Um tómata í ítalskri matargerð og kraftaverkalyfið Heróín.

Nýlega endurlas ég eina af skemmtilegri bókum, sem ég hef komist í á seinni árum. Og sem fyrr las ég einvörðungu hálfa bókina. Samt skemmti ég mér konunglega.

Umrædd bók heitir Napoleon´s Buttons; 17 Molecules That Changed History og er eftir tvo efnafræðinga, hina kanadísku Penny Le Couteur og hinn bandaríska Jay Burreson. Það sem gerir bókina eftirtektarverða er hvernig hún blandar mannkynssögu saman við efnafræði; hún rekur ekki „sögu efnafræðinnar, heldur efnafræði sögunnar," eins og segir í formálanum.

Nú er svo að ég er enginn sérstakur áhugamaður um efnafræði, þótt ég hafi numið þá grein á menntaskólaárum og rámi í benzen-hringinn og endalausar lengjur af COOH. Af slíkum fróðleik er bókin stútfull, með óteljandi skýringarmyndum og efnahvörfum. Þetta var sá helmingur bókarinnar sem ég sleppti, fyrr sem nú. Hafi einhver áhuga á að vita hver eru virku lyktarefnin í chili-pipar eða litarefnin í indigó-bláum lit eða efnasamsetningu LSD (sem stendur fyrir „Lýsergísk-Súrt Díethýlamíð") eða heróíns, þá er þetta rétta bókin. En jafnframt er rakin saga efnanna, uppfinning þeirra og notkun í aldanna rás - og það gerir bókina svo spennandi. Vissuð þið til dæmis að allt fram á 18. öld var kryddtegundirnar múskat og negul eingöngu að finna á tveimur örsmáum eyjaklösum í SA-Asíu? Þetta voru Mólúkkaeyjar (múskat) og Bandaeyjar (negull), sem fyrr á öldum voru gjarnan nefndar einu nafni Kryddeyjarnar, en tilheyra í dag Indónesíu. Á 17. og 18. öld komu Hollendingar sér upp algjörri einokunaraðstöðu með þessar kryddjurtir og flutning þeirra til Evrópu og högnuðust gríðarlega á. Og það var ekki fyrr en árið 1770 að frönskum stjórnarerindreka tókst að smygla múskat-afleggjurum frá Mólúkka-eyjum til frönsku nýlendunnar Mauritius, þaðan sem ræktunin  breiddist um alla austurströnd Afríku. Og enn síðar var farið var að rækta neguljurtina utan Banda-eyja, enda þarf hún víst sérstök skilyrði til að þrífast - í rökum og gljúpum jarðvegi í hlýju loftslagi, en þó í vari fyrir sól, þar sem vindar leika um. Um síðir átti eftir að koma í ljós að þær aðstæður var að finna sums staðar í Karabíska hafinu, einkum á eyjunni Grenada, sem síðar fékk nafnið Neguleyjan.

Á þann hátt er í bókinni rakin útbreiðslusaga margra nytjaplantna, stundum næsta ólíkleg. Tómatplantan, sem margir tengja sérstaklega við ítalska matargerð, er t.d. upprunnin í Ameríku og barst ekki til Evrópu fyrr en upp úr 1500. Að sama skapi flutti Kólumbus fyrsta sykurreyrinn til Karabíska hafsins frá Evrópu strax í 2. ferð sinni, árið 1495 og um 20 árum síðar fékkst uppskera. Sykurreyrsræktun margfaldaðist við kjöraðstæður á þessum slóðum og varð grunnur hins útbreidda þrælahalds þar; á eftir plöntunum voru svartir menn fluttir frá Afríku sem vinnuafl, þegar hinir innfæddu hríðféllu af vinnuhörku eða vegna sjúkdóma. Á svipaðan hátt ferðuðust hrísgrjónaplantan (upphaflega frá Kína) og baðmullarplantan (frá Indlandi) þvert yfir hnöttinn á 17. og 18. öld, þar sem þeim var fundið lífvænlegt kjörlendi á þeim slóðum þar sem síðar urðu til Suðurríki Bandaríkjanna - og þá um leið mótuðust vaxtarskilyrði þrælahalds, sem um síðir átti eftir að leiða til klofningstilraunar og borgarastríðs í Bandaríkjunum árin 1860-65. Og það var einmitt flutningur kaffiplöntunnar frá Afríku til Brasilíu, sem leiddi til gríðarlegra þrælaflutninga, sem skilaði sér í því að Brasilía þráaðist einna lengst við, allra vestrænna ríkja, þegar kom að afnámi þrælahaldsins, eða allt fram til ársins 1881.

Samhliða sögu kaffiplöntunnar og útbreiðslu hennar er í bókinni veitt innsýn í efnafræði hennar og hins virka efnis, sem við sækjumst öll eftir - kaffeins. Fróðlegt þótti mér að lesa að Evrópa hefði mátt heita kaffeinfrí fyrir 1500. Það er ekki fyrr en í kjölfar landafundanna að kaffeindrykkirnir þrír bárust til Evrópu - te (frá Kína, síðar Indlandi), kaffi (frá Arabalöndum, N-Afríku og Tyrkjaveldi) og kakó (frá þeim slóðum þar sem í dag er Mexíkó). Hvort Evrópa hafi verið skárri kaffeinlaus? Svarið er líklega neitandi, því miður. Fyrir daga kaffeindrykkja var nefnilega mjög algengt að íbúar álfunnar hresstu sig, jafnvel með morgunverði, á áfengum drykkjum, víni í S-Evrópu og bjór og miði í N-Evrópu.

Titill bókarinnar í hnappa Napóleons er skírskotun í lífseiga þjóðsögu efnafræðinga, sem fæst þó engan veginn staðfest af sagnfræðinni. Þannig er mál með vexti að Napóleon var mjög umhugað um að hermenn sínir, ofan frá herforingjum niður í óbreytta fótgönguliða, væru svo vel klæddir sem völ var á. Voru herbúningar þeirra hnepptir með sérstökum hnöppum sem steyptir voru úr tini. En þjóðsagan gengur út á að þetta hafi orðið Le Grande Armée , allt að 600.000 manna herliði, að falli við innrásina í Rússland 1812, því að óvenjumiklar frosthörkur urðu strax um haustið og tin verður stökkt og molnar við langvarandi frystingu. Kenningin athyglisverða gengur því út á að tinhnapparnir á klæðum herliðs Napóleons hafi grotnað og að hermennirnir hafi að meira eða minna leyti verið berskjaldaðir fyrir kuldanum, jafnvel frekar þurft að nota hendur til að vefja að sér klæðum en að skjóta af rifflum. (Reyndar er seinna í bókinni önnur efnafræðileg ástæða einnig hafa átt þátt í falli herliðs Napóleons árið 1812, þ.e. að „ergotismi" eða rúgdrep hafi skemmt kornbirgðirnar, en einhverjar heimildir munu vera fyrir slíku.

Það er einmitt í tengslum við „ergotismann", rúgdrepið, sem sumar athyglisverðustu kenningarnar koma fram í bókinni, m.a. að þessi matareitrun kunni að hafa átt sinn þátt í galdrafárinu, sem reið yfir Evrópu á 16. og 17. öld. Rúgmjöl var uppistaða í mataræði víða í Evrópu fyrr á öldum, en við vissar kringumstæður - á heitum sumrum þar sem rúgur var ræktaður í grennd við rök mýrarsvæði - gat átt sér stað lífshættuleg sveppamyndun (Claviceps purpurea, ef einhver hefur áhuga) í korninu, með virku efni sem nefnist ergotamín, út frá sveppnum sem í daglegu tali var nefndur upp á frönsku ergot, en efnið var jafneitrað þótt kornið væri malað. Eituráhrifin gátu lýst sér í ofskynjunum, flogaköstum, ósjálfráðum útlimahreyfingum, pípandi niðurgangi og ýmsu fleiru; í svæsnustu tilvikum drógu þau fólk til dauða.Til eru heimildir um rúgdrep og að heilu þorpin hafi orðið fyrir slíkri eitrun víða um Evrópu frá miðöldum, en þó einkum frá Frakklandi og Þýskalandi, þeim tveimur löndum þar sem síðar var gengið lengst í galdraofsóknum. Er við komum inn á tíma trúaröfga á 16. og 17. öld, þegar kaþólikkar sáu mótmælendur sem útsendara andskotans og öfugt, var þá ekki sennilegt, ef slíkur faraldur gaus upp, að þorpsbúar kenndu um fátæku ekkjunni, sem bjó ein í skógarjaðri utan þorpsins, hafði ekki efni á að kaupa malað rúgkorn (og var því við hestaheilsu), en bjó yfir kunnáttu á grösum, sem hún sauð oft í potti? Hlaut hún ekki að vera galdrakerling fyrst hún slapp við eitrunina? Út frá þessari sveppaeitrun í rúgi og öðrum viðmóta í annars konar matvælum setja höfundar Napoleon´s Buttons fram hlutaskýringu á galdrafárinu, m.a. hinni sérkennilegu múgsefjun í Salem í Massachusetts 1692. Þó leggja höfundarnir skynsamlega áherslu á að hér sé einvörðungu um hlutaskýringar að ræða og að fleiri þættir kunni að hafa haft áhrif á flókið ferli. Fyrst að minnst er á galdra, þá má nefna að í bókinni er varpað fram mögulegum skýringum um hvernig hugmyndir um gandreiðir norna urðu til, en út í þá sálma verður ekki farið hér.

Drjúgur hluti bókarinnar fjallar um læknisfræðilegar uppgötvanir í efnafræði, m.ö.o. upphaf lyflækninga. Þar var framarlega strax um aldamótin 1900 þýski lyfjarisinn Bayer. En ekki vissi ég að það fyrirtæki hefði átt rætur sínar, eins og fleiri lyfja- og efnafyrirtæki, í klæðalitun á s.hl. 19. aldar, en þá voru óhemju miklar uppgötvanir gerðar á því sviði, svo að náttúruleg litarefni hurfu að meira eða minna leyti og í dag eru nánast öll föt, sem við klæðumst, lituð með efnafræðilegri litun. Í tengslum við þróun lita uppgötvuðu Þjóðverjarnir hjá Bayer um 1850 efni sem um 40 árum síðar var markaðsett sem lyf og gefið heitið Aspirín. Lagði það grunninn að stórveldi Bayer. En um undir lok 19. aldar þróaði Bayer einnig aðra efnasamsetningu, sem þeir gáfu lyfjaheitið Heróín, enda átti það að vera hetjulegt undralyf, sem læknaði ótal kvilla, allt frá kvefi til berkla. Þannig var nafngiftin upphaflega lyfjaheiti. Fljótt komu þó í ljós fylgikvillarnir; lyfið var meira ávanabindandi en nokkurt annað þekkt efni. Þegar einkaleyfi efnasamsetningar renna út og samheitalyf birtast, þá reyna frumlyfjaframleiðendur iðullega að tryggja sér einkaleyfi á frumheiti lyfsins, eins og Bayer gerði 1917 með aspirín. En þeir höfðu af eðlilegum ástæðum engan áhuga á að tengja nafnið heróín við fyrirtækið, þegar virkni þess kom í ljós, og sóttu ekki um einkaleyfi á heitinu, enda framleiðslunni fljóthætt.

Forvitnilegt þótti mér einnig að lesa að undir aldamótin 1900 höfðu menn töluverðar áhyggjur af því að fíllinn kynni að verða útdauður. Meginástæðan? Vinsældir billjard-íþróttinnar. Fílabein var svo sem notað í aðra smíði, t.d. sem yfirlag á hvítu nótum píanóa, en einkum var það eftirsótt í billjardkúlur, vegna hörkunnar og hins fullkomlega slípanlega yfirborðs. Það var ekki fyrr en 1907 sem fram kom hið harða plastefni Bakelite (uppfundið af belgísk-ættaða Ameríkananum Leo Baekeland), sem gat leyst fílabeinskúlur billjardsins af hólmi. Bakelite var einnig notað í margvíslega aðra framleiðslu og gerði uppfinningamanninn að milljónungi á svipstundu. Þeir sem muna eftir gamaldags símtækjum átta sig máske best á hvernig Bakelite-efnið er.

Á þennan hátt er Napoleon´s Buttons uppfull af sögulegum staðreyndum af efnafræðilegum toga, sem við fyrstu sýn kunna að virðast smávægilegar, en hafa í reynd breytt gangi sögunnar og mótað samfélög manna, í fortíð sem nútíð. Bókin er ekki beinlínis fræðirit, heldur ívið meira í líkingu við alþýðleg fræðirit og þótt efnafræðin virðist traust (og stundum nokkuð yfirþyrmandi), þá hafa fáeinar smávillur um sagnfræði ratað inn, einkum varðandi ártöl. Þannig er t.d. sagt að fyrsta svæfingin í læknavísindum hafi átt sér stað árið 1864, þegar réttara er að hún hafi verið 1846, og að Alexander mikli hafi sigrað Persa í orrustu árið 320 f.Kr., en hann lést þremur árum fyrr. Þessar villur eru fáar og smáar og að sjálfsögðu helst sýnilegar þeim, sem meiri þekkingu hafa á efninu. Þær lýta ekki að marki hinn skemmtilega heildarsvip verksins. Þvert á móti má segja að Napoleon´s Buttons sé bók, sem allir þeir er áhuga hafa á sagnfræði, jafnt fræðimenn sem leikmenn, ættu að lesa, þótt ekki væri nema sér til óblandinnar skemmtunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

skemmtilegasta grein sem ég heflesið  ;o)

casado (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 03:57

2 identicon

Mjög skemmtilegur pistill! Ég hef aldrei heyrt þessa tinhnappaskýringu á ógöngum Napóleonsliðsins en hún er óneitanlega trúverðug ... sé hermennina í anda reyna að halda uppum sig brókunum ...

Til að viðra oggolítið þekkingarbrot sting ég því að þér að fyrstu þunglyndislyfin (þríhringlaga lyfin svokölluðu) voru upp fundin við berklum. Engum batnaði berklarnir en menn tóku eftir að sumir fárveiku sjúklinganna urðu pínulítið léttari í lund. Þetta er svona aukaverkunarsaga sem seinna endurtók sig í því vonlausa hjartalyfi Viagra ...

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 25.5.2012 kl. 10:15

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Takk fyrir innlitið og innleggið, Harpa, ég hef því miður verið utan þjónustusvæðis undanfarna daga, en er kominn á ný í siðmenninguna.

Þetta með Viagra og hjartalyfin hafði ég heyrt áður. En ekki að menn hefðu glímt við berklalyf og endað með þunglyndislyf.

Annars er í umræddri bók óendanlega margvíslegur fróðleikur; ég er alltaf að rekast á eitthvað í hversdagslífinu, sem fær mig til að hugsa til hennar.

Helgi Ingólfsson, 28.5.2012 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband