Nálús handa framhaldsskólakennurum

Í komandi viku fer fram atkvæðagreiðsla um samkomulag Félags framhaldsskólakennara við menntamálayfirvöld. Samkomulagið felur í sér að launahækkun framhaldsskólakennara verði 2% í desember 2012 og 1% í desember 2013. Í útborguðum launum þýða þetta um 4.000 kr. í fyrra skipti, en um 2.000 kr. í því síðara. Verðbólga undangengna 12 mánuði hefur verið yfir 4% og þykir lágt, en ef gert er ráð fyrir lágmarksverðbólgu samanlagt um 8% næstu 2 ár, þá væru framhaldsskólakennarar með samningnum að samþykkja 5% launalækkun. Þetta er forysta Félags framhaldsskólakennara reiðubúin til að fallast á fyrir hönd umbjóðenda sinna, þrátt fyrir að segi í bókun við kjarasamning framhaldsskólakennara frá 2011 að sporna skuli gegn „óheppilegri launaþróun". Er virkilega skilningur forystu Félags framhaldsskólakennara að með þessu sé barist gegn óheppilegri launaþróun? Ég hefði haldið að með svona samningi væri haldið áfram á sömu ólánsbraut. Og fyrir þessa sultarögn hyggjast menntayfirvöld kaupa sér jákvæði framhaldsskólakennara fyrir innleiðingu nýrra framhaldsskólalaga. Inni í samkomulaginu felst m.a. einnig að ráðist verði í nýja vinnutímaskilgreiningu framhaldsskólakennarastarfsins, sem þarf að gerast í miklu stærra samhengi en því sem hér er boðað. Athyglisvert er um eitt atriði samningsins að honum er talið til tekna að kennurum skuli greitt fyrir störf vegna innleiðingu laganna, sem þýðir væntanlega að kennarar eigi að vinna aukna vinnu - og megi helst þakka fyrir að fá borgað fyrir hana!

Ég skora á framhaldsskólakennara að segja nei við þessu smánarsamkomulagi. Tryggjum fyrst að hinni óheppilegu launaþróun verði snúið við. Að öðrum kosti: Sjáum hvernig reiðir af með innleiðingu nýju laganna án samstarfs við framhaldsskólakennara, frekar en að láta kaupa okkur fyrir nálús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Heyr, heyr!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.11.2012 kl. 14:46

2 identicon

Er þá ekki eina ráðið að koma sér upp nábrók?  Ja, svona ef við viljum ekki nálúsina?

Lyftustjórinn (IP-tala skráð) 11.11.2012 kl. 21:59

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Tja, lyftustjóri ... velta aurarnir ekki inn skv. þjóðtrúnni, ef maður klæðist nábrók? Máske er heillaráð að FF útdeili slíkum flíkum - þá þurfa umbjóðendurnir ekki frekar að kvarta undan skorti. Svo gætu þau náttúrlega líka látið okkur hafa gæsir sem verpa gulleggjum ...

Helgi Ingólfsson, 12.11.2012 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband