Hetjan sem settist í helgan stein átján ára

Þótt ég hafi lesið reiðinnar býsn af bókum upp á síðkastið, þá hefur langvinn bloggleti herjað á mig að undanförnu, ásamt ýmsum önnum. Hér má því bæta úr.

 

Fyrir u.þ.b. mánuði las ég einn af gömlu reyfurunum, Finnboga sögu ramma, í heild sinni, en hafði aldrei komist í gegnum hana alla. Þótt sagan sé með dulitlum ævintýrablæ, þá ber hún einnig ýmis merki hinna klassísku stóru fornsagna. Erfitt þótti mér að fá atriði til að ganga upp, út frá tímaforsendum, að enn sé í gangi landnám á æskuárum Finnboga, en jafnframt að hann sé uppi um daga móðurbróður síns, Þorgeirs Ljósvetningagoða, sem nokkuð kemur við sögu. Þá er sagan enn betur tímasett með því að hafa við völd Hákon jarl í Noregi (ca. 985-995) þegar Finnbogi fer utanför sína, um seytján ára gamall. Sagan er vitaskuld frægust fyrir upphafskafla sína, hvernig Finnbogi er borinn út og alinn upp undir nafninu Urðarköttur meðal hinna heldur ófrýnilegu nágranna, lágstéttarfólksins Gests og Grímu.

 

Finnbogi (nafn sem hann tók upp eftir dauðvona norskum farmanni) er að sjálfsögðu stórbrotinn íslenskur kappi. Tólf vetra snýr hann hausinn af ólmum griðungi og sautján ára brýtur hann bak á birni í Noregi með hryggspennu - afrek sem allir eru að herma upp á hann það sem eftir lifir ævinnar, en hann vill sem minnst um ræða af óvenjulegri hógværð fyrir íslenskan kappa. Þá er í sögunni einnig að finna sagnaminni um glímu Íslendings við nær ósigrandi blámannsjötun við norsku hirðina (svipaða frásögn man ég eftir að hafa lesið áður, í Gunnars sögu Keldugnúpsfífls, minnir mig, og jafnvel víðar, í einhverjum Íslendingaþáttum), en að sjálfsögðu fer Íslendingurinn ætíð með sigur af hólmi, drepur blámanninn og uppsker óvild konungs fyrir að hafa fellt eftirlætisberserk hans.

 

Framan af er áberandi hversu margir Bárðar koma við sögu - ef ég man rétt, þá eru þeir einir fjórir talsins. En það hjálpar til að sumir þeirra eru íslenskir og aðrir norskir og svo einhver Bárður sem er norskur farmaður á Íslandi. Finnbogi er (líkt og Rimbaud) slík ofurhetja að hann hefur unnið flest sín stærstu afrek fyrir 18 ára aldur - það er þá sem Jón Grikklandskonungur gefur honum viðurnefnið rammi. Eftir það má hann heita sestur í helgan stein, svona afrekslega séð, snýr heim til Íslands og þarf helst að vinna það sér til frægðar að lifa af fyrirsátir. Reyndar er með ólíkindum hversu margar fyrirsátir honum tekst að þrauka - oftast með því að vega nokkra í einu af þeim sem ætluðu að drepa hann. Margar þessar fyrirsátir fylgja sömu formúlu; Finnbogi ríður hesti og með honum í för er hlaupastrákurinn Hrafn hinn litli, sem hleypur á undan, verður fyrstur var við launmorðingjana og hvetur Finnboga til að forða sér, en Finnbogi er hin sanna hetja sem frekar vill mæta andskotum sínum - og brytjar þá vanalega niður. Oftast er tilefnið lítið - öfund ellegar að fyrri mannvíg hafa undið upp á sig - en út af þessu hrekst Finnbogi, til að halda friðinn, úr Þingeyjarþingi yfir í Húnaþing og enn síðar yfir á Strandir, þar sem hann reisir sér bú í Trékyllisvík. Þangað senda andstæðingar hans mjúkmála launmorðingja, sem ráða sig til starfa hjá honum og vinna vel vetrarlangt, bíðandi eftir rétta tækifærinu til að vega hann, en auðvitað sér Finnbogi ætíð við þeim. Þar til kemur að þeim síðasta, Vermundi, sem lesandinn grunar í fyrstu að sé enn einn útsendarinn, en reynist sjálfur ofsóttur og á flótta - og vitaskuld ver Finnbogi rammi þá málstað hans og tekur hraustlega á móti, þegar leitarflokkur er gerður út eftir Vermundi nærri sögulokum.

 

Það kom mér á óvart hversu mikið bitastætt efni var í Finnboga sögu ramma, þótt ekki sé hún uppfull af spakmælum eða hnyttiyrðum. Ég er næsta viss um að ég eigi eftir að lesa hana aftur, til nánari skoðunar. Ég held að hún þoli það - svo er bara spurningin hvað ég þoli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband