Fljótsdæla saga er líklega ekki í hópi vinsælustu Íslendingasagna, nema máske austur á Héraði. Fyrir tilviljun las ég hana næsta á eftir Finnboga sögu ramma, einfaldlega vegna þess að hún kom næst í stafrófinu. (Reyndar hafði ég ætlað að leggja fyrir mig Vatnsdæla sögu, til að kunna þann söguþráð áður en húnvetnskar hannyrðakonur verða reiðubúnar með refilinn sinn góða - en sú saga verður að bíða um hríð.)
Hvað um það - Fljótsdæla saga, já. Ein rússibanareið, sem óhætt er að mæla með. Sagan er frábrugðin öllum öðrum Íslendingasögum, sem ég hef lesið, í jákvæðasta skilningi. Sést þetta strax á upphafssetningunni. Oft byrja Íslendingasögur á á mannsnafni. Mörðr hét maðr" (Njála), Úlfr hét maðr" (Egla), Ketill flatnefr hét maðr" (Laxdæla), Önundr hét maðr" (Grettla). En hvernig byrjar Fljótsdæla? Jú, svona: Þorgerður hét kona." Strax í upphafi er sleginn annar tónn, við byrjum á kvenmannsnafni.
Og sagan heldur áfram að skera sig úr, bæði varðandi efni og stíl. Á löngum köflum er horfið frá hinni hlutlausu og hlutlægu frásagnaraðferð Íslendingasagnanna og í staðinn er efnið oft borið fram í nútímalegum spennusögustíl, þar sem margt er dulið lesandanum uns hið rétta kemur í ljós.
Víst er sagan á köflum með töluverðum býsnum og ævintýralegum ólíkindum, einkum framan af, þar sem við sögu koma jötunn í helli (á Hjaltlandi) og jarlsdóttirin Droplaug sem tröllið heldur fanginni hjá sér. En auðvitað kemur íslensk hetja og reddar málunum. Þegar á söguna líður hverfa þessi ævintýraminni nokkuð, en í staðinn kemur æsilegur spennusagnastíll. Sjaldan hef ég lesið nokkuð magnþrungnara í seinni tíð en eltingarleik þeirra Droplaugarsona, Helga og Gríms, við Austmanninn Gunnar Þiðrandabana, sem nýtur aðstoðar hins slóttuga Sveinunga. Á þeim flótta kemur við sögu ein útgáfa sem minnir afar mikið á felustað Gissurar Þorvaldssonar í sýrukerinu á Flugumýri, úr Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Í Fljótsdæla sögu er það á þann veg að bátur liggur á hvolfi í naustum, stokkfrosinn við jörðu til stafna, en þar undir er að vetrarlagi í óveðrum geymt fé, sem smokrað getur sér milli fjöruborðs og borðstokks. Þetta verður felustaður Gunnars um stund, en óvinir hans undir forystu Helga Droplaugarsonar koma þar að, hleypa rollunum út og pjakka með spjótum sínum í myrkrið inn undir bátinn í leit að óvini sínum og tíma ekki að snúa bátnum við, því að þá munu þeir brjóta hann til stafnanna og fleyið er öndvegissmíð. Þar innan við hefur Gunnar þrýst sér upp í botninn með höndum og fótum, svo hann snertir ekki jörðu. Er hann reyndar skeindur við þjóinn, en æmtir hvorki né skræmtir, og óvinirnir finna hann ekki og fara burt, þótt þeir taki síðar eftir því að blóð úr Gunnari hefur smurst á fal spjótsins. Ævintýraleg undankoma sem gæti verið úr Die Hard 5. En að lokum er það sjálf Guðrún Ósvífursdóttir sem kemur við sögu þegar ákvarða þarf örlög Gunnars Þiðrandabana og skulu þau ekki rakin hér.
Sagan hlýtur að vera gullnáma þeim sem búa á norðausturhorni landsins. Sögusviðið er Fljótsdalshérrað, Vopnafjörður, Borgarfjörður (eystri), Njarðvík (eystri), Mjóifjörður og víðar, með sæg örnefna, og ímynda ég mér að gaman hljóti að vera að ferðast eftir kennileitum og staðháttum - slíkt hlýtur að vera unnt að mestu. Þá er eftirtektarvert hversu stór hluti sögunnar gerist að vetrarlagi - stundum þótti mér sem Auðnin eftir Yrsu eða Harðskafi eftir Arnald væru Mallorcu-bókmenntir í samanburði. Sérstaklega fann ég fyrir kuldanum, þegar kappinn Gunnar (já, hann er kappi, þótt hann sé illmenni) hleypur berfættur um klakaauðnir svo að hann hrymgast" um fætur og hvað þá þegar hann syndir klæðalítill yfir víkina að vetrarlagi. Brrrr! Oft er sagan tilfyndin, jafnvel á stórkarlalegan hátt: Þannig er til dæmis Gunnar að ganga örna sinna, þegar Droplaugarsynir finna bæli hans, og þannig komin skýringin á því hví hann er svo klæðafár á flóttanum. Ekki er miklu síðri frásögnin af rjúpnaveiðum þeirra Droplaugarsona í snjónum að vetrarlagi, þegar Helgi er tólf vetra og Grímur tíu, en í þeirri ferð drepa þeir Þorgrím tordýfil, sem rægt hefur móður piltanna með því að breiða út orðróm um að hún hafi lagst með þræl. Þegar þeir koma heim úr veiðiferðinni spyr Droplaug syni sína um bráð og Helgi verður til svara: Smátt er í veiðum, móðir, veiddi ég tordýfil einn." Reyndar er fjöldi eftirminnilegra tilsvara í sögunni - hún er fjársjóður um þau efni.
Og sögulokin - ég hefði getað grenjað. Yfir því að fá ekki meira. Sögunni lýkur í miðjum klíðum, þar sem hinn ráðagóði Helgi Droplaugarson, sem hefur verið helsta hetjan og drengur góður lengst af, virðist ætla að þróast í illmenni. Hann er trúlaus, finnst lítið til goðanna koma og hæðist að trúrækni Bessa fóstra síns. Aldrei gengur þó hnífurinn á milli þeirra, þótt illir menn reyni að spilla. En við sögulok hafa þeir bræður, Helgi og Grímur, álpast að vetrarlagi - eftir villuför í hríðarkófi, hvað annað? - inn á þann helgistað þar sem Bessi geymir goðalíkneski sín af Frey og Þór og Frigg og Freyju uppáklædd og skreytt. Tekur Helgi að steypa þeim öllum um koll og afklæða þau og leika grátt. Grímur átelur bróður sinn fyrir athæfið, en Helgi svarar fullum hálsi: En eg ætla að eg hafi aldrei unnið betra verk en þetta á minni ævi því að þau [goðin] hafa villtan stig fyrir mér í dag því að eg hefi aldrei fyrr villur farið á ævi minni." Skilur hann síðan hofið opið, svo að snjófjúk næðir um goðin ... en við fáum aldrei að vita til hvers þetta ódæði leiðir í samskiptum hans við hans ástkæra fóstra Bessa, því að fáum línum síðar segir: (Hér þrýtur söguna.)" Spæling!
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já. Vanmetin saga. En með býsnin og ólíkindin í sögunni á köflum - að þá er það jú viðloðandi íslendingasögur. það er líka kannski eitt af því sem er svo umhugsunarvert við sögurnar, að mikil fádæmi og ólíkindi eru sett fram eins ekkert sé. Eins og um hversdagslegan atburð sé að ræða o.s.frv. það leiðir til umhugsunar um hvernig menn hafi litið á sögurnar á sínum tíma. Trúðu menn trölla og ævintýrasögunum eða köflunum í bókunum? O.s.frv.
Með þá Droplaugarsyni, að þá eru þeir stór ráðgáta. Vill skrásetjari Fljótsdælasögu setja þá fram sem hetjur? Eða er hann að gera grín eða deila á ofbeldi og hetjuhugsjón?
þá náttúrulega verður maður að hafa hugfast að sennilega eru flestar íslendingasögurnar skrásettar af hálærðum kristnum einstaklingum. Að sem dæmi atriðið með þegar þeir bræður steypa goðunum - að það hlýtur að hafa verið sett fram sem jákvætt og merki um hetjuskap Helga. Samt er það svo skrítið að það er ekki alveg gott að átta sig á því af framsetningunni við fyrstu sýn. Maður þarf að liggja aðeins yfir því til að reyna að ná samhenginu.
Með Fljótsdælasögu per se, að þá er áberandi, að mínu mati, hve hún er hrá eihvernvegin og nútímaleg. Er engu líkara en höfundur hafi bókmenntaverk í huga í nútímaskilningi. En þá ber til þess að líta að tæplega var búið að finna skáldsögur upp á þessum tíma. Að vísu er sagan talin skrásett seint og nefna sumir svo seint sem 1500 eða seinna. En þá kemur líka til skoðunnar hvort einhver brot hafi verið til staðar fyrr sem ritari byggir á. Bókin er sundurlaus og brotakennd. Ennfremur sem sjálf Droplaugarsona saga er oft talin forn og því líklegt að sögur af þeim bræðrum hafi verið fornar og lengi viðloðandi þar eystra. Margt í þessu sko.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.9.2012 kl. 09:33
Sæll, Ómar, og þakka þér fyrir einkar glöggar ábendingar. Þú þekkir söguna augljóslega í þaula og miklu betur en ég, bersýnilega.
Ég hegg sérstaklega eftir þremur punktum sem þú bendir á:
1) "Samt er það svo skrítið að það er ekki alveg gott að átta sig á því af framsetningunni við fyrstu sýn. Maður þarf að liggja aðeins yfir því til að reyna að ná samhenginu. "
Þetta er auðvitað eitt megineinkenni Íslendingasagnanna - allt er sett fram á sama hlutlæga mátann og svo veltur það máske fyrst og fremst á lífsviðhorfi eða reynsluheimi viðkomandi lesanda hvort hann taki þetta trúanlegt. M.ö.o. virðast höfundar sagnanna (allir sem einn?) snemma hafa byggt upp þá nútímalegu túlkunarhyggju að hinn endanlegi texti liggi hjá hverjum lesanda fyrir sig, þ.e. út frá reynsluheimi og túlkunarmöguleikum hans.
2) "Með þá Droplaugarsyni, að þá eru þeir stór ráðgáta. Vill skrásetjari Fljótsdælasögu setja þá fram sem hetjur? Eða er hann að gera grín eða deila á ofbeldi og hetjuhugsjón?"
Ég á sjálfur alltaf erfitt á að líta á hetjuframsetningu fornsagna sem íroníska. Kannski fyrst og fremst vegna þess að mér finnst hún oftast tvíbent í framsetningu. Yfirleitt finnst mér fremur um að ræða að viðleitni til að sýna margbreytileika mannssálarinnar, þ.e. að jafnvel mestu kappar séu breyskir og geti sýnt á sér fjölbreyttar hliðar; þannig eru þeir á einhvern hátt mennskari. Mér finnst nafni minn Droplaugarson afar viðfelldinn karakter, jafnvel þótt hann a) Gerist sekur um hálfgert níðingsverk þegar hann drepur tordýfil (þá 12 ára gamall!), og b) Þótt hann steypi goðunum (þú bendir réttilega á að sú athöfn er hinum kristna sagnaritara líklega þóknanleg og höfundurinn er þrátt fyrir allt svo góður höfundur að hann lætur gagnstætt viðhorf koma fram í gagnrýni Gríms Droplaugarsonar á athæfi bróður síns, til að halda öllum bókmenntalegum víddum opnum, í stað þess að höfundur gerist sekur um einsýni). Hinn mennski breyskleiki, blanda góðs og ills, birtist líka í Gunnari Þiðrandabana, sem framkvæmir athöfn, sem að allra mati virðist illvirki, en reynist síðan, með atbeina Sveinunga og annarra vinveittra, hetjulega bera hærri hlut frá borði heldur en Droplaugarsynir, þótt aðstaða hans lengi vel virðist vonlaus.
3) "Með Fljótsdælasögu per se, að þá er áberandi, að mínu mati, hve hún er hrá eihvernvegin og nútímaleg. Er engu líkara en höfundur hafi bókmenntaverk í huga í nútímaskilningi." Einmitt! Kjarninn í því sem ég er að reyna að segja! Og varðandi býsn og ólíkindi í Íslendingasögum, þá koma þau afar oft fyrir, jafnvel í þekktustu sögum, þótt fræðimenn setji þar stundum kíkinn fyrir blinda augað. Eyrbyggja er t.d. morandi í fordæðuskap, fjölkynngi og draugagangi - og telst samt til hinna stærri og merkari sagna.
Helgi Ingólfsson, 27.9.2012 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.