Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég pistil um þær ánægjulegu og spennandi fréttir að (endur-)gera ætti kvikmynd eftir hinni frábæru smásögu James Thurber, The Secret Life of Walter Mitty. Nú berast fréttir af því að brátt verði frumsýnd kvikmynd byggð á skáldsögu sem margir (og ég í þeim hópi) telja eina bestu skáldsögu 21. aldarinnar enn sem komið er. Um er að ræða kvikmyndabúning hinnar óviðjafnanlegu Cloud Atlas eftir David Mitchell.
Ég verð að játa að ég bíð töluvert spenntur. Tvisvar hef ég horft á stiklu myndarinnar og þar er ýmislegt að finna, sem kemur ágætlega heim og saman við hugsýn mína af þessari fjölbreyttu bók, en að sama skapi finnst mér margt gerólíkt við það sem ég ímyndaði mér. Aðalatriðið verður þó ef til vill hvernig tekst að fanga hina afar sérstöku byggingu bókarinnar, sem er um leið órjúfanlegur þáttur í útkomu hennar. Bókin Cloud Atlas er nefnilega skrifuð eins og sex frumlegar nóvellur, sem hver fyrir sig hættir frásögn þegar leikar standa hæst, til að hefja nýja sögu, en síðan er þeim lokið í réttri röð í seinni hlutanum. Sögur inni í sögum sem eru í senn líkar og gerólíkar, fjalla um fortíð, nútíð og framtíð, og gerast á afar ólíkum stöðum jarðarkringlunnar, við vægast sagt mismunandi kringumstæður, og frásagnarformin eru ólík. Þannig er bókin lesin eins og sex rússneskar babúskur, sem opnaðar eru á mismunandi tímapunktum, en síðan er þeim raðað snyrtilega saman að nýju og verða fullkomin eining, sem áhorfandinn hefur kynnt sér í krók og kima, frá innsta lagi til hins ysta, en hver brúða býr um leið yfir sínum óvæntu sérkennum. Bók Mitchell er einnig frábært dæmi um, hvernig hægt er að skrifa spennandi skáldsögu án þess að framin séu morð vinstri hægri. Jú, vissulega eru eltingarleikir, andlegir sem raunverulegir, og menn eru á flótta í ýmsum skilningi, undan sjálfum sér eða öðrum. En þetta er fyrst og fremst skáldsaga (eða sex sögur) um tilvistarveruleika manna og umhverfi þeirra, og hvert mannkynið stefnir. Jafnframt býr hver saga fyrir sig yfir sérkennum og skýrt dregnum persónum og umhverfi, en auðvelt er að yfirfæra sögurnar og fara frá hinu einstaka til hins almenna. Milli sagnanna liggja svo örfínir sameiginlegir þræðir, sem tvinna þær saman (hvort sem það er fæðingarblettur með tiltekinni lögun eða sjálfur Skýjafarsatlasinn), svo að bókmenntaverkið allt verður heildstætt og í raun rækilega innpakkað.
Líklega hefur ofangreind lýsing ekki mikla merkingu fyrir þann sem ekki hefur lesið Cloud Atlas, en sem sjá má get ég vart lofað bókina nógsamlega. Í hástert (eða hárstert, eins og einhver orðaði það klaufalega endur fyrir löngu). Og hvernig verður kvikmyndin? Með þennan efnivið, ef vel tekst til, gæti hún orðið ein af stórbrotnari myndum kvikmyndasögunnar - en ég mundi að sama skapi telja að ótrúlega auðvelt gæti verið að klúðra öllu klabbinu og búa til óskiljanlegan hrærigraut. Sjáum hvað setur.
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Man ekki hotmailadressuna þína og skrifa þess vegna komment á blogg (og sendi á mr-adressuna):
Verðið þið galeiðuþrælarnir mættir á galeiðuna á mánudaginn? Ef ég kæmi við í Schola Reykjavikensis svona um hálfeittleytið á mánudaginn fengi ég þá kaffi og gæti barið þig augum? Get gefið munnlegt álit á Frjálsum höndum ;) Og ekki spillti að rekast á íslenskumafíuna ...
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 17.8.2012 kl. 22:59
Hæ Harpa.
Ekkert mál að hittast - var að svara póstinum. Annars veit ég ekkert hvernig kaffimálin standa á galeiðunni fyrir sjósetningu, en þá býð ég einfaldlega á kaffihús. Varðandi íslenskumafíuna, þá sá ég nú bara eitt andlit hennar s.l. föstudag - máske mætir hún betur á mánudagsmorgnum ... en ... æ, nei, einhvern veginn efast ég nú um það.:-)
Helgi Ingólfsson, 19.8.2012 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.