Vatnsberar og vaskakerlur í Vonarlandi

Ég kláraði nýlega Vonarlandið eftir Kristínu Steinsdóttur og þótti hin dægilegasta lesning, þótt ekki komist hún í hálfkvisti við Ljósu sama höfundar. Vonarlandið greinir frá nokkrum aðkomukonum í Reykjavík, sem þurfa að hafa í sig og á með erfiðisvinnu á borð við þvotti í Laugunum, kolaburði, saltfiskvaski og vatnsburði. Þótt hvergi sé nefnt ártal í bókinni, má ráða af atburðum að hún gerist mestmegnis á árunum 1871-74 út frá vísun til atburða, frá bólusóttarsjúklingunum frönsku, sem settir voru í einangrun í Biskupsstofunni yfirgefnu í Laugarnesi, og rétt fram yfir konungskomuna frægu.

Bókin veitir bráðskemmtilega og samúðarfulla innsýn í erfiðisstörf kvenna á þeim tíma, einkum við þvotta í Laugunum og við vatnsburð. Annars er sögusviðið um sumt óljóst enda virðist stílbragð að sneiða hjá því að nefna hlutina réttum sögulegum nöfnum. Þannig heitir kirkja í Reykjavík bara „kirkjan“ (þar til allt í einu við konungskomuna hún fer að heita „Dómkirkjan“); læknirinn heitir bara „læknirinn“ (og óljóst hvort það er Hjaltalín eða Jónassen, sem báðir störfuðu í Reykjavík á þessum árum); fógetinn er bara „fógetinn“, í bókinni bæði strangt yfirvald og fjölþreifið til vinnukvenna og vona ég að þar sé ekki vegið að þeim sómamanni Árna Thorsteinsson, bróður Steingríms, sem á þessum árum var í senn bæjar- og landfógeti, ef ég man rétt. Sumar persónur eiga sér bersýnilega raunverulegar fyrirmyndir, en eru þá rækilega stíl- og staðfærðar; þannig virðist skoski hrossakaupmaðurinn Stonehill byggður á hinum raunverulega Coghill, nema hvað sá fyrrnefndi er hávaxinn, rauðbirkinn og hrokkinhærður, en Coghill var lágvaxinn og svartur á brún og brá.

Eitt helsta sögusvið bókarinnar er bærinn þar sem konurnar búa, Litlakot, en ekki er ljóst hvar í Reykjavík það er, þótt helst mætti gera ráð fyrir að væri uppi í Grjótaþorpi eða vestur með Hlíðarhúsastíg, þar sem um þurrabúð er að ræða. En ef Litlakot á að vera svo vestarlega í bænum, þá þykir mér heldur ósennilegt að Jóka beri vatn úr hinu síðra vatnsbóli í Bakarabrekkunni, þegar betra vatnsból er henni miklu nær þar sem er Prentsmiðjupósturinn (við Aðalstræti).

Um suma hluti þótti mér máske ekki gæta nægilegrar sögulegrar nákvæmni. Þannig er næturvörður í Reykjavík (sem ber gaddakylfu og hrópar tíma dagsins á slaginu, þótt ég telji að hvoru tveggja hafi verið aflagt upp úr 1850), en látið sem lögregluþjónar bæjarins hafi ekki verið til og voru þeir þó orðnir tveir um 1870, Jón Borgfjörð og Alexíus. Og bágt á ég með að trúa að landshöfðinginn hafi fengið vatn sitt úr Bakarapóstinum (sem stóð nokkurn veginn þar sem Núllan er í Bankastræti í dag), því að vatn þaðan þótti miklu síðra en vatnið neðan úr Prentsmiðjupósti. Og heldur er mér hulin ráðgáta hvernig hægt er að sigla með hrossaflutningsskipi til útlanda og frílysta sig þar uppi á dekki án þess að heyrist hneggur, frís eða fnæs úr bykkju. Svo má nefna að sú knæpa bæjarins, sem sögupersónur sækja í, er Svínastían, stundum kölluð Stían, en ég er næsta viss um að það nafn komst ekki á fyrr en eftir að Halberg vert hafði tekið við af Jörgensen látnum eftir 1877 og þó einkum eftir 1880 (sbr. æviminningar Ágústs Jósefssonar), svo að um dálitla tímaskekkju er að ræða.

Nóg um það. Dálítið kaflaskipt er hvernig horft er á karla eða konur í bókinni og liggur samúðin öll með þeim síðarnefndu. Margir karlar í bókinni eru illa innrætt fúlmenni, en sumir heldur hlutlausir, einkum ef þeir eiga í tilhugalífi við einhverja kvennanna. Helst er að hinn breski Stonehill virðist góðhjarta, síhossandi barni, en hann er sumpart óljós bakgrunnspersóna og segir fátt, enda útlenskur. Konurnar mynda á endanum hálf-feminíska kommúnu, margar brenndar af svikum karlmanna eða bara af harðneskju lífsins. Þær sjálfar gerast brotlegar við lög, en geta réttlætt það fyrir sjálfum sér og virðist í lagi í augum sögumanns, enda ná þær á endanum að snúa á yfirvaldið. Boðskapur bókarinnar, þegar upp er staðið, virðist sá að ef konur standi saman geti þær sigrast á á öllum hindrunum – jafnvel karlaveldinu. Sjálfar eru konurnar dregnum missterkum dráttum – hin eftirminnilegasta er Guðfinna, stórvaxin, nautsterk, ókvenleg, en þó ekki án vonbiðla. Annars eru það aukapersónurnar við vatnspóstinn, sem stela senunni, einkum Jón dauði, sem álpast til að gera skemmtilega furðulega hluti.

Niðurstaða? Læsileg skáldsaga, býsna góð á köflum, en varla stórvirki.

–---
P.S. Aðeins fór titillinn fyrir brjóstið á mér. Hann á að vísu tilvísun inn í texta verksins, en … einhvern veginn sá ég hann sem samsuðu af Vonarstræti Ármanns Jakobssonar og Draumalandi Andra Snæs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Æ æ æ æ! Enn og aftur verð ég að biðjast velvirðingar, nú á þeim hörmungum sem Moggabloggið bætir sjálfkrafa í textann. Ég hef beðið með þennan ritdóm í 3 vikur vegna þess að ekki er hægt að líma inn (tilbúinn ritdóminn) í núverandi Moggablogg í grafískum ham. Á endanum ákvað ég að taka sénsinn með html-ham. Og þetta er útkoman. Líklega skynsamlegast að hætta með ritdóma hérna - kerfið ræður augljóslega ekki við þetta. Biðst aftur velvirðingar.

Helgi Ingólfsson, 4.12.2014 kl. 09:21

2 identicon

Ég er líka búin að lesa bókina og er algerlega sammála þér - hin dægilegasta lesning en stendur Ljósu langt að baki. Sjálf lét ég ekki sögulegar staðreyndir trufla mig nema ég tékkaði á því hvort þvottaklemmur hefðu verið til. Þær voru til.

Eftir að hafa lesið talsvert um lífið í Rv. á þessum tíma (snifsi hér og snifsi þar og ágætar bækur á borð við Þegar kóngur kom og Minningar Guðrúnar Borgfjörð) er ég nokk sátt þótt allt passi ekki upp á punkt og prik með ytri tímann. Fyrir margt löngu las ég yfir handrit að leikriti eftir þær systur Steinsdætur sem fjallaði um vatnsberana í Reykjavík og fannst ég kannast við persónur þaðan. Man hins vegar ekki hvort leikritið var nokkurn tíma sett á svið, það eru risastórar eyður hér og hvar í þeim skráageymslum heilans sem kallaðar eru minni; líklega hafa vísindalegar læknisaðgerðir aðallega fólgist í aðgerðum sem kallast delete á tölvumáli.

Enn eitt: Ég hef aldrei séð moggabloggsumhverfið en sé þetta eitthvað líkt öðrum sortum er líklega vænlegast að líma hreinan texta inn í HTML-ritilinn, svissa svo um viðmót og afrita gæsalappir þar inn (ef þú vilt íslenskar gæsalappir). Ef þú semur texta í Word er oft best að afrita hann, líma í Notepad (hreinan textaritil), afrita Notepad textann og líma í "text editor" eða "html-editor" eða hvað þetta nú heitir á moggablogginu, til að tryggja að uppsetningin fokkist ekki upp. Og íslenskar gæsalappir eru hvort sem er bara húmbúkk og dönskusletta, ef ég man rétt.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 7.12.2014 kl. 23:23

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Takk fyrir innlitið, Harpa, og kærar þakkir fyrir heilræðin. Ég þarf að reyna þetta á einhvern af uppsöfnuðum ritdómum mínum. Annars legg ég til að talið verði fínna að nota margvísleg óræð - og óíráðanleg - tákn sem koma úr textadjúpi tölvunnar og vér dauðlegir menn skiljum ekki.

Helgi Ingólfsson, 8.12.2014 kl. 15:23

4 identicon

Ágæti Helgi.

Á blaðsíðu 23 segir frá því er Stefaníu dreymir fyrir því að árið 1871 yrði gott ár. Það gengur reyndar ekki eftir, en þar er þá komin býsna nákvæm tímasetning.

Hversemer (IP-tala skráð) 8.12.2014 kl. 22:12

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Kæri Hversemer.

Takk fyrir leiðréttinguna, rétt skal vera rétt.

Helgi Ingólfsson, 9.12.2014 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband