Jónki í eftirlífinu

Viðeigandi er að Hin íslensku bókmenntaverðlaun árið 2011 í flokki fræðirita skuli hafa fallið í skaut Páli Björnssyni fyrir sagnfræðiverkið Jón forseti allur? Bókin kom út á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar sem enn einn steinninn ofan á þá hofbyggingu frelsishetjunnar, sem reist hefur verið á löngum tíma. Styrkur bókarinnar liggur tvímælalaust í hinu nýstárlega sjónarhorni, þar sem rakin er saga Jóns í eftirlífinu, eftir andlátið. Sumpart er þetta sagnfræði, sem birst hefur brotakennt áður í bókum og blöðum, en aldrei hefur henni mér vitanlega verið safnað saman svo skipulega á einn stað.

Verkið er ekki endilega til þess unnið að fá menn til að samþykkja mikilfengleik Jóns forseta - ef einhver skyldi dirfast að efast um hann - heldur er hér fremur fjallað um elju eftirlifenda við að halda merki hans á lofti. Mér sýnist framlag Tryggva Gunnarssonar eitt og sér hafa ráðið úrslitum - meðan Jón var enn á lífi beitti Tryggvi sér fyrir stofnun Þjóðvinafélagsins utan um stefnu forsetans, sem og að Þjóðvinafélagið setti Jón á föst laun 1874 og að Landsjóður tæki þær greiðslur yfir 1875. Enn mikilvægara er frumkvæði Tryggva að því að fara til Englands og fá þar, með aðstoð Eiríks Magnússonar, aflétt veðböndum, sem hvíldu á handrita- og bókasafni Jóns Sigurðssonar vegna órituðu Íslandssögunnar fyrir George Powell, sem og að stofna sjóðinn Gjöf Jóns Sigurðssonar við andlát forsetans og kaupa upp á eigin spýtur ýmsa persónulega muni Jóns og færa Íslendingum að gjöf, ásamt því að hafa frumkvæði að því að reistur var bautasteinninn yfir Jón 1881. Tryggvi virðist m.ö.o. höfuðsmiðurinn að minningu Jóns og mætti velta fyrir sér hvernig henni væri komið, ef hans hefði ekki notið við.

Frásagnir af þessum atburðum gera sig með miklum ágætum í riti Páls, ásamt tilraunum Þorláks O. Johnsen til að hetjuvæða Jón frænda sinn Sigurðsson. Nokkuð kemur á óvart það rof, sem varð í sköpun þjóðhetju á árunum 1887-1902, en á þeim tíma stóð vitaskuld endurskoðunarbaráttan sem hæst og Dönum virtist ekki um neitt hnikað. Þótt Benedikt Sveinsson hefði á sinni tíð verið pólitískur andstæðingur Jóns, meðan báðir lifðu, þá voru ýmsir sem sáu hann að Jóni látnum sem hinn nýja leiðtoga og kann það að útskýra minnkandi vægi Jóns á þeim tíma. En um leið og losnaði um hnútinn í deilunum við Dani og heimastjórn virtist í höfn árið 1902 flæðir hetjudýrkunin fram af endurnýjuðum krafti og fer vaxandi fram til 1911, með hámarki í þáverandi afmælishátíð, sem og öllu bröltinu í kringum styttusmíð Einars Jónssonar, sem rakið er í þaula í bók Páls. Sjálfum þóttu mér þetta skemmtilegustu kaflar bókarinnar, frá lokum 19. aldar og upphafi 20. aldar. Seinni helmingur bókarinnar fer víðar yfir sviðið, hvernig Jón hefur verið notaður á fjölbreyttan hátt til framdráttar margvíslegum málstað - oft sem söluvara. Einna fyndnust finnst mér sú arfavitlausa umræða um hvort Jón Sigurðsson hafi verið Evrópusinni eða ekki, en báðar fylkingar hafa reynt að eigna sér hann. Hvort var Jón Sigurðsson þjóðernissinni eða alþjóðasinni? Svarið er vitaskuld: Hvort tveggja - og auk þess barn síns tíma á þann hátt að hann verður ekki rifinn úr samhengi og plaseraður inni í nútímadeilum á einhvern simplan hátt.

Sagnfræði Páls Björnssonar virðist að öllu leyti traust. Dálítið þurr, stíllinn, kynni einhver að segja, en bitastæðasta efnið, með túlkunum og vangaveltum, má oft finna í neðanmálsnótum, tilvísunum og athugasemdum, sem ná yfir 40 blaðsíður, en þar sleppir höfundur frekar af sér beislinu í viðbótarfróðleik. Myndefni bókarinnar, frágangur og prentun á hágæðapappír er að öllu leyti til fyrirmyndar. Þar sem ég hef ekki lesið og vart nema gluggað í sum hinna fræðiritanna, sem tilnefnd voru til bókmenntaverðlaunanna, get ég ekki dæmt um hvort þessi bók hafi staðið þar fremst. Hitt veit ég að mér finnst afar mikill fengur að henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æi, ansans! Ég var svo að vona að fornleifabókin hennar Birnu Lárusdóttur myndi vinna! Hefði ekki trúað því að óreyndu að ég læsi í gegnum alla bókina og fylltist gífurlegum áhuga á muninum á rústum af fjósum og rústum á fjárhúsum - en bókin er bara svo fantavel skrifuð að hún fangar athygli manns á ólíklegustu hlutum!

Til vara hélt ég með Ríkisfang ekkert og Haraldi Níelssyni (sem eru báðar góðar, Ríkisfang ekkert var þó svo sorgleg að ég varð að lesa hana í smáskömmtum).

Nenni ómögulega að lesa bók um Jón Sigurðsson, jafnvel þótt bókin fjalli um Jón Sigurðsson dauðan (hann var nú ekki einu sinni myrtur ....) En fólk hefur vitaskuld ólíkan smekk. Sem betur fer

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 01:28

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæl Harpa.

Gluggað hafði ég í Mannvist Birnu og fannst hún svo sannarlega verðskuldaður kandídat. Einhver sagði að þetta væri skemmtilegasta rit, sem komið hefði út um fornleifafræði í 40 ár.

Um Ríkisfang ekkert get ég ekki fjölyrt, því ég hef ekki lesið hana (mér skilst að hún standi einstaklega nærri hjörtum Skagamanna). Bókina um Harald Níelsson hef ég heldur ekki lesið, en ég hef heyrt prýðisgóða dóma og lof um hana (nema hvað hún var ekki tilnefnd). Sjálfum leist mér ljómandi vel á útgáfu Ármanns Jak. og Þórðar Inga Guðjónssonar af Morkinskinnu. En það er sennilega "atvinnusjúkdómur" minn að horfa til sögulegra rita frekar en annarra. Bók Páls um Jón forseta byggir á nýstárlegri hugmynd, en felur að ýmsu leyti í sér hefðbundna - og fjalltrausta - sagnfræði. En Jón karlinn átti jú afmæli í fyrra, ekki satt? Afmælisgjöf við hæfi?

-----

P.S. Og auk þess, Harpa, hver segir að Jónki hafi ekki verið myrtur ...?

Helgi Ingólfsson, 15.2.2012 kl. 23:35

3 identicon

Úbbs .... mig minnti að Haraldur Níelsson hefði verið tilnefndur ... en á móti kemur að það er engan veginn treystandi á mitt minni.

Þú platar mig ekki til að lesa bókina með því að gefa í skyn að hann Jón hafi hugsanlega myrtur - þótt ljóst sé að hafi ekki beinlínis verið afsannað bendir flest til að hann hafi nú bara dáið úr langvarandi veikindum. Mjög óspennandi.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband