Skáldsagan Glæsir eftir Ármann Jakobsson hefur fengið afbragðsdóma. Páll Baldvin gaf henni fullt hús í Fréttatímanum (5 stjörnur af 5), Friðrika Benónýsdóttir gaf henni fullt hús í Fréttablaðinu (4 stjörnur af 4), Einar Falur Ingólfsson gaf henni næstum því fullt hús í Lesbók Morgunblaðsins (4 stjörnur af 5) og Egill Helgason hefur hælt henni við hvert reipi í Kiljunni og víðar.
Ég fæ hins vegar ekki betur séð en að í Glæsi sé lengra gengið í að eigna sér texta annarra en áður þekkjast dæmi um og mun ég tilgreina tvö all-löng dæmi hér að neðan, en auk þeirra mætti tína til mýmörg smærri. Óskandi væri að hægt væri að blogga textann í tveimur hliðstæðum dálkum; þannig fæst samanburðurinn best.
-----
Fyrra dæmi: Texti Eyrbyggju, 34. kafli (sótt á snerpu.is):
Þá sendi húsfreyja mann til Arnkels og bað segja honum andlát Þórólfs. Reið þá Arnkell upp í Hvamm og nokkurir heimamenn hans. Og er þeir komu í Hvamm varð Arnkell þess vís að faðir hans var dauður og sat í hásæti en fólk allt var óttafullt því að öllum þótti óþokki á andláti hans. Gekk Arnkell nú inn í eldaskálann og svo inn eftir setinu á bak Þórólfi. Hann bað hvern að varast að ganga framan að honum meðan honum voru eigi nábjargir veittar. Tók Arnkell þá í herðar Þórólfi og varð hann að kenn[a] aflsmunar áður hann kæmi honum undir. Síðan sveipaði hann klæðum að höfði Þórólfi og bjó um hann eftir siðvenju. Eftir það lét hann brjóta vegginn á bak honum og draga hann þar út. Síðan voru yxn fyrir sleða beittir. Var Þórólfur þar í lagður og óku honum upp í Þórsárdal og var það eigi þrautarlaust áður hann kom í þann stað sem hann skyldi vera. Dysjuðu þeir Þórólf þar rammlega.
Eftir það reið Arnkell heim í Hvamm og kastaði sinni eign á fé það allt er þar stóð saman og faðir hans hafði átt. Var Arnkell þar þrjár nætur og var þessa stund tíðindalaust. Fór hann síðan heim. "
Texti Ármanns úr Glæsi, bls. 152.
Þá sendi húsfreyja mann til Arnkels og bað segja honum andlát Þórólfs. Reið þá Arnkell upp í Hvamm og nokkrir heimamenn hans. Og er þeir komu í Hvamm varð Arnkell þess vís að faðir hans var dauður og sat í hásæti en fólk allt var óttafullt. Gekk Arnkell nú inn í eldaskálann og svo inn eftir setinu á bak Þórólfi. Hann bað hvern að varast að ganga framan að honum meðan honum voru eigi nábjargir veittar. Tók Arnkell þá í herðar Þórólfi og varð hann að kenna aflsmunar áður hann kæmi honum undir. Síðan sveipaði hann klæðum að höfði Þórólfi og bjó um hann eftir siðvenju.
Eftir það lét hann brjóta vegginn á bak honum og draga hann þar út. Síðan voru yxn fyrir sleða beittir. Var Þórólfur þar í lagður og óku honum upp í Þórsárdal og var það eigi þrautarlaust áður hann kom í þann stað sem hann skyldi vera. Dysjuðu þeir Þórólf þar rammlega.
Eftir það reið Arnkell heim í Hvamm og kastaði sinni eign á fé það allt er þar stóð saman og faðir hans hafði átt. Var Arnkell þar þrjár nætur og var þessa stund tíðindalaust. Fór hann síðan heim."
---
Seinna dæmi: Texti Eyrbyggju, 37. k. (sótt á snerpu.is, greinarskil afmáð vegna lengdar):
Annað haust eftir að veturnóttum hafði Snorri goði haustboð mikið og bauð til vinum sínum. Þar var öldrykkja og fast drukkið. Þar var ölteiti mörg. Var þar talað um mannjöfnuð hver þar væri göfgastur maður í sveit eða mestur höfðingi. Og urðu menn þar eigi á eitt sáttir sem oftast er ef um mannjöfnuð er talað. Voru þeir flestir að Snorri goði þótti göfgastur maður en sumir nefndu til Arnkel. Þeir voru enn sumir er nefndu til Styr. En er þeir töluðu þetta þá svarar þar til Þorleifur kimbi: Hví þræta menn um slíka hluti er allir menn mega sjá hversu er?" Hvað viltu til segja Þorleifur," sögðu þeir, er þú deilir þetta mál svo mjög brotum?" Miklu mestur þykir mér Arnkell," segir hann. Hvað finnur þú til þess?" segja þeir. Það er satt er,"segir hann. Eg kalla að þar sé sem einn maður er þeir eru Snorri goði og Styr fyrir tengda sakir, en engir liggja heimamenn Arnkels ógildir hjá garði hans þeir er Snorri hefir drepið, sem Haukur fylgdarmaður Snorra liggur hér hjá garði hans er Arnkell hefir drepið." Þetta þótti mönnum mjög mælt og þó satt þar sem þeir voru komnir og féll niður þetta tal. En er menn fóru í brott frá boðinu valdi Snorri gjafir vinum sínum. Hann leiddi Þorbrandssonu til skips inn til Rauðavíkurhöfða. Og er þeir skildu gekk Snorri að Þorleifi kimba og mælti: Hér er öx Þorleifur er eg vil gefa þér og á eg þessa háskeftasta og mun hún eigi taka til höfuðs Arnkatli, þá er hann býr um hey sitt á Örlygsstöðum, ef þú reiðir heiman til úr Álftafirði." Þorleifur tók við öxinni og mælti: Hugsa þú svo," segir hann, að eg mun eigi dvelja að reiða öxina að honum Arnkatli þá er þú ert búinn að hefna Hauks fylgdarmanns þíns." Snorri svarar: Það þykist eg eiga að yður Þorbrandssonum að þér haldið njósnum nær færi gefur á Arnkatli en ámælið mér þá ef eg kem eigi til móts við yður, ef nokkuð má að skapast, ef þér gerið mig varan við." Skildu þeir við það að hvorirtveggju létust búnir að ráða Arnkel af lífi en Þorbrandssynir skyldu halda njósn um ferðir hans. Snemma vetrar gerði íslög mikil og lagði fjörðu alla. Freysteinn bófi gætti sauða í Álftafirði. Hann var settur til að halda njósnum ef færi gæfi á Arnkatli. Arnkell var starfsmaður mikill og lét þræla sína vinna alla daga milli sólsetra. Arnkell hafði undir sig bæði löndin, Úlfarsfell og Örlygsstaði, því að engir urðu til að taka löndin fyrir ófrelsi Þorbrandssona. En um veturinn var það siður Arnkels að flytja heyið af Örlygsstöðum um nætur er nýlýsi voru því að þrælarnir unnu alla daga. Hirti hann og eigi þó að Þorbrandssynir yrðu eigi varið við þá er heyið var flutt. Það var eina nótt um veturinn fyrir jól að Arnkell stóð upp um nótt og vakti þræla sína þrjá og hét einn Ófeigur. Arnkell bóndi fór með þeim inn á Örlygsstaði. Þeir höfðu fjóra yxn og tvo sleða með. Þorbrandssynir urðu varir við ferð þeirra og fór Freysteinn bófi þegar um nótt út til Helgafells eftir ísnum og kom þar er menn höfðu í rekkju verið um hríð. Hann vakti upp Snorra goða. Snorri spyr hvað hann vill. Hann svarar: Nú er örninn gamli floginn á æslið á Örlygsstaði." Snorri stóð upp og bað menn klæðast. Og er þeir voru klæddir þá tóku þeir vopn sín og fóru níu saman inn eftir ísnum til Álftafjarðar. Og er þeir komu inn í fjarðarbotninn komu Þorbrandssynir til móts við þá, sex saman. Fóru þeir síðan upp til Örlygsstaða. Og er þeir komu þar þá hafði þrællinn einn heim farið með heyhlassið en þeir Arnkell voru þá að gera annað. Þá sáu þeir Arnkell að vopnaðir menn fóru frá sæ neðan. Ræddi Ófeigur um að ófriður mundir vera og er sá einn til að vér förum heim." ‟
Samsvarandi texti Ármanns úr Glæsi, bls. 179-181 (greinaskilum fækkað vegna lengdar):
Snorri hafði haldið haustboð og var þar fast drukkið ölið. Var þar talað um mannjöfnuð: hver þar væri göfgastur maður í sveit eða mestur höfðingi. Og urðu menn þar eigi á eitt sáttir eins og vant er ef um mannjöfnuð er talað. Töldu flestir Snorra göfgastan en sumir nefndu til Arnkel. Þeir voru enn sumir er nefndu til Styr. Vermundur var öllum gleymdur enda fluttur á firði.
En er þeir töluðu þetta þá sagði Þorleifur kimbi: Hví þræta menn um slíka hluti er allir menn mega sjá hversu er?
Hvað viltu til segja, Þorleifur, sögðu þeir, er þú deilir þetta mál svo mjög brotum?
Miklu mestur þykir mér Arnkell, mælti hann.
Hvað finnur þú til þess? sögðu þeir.
Það er satt er, sagði hann. Ég kalla að það sé sem einn maður er þeir eru Snorri goði og Styrr fyrir tengda sakir en engir liggja heimamenn Arnkels ógildir hjá garði hans þeir er Snorri hefir drepið. Haukur fylgdarmaður Snorra liggur aftur á móti hér hjá garði hans er Arnkell hefir drepið.
Þetta þótti mönnum mjög mælt og þó satt og féll niður þetta tal. En er menn fóru í brott frá boðinu valdi Snorri gjafir vinum sínum. Hann leiddi Þorbrandssyni til skips. Og er þeir skildu gekk Snorri að Þorleifi kimba og mælti: Hér er öx, Þorleifur, er ég vil gefa þér og á ég þessa háskeftasta og mun hún eigi taka til höfuðs Arnkatli þá er hann býr um hey sitt á Örlygsstöðum ef þú reiðir heiman til úr Álftafirði.
Þorleifur tók við öxinni og mælti: Hugsa þú svo að ég mun eigi dvelja að reiða öxina að honum Arnkatli þá er þú ert búinn að hefna Hauks fylgdarmanns þíns.
Það þykist ég eiga að yður Þorbrandssonum, sagði Snorri, að þér haldið njósnum hvenær færi gefur á Arnkatli en ámælið mér þá ef ég kem eigi til móts við yður ef nokkuð má að skapast er þér gerið mig varan við.
Þannig ákváðu þeir að ráða Arnkel af lífi.
Snemma vetrar gerði ísalög mikil og lagði fjörðu alla. Freysteinn bófi gætti sauða í Álftafirði. Hann var settur til að halda njósnum ef færi gæfi á Arnkatli. Arnkell hafði tekið undir sig bæði löndin, Úlfarsfell og Örlygsstaði. Engir aðrir þorðu að búa þar af ótta við Þorbrandssyni. En um veturinn var það siður Arnkels að flytja heyið af Örlygsstöðum um nætur er nýlýsi voru því að þrælar hans unnu alla daga. Hirti hann ekki þó að Þorbrandssynir yrðu varir við þá er heyið var flutt. Það var eina nótt um veturinn fyrir jól að Arnkell stóð upp um nótt og vakti þræla sína þrjá. Fóru þeir saman inn á Örlygsstaði. Þeir höfðu fjóra yxn og tvo sleða með. Þorbrandssynir urðu varir við ferð þeirra og fór Freysteinn bófi þegar um nótt út til Helgafells eftir ísnum og kom þar er menn höfðu í rekkju verið um hríð. Hann vakti upp Snorra goða. Snorri spyr hvað hann vill. Hann svarar: Nú er örninn gamli floginn á æslið á Örlygsstaði.
Snorri stóð upp og bað menn klæðast. Og er þeir voru klæddir þá tóku þeir vopn sín og fóru níu saman inn eftir ísnum til Álftafjarðar. Og er þeir komu inn í fjarðarbotninn komu Þorbrandssynir til móts við þá, sex manns. Fóru þeir síðan upp til Örlygsstaða. Og er þeir komu þar hafði einn þrællinn farið heim með heyhlassið en þeir Arnkell voru þá að sýsla annað. Þá sáu þeir að vopnaðir menn fóru frá sæ neðan.
Hér mun ófriður vera, sagði þræll Arnkels sem eftir var. Er sá einn kostur til að vér förum heim."
-----
Ég hlýt að lýsa undrun minni á að þeir bókagagnrýnendur, sem ausið hafa bókina lofi og stjörnum, skuli ekki hafa minnst einu orði á svo nákvæma endursögn. Menn hafa hrópað: Ritstuldur!" af minna tilefni. Fær þetta mann til að velta vöngum yfir því hvort gagnrýnendur séu yfirhöfuð starfi sínu vaxnir. Eru þeir svo illa lesnir að þekkja ekki fornsöguna eða nenna þeir bara ekki að bera saman texta? Er rétt að skreyta rithöfund úr nútímanum fjöðrum sem höfundur Eyrbyggju á sannanlega?
Hægt væri að tína til mýmörg smærri dæmi, tilsvör, setningar og efnisgreinar úr Glæsi þar sem sótt er nánast orðrétt í Eyrbyggju, en ég eftirlæt bókmenntafræðingum framtíðarinnar að þefa slíkt uppi. Fyrir vikið er Glæsir í mínum huga í besta falli miðlungsbók og þá aðallega sem hjálpargagn fyrir þann sem hyggst ráðast í það áhlaupaverk sem lestur fornsögunnar er.
Flokkur: Bloggar | 14.11.2011 | 14:36 (breytt kl. 14:36) | Facebook
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.