson, 30.10.2012 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband