Á æskuheimili mínu á 7. áratugnum var einvörðungu að finna eina þýdda skáldsögu frá Rómönsku-Ameríku, en það var Forseti lýðveldisins eftir Nóbelsskáldið Asturias, og las ég hana eins og aðrar bækur spjalda á milli, þótt skilningurinn væri af skornum skammti, enda frétti ég síðar að sagan væri skrifuð í anda súrrealisma; samt áttaði ég mig mætavel á að hún fjallaði um einræðisherra og illa meðferð frumbyggja, eins og ég átti eftir að finna út að væri viðfangsefni margra verka frá þessum heimshluta, þótt næsta bók af þessum toga sem ég las, sem var Suðrið, úrval smásagna eftir Jorge Luis Borges í þýðingu Guðbergs Bergssonar, væri ekki að öllu leyti jafn staðbundin, þótt hún væri mun meira heillandi, og enn síðar, þegar kom fram á 8. áratuginn, las ég ýmislegt svipaðs eðlis, til dæmis bók er hét Ástin og dauðinn við hafið eftir Jorge Amado og mér þótti ekki skemmtileg, sem og Hundrað ára einsemd eftir Garcia Márquez, margfalt skemmtilegri, og loks hina makalausu skáldsögu Græna húsið (sem ég las reyndar í enskri þýðingu sem The Green House, en ku heita á frummálinu La casa verde) eftir Mario Vargas Llosa, sem opnaði mér heila heima og ómælisvíddir hvað stílbrögð varðaði, en fjallaði einnig (ásamt ýmsu fleiru) um hernað og meðferð á frumbyggjum, og í kjölfarið fór ég að lesa enskar þýðingar á verkum Alejo Carpentier, Pablo Neruda og Octavio Paz, auk heildarsafns verka Borgesar, held ég, enda hefur hann löngum verið höfundur, sem heillað hefur mig, þar sem hann kann að vísa lesendum veg inn í völundarhús orðanna, en á 9. áratugnum læsti ég tönnunum í efni frá þessum heimshluta, sem mér þótti jafnvel enn safaríkara, þegar ég komst í hinar hnausþykku skáldsögur Manuel Mujica Lainez, Bomarzo og Horn einhyrningsins (The Unicorn's Horn), sem eru þó að mörgu leyti evrópskar í eðli sínu, og um svipað leyti fór að koma út nokkur hrúga skáldsagna frá Rómönsku Ameríku, sem ég las jafn óðum, eins og Pantaleón og sérþjónustan eftir Vargas Llosa og Liðsforingjanum berast engin bréf og Ástin á tímum kólerunnar eftir Garcia Márquez, auk bóka eftir Isabel Allende og Lauru Esquivel, svo sem Hús andanna og Kryddlegin hjörtu, svo að kvenpeningnum sé nú líka haldið til haga, en eflaust er hellingur af rómansk-amerískum bókum sem ég hef lesið, en gleymi hér, þótt ég játi fúslega að ég hef ekki enn komist svo langt að sökkva mér ofan í Roberto Bolaño, sem er ein fremsta költ-fígúra bókmenntaheimsins síðustu ára og allir segja að sé algjört möst.
Nýlega rak á fjörur mínar skáldsöguna Fásinnu eftir jafnaldra minn, mið-ameríska skáldið Horacio Castellanos Moya, í prýðisgóðri þýðingu Hermanns Stefánssonar. Því kalla ég Castellanos Moya mið-amerískan" að hann ku fæddur í Hondúras, uppalinn í El Salvador og hefur búið í fleiri löndum Mið-Ameríku, ásamt því að vera hálfpartinn landflótta með íveru sinni á Vesturlöndum, til dæmis í Þýskalandi, Kanada og Bandaríkjunum. En Castellanos Moya skrifar á spænsku og viðfangsefni ritverka hans mun að stofni til sótt á heimaslóðir hans í Mið-Ameríku; svo er að minnsta kosti í Fásinnu.
Skáldsaga þessi er ekki mikil að vöxtum, einvörðungu 124 bls., en leynir þó á sér, því að segja má að textinn sé þindarlaus og þrýsti sér út í sérhvert ónotað rými, án greinaskila og án hefðbundinnar samtalsuppsetningar. Þetta var því meira eins og að lesa 200 blaðsíðna bók: Textinn er svo þéttur og stíllinn með því móti að hann kallar margoft á afturlit og endurlestur. Ef lýsa ætti stíl Fásinnu í sem fæstum orðum, dygðu sex orð: Margar kommur, fáir punktar, varla greinaskil." Til að gefa dæmi um þennan stíl setti ég efsta hluta þessa ritdóms upp í þeim anda. Að sama skapi minnir stíllinn á vissa hluta Græna hússins eftir Vargas Llosa með viðstöðulitlu hugsanastreymi sínu.
Að efni til er Fásinna ekki flókin ritsmíð. Atburðarásinni mætti lýsa svo: Ónefndur rithöfundur er ráðinn til ónefnds Mið-Ameríkuríkis til að prófarkalesa 1100 blaðsíðna skýrslu um þjóðarmorð, sem her og leyniþjónusta hafa framið allnokkru (líklega 17 árum) fyrr, á indíánaættbálki í landinu, Rithöfundurinn lendir síðan í allnokkrum ævintýrum meðan á yfirlestrinum stendur, einkum máske kvennafari, en virðist einnig hafa (eða telur sig hafa) ástæðu til að óttast um líf sitt.
Fásinna er saga mikilla andstæðna. Öðrum þræði er hið hversdagslega líf rithöfundarins, með drykkju, veislum og kvennafari, en hins vegar eru hinar hrottafengnu lýsingar á voðaverkum gagnvart indíánunum, sem vart verður með orðum lýst, en þær lýsingar einar og sér gera bókina nauðsynlega að lesa hana - jafnvel þótt manni verði óglatt af. Rithöfundurinn verður heltekinn af einstaka setningum úr vitnisburðum hinna fábrotnu indíána, sem ganga eins og leiðarstef bókina á enda - alveg sláandi sannindi í einfaldleik sínum. Öll ytri umgjörð sögunnar - fjöldamorðin, launungin um skýrslugerðina, andrúmsloftið í borginni og landinu - virkar einkar sannfærandi.
En að sama skapi er sjálf aðalsöguhetjan ekki ýkja trúverðug: Rithöfundurinn sem táldregur kvenfólk vinstri hægri er um leið neurótískari en Woody Allen. Sveiflur hans frá eðlilegri líðan" yfir í skelfilegustu örvæntingu eru afar ýktar og þótt það virðist hugrekki fólgið í því að leggja skýrslugerðinni lið, þá reynist rithöfundurinn hafa óttalegt músarhjarta. Sérstaklega verður ofsóknaræðið uppáþrengjandi þegar á líður og þá glatar söguhetjan trúverðugleika, verður pirrandi og pirraður, sem skilar sér í gegnum stílinn, svo að álykta má að það sé ætlan höfundar að skapa fremur illþolanlega lykilpersónu. Sem bókmenntaleg heild hangir Fásinna vel saman - hún á sér upphaf og viðunandi endalok - og stendur vel fyrir ofan meðallag. En hún er ekki stór í sniðum og inniheldur dyntótt óróleikaelement, sem draga að mínum dómi úr gildi hennar. Þess vegna myndi ég gefa henni þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og á köflum má hún jafnvel fá fjórar.
Vert er þó að geta hinnar frábæru þýðingar Hermanns Stefánssonar, en texti hans streymir áfram áreynslulaust, á blæbrigðaríku, auðugu og trúverðugu máli svo að oft var unun að lesa. Er ekki að undra að hann skuli hafa verið tilnefndur til þýðingarverðlaunanna árið 2011. Þó getur kverúlant eins og ég alltaf fundið eitthvað smávægilegt að hnýta í; þannig held ég að skápur úr sítrusviði (bls. 101) hljóti að eiga að vera úr sedrusviði - sem óþarft er að rugla saman við sítrusávexti. Að sama skapi finnst mér ekki hljóma vel að kvenkenna orðið dúsín" og tala um hálfa dúsínu lífvarða" (103); þótt þetta töluorð sé í kvenkyni á spænsku, þá held ég að málhefðin sé fyrir að nota það í hvorugkyni í íslensku, enda úr dönsku komið þangað. Einnig þótti mér ankannalegt að heyra söguhetjuna tala um að hann væri að hlýða á dulsmál" (103), þegar hann hlerar mál manna sem ræða í hálfum hljóðum um leyndarmál; samkvæmt málhefðinni þýðir dulsmál laumuspil við fæðingu ófeðraðs barns og væntanlega komið inn í málið frá tímum Stóradóms. Betra hefði verið að ræða um launmál" hér. En það er fyrir slík sárasjaldgæf smáatriði að ég veigra mér við að gefa þýðingu Fásinnu fullt hús; þýðingin er upp á fjórar og hálfa stjörnu af fimm. Einn rækilegur yfirlestur til viðbótar hefði kórónað verkið.
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nei, en gaman! Blogg um Fásinnu! Takk fyrir að lesa! Gaman að þessu. Ég mæli með lestri á Bolaño líka og ýmsu sem er að gerast á þessu svæði og á Spáni. Borges er í öllu frá þessum heimi, það er ekki búið að svara spurningum hans. Bolaño-mýtan er auðvitað svolítið yfirþyrmandi og kannski ekki árennileg en hann er vel þess virði að lesa, allavega það sem ekki er augljóslega mjólkun á frægð hans eftir að farið var að gefa út servíetturnar hans að honum látnum. Spurningin um ímyndina er sterk en maður á ekki að láta hana spilla fyrir sér þótt hún geti farið svolítið í taugarnar á manni. Moya er fjandi flinkur höfundur líka, finnst mér, stundum orðaður við Nóbelinn; eiginlega finnst mér hann ekki síðri en Bolaño. Ég held reyndar að Moya sjálfur fengi ekki svo vægt hjartaáfall að vera nefndur í sömu andrá og Márques og Allende, og þó, hann ætti að vera orðinn vanur því. Þessum strákum, þessari kynslóð, er svolítið uppsigað við töfraraunsæishöfundana. Verstur af öllum þykir þeim Coehlo. Borges náttúrulega kunna þeir að meta, sem og Cortázar, skárra væri það nú. Síðan er ekki óeðlilegt að láta það eftir Moya og fleiri (til dæmis af Crack-kynslóðinni svokölluðu) að setja hann í samhengi við mið-evrópska höfunda eins og Thomas Bernhard. Stíllinn er ansi skyldur honum. Og ég ætla nú ekki að vera svo typpilsinna (sumir segja tippilsinna, þetta er kynjað orðfæri, segja þeir, og þær) að fetta fingur út í athuganir þínar en það sem þú nefnir er sýnist mér mín eigin meðvitaða ákvörðun, mín eigin málvitund og jafnvel málvilji, og að ég held í samræmi við frumtextann og kenjar hans (dúsín er hálf ljótt orð og hefur aldrei náð fótfestu í íslensku, fyrst þýðandinn að Andrés Önd er farinn að nota dúsínur er tímaspursmál hvenær það orð verður ofan á). Þetta stafar alltsvo af óhlýðni minni við frábæra prófarkalesara en ekki þeirra starfi. Þá veit ég ekki hvort ég er sammála þér um persónusköpunina, mér finnst svolítið vænt um þennan náunga þótt hann sé auðvitað algerlega óþolandi. Ég held að persóna hans hafi eitthvað með það að gera hvernig yfirleitt er hægt að tjá hrylling á vorum dögum þannig að hann komi manni við. En ég kvabba ekki, þá væri ég bara eins og frekur skólakrakki sem heimtar tíu. Fólk er orðið einkunnasjúkt. Þú ættir hinsvegar endilega að senda gestapistil á bloggið Subbuskap og sóðarit meðan það stendur yfir, ég hef mjög gaman af að lesa bloggið þitt. Bestu, H.
Hermann Stefánsson (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 00:29
Sæll Hermann og takk fyrir athugasemdirnar.
Það sem ég vildi helst koma að í greiningu minni á Fásinnu, er ef til vill að þetta er ein af sjaldgæfum bókaþýðingum, þar sem lesandinn fær á tilfinninguna að þýðandinn hafi auðgað textann og gert hann ríkari en á frummálinu, vegna þess hve þýðingin felur í senn í sér magnaða orðkynngi og rennur þó mjúklega áfram. Ég tel m.ö.o. vart mögulegt að skáldsaga Castellanos Moya geti verið betri á frummálinu vegna þess hve "eðlilega" textinn streymir á íslenskunni. Tekið skal fram að þetta er án alls fræðilegs samanburðar; hér er mælikvarðinn (eða mælieiningin) einfaldlega "lestrarupplifun á íslensku". Þýðing þín fer þar með í hóp eftirlætisþýðinga minna af þessu tagi, en þar má t.d. nefna Orðabók Lempriéres eftir Lawrence Norfolk í magnaðri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur og Mælingu heimsins eftir Daniel Kehlmann í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur.
-----
Hvort það sé "dúsín" eða "dúsína" er síðan sparðatíningur, sem litlu máli skiptir í stóru myndinni - það er meira svona deila um hvernig liturinn er á stöku skegghári í öllu keisarans glæsta skeggi. Ég verð að játa að ég hef ekki fylgst með rómuðum þýðingum á Andrési Önd, þótt blaðið hafi borist vikulega um bréfalúguna hingað inn á heimili síðustu þrjú ár. En, eins og þú nefnir, þá kannt þú sem þýðandi að hafa þínar fagurfræðilegu ástæður fyrir að kvenkenna orðið. Væri þá líka forvitnilegt að heyra hvert þér þætti rétt kyn á orðinu "gróss", sem er jú dúsína af dúsínum!:-) Hið eina (eða tvenna) sem ég hafði fyrir mér um hvorugkynsmyndina "dúsín" var: a) Það sem íslenskukennarar kenndu mér í (meintu afleitu) íslensku menntakerfi á 7. og 8. áratugnum; og b) Í tveimur af þeim fjórum íslensku orðabókum, sem ég fletti upp í (Orðabók Menningarsjóðs, Samheitaorðabókin, Íslensk orðabók Eddu og Orðsifjabókin) var orðið að finna, í báðum tilvikum merkt sem hvorugkyn. En ef til vill er ágætt að auðga frónskuna með nýju rímorði við "rúsínu" :-)
-----
Ég þakka rausnarlegt boð um gestapistil í Subbuskap og sóðarit. Ef til vill þigg ég það og kem slíkri grein til þín þegar ég er búinn með þá stórmerku bók sem ég er að lesa (leyndó!). Þetta er þarft og merkt framtak hjá ykkur, og vert að vekja athygli á því, svo stórfínar greinar sem birtar hafa verið þar hingað til. Ef til vill dálítið karllægar enn sem komið er, en ... ;-)
Helgi Ingólfsson, 17.3.2012 kl. 12:16
Takk kærlega fyrir þín góðu orð, Helgi. Þetta er náttúrulega alltaf spurning, skiptir maður um kerfi í þýðingu, hunsar tylftirnar og fer í tuginn? Sennilega gera flestir það og þess vegna eru tylftarorðin í svona lítilli notkun í dag. Dúsína er svolítil rúsína. Það er eitt við þessa bók sem ég held að gæti verið lúmskt, ég er semsé ekki viss um að fagurfræðileg hrifning sögumanns á textabrotunum sé heil og sönn og ef hún er það ekki, þá er búið að invínklera lesandann og jafnvel koma samúð hans í uppnám. Ég veit það ekki. Þetta er svona ein pæling um þessa bók. Nóg um það, látum gott heita. Bestu, Hermann
Hermann Stefánsson (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 15:00
PS Gætirðu ekki gluggað í bók og skrifað færslu sem heitir Saurlifnaður til forna?
Hermann Stefánsson (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 16:33
Væri merarhjarta ekki betra en músarhjarta?
Þið Harpa eruð annars sem tvíburasálir; bloggi annað fer hitt á stjá.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 21:54
Þorvaldur S:
Ja, ætli það sé máske hjartað úr henni Skjónu minni? Ef til vill hefði ég átt að kalla það "hjarta úr lóuþrælsunga"? (Er það ekki úr vísu eftir Staðarhóls-Pál, spyr ég þig, lærðan manninn, ellegar misminnir mig?)
Annars erum við Harpa meira svona eins og tvær halastjörnur, hverra brautir skarast stundum, en geta þess í millum þeyst í ómælisfjarlægð hvor frá annarri.
Helgi Ingólfsson, 18.3.2012 kl. 22:25
Er ég nú orðin halastjarna! OMG!
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 12:06
Sæll Helgi.
Þú ert líklega að hugsa um eftirfarandi vísu eftir téðan Pál:
Lítið er lunga
í lóuþrælsunga
þó er enn minna
mannvitið kvinna
Páll Sólmundur (IP-tala skráð) 22.3.2012 kl. 18:25
Jú, þakka þér kærlega fyrir, Páll Sólmundur.
Þetta er einmitt vísan sem mig rámaði í og sé að mig hefur misminnt varðandi "lunga" og "hjarta".
Hitt er svo annað mál að sennilega er þessi 16. aldar vísa (?) afar illa séð á prenti í samfélagi nútímalegs feminisma. Verður ekki að vísa Staðarhóls-Palla á dyr, líkt og Halla Pé?
Helgi Ingólfsson, 26.3.2012 kl. 08:48
Er ekki Þórbergur hin eina sanna Halastjarna íslenskra bókmennta?
Hermann Stefánsson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 15:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.