Gulltár: Undantekningin eða reglan?

Framan á einkar smekklegri kápu nýjustu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Undantekningunni, getur að líta ögn skælda svarta fjöður. Af löguninni virðist ekki um hrafnsfjöður að ræða, þótt stélfjöður úr hrafni komi við sögu, heldur er þetta frekar fjaðurstafur, þar sem gullið tár vætlar fram úr oddi. Þessi einfalda mynd segir mikið; oft er svart yfir í bókinni, en iðulega er um það skrifað með gullnu letri.

Að gefnu tilefni er rétt að vara væntanlega lesendur við að hér á eftir verður fjallað um bókina vítt og breitt. Reynt verður að afhjúpa sem minnst til að skemma ekki fyrir lesendum, en þó er nánast óhjákvæmilegt að tína ýmislegt til, ef fjalla á um verk af einhverri dýpt. Til að ljóstra sem minnstu upp mun þó reynt að orða hlutina nokkuð á almennum nótum.

Sagan Undantekningin hefst nákvæmlega á áramótum og gerist á næstu dögum þaðan í frá, og á nokkrum mánuðum þegar lengra líður á, með töluverðum innskotsköflum úr fortíðinni þar sem hin yfirgefna María rifjar upp samskiptin við eiginmann sinn frá hinum ýmsu tímum og reynir að gera sér grein fyrir hvað fór úrskeiðis, sem leiddi til þess að hann yfirgaf hana fyrir karlmann. Minningarnar eru einatt hugljúfar, þau virðast hafa lifað fullkomnu lífi, eiga íbúð á tveimur hæðum í Vesturbænum og auk þess sumarbústað, svo að þau virðast ekki á flæðiskeri stödd fjárhagslega. Flóki er Herra Fullkominn, hávaxinn og myndarlegur, hámenntaður stærðfræðingur, hinn mjúki maður í hvívetna, hjálplegur, tillitssamur og umhyggjusamur. Hann eldaði hversdagsmatinn og sinnti börnunum, en þurfti alloft að vinna frameftir og um helgar eða að líta eftir sumarbústaðnum og fór þá einn síns liðs. Það er ekki fyrr en eftir slitin að María áttar sig á að fjarvera bóndans kann að hafa stafað af sambandi hans við aðra menn. Það er heldur ekki fyrr en eftir á að hún sér að skyrtusafnið hans er ekki eins litt og hjá flestum karlmönnum; skyrturnar margar fölfjólubláar eða lillableikar. Að undanskilinni glámskyggninni er María líka Frú Fullkomin, svo gullfalleg að menn laðast að henni eins og mý á mykjuskán - bóndinn er vart horfinn á braut þegar ungi maðurinn í næsta húsi er kominn inn á stofugólf hjá henni, og Hreinn refaskytta gerir einnig hosur sínar grænar fyrir henni snemma í bókinni. Leigubílsstjóri í útlöndum heldur að hún sé filmstjarna. María er einnig öndvegiskokkur - eins og í sumum fyrri bókum Auðar er matar- og kökugerð fyrirferðarmikil - og er auk þess góða-konan í þeirri merkingu að hún vinnnur að hjálparstarfi, sem gengur út á að liðsinna útlimalausum börnum í stríðshrjáðum löndum og útvega þeim gervilimi.

Máske er það vegna þess að ég er sjálfur gallagripur til líkama og sálar, en ég á oft erfitt með að kyngja frásögnum af fullkomnu fólki. Yfirleitt er þar í grunninn endursagt stefið um Adam og Evu í paradís, uns höggormurinn kemst að; þetta er líka stöffið sem draumar eru spunnir úr í draumaverksmiðju Hollywood. Í Undantekningunni er heimur Maríu svo fullkominn að hún verður fullkomlega ráðalaus þegar hann hrynur. Þess vegna fær hún bráðskemmtilega og frumlega líkamlega andstæðu í nábúakonunni í kjallaranum, dvergnum Perlu, sem er rödd skynseminnar í heimi sem er á tjá og tundri. Meðan María er óreiðusprengja tilfinninga og hvatalífs, þá er Perla fulltrúi kaldrar og analýtískrar skynsemi og hún á ýmsar gullvægustu setningar bókarinnar. Sem hálfgildings leigupenni fyrir leynilögreglusagnahöfund er Perla gangandi orðabók um morðaðferðir, krufningar, sakamálafléttur og annað af þeim toga. En hún er jafnframt fullgildur hjónabandsráðgjafi með doktorspróf og hún stundar þá ráðgjöf sína einkum í gegnum netið, þótt ekki verði séð að hún hafi mikla praktíska reynslu af samlífi kynjanna. Hún er einnig að skrifa handbók um hjúskaparráðgjöf, sem lengi ber þann skemmtilega vinnutitil Svanir skilja ekki. Perla er sætindahákur, geislandi af sjálfsöryggi, nokkuð uppáþrengjandi og ágeng, en vill sjálf ráða hvenær hún fær að vera í friði. Hún er litlu stærri en tveggja og hálfs árs tvíburarnir, um metri á hæð er nefnt einhvers staðar (hugsanlega í hálfkæringi), og hún mjakar sér upp á stóla og rennir sér niður af þeim. Að sumu leyti er Perla dularfull - oftar en einu sinni er gefið í skyn að hún kunni að vera höfundur þeirrar bókar sem lesandinn les. Við Maríu segir hún: „Ég sé ekki betur en að þú sért fagurfræðileg persóna." (173)

Yfirgefni eiginmaðurinn er sérfræðingur í óreiðukenningunni og það er einmitt skyndileg óreiðan í lífu Maríu, sem hún þarf að glíma við og reynir að koma böndum á. Hér gengur í gegnum söguna skondið stef - eiginmaðurinn heitir Flóki og ástmaður hans einnig og er líka sérfræðingur í óreiðukenningunni. En óreiðukenningin gengur út á undantekningar og María er undantekningin í lífi Flóka; fölskvalaust getur hann sagt við hana: „Þú ert eina konan í lífi mínu", því að þær verða aldrei aðrar eða fleiri.

Aðskilnaður og uppgjör þeirra hjóna einkennist af beiskju öðru fremur og þá eingöngu af hálfu Maríu, því að Flóki er sama skilningsríka og þolinmóða ljúfmennið gagnvart hvers konar áreitni hennar. Þetta er ekki stormasamt uppgjör heiftar, stóryrða og skammar, heldur hljóðlátt uppgjör sjálfsásökunar, þar sem María hringir allmörg beiskjufull símtöl í eiginmanninn til að leita skýringa eða fá hann heim. Hefnd hennar í hans garð verður heldur máttlaus og lítilsigld, eins og þegar hún rýkur út úr bænum um hávetur með smábörn þeirra tvö og ekur í ófærð í sumarbústað þeirra, en snýr svo heim til að komast að því að hann hefur ekki einu sinni vitað af fjarveru þeirra. Einu sinni eða tvisvar flýgur henni í hug að svipta sig lífi, en þeir þankar virðast ekki raunhæfir - bæði er að hún á fyrir tveimur börnum að sjá og svo virðist hún líka rekin svo áfram af forvitni að fá að vita hvað fór úrskeiðis að hún reynist ekki líkleg til örþrifaráða (í því samhengi dettur mér í hug að persóna í bók Ólafs Gunnarssonar, sem ég las um daginn, hefði sennilega brugðist við á mun dramatískari hátt).

Texti Auðar í Undantekningunni er oft á tíðum gullfallega ljóðrænn og myndlíkingar eftirminnilegar. Þegar María neyðist til að stöðva bíl sinn í hríðarkófi uppi á heiði af því að ekki sér út úr augum, þá finnst henni sem heimurinn allur hafi verið vafinn inn í hvítt einangrunarplast. En þegar höfundur endurtekur líkinguna síðar í bókinni, dregur úr styrk hennar.

Kímnin er sjaldan langt undan í Undantekningunni. Þannig mælir Perla einhvern tíma: „Kona sem kann að búa til tíramísú er ekki lengi ein." Fyndnari setningu af sama toga man ég varla eftir síðan í Mælingu heimsins eftir Daniel Kehlmann, þegar Werner sagði við Humboldt (minnir mig): „Ókvæntur maður getur aldrei orðið góður neptúnisti." Ég ætti máske að bæta við að mér þykir tíramísú ekki gott.

Nú háttar þannig til að ég kem að sagnaheimi Auðar Övu úr undarlegri átt. Ég er ókunnur þekktustu verkum hennar, skáldsögunni Afleggjaranum og leikritinu Svartur hundur prestsins, en las hins vegar fyrstu skáldsögu hennar, Upphækkaða jörð, þegar hún kom út, síðar einnig Rigningu í nóvember og loks hina gáskafullu ljóðabók Sálminn um glimmer. Þótti mér Auður Ava hafa markað sér afdráttarlausan stíl strax í upphafi og hann hefur þroskast. Efnislega einkennast bækur hennar oft af því að sögupersóna leggur land undir fót, rekin áfram af rótleysi, en ferðalagið felur oftar en ekki í sér andlega leit eða uppgjör. Stílfræðilega er alltaf ákveðin fjarlægð í verkum Auðar, gagnvart sögupersónum jafnt sem lesandanum. Birtist þetta t.d. í því að sögumaðurinn María í Undantekningunni nefnir börnin sín lengi vel ekki með nafni, heldur vísar til þeirra með orðunum dóttir mín og sonur minn. Og jafnvel eftir að nöfnin eru komin fram (Bergþóra og Björn, með gælunöfnin Begga og Bambi), þá heldur María oftar en ekki að nefna þau dóttur mína og son minn. Að flestu leyti eru þó portrettin, sem höfundur dregur upp af litlu tvíburunum, afar sannfærandi - af leikjum þeirra, málfari og ólíkri skaphöfn. Og María er engan veginn slæm móðir, þvert á móti; hún leikur við börnin, fer með þau á róluvöll og liggur með þeim í hengirúmi útivið að vetrarlagi. En hún er fjarræn, væntanlega út af óvæntu hvarfi eiginmannsins af heimilinu. Og eiginmaðurinn Flóki - hann heitir oftast maðurinn minn.

Þessi stílfræðilega fjarlægð birtist einnig í nafnleysi staða í Undantekningunni. Þannig býr María í íbúð á tveimur hæðum, í húsi sem hefur autt svæði handan við götuna og sjávarfjöru þar fjær. Nefnt er að ekki sé langt að aka að höfninni og slippnum; af þessum upplýsingum gæti lesandi púslað að um sé að ræða Ægissíðu eða svipaðan stað í Vesturbænum, þótt hvergi sé sagt berum orðum. Svipuðu máli gegnir um þegar María mælir sér mót við útlending í glæstum veitingasal hótels í miðbænum og snæðir með honum skötusel; nærtækt væri að giska á Hótel Borg, þótt hvergi sé það nefnt. Þá fá lesendur ekki nákvæmlega að vita hvar sumarbústaður þeirra hjóna er staðsettur, nema hvað hann er í tveggja til þriggja klst. akstursfjarlægð frá borginni - í erfiðri vetrarfærð - og að fara þarf í gegnum þrjú ónafngreind þorp til að komast þangað. Við fáum hvorki að vita hvað erlenda stórborgin heitir, sem María heimsækir, né í hvaða landi hún er. Þetta staðanafnleysi er stílbragð, sem veldur ákveðinni firrð milli lesanda og umhverfis; allir staðir eru á einhvern hátt ókunnir.

Þótt margt sé lofsvert við Undantekninguna, þá má einnig tiltaka ýmsa annmarka. Fyrsti þriðjungur bókarinnar er t.d. mun sterkari heldur en það sem á eftir kemur. Upp úr miðbikinu taka við töluverð ólíkindi, jafnvel svo að Perla segir að oft sé lífið lygilegri skáldskapnum - og eiga þá enn frekari ólíkindi eftir að gerast. Í ljós kemur að fleiri en Flóki hafa lifað tvöföldu lífi, en María er svo upptekin af eigin volæði fram eftir sögunni að sú afhjúpun reynist illa undirbyggð. María er einnig einkennilega vinkvennafá - fyrir utan Perlu hefur hún nánast engan til að ræða við um vandamál sín. Samt virðist hún einmitt fullkomin kona af því tagi að ætla mætti að hún ætti sæg vinkvenna. Þá virkar dálítið á mig sem deus ex machina sú lausn, sem losar Maríu undan fjárhagsáhyggjum til frambúðar. Reyndar bólar nánast ekkert á áhyggjum eða ágreiningi vegna fjármála, sem oft vill verða fylgifiskur skilnaðar. Loks eru það smávillurnar, eins og þegar Perla segir að Reykjavík sé á 66. gráðu norður. Einnig var sérkennilegt að lesa um Maríu koma við annan mann út af hóteli (Borg?) til að kveðjast; þá kyngir niður snjó. En allt í einu, eftir að hafa kveikt sér í vindli, fer hin persónan að benda til himins á stjörnur og stjörnumerki. Þá hugsaði ég: Nú hefur rofað til óvenjulega hratt. Svo stakk það ponsulítið í mitt hjarta að sjá nafn Velázquez skrifað Velazques.

Að öllu framansögðu er ástæða til að óska Auði Övu til hamingju með góða bók. Sérstaklega er fyrri hluti verksins frambærilegur, en aðeins þykir mér henni fatast flugið þegar á líður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bókapistlarnir þínir eru skemmtilegir, Helgi, og líklega mun ég lesa bók Auðar Övu eftir að hafa lesið þennan pistil. Hef lesið fullt af jólabókum undanfarið en þær eru flestar reyfarakyns :)

Manst þú hvort í Glæsi var drepið á galdur til að láta menn farast á sjó? Ég er að reyna að rifja upp hvar ég las um þetta ...

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 7.12.2012 kl. 11:30

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Þakka þér fyrir, Harpa. Sjálfur er ég dálítið farinn að forðast reyfarana... en vil samt fá sagða sögu.:-)

Viðvíkjandi Glæsi, þá minnist ég ekki þess að hafa lesið þar (eða í Eyrbyggju) um seið til að granda skipum. Sagan gerist að svo miklu leyti á landi; berst að vísu einstaka sinnum ofan í fjöru eða út á svelllagðan Álftafjörð (hvernig var nú aftur með skipið sem lá þar í ísnum?)  En svona seiður væri kannski helst líklegur í upphafsköflum Glæsis, meðan Bægifótur er ungur og fer í víking með frænda sínum. Einnig gæti galdur af þessum toga verið eitthvert smáatriði í samkeppni galdrakvennanna tveggja, Kötlu og Geirríðar.

Svo er líka hitt að minni mitt er orðið eins og sáldur og fátt loðir þar lengur við ...

Helgi Ingólfsson, 7.12.2012 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband