Af ritdómurum og Heiðarvíga sögu

Í morgun birtust tveir ritdómar um skáldsögur í Fréttablaðinu. Var báðum hampað og gefið fullt hús (4 stjörnur af 4 mögulegum). Á sama tíma birtust tveir ritdómar í Fréttatímanum og var annarri bókinni gefið fullt hús (5 stjörnur af 5 mögulegum) og hinni veitt næstum fullt hús (4 stjörnur af 5 mögulegum).

 

Þessi bókajól virðast óvenju gjöful - hvað eftir annað hlaða bókagagnrýnendur skáldsögur lofi og stjörnum og veita fullt hús stiga, eins og komið hefði fram nýtt snilldarverk eftir Laxness eða Shakespeare. Óskaplega hljóta þessar bækur allar að verða langlífar. Svo sparka ritdómarar í einn og einn undirmálsrithöfund og kasta í hann einni stjörnu, máske til að jafna meðaltalið. Reyndar þykir mér heiðalegast, sölutrixið við nýju bókina hans Gils, þar sem einfaldlega eru settar á auglýsinguna 5 stjörnur, án þess að tilgreint er hvaðan þær koma. Bók sem er með nánast orðréttri endursögn Eyrbyggju á einum stað upp á þrjár blaðsíður og á öðrum stað upp á eina blaðsíðu er hafin upp til skýjanna; ef til vill er þetta í lagi þegar vinstri menn eiga í hlut, en ég held að einhverjir hefðu risið upp til handa og fóta ef Hannes Hólmsteinn hefði átt í hlut. Og svo er hinn póllinn: Helsti bókmenntaþáttur landsins er notaður sem ein risastór auglýsing fyrir bók um Rússagrýluna, sem er hjákátleg og löngu dauð hjá flestum nema einstaka kaldastríðseftirlegukindum sem sjá sér hag, annaðhvort fjárhagslegan eða stjórnmálalegan, í að halda henni á lífi.

 

Hvað er þá til bragðs í öllum þessum stjörnusprengingum? Þótt ég hafi lesið nokkrar jólabókanna (og talið þær allar yfir meðallagi, en enga langt yfir því), þá held ég að ég setji stopp við núna og bíði eftir að rykið setjist, svo að greina megi hismið frá kjarnanum. Þá er heillaráð að hverfa aftur í það sem hefur sannað sig í aldanna rás: Íslendingasögurnar.

 

Að undanförnu hef ég lesið a.m.k. þrjár Íslendingasagna mér til óblandinnar ánægju (Eyrbyggja þeirra best og Gísla saga síst), en staðnæmist nú við þá sem er í miðið: Heiðarvíga sögu. Söguþráður Heiðarvíga sögu er reyndar svo flókinn og hefndarferlið svo brösótt að ég er nú hálfnaður í öðrum lestri bókarinnar, minna dugar ekki vitgrönnum lesanda. Söguþráðurinn er nokkurn veginn eftirfarandi:

 

Víga-Styr er höfðingi og ójafnaðarmaður, vegur menn af litlu tilefni tvist og bast, og stærir sig af því að hafa drepið 33 án þess að bætur hafi komið fyrir, enda er hann í skjóli (sem tengdafaðir) eins voldugasta höfðingja landsins, Snorra goða. Þegar Víga-Styr drepur smábónda, sem ætlar að flýja hérað undan ofríki hans, launar hann Gesti bóndasyni með einu lambi sem e.k. smánarbótum. Stráknum tekst að hefna sín og drepa Víga-Styr (og mælir þá að þar sé hann að launa honum lambið gráa, sem síðan hefur orðið að orðatiltæki). Stráksinn Gestur flýr til skyldmenna og vina í Borgarfirði, sem koma honum undan til Noregs. Sonur Víga-Styrs, Þorsteinn að nafni, eltir Gest til útlanda til að koma fram hefndum, reynir þrisvar, en alltaf tekst honum svo slysalega til að Gestur verður fyrri til að bjarga lífi hans, síðast suður í Miklagarði, þannig að sýnt virðist að hefndir náist ekki fram á þeim vettvangi og Þorsteinn snýr heim, hefndarlaust.

 

Snorri goði er ekki ánægður með að óhefnt sé, heldur með menn suður í Borgarfjörð og drepur bóndagrind þar, sem hann telur tengdan undanskoti Gests. Þá þarf að hefna fyrir bóndagrindina. En Snorri er of voldugur til að hægt sé að ráðast beint gegn honum, svo að ráðast verður gegn minni mönnum hans. Og dragast nú blásaklausir menn á einkennilegasta hátt inn í vígaferli. Í Noregi er staddur maður að nafni Kolskeggur, tengdur aðför Snorra, og hann vilja svonefndir Hárekssynir, væntanlega ættaðir úr Borgarfirði, drepa. En Kolskeggur kemst á skip til Englands og Hárekssynir hafa engan til að hefna sín á, svo að þeir drepa húnvetnska öndvegismanninn Hall, sem er málinu með öllu ótengdur, nema hvað hann af góðsemi hafði hjálpað Kolskeggi að verða sér út um far til Englands. Í kjölfarið sigla Hárekssynir til Danmerkur, en þar sekkur skip þeirra og þeir farast.

 

Þá vandast nú málin: Ekki geta Húnvetningar (sem hingað til voru málinu óviðkomandi) hefnt fyrir vígið á Halli á hinum dauðu Hárekssonum, sem eru drukknaðir. Svo að nú verður að hefna sín á Borgfirðingum dálítið generelt. Kemur nú til sögunnar Barði, bróðir hins vegna Halls, og verður helsta persóna sögunnar til loka. Hann smalar nú saman liði í Húnaþingi (og ef manni finnst Hallgrímur Helgason gefinn fyrir málalengingar, þá ættu menn að skoða málskrúðið í kringum liðsöfnuðinn). Síðan heldur Barði með lið sitt suður yfir Arnarvatnsheiði (sem raunar er ekki svo nefnd í sögunni, ef ég man rétt) og drepur eina bóndagrind og flýr svo upp á heiði, þar sem hans menn hafa komið sér upp virki til að verjast á á tveimur stöðum. Borgfirðingar safna liði í nokkrum hollum og þegar Barði verður fyrst var við eftirför vill hann hraða sér sem mest upp í efra virkið, en liðsmenn hans letja og finnst lítt hetjulegt, því að þeir hafa lítið fengið að berjast fram að því. Lýstur síðan í bardaga við neðra virkið, þar sem vörn Norðanmanna er erfiðari. En Borgfirðingar koma í nokkrum hópum, svo að úr verða nokkrir bardagar og yfir 10 manns falla, sem sagt heiðarvíg, sem nánast er ómögulegt að útskýra hvernig til eru orðin.

 

Í þessum bardaga er ódauðleg sena, þar sem tveir kapparnir berjast. Annar heitir Oddur og er kallaður Gefnar-Oddur, því að hann er ráðsmaður hjá ekkju sem er kölluð Gefn og gefið í skyn að hann haldi við hana einnig, en Borgfirðingurinn heitir Eyjólfur. Sá síðarnefndi kemur sverðshöggi á kinn Odds, svo gengur inn í hvoftinn með svöðusári og segir þá Eyjólfur: „Vera kann að ekkjunni þyki versna að kyssa þig." Því svarar Oddur: „Lengi hefur eigi gott verið, en þó mun nú mikið um hafa spillst og þó kann vera að eigi segir þú þetta þinni vinkonu" og veitir Eyjólfi mikið sár ...

 

Þessi saga er hin æsilegasta, þótt flókin sé og teygð. Hún er krydduð með vísum og fyrirboðum. Stíllinn er ærið tvískiptur, enda fyrri helmingurinn skrifaður á 18. öld eftir minni af Jóni Grunnvíkingi (eftir að sá hluti handritsins brann), en seinni hlutinn varðveittur með forneskjulegu 13. aldar málfari.

 

Einhvern veginn efast ég um að nokkur skáldsaga, sem gefin er út um þessi jól, sé jafn spennandi eða verði jafn langlíf og Heiðarvíga saga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband