Hjörleifur, Nubo og utanríkisráðuneytið

Furðu litla athygli þótti mér vekja frétt DV í september síðastliðnum um að "prívatmaðurinn" Hjörleifur Sveinbjörnsson hefði ekið sínum prívatvini, herra Huang Nubo, um landið í bíl utanríkisráðuneytisins í október 2010, í e.k. undanfara jarðakaupatilboðs, sem herra Nubo gerði nýverið í Grímsstaði á Fjöllum. Má undrun sæta að blaðamenn hafi ekki rannsakað málið ofan í kjölinn, þar sem virðist um einkar einkennilega stjórnsýslu að ræða, ef satt reynist. Meðal spurninga, sem mætti að spyrja, eru eftirfarandi:

1) Hefur alþýða á Íslandi rétt til afnota eða aðgang að bifreiðum ráðuneyta til að aka um með erlenda gesti sína? Get ég fengið lánaðan bíl hjá utanríkisráðuneytinu til að aka um með erlendan vin minn, John Doe, sem áhuga hefur á að kaupa sér kálgarðsbleðil nærri Egilsstöðum?

2) Hvers vegna í ósköpunum kemur utanríkisráðuneytið að prívatmálum Hjörleifs Sveinbjörnssonar og vinar hans? Eða var Huang Nubo hér á landi í opinberum erindagjörðum? Ef um opinbera ferð var að ræða, hlýtur þá ekki utanríkisráðuneytið að geta framvísað pappírum því til sönnunar?

3) Hefur Huang Nubo ekki efni á að leigja sér bíl á eigin kostnað? Á hann ekki að heita margmilljarðamæringur? Er gæfulegt, ef fjárfestingar hans hefjast á því að hann fái lánað hjá íslenska ríkinu?

4) Ef satt er, hvaða embættismaður ráðuneytisins heimilaði þá lán á bifreiðinni? Hefur umræddur embættismaður sætt ákúrum fyrir að hafa lánað bifreið ráðuneytisins til einkanota (svo fremi Huang Nubo hafi ekki verið hér á landi í opinberum erindagjörðum)?

5) Var umræddur embættismaður, sem heimilaði lán á bifreiðinni, undir valdboði eða fyrirskipun einhvers sér æðri, t.d. ráðuneytisstjóra eða ráðherra? Sé svo, er þá ekki rétt að kalla þann til fullrar ábyrgðar?

6) Skipta einhverju máli í þessum dularfulla gjörningi þau valdatengsl, sem Hjörleifur hefur sem eiginmaður fyrrverandi utanríkisráðherra (og fyrrum formanns Samfylkingarinnar) og mágur núverandi utanríkisráðherra (sem einnig er fyrrum formaður Samfylkingarinnar)?

7) Er rétt að jeppi hafi verið fenginn að láni?

-----

Nú, hafi fréttin reynst uppdigtuð og finnist ekki flugufótur fyrir henni, þá tel ég einsýnt að leggja megi niður DV.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Dílarinn og samningamaðurinn Össur fer sínar eigin ólýðræðislegu samningaleiðir, ef rétt reynist. En ekki er sönnun fyrir öllu sem DV birtir. Tökum öllu með fyrirvara sem birtist í dagblöðum landsins.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.11.2011 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband