Tíu egg - og tvö til vara.

Er til kraftmeiri söguþráður en sendiför fáránleikans, í kapphlaupi upp á líf og dauða, í borg umsetinni af skæðasta óvini allra tíma, nasistum, þar sem byssukúlur þjóta með hvin um eyru og sprengjur jafna heilu fjölbýlishúsin við jörðu, um hávetur þar sem frostið klípur af manni tærnar og ösla þarf snjó upp að kvið, þar sem hungurvofan vokir yfir söguhetjum sem og milljónum annarra, þar sem öll aðföng eru af skornasta skammti, menn sjóða bókakili til að fá prótein úr líminu og þeir örvæntingarfyllstu leggjast í mannát?

Snemma í umsátrinu um Leníngrad, í janúar 1942, gerist Lev Beníoff, 17 ára unglingur af Gyðingaættum, sekur um að stela öndvegishníf af þýskum fallhlífarhermanni, sem fallið hefur til jarðar að næturlagi nálægt húsi hans. En líkþjófnaður er dauðasynd í hinni umsetnu borg, Lev er gómaður og honum varpað í fangelsi, þar sem hann bíður dauðadóms. (Hér flaug mér í hug hvort um vísun gæti verið í Dostoíevskí, sem einnig var dauðadæmdur, en náðaður af keisaranum (sjálfum Nikulási I., minnir mig!) á elleftu stundu.) Í fangavistinni kynnist Lev ungum myndarlegum manni, Kolja að nafni, sem einnig á yfir höfði dauðarefsingu sem meintur liðhlaupi.

En þeir fá óvæntan - og nánast bókstaflegan - gálgafrest þegar ofursti nokkur, nógu háttsettur og virtur til að geta veitt fullt ferðaleyfi um borgina, felur þeim að útvega egg fyrir aðsteðjandi brúðkaup dóttur sinnar - í borg þar sem engin egg er að finna. Dóttirin vill fá sína brúðkaupstertu, eins og brúðir eiga að fá, og pabbinn vill auðvitað gera veisluna dótturinni eftirminnilega. Reyndar segist hann bara þurfa tíu egg, en gera þurfi ráð fyrir að eitt gæti verið fúlegg og auk þess að eitt gæti brotnað við leitina. Til að útvega eggin hafa þeir kompánar fimm daga.

Þetta er bara upphafið að bókinni Þjófaborg eftir David Benioff. Síðan berst svaðilförin út um víðan völl, um alla borgina, út fyrir hana og jafnvel handan við víglínuna. En best er að segja lítið um söguþráðinn, því að hann gengur afar hratt fyrir sig og tekur ítrekað óvæntar beygjur og kúvendingar. Stóra vandamálið er þetta: Hvernig má finna eitt dúsín af eggjum í matarlausri borg?

Skemmst frá að segja er þetta bráðskemmtileg saga. Hún minnir um margt á kvikmyndahandrit, enda ku höfundurinn eiga bakgrunn sinn að einhverju leyti í handritagerð (hann er eiginmaður filmstjörnunnar Amöndu Peet), en tengsl við Hollywood þurfa ekki að vera löstur; umfram allt er Benioff afar flinkur sögumaður. Hvað eftir annað dáðist ég að því hve bitastæð bókin er; þarna er hlátur, grátur, hryllingur, pyntingar, hugrekki, hetjudáðir, ástir, líf og dauði. Og saga um þroska og mótun vináttu.

Til að knýja hraða og spennu í söguþræði þarf knappan stíl og þess gætir vissulega hér. Eigi að síður leyfir höfundur sér hvað eftir annað að doka við til að varpa ljósi á hinar hörmulegu og ógleymanlegu aðstæður fólks í borginni. Og í miðri þessari mannlegu eymd dregur höfundur einnig upp ljóslifandi mynd af hinu merka menningarlífi borgarinnar: Majakovskí er að vísu dauður fyrir nokkru, en Mandelstam er hneykslunarhella og Akhmatova hefur komið sér frá borginni í öruggt skjól; Sjostakóvitsj, höfundur frægasta og merkasta listaverks tengdu umsátrinu, fær sínar pillur og skáklistinni er gert hátt undir höfði. Vísanir eru í allar áttir: Þannig býr Lev í upphafi í Kírov-byggingunni, sem kennd er við Sergei Kírov kommúnistaleiðtoga, en morðið á honum (mögulega fyrirskipað af Stalín) seint á árinu 1935 markaði upphafið að hinum frægu hreinsunum og Moskvuréttarhöldum, þar sem Stalín losaði sig við alla keppinauta, ímyndaða og raunverulega. Sagan um Húsagarðsrakkann, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum bókina, er einnig ógleymanleg; minnir á hina epísku rússnesku skáldsögu með dálitlum skringilegheitum, en á sér samt sérstæðan uppruna.

Þegar upp er staðið er ég alveg hissa á því hversu mikið efni er að finna í skáldsögu, sem gengur út á hraða frásögn. Oftast er svo að maður les ekki spennubækur tvisvar, en þessa get ég hugsað mér að lesa að nýju. Ef til vill ekki alveg jafn safarík eins og Nafn rósarinnar, en þó býsna mergjuð bók. Merkilegt þótti mér, og þó kannski ekki, að Bandaríkjamaður skyldi hafa skrifað Þjófaborg, því að andinn er að mestu evrópskur - eða jafnvel rússneskur. Lýsing á staðháttum er ansi hreint sannfærandi og heimildavinnan lýtalaus, að því marki sem ég fæ dæmt. Eini ljóðurinn, sem ég kom auga á, eru hraðsoðin blótsyrði, sem virtust klippt beint út úr amerískum samtíma. Vafalítið áttu Rússar í seinni heimsstyrjöld sitt mergjaða blót og ragn, en ég efast einhvern veginn um að það hafi verið, eins og segir í bókinni Þjófaborg: „Sjúgðu tittlinginn á mér."

Enga misfellu finn ég á þýðingu Jóns Halls Stefánssonar á Þjófaborginni; hún rennur áfram sem bráðið smér mjúk undir tungu, lipur, læsileg, orðskrúðug og fjölbreytt í málfari. Megi hann hafa þökk og heiður fyrir.

Að tillögu Sverris Norlands er ég hættur að gefa bókum stjörnur, en hef í staðinn einfaldlega þetta að segja um Þjófaborg eftir David Benioff: Þetta er skrambi mögnuð og skemmtileg lesning, sem ég sé ekki eftir að hafa varið tíma til - og á líklega eftir að sólunda tíma mínum í að nýju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er notalegt að vera. Hér er ekkert hrafnaþing, hér er enginn tregi.

Hermann Stefánsson (IP-tala skráð) 14.4.2012 kl. 12:05

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Allt æsingarlaust, í tærri kyrrð.

Býsna merkileg bók, Þjófaborg. Eins og að hræra saman Sven Hassel og Túrgenév. Spennusaga (samt ekki reyfari) með heilmikinn bókmenntalegan metnað. En ég veigra mér við að kalla hana strákabók ...

Helgi Ingólfsson, 14.4.2012 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband