Talnaþraut

Hugsaðu þér töluUm þarsíðustu helgi fór fram býsna merkileg bókmenntaráðstefna, sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis, um glæpasögur, undir nafninu Iceland Noir. Var hún að flestu leyti feikivel undirbúin og eiga þeir, sem að henni stóðu, heiður skilinn fyrir elju og ósérplægni. Að öðrum ólöstuðum held ég að hvatamaðurinn, Ragnar Jónasson, hafi borið hitann og þungann. Sem við var að búast hlaut ráðstefnan litla umfjöllun í fjölmiðlum, enda bókmenntaprelátar og -hofróður bæjarins uppteknari af að dásama ný, meint öndvegisskáldverk.

Þegar ég mætti á umrædda ráðstefnu gaukaði Ragnar að mér tveimur glæpakiljum og virtist önnur nógu áhugaverð til að lesa hana án tafar og skjóta henni þar inn á milli meintra alvörubókmennta. Sagan sú heitir Hugsaðu þér tölu, er frumraun Bandaríkjamannsins Johns Verdon og kom út ytra árið 2010.


Hugsaðu þér tölu greinir frá fyrrum ofurlöggunni Dave Gurney, sem nýlega er kominn á eftirlaun tæplega fimmtugur (!) og hefur flust frá Stóra eplinu til dreifbýlis við Catskills-fjöll í uppsveitum New York-fylkis – en í raun mun hið sama eiga við um höfundinn Verdon, sem áður var mógúll í auglýsingabransanum í stórborginnni, en var nýfluttur á sömu slóðir, þegar hann hætti í sínum bransa og tók að skrifa bækur, orðinn nokkuð roskinn.

Sagan hefst á því að gamall félagi Gurney frá háskólaárum hefur samband við hann, er hann kemst að því að löggan fyrrverandi hefur flust í sveitina sem hann býr í, en félaginn hefur afar sérkennilegt mál að glíma við. Ókunnugur hefur sent honum bréf þar sem honum er boðið að hugsa sér tölu á bilinu einn og þúsund. Og viti menn – meðfylgjandi í umslagi er miði með nákvæmlega þeirri tölu.

Efnileg byrjun, nema hvað hún er ívið langdregin - byrjunin fyrst og síðan bókin öll. Efnið er ekki veigameira en svo að það endist vart þær rúmu fjögur hundruð blaðsíður sem lesa þarf. Jafnvel þótt fjórir hafi verið myrtir áður en yfir lýkur. Sagan fer svo þunglamalega af stað að hún nær engu flugi fyrr en drjúgur þriðjungur er að baki. Þá reynist hún eins og einn þokkalega bitastæður sjónvarpsþáttur samanvöðlaður úr Criminal Minds, NCIS og Psycho.

Einn meginókostur bókarinnar er langdreginn og ofurraunsæislegur stíll á köflum. „Hann skrúfaði frá eldhúskrananum, lét vatnið renna uns það varð nægilega kalt, sótti sér glas í skápinn fyrir ofan eldhúsborðið, fyllti það upp að barmi, teygaði stórum vatnið svo að barkakýlið gekk upp og niður, skrúfaði fyrir og lagði glasið í eldhúsvaskinn í stað þess að setja það í uppþvottavélina eins og hann var vanur.‟ Einhvern veginn á þennan veg hljóma leiðinlegustu vífillengjurnar, þegar hægt hefði verið að segja: „Hann fékk sér vatnsglas.‟ Töluvert rými fer í persónuleg mál Gurneys og er þar sumt gott og annað síðra. Hann býr með seinni konu sinni, Madeleine, og þau dragnast með beinagrind í skápnum. Með fyrri konu á Gurney uppkomna soninn Kyle, sem gert hefur það gott á framandi slóðum í fjármálaheiminum, býsna fjarlægur drengur framan af, en svo dúkka mál hans óvænt upp nærri bókarlokum, með fréttum sem lesandanum finnst með ólíkindum að berist Gurney á þann hátt sem þær gera. Með símtali, reyndar - og í sjálfu sér er með ólíkindum hve stór hluti sögunnar gerist í símtölum; ég held að ég hafi aldrei lesið bók með fleiri símtölum. En það endurspeglar líklega samtímann betur en nokkuð annað – nútímamaðurinn eyðir hálfum deginum í síma. Að sama skapi verður fyrir vikið ótrúverðugt hve erfitt sonurinn Kyle á með að ná sambandi við föður sinn, þegar allir aðrir virðast hafa greiðan aðgang að honum í gegnum símann. Hvert símtalið tekur við af öðru – Gurney er vart búinn að leggja á, þegar aftur er hringt. Og hafi hann verið utan símasambands bíða hans skilaboð í runum á símsvaranum.

Annar galli sögunnar er að látið er ógert að fylgja þræði, sem fram kemur strax í upphafi, og leiðir um síðir til lausnar gátunnar. Ef Gurney eða lögreglan hefðu haft hugsun eða nennu til að rekja það spor frá byrjun hefði mögulega mátt bjarga mannslífum – en sem betur fer drapst fólkið bara í bók, en ekki í alvörunni. Þá má nefna að alloft er farið út í persónulýsingar í gegnum samanburð við kvikmyndir – sjálfur líkist Gurney engum öðrum en Robert Redford úr Butch Cassidy and the Sundance Kid. Á móti má nefna að Verdon tekst líka á köflum býsna vel með upp með persónugallerí sitt; karakterar af lögreglustöðinni eru skrambi skemmtilegum dráttum dregnir og sumir beinlínis eftirminnilegir. Sama máli gegnir um eiginkonuna Madeleine, sem er furðu dulúðug og tvíræð. Að sumu leyti er engin nákomnari Gurney, en á sama tíma verður hann að horfast í augu við að enginn maður getur nokkurn tíma að fullu þekkt aðra persónu; hún kemur stöðugt á óvart, á jákvæðan og neikvæðan máta. Enn má nefna þann galla að rökréttasta skýringin á ráðgátunni reynist rétt, en samt dettur engri löggu hún í hug fyrr en dregur nær bókarlokum. Þótt Gurney eigi að vera ofursnjall, þá fannst mér vanta í hann blaðsíður þegar kemur að slíku hyggjuviti. Loks má minnast á að sjálf kúlmínasjónin í lokin reynist heldur bragðdauf, fyrirsjáanleg og með þeim óþarfa að morðinginn, sem fram að þessu hefur gengið hiklaust og fumlaust til verks í drápum sínum, gefur sér tóm, tíma og tækifæri til að útskýra allt sem að baki liggur – og kemur þar við sögu annar lögregluforingi, John Nardo, sem virðist fádæma skilningssljór og áttar sig ekki á neinu fyrr en löngu eftir að lesandinn skilur allt.

 

Samt. Þegar öllu er á botninn hvolft er Hugsaðu þér tölu samt engan veginn slæm bók – hún er, held ég, nokkuð yfir meðallagi glæpabóka af þessum toga. Hundrað blaðsíðum styttri hefði hún getað verið verulega sterk - og samt ekki misst neitt, sem ekki er óþarft.

-----

P.S. Ég biðst velvirðingar á tvískiptri leturgerðinni. Svona gerist, þegar tölvurnar taka að hugsa sjálfstætt.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband