Það eru ekki allir sem fá bæði John Cusack og Hugh Grant til að leika sig". Sú er þó raunin með Nick Hornby, sem reit skáldsögurnar High Fidelity og About a Boy, en þær enduðu sem kvikmyndir, báðar reistar (mismikið) á reynslu höfundar. Þær bækur vísa ríkulega til popptónlistar, enda gerist sú fyrri beinlínis í hljómplötuverslun og Hornby var poppskríbent um árabil áður en hann gerðist atvinnurithöfundur, lengst af fyrir The New Yorker. Reyndar er Hornby, kominn nú á miðjan sextugsaldur, hvorki vitund líkur Cusack né Grant, enda eggsköllóttur, máske ekki ómyndarlegur, en með afskaplega þunna og veiklulega efri vör.
Nýlega rak á fjörur mínar 31 Songs eftir Hornby, bók sem hefur að geyma greinar um 31 popplag sem haft hafa djúpstæð áhrif á höfundinn. Þetta eru ekki endilega uppáhaldslögin hans, heldur ekki síður lög sem náðu til hans á tilteknum tímamótum, örlagaríkum augnablikum eða eru bara áhugaverð sem efniviður hugleiðinga um eðli popptónlistar. Hvert lag fær sína stuttu ritgerð, nema hvað stundum tekur Hornby fyrir 2 lög í kafla - þeir eru 26 talsins fyrir 31 lag - en bætt við fimm köflum fyrir 14 heila geisladiska.
Tónlistin er í öndvegi, en hún er órjúfanlega fléttuð lífinu, og smám saman fær lesandinn fyllri mynd af Hornby. Bókin var skrifuð þegar hann var 44 og 45 ára, þroskaður og máske dálítið forpokaður, á aldri þegar hann mat Late for the Sky með Jackson Browne frekar en pönkið, sem hann hlustaði á um tvítugt. En Hornby bendir á að hrifnæmi gagnvart tónlist er mest á yngri árum, þegar lífsreynslan er lítil, og það er ekki fyrr en á síðari árum að við getum horft yfir sviðið og séð heildarmyndina. Minnir þetta á spakmæli Schopenhauers: Lífið er eins og útsaumur. Framan af ævi dáumst við að myndinni, en á seinni hluta ævinnar snúum við strammanum við og gaumgætum saumsporin."
En áfram með ævisögu Hornby, eins og hún afhjúpast smám saman í gegnum 31 Songs. Við fáum að vita að hann er fráskilinn; að hann á einhverfan son og að fæðing sveinbarnsins gekk nærri móðurinni; að höfundurinn grillar kjúkling úti í garði sínum í góðra vina hópi og ræðir um tónlist; að hann bjó hjá föður sínum í Bandaríkjunum á seinni táningsárum og að sú dvöl hafði mótandi áhrif á tónlistarsmekkinn; að hann vill frekar versla hjá litla plötusalanum á horninu en hjá stóru tónlistarsamsteypunni; og svo framvegis.
Í 31 Songs gætir bæði speki og kímni. Hornby fer í misdjúpar pælingar um eðli popptónlistar; hvers vegna popplög eru jafnan um þriggja mínútna löng, hvers vegna eru þau byggð upp á forspili, versum, viðlagi og sólóum - já, heilmikið rými fer í vangaveltur um eðli sólóa og stundum varpar Hornby fram skemmtilegum spurningum: Hvaða merkingu hefur mandólínsóló til dæmis fyrir málstað eskimóa?
Hornby veltir, svo að dæmi sé tekið, fyrir sér hvers vegna ástin (í öllum sínum myndum, jákvæðum og neikvæðum), sé hentugt viðfangsefni popptónlistar, en gæludýr ekki. Oft getur maður varla verið annað en sammála; hið útsjúskaða Ben með Michael Jackson fjallar t.d. um gælurottu og var samið fyrir hryllingsmynd, þótt fæstum sé það kunnugt. Hins vegar er að mínum dómi Martha My Dear eftir MacCartney mjög frambærilegt og Shannon með Henry Gross - bæði um heimilishunda - beinlínis stórgott lag í eftirminnilegum flutningi. En öll þessi lög verða dálítið ankannanleg þegar maður veit að verið er að syngja um dýr, ekki fólk.
Við lesturinn rann upp fyrir mér hvað við Hornby ættum fjári margt sameiginlegt í tónlistarsmekk á fyrri árum. Við erum nákvæmlega jafngamlir, hlustuðum báðir bergnumdir á Thunder Road Springsteens árið 1975 og tökum Springsteen fram yfir Dylan. Báðir erum við hrifnir af fyrstu plötum Rod Stewart, einkum Every Picture Tells a Story" og Never a Dull Moment". Eins og Hornby hef ég takmarkaðan áhuga á djassi, en ólíkt mér hefur hann takmarkaðan áhuga á klassískri tónlist. Með tilkomu pönksins hafa leiðir okkar líklega endanlega skilið í tónlistaráhuga: Hann fór í pönkið, en ég hlustaði á Jackson Browne á seinni hluta 8. áratugarins (sem hann uppgötvaði ekki fyrr en síðar).
Ég lagði mig eftir því að þefa uppi öll lögin á lista Hornby, sem ég þekkti ekki, og í heildina er þetta skrambi góð tónlist, þótt vissulega megi deila um smekk. Helst vekur athygli hversu oft einn maður gutla með gítarinn sinn - Hornby virðist hafa sterkar indí-taugar. En svo kemur hann á óvart og velur Ian Dury eða hina framsæknu Avalanches (sem ég hafði aldrei heyrt fyrr og hyggst ekki leggja mig eftir). Þarna er furðu hátt hlutfall af létt-poppi, oft áheyrilegu, en Hornby forðast átakarokk, máske af því að hann er orðinn miðaldra. Led Zeppelin á þarna eitt lag (Heartbreaker) og Santana líka (hið flauelsmjúka Samba Pa Ti), en bæði lögin eru frá því um 1970 og fáar aðrar rokksveitir fá lög sín inn, Röyksopp jú, sem ég er lítt hrifinn af. Miðað við þá aðdáun, upplifun og uppljómun, sem Hornby lýsir frá pönk-tímanum, þá er merkilegt að varla er að finna eiginlegt pönklag á listanum - jú, máske hið magnaða en óþolandi Frankie Teardrop með Suicide (magnaður texti, óþolandi tónlistarflutningur), og svo er Pissing in the River með Patti Smith þarna, en það er í sjálfu sér ekkert pönk, heldur frekar melódískt með blús-ívafi. Við fáum ekkert með Sex Pistols, Jam, Clash eða Television (og mér er sosum sama, því að ég er einn þeirra sem álít að pönkið hafi ekki skilað mikilli varanlegri tónlist - en þó einhverri, eins og allar tónlistarstefnur gera). En tónlistin, sem Hornby velur, spannar um 40 ár, með merkilega miklu frá upphafi tímabilsins - ekki alltaf endilega það besta, heldur líka það sem hafði áhrif á líf hans eða vakti til umhugsunar. Þannig verður t.d. reggí-útgáfa Gregory Abbott af gamla góða Puff the Magic Dragon eingöngu fyrir valinu vegna þess að þessi tónlist nær eyrum einhverfs sonar Hornby, ekki af því að þetta sé tímamótamarkandi tónverk. Af lögum Bítlanna velur hann Rain, ekki af því að það sé besta lagið, heldur af því að það er endingargott og ferskt. Ekkert með Rolling Stones eða Kinks - enda er hann ekki endilega að fjalla um það merkasta eða besta. Svo verður að hafa í huga að bókin er gefin út árið 2003 og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Ég er ekki viss um að ég nenni að fara að hlusta á Nelly Furtado, þótt Nick Hornby hafi gert það fyrir 10 árum.
Stíll bókarinnar er æði brokkgengur. Höfundur á til að tala dálítið niður til lesandans og stundum er hann endurtekningarsamur, jafnvel leiðigjarn, en oftast er hann samkvæmur sjálfum sér og stundum bregður hann á leik með hnyttnum brandara og kímni. (Í umfjöllun um lag Aimee Mann, You´ve Had It, þar sem hann telur að mótsögn í himneskri laglínu ofinni um bölsýnan texta hafi gert honum kleift að skilja hvernig Jesú Kristi leið á vondum degi.) Það sem upp úr stendur er þó einlægni frásagnarinnar. Tónlistin er í fyrirrúmi og við fáum um leið innsýn í daglegt líf og ævi miðaldra Lundúnabúa, sem notið hefur mikillar velgengni, en þrátt fyrir það orðið fyrir ýmsu því mótlæti - og leitar í tónlistina til að takast á við vandamál sín. Og þegar á heildina er litið er lesandinn kynntur fyrir áhugaverðri tónlist. Ég mun t.d. eftir þessarar bókar leggja mig meira eftir Teenage Fanclub, The Bible, Mark Mulcahy, Aimee Mann, Ben Folds Five og Steve Earle. Eftir að hafa lesið þessa bók langar mig helst til að grafa upp listann, sem ég bjó til um 100 uppáhaldsplöturnar mínar hér um árið, og greina þær, hverja og eina, lag fyrir lag.
Flokkur: Bloggar | 18.4.2013 | 20:34 (breytt 19.4.2013 kl. 11:54) | Facebook
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.