Fávitavæðingin á sér fá takmörk.
Nú hefur komið á daginn að kveðskapur, sem Halli Pé bangaði saman fyrir þúsaldarþriðjungi, reynist nútímanum þjóðhættulegur, einkum ef honum er útvarpað.
Látum vera að mér þyki þetta ekki rismikill kveðskapur - einhverjum öðrum kann vel að líka hann. Auk þess er 65 ára hefð fyrir útvarpsflutningnum og hefðir ber að virða, svo fremi þær valdi ekki beinu mælanlegu tjóni.
Því geri ég eftirfarandi að uppástungu minni: Að Passíusálmar verði áfram fluttir í útvarpi á lönguföstu, en til að þóknast pólitískt réttþenkjandi öflum í samfélaginu, sem og hlutaðeigandi klaksárum útlendingum, verði "blípað" yfir á þartilgerðum stöðum, eins og í gamla daga var gert yfir dónaleg orð. Þannig mætti rota margar flugur í einu fallbyssuskoti: RÚV sýndi framfararhug, bókmenntaverkið gengi í endurnýjun lífdaga og kveðskapurinn fengi á sig póst-módernískan eða jafnvel framúrstefnulegan blæ.
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Er Halli Pé veginn og léttvægur fundinn?
Og skáldskapur hans ekki rismikill?
Hann er þó eitt af höfuðskáldum Íslands.
Þú manst vonandi eftir heilræðavísum þessa manns, sem var kornungur sendur til Damerkur, þar sem hann bölvaði með þvílíkum tilþrifum, sautján ára stubburinn, að mektarmenn tóku eftir orðkyngi hans.
Og kostuðu hann til náms fyrir blótsyrðin.
Þessi maður endaði líf sitt með því að holdið var étið af honum.
Sýndu smá virðingu...
:)
Jóhann (IP-tala skráð) 24.2.2012 kl. 23:47
Jóhann:
Ég ber fulla virðingu fyrir Halla, þótt mér finnist stirt ort í Passíusálmunum. Heilræðavísurnar - margar hverjar, en ekki allar - eru töluvert betur ortar, þ.e. orðin renna auðveldar af tungu, þótt vafalítið deili hinir upplýstu nútímamenn um innihaldið. Ég sé fyrir mér hvernig allt yrði snælduvitlaust og þjóðfélagið færi á hvolf, ef grunnskólanemendur vorra tíma yrðu látnir læra: "Ungum er það allra best / að óttast Guð, sinn herra. / Þeim mun viskan veitast mest / og virðing aldrei þverra."
Annars ætlaði ég að gera að næstu galgopalegu uppástungu minni að Páll Magnússon útvarpsstjóri læsi sjálfur Passíusálmana (blípaða) á föstunni. Man ég það ekki rétt að hann missti nýlega spón úr aski, þegar hann hætti upplestri sjónvarpsfrétta?
Helgi Ingólfsson, 25.2.2012 kl. 15:26
Það er reyndar skilmysingur, kæri vin, að Palli hafi misst spón úr sínum aski því í fyrsta lagi er hann ekki hættur að lesa fréttir og í annan stað fékk hann aldrei neitt greitt fyrir það.
Það verður hins vegar að greiða þeim sem tekur við af honum og verja til þess skammti af áskriftartekjum Ríkisútvarpsins og minnkar þar með fjármagn til að halda úti menníngarteingdri starfsemi einsog Kiljunni. Mætti því óska að Palli læsi bæði fréttir og passíusálmana blípaða sem lengst.
Libbðu svo heill og tillukku með listamannalaunin.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 27.2.2012 kl. 17:58
Þakkir, Þorvaldur - rétt skal vera rétt. Samkvæmt mínum heimildum fékk PM greitt sérstaklega fyrir fréttalesturinn þar til fyrir tveimur árum (sem þýðir að ekki sé heldur rétt að segja "aldrei" sem þú nefnir í annan stað).
Á hitt ber að líta að svo fjölhæfur stjóri gæti eflaust líka verið spyrill, dómari og spurningahöfundur í samanlögðu Útsvari og Gettu betur - gratís. Annars var ekki ætlun mín að dissa manninn - mér finnst hann að ýmsu leyti prýðilega hæfur.
P.S. Það er yfsilon í "lybbðu".
Helgi Ingólfsson, 27.2.2012 kl. 23:00
Í fyrsta lagi er ég ósammála þér, Helgi, um hversu rismikill/lítill kveðskapur Passíusálmarnir eru. En menn verða kannski að vera aðeins verseraðir í 17. aldar íslensku til að fíla þá í tætlur :)
Í öðru lagi lýsi ég yfir samstöðu með blípi til að verja hina viðkæmu. Það þarf 49 blíp, 22 fyrir orðið júði í mismunandi orðmyndum og 27 fyrir gyðingur í mism. orðmyndum. Að keyra 49 blíp inn í hljóðskrána er nú ekki ofverk ;)
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 29.2.2012 kl. 15:57
Harpa (aths. 5):
Í fyrsta lagi, svo notað sé tungutak stjórnmálamanna, vísa ég því alfarið á bug að ég sé illa verseraður í málfari 17. aldar. Hefi eg lesið í upphaflegum stíl öll verk Jóns lærða ("Um Íslands aðskiljanlegu náttúrur", "Tíðsfordríf", "Fjölmóð", Fjandafælu", "Snjáfjallavísur"bæði fyrri og síðari og margt fleira), alla Reisubók Jóns Indíafara, einnegin Reisubók Ólafs Egilssonar sem og skrif Kláusar Eyjólfssonar um Tyrkjaránið, katekisma þýdda af Guðbrandi Þorlákssyni, drjúgan hluta Vídalínspostillu, Píslarsögu Jóns Þumlungs, "Character Bestiae" eftir sr. Pál í Selárdal, Spönsku vísur síra Ólafs á Ströndum, sem og heilmikið af Alþingisdómum þessara tíma, einkum sem lúta að deilum Odds biskups og Herlufs Daa. Svo hef ég lesið slatta af Halla Pé og - þú verður bara að afsaka - mér finnst bara séra Stefán í Vallanesi betra ljóðskáld. Halla finnst mér oft skorta ákveðna jarðtengingu og oft er ljóðrænan hans meira á himni en á jörðu.
Hitt er svo annað mál að ég virði alveg sjónarmið þeirra sem telja Halla Pé "ofurskáld"- þótt hann sé ekki í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þess vegna þarf að slá skjaldborg um hann með öllum tiltækum ráðum (eins og yfirleitt þarf að gera með fortíðina gagnvart hinum forheimskaða og sögulausa nútíma).
Elja er þetta hjá þér að telja út öll blípin. Væri ekki hægt að gera úr því skemmtilegt og nútímalegt ljóðatónverk með því að hafa blípin með mismunandi hljóðfærum og af mismunandi tónhæð? Eða láta okkar eigin Megas jarma ofaní á viðeigandi stað?
Að lokum: Þakka þér fyrir að vera öflugur útvörður skynsemi á þessum myrku tímum PC og forheimskunar, sem við lifum.
Helgi Ingólfsson, 1.3.2012 kl. 13:07
Set bara fremst: Í fyrsta lagi, í annan stað o.s.fr. sem lesist inn í kommentið eftir behag.
Ég held með sr. Hallgrími enda bjó hann á Stór-Akranessvæðinu (en ekki þessum Austfirðingi sem þú nefnir - kann þó sæmilega við afa Austfirðingsins, þótt hann hafi líka verið Austfirðingur náttúrlega ...)
Ég taldi ekki heldur opnaði Passíusálmana í Netútgáfunni og orðaleitaði. Jú, Megasarjarm kæmi vel til greina í stað blíbs enda er Megas sá eini af RÚV-lesendum Passíusálmana sem nýkjörinn formaður Vantrúar sér ekki ástæðu til að bana fyrir svoleiðis gjörning (sá nýkjörni gleymdi oblígatoríska broskarlinum í sinni athugasemd á vef Vantrúar en hann skólast til, ég trúi ekki öðru).
Útvörður skynseminnar? Miðað við kommentin sem ég hef lesið, hjá mér, á eyjunni og facebook Fr. Lilliendahl sé ég nú ekki betur en það sé eins og að bera vatn í meis að ætla sér að andæfa aðeins öfgafemínisma.
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2012 kl. 13:23
En svo ég taki nú undir eitthvað af þínum málflutningi (sem telst pólitískt korrekt á þessum síðustu og verstu tímum) þá orti sami Hallgrímur heldur leiðinlega um tóbak. Sem betur fer er sá illi kveðskapur ekki lesinn í útvarpi allra landsmanna á föstunni. Þess meir er spilað af Bach en hann orti einmitt mjög vel um tóbak. Svoleiðis að tóbaksunnendur mega vel við una (þetta er valid punktur sem hefur verið algerlega litið framhjá í umræðu um dagskrárhefð rásar 1 á þessum árstíma en er full þörf að vekja athygli á). Svo nokkuð má vissulega að sr. Hallgrími finna, jafnvel þótt hann hafi búið á Stór-Akranessvæðinu.
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2012 kl. 13:30
Jamm, Harpa mín.
Við hérna í úthverfum Stór-Akraness erum svoddan filistínar að kunna ekki góða hámenningu (eða HP-menningu) að meta. Ég mundi eftir tóbaksvísunum. Skrambi merkilegar í ljósi þess að á 17. öld ræða menn fyrst um mögulega skaðsemi tóbaks. Jakob fyrsti Englakonungur á að hafa riðið á vaðið og Halli Pé hefur hoppað á þann vagn tiltölulega snemma:
Tóbak nef neyðir,
náttúru eyðir,
út hrákann breiðir,
minnisafl meiðir.
Tóbak róm ræmir,
remmu framkvæmir,
háls með hósta væmir,
heilann fordæmir
og andlit afskræmir.
Slakur kveðskapur eður ei? Ég tek ekki afstöðu til þess, af ótta við holskeflu PC HP-aðdáenda, auk þess sem Halli ber í bætifláka fyrir tóbaksnotkun seinna. En mikið skrambi sakna ég plöntunnar - að hætta hér um árið var eins og að yfirgefa besta vin sinn á eyðieyju.
-----
Fyrst þú minnist á nýkjörinn æðstaprest í Vantrúarsöfnuðinum, þá las ég líka fyrstu predikun hans úr stóli. Þar fannst mér einna merkilegast að hann sér ástæðu til að árétta að söfnuðurinn sé ekki í eigu stofnfélaga og sérstaklega ekki í eigu eins tiltekins stofnfélaga. Enn fremur hnykkir hann á því sem einu höfuðmarkmiði að söfnuðurinn muni "halda áfram" að "valda ríkiskirkjunni vandræðum". Eins og það hafi vafist fyrir einhverjum?
-----
Annars koma Magdalenurnar sterkar inn. Það fyrsta sem mér datt í hug, þegar ég sá uppstillinguna, var: "Vá! Boney M!"
Helgi Ingólfsson, 1.3.2012 kl. 15:51
Já, nú loksins er orðið alminlega sönghæft hjá þeim, hægt að raða í allar raddir. "By the Rivers of Babylon" er álitlegt til æfinga enda Babylon mjög lýsandi fyrir jukkið í þeirri illu bók, biblíunni.
---
Nýi æðstipresturinn hefur einnig gerst mikill vinur femínista og slefuðu sumar góðar vinkonur mínar á Fb. yfir hófsömum málflutningi leikskólakennarans góða. Enda eru knúz-liðar af báðum kynjum vinir Vantrúar og vantrúarfélagar.
Þetta gæti gert sig prýðilega hjá Vantrú: Mjúkur maður með ást á börnum (vill örugglega leyfa börnunum að koma til sín) í forsæti, nokkrar Magdalenur í kring og svo aumingja Þórður sem hefur fylgt með í kaupunum.
(Er ekki Matti annars örugglega ennþá að vakta bloggið þitt? Hef ekki á kíkt á örvitann um skeið en skrifa þetta sérstaklega fyrir hann, karl vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn eins og þar stendur.)
---
Þetta með tóbakið: Tóbaksvarnarnefnd (eða Lýðheilsustofnun, man aldrei hver er hvað af þessum öfgastofnunum) skartar einmitt HP sem sínum gúrú. Sjálf er ég að hugsa um að fara að dæmi Skúla fógeta (? eða einhvers í Viðey) og fara að rækta mitt eigið tóbak í gróðurhúsi því sem maðurinn hyggst reisa á okkar sameiginlegu lóð. Þetta er að verða svo helvíti dýrt! Og af því tækifæri til lastafulls lífernis eru svo helvíti fá í mínu fátæklega lífi er ég að reyna að hanga á þessu litla sem þó er eftir af löstunum.
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 2.3.2012 kl. 00:30
Jæja, Harpa mín, nú gerast málin ærið flókin.
Fyrst viðvíkjandi tóbakinu: Ég vissi að Bach reykti pípu, enda voru tóbakskollegíin að komast í tísku um hans daga. Það voru forverar kaffihúsa og salóna - í Frakklandi drukku menn kaffi með pípunni, á Bretlandi fengu menn sér te með henni og í þýsku ríkjunum, sem skiptu hundruðum, drukku menn schnapps um leið og þeir svældu. Enda fundu menn upp dagblöðin á sama tíma, á f.hl. 18. aldar.
En að menn hafi reynt tóbaksrækt í Viðey hafði ég ekki heyrt fyrr. Er þá ekki Mangi konferenzsráð líklegri heldur en Skúli? (Þess utan væri þá komin miklu betri tenging við Stór-Akraness og allt það, ekki satt: Innri-Hólmur, Leirá, Melasveit.) Kannski er eitthvað um þetta í nýju skáldsögunni hans Sölva um sr. Björn í Sauðlauksdal, sem ég á eftir að lesa.
Ég hef stundum sagt að skammarlega sé farið með reykingafólk eins og holdsveikissjúklinga nútímans; þeir megi hvergi vera þar sem heilbrigðir eru. Sjálfur hætti ég fyrir 7 árum, 4 mánuðum og 3 dögum - og bíð eftir því tækifæri að verða fyrir svo stóru áfalli að draga skjálfhentur aftur upp sígarettuna og tendra - og enginn mun álasa mér, vegna þess hve áfallið var stórt.
Annars er hér ein merkileg trivía og kúríósa: Ekki var farið að fjöldaframleiða sígarettur fyrr en upp úr 1880 - og samt nefnir Gestur Pálsson í "Tilhugalífi" (frá 1888, minnir mig) að Sveini iðnsveini sé boðin sígaretta, þegar hann heimsækir kaupmanninn. Ég held að það hljóti að vera eitt af fyrstu dæmum um notkun þess orðs á íslensku - án þess að hafa kannað málið fræðilega.
-----
Viðvíkjandi hinu málinu, þá verðurðu að fara gætilega við að safna glóðum elds að höfði þér við að espa upp alla aktífistahópa landsins. Væri það ekki alsvakalegt, ef Dawkins-vonabíin og smáklíku-menntastelpu-femínistarnir rynnu saman í eitt og mynduðu Vanknúz?
P.S. Broskarlarnir eru oblígatorískir. Skyldu blessaðir femínistarnir vita hvað "meis" er, sem ekki kemur úr úðabrúsum?
Helgi Ingólfsson, 2.3.2012 kl. 11:50
Jújú, það er Tóbakslág í Viðey. Hinn víðsýni upplýsingamaður Magnús Steph. kom þar ekki við sögu, held ég, þrátt fyrir að vera af því góða Stór-Akranessvæði (enda búið að þrískrifa um karlinn og hans ætt, undir titlunum Saga Akraness -2 óskyldar bækur - og Akranes frá landnámi til 1885). Allir sem hafa lesið fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness frá 1986 til 2011 vita að Stefánungar voru vondir og arðrændu fólkið. Þótt sama ritnefnd hafi gert sitt til að nafn þeirra gleymdist örugglega ekki.
Held að það hafi örugglega verið hann Skúli sem plantaði tóbaki í þessa lág. Hafandi átt heima í Skúlagarði í 4 ár, hvar finna má minnismerki um Skúla þennan (fálkakvikindi sem ku hafa sest á bæinn í Keldunesi, sem er í sömu sveit, þegar drengbarnið kom í heiminn) held ég bæði með Skúla og Tóbakslág og var sannfærð um það strax í bernsku að Danir kynnu ekki að vigta.
Góðu fréttirnar eru þær að Fr. Dietrich hefur þegar fengið tilboð um gefins tóbaksplöntur úr menningarplássi nálægt Skálholti. Fr. Dietrich er áhugasöm um reykingar. Hún stjórnaði viðamikilli kryddjurtasáningu í eldhúsinu í gærkvöldi og munar ábyggilega ekkert um að planta tóbaki að auki.
Dawkins vonnabíin og síbernsku menntastelpufemínistarnir eru nú þegar meira og minna runnin saman, í oggolitla tvíhöfða tröllastelpu. Ég vonast til að upplýsandi bloggfærsla handa almúganum (sem ég hef verið að semja í huganum um leið og ég bródera á kvöldin), Takt og tone i nutidens samfund, muni gera fólki auðveldara að forðast að stíga á litlu tærnar á þessum hópi. Úr því það getur ekki farið í skó.
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 2.3.2012 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.