Af refsigirni

Ég er mjög hugsi yfir þeim fréttum gærdagsins að ríkissaksóknari hafi lagt fram ákæru á hendur heilbrigðisstarfsmanni, sem og spítala, vegna mistaka í starfi, sem leiddu til þess hörmulega atburðar að sjúklingur lést. Nú er svo að sérstaklega er mikil þörf á aðgæslu og nákvæmnum vinnubrögðum í heilbrigðiskerfinu, þar sem mistök geta reynst afdrifarík og jafnvel banvæn, eins og virðist hafa átt sér stað í þessu sorglega tilfelli. Hins vegar er svo að aldrei er hægt að byggja upp mistakalaust samfélag, sama á hvaða sviði er, og mistökin eru með því mikilvægasta sem skilgreinir mennsku okkar allra. Allir gera mistök – starfsmenn ríkissaksóknara líka. Mér vitanlega telur enginn viðkomandi heilbrigðisstarfsmann hafa valdið mannsláti af ásetningi (ef um slík tilvik væri að ræða, væri það allt önnur umræða). Hér er því í sjálfu sér fyrst og fremst um að ræða spurningu um hvar ábyrgð liggi í málinu.

 

Já, hver ber mesta ábyrgð fyrir því hvernig komið er fyrir heilbrigðiskerfinu, með látlausum niðurskurði og viðstöðulausri og nánast ómanneskjulegri kröfu um hagræðingu? Það er einfaldlega ríkisvaldið, nánar tiltekið hið háa Alþingi, sem ákveður fjárveitingar til þessa málaflokks. Þar hefur á undangengnum árum og jafnvel áratugum verið skorið við nögl, sem leitt hefur til lægri launa starfsfólks, versnandi starfsumhverfis og ómanneskjulegs vinnuálags. Er það ekki fjárveitingarvaldið, sem ætti að sitja hér á sakamannabekk, frekar en ógæfusamur heilbrigðisstarfsmaður? Er eitthvað því til fyrirstöðu að ríkissaksóknari bæti við þeim Alþingismönnum, sem samþykktu naum fjárlög til heilbrigðismála fyrir árið 2012 – árið sem mistökin áttu sér stað – í hóp ákærðra í þessu máli? Jafnvel má fara lengra aftur í tímann og tína til alla þá Alþingismenn, sem mundað hafa niðurskurðarkuta í heilbrigðismálum. En ríkissaksóknari hefur bara þröngan skilning á ábyrgð, orsök og afleiðingu, eða hvað?

Það er athyglisvert að fréttin um ákæru ríkissaksóknara birtist sama dag og greint var frá í fréttum að dómur yfir kynferðisbrotamanni hefði verið skilorðsbundinn í undirrétti vegna dráttar í málsmeðferð hjá ríkissaksóknara. Á þeim tíma, sem dráttur varð á undirbúningi í máli kynferðisbrotamannsins, var væntanlega verið að undirbúa kæruna gegn heilbrigðisstarfsmanninum eða hvað? Segir þetta okkur eitthvað um forgangsröð hjá embættinu? Er þetta sú afgreiðsla sakamála, sem við viljum sjá í framtíðinni?

Benda má á að það eru ekki nafnlausir embættismenn, sem taka ákvörðun um að ákæra heilbrigðisstarfsmanninn og spítalann. Þetta eru nafngreindir einstaklingar í háttsettum embættum. Vafalítið er það gert í góðri trú og á grundvelli túlkunar embættisins á tilteknum lögum, en bent hefur verið á að ákvörðun um þessa ákæru geti valdið grundvallarbreytingum á samfélagsgerðinni sjálfri. Í ljósi þess, væri þá ekki eðlilegt að fram færi umræða í samfélaginu um slík grundvallaratriði og að umræddir embættismenn útskýrðu hvað liggi að baki þessari kæru? Til dæmis mætti ræða, hvers vegna er kært núna, ef ekki hefur svo verið gert út af mistökum fyrri ára? Hafa orðið einhverjar þær breytingar á lagaumhverfinu sem réttlæta það?

En nú er víst af stað farið og hverjar verða afleiðingarnar? Svo fremi sem málið verði ekki látið niður falla, sem máske er heilladrýgsta ákvörðunin úr því sem komið er, getur niðurstaða eingöngu orðið á tvo vegu: Sekt eða sýkna. Verði sakborningar sýknaðir, þá hljóta þeir að geta höfðað miskabótamál gegn ríkinu fyrir rangar sakargiftir – og ef mál færu svo að þeim yrðu dæmdar bætur, væri þá ekki eðlilegast að taka þær af fjárveitingum ríkissaksóknaraembættisins vegna handvammar (rétt sisvona til að kóróna hringavitleysuna)? Og til að halda gálgahúmornum áfram: Ef svo færi að sýknað væri, væri þá ekki eðlilegt að ríkissaksóknari höfðaði mál gegn sjálfum sér vegna kostnaðarsamra mistaka með framlagningu tilefnislausrar ákæru?

Ef á hinn bóginn færi svo að starfsmaðurinn og spítalinn yrðu fundnir sekir, mun það vafalítið leiða til þess að færri muni leita í hjúkrunarstörf í framtíðinni, erfiðara verður að manna sjúkrahús með fagfólki og mögulega verður fjölgað þar ófaglærðu starfsfólki vegna eklu – ef einhver fæst þá til að ráða sig til slíkra starfa. Svo má einnig velta fyrir sér áhrifum á aðrar stéttir opinberra starfsmanna; þarf þá ekki í framtíðinni að saksækja lögreglumenn, slökkviliðsmenn, kennara og fleiri opinbera starfsmenn fyrir margvísleg mistök, minni og stærri, sem þeim geta orðið á í starfi? Eða fara ákærur af þessum toga mögulega eftir geðþóttaákvörðun saksóknaraembætta? Er þessi málatilbúnaður ríkissaksóknara líklegur til að efla illa launaðar og vinnuþrælkaðar grunnstéttir samfélagsins? Mun fólk ekki flykkjast í slík störf eftir svona vasklegu framgöngu ríkissaksóknara?

Hitt er svo augljóst að verði dæmt til sektar í þessu tiltekna og hörmulega máli, þá má búast við að reynt verði í auknum mæli að fela mistök opinberra starfsmanna, heilbrigðisstarfsfólks og annarra, þræta fyrir þau eða þagga niður, fremur en að draga lærdóm af. Draumsýn um mistakalaust samfélag getur aldrei orðið að veruleika og síst með þessari nýstárlegu ákæru. Ég tek undir þau orð Ögmundar Jónassonar að hér sé af stað farið með siðferðilegt og samfélagslegt glapræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þökk Helgi Ingólfsson, því að þetta sem þú segir er það sem vantaði í þessar ræður um þetta mál.

Sá sem rekin er áfram með svipu er vís til að gera mistök.  Hafa verður í huga að mistök eru ekki ásetningur eins og það sem menn gera af yfirvegiðuráði og líka á stundum af kæruleysi eða gantaskap og nefnast þá afglöp.

En fari þetta mál fyrir Íslenska dómstóla, þá skiptir það öllu hvort yfirboðararnir voru með svipu eða lurk.

Hvort starfsmaðurinn lifi af andlega, kemur stjórnkerfinu ekkert við, það verður bara einum færra á launaskrá.       

 

Hrólfur Þ Hraundal, 22.5.2014 kl. 17:35

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Takk fyrir innleggið, Hrólfur.

Nú eru meiri upplýsingar komnar fram í þessu hörmulega máli og virðist ekki þurfa að fara í grafgötur með að mistök hafi verið gerð.

Ég hegg hins vegar eftir því að umræddur starfsmaður var að koma beint af dagvakt yfir á næturvakt á gjörgæslu. Þá hlýtur að liggja beint við að spyrja augljósrar spurningar: Hvers vegna er starfsmönnum í slíkum ábyrgðarstöðum, þar sem líf fólks er í húfi, ekki greidd nægjanlega há laun til að þeir geti mætt úthvíldir til sinna mikilvægu starfa? Er það semsagt álit ríkissaksóknara að þessi harmleikur hefði gerst, óháð því vinnuálagi sem hjúkrunarfræðingar mega sæta til að hafa í sig og á? Hvað varð um hugmyndina um mannsæmandi laun fyrir eðlilega vinnu, hvað þá fyrir störf þar sem líf er að veði? Og hefur það gleymst að einmitt næstu mánuði eftir þetta hörmulega slys áttu hjúkrunarfræðingar í einkar harðvítugri kjarabaráttu og ekki að tilefnislausu?

Ég fæ ekki séð að stjórnvaldið í þessu tilfelli þjóni neinu samfélagslegu réttlæti. Þvert á móti virðist valdið þjóna þeim tilgangi að búa til ómannúðlegra samfélag. Og það á 21. öld.

Helgi Ingólfsson, 22.5.2014 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband