Undanfarin ár hafa íslenskir rithöfundar í sívaxandi mæli sótt í sjóð fornsagnanna. Bylgja þessi, sem hófst ef til vill með ágætri skáldsögu Thors Vilhjálmssonar um Sturlu Sighvatsson, Morgunþulu í stráum, nær til þríleiks Einars Kárasonar (Óvinafagnaður, Ofsi og Skáld), sem einnig er sóttur til Sturlungu, Glæsis Ármanns Jakobssonar, þar sem Eyrbyggja er endursögð frá sjónarhóli andsetins nauts, og síðustu skáldsagna Þórunnar Erlu Valdimarsdóttur, Kalt er annars blóð og Mörg eru ljónsins eyru, sem eru frjálslegar nútímaútgáfur sóttar í stef Njálu og Laxdælu.
Við þennan föngulega hóp má bæta Þórarni Eldjárn, sem fyrir síðustu jól gaf út skáldsöguna Hér liggur skáld, en sagan fjallar einkum um Þorleif jarlsskáld - eða jarlaskáld eins og hann er kallaður í þætti sínum - sem og atburði sem áttu sér stað á hans heimaslóðum þá hann var ungur. Til er af Þorleifi stuttur Íslendingaþáttur af utanför hans og er þar útskýrt viðurnefni hans, en einnig kemur hann lítillega við sögu í Svarfdæla sögu, sem gerist að mestu á hans heimaslóðum á æskudögum hans.
Skáldsaga Þórarins hefur tvöfaldan ytri ramma utan um meginfrásögnina af Þorleifi og hans fólki, báða sótta í Íslendingaþáttinn. Fyrst ber að nefna sögu Hallbjörns sauðamanns, sem upphaflega ber auknefnið hali og síðar þjóðskáld, en sagan hefst árið 1190, tæpum tveimur öldum eftir víg Þorleifs á Þingvöllum. Á völlunum er Þorleifur heygður og uppi á þeim hól leggst Hallbjörn til svefns á hverju kvöldi í von um að skáldgáfa hins heygða megi á einhvern hátt mjatlast upp til hans í draumi. Annar ramminn gerist tveimur öldum fyrr, þar sem vomur nokkur (orðið er hér vísvitandi notað, svo oft sem það kemur fyrir í Hér liggur skáld) fær sér far til Íslands, að því er virðist í þeim tilgangi að drepa Þorleif. Upphefst síðan hin eiginlega frásögn af Svarfdælum og Þorleifi, og aftur er sagan tvískipt mjög, annars vegar af átökum í heimahögum hans, þar sem Þorleifur sjálfur kemur fremur lítt við sögu, heldur eru þar í öndvegi tvær fylkingar, sem bítast um völd í dalnum, hvor sínu megin við ána, annars vegar Ljótólfur goði á Hofi og hins vegar sonur Þorsteins svarfaðar, Karl rauði, sem hefur í sínu liði ólíkindatólið og hálfberserkinn Klaufa. Á milli þessara fylkinga lenda síðan íbúar dalsins, eins og ættfólk Þorleifs og bóndinn Gríss, sem leikur tveimur skjöldum. Allt kemur þetta efni fyrir í Svarfdælu og fylgir Þórarinn söguþræði þaðan skilvíslega, en bætir við smáatriðum til að gefa fyllri sögu, auk þess sem lýsingar á staðháttum eru öllu ríkulegri en í Svarfdælu, enda mun ættfólk Þórarins, eins og Þorleifs, þaðan runnið. Vatnaskil verða í sögunni þegar Þorleifur og bróðir hans Ólafur verða að flýja lands vegna vígamála, en eftir það gerist sagan mestmegnis utanlands og er þá að langmestu leyti fylgt Þorleifs þætti jarlaskálds. Er þetta miður, því að síðari hluti Svarfdælu er ekki síðri en fyrri hlutinn, en reynist samt ekki brúklegur hér (við fáum t.d. ekki að heyra rækilega af örlögum Yngveldar fögrukinnar, systur Þorleifs, einnar þrjóskustu konu Íslendingasagna, sem þoldi nánast óendanlegt harðræði og raunir fremur en að láta buga sig). Á eftir afrekum Þorleifs ytra kemur stutt frásögn af örlögum hans hér heima - innri rammanum lokað - og loks er ytri rammanum gerð sömu skil með örstuttri frásögn af upphefð Hallbjarnar sauðamanns.
Sem fyrr segir er Þórarinn afar trúr fornum heimildum sínum í Hér liggur skáld; það er helst að hann reyni að gera þær fyllri með nákvæmari útlistun atburða. Þannig kemur sögufræg og örlagarík stórutá Ólafs Þorleifsbróður óneitanlega fyrir í Svarfdælu, en hlutverk hennar ytra magnar Þórarinn upp. Hina bráðskemmtilegu þátttöku Klaufa sem draugs er að finna í Svarfdælu og er þar Klaufi framliðinn í enn stærra hlutverki en í Hér liggur skáld. Enn fremur er fylgt í grunnatriðum lýsingu Þorleifs þáttar af dulargerfinu með geitarskeggið og hítina, nema hvað hjá Þórarni er þar tilkominn Finnagaldur. Í Þorleifs þætti kemur einnig fram að Þorleifur er kraftaskáld, jafnvel að því marki að ákvæðiskveðskapurinn komi af stað viðþolslausum kláða Hákonar Hlaðajarls svo að hann hann þarf að láta taka ofan strigadruslu, hnýta á hana hnúta og láta menn draga hana milli þjóa sér til svíunar - allt þetta kemur fram í þættinum, en svo heldur Þórarinn lengra í lýsingunum - og ekki man ég eftir neinum Konnavísum í Þorleifs þætti, þótt þar séu nefndar Þokuvísur. Hinn eintrjáningslegi vomur Þorgarður er einnig kominn úr forn-þættinum, en litrík frásögn af tilurð hans sýnist mér mestmegnis tilbúningur Þórarins, sem og sú hugvitssemi að nafnkenna Þorgarð við Þorgerði Hörgabrúði. Eiginlega þarf maður að endurlesa lýsinguna á Þorgarði í bókarbyrjun í ljósi tilurðar hans, sem kemur fram í bókarlok. Öll er sagan Hér liggur skáld löðrandi í forneskju og fordæðuskap, en margt að því er komið úr frumheimildum og einfaldlega aukið í. Sumt í sögunni þótti mér fræðandi, til dæmis að nafn Höfðabrekku í Mýrdal kynni að vera dregið af æskuslóðum Þorleifs nyrðra, en samt myndi ég leita út fyrir skáldskapinn til að fá það staðfest. Segja má að Þórarinn gangist inn á náttúrunafnakenningu, þegar hann segir ána Svörfuð skipta dalnum og að nafn hennar sé komið fyrir þær sakir að áin sverfi úr börðum á bökkum sínum. Með því er hafnað skýringu Svarfdælu á dalsheitinu, þótt Þórarinn impri á þeirri skýringu.
Sem við er að búast af hendi Þórarins Eldjárn er stíllinn á bókinni fágaður og elegant. Málið er hæfilega fyrnt og sýnist mér höfundur á heimavelli þar, með ýmsum sjaldgæfum orðum og orðasamböndum (þess vegna stakk dálítið í augu orðið persóna" (bls. 151)). Stundum þótti mér höfundur óþarflega orðmargur, þveröfugt við stíl Íslendingasagna, og hefði hann vísast getað meitlað málið meira. Slíkar málalengingar komu til dæmis fyrir í orðfæri á borð við Hóf hann að reisa..." í stað Hann reisti..." Þá er einstaka sinnum að finna tvítekningu á efni, sem hinn frægi einn yfirlestur til viðbótar" hefði getað útrýmt. Þannig þótti mér efni nokkuð snúið á haus á bls. 148-150, þar sem fyrst er greint frá því að Þorleifur snúi heill til hirðar Sveins tjúguskeggs eftir ákvæðisflutninginn rómaða, en síðan er lýst í alllöngu máli hvers konar villuráfandi svaðilför hann þurfti að fara þvert yfir Noreg til að komast á leiðarenda; m.ö.o. er spennan tekin úr textanum með því að greina fyrst frá giftudrjúgum lyktum, en síðan reynt að setja spennu í ferlið, sem ekki mun skila sér. Loks virkaði uppbrot á sjónarhorni tvímælis á mig; í 2. hluta bókarinnar (bls. 65-91) hverfur þriðjupersónufrásögn og í staðinn kemur fyrstupersónufrásögn Þorleifs. Óútskýrt er hvers vegna þessu sjónarhorni er fylgt um tíma, en síðan tekin að nýju upp þriðjupersónufrásögn við utanför Þorleifs. Að minni hyggju veikti þetta óþarfa stílbrot frásögnina, þótt máske hafi það verið hugsað í þeim tilgangi að gera sjónarhorn fjölbreyttari.
Að endingu þetta: Hér liggur skáld er forvitnileg saga, fyrst og fremst til að skoða úrvinnslu höfundar á frumheimildum, sem jafnan er lítt hampað. Bókin er einnig þægileg og líðandi lesning, en kemst samt að mínu mati ekki með tærnar þar sem besta sögulega skáldsaga Þórarins, Brotahöfuð, hefur hælana.
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.