Lagaprófessorinn Njáll Þorgeirsson og byggingaverktakinn Gísli Súrsson

Óttar Guðmundsson er sérfróður um það sem máli skiptir í lífinu: Brennivín, kvenfólk og fornsögur ...

     Nei, byrjum aftur; þetta er betra að orða á eftirfarandi hátt: Óttar Guðmundsson, starfandi geðlæknir, sem áður hefur ritað bækur um áfengisneyslu og kynlíf, hefur nú bætt við riti um persónur Íslendingasagna út frá kenningum geðlæknisfræði. Síðastliðið haust gaf hann út bókina Hetjur og hugarvíl; Geðsjúkdómar og persónuleikaraskanir í Íslendingasögum, þar sem hann greinir persónugerðir fjölmargra karla og kvenna úr fornsögunum. Tilgangurinn er, hygg ég, tvíþættur: Að fræða og skemmta. Óttar dregur fram þekkta einstaklinga og pör úr þessum sagnaheimi, lætur þau leggjast á bekkinn og rekur úr þeim garnirnar, en að því búnu kemur læknirinn með greiningu sína - hvers konar röskun er um að ræða skv. greiningakerfi geðlæknisfræðinnar (sem birt er í sérstökum bókarauka). Rúsínan í pylsuendanum - og sá þáttur verksins sem eflaust er settur fram helst til gamans - er „vörpun" persónueinkennanna inn í nútímann: Hvar væru þau stödd í nútímasamfélagi? Væri Þjóstólfur, fóstri Hallgerðar, vel þekktur handrukkari og hrotti í undirheimum? Hefði Grettir verið lagður inn á BUGL á unglingsárum og kominn á varanlega örorku innan þrítugs? Hefði Þorsteinn drómundur orðið hetjutenór á Ítalíu? Hefði hinn hagi Gísli Súrsson í nútímanum gerst svikull byggingarverktaki? Væri Mörður Valgarðsson siðlaus stjörnulögfræðingur? Væri sjálfur Gunnar Hámundarson einnig lögfræðingur (m.a. vegna fjölda samverustunda við Njál Þorgeirsson lagaprófessor við Háskóla Íslands), með ljósmyndir af afrekum úr íþróttaferlinum uppi á vegg á lögfræðistofu sinni og með viðskiptavini sem hann hefði fyrst og fremst náð í vegna tengsla við íþróttahreyfinguna? Hefðu þeir Gunnlaugur ormstunga og Hrafn Önundarson gert út um sín mál hvor með sinn haglarann uppi á heiði í dag?

     Ég játa að það var með nokkrum efasemdum sem ég tók mér þessa bók í hönd. En þegar ég byrjaði að lesa hvarf vafinn á augabragði; það sem bókina kann að skorta fræðilega - og nú ber ég lítið skynbragð á - bætir hún margfalt upp með skemmtigildi sínu. Þess utan er hún prýðisgóð til upprifjunar á sögum, sem farið er að snjóa yfir, nú, eða sem inngangur fyrir ólesnar sögur. Ég á t.d. eftir að bæta Hávarðar sögu Ísfirðings í sarpinn.

     Hvað stendur eftir við lok lesturs? Jú, stóra spurningarmerkið á andlitinu. Var þetta fólk, sem við höfum haldið svo upp á í aldanna rás, virkilega að meira eða minna leyti abnormalt, já, klikkað eða snarbilað svo að tæpitungunni sé sleppt? Látum vera með Gretti, Egil og Þorgeir Hávarsson; þeir hefðu að sjálfsögðu verið taldir kriminelt psykopatar á öllum tímum, eins og félagi minn Héðinn orðaði það fyrir aldarfjórðungi. En Gunnar, hetjan mikla? Og Hallgerður? Í bók Óttars dugar ekkert að líkja sögunum við gríska harmleiki, þar sem tröllvaxin ógæfa sprettur af litlu tilefni eða misskilningi eða bara hybris. Nei, hér ber hver einstaklingur ábyrgð á eigin orðum, hegðun og gjörðum og getur á þeim forsendum lent í greiningarhópi. Einstaklingar eru að sjálfsögðu mislangt leiddir í „röskunum" sínum (einhvern vegar kann ég aldrei almennilega við fleirtölunotkun þessa orðs), en Óttar stígur fetinu lengra, giskar í eyðurnar og nefnir ýmis viðbótareinkenni, sem kynnu að hrjá viðkomandi einstaklinga, þótt ekki komi það fram í sögunum, einfaldlega vegna þess að þau herja oft á fólk í viðkomandi flokki. Gæti t.d. verið að Hallgerður langbrók hafi verið kynferðislega misnotuð í æsku, bara af því að hún er með hambrigðapersónuleikaröskun?

     Sjálfur er ég ekki hrifinn af því að draga ályktanir af því sem ekki stendur í texta, eins og Óttar leyfir sér alloft, í skjóli kenninga sinna. Átti Gísli Súrsson í sifjaspellssambandi við Þórdísi systur sína? Hann drap jú fyrsta ástmann hennar, einnig líklega eiginmann hennar og þuklaði á brjósti hennar kaldri hendi? Átti Hallgerður í kynferðissambandi við Þjóstólf? Hér er að mínu mati býsna langt seilst í ályktunum. Hvað með Njálssyni? Bjuggu þeir heima við að Bergþórshvoli með konum sínum af því að þeir voru svo kúgaðir af foreldrunum, eins og Óttar heldur fram? Sjálfur las ég Njálu alltaf á þann veg að Skarphéðinn og bræður hans væru í foreldrahúsum af því að þar væri gott að vera. Já, og var Njáll karlinn virkilega með kvíðahliðrunarpersónuleikaröskun?

     Jamm, þetta fólk var víst að meira eða minna leyti bilað og sumt snargeggjað - nema hvað hægt er að nefna það miklu fínni nöfnum á tungutaki nútímalegrar geðgreiningar. Sagnahetjurnar voru í ríkum mæli ofstopamenn, sem öbbuðust upp á eða myrtu venjulegt hvunndagslegt fólk sem lítið hafði eða ekkert til saka unnið - voru hin hversdagslegu nóboddí. Í Rangárþingi var Kristumlíkt gæðablóð myrt fyrir engar sakir og er flestum gleymt. En morðinginn, hann er á stalli - héraðsíþróttasambandið heitir meira að segja eftir honum.

     Óttar talar sjálfur um að margar sögur og margar persónur, sem hann hefði viljað fjalla um, sitji óbættar hjá garði - og boðar þar máske framhald bókarinnar. Samt fer hann yfir býsna vítt svið, tekur fyrir 4 af 5 stærstu sögunum, með Njálu fyriferðarmesta, og allmargar smærri þar sem áhersla liggur á skáldum. Ef til vill hættir hann ekki fyrr en hann hefur farið í gegnum allar sögurnar. Sjálfur saknaði ég Eyrbyggju og bíð ég spenntur eftir að heyra greiningu á Snorra goða.

     Og alltaf lærir maður ný orð. Ólafur Hávarðarson, úr Hávarðar sögu Ísfirðings, hafði bjarnaryl, sem þýðir í megindráttum að hann klæddi sig lítt í köldu veðri, fór ekki nema í skyrtu og brók. Hver kannast ekki við unga nútímatöffarann, sem gengur borubrattur niður Laugaveginn í stutterma bol um hávetur?

     Meðan ég las rit Óttars um hetjur og hugarvíl spurði ég ýmsa kunningja og kollega, sem lesið höfðu bókina, út í hana. Viðbrögðin voru einatt á eina lund: Fitjað upp á trýnið í forpokun eða fýld grön; einstaka taldi mega hafa græskulaust gaman af henni. Mitt eigið mat er sumpart hið sama, en í heildina held ég að ég sé jákvæðari. Nefni ég þrennt bókinni til ágætis: Í fyrsta lagi hefur hún ótvírætt fræðslugildi um aðferðir geðlæknisfræði. Í öðru lagi er framsetning söguefnisins svo hnitmiðuð og skýr að bókin hefur ágætt upprifjunargildi; hún gæti t.d. nýst framhaldsskólanemum ágætlega við Njálulestur. Og í þriðja lagi er skemmtigildi hennar nokkuð ótvírætt; oft hló ég upphátt - en er hins vegar ekki alveg viss um að það hafi verið á tilætluðum stöðum. Hvort Hetjur og hugarvíl teljist grunn- eða djúpristin á fræðilegum forsendum leyfi ég öðrum að dæma um.

-----

Smávægileg viðbót: Í annars ágætum eftirmála eftir Torfa Tuliníus er að finna bagalega villu, þar sem Jorge Luis Borges er kallaður Nóbelsverðlaunahafi; það er vitaskuld ekki rétt, þótt Borges sjálfur hafi sýtt mjög að hljóta aldrei verðlaunin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er alltaf gaman að velta fornsögunum fyrir sér, þó aðkoma Óttars sé svolítið öðruvísi en flestir eigi að venjast.

Það er nokkur atriði sem Óttar gleymir að taka með í myndina, þegar hann tekur að sér að sálgreina okkar fornu kappa.

Fyrir það fyrsta, hvað er normal og hvað abnormal? Skilgreining á því hlýtur að liggja í tíðaranda hvers tíma. Það sem okkur þykir hin mesta fyrra í dag og merki um brjálæði, gæti hafa þótt hin mesta dyggð á þeim tímum sem sögurnar eru miðaðar við.

Þá er ljóst að margar þessara sagna eru ritaðar löngu eftir að þær áttu að hafa átt sér stað. Því má kannski segja að sálgreining Óttars miði meira að þeim sem rituðu þessar sagnir, en sagnarpersónunum sjálfum.

Þá er nærri öruggt að sögupersónur fornsagnanna myndu haga sér öðruvísi ef þær væru uppi á okkar dögum, en sagnir herma. Hugsanlega má þó afgreiða Egil og Grettir sem "kriminelt psykopatar" og eins víst að þeir væru bak við lás og slá. En gæti ekki verið að Njáll væri virtur og vel metinn lagaprófessor, hugsanlega framarleg í landsmálapólitíkinni. Gunnar gæti allt eins verið Ólympíufari, annað hvort í sjöþraut eða jafnvel burðarleikmaður íslenska handboltaliðsins. Gísli væri hugsanlega eigandi eins af stæðstu byggingarfyrirtækjum landsins, eða stórbóndi fyrir vestan.

Það má allt eins skoða söguhetjurnar frá þessum punkti. Draga saman þá kosti sem þeir höfðu og spá í hvernig þeir myndu nýtast í nútímanum. Það er ekki nauðsynlegt að horfa bara til ókostana og setja fram spádóm út frá þeim, sér í lagi þegar þeir ókostir voru kannski alls engir ókostir á þeim tíma.

Það væri gaman ef einhver sögufróður maður legði á sig að rita bók í svipuðum anda og Óttar, bara út frá þeirri sýn að skoða kosti fornhetjanna og setja fram spá um hvernig þeim myndi vegna í nútímanum frá þeirri nálgun.

Gunnar Heiðarsson, 16.5.2013 kl. 22:01

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Góðar hugleiðingar, Gunnar, en í reynd kemur Óttar, held ég, inn á flesta þá punkta sem þú minnist á. Hann nefnir margvíslega fyrirvara að nálgun sinni og dregur rækilega fram kosti persóna ekki síður en galla; tíundar einmitt íþróttaafrek sem nafni þinn Hámundarson gæti unnið í nútímanum og talar um Njál af mikilli virðingu. Það er eiginlega bara ég sjálfur, sem dreg fram þessi neikvæðu atriði í umsögn minni, máske fyrst og fremst af því að ég hneykslaðist þegar ég horfðist í augu við að sumar fornar hetjur, t.d. Skarphéðinn, væru það á vægast sagt vafasömum forsendum. Og sjálfur er ég þeirrar skoðunar að í dag þyrfti að byggja sérstakt öryggisfangelsi utan um karaktera eins og Egil, Gretti og Þorgeir Hávarsson.

En, semsagt, sökin er mín, ekki Óttars. Þú ættir að verða þér út um bókina og lesa hana. Þá sérðu að höfundur er miklu sanngjarnari en endursögn mín kann að gefa til kynna. Bókin er bráðskemmtileg og höfundi verður ekki brigslað um vanþekkingu á sögunum.

Helgi Ingólfsson, 16.5.2013 kl. 22:43

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þarf endilega að gera það, Helgi. Það er alltaf gaman að lesa um fornkappana okkar.

Gunnar Heiðarsson, 17.5.2013 kl. 00:19

4 identicon

Gafst upp eftir Laxdælukaflann (er hann ekki fremstur í bókinni) og skilaði henni. Enda bæði vellesin í geðlæknisfræðum og gömlu reyfurunum. Kosturinn við skrif Óttars er að það er þá væntanlega í himnalagi að íslenskufræðingur bloggi um geðlæknisfræði ;)

Maður er búinn að leggja hundraðsinnumogoftar fyrir verkefnin "Ef Gunnar/Kjartan/Hallgerður/Guðrún Ó/Gunnlaugur ormstunga o.s.fr. væru uppi í dag hvernig væri líf þeirra". Og láta greina andfélagslega þætti í fari Egils (þess vegna sækópatíu) o.s.fr. Mér fannst að ég væri að lesa samansafn af nemendaverkefnum þegar ég las (það litla sem ég las) í þessari bók.

Til að gæta sannmælis tek ég fram að Tíminn og tárið eftir Óttar er stórgóð bók. Kynlífsbókin er la-la, aðrar síðri. Og Kleppu 100 ára er svo morandi af villum að ég reyti orðið hár mitt af pirringi ...

P.s. Jon Høyersten, norskur geðlæknir, skrifaði doktorsritgerð um sálræn vandamál í Ísl.sögunum einhvern tíma seint á tíunda áratug síðustu aldar. Ég hef lesið nokrkar greinar eftir karlinn og stefni á að lesa bókina sem hann samdi upp úr doktorsritgerðinni - hún er til á Þjóðarbókhlöðu. Ætli ég lesi þá ekki Óttars bók í gegn, svona til að sjá muninn (og hvaða hugmyndir hann hefur kannski tekið traustataki ...)

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 01:34

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Einhver misskilningur hér, Harpa, Laxdæluhlutinn er aftarlega í bókinni - það er Njála sem nær yfir fyrstu 80 blaðsíðurnar eða svo.

Hm, ég veit nú um íslenskufræðing sem bloggar um geðlæknisfræði ... og af heilmikilli þekkingu, sýnist mér, enda sjálfmenntaður í faginu, innan frá og utan frá, ef svo má að orði komast.

Svo þurfum við auðvitað að átta okkur á því að í Hetjum og hugarvíli er geðlæknirinn ekki að setja fram bókmenntalega greiningu á verkunum, eins og t.d. skáld, sem ekki er íslenskufræðingur, hefur nýverið leitast við að gera. En ég þekki vel þessa tilfinningu að vera blaséraður af ritgerðarefnum nemenda. Ég efast samt um að þú hafir látið þau greina Hávarðar sögu Ísfirðings eða Kormáks sögu.

Og, hm, skyldi sá norski betur í stakk búinn að skrifa um sálræn vandamál í Íslendingasögum en íslenskur kollegi hans? Spyr sá sem ekki veit.

P.S. Biðst velvirðingar á síðbúnu svari - ég bara vissi ekki af þessari athugasemd fyrr en nú.

Helgi Ingólfsson, 27.5.2013 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband