Leyndardómsfyllsta kona Íslandssögunnar?

Nýlega lauk ég við býsna merkilega bók Margrétar Gunnarsdóttur sagnfræðings um Ingibjörgu, eiginkonu Jóns forseta. Skemmst frá að greina er bókin afar vel unnin, læsileg og lestrarins virði. Það sem stendur upp úr er þó máske að Margrét staðfesti í hvívetna þá mynd, sem ég hafði áður af Ingibjörgu, gerði hana ef til vill eilítið fyllri, en breytti henni afar lítið.

 

Til nánari útskýringar má nefna að sú mynd, sem ég hafði af Ingibjörgu, var af dugmikilli borgaralegri húsfreyju í Kaupmannahöfn, sem eldaði eigin mat (með aðstoð vinnukonu) fyrir bónda og gesti, endasentist sem þeytispjald um Höfn þvera og endilanga í erindagjörðum fyrir landa sína heima á Fróni, sinnti uppeldi Sigga litla, saumaði, sótti viðburði með eiginmanni sínum og tók á móti gestum, mestmegnis ljúf í viðmóti, en stöku sinnum uppstökk. Þessa mynd fékk ég nokkurn veginn staðfesta í bók Margrétar, sem dregur saman nánast allar ritheimildir, sem er að finna um þessa merku konu, en heimildirnar eru mestmegnis reikningar tengdir heimilishaldi þeirra hjóna og sárafá sendibréf (sem sýna velviljaða og kurteisa en lítt ritfæra konu; hvort tveggja, rithönd og ritstíll eiginmannsins, er óendanlega glæstari). Þar sem heimildir þrýtur þarf Margrét stundum að grípa til almennra yfirlitsrita um lífshætti borgarstéttar á 19. öld og gerir það vel. Stíllinn er blátt áfram og auðlesinn, laus við flúr og tildur. Umfjöllun Margrétar um ljósmyndir af þeim hjónum, sem og um ýmsa muni úr dánarbúi þeirra, er og með miklum ágætum.

 

Nærtækt er að bera Ingibjörgu saman við aðra 19. aldar heldrikonu, sem nýlega eignaðist skráða sögu, en það er Þóra Pétursdóttir biskups, sem Sigrún Pálsdóttir skrifaði ágæta bók um fyrir rúmu ári. Það sem maður finnur fyrst fyrir er hversu formlegri Ingibjörg virðist í bréfaskriftum sínum, meðan Þóra er persónuleg og innileg. Að hluta má eflaust kenna þar um mismunandi æviskeiðum og aldarhætti, en Ingibjörg tilheyrði næstu kynslóð á undan Þóru og gott betur, var rúmum 40 árum eldri. Hjá kynslóð Ingibjargar hefur lítt þótt við hæfi að konur bæru tilfinningar á torg, eins og oft má sjá í bréfum Þóru nær aldarlokum, einkum í bréfum til mannsefnis/eiginmanns hennar, Þorvaldar Thoroddsen. En einnig er augljós munur á persónuleika þessara tveggja kvenna; Ingibjörg virðist að öllu leyti settlegri og formlegri, en Þóra á til að skrifa æði óheft, jafnvel um innstu hjartans mál. Hins ber að gæta að ekki hafa varðveist bréfaskifti Ingibjargar og Jóns Sigurðssonar, svo að mögulega má fara varlega í að álykta um innilegri mál. Þess vegna heldur Ingibjörg Einarsdóttir ef til vill áfram að vera mér óbreytt ráðgáta. Þó þykir mér ljóst að fengur er í þessum tveimur bókum fyrir alla, sem vilja kynna sér stöðu íslenskra heldrikvenna á 19. öld, og þá ekki síður í bók Margrétar um Ingibjörgu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Meiri áhuga hef ég á örlögum Brimahólmsfanga en hlutskipti  íslenskra heldrikvenna íDanmörku, Hve nær verður skrifuð saga Brimahólmsfanga?

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.1.2012 kl. 09:19

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Það er ekki beinlínis á mínu valdi að svara hvenær saga Brimarhólmsfanga verður skrifuð, Sigurður, og eflaust eru slík sagnfræðirit til á dönsku. Um þessi efni má samt mæla með hinni ágætu skáldsögu Björns Th. Björnssonar, Haustskip. Svo er vitanlega líka hægt að mæla með Brotahöfði Þórarins Eldjárns, en fangavistin þar er reyndar í Bláturni. Sem og fangelsisdvöl Jóns Indíafara í Reisubókinni, sem er kostuleg frásögn frá upphafi til enda.

Helgi Ingólfsson, 24.1.2012 kl. 11:38

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Er ekki Ingibjörg frá þeim tíma þegar voru engar tilfinningar. Aðeins hagsmunir. Nei, eg segi nú svona.

Með Brimarh+olm, að þá væri nú fengur af ef heimildir væru um Sigurð Gottsveinsson. Sem var foringi þeirra Kambránsmanna. Og virkar að sumu leiti merkilegur maður. Hann var síðasti íslendingurinn til að vera tekinn af lífi í Kapmannahöfn 1834 eftir að hann réðst á fangavörð, að því er sagt er. það er 4 árum á eftir að þau Agnes og Friðrik voru hoggin á Vatnsdalshólum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.1.2012 kl. 13:46

4 identicon

Hlakka einmitt til að lesa Ingibjargar-ævisögunar. Las Þóru biskups einhvern tíma í desember og fannst hún flott nema ég var ósátt við að höfundurinn kallaði "Bæn nunnunnar" "The Maiden's Prayer" (pólskt lag, mikið spilað kringum aldamótin 1900, eftir Thadarewsku? æi, man ekki nafnið en á nóturnar). Svona getur maður stundum pirrað sig á smáatriðum ...

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband