Fram undir síðustu aldamót voru höfundar helstu Íslendingasagna óþekktir. Þá styrktust kenningar um að Snorri Sturluson hefði skrifað Eglu og byggt þar á óbeinum líkindum, þ.e. textasamanburði Eglu við kunn rit Snorra og þekkingu höfundar Eglu á staðfræði Borgarfjarðar, fremur en órækum sönnunum. Fræðaheimurinn tók hugmyndinni misjafnlega - sumir efuðust, varkárir töldu slíkt mögulegt, þeir djarfari álitu það líklegt, jafnvel næsta víst, en enginn held ég að hafi beinlínis haldið því fram að óyggjandi væri. Hins vegar má segja að Alþingi hafi lagt blessun sína yfir og viðurkennt Snorra sem höfund snilldarverksins með því að styrkja útgáfu á verkum hans, sem innihélt Eglu.
Í kjölfarið virðist sem allar gáttir hafi brostið. Í 700 ár vissi þjóðin ekki hverjir væru höfundar Njálu, Eglu, Grettlu, Laxdælu og Eyrbyggju, en nú hafa verkin öll verið feðruð og það gerir Einar Kárason í nýjustu bók sinni, Skáldi. Lætur hann sig jafnframt ekki muna um að greina frá nokkrum áður óþekktum höfundum nokkurra smærri Íslendingasagna.
Skáld, þriðji hluti þríleiks Einars um Sturlungaöldina, hefur í sögumiðju Sturlu Þórðarson, þátttakanda og skrásetjara ýmissa stærstu atburða þeirra viðsjárverðu tíma. Rammi sögunnar er að mestu veturinn 1276, þegar Sturla á sjötugsaldri lendir skipreka í Færeyjum - og lætur sig ekki muna um að skrifa Færeyinga sögu, fyrst hann er þarna staddur á annað borð (en þiggur vitaskuld heimildir frá þarlendum). Öðru hvoru er horfið aftur í tíma, til þeirra vofveiflegu atburða, sem einkenndu ævitíð skáldsins, og segja þá ýmsir söguna: Klængur Bjarnarson, Hrafn Oddsson, Þorvarður Þórarinsson, eiginkonan Helga, dóttirin Ingibjörg og fleiri. Í sumum köflum er sögumaður alvitur og nefnir jafnvel atburði úr okkar samtíma, þótt fremur lítið fari reyndar fyrir slíku. Atburðasaga aldarinnar er fyrirferðarmikil, einkum framan af: Apavatnsför, Örlygsstaðabardagi, víg Snorra, Flugumýrarbrenna. Við þessa atburði eða eftirmál þeirra kemur Sturla Þórðarson við sögu, mismikið þó, jafnvel svo að lengi framan af er hann nánast sem aukapersóna í eigin sögu. Máske er það viðeigandi, því að þannig er málum einmitt háttað í hans eigin fræga stórvirki, Íslendinga sögu Sturlungu; þar er hann jafnan til hlés, en þó sínálægur. Þegar dregur nær sögulokum Skálds kemst Sturla loks í konungsgarð og síðan aftur heim til Íslands, eftir að hafa þegið margvíslegan sóma og slett í fáeinar bækur.
Einari tekst á köflum býsna vel að skapa anda 13. aldar með málfari og lýsingum. Einkum á það við í Færeyjaköflunum, sem sumir hverjir eru ljóslifandi. Kaflinn um upplestur skáldsins úr Heimskringlu í kirkjunni í Kirkjubæ þótti mér svo launfyndinn að ég las hann í tvígang - en velti um leið fyrir mér hvernig heimamenn þar hefðu farið að því að hvítta kirkjubygginguna. Sumir aðrir kaflar eru máske risminni eða síður bitastæðir, en sagan líður þó mjúklega út í lokin. Veikleiki Skálds sem sögulegrar skáldsögu liggur að mínu mati helst í því að lengi vel vill sagan um of minna á endursögn Sturlungu og sú endursögn er ríflega miðlungi góð, stundum flöt, en einnig oft hugvitssöm. Máske er endursögn nauðsynleg lesanda sem lítt þekkir til sögu tímabilsins, en sá, sem kannast við 13. öldina að einhverju marki - eða hefur einfaldlega lesið tvær fyrri sögur Einars úr þríleiknum - fær fulllítið fyrir sinn snúð. Stundum eru atburðirnir notaðir til að varpa ljósi á lunderni höfðingja tímabilsins. Apavatnsför virðist einkum sýna hve Sturla Sighvatsson er tvístígandi í athöfnum sínum; á hann að taka Gissur höndum eða ekki, á að drepa hann eða ekki? Ég verð að játa að hér skildi ég ekki hvers vegna Einar víkur frá liðsfjölda þeim sem kemur fyrir í Sturlungu; þar segir að Sturla hafi verið með á fjórða hundrað manna, en Gissur með um fjóra tigu; í Skáldi eru menn Gissurar eingöngu ellefu talsins og Sturla kemur með um hundrað manna lið.
Fleiri höfðingjum er lýst í Skáldi. Órækja Snorrason er drykkfelldur (og nokkuð tönnlast á því), en einnig glaðvær og kátur. Þegar skýin hrannast upp hjá Snorra 1240 - Skúli jarl nýdrepinn, Hallveig Ormsdóttir nýlátinn - vill Órækja gleðja föður sinn og lætur búa til heitan pott vestur á Reykhólum. Býður hann föður sínum og fleirum ættmennum til vígslu" pottsins og veldur sú orðanotkun misskilningi; Tumi Sighvatsson yngri giskar á að nota skuli pottinn til kirkjulegra athafna. Stundum er sagt að sögulegar skáldsögur eigi að vísa til nútímans eða hafa merkingu fyrir þá samtímamenn, sem verkið lesa. Býsna langt finnst mér þó seilst, þegar Snorri tekur gleði sína, eins og hver annar sumarbústaðarbúi nútímans, eftir pottferð með syni sínum að Reykhólum og næturlanga drykkju, uns að lokum í morgungrámanum þeir feðgar standa með handlegg hvor um öxl annars, og kasta af sér vatni í pottinn. (Annars er morgungrámi" eitt það orð sem oftast kemur fyrir í Skáldi.) En þótt Órækja kvikni ekki alveg til lífsins, þá má segja það Einari til hróss að hann skerpir á ýmsum minni háttar persónum og dregur skýrar fram þeirra þátt en gert er í Sturlungu. Á þetta við um Klæng Bjarnarson í Skáldi - og jafnvel enn frekar Dufgussyni í Óvinafagnaði. Varla hefur nokkur höfundur nýtt sér meira Sturlungu en Einar Kárason (og er þó vert að minnast hinnar ágætu Morgunþulu í stráum sem Thor Vilhjálmsson skrifaði um Sturlu Sighvatsson). Einar gjörþekkir sýnilega verkið og vísar til þess fram og aftur, ásamt því að vísa til ýmissa Íslendingasagna af býsna haldgóðri yfirsýn.
Merkast í Skáldi eru þó sennilega nýstárlegar aðferðir höfundar við að feðra frægustu bókmenntaverk Íslandssögunnar. Sturla Þórðarson er sagður hafa skrifað Njálu, Grettlu og Eyrbyggju (auk fleiri nafngreindra rita), en varð aðeins of seinn til að skrifa Laxdælu; þar varð bróðir hans, Ólafur hvítaskáld, fyrri til. Og gengið út frá því sem gefnum hlut að föðurbróðir þeirra bræðra, Snorri Sturluson, hafi skrifað Eglu. Þess utan vitum við nú fyrir víst hverjir skrifuðu Heiðarvíga sögu, Fóstbræðra sögu og Færeyinga sögu, svo dæmi séu tekin. Þetta eru djarfar kenningar, en allar kenningar eru þess virði að taka til athugunar og vonandi fer ekki fyrir Einari eins og nafna hans Pálssyni að vera þaggaður út af borðinu. Ef hugmyndir Einars Kárasonar ganga upp, þá er fundinn merkasti rithöfundur Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Og sá maður er Sturla Þórðarson - sem sjaldan hefur verið leiddur inn á svið bókmenntasögunnar á þann hátt. Ég hef fylgst með Einari verja hugmyndir sínar um Sturlu sem höfund Njálu af fimi og mælsku í ræðu og riti, og þótt þar margt sniðugt og jafnvel snjallt - en ekki látið sannfærast. Máske stafar það af því að ég er efasemdamaður í eðli mínu. En meginrök Einars virðast vera líkindi atburða úr Íslendinga sögu (þ.e. Sturlungu-hluta) Sturlu Þórðarsonar og Njálu. Viss líkindi eru með Flugumýrarbrennu og Njálsbrennu, einnig með atgjörvi og örlögum Odds Þórarinssonar og Gunnars á Hlíðarenda - þess vegna hljóti sami höfundur að búa að baki. En það þekkist á öllum öldum að eitt bókmenntaverk reisi á öðru. Þótt líkindi séu með skáldsögunum Sjálfstæðu fólki og Höfundi Íslands, vitum við að ekki skrifaði sami rithöfundur báðar. Þannig kynni ókunnur höfundur seint á 13. öld að hafa þekkt lýsingu Sturlu á Flugumýrarbrennu og haft hana til hliðsjónar við ritun Njálu - eða þá að báðir hefðu byggt þriðja minni, jafnvel af munnlegum toga, sem báðir þekktu.
En til að víkja aftur að Skáldi, þá má hrósa Einari fyrir að draga upp sannfærandi mynd af skriftarmenningu 13. aldar - skriffærum, heimildaöflun og öðru - sótgleri, vaxtöflum, tálguðum fjaðurstöfum. Hugleiðingar um eðli skáldskapar eru fyrirferðarmiklar í sögunni og oft með ágætum og jafnvel djúpar. En stundum þótti mér yfirdrifin sú tiltrú sem birtist á mætti snilligáfunnar, sem menn virðast almennt með stjörnublik í augum eigna Sturlu Þórðarsyni - allir nema máske Þorvarður Þórarinsson. Skefjalaus aðdáun Þórðar Narfasonar sýnist mér til dæmis orðin hrein háðung. Sömuleiðis þykir mér ekki alltaf takast fyllilega vel upp með ýmsar smærri persónur sem látnar eru tala. Raddir Orms Bjarnarsonar, Hallfríðar garðafylju og Ingiborgar drottningar hljóma einsleitar, fá ekki nógu mikið rúm (eða nógu langan texta) til að persónan skíni í gegn og virðast eingöngu ætlaðar til ytri lýsingar á höfðingjum eins og Sturlu eða Gissuri.
Sem fyrr segir tekst Einari oft býsna vel með málfari að leiða lesandann inn í heim þrettándu aldar. Þess vegna stingur dálítið í augu, þegar fyrir koma sagnir á borð við skaffa og redda. Býsna kröftugt orðfæri þótti mér á bls. 216, alveg fram að síðasta orði, þar sem segir að ...Norðmenn hafi tekið sæbarinn ... hreggnasa upp á sinn eik [svo]."
Að öllu framansögðu þótti mér Skáld dándi dægileg lesning, á köflum dulítið rislítil, en einnig stútfull af umhugsunarverðu efni, slungnum hugdettum og væntanlega umdeildum kenningum. Máske mun tíminn leiða í ljós hið sanna og afhjúpa hvort um sé að ræða snjöllustu ellegar óviturlegustu kenningar sem fram hafa komið um höfunda Íslendingasagna. En vitaskuld getur Einar alltaf skýlt sér við fræðilegum skömmum bak við hinstu rökin: Þetta er bara skáldsaga ...
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Og ég sem hélt að bloggarinn væri dauður!
Þ. Lyftustjóri (IP-tala skráð) 17.4.2013 kl. 15:25
Gaman að lesa bloggið þitt. Hefurðu eitthvað lesið bækur Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu? Afi minn var voðalega ósáttur með ýmsar lýsingar úr þeim bókum, t.d. á því hvernig haförn veiðir æðarkollu.
GGS (IP-tala skráð) 17.4.2013 kl. 23:13
Þ. Lyftustjóri: Bloggarinn er ekki alveg dauður enn, þótt latur sé við iðju sína. En hann getur ekki bloggað um nýlesnar bækur sínar eins og "ð-ævisögu", þar sem hann hefur soddan bækur ekki undir höndum eftir að Lyftustjórar og soddan fólk hefur fengið þær lánaðar.
----
GGS: Því miður hef ég ekki lesið nýrri bækur Vilborgar, en það er á efnisskránni. Hér fyrir margt löngu las ég Urðarbrunn og Nornadóm og svo bókina um nunnuna í Kirkjubæjarklaustri sem var brennd fyrir galdra á 14. öld (nafn bókarinnar dúkkar bara ekki upp í minninu) og hafði gaman af. Bækurnar um Auði eru einhvers staðar á lista sem ég hef skrifað bak við eyrað.
Ég skil hins vegar vel vanda Vilborgar andspænis lesendum sem gætu vitað betur; ég held að allir rithöfundar þekki þennan vanda - og ótta - þegar þeir þurfa að fara út í lýsingar á efni sem aðrir gætu þekkt betur. Sjálfur hef ég lent í því að skrifa skáldsögu með læknisfræðilegum lýsingum án þess að hafa mikið vit á læknisfræði - maður krafsaði jú til sín einhverjum hráum upplýsingum, en það var fljótaskrift á því öllu og engin dýpt. Höfundur getur lent í þeirri stöðu að þurfa að plata - það er, held ég, gert í öllum sögulegum skáldsögum, meðvitað eða ómeðvitað. Er þá máske besti höfundurinn, sem blekkir lesendur sína best og fær þá til að trúa því að hann sé kennivald um allt sem hann skrifar? Eða má höfundurinn aldrei skrifa um annað en það sem hann hefur beina upplifun af? Hvernig gat þá hinn blindi Hómer (að því er sumir telja) lýst Trójustríði svo ljóslifandi?
Helgi Ingólfsson, 18.4.2013 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.