Kressandi bókmenntaumfjöllun

Atarna! Þar hefur mér tekist það sem mörgum rithöfundum þykir svo skemmtilegt - að smíða nýyrði, samsett úr orðunum „krassandi" og „hressandi".

 

Annars er tilefni þessa pistils að bera blak af vesalings Hallgrími, sem fékk ærlega á baukinn í gær - og aftur í Morgunblaðinu í morgun. Vegna góðrar skáldsögu, Konunnar við 1000 gráður, bókar sem veitir fádæma innsýn í erfitt hlutskipti kvenna fyrr sem nú. En laun heimsins eru vanþakklæti og nú hefur mæðraveldið reitt hátt til höggs gegn skáldinu. Núna þarf að ritskoða höfundarskömmina, eins og nýlega var einnig stungið upp á varðandi þjóðskáldið, nafna hans. Ekki verður annað sagt en að þau tíðkist, breiðu spjótin, í bókmenntaumræðunni í dag, en skemmst er að minnast rithöfundar, sem ræddi um að „afhausa afturhaldskerlingu" úr röðum gagnrýnenda, sem stóð sig ekki í stykkinu að hans mati. Er ekki bókmenntaumræða á Íslandi komin út á tún?

 

Ég veit að ýmsir, þar á meðal ég sjálfur, telja Hallgrím fremstan núlifandi íslenskra rithöfunda. En mæðraveldið skeytir þar engu um og veltir fyrir sér hvort mikilvægara sé að vera góður rithöfundur eða góð manneskja. Til samanburðar hafi Laxness jú oft notað raunverulegar lifandi fyrirmyndir að sögupersónum sínum, en ætíð farið mjúkum höndum um þær (Hannes Hólmsteinn Gissurarson sýnir þó kostulega í stuttri bloggfærslu á Pressunni.is að slík helgimynd af Laxness standist enga skoðun).

 

Dauðasök Hallgríms í Konunni við 1000 gráður er að hafa notað raunverulega konu til hliðsjónar við sköpun aðalsöguhetjunnar. Aldrei eitt augnablik, meðan ég las bókina, flaug mér í hug að líta á þær sem eitt og hið sama, raunverulegu konuna og sköpunarverk höfundarins. Það liggur í eðli alls skáldskapar að hann styðst við einhvern veruleika, en jafnframt og um leið að hann víki frá þeim veruleika. Ef lesendur - jafnvel fræðimenn - eru svo skyni skroppnir að sjá ekki þennan greinarmun á veruleika og skáldskap, þá hlýtur að vera afskaplega illa komið fyrir bókaþjóðinni.

 

Ekki veit ég hvort gagnrýni kvenna- og kynjafræðinga á bókina Kona við 1000 gráður skili nokkru vitrænu fyrir bókmenntaumræðu í landinu. En vonandi verður hún til þess að sem flestir lesa bókina til að móta sér sjálfstæða skoðun. Þá held ég að ýmsir sjái að þetta er býsna góð bók.

 

Til að vitna í lokin í Konuna við 1000 gráður: „Fátt er svo illt sem vondra manna gæska." Og ef menn vilja hneykslast á einhverju í bókinni (sem ég geri ekki), þá sting ég upp á að þeir byrji á Lone Bang.


Bloggfærslur 4. maí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband