Fyrir ári eða svo sá ég gamanmyndina Dinner for Schmucks og vænti lítils, en skemmti mér konunglega því að hún kom verulega á óvart. Þegar myndinni lauk var hins vegar nær ekkert, sem sat eftir, og man ég varla efni hennar lengur.
Af svipuðum toga þótti mér lestur bókarinnar um Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf. Það var rússibanareið, meðan á henni stóð, en ég verð að játa að lítið situr eftir þegar upp er staðið.
Nú vil ég ekki vera misskilinn og lýsi því hér í upphafi rækilega yfir að Gamlinginn er skemmtileg skáldsaga (og mætti auðveldlega flokka sem skemmtisögu eða jafnvel farsa). Ég skil hins vegar ekki allt írafárið út af henni, því að hún er ekkert tímamótaverk. En það voru Da Vinci Code og Milennium- bækurnar ekki heldur og samt urðu einhvern veginn allir að lesa þær.
-----
*Viðvörun: Það sem hér fer að neðan gæti spillt lestri fyrir þeim sem á bókina ólesna.*
Styrkur Gamlingjans felst einkum í hraðri frásögn, sem oft fer í ófyrirséðar áttir. Eins og ég sagði, dálítil rússibanareið. En veikleikarnir eru líka ýmsir. Stundum fer hún yfir strikið í farsalátum (þannig fara t.d. örlög "Hænunnar" svonefndu út fyrir öll mörk trúverðugleika og verða hreint slapstick comedy, eins og kallast á ensku). Annar veikleiki er klisjukennd persónusköpunin. Nánast hver einasta persóna fær sína bakgrunnssögu, en oft er það óþörf málalenging til baga frekar en til bóta. Þótt persónugalleríið sé fjölmennt, þá eru þetta mestmegnis pappaspjöld. Meðlimir glæpagengisins eru t.d. hver öðrum nautheimskari og stereótýpískari. Þá er persónusköpun Allans Karlssonar ekki upp á marga fiska - hann flýtur bara einhvern veginn áfram, hvort sem er í fortíð eða nútíma. Þá þótti mér heldur ósennileg kynhvötin, sem kviknar hjá honum seint í sögunni, þrátt fyrir að hafa verið geldur svo rækilega í bókarbyrjun að kvennamál þvælast ekkert fyrir honum ævilangt.
Gamlinginn er í reynd tvískipt bók: Frásögn í nútímanum annars vegar og upprifjun á ævi Allans Karlssonar hins vegar. Einn veikleiki bókarinnar felst í því hve ótengdir þessir tveir hlutar eru; það er nánast eins og höfundur hafi skrifað 2 óskyldar bækur og tekið skyndiákvörðun í lokin að steypa þeim saman. Sagan hefði orðið heilsteyptari ef gamlinginn Allan hefði einstaka sinnum ýjað að merkisviðburðum ævinnar. Í eina skiptið, sem Allan rifjar upp slíkar tengingar, þá er það seint í bókinni í kafla, sem er alltof langur og teygður. Slíku efni hefði betur verið dreift jafnara um bókina.
Gamlingjanum hefur verið líkt við Forrest Gump, í þeim skilningi að hann fer víða um mannkynssöguna og hittir ýmsa þjóðhöfðingja og merkismenn á vegferð sinni. En Forrest Gump var vanviti, sem Allan Karlsson er ekki. Allan er saklaus einfeldningur, sem kastað er út í hinn stóra heim, velkist þar og sjóast og dregur um síðir lærdóm af. Að þessu leyti líkist Allan Birtíngi eftir Voltaire. Reyndar er fleira líkt með þeim tveimur; þeim er báðum kastað út í hinn stóra heim frá N-Evrópu, fara fyrst til Pýreneaskaga og síðan til Ameríku. Þá lýkur báðum bókum svipað; Birtíngur safnaði jú um sig eftirlifandi og afgömlum vinum sínum og fór að rækta garðinn sinn. Og hvað haldið þið að Allan geri í bókarlok?
Mig furðar að enginn skuli hafa tengt Gamlingjann við sérkennilegar sér-skandinavískar gamansögur Danans Finn Söborg, sem er mörgum gleymdur, því miður. Frá fyrstu síðu þótti mér ég vera að lesa bók eftir Söborg með sínum góðlátlega og kankvísa húmor. Ég þarf að fara að rifja upp minn Söborg; fyrir utan að hafa rennt yfir Navn Ukendt fyrir áratug eða svo, þá eru sennilega komin 30 ár síðan ég las aðrar bækur hans.
Sumir mannkynssögukaflarnir í Gamlingjanum eiga til að útvatnast fljótt. En þar sem Jonasson tekst vel upp, þá eru slíkir kaflar það besta í bókinni og í raun óviðjafnanlegir. Skemmtilegasti afturlitskaflinn þótti mér annars sá fyrsti, um föður Allans, sem fer til Rússlands að steypa keisaranum, en úr verður meinfyndinn viðsnúningur, þar sem Carl Fabergé er í skemmtilegu aukahlutverki. Þá er kaflinn um Vladivostok óborganlegur.
Gamlinginn er fyrst og fremst feelgood-saga, með pínulítilli Birtings-heimspeki inn á milli. Stíllinn er laus við myndmál og líkingar, beinskeyttur og blátt áfram, og hæfir sögunni sumpart vel, en gerir hana um leið flatari. Á fimmtugustu hverri síðu kemur fram speki, sem vert er að skrifa bakvið eyrað. Eftir að hafa sagt ofangreindan kost og löst á bókinni, þá gef ég henni 3 1/2 stjörnu af 5 mögulegum. Góða skemmtun, þið sem eigið eftir að lesa.
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.