Nú berast þær ánægjulegu fréttir utan úr heimi að endurgera eigi kvikmynd eftir hinni dásamlegu smásögu James Thurber, The Secret Life of Walter Mitty. Mun það vera sjálfur Ben Stiller, sem á heiðurinn að framtakinu, og ætlar sér hvoru tveggja, að leikstýra og leika aðalhlutverkið. Ef einhvern tíma hefur verið skrifuð smásaga, sem blása má upp í heila bíómynd, þá er það þessi. Auk þess, nú um mundir, þegar kynjabaráttan virðist fara harðnandi, hlýtur Thurber að eiga erindi við okkur öll - eða að minnsta kosti okkur karlana. Samt sé ég Stiller ekki alveg fyrir mér í titilhlutverkinu (sem Danny Kaye lék kostulega í gömlu filmútgáfunni). Þar hentar best litlaus leikari, lítt áberandi meðaljón, sem orðið getur frækinn garpur og sjarmatröll þegar aðstæður kalla á.
Reglulega - á um þriggja til fimm ára fresti, þegar mig langar til að hlæja upphátt - tek ég fram smásagnasöfnin tvö eftir Thurber sem ég á, The Beast in Me and Other Animals og The Thurber Carnival. Þetta eru mestmegnis smásögur, ritgerðir og hversdagsdæmisögur úr nútímanum. Annars birtust sögur af leyndarlífi ýmissa persóna í kringum 1940. Fáum árum á eftir Walter Mitty kom út hneykslunarverð sjálfsævisaga, The Secret Life of Salvador Dalí, þar sem katalánski listamaðurinn lýsti því stóryrtur hvers lags snillingur, undrabarn og ólíkindatól hann hefði verið verið allt frá fæðingu. Thurber var ekki lengi að henda þann bolta á lofti og skrifaði í kjölfarið kostulega háðsgrein/smásögu, The Secret Life of James Thurber, þar sem hann ber uppvöxt sinn í Ohio saman við æsku Dalís og þykir ævi sín heldur ómerkileg í samanburði við Katalánann fræga. Þessi grein/smásaga Thurbers er með því fyndnara sem hægt er að lesa. Eftirlætissögur mínar eftir þennan mergjaða grínista eru þó sennilega The Macbeth Murder Mystery, þar sem nýju ljósi er varpað á morð þeirra Duncans konungs og Banquo, og Bateman Comes Home, paródía á Suðurríkjasögur Erskine Caldwell (en hver man sosum lengur eftir Caldwell, frekar en Thurber?)
Flokkur: Bloggar | 11.5.2012 | 12:31 (breytt kl. 16:13) | Facebook
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
En hvað það er gaman að hittan annan aðdáanda Thurbers..... The Secret Life of Walter Mitty var einmitt fyrsta sagan, sem ég las eftir hann, enda hluti af pensúminu í M.R. á sínum tíma....og er vonandi enn!! Í framhaldi af því fór ég að leita eftir verkum eftir hann og eignaðist auðvitað myndina með Danny Kaye!!....:-)).... Hann var einmitt mjög beittur og háðskur....og flinkur teiknari líka!! James Thurber er og verður á topp tíu rithöfundalistanum mínum!!!! Annar Bandaríkjamaður, sem ég uppgötvaði á svipuðum tíma var John Cheever....algjör snillingur. The Stories of John Cheever minnir mig að heiti smásagnasafnið hans, alveg frábært!! Pulitzer verðlaunahafi.....en sögurnar hans eru yfirleitt ansi dökkar og dapurlegar....en alveg mergjaðar....
Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.5.2012 kl. 14:26
Takk fyrir athugasemdina, Jón.
Já, Thurber er magnaður. Og sem teiknari líka - þar er hann eins konar "absúrd minimalisti í drátttækni, algjörlega með sinn eigin auðþekkjanlega stíl og næstum súrrealíska kímnigáfu". Magnús Ásgeirsson gerði Thurber býsna merkileg skil í frægri þýðingu sinni á "Síðasta blóminu".
John Cheever þekki ég því miður ekki nema af afspurn, þ.e.a.s. ég hef séð höfunda og aðra vitna í hann af virðingu, en hef sjálfur aldrei náð að lesa neitt eftir hann. Ef til vill legg ég það á mig núna - hann hefur alltént fangað athygli mína. Æ, en þetta líf er svo stutt og svo margt skemmtilegt til í henni versu að lesa.
Helgi Ingólfsson, 11.5.2012 kl. 15:06
Mér er enn í minni hvað ég hló mikið að Danny Kay hér fyrir meira en 60 árum.
Það verður erfitt að feta í fótspor hans.
Ómar Ragnarsson, 12.5.2012 kl. 00:10
Það gleður oss að sígild verk öðlast nýtt líf og færir etv ungum ný tækifæri til að skilja oss gamlíngjana. Og úr því þeir í úttlöndum ætla að endurgera Leyndarlífið má þá ekki búast við því að tímamótaverkið Jóhannes rati á hvíta tjaldið frá Hollívúdd?
Hvur veit?
Þ.Lyftustjóri (IP-tala skráð) 12.5.2012 kl. 09:49
Ómar (aths. 3):
Ég hef bara séð tvær myndir með Danny Kaye, en báðar voru bráðskemmtilegar. Hin var "Hirðfíflið" (The Court Jester), sem var í Ríkissjónvarpinu um miðjan 8. áratuginn, minnir mig. Þar var Danny að spila á lútu (í þykjustunni), syngja og að sprella, svona almennt. Minnir á einhvern ... hmmmm.
----
Þ.Lyftustjóri (aths. 4): Jamm, nú er bara að góma Ben Stiller næst þegar hann kemur til Íslands og vekja áhuga hans ...
Helgi Ingólfsson, 12.5.2012 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.