Góð Illska?

VIÐVÖRUN: Umfjöllunin kann að spilla lestri þeirra sem eiga Illsku ólesna.

-----

Uppskrift: Taktu helling af tölfræðiupplýsingum um helförina úr bókum eða af netinu, bættu við þremur spólgröðum persónum og hentu inn misáreiðanlegum sögum af Hitler og hans nótum.

Um þetta fjallar fyrsti og lengsti hluti af fjórum í nýútkominni skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl, Illsku. Þótt talað sé á bókarkápu um „ástarsögu Agnesar, Ómars og Arnórs", væri nærtækara að tala um „lostasögu", a.m.k. framan af, því að ástin er mestmegnis neðanbeltis og orð á borð við ríða, typpi, píka, sæði, brundur, smokkur,  fróa, já og limbaugur, koma margfalt oftar fyrir en ást. Ómar fær ekki sting í hjartað, þegar hann sér Agnesi fyrst álengdar á kaffihúsi með Arnóri, heldur svíður hann í kviðinn af afbrýðisemi. Umræður um helförina verða jafnvel lostavaki persóna. Lykilpersónurnar þrjár eru á fertugsaldri, heldur litlausar menntaspírur og ekki ýkja siðavandar; auralitlir eilífðarstúdentar sem ástunda Ikeasófa-ídeólógíu og álíta peninga vaxa í lánasjóðnum. Háskólastúdínan Agnes fer að búa með íslenskunemanum Ómari, en heldur síðan við nasistann Arnór meðan á sambúðinni stendur, af engri sýnilegri ástæðu annarri en að henni virðist leiðast. Ómar brennir hjallinn þeirra þegar hann þremur árum síðar kemst að framhjáhaldinu og leggst í markmiðslítið flakk um Evrópu.

Agnes er semsagt laus á kostum, Ómar þannig innréttaður siðferðilega að hann hefur litlar skrúplur um að fara í gegnum persónulegar skriftir sambýliskonu sinnar, meðan hún er í útlöndum, og Arnór ... Nasistinn Arnór virðist máske þeirra heilsteyptastur. Hann er vel menntaður, er að ljúka doktorsnámi í sagnfræði við háskóla í St. Pétursborg (svona til að brjóta upp stereótýpuna um nasistabulluna) og virðist fylgja nokkuð sínum prinsippum. Þó reynir á hann, þegar Agnes spyr hvort hann mundi sofa frá blökkukonu. Frá Afríku? Aldrei. Frá Ameríku? Ólíklega, en gæti oltið á ýmsu. Hjá Halle Berry? Já, eftir langa umhugsun, þá gæti hann hugsað sér að sofa hjá Halle Berry, en myndi nota smokk. Tvískinnungur?

Arnór er þó enginn hrotti eða ofbeldisbulla; í eina skiptið sem hann sýnir af sér fautaskap er þegar hann er rækilega eggjaður til þess af Agnesi - og virðist þá breyta gegn betri vitund. Í fyrsta hluta bókarinnar er Arnór samt ein fjarlægasta persónan og er þó karaktersköpun Agnesar og Ómars ekki endilega beysin.

Inn í þæfingslega frásögn fyrsta hlutans (sem er með margbrotnu afturliti, svo að lesandinn þarf æði oft að ráða í á hvaða tímaplani hann er staddur og um hvaða aðstæður er verið að fjalla) er síðan skeytt inn fróðleiksmolum um helförina og Hitler. Hvoru tveggja frásagnirnar eru kubbaðar niður í stutta búta, stundum tvo eða þrjá á blaðsíðu, rétt nógu langa fyrir lestrareinbeitingu netkynslóðinnar.

Helförin er vissulega hryllingur sem ekki má gleymast, en í fyrsta hluta Illsku er hún skrúfuð í botn með pedantískri staðreyndaupptalningu um fjölda fórnarlamba og fleiru af þeim toga. Inn á milli alvarlegra staðreynda er svo að finna Hitlersblæti með hefðbundinni skrímslavæðingu; lífseig flökkusagan um að Hitler hafi verið með eitt eista (og Naflajón settur á sömu hillu, guð má vita hvers vegna!), að Hitler hafi ekki stundað kynlíf með Evu Braun og að Hitler hafi leikið systurdóttur sína Geli Raubal svívirðilega. Þetta bull dregur stórlega úr áhrifamætti alvarlegri staðreynda um helförina. Þá kemur fram í Illsku sú þversögn að gagnrýna verk, sem nýta sér helförina í markaðsskyni, þegar skáldsaga þessi gengur nákvæmlega út á það.

Þessi fyrsti hluti Illsku er langlengstur og hefði hæglega getað styst úr 190 blaðsíðum niður í 20 blaðsíður eða svo. En svo kemur annar og langbesti hluti bókarinnar, harla frábrugðinn þeim fyrsta. Þar fer fram tvennum áhrifaríkum sögnum, annars vegar um örlög gyðingasamfélagsins í litháenska bænum Jurbarkas frá sumri til hausts 1941, við upphaf Operation Barbarossa, og hins vegar um uppvaxtarár nasistans Arnórs á Ísafirði á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Nú eru undirkaflar orðnir lengri, sem fyrr klipptir saman sitt á hvað án sýnilegrar beinnar tengingar, en þó báðar frásagnir nógu áhrifaríkar og vel skrifaðar til að halda lesandanum föngnum.

 Við eftirgrennslan á netinu má komast að því að saga hinna ógæfusömu Gyðinga í Jurbarkas er rækilega skjalfest og meira að segja til langir nafnalistar bæði fórnarlamba og ódæðismanna. Ýmsir þeir atburðir, sem lýst er í Illsku, áttu sér stað í raun og veru; má þar nefna skrípalætin við Stalínslíkneskið, sundurbútun synagógunnar og hædda kantorinn með múrsteininn bundinn í skeggið. Eigi að síður tekst Eiríki að bregða lifandi ljósi á þessa atburði og aðra. Hann blandar saman uppdigtuðum persónum og raunverulegum, og verður væntanlega verðugt viðfangsefni bókmenntafræðinga í framtíðinni að greina hið sanna þar frá hinu skáldaða. Ísmeygilegust í allri þessari frásögn er þátttaka heimamanna í voðaverkunum, en þeir unnu starfið að meira eða minna leyti fyrir þýsku SS-sveitirnar. Mestmegnis voru þar á ferð ungir karlmenn úr hópi þorpsbúa, sem myrtu með köldu blóði Gyðinga, sem verið höfðu nágrannar þeirra um áratugaskeið. Ýmsir raunverulegir einstaklingar eru dregnir inn í söguna (þýski kommandantinn Böhme, Gepneris og rabbíninn Rubinstein), meðan aðrir eru hugvitssamlega skáldaðar persónur, eins og Lukauskas-bræður, sem verða æðstu menn lögreglunnar í Jurbarkas og virðast samsettir úr 2-3 raunverulegum persónum. Þá verður ekki betur séð en að Gyðingahjónin Iszak og Misza Banai séu ákaflega vel heppnuð hugarsmíð höfundar.

Meðfram hryllingi stríðsáranna í Litháen vindur í öðrum hluta Illsku fram uppvaxtarsögu Arnórs á Ísafirði. Þetta er einnig býsna góð saga, ekki vegna drengsins sjálfs, sem lítið fer fyrir, heldur vegna hins litríka persónugallerís, sem að honum stendur: Sigga Dós, Mar Morales Trujillo, Jón Vargur, Einar Lúður - býsna eftirminnilegar persónur og atvikin í lífi þeirra kostuleg (Sigga Dós er eins og vergjörn útgáfa af þeirri víðfrægu Bjarnfreði). Stundum er óþarflega langt seilst við að lýsa bakgrunni persóna - dálítið á hinum þjóðlegu íslensku ævisögunótum - en fjörlegu kaflarnir vega það margfalt upp. Ekki þótti mér örgrannt um að sótt væri hér í smiðju Hallgríms Helgasonar - án orðaleikja og brandara að vísu, en í staðinn kemur vandaður og agaður stíll Eiríks. Má benda á að síðasta skáldsaga Hallgríms, Kona við 1000 gráður, fjallaði í grundvallaratriðum um sama efni og Illska, þ.e. hörmungarsaga úr seinni heimsstyrjöld ásamt þroskasögu (og við sögu kom einnig afgamalt vopn úr WWII). Annars er einnig sá munur á verkum Hallgríms og Eiríks að hjá þeim fyrrnefnda leiftrar kímni á köflum, en hjá þeim síðarnefnda er alvaran allsráðandi og sjaldan slegið á létta strengi, nema með fáeinum lapþunnum Hitlersbröndurum. En, svo að vikið sé aftur að Illsku, þá virkar uppvaxtarsaga Arnórs sem skásaga við heildarfrásögnina, meira eins og hressileg sjávarplásssaga, sem varpar í reynd litlu ljósi á persónuleika Arnórs í hinu stóra samhengi. Enda virðist fátt merkilegt gerast í lífi hans frá níu ára aldri og er hratt hlaupið yfir sögu eftir það. Heldur þótti mér fáfengileg heimspeki Yockeys og meint áhrif hennar á Arnór hinn unga.

Í þriðja hluta heldur saga ástarþríhyrningsins áfram í fortíð og nútíð, líkt og til frekari fyllingar. Og nú kemur óvæntur fjórði aðili til sögunnar inn í þennan þríhyrning, persóna sem skorti alla undirbyggingu í hinum langa fyrsta hluta. Auk þess er nú rakin uppvaxtarsaga Ómars á unglingsárum. Í stað helfararkommentanna, sem rufu frásögnina í fyrsta kafla, eru nú komnar örstuttar athugasemdir af öðrum toga. Mestmegnis er þessi bókarhluti óspennandi, en þó góðir sprettir í millum. Í ljós kemur að Ómar og Agnes höfðu ferðast til Jarburkas á sambúðarárum sínum, en þangað liggja rætur Agnesar í báðar ættir.

Fjórði og síðasti hlutinn tekur upp þráðinn á tveimur vígstöðvum. Annars vegar förum við aftur til Jurbarkas árið 1941 og sjáum Gyðingamorðin frá öðrum vinkli, mestmegnis með augum Lukauskas-hjónanna, sem áttu Gyðinga að bestu vinum, en syni tvo sem gengu til liðs við nasista. Aftur verður frásögnin áhrifamikil og einkar vel sögð. Hins vegar er svo haldið áfram með sögu ástarþríhyrningsins meinta í nálægustu nútíð og þóttu mér langar réttlætingarræður Agnesar heldur rýrar í roðinu. Síðan æsast leikar á næsta ótrúverðugan hátt: Fólk sem haldið hefur verið tilfinningalegu tómlæti og doða í 520 blaðsíðna frásögn fuðrar upp í tilfinningabáli á síðustu 20 blaðsíðunum og dramatískur endirinn mundi sóma sér vel í sögu eftir Ólaf Gunnarsson. Og þó ekki - ég hefði talið meira í samræmi við framvindu verksins að hann yrði tragískari. Reyndar er á tímabili í blálokin boðið upp á tvenns konar endalok sögunnar, en þau reynast hin sömu þegar upp er staðið.

Og hver er þá niðurstaðan? Í fyrsta lagi er óhætt að nefna að Illska er margslungið verk. Þannig er sagt á tímabili frá í 1. persónu (Ómar, fyrsti hluti) og seinna í 2. persónu (barnið í þriðja hluta), en mestmegnis í 3. persónu (allir í öllum hlutum). Stundum verða þræðirnir of margir eða virka ekki nógu vel saman. Þannig virðist fyrsti hlutinn ekki nógu vel tengdur þriðja hlutanum, sem á að hluta til að vera nánari útlistun sama efnis. En, eins og fyrr sagði, þá fannst mér fyrsti hlutinn sístur og nánast óþarfur. Þar er enda sögumaður ágengur og heldur til vansa. Til að ná því bitastæðasta úr bókinni er sennilega nóg að lesa annan og fjórða hlutann, enda eru þeir (að mestu) skrambi góðir og vel skrifaðir. Ekki fer á milli mála að höfundur er orðhákur hinn mesti; líkt og Hallgrími Helgasyni virðist honum einkar létt skrifin. Veikasti hlekkur Illsku er sá, sem rekur sögu ástarþríhyrningsins. Þau Agnes, Ómar og Arnór eru undarlega ein í heiminum - heimi bókarinnar - og virðast ekki eiga neina vini, kunningja eða ættingja (nema að því marki sem slíkir stóðu mismikið að þeim í uppvaxtarsögu þeirra). Þótt þau séu á þeim aldri þegar fólk ætti að vera vinamargt, þá er varla að sjá að þau þekki nokkra aðra í heiminum og hafa að öllu jöfnu ekki í önnur hús að venda en hvert hjá öðru. Þetta þrengir mjög hring svona breiðrar sögu, máske helst vegna þau skötuhjú eru ekkert sérlega litríkar eða líflegar persónur; menntafólk og bókasnápar, sem virðast halda að heimurinn hverfist um hugmyndafræðikenningar, þar til þau reka sig á annað. Margoft er notað orðalagið „skriðþungi sögunnar" í bókinni, jafnvel svo að verður leiðarstef, en líf þessara þriggja sálna virðist standa langt utan þess skriðþunga. Þau horfa öll á hann utan frá, hlutlaus. Þá er uppvaxtarsaga Arnórs á Ísafirði nánast eins og óþörf - en býsna skemmtileg samt, eins og hún ætti heima í sjálfstæðri bók. Að öllu framansögðu er Illska skáldsaga með ýmsa sterka kosti, en þó fjarri því gallalaus. Og hvað svo sem annars má segja um hana, þá er hún gríðarleg framför frá síðustu skáldsögu höfundar, sem fjallaði um ... ja, um hvað? Ekki neitt, held ég (ef einhver getur frætt mig um efnisinnihald Gæsku, þá má sá hinn sami draga það saman í athugasemdum hér að neðan). Og hvað hefur Illska að segja okkur um umfjöllunarefni sitt? Í raun og veru sáralítið, annað en að illskan hefur alltaf verið til og mun alltaf verða til í heiminum - og þarf til þess 540 blaðsíður. Hver svo sem fyrirheitin kunna að vera, sem gefin eru við bókarlok, þá virðast mér lykilpersónur í reynd lítið hafa breyst að upplagi. Líklega fellur allt í fyrra far hjá þeim að bókinni lokinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varðandi uppruna nýyrðisins "limbaugur":

https://twitter.com/Eirikur_Gauti/status/29608169998

Mér sýnist ég alltsvo eiga þennan vafasama heiður.

Eiríkur Kristjánsson (IP-tala skráð) 24.12.2012 kl. 03:50

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Vafasamur heiður? Þetta apparat er í lykilhlutverki í 400 eða 500 blaðsíður í bókinni! Þú ættir að vera stoltur, Eiríkur Gauti.

Ég reikna samt ekki með að þú sért höfundur annarra orða í þessari uptalningu minni þar sem umræddur baugur kemur fyrir - eða er það nokkuð?

Bjarni Harðarson notar það skemmtilega orð "larður" yfir leyndarlim karlpenings í bók sinni um Mensalder. Væri þá máske hægt að stinga upp á orðinu "larðarkringla" um limbaug?

Bestu jólakveðjur - til allra.

Helgi Ingólfsson, 24.12.2012 kl. 16:59

3 identicon

Svona á að verja jólunum!

Nú þarf bara að koma orðinu "dýjalókur" (=drullusokkur) inn í næsta bókmenntastórvirki og ég verð orðinn að bókmenntafræðinga-kúríósu áður en langt um líður.

Eiríkur Kristjánsson (IP-tala skráð) 25.12.2012 kl. 01:08

4 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Eiríkur:

Yrðir þú þá ekki frægur eð endemum fyrir neðanbeltisnýyrðasmíð?

Annars velti ég aðeins fyrir mér "dýjalók" - það er þá væntanlega í merkingunni "drulluskinnsokkur". Væri "dýjasmokkur" máske betra - smokkur er jú eins konar sokkur? Og væri þá "dýjalókur" á ensku "dial-ogre"?

Helgi Ingólfsson, 26.12.2012 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband