Kvöldstund með Costello

Ég keypti plötu með Elvis Costello áður en ég hafði heyrt í honum.

 

Nú eru næstum slétt 35 ár síðan. Ég var að þvælast á Interrail-ferðalagi um Evrópu árið 1977 og hafði ákveðið að birgja mig upp af hljómplötum í ferðinni, en stuttu áður en ég lagði af stað hafði ég skoðað helstu bresku poppblöð þess tíma, eins og Melody Maker og New Musical Express, og út frá skrifum þeirra um hvað væri talið merkilegt í pípunum, skráði ég lista bakvið eyrað. Mig minnir að það hafi verið í Como á N-Ítalíu að ég álpaðist inn í plötubúðina á sjóðheitum ágústmánuði og keypti My Aim Is True, óheyrða. Fyrir einkennilega tilviljun lést „hinn" Elvis, þ.e. Presley, nánast um sama leyti - gott ef það var ekki bara í sömu vikunni. En tilviljunin var mikil, einkum vegna þess að á plötuumslag hins nýja Elvis, þ.e. Costello, var skrifað í reiti „Elvis Is King".

 

Alla vega sneri ég heim úr reisunni með um 20 misáhugaverðar plötur, þ.á.m. Marquee Moon með Television og einar þrjár plötur með Jonathan Richman and the Modern Lovers, til að nefna fleira eftirminnilegt. Fljótt fór ein plata að skera sig úr hópnum og hlustaði ég langmest á hana. Það var My Aim Is True. Platan var mjög jafngóð, vart veikur blettur á henni. Að vísu hafði hún þann ókost að hún sótti í sumum lagasmíðum dálítið aftur til 6. áratugarins, sem mér var ekki að skapi. En á móti kom að önnur lög voru frumleg og melódísk, söngurinn fullur af aggressívri tilvistarangist, textarnir hnyttnir og beittir. Fyrir mér stóð alltaf upp úr lagið „Less Than Zero", um „Mr. Oswald with the swastika tattoo", lag sem olli miklu fjaðrafoki í Bandaríkjunum fáum árum síðar, þar sem þarlendir töldu það fjalla um Lee Harvey Oswald, þótt Costello hefði haft í huga Oswald Mosely, leiðtoga breskra nasista á millistríðsárum. Lagið átti eftir að verða enn alræmdara þegar bandaríski rithöfundurinn Bret Ellis Easton, rétt rúmlega tvítugur, notaði titil þess á fyrstu skáldsögu sína, sem lýsir fánýti og einskishyggju ríkra unglinga í Hollywood. Önnur framúrskarandi lög á My Aim Is True eru „Welcome to the Working Week", „Alison", „(The Angels Wanna Wear My) Red Shoes" og „No Dancing". Fáar plötur eru jafngóðar í gegn. Nú ætti ég ef til vill að nefna að „Watching the Detectives", fyrsti smellur Costello, var ekki á þessari fyrstu útgáfu My Aim Is True, heldur var lagið gefið út á smáskífu eftir útgáfuna, en þegar lagið og breiðskífa urðu vinsæl var farið að þrykkja það sem síðasta lag á breiðskífuna. Ég hef aldrei athugað það, en kannski er vinyl-platan mín (þetta var töluvert fyrir daga geisladiska) rarítet fyrir vikið. Hún kemur jú örugglega úr fyrstu pressun.

 

Fullur vonar keypti ég næstu plötu, This Year´s Model, um leið og hún kom út - og varð fyrir vonbrigðum, þótt hún skilaði Costello öðrum smelli („I Don´t Want to Go to Chelsea"). Flest lögin voru um 2 mínútur að lengd, hröð, með miklum orgelleik (frá Steve Nieve, sem var áberandi í nýstofnaðri stuðningshljómsveit Costello, The Attractions) og hið eina, sem mér þótti hlustandi á, var hið rólega „Little Triggers". Plötunni fylgdi einnig smáskífan „Stranger In The House", fyrsta daður Costello við sveitasælutónlistina - gott ef George Jones sjálfur söng það ekki með honum. Ég var svo lítt hrifinn að ég held ég hafi gefið einhverjum plötuna og smáskífuna saman.

 

Þarna, árið 1978, hafði ég eiginlega sagt skilið við Costello. Þess vegna keypti ég ekki Armed Forces þegar hún kom út, þrátt fyrir að hún innihéldi ofursmellinn „Oliver´s Army". Í einhverri rælni keypti ég Get Happy (með einu góðu lagi, „New Amsterdam"). Næstu fjórar plötur, Punch the Clock, Trust, Almost Blue og Imperial Bedrooms lét ég að mestu fram hjá mér fara - heyrði stundum bara smáskífurnar af þeim, eins og „Everyday I Write the Book" og „Good Year For the Roses". (Þessar plötur keypti ég inn í safnið seinna, en upphaflegt mat mitt á þeim breyttist lítið.) Ég fjárfesti þó einhverra hluta vegna á þessum árum í Goodbye Cruel World, þokkalegri plötu með einu góðu lagi, „Peace in Our Times".

 

Svo kom King of America. Vá! Aftur komin plata með Costello sem var góð í gegn, með sæg af meistarastykkjum: „Little Palaces" (mögulega besta lag Costello), „Brilliant Mistake", „American Without Tears", „Indoor Fireworks" og allt hitt. Meira að segja heilmikið kántrí, sem hægt var að kyngja („Glitter Gulch", „Lovable"). Þá fór ég aftur að reyna að fylgjast með honum. En næstu plötur ollu aftur vonbrigðum. Blood and Chocolate var hrein hörmung, Mighty Like a Rose mestmegnis líka, en þó með einu snilldarlagi („All Grown Up", mögulega einnig besta lag Costello) og hin mistæka plata Spike (með hinu gullfallega „Tramp the Dirt Down", einnig „Let Him Dangle" og nýjum ofursmelli, „Veronica", sem Costello samdi með Paul MacCartney). En ég tók Costello karlinn ekki aftur í sátt að nýju fyrr en með The Juliet Letters, sem hann vann með Brodsky-kvartettinum, alfarið undirleikið af kammersveitinni. Mikið meistaraverk, þar sem besta lagið, „Jacksons, Monk and Rowe" er ekki eftir Costello sjálfan, þótt það sé snilldarlega sungið af honum. En strax í kjölfarið kom lægð í ferilinn. Ég held að mér finnist ekki eitt einasta lag gott á Brutal Youth eða All This Useless Beauty og um Kojak Variety hafði ég slíkar efasemdir að ég eignaðist hana aldrei. En svo um og upp úr aldamótum fór að koma sérkennilegt ris á ferilinn að nýju, með tónsmíðinni Il Sogno (undir auðheyrðum áhrifum frá Holst og Gershwin), kúnstugri samstarfsplötu við Sophie Marie von Otter, djassplötunni North, þjóðlagarokkplötunni Delivery Man og big-band tónleikaplötunni My Flame Burns Blue. Og fleira og fleira; maðurinn er jafn afkastamikill og verksmiðja.

 

Það er varla hægt að tala um Costello án þess að nefna snillina í textasmíðinni. Hann hefur samið mörg hundruð lög og virðist ætíð jafnfrjór við textagerðina. Hæfileikar hans á þessu sviði sáust strax á fyrstu plötunni: „I said: „I´m so happy I could die"./ She said: „Drop dead" and left with another guy". Myndmálið er oft óvænt, „...like a chainsaw running through a dictionary" (úr „Our Little Angel") eða þá: „She said that she was working for the ABC-news. / It was as much of the alphabet that she knew how to use" (úr „Brilliant Mistake"). Eða bara þegar hann syngur um byggingu: „Five miles out of London on the Western Avenue, /  Must have been a wonder when it was brand new. / Talking ´bout the splendour of the Hoover factory. / I know that you would love it if you´d seen it too" (úr, að sjálfsögðu, „Hoover Factory"). Costello getur líka verið stórfenglegur sögumaður, eins og þegar hann rekur sögu konu, sem giftist/flutti til Bandaríkjanna („GI-bride") í seinni heimsstyrjöld í laginu „American Without Tears". Dæmi um sífrjóa og kraftmikla textasmíði hans eru á hverri einustu plötu; Costello er allt annað en klisjusmiður.

 

Ég held að ég hafi fylgst nokkuð vel með ferli Costello; ég á einnig einhvers staðar og hef lesið ævisögu hans, og hef fylgst með samstarfi hans við ýmsa þekkta listamenn eins og Burt Bacharach og Bill Frissell. Niðurstaða mín er sú að Costello er óhemju mistækur listamaður, en samt ótrúlega frjór og alltaf reiðubúinn til að leita inn á nýjar lendur í tónlistinni. Og þegar honum tekst vel upp, þá tekst engum betur. Ég gat því ekki látið hjá líða að sækja tónleika hans í Eldborgarsal Hörpunnar í kvöld - og kaupa mér sæti á besta stað. Og þótt hann hafi verið dálítið mistækur (sérstaklega hóf hann tónleikana með ærandi hávaða), þá held ég að mér sé óhætt að segja að fáir hafi farið sviknir þaðan í kvöld. Þótt ekki væri nema bara fyrir þessa einstaklega tilfiningaríku, blæbrigðaríku og karakterísku rödd, sem er unun á að hlýða, þá voru oft uppátækin líka bráðskemmtileg. Mér taldist til að hann hefði leikið á eina átta gítara (auk þess að leika tvö lög á píanó og eitt á ukulele) og fyrir framan sig hafði hann allsvakalega fótstigna græju með upptökutæki, pedulum, wah-wah, reverb-effektum og hvaðeina, sem hann átti til að ofnota í háværustu lögunum. En allt í allt samt sem áður einstaklega eftirminnileg kvöldstund. Costello fór blíðum höndum um áhorfendur - sem klöppuðu af hæversku, enda var þetta listahátíð, ekki rokkkonsert - og lék flest sín frægustu lög. Meðal þeirra má nefna, nokkurn veginn í réttri röð held ég, „Red Shoes", „Brilliant Mistake", „It´s Been a Good Year for the Roses", „Everyday I Write The Book", „Watching the Detectives", „Shipbuilding" (við eigin píanóundirleik), „Veronica", „Oliver´s Army", „She", „I Want You" og svo gamla Brinsley Schwarz-slagarann, sem Nick Lowe samdi og Costello fékk smásmell út á, „(What´s So Funny ´Bout) Peace, Love and Understanding". Sjálfur hefði ég viljað heyra ýmis persónuleg uppáhaldslög með kappanum („Less than Zero", „Hoover Factory", „New Amsterdam", „Little Palaces", „All Grown Up", „Tramp the Dirt Down"), en ekki verður á allt kosið og Costello kynnti mig og aðra fyrir heilmiklu nýju efni sínu, auk þess að taka fáeina standarda. Allt í allt: Framúrskarandi kvöldstund með Elvis Costello, hverrar krónu virði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg lesning.

Sjálfur keypti ég fyrstu plötuna með honum 78, og á flest með honum. 

Hjartanlega ósammála með Trust og Imperial Bedroom. Báðar snilldarverk.

Hlustaðu bara á Beyond Belief!

Svo sýnist mér að þú gætir haft gaman af National Ransom. Þar heldur Elvis aftur inná lendur King of America. 

Tónleikarnir voru frábærir.

Jóhann (IP-tala skráð) 11.6.2012 kl. 23:56

2 identicon

Sammála mestu. En Blood and Chocolate og Spike eru báðar með hans albestu plötum!

Þorvaldur (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 02:26

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Takk fyrir innlitið, Jóhann og Þorvaldur:

Afköstin hjá Costello eru slík (og í svo margvíslegum stíl) að það er mjög eðlilegt að menn nálgist hann úr ólíkum áttum og eigi mismunandi uppáhaldsplötur - hann er í reynd tónlistarlegt kameljón. Og það er einmitt það sem gerir hann svo heillandi: Það er nánast ómögulegt að ímynda sér að þessi listamaður geti staðnað tónlistarlega eða fest sig á einhverri einni hillu. Tónleikarnir hafa einmitt orðið til þess að ég hef dregið fram megnið af tónlistinni hans til mögulegs endurmats.

Jóhann: Ég veit að margir telja Imperial Bedroom eina af bestu plötum Costello - alla vega var nógu mikið lagt í hana. Mér finnst hún einna best af þeim plötum sem hann gaf út 1979-84 og er að hlusta á hana þessa stundina. "Shabby Doll" er t.d. skrambi gott lag. Skemmtileg þykir mér líka sagan af því, þegar þeir tóku upp harmonikkuleikinn á "The Long Honeymoon"; þurftu þeir víst þrír að spila saman á hljóðfærið, sem þeir lögðu á borð, því að enginn þeirra kunni á það: Steve Nieve lék á hljómborð nikkunnar, Bruce Thomas dró belginn sundur og saman og Costello hélt skrímslinu föstu.

     Hins vegar á ég Trust bara á vinyl og verð líklega að grafa hana upp einhvers staðar á mp3-formi til að setja hana í endurmat. Eða grafa upp þrítuga plötuna á háaloftinu.

Þorvaldur:

Ég tala alls ekki illa um Spike hér að ofan, nefni af henni 3 góð lög og gæti bætt við "Miss Macbeth", "Last Boat Leaving" og "God´s Comic" (en síðasta lagið finnst mér reyndar betra í tónleikaútgáfu á bootleg-plötunni Between Wisdom and Murder). Hins vegar er Blood and Chocolate sú Costello-plata, sem ég hef átt erfiðast með að gangast inn á, fyrir utan Brutal Youth. En ég mun gefa henni nýjan séns næstu daga.

Helgi Ingólfsson, 12.6.2012 kl. 10:31

4 identicon

Það verður víst ekki deilt um smekk og á hlaðborði Costellos kennir margra krása.

Og fáir standa honum á sporði hvað textasmíð varðar. Ég vil taka mér það bessaleyfi að setja inn textann á Beyond Belief. Þetta er fyrsta lagið á IB og það hvernig lag og texti umfaðmast í einum allsherjar tregablöndnum ástarbrag  um mann sem heldur að hann eigi ekki séns í sætu stelpuna, er ekkert annað en snilld:

History repeats the old conceits
The glib replies the same defeats
Keep your finger on important issues
With crocodile tears and a pocketful of tissues
I'm just the oily slick
On the windup world of the nervous tick
In a very fashionable hovel

I hang around dying to be tortured
You'll never be alone in the bone orchard
This battle with the bottle is nothing so novel

So in this almost empty gin palace
Through a two-way looking glass
You see your Alice

You know she has no sense
For all your jealousy
In a sense she still smiles very sweetly

Charged with insults and flattery
Her body moves with malice
Do you have to be so cruel to be callous

And now you find you fit this identikit completely
You say you have no secrets
And then leave discreetly

[Chorus:]
I might make it California's fault
Be locked in Geneva's deepest vault
Just like the canals of Mars and the great barrier reef
I come to you beyond belief

My hands were clammy and cunning
She's been suitably stunning
But I know there's not a hope in Hades
All the laddies cat call and wolf whistle
So-called gentlemen and ladies
Dog fight like rose and thistle

I've got a feeling
I'm going to get a lot of grief
Once this seemed so appealing
Now I am beyond belief

Þetta á náttúrlega að spila hátt!

P.S Þekkir þú annars XTC, Helgi?

jbogason (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 13:19

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jbogason:

Beyond Belief er einmitt eitt af lögunum, sem ég hef hlustað á í dag og í gær - ég hef hlustað á IB þrisvar og ánægjan vex með hverri hlustun. Enn betur er ég farinn að njóta Blood and Chocolate, einkum B-hliðarinnar. Og í augnablikinu er ég á kafi í National Ransom - sem er afturhvarf til King of America, afar efnileg plata. Vel að merkja, ég er alltaf hrifinn af EC þegar Marc Ribot plokkar sinn gítar svo sérviskulega með honum (Ribot hefur auðvitað líka átt frábært samstarf við Tom Waits og Vinicio Caposella, "hinn ítalska Waits").

-----

Ofangreindi textinn að Beyond Belief er týpískur Costello-texti, með óvæntum myndum og kostulegu rími (tortured-orchard, Hades-ladies). Sjálfum finnst mér einn besti texti Costello "Indoor Fireworks", með sínu sérstaka myndmáli sprottnu af eldi og rakettum sbr:

"You were the spice of life, the gin in my Vermouth

and though the sparks would fly I thought our love was fireproof."

 -----

P.S. Ég þekki eingöngu eitt lag með XTC, sem er "Dear God" - en það var líka fyrsta lagið sem ég sótti á jútjúbið til að setja inn á æpodd, þegar ég eignaðist soddan græju. Ætti ég að leggja mig eftir XTC, þegar ég kem niður af EC-flippinu?

Helgi Ingólfsson, 12.6.2012 kl. 14:10

6 identicon

Ég er alveg sammála þér með Indoor Fireworks og KoA er í miklu uppáhaldi.

---

XTC er vafalítið ein vanmetnasta hljómsveit austan megin Atlantshafsins (Little Feat vestan hafs).

Sjálfur hef ég gaman að fara inn á Allmusic.com og lesa þar um þær hljómsveitir sem hafa fylgt mér lungann úr ævinni, enda eru þar fróðir og liprir pennar.

Svo skemmtilega vill til að þar virðist ég eiga andlegan bróður,  Stephen Thomas Erlewine, og ég gæti sem best trúað að eitthvað sé hann tengdur þér. Hann segir allt mér betur:

http://www.allmusic.com/artist/xtc-mn0000678339

Hérna færðu svo eitt lag með XTC, sem Íslendingar gætu sannarlega tekið til sín:

http://www.youtube.com/watch?v=depsFULhqV8

Jóhann (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 16:26

7 identicon

...jú, eitt enn. Kauptu "Upsy Daisy Assortment"!

Jóhann (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 16:33

8 identicon

...nei annars. Kauptu frekar "Fossil Fuel"

http://www.allmusic.com/album/fossil-fuel-the-xtc-singles-1977-1992-mw0000239650

Ég átti Upsy Daisy, en lánaði hana eitthvert og nú er hún horfin. 

Var að festa kaup á Fossil Fuel á ebay. Kostaði 2200 með sendingarkostnaði. Hún er tvöföld.

Jóhann (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 16:51

9 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann:

Takk fyrir sendinguna á "King for a Day". Ég er ekki alveg jafn ókunnugur XTC og ég lét í fyrstu - ég þekki t.d. Peter Pumpkinhead og einhver fleiri lög þeirra, þótt ég hafi aldrei kafað í þessa hljómsveit (sem er ef til vill þess virði).

 -----

Ég man eftir því þegar XTC var að koma fram á fyrstu pönk-árunum, þá gerði breska popp-pressan (Melody Maker, New Musical Express etc.) mikið úr nafni hljómsveitarinnar, sem átti að vera hvetjandi fyrir neyslu Ecstasy. Annars var ég aldrei mikill pönkari í mér - ég hafði verið prog-rokk aðdáandi áður og á pönk-senunni var Graham Parker minn maður - og margir sögðu að hann væri enginn pönkari.

-----

 Ég kannast vel við allmusic.com og hef notað hana í nokkur ár. Önnur síða ekki síðri, til að fræðast um plötur uppáhaldslistamanna eða kynnast nýjum, er rateyourmusic.com - kannastu við hana? Ég get eitt heilu dagspörtunum þar inni. Svo nota ég líka í seinni tíð grooveshark.com til að hlusta á tónlist ("streaming") áður en ég kaupi hana - ég var einmitt að hugsa um að fara að tékka á XTC þar.

-----

 BTW, fyrst þú nefnir Little Feat - ég kynntist þeim fyrst 1975 þegar þeir spiluðu undir á "Pressure Drop" hjá Robert Palmer (sem ég fylgdist nokkuð vel með 1970-80, meðan hann var í Dada og Vinegar Joe + fyrstu sólóplöturnar). Ég keypti eina plötu með þeim ("Sailing Shoes", af því að það titillag hafði verið örlítið vinsælt og heyrðist í Kananum, þ.e. hinum ameríska), en viðurkenni að ég gaf þeim ekki mikinn séns og hélt reyndar að þeir hefðu lagt upp laupana þegar Lowell George lést - hann var jú burðarásinn í bandinu. Ég endurskoða það kannski líka og gef þeim annan séns. Það er eins með tónlistina og bækurnar: Svo mikið til af góðu efni - og svo stutt líf!

Helgi Ingólfsson, 12.6.2012 kl. 18:17

10 identicon

Sérkennilegt að þú skulir minnast á Graham Parker því ég var rétt í þessu að smala saman sjö vínilplötum sem ég á með honum. Hitti nefnilega gamlan vin á tónleikunum sem sagði að nú væri hann bara að bíða eftir tónleikum með honum hér og ætla að senda honum nokkrar...

Ég var heldur aldrei í pönkinu, en hlustaði jöfnum höndum á t.d Costello, Graham (Squeezing Out Sparks) og Down in the Bunker með Steve Gibbons árið 78 fyrir utan eldri hetjur. Clash sá ég á Listhátíð hér en það var nú bara þéttasta rokkband að mínu viti. Jú, svo fílaði ég dáldið Jam og Paul Weller. Ég hef aldrei litið á XTC sem pönkara. Þeir voru það kannski allra fyrst, enda annað undarlegt.

Reyndar var ég þeirrar gæfu aðnjótandi 12 ára gamall að eldri systir mín vann í Hljóðfærahúsinu og færði mér CNS&Y, Zappa, James Taylor, Allman Bros, Kinks og Dylan.  Síðar bættust í hópinn Randy Newman, Ry Cooder, Joni Mitchell, Van Morrison, Richard Thompson og The Band, svo nokkrir séu nefndir.

Allt er þetta nú komið í yndislegan graut.

En fyrstu fjórar plöturnar með Little Feat eru frábærar.

Nú ætla ég að máta mig við rateyourmusic.com.

(Hljómar eins og persónuleikapróf...)

Jóhann (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 19:09

11 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann:

Hljóðfærahús Reykjavíkur? Á Laugavegi? Þessu gamla sem var í kjallaranum við hlið Stjörnubíós, þar sem maður gekk inn frá götunni og síðan hálfar tröppur niður í kjallarann? Þar sem voru fjögur sett af boxum með innbyggðum hátölurum uppi á vegg og hægt var að hlusta á nýjar plötur? Ég eyddi mörgum mínum unglingsárum þar, sem og í hlustunarklefunum í Fálkanum á Laugavegi 26.

-----

Þeir sem þú telur upp eru flestir gamlir kunningjar (nema Gibbons, ég þekki nafnið, en hef aldrei hlustað á hann). Squeezing Out Sparks er á topp 20 LPs allra tíma hjá mér, Deja Vu með CSNY á topp 40, Songs for Beginners með Graham Nash á topp 80. Hina þekkti ég alla í gamla daga, mismikið þó (og setti mig ekki að ráði inn í R. Thompson fyrr en nýlega). Paul Weller fór ég ekki að hlusta á fyrr en með Style Council eftir 1982; Cafe Bleu er á topp 40.

-----

Ég hugsa að ég fari næst allra Íslendinga að eiga heildarsafn Graham Parker, mér telst til að ég eigi 10 LPs + 6 CD + 2x mp3. (Bestu plötur: Squeezing Out Sparks, Up Escalator, Live Alone in America; bestu lög: Blue Highways, Watch the Moon Come Down, Passion is No Ordinary Word). Costello lærði auðvitað "the trick of the trade" hjá Parker og hans mönnum í hljómsveitinni Rumour. Í árdaga var EC upphitunaratriði fyrir GP + Rumour, auk þess sem Rumour-liðar voru oft session-menn fyrir Costello, enda flestir komnir úr hljómsveitinni Brinsley Schwarz, eins og Nick Lowe líka. Meira að segja rótarinn úr Brinsley Schwarz, Martin Belmont, var dubbaður upp í gítarleikarastöðu í Rumour, og hefur oft spilað með EC, bæði á tónleikum og plötum.)

-----

Rausið í mér alltaf. Kosturinn við rateyourmusic.com er að þar fær maður ekki plötudóma popp-spekúlantanna, heldur alþýðunnar. Í gegnum þann vef kynntist ég m.a. Duncan Browne (samnefnd plata, 1973) og Bill Fay (samnefnd plata, 1970).

Helgi Ingólfsson, 12.6.2012 kl. 20:48

12 identicon

Jú sama Hljóðfærahúsið.

Þú manst þá væntanlega eftir því að þegar komið var niður tröppurnar var úraverslun á vinstri hönd. Hana ráku foreldrar mínar. Báðar eldri systur mínar afgreiddu í HR á sínum táningsárum. (sumarvinna í gegnum kunningsskap...). Ég naut ríkulega góðs af því, en þótti hafa furðulega afturhaldsaman tónlistarsmekk í gaggó og menntó.

Fyrsta platan sem ég keypti fyrir eigin pening var Cry of Love með Hendrix. Á hana ennþá.

Að Neil Young undanskildum þá er Stephen Stills minn maður úr CSN&Y. Manassass er meistaraverk. If I Could Only Remember My Name með Crosby er líka vanmetin plata. Kannski ég dragi Graham fram úr vínilsafninu og hlusti betur á hann.

(Seinna vann ég aðeins hjá Pétri og Ingó í Fálkanum. Svenni vinur minn vann þar í einhver ár minnir mig.)

Ég kíkti aðeins inná rateyourmusic.com og sá að jafnvel frábærustu plötur náðu varla uppí fjórar stjörnur að meðaltali. Mér leiðist ákaflega að sjá einhverja besserwissera vera að níða skóinn af stórkostlegum tónlistarmönnum til þess eins að upphefja sjálfa sig.

Jóhann (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 21:32

13 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann:

Nú munu einhverjir eflaust vilja slátra mér, en - mér þótti alltaf NY sístur af CSNY (og átti ég samt í denn plöturnar Harvest og After the Gold Rush (þar sem Young fékk 17 ára harmonikkupjakk, Nils Lofgren, til að leika undir á píanó í titillaginu)). Stills var mikill snillingur, þótt ég eignaðist aldrei nema aðra plötuna hans (þessa með "Change Partners" og þar var Nils Lofgren lika eitthvað að þvælast). Crosby gaf ég aldrei séns, ef til vill af því að hann var svoddan vandræðagemsi, en líklega á ég eftir að skoða hann nánar.

----

 Lagði á mig í gærkvöldi að hlusta á "Upsy Daisy ..." (mestalla, það sem hægt er í gegnum grooveshark.com) og líkaði bærilega. En ég hlustaði líka á "Skylarking" og þótti frábær, máske af því að: a) Hún er melódískari og tónsmíðarnar margar mjög sterkar, b) Hún er mikið og vel pródúseruð (af Todd Rundgren, þeirri gömlu kempu).

Helgi Ingólfsson, 13.6.2012 kl. 13:38

14 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann:

Viðvíkjandi rateyourmusic, þá eru 4 stjörnur í reynd frábærar, því að oft eru það fleiri hundruð eða fleiri þúsund manns, sem gefa fyrir. Og ætíð er misjafn sauður í mörgu fé.

Og til að benda þér á, þá er einna skemmtilegast að lesa plötudóma einstaklinga, mislanga, um plöturnar (merkt "reviews", maður þarf að smella á viðkomandi plötu og oft að skruna langt niður til að finna þessa plötudóma). Þeir hafa oft opnað augu mín fyrir einhverju nýju. Margir þeirra eru vel ígrundaðir, sumir stuttaralegir og aðrir ekkert nema stjörnugjöfin ein.

Helgi Ingólfsson, 13.6.2012 kl. 13:43

15 identicon

Fyrst minnst er á XTC þá eru tvöföldu plöturnar English Settlements og Oranges and Lemons þeirra bestu verk að mínu mati. King for a day er af O&L. Skylarking er líka mjög fín. En meistaraverk Costello eru mjög mörg. Hef þó ekki hlustað á mikið af yngra efni með honum. Einhvern veginn misst sambandið þó ég hlusti oft á eldri plötur hans og eigi þær allar ca. fram til 1995. Kannski maður endurnýji kynnin og fari að skoða hvað hann hefur verið að gera síðustu 15 árin eða svo.

Þorvaldur (IP-tala skráð) 13.6.2012 kl. 14:02

16 identicon

Helgi:

"Crosby gaf ég aldrei séns, ef til vill af því að hann var svoddan vandræðagemsi, en líklega á ég eftir að skoða hann nánar."

og:

"Ég man eftir því þegar XTC var að koma fram á fyrstu pönk-árunum, þá gerði breska popp-pressan (Melody Maker, New Musical Express etc.) mikið úr nafni hljómsveitarinnar, sem átti að vera hvetjandi fyrir neyslu Ecstasy."

Greini ég eitthvað óþol gagnvart notkun vímuefna í rokki, Helgi?  

Gott rokk er ekki gott þrátt fyrir neyslu, heldur einkum vegna hennar, held ég.

---

Þorvaldur (lyftustjóri?)

Ég mæli með National Ransom líkt og Helgi. Það er nýjasta plata Costellos. Svo er ég líka spenntur fyrir The River in Reverse þar sem hann er með Allan Toussaint.

Hafið þið hlustað á hana?

Jóhann (IP-tala skráð) 13.6.2012 kl. 17:28

17 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Svona nú, Jóhann, hér ert þú að gera mér upp skoðanir út frá gömlum fréttum, sem ég minnist á. Þetta er svona ámóta og að ég myndi spyrja þig, út frá því sem þú segir: "Greini ég einhverja hvatningu til notkunar Ecstasy í rokki hjá þér, Jóhann?" Þú þarft ekki að svara.

-----

Jóhann: Ég efast um að þessi Þorvaldur sé lyftustjórinn. Líklega er XTC ekki vinsæl lyftutónlist.

-----

National Ransom er fínasta plata og vex við hverja hlustun. Ég átta mig á því núna að EC spilaði a.m.k. 4 lög af henni á tónleikunum: "A Slow Drag with Josephine", "Church Underground", "Jimmie Standing in the Rain" og "Dr Watson, I Presume". Allt hin mætustu lög, en sjálfur er ég hrifnastur af "Bullets for the New-Born King" þessa stundina.

-----

 The River in Reverse verður að bíða betri tíma. Það er eingöngu hægt að taka inn svo og svo stóran skammt af EC í einu (auk þess sem ég hef hug á að eltast við ýmsar tónlistarábendingar frá ykkur, Jóhann og Þorvaldur).

Helgi Ingólfsson, 14.6.2012 kl. 12:47

18 identicon

Þetta var nú bara nett spaug, en þar sem þú spyrð þá held ég að ecstasy hafi einkum nýst pólitíkusum við lýðskrumið. Ég held að það sé flokkað sem afar vægt vímuefni af málsmetandi mönnum.

 Ég hef ekki prófað það. En koma tímar, koma ráð. 

---

Annars get ég ekki nógsamlega mælt með Manassass. Það eru margir skríbentar sem líkja plötunni við bautasteina á við Stg. Peppers, Blonde on Blonde, Music from the Pink, o.fl. Hún á það fyllilega skilið.

Síðan væri gaman að heyra af t.d fimm plötum sem þú setur á topp20 listann.

Jóhann (IP-tala skráð) 14.6.2012 kl. 20:53

19 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann:

Ég er byrjaður að gefa Manassas séns og hef hlustað á hana einu sinni í gegn. Viðurkenni á þessu stigi að hún er mjög efnileg, en ég held að maður þurfi almennt að hlusta minnst þrisvar sinnum (og stundum oftar) á plötur áður en þær "kikka inn". Auk þess eru sumar plötur einhvern veginn svo merktar sínum samtíma að maður þarf að detta inn í þær á réttu augnabliki. Manassas er skemmtilega fjölbreytt, minnir nokkuð þó á "Americana" síns tíma, þ.e. það er samhljómur við The Band, Flying Burrito Bros, Allman Brothers og Doobie Brothers þarna (Vá! Mörg bræðraböndin!) Ég þekkti strax eitt lagið, "So Begins the Task" sem var á plötu með Judy Collins, True Stories ... frá svipuðum tíma.

-----

Býð þér ekki bara upp á 5 bestu, heldur 100 bestu, í nokkrum færslum, sjá helgi.blogg.is/2011/06 og helgi.blogg.is/2011/07

Helgi Ingólfsson, 15.6.2012 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband