Cloud Atlas: Skáldsaga 21. aldar?

Eftir því sem árin líða sækist ég meira í að endurlesa gæðabókmenntir fremur en að taka áhættu með að lesa nýmeti sem gæti reynst misgott. Vafalítið eru þetta ellimerki - ekki svo mikið eftir af lífinu að maður vilji sólunda því í slæman skáldskap. Ein bók, sem ég leita stöðugt í, er Cloud Atlas eftir David Mitchell, að mínum dómi er besta skáldsaga skrifuð á 21. öld, sem ég hef lesið. Bókina fékk ég í afmælisgjöf frá dóttur minni og tengdasyni árið 2005, um tveimur árum eftir að hún kom út, og heillaðist svo gjörsamlega við fyrsta lestur að ég endurlas hana fáum árum síðar. Í fyrra stóð fyrir dyrum að bókin yrði útfærð í kvikmynd (og bloggaði ég um tilurð hennar hér) og eftir að hafa séð kvikmyndina las ég bókina nýlega í þriðja skiptið.

Cloud Atlas er ritverk sem brýtur allar reglur. Fyrir hið fyrsta er spurning hvort það flokkist sem skáldsaga, því að þetta eru sex skáldaðar frásagnir af nóvellulengd, ótrúlega ólíkar að efni og stíl, en tengdar ýmsum þráðum. Sú fyrsta er í formi dagbókar, önnur stíluð sem sendibréf, þriðja er hraðsoðinn reyfari í „pulp-fiction"-stíl, fjórða er hálfgildings farsi, fimmta er vísindaskáldsaga í skýrsluformi og sjötta er sögð við varðeldinn eftir hrun siðmenningarinnar. Hver saga hefur sína meginsöguhetju og allar eru þær gjörólíkar að tungutaki, orðfæri og framsetningu. Ennfremur eru sögurnar flestar slitnar sundur í tvennt: Byrjað er á frásögn um 1850, sú næsta gerist um 1930, sú þriðja um 1975, fjórða í nútímanum, fimmta nærri miðri 22. öldinni og sú síðasta á óskilgreindum tíma eftir hrun siðmenningar. En við fáum bara fyrri hlutann af fimm fyrstu sögunum, þá kemur sú sjötta öll, og síðan er fyrri sögum lokað í öfugri röð; bókin er spegluð um miðju. Risastór samlokubók. Frásögnin í slitnu sögunum hættir jafnan, þegar hæst standa leikar og lesandinn bíður óþreyjufullur eftir framhaldinu. Þannig má skilgreina Cloud Atlas sem sagnasveig 6 gjörólíkra nóvella, sem hver fyrir sig er 80-90 blaðsíður, en afar flóknir og hárfínir þræðir liggja þvert um verkið endilangt og réttlæta helst að hægt sé að tala um skáldsögu.

Nú skal farið lítillega yfir hverja sögu fyrir sig. Blaðsíðuvísanir eru í kiljuútgáfu mína, útg. 2003 af Sceptre (Hodder and Stoughton):

1) Fyrsta nóvellan nefnist The Pacific Journal of Adam Ewing og þar er í lykilhlutverki hinn siðavandi, trúaði og alvörugefni Adam Ewing, bandarískur lögskrifari sem sendur hefur verið um 1850 frá San Francisco til Ástralíu, en saga hans gerist á bakaleið og hefst þar sem laskað skipið Prophetess, sem flytur hann, hefur neyðst til að leita hafnar til viðgerða á Chatham-eyjum eftir óveður. Lesandanum er þeytt inn í miðja dagbók á fyrstu síðu sem sést t.d. á því að Ewing vísar til dagbókarinnar framar en frásögnin nær til (sbr. bls. 39). Bragð þetta er dæmigert af hendi höfundar til að rugla í ríminu lesanda sem má hafa sig allan við að átta sig á rás atburða út frá lágmarksupplýsingum - rétt nægum, ef rækilega er fylgst með. Þannig fáum við að vita að Ewing á eiginkonuna Tildu og soninn Jackson, sem bíða hans heima, og svo virðist sem sonurinn hafi gefið dagbækurnar út að föður sínum gengnum, því að á einum stað er að finna neðanmálsgrein eftir „J.E." sem talar um Adam Ewing sem föður sinn (21). Frásagnarform dagbókarinnar er fullkomlega sannfærandi, með orðfæri og talsmáta trúaðs menntamanns á 19. öld.

2) Önnur nóvellan nefnist Letters from Zedelghem og við erum hrifin úr miðri málsgrein Adams Ewing inn í heim ungs ensks æringja og tónlistarmanns, Roberts Frobisher, sem er á flótta árið 1931 undan handrukkurum vegna spilaskulda og endar í Belgíu, þar sem hann kjaftar sig inn á uppþornað frægt tónskáld, Vyvyan Ayrs, og gerist nótnaskrifari hans, enda er Frobisher hrífandi skúrkur sem kann þá list að vefja fólki um fingur sér. Hann lýsir fáeinum mánuðum í lífi sínu í sendibréfum til ástmanns síns, Sixsmith að nafni, en raunar er Frobisher beggja handa járn og flekar konur með afdrifaríkum afleiðingum. Sixsmith vitum við hins vegar næsta lítið um, nema hvað hann er ungur vísindamaður tengdur Cambridge. Stílfræðilega er þetta einn fjörmesti og bitastæðasti hluti Cloud Atlas og er samt um auðugan garð að gresja. Þegar ég las þennan hluta fyrst sannfærðist ég um að höfundurinn David Mitchell hlyti að hafa meistaragráðu í tónsmíðum og tónlistarsögu ofan á alla aðra þekkingu sína, því að fjallað er um þau mál af slíkri kunnáttu. Frobisher varpar fram kæruleysislegum tónlistarathugasemdum, þar sem dæmi eru sótt út um alla tónlistarsöguna. Hann heyrir tónlist hvarvetna - marrandi löm, hrotur, kirkjuklukkur, draumar - og tilgreinir margoft hvernig hann myndi skipa niður hljóðfærum í tónlist sína, tilbúna sem ósamda. Í Zedelghem hefur hann til umráða rúm sem Debussy svaf í 1915 og verður vitni að heimsókn Sir Edwards Elgars til Ayrs síðsumars 1931 - fær að heyra risana kýta um nútímatónlist eftir Webern, dregur upp úr Elgar ástæður þess að hann samdi Pomp and Circumstance March og horfir á tónskáldin tvö rota rjúpur framan við arininn svo að úr verður - tónlist.

Frobisher semur seinna tónverkið Cloud Atlas Sextet (nafnið er fengið að láni úr tónverki japansks tónskálds, Toshi Ichiyanagi, fyrri eiginmanns Yoko Ono, en eldri bók Mitchell, number9dream, sækir einnig nafn í tónverk eftir annan eiginmann Yoko, þann frægari). Reyndar má í vissum skilningi segja að Cloud Atlas Sextet sé lykillinn að bókinni; tónverki sínu lýsir Frobisher svo í sendibréfi: „Spent the fortnight gone in the music room, reworking my year´s fragment into a ´sextet of overlapping soloists´: piano, clarinet, ´cello, flute, oboe and violin, each in its own language of key, scale and colour. In the Ist set, each solo is interrupted by its successor: in the 2nd, each interruption is recontinued, in order. Revolutionary or gimmickry? Shan´t know until it´s finished ..." (463). Og áfram í öðru bréfi: „... it´s an incomparable creation. Echoes of Schriabin´s White Mass, Stravinsky´s lost footprints, chromatics for the more lunar Debussy, but truth is I don´t know where it came from. Waking dream. Will never write anything one hundreth as good. Wish I were being immodest, but I´m not" (489). Þetta gæti verið lýsing á bókinni sjálfri og höfundi hennar, yfirfærð í tónlist.

Ég varð hlessa þegar ég las í viðtali við Mitchell að hann kynni lítið í tónlist, en sagðist að meira eða minna leyti hafa fengið tónlistarefni sitt úr bæklingum sem fylgja klassískum geisladiskum! Eitt stíleinkenni Mitchell er hversu trúverðugur hann er á öllum sviðum í Cloud Atlas, sama hvað hann ritar um - enska orðið authenticity kemur stöðugt upp í hugann. Samt er það í Letters from Zedelghem sem mér þykir að finna eina frásagnarveikleikann í allri bókinni, varðandi undraskjótan frama Frobishers  - á tæpum 2 mánuðum nær hann að koma sér inn undir hjá Ayrs, skrifar fyrir hann nóturnar að Todtenvogel, verkið er flutt í Kraká af Augustowski, fær rífandi undirtektir og verður á hvers manns vörum í heimi klassískrar tónlistar í Evrópu. Allt þetta á 2 mánuðum! (Í kvikmyndaútgáfunni er því öllu breytt, ekkert Todtenvogel, en vísað í annað verk sem Ayrs er að semja seinna í Nietzsche-önskum anda, Eternal Recurrence; enginn Debussy, Elgar eða Augustowski, en í staðinn kominn í heimsókn þýskur tónlistarstjóri á nasistatímanum, Taddeusz Kesselring, enda sagan færð frá 1931 til 1936.)

Bókarhlutinn um Frobisher tengist þeim fyrsta helst á þann veg að hann les dagbók Ewings. Þarna fáum við fyrst að vita að hún hafi ratað í útgáfu, en samt ekki enn ljóst hver stóð að því, enda segir Frobisher „...published by Ewing´s son (?)" (64). Frobisher hefur bara  hálfa bókina í höndum og vill meira, eða eins og hann segir í bréfi til vinar síns: „A half-read book is a half-finished love affair" (65). Frobisher er því hér viðeigandi og skemmtilega í sömu stöðu og lesandinn: Hefur eingöngu lesið hálfa frásögn Ewing.

Vert er að nefna undarlegan draum, sem Ayrs dreymir og útlistar fyrir Frobisher, þar sem hinn síðarnefndi er að tónsetja sónötu samkvæmt fyrirmælum: „I dreamt of ... a nightmarish café, brilliantly lit, but underground, with no way out. I´d been dead a long, long time. The waitresses all had the same face. The food was soap, the only drink was cups of lather. The music in the café was," he wagged an exhausted finger at the MS [manuscript], „this." (80) Draumurinn kemur þarna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, en vísar beint inn í fimmtu sögu, um Sonmi~451.

Sem fyrr segir finnst mér Zedelghem-hluti bókarinnar einna skemmtilegastur (a.m.k. við þriðja lestur) og er synd og skömm hversu lítið varð úr honum við gerð kvikmyndarinnar, en þar var sögusviðið fært frá nágrenni Brügge til Edinborgar án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, og þótt sá frábæri Ben Whishaw hafi í hlutverki Frobishers reynt að bjarga því sem bjargað varð, þá voru svo veigamikil efnisatriði felld út að þessi sögukafli varð hvorki fugl né fiskur í kvikmyndinni og hefði jafnvel betur verið sleppt.

Sendibréfum Frobisher lýkur í miðjum klíðum og við tekur gerólík frásögn, þar sem fyrsta persóna, sem við sögu kemur, er roskinn vísindamaður, Rufus Sixsmith.

3) Þriðja nóvellan er hraðsoðinn leynilögreglureyfari í anda Dashiell Hammett eða Raymond Chandler, og heitir Half-Lives: The First Luisa Rey Mystery. Nafnið er að sumu leyti afhjúpandi; við höfum fengið eintóm hálf-líf í frásögnunum - en hvað er átt við með að þetta sé fyrsta Luisu Rey-ráðgátan? Eru þær (eða eiga þær eftir að verða) fleiri? Hér er Mitchell við sama heygarðshornið; þetta virðist í ætt við zen-búddisma, eins og titillinn Cloud Atlas, Skýjafarskort, sem vísar til hins ómögulega, að kortleggja ský sem alltaf eru á ferð. Fyrsta Luisu Rey-ráðgátan er jafn röklaust eins og one hand clapping - því að það er bara til ein Luisu Rey-ráðgáta. Persóna úr næstu sögu, Timothy Cavendish, veltir fyrir sér miklu síðar í bókinni hvort til séu fleiri handrit um Luisu Rey, máske önnur og þriðja ráðgátan (373). Annars er kvittur á kreiki um að Mitchell hyggist tengja allar sögur sínar saman í einn risastóran sagnaheim og þá koma fleiri Luisu Rey-ráðgátur máske fram.

Söguþráður þessa hluta er á þann veg að ung blaðakona, Luisa Rey, kemst að því að mögulegar hættur fylgi opnun nýs kjarnorkuvers, en þarf að sanna að maðkur sé í mysunni og á þá í höggi við valdamikla stjórnmálamenn, spillta stjórnendur og illþýði þeirra. Einn vísindamaður, Nóbelsverðlaunahafinn Sixsmith, hefur leyft sér að efast um hvort kjarnorkuverið sé öruggt og skrifað um efnið skýrslu, sem hann reynir að koma í hendur Luisu áður en hann leggur á flótta.

Sagan gerist árið 1975 (ártalið verður raunar ekki ótvírætt fyrr en á bls. 435), meðan Gerald Ford er við völd, og tíðarandanum er mjög vel náð. Til dæmis deila Luisa og fyrrum sambýlismaður hennar um hljómplötu Dylans, Blood on the Tracks, sem kom út 1975. Tískan, diskótónlistin, VW-bjallan sem Luisa ekur (og heitir Garcia eftir gítarleikara Grateful Dead) - allt er þetta ekta 1975. Luisa hlustar á Tapestry með Carole King, sem reyndar jaðrar við tímaskekkju, því að platan er orðin fjögurra ára gömul, og les Zen and the Art of Motorcycle Maintenance (aðra uppáhaldsbók sem ég ætti ef til vill að draga fram næst), sem kom út 1974. Anakrónismi læðist líka inn. Sixsmith hyggst ferðast með Laker Skytrains frá Bandaríkjunum til Englands, en Laker Airways (sem aldrei hét Skytrains) var stofnað 1976. Alvarlegri tímaskekkju held ég að sé að finna þegar Betty Ford Clinic er nefnd (99); sú ágæta stofnun varð ekki til fyrr en 1982 skv. Gúgli frænda.

Sagan af Luisu Rey gerist í ímyndaðri borg, Buenas Yerbas, sem liggur á milli San Francisco og Los Angeles, og er skammstöfuð BY á svipaðan hátt og SF og LA. Frásögnin tengist sögu Frobishers í gegnum Sexsmith, en hans gömlu bréf komast í hendur blaðakonunnar, hún les þau og kemst þá að því, sér til undrunar, að hún er með nákvæmlega eins fæðingarblett á öxlinni og nótnaskrifarinn. Bent hefur verið á að Luisa Rey sæki mögulega sitthvað í sögu Karenar Silkwood, sem lést við grunsamlegar kringumstæður 1974, þegar hún hugðist afhjúpa geislamengun í Oklahoma og var komin með í hendur gögn sem hurfu, en út frá sögu hennar var gerð Óskarsverðlaunamyndin Silkwood með Meryl Streep í titilhlutverki, sem ég sá í Stjörnubíói fyrir sléttum 30 árum. Einnig virðist söguefnið sótt til kjarnorkuslyssins á Three Mile Island í Pennsylvaníu 1979 (og Three Mile Island reyndar nefnt á nafn, bls. 108 og 136). David Mitchell hefur upplýst í viðtali við Paris Review að Luisa Rey sæki nafn sitt í gamla eftirlætisbók sína, The Bridge of San Luis Rey eftir Thornton Wilder - en brýr eru í stórhlutverkum í þessum hluta Cloud Atlas sem ýmsum öðrum og væru verðugt rannsóknarefni út af fyrir sig. Sem fyrr segir er nóvellan um Luisu Rey hraðsoðinn reyfari: Setningarnar eru stuttar og fullar af töffaraskap, en eigi að síður er heilmikið um ljóðrænar lýsingar, líkingar og myndmál - Mitchell sviptir enga söguhetju sína því. Þegar Luisa horfir yfir flæðarmál á heitum sumardegi: „Seagulls float in the joyless heat" (124). Þegar forstjóri orkufyrirtækisins gengur inn í kertalýstan veislusal þar sem ýmsir frámámenn eru samankomnir: „The room bubbles with sentences more spoken than listened to" (131). Drukkinn maður talar: „His words slip like Bambi on ice" (133). Þegar Luisa kemur niður í mannlaust hótelanddyri um miðja nótt: „The carpet is silent as snow" (142). Ávaxtablandari í gangi á heimili móður Luisu: „The machine buzzes like trapped wasps..." (430). Jafnvel á æsilegustu augnablikum kann Mitchell að breyta klisjum í nýjabrum.

Tengingar liggja í ýmsar áttir úr þessum hluta bókarinnar yfir í aðra. Margo Roker nefnist kona, sem kemur lítið við sögu nema með því að ljá andstæðingum kjarnorkuversins landskika undir tjaldbúðir nærri verinu. Í fjórðu nóvellu hrópar Timothy Cavendish nafn hennar upp, þegar hann vaknar af martröð (370), en á hitt ber að líta að Cavendish hefur þá þegar lesið handritið að Half-Lives, svo að nafnið kemur ekki alveg utan úr blánum. Kjarnorkuverið við Buenas Yerbas er staðsett á Swannekke-eyju - en það nafn á eftir að koma fyrir í mýflugumynd hjá fjarlægum ættbálki í sjötta hluta bókarinnar (311). Skipið Prophetess, sem Adam Ewing ferðaðist með, er varðveitt í heimabæ Luisu. Sterkust er þó tenging Luisu við tónskáldið Frobisher; hún er ekki bara með hliðstæðan fæðingarblett, heldur er það henni sérstök upplifun þegar hún heyrir Cloud Atlas Sextet í fyrsta sinn, án þess að vita um hvaða tónverk er að ræða: „The sound is pristine, riverlike, spectral, hypnotic ... intimately familiar" (425).

Eins og í bókinni er þessi frásögn burðarás spennu í kvikmyndinni, þar sem Halle Berry fer með hlutverk Luisu og gerir það listavel, þótt hún sé í elsta lagi til að falla inn í hlutverkið: í bókinni er Luisa innan við þrjátíu og fimm ára (421). Sem alþjóð veit er Berry svört, en ekkert bendir til annars en að Luisa í bókinni sé hvít, sbr. vellauðuga móður og stjúpföður. Annars má nefna að í kvikmyndinni er sagan einfölduð óhemju mikið og margar persónur hverfa: Enginn Grimaldi, enginn Wiley, engin Judith Rey, vart nokkur úr hinu fjölskrúðuga persónugalleríi af skrifstofu blaðsins. Sagan af Luisu Rey frá hendi Mitchell hefði ein og sér, óskorin, dugað í ágæta spennumynd í fullri lengd. Eftirtektarvert er að saga Luisu er eina frásögnin af sex, sem er í 3. persónu; allar hinar eru með 1. persónufrásögn. Þá er þarna líka um að ræða einu frásögnina með númeruðum köflum.

4) Fjórða nóvellan, The Ghastly Ordeal of Timothy Cavendish, er gamansaga sem gerist í nútímanum á Englandi, nánar tiltekið mestmegnis í London og á svæði umhverfis Hull. Cavendish er bókaútgefandi með sitt eigið smáforlag, nokkuð kominn við aldur, en þó í fullu fjöri og getur látið til sín taka: „Not behaving the way an old man should - invisible, silent and scared - was, itself, sufficient provocation" (174). Það er ekki fyrr en undir lok sögu hans að við fáum að vita nákvæmlega hve Cavendish er gamall (395). Hann dettur í lukkupottinn, þegar hann gefur út endurminningar smábófa, sem taka að seljast eins og heitar lummur, þegar bófinn kastar bókagagnrýnanda fram af svölum háhýsis út af neikvæðum ritdómi; bófinn fer í langt fangelsi, en fé rakast á hendur Cavendish og allt virðist í lukkunnar velstandi - þar til bræður bófans heimsækja hann, heimta ófa fjár og neyða hann til að leggja á flótta. Í farteskinu er hann með nýfengið handrit, Half-Lives; The First Luisa Rey Mystery eftir dularfullan höfund að nafni Hilary V. Hush (158). Honum finnst ekkert sérstaklega mikið til þeirrar sögu koma: „I leafed through its first pages. It would be a better book if Hilary V. Hush weren´t so artsily-fartsily Clever. She had written it ... doubtless with one eye on the Hollywood screenplay" (164). Og allnokkrum sinnum rifjar Cavendish upp eða les atriði úr sögu Luisu Rey. (Í kvikmyndinni er handritið að sögu Luisu Rey sagt vera eftir Javier Gomez, umkomulítinn dreng sem Luisa hleypir inn í líf sitt.)

Fleiri tengingar eru hér við hinar sögurnar, oft þó með vægara eða óbeinna móti: Cavendish á sér eftirlætisbók, The Decline and Fall of the Roman Empire eftir Gibbon (169), en það reynist ein af bókunum sem Sonmi~451 les í laumi (227-228) - og í sögu Frobishers er sá þráður aftur tekinn upp, þegar tónskáldið veltir fyrir sér möguleikum endalausra endurtekninga: „...Rome´ll decline and fall again" (490). Á skrifstofu sinni er Cavendish með hnattlíkan og rekur þar ferðir Cook og Magellans (157, 158) yfir Kyrrahafið, svo að minnir á ferð Ewing. Þegar Cavendish er lokaður inni á hæli hótar hjúkrunarkona að láta hann éta sápupúlver (175), sem vísar inn í næstu sögu. Miklu síðar í bókinni, í seinni hluta sögunnar af Sonmi~451, fáum við útlitslýsingu á Cavendish; þá sér Sonmi~451 Búddha-líkneski og finnst það minna á Cavendish (345), sem hún hefur séð í gamanmynd (243).

Cavendish er bókamaður og segir við sjálfan sig: „Why have you given your life to books, TC? Dull, dull, dull!" (171). Grátbrosleg persóna hans minnir um margt á annan klaufabárð, Enderby eftir Anthony Burgess; báðir eru breskir bókmenntamenn komnir við aldur, sem þeytt er út í lífið svo að þeir verða að horfast í augu við veruleika sem þeir kunna varla skil á; báðir sakna „the Britain-that-used-to-be". Annars er viðfangsefni söguhlutans um Cavendish fyrst og fremst, svo ólíklega sem það kann að hljóma, ellin og hvernig þjóðfélagið kemur fram við aldraða.

5) Fimmta nóvellan nefnist An Orison of Sonmi~451, en orison er silfurlitað egglaga tæki sem tekur upp hvoru tveggja, hljóð og mynd, og getur varpað því aftur í þrívíddarformi. Sá sem yfirheyrir Sonmi~451 er skrásetjari (archivist) og bókmenntaformið er skýrslutaka. Þessi frásögn gerist í Kóreu framtíðarinnar, eftir u.þ.b. fjórar kynslóðir, þar sem ríkin tvö á Kóreuskaga hafa gengið í eina sæng og heita Nea So Copros. Einkennum beggja ríkja hefur verið steypt saman. Stjórnarformið minnir á einræði norðursins; yfir öllu ríkir Beloved Chairman, sem sungnir eru sálmar til dýrðar (336), og hugmyndafræðin nefnist Juche, eins og í N-Kóreu í dag. Nema hvað stjórnskipulagið er corpocracy, þ.e. fyrirtækjaræði, með gengdarlausri neyslu, enda virðist consumers orðið sem notað er yfir borgara og hver borgari hefur ákveðinn „kvóta" peninga sem honum er skylt að eyða, en það telst „an anti-corpocratic crime" að birgja sig upp (237). Greint er á milli mennskra (purebloods) og klóna (fabricants, hinna tilbúnu), en hinir síðarnefndu eru hálfgerðir þrælar í öllum þjónustustörfum, oft við sérhæfðar og innilokaðar aðstæður, og minna á börn, enda ósjálfstæðir í hugsun og vitund. Klóninn Sonmi~451 er gengilbeina á veitingahúsi neðanjarðar og hún öðlast „uppstigningu" (ascencion), þ.e. fer að hugsa sjálf. Lengi vel er þó ekki ljóst hvort það sé vegna vísindatilraunar eða ekki. Annars lifa klónarnir í fáfræði og þeim er haldið í þeirri blekkingu að þeir séu skapaðir með 12 ára skuld á bakinu, sem þeir þurfi að vinna af sér, en að þeim tíma loknum - ef þeir sýna af sér vinnusemi, þægð og trúmennsku - bíði þeirra dýrðardvöl á fjarlægjum sælueyjum: Hawaii. Hinir mennsku hafa „sál", en það ber ekki að taka of bókstaflega, því að hún er inngróin flaga notuð til að borga og ferðast. Það er „sálin" sem veitir hinum blóðhreinu „the right to consumerdom" (335). Klónarnir, líftæknilega búnir til, hafa ekki sálir; til dæmis virka lyftur ekki nema í henni sé persóna með sál og þannig er tryggt að Sonmi~451 eða stöllur hennar komist aldrei út af neðanjarðarveitingahúsinu. Líf klónanna er sett í hálf-trúarlega umgjörð; gengilbeinurnar lifa eftir nokkrum frumreglum eða katekismum, e.k. boðorðum sem raunar eru viðskiptalegs eðlis; hið fyrsta er „Honour thy consumer", og þær þurfa að vera viðstaddar helgiathafnir kvölds og morgna, eftir lokun veitingahússins og fyrir opnun. Þær sofa í litlum klefum inn af veitingahúsinu, nærast á gumsi sem kallað er sápa (soap), sem í er bætt örvandi efni (stimulin) svo að þær geti staðið langar vaktir og þurfi ekki nema 4-5 klst svefn. Klónarnir á veitingahúsinu hafa aldrei stigið fæti út í ytri heiminn. Þar til Sonmi~451 sleppur (talan í nafni hennar er augljós vísun í Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury) og tekur að þróa með sér sál; fær hana raunar fyrst inngróna í hálsband sitt, en að ýmsu leyti koma hinir mennsku fram við klónana eins og gæludýr með hálsólar. Annars má líta á uppstigningu hennar á fleiri vegu; hún kemur neðan úr undirdjúpum upp á yfirborðið og endar raunar seinna sem guðleg vera.

Heimssýnin er dystópísk. Ýmis svæði utan Nea So Copros (og jafnvel innan líka) eru kjarnorkumenguð eða eiturefnablönduð eyðilönd, en athugasemdir þar að lútandi eru nefndar tilfallandi, svo að púslin eru heillengi að raðast saman. Undirliggjandi í samfélaginu er ótti hinna mennsku við að klónar geti farið að hugsa sjálfstætt, en reyndar sjáum við samfélagið fyrst og fremst frá sjónarhorni hins undirokaða. Hégómi er orðinn slíkur að fólk lætur reglulega breyta andliti sínu (facescaping), jafnvel mánaðarlega, og einn „eigandi" Sonmi veltir fyrir sér hvort safírlitar tennur séu að komast úr tísku og hann eigi að láta lita sínar asúrbláar (218). Neysla á einhvers konar ávanabindandi æskuelexír, sem nefnist dewdrugs (=daggardropar?) veitir öldruðum unglegt útlit. Lyf eru til við flestum alvarlegum sjúkdómum (sbr. upptalningu á bls. 236), en ekkert stöðvar gegndarlausan ágang í auðlindir og eyðingu náttúrunnar. Málfar neyslusamfélagsins er allsráðandi og nöfn framleiðenda eru orðin að nafn- eða sagnorðum; to nikon þýðir að ljósmynda, en ljósmynd nefnist kodak og að breyta ljósmynd (fótósjoppa) heitir to diji, væntanlega dregið af orðinu digital. Ford er samheiti fyrir bíla, suzuki yfir mótorhjól, chinook yfir stórþyrlur, colt þýðir skammbyssa, disney þýðir kvikmynd, sony þýðir tölva, handsony er gemsi, en skór nefnast nikes og kaffi starbucks. Og áfram endalaust. Þannig býr Mitchell til nýtt tungumál, sem hæfir fullkomlega þessum geggjaða neysluheimi (eins og Burgess gerði í A Clockwork Orange). Gengið er langt í afbökun og einföldun tungumálsins; orð sem byrja á ex- á ensku byrja núna á x- (xercise, xperience, xcited) og orð eins og light, bright og slight eru skrifuð lite, brite og slite. Þessi leikur með tungumálið gerir lesturinn stríðan, en undirbýr lesandann jafnframt fyrir þann stórmerkilega málbræðing sem bíður í sjötta hluta Cloud Atlas. Og lesandinn kokgleypir nýja tungutakið í Nea So Copros og samfélagið allt, svo sannfærandi er það. Villidýr, t.d. snjóhlébarðar, eru einnig framleidd genetískt til veiða, með mismikið af eðli sínu „genað upp", þannig að þau eru mishættuleg. Hægt er að veiða klónaðan elg á Hokkaídó (!) í Austur-Kóreu (219). Þetta er einnig þjóðfélag pólitískrar spillingar og klíkuskapar, þar sem börn valdamanna njóta margvíslegra fríðinda, jafnvel svo þau verða að mannleysum. Í höfuðborginni er að finna Minnismerki hinna föllnu plútókrata og Breiðstræti hinna tíu þúsund auglýsinga (237), til eru genabreyttar mölflugur með vörumerki á vængjum (345), menn mega ekki neyta vatns eða súrefnis nema með því að greiða gjald til fyrirtækja á borð við WaterCorp og AirCorp (349), en toppurinn er þó að tunglið er notað sem risavaxinn auglýsingaskjár, með gríðaröflugum tunglvarpa frá Fuji-fjalli, og keppast stórfyrirtækin um að fá að birta þar auglýsingar sínar (238); tunglvarpinn er þó nýtilkominn því að eldri leigubílsstjóri, ættaður frá Mumbai sem nú er komin undir vatn, man þá tíð þegar tunglið var nakið. Annars er eitt einkenni þessarar framtíðarsögu ríkulegar og eftirtektarverðar tilvísanir í teiknimyndir Disney annars vegar og í ævintýri H.C. Andersen hins vegar, sem koma svo saman í Litlu hafmeyjunni, sögu og kvikmynd.

Tengingar við fyrri sögur eru misöflugar. Sem fyrr segir hafði tónskáldið Ayrs dreymt um neðanjarðarveitingahúsið. Sonmi~451 er með eins fæðingarblett og Cavendish, Luisa og Frobisher, en annars eru klónar framleiddir af slíkri fullkomnun að þeir fá ekki fæðingarbletti. Sonmi~451 sér kvikmynd sem heitir The Ghastly Ordeal of Timothy Cavendish og nú renna á lesandann tvær grímur - var Cavendish-frásögnin þá bara bíómynd? Hún var svo sem nógu farsakennd. Einn af verndurum Sonmi~451, prófessor Mephi, er með gamlan hnött hjá sér sem hann snýr, eins og Cavendish, meðan hann spjallar við klóninn (231). Athyglisvert smáatriði vísar fram í næstu sögu: Sonmi~451, komin ofanjarðar, er þá stödd á veitingahúsi og tískulögga hrósar henni fyrir „your courage, your flair, but most of all your prescience" fyrir þá dirfsku að breyta sér með faceskaping í lágstéttarútlit klóns (238). Þetta litla orð, prescience, forvitri, er vert að muna - það er lykilhugtak í næstu sögu.

Framan af er erfitt að átta sig á hvenær sagan í Nea So Copros eigi að gerast, en tímatenging kemur fram undir miðbik frásagnarinnar, þegar Sonmi~451 og félagi hennar horfa á disney-ið The Ghastly Ordeal of Timothy Cavendish (og komast, viðeigandi, bara inn í hálfa myndina, að þeim punkti þar sem söguhluti Cavendish hafði endað). Myndin er sögð eldfimt undirróðursefni, talað um að hún hafi verið gerð þegar afi afa einhvers hefði verið í móðurkviði og stuttu síðar nefnt að leikarar myndarinnar séu dauðir fyrir meira en 100 árum (243-244). Þar með getum við tímasett sögu Sonmi~451 um fjórar kynslóðir fram í tímann. (Í kvikmyndaútgáfunni er fest ártalið 2144, sem þarf ekki að víkja frá tímasetningu bókarinnar.)

Fáein orð um kvikmyndaútfærsluna á sögu Sonmi~451: Þar verður öll frásögnin að Matrix-hasarmynd og máske ekki að furða þar sem Wachowski-systkinin stýra vélunum. En í öllum hasar bíómyndarinnar eiga hinir ótal útúrdúrar og þau fínu blæbrigði, sem skapa þennan heim, til að týnast. Mikið og sjónrænt bíó, en ádeilan um Sonmi~451 verður vart fugl né fiskur í kvikmyndinni.

6) Síðasta nóvellan og sú eina sem órofin er í bókarmiðju nefnist Sloosha´s Crossin´ an´ Ev´rythin´ After. Sagan gerist á Ha-Why (Hawaii) eftir hrun siðmenningar og þarna eru menn komnir aftur á frumstætt villimannastig, mislangt þó.

Fyrsta hindrunin, sem lesandinn verður að yfirstíga við lestur þessarar sögu, er tungumálið, en Mitchell býður lesendum engar málamiðlanir frekar en fyrri daginn. Nafngift kaflans og ritháttur eru lýsandi fyrir það sem á eftir fylgir; hafa þarf sig allan við til að skilja hvað er á seyði, tungumálinu hefur verið hnuðlað saman á einhvern óskiljanlegan hátt og oft skilst merkingin eingöngu með því að lesa lengra. Málið löðrar í villum (borned í stað born, speaked í stað spoke, gooses í stað geese), endalausum úrfellingarkommum og fjölda nýyrða (babbit = baby, brekker = breakfast, sooside = suicide). Tungutakið minnir um sumt á fjallamállýskur „redneck-hillbilly"-Suðurríkjamanna (og reyndar kom helst upp í huga minn bráðskemmtileg smásaga James Thurber, Bateman Comes Home, þar sem gert var grín að stíl og málfari Erskine Caldwell - en hver man sosum lengur eftir Caldwell?) Stundum virðist málnotkunin forneskjuleg, minnir jafnvel á 19. aldar málfar (Adam Ewing!) eða Biblíumál úr King James´ Bible. Tengingin við Biblíuna er sterk, því að nöfn helstu persóna koma þaðan, þó stundum afbökuð: Zachry, Adam, Abel, Isaak, Jonas. Skemmtilegasta nafnið ber þó tvímælalaust minni háttar persóna, ljótur náungi sem heitir F´kugly - lesi það hver sem hann vill.

Sagan gerist á ótilgreindum tíma eftir Átökin (The Skirmishes) og Fallið (The Fall), atburði sem leiddu til hruns siðmenningar og eru næsta óljósir, a.m.k. framan af. Vísbending um sögutímann fæst þegar nefnt er að Sonmi var uppi fyrir hundruðum ára (291). Nógu langt er um liðið til þess að hlutir gömlu menningarinnar eru úr sér gengnir („Old´un gear junkifyin´" (272)). Sögusviðið er Big Island á Ha-Why, þar sem búa nokkrir ættbálkar, misherskáir, og enn fleiri á nágrannaeyjum á Kyrrahafi, en flestir þessara ættbálka forðuðu sér þangað við Fallið. Sögumaður er Zachry, geitahirðir tilheyrandi Dalbúum, friðsömum ættbálki sem býr í níu dölum, stundar frumstæðan landbúnað, kvikfjárrækt og verslun með frumstæða framleiðslu sína. Þeir komu þangað með flota til að flýja Fallið (255), en kunna ekki lengur sjómennsku. Í kringum Dalbúa búa herskáir og grimmir nágrannar, sérstaklega Kona-ættbálkurinn, sem er helsta ógnin, hvítir að uppruna, en tattóveraðir hátt og lágt (315) og eira engu. Kona-menn virðast vera þeir einu á eyjunni, sem ráða yfir hröðum fararskjótum, þ.e. hestum, þótt hvergi sé í sögunni útskýrt hvers vegna.

Zachry rekur sögu sína fyrir tveimur ungum áheyrendum, sem lesandinn veit lengi vel ekki hverjir eru - og hér er kominn enn einn bókmenntalegi sagnamátinn, þ.e. hin munnlega frásögn, með margvíslegum útúrdúrum, hikorðum og kumpánlegu ávarpi. Saga Zachry teygir sig aftur um fjörutíu ár og hefst þegar hann var níu ára og faðir hans var drepinn og bróður hans rænt af Kona-mönnum, en það hvílir þungt á drengnum að hafa óbeint orðið valdur að þeim válegu atburðum.

Dalbúarnir vilja lifa í sátt og samlyndi við aðra eyjarskeggja; þeir eru eingyðistrúar, trúa á gyðjuna Sonmi (!): „Sonmi´d been birthed by a god o´ named Darwin, that´s what we b´liefed" (291). Vegna eingyðistrúar sinnar líta Dalbúar niður á aðra ættbálka sem ástundi villimannslega fjölgyðistrú; eigi sér hákarlaguði, eldfjallaguði, kornguði, stríðsguði, hestaguði o.s.frv. (254-55). Dalbúarnir trúa á endurholdgun, að Sonmi láti sálir látinna endurfæðast, en það hlotnast eingöngu þeim, sem lifað hafa ærlegu lífi; hinir enda í klónum á Old Georgie, djöfli þeirra Dalbúa, sem hvíslar ljótum hugsunum að fólki - og ef menn deyja vondir kemur Old Georgie með beygluðu skeiðina sína, holar út augntóftirnar og gúffar í sig heilann, þar sem sálin býr; líkaminn verður þá að líflausum steinhnullungi. Trúarleiðtogi Dalbúa er Abbadísin, spákona sem ræður drauma, og hún er „chief of Nine Valleys" (271). Hún sér einnig um skólann (The School´ry), sem er „ ... touched with the holy mist´ry o´ the Civ´lized Days" (257). Þar eru varðveittar þær fáu bókaskræður sem Dalbúar eiga og einnig er þar að finna einu klukkuna sem til er í Dalnum. Svo að vitnað sé í orð Abbadísarinnar: „Civ´lize needs time, an´ if we let this clock die, time´ll die too, an´ then how can we bring back the Civ´lized Days as it was b´fore the Fall?" (257). Einnig hafa útskornar myndir af einstaklingum (icons) mikið trúarlegt gildi, en þannig muna hinir lifandi hina látnu. Eru þessar myndir geymdar á sérstökum helgistað, stórri byggingu sem nefnist The Icon´ry.

Dalbúar þekkja engin vélknúin farartæki (hafa þó hvoru tveggja, brimbretti og kajaka!) og engin leið er fyrir þá að vita hvað býr utan eyjar þeirra nema það sem Hinir forvitru (Prescients) fræða þá um - og þeir eru gjarnir á að halda þekkingu út af fyrir sig. Hinir forvitru eru einnig mennskir, en æðri að öllu leyti í tækni og menningu. Þeir heimsækja Dalbúa tvisvar á ári til að kaupa af þeim matvæli, geitaskinnsteppi og hreint vatn, en selja þeim í staðinn járnvöru, betri en þá sem annars finnst á Big Island (259). Þeir koma á risastóru skipi, sem er samlitt himninum, svo að það sést ekki fyrr en það birtist rétt undan ströndum (258), og er knúið kjarnasamruna (nuclear fusion), en það hugtak skilur enginn Dalbúi. Hinir forvitru klæðast fínum fötum, sem blotna ekki þótt vatni sé stökkt á þau, og konur í þeirra röðum eru karlmannlega stuttklipptar, þveröfugt við konur Dalbúa, sem ganga með fléttur (259). Hinir forvitru eru dökkir á skinn, „like cokeynuts" (264); aldrei birtast fölir eða bleikir af skipum þeirra (sem bendir til þess að Dalbúar séu hvítt fólk, þótt ég muni ekki að slíkt sé nefnt sérstaklega). Húðlitur Hinna forvitru er aðferð sem þeir þróuðu sem viðbrögð við helstu vá, sem þjakar menn þessarar framtíðar, einhvers konar húðflögnun (redscab) af völdum kjarnorkumengunar. Dalbúar ná ekki háum aldri; hjá þeim þykir fertugt aldrað því að yfirleitt eru þeir dauðir úr rauðu húðflögnuninni, en Hinir forvitru geta orðið sjötugir. Hinir forvitru koma frá Prescience Island, óljósri eyju fjærst í norðaustri, stærri en Maui, minni en Big Island, sem finnst ekki á neinu korti, því að stofnendur eyjunnar vildu halda henni leyndri (261).

Stór umskipti verða í lífi Zachry á 16. aldursári, þegar kona af kynþætti Hinna forvitru, Meronym að nafni, fær að dvelja misserislangt hjá fjölskyldu hans til að kynna sér líf og lifnaðarhætti Dalbúa og er Zachry mjög tortrygginn gagnvart henni og álítur hana hættulegan njósnara. Meronym er fimmtug, en lítur út eins og tuttugu og fimm í augum Dalbúa. Við fáum að vita að hún er ekkja; maður hennar var drepinn af villimönnum, en sonur hennar, Anafi að nafni, varð eftir á Prescience Island (264). Hún er dökk á hörund, með skjannahvítar tennur, og klæðist drifhvítum fötum. Með mildi og ljúfmennsku tekst Meronym smám saman að afla sér vináttu Zachrys og fær hann til að fara með sér í undarlega fjallgöngu upp á Mauna Kea (nefnt Mauna Sol í kvikmyndinni), þar sem hjátrúarfullir dalbúar trúa að Old Georgie búi, en annars virðist dvöl Meronym meðal Dalbúa tengjast á óljósan hátt upplýsingaöflun til að bjarga Hinum forvitru frá glötun eða útrýmingarhættu - ýmislegt bendir til þess að þeir séu fámennir, máske um þúsund talsins eða „two thousands pairs o´ hands" (285). Annars eru hætturnar ýmsar í þessum heimi; ungbörn koma stundum í heiminn afmynduð (freakbirth) og þannig fæðist til dæmis fyrsta barn Zachry andvana, án munns og nasa svo að það fær ekki dregið andann. Með tímanum uppfræðir Meronym Zachry um ýmislegt, t.d. að nánast hvergi sé þekkingarsamfélög („Smart o´ the Old´uns") að finna (285). Og það er fyrst í þessum hluta bókarinnar sem lesandinn fær nákvæma útlistun á því hvernig töfratækið orison virkar.

Ekki ætla ég að rekja sögu Zachry lengra, en vil nefna að ekki skortir æsispennandi atburðarás. Mitchell er snillingur í að byggja upp spennu svo að lesandanum leiðist aldrei, en um leið að sáldra staðreyndamolum út um frásögnina, aldrei of mikið í einu, oft í svo smáum skömmtum að lesandann þyrstir í meira - uns á endanum fæst fullnægjandi heildarmynd af viðkomandi sögusviði. Með frásögninni af hinum frumstæðu og friðsömu Dalbúum er sagan komin í hring; þeir eru varnarlausir gagnvart grimmum nágrönnum sínum, líkt og þeir Moriorar gagnvart Maoríum, sem Adam Ewing kynntist á Chatham-eyjum.

-----

Allt ofangreint og miklu meira er Cloud Atlas; ég hef hér nánast eingöngu rakið fyrri helming bókarinnar. Til að draga saman þessa flóknu þræði, þá eru tengingarnar svona: Adam Ewing er söguhetja fyrsta hluta og ritar dagbók um 1850. Rúmum 80 árum síðar les Robert Frobisher bókina (útgefna), en hún er rifin í í miðju og seinni helminginn vantar, svo að Frobisher biður ástmann sinn, Sixsmith að senda sér heilt eintak þannig að hann geti klárað hana. Í þriðja hluta er Sixsmith orðinn aldraður og virtur vísindamaður, en bréf Frobisher lenda í höndum blaðakonunnar Luisu Rey, sem jafnframt ber sams konar fæðingarblett og Frobisher. Í fjórða hluta kemur svo fram að sagan um Luisu Rey er bara handrit að reyfara, sem Timothy Cavendish fær í hendur og les og finnst lítið til koma. Í fimmta hlutanum sér klóninn Sonmi~451 kvikmynd með Cavendish, en hún, eins og hann, er með eins fæðingarblett og Luisa Rey og Frobisher. Í sjötta hluta er Sonmi~451 orðin trúarleg vera í samfélagi hálfgerðra villimanna sem búa á Hawaii eftir hrun siðmenningar. Söguhetjan Zachry er líka með fæðingarblettinn (og Hawaii kemur reyndar oftar við sögu - Adam Ewing er á leið þangað í fyrsta hluta, þar er frænka Sixsmith stödd þegar ekki næst í hana í kaflanum um Luisu Rey og þangað er klónunum heitið að þær fái að fara til sæluvistar að lokinni trúfastri tólf ára þénustu).

Þá kemur milljón dollara spurningin: Hver er veruleiki bókarinnar? Byrjum til dæmis á Luisu Rey - sú saga er bara handrit í höndunum á Timothy Cavendish. Ógildir það ekki tilveru - eða sannferðugleika - Frobishers og bréfa hans? Gat sá fyrrnefndi þá lesið dagbækur Adams Ewing og hvað þá skrifað bréf til Sixsmith, ef sá síðarnefndi er bara söguhetja í reyfara? Og svo reynist Cavendish sjálfur bara gamanmynd hjá Sonmi í framtíðinni - var þá nokkuð að marka hann? Snilli Mitchell liggur í því að reyna aldrei að svara neinum slíkum spurningum. Hann leikur sér endalaust að lesandanum - spinnur þræði, sem við fyrstu sýn virðast næsta veikburða, en reynast svo öflugir og áleitnir að þeir sitja eftir í sál lesandans; skrifar trúverðugar sögur inn í sögur sem hann sýnir að standist ekki; býr til endalausa flækju atriða sem reynast ekki meira en snjöllustu textatengsl þegar upp er staðið.

Gegnumgangandi þemu í Cloud Atlas eru mörg og stór í sniðum: Samskipti hinna ráðandi og hinna undirokuðu, hinna tæknivæddu gagnvart hinum frumstæðu, þrælahaldaranna gagnvart hinna þrælkuðu. Vaktar eru upp stórar spurningar um eðli siðmenningar -  þar sem oft reynist sá, sem síst skyldi, göfugri en hinir - en líka um svo hversdagsleg viðfangsefni sem ellina, sem allir upplifa í einhverri mynd, beint eða óbeint. Einnig er eyðingarmáttur gegndarlausrar græðgi mannsins afhjúpaður - þetta getur bara endað á einn veg. Trúmál ber víða á góma, með öllu litrófinu, allt frá hefðbundinni og vandlætingarfullri trú Adam Ewing til trúleysis Hinna forvitru (328), en einnig fáum við að sjá hvernig trúarbrögð verða til í köflunum um Sonmi~451 og Zachry. Búddismi kemur einnig verulega við sögu (348 og víðar) og útskýrir það máske hvers vegna endurholdgun gæti verið eitt meginþema Cloud Atlas. Oft eru spákonur í aðalhlutverkum: Abbadísin í lokahlutanum er spákona, en það er Meronym einnig á sinn ljúfa hátt, sem og Sonmi~451 - auk þess sem abbadís birtist líka óvænt í sögu hinnar síðastnefndu (347-349). The Prophetess, skonnorta Adams Ewing, er varðveitt sem safnskip í smábátahöfninni í Buenas Yerbas, tilbúins staðar, um daga Luisu Rey.

Sögurnar koma svo víða við að það væri að æra óstöðugan að reyna að telja allt upp. Lesandanum finnst Mitchell hinn ungi (hann var rétt rúmlega þrítugur þegar hann skrifaði bókina) hafa allan heiminn undir á öllum tímum - hann vitnar í ólík lönd og gerólík menningarsvæði á mörgum tímaskeiðum - og þeim sem vildi rekja í sundur þræðina dygði ekki Google eða allar bækur heims, heldur þyrfti hann að gerast David Mitchell, á svipaðan hátt og Pierre Menard varð í einhverjum skilningi Cervantes í sögu Borgesar. Talan 6 er í lykilhlutverki. Í flestum eða öllum sex sögunum kemur fyrir orðið sextet í einhverri mynd eða samhengi. Tónverkið Cloud Atlas Sextet eftir Frobisher; það er sextett leikandi í upphafsatriðinu að sögu Timothy Cavendish, í heimi Sonmi~451 er um jól/áramót haldin hátíð sem nefnist Sextet. Einnig eru hugleiðingar um sjálft lykilhugtakið Cloud Atlas, skýjafarskort, í öllum sögum og jafnvel hinum jarðbundna Timothy Cavendish tekst að koma því að: „What wouldn´t I give now for a never-changing map of the ever constant ineffable? To possess, as it were, an atlas of clouds" (389). Og nýlega flaug mér í hug: Er Sixsmith ekki dásamlega táknrænt nafn? Smíðaðar eru sex sögur og tengdar saman. Svo virðist einnig sem fæðingarbletturinn í líki halastjörnu sé með sex rákum aftur úr, a.m.k. í hið eina skipti sem honum er lýst nógu rækilega, þegar Zachry sér hann á öxl Meronym (319). Háðski orðhákurinn Timothy Cavendish, með sams konar fæðingarblett, sér hann samt ekki sem halastjörnu; gömul ástkona hans gaf honum nafnið „Timbo´s Turd", skítaklessa Timbos. Annars er skemmtilegt fyrir Frónbúa að Ísland er líka hluti af hinu ógnarstóra neti Mitchell og kemur a.m.k. tvisvar við sögu: Annars vegar er um borð í skipi Adam Ewing þrautreyndur íslenskur skipverji siglandi um Suðurhöf um 1850 (!), „one of the saltest aboard" (36) og þegar Timothy Cavendish fær ekki afgreiðslu á lestarstöð, urrar hann í reiðikasti „an oath from an Icelandic saga" (161). Þá sýnist mér Hydra í einhverri mynd koma fyrir í öllum sögunum - ég vaknaði bara ekki nógu snemma við lesturinn til að draga upp þann þráð, enda er hann óljós. Sama máli gegnir um myndmál tengt hákörlum og vatnakörfum (bróðir Cavendish ræktar vatnakarfa og í slíku dulargerfi birtist leiðtogi andspyrnumanna í þrívíddarmynd í dystópíu Sonmi~451). Þá birtist nafnið George í einhverri (mýflugu-)mynd í öllum sögunum og væri vert að skoða nánar. Oft er talað um að sérhver rithöfundur þurfi að finna sér sína eigin rödd - David Mitchell talar til lesandans sexraddað og jafn sannfærandi með öllum. Hægt væri að skrifa doktorsritgerð til greiningar á sérhverri blaðsíðu Cloud Atlas, hvað þá þegar skoðaðir eru þræðirnir innan hverrar sögu og svo aftur þræðirnir á milli sagnanna. Enn eitt smádæmi: Fyrsta söguhetjan heitir Adam, en sú síðasta Zachry - upphaf og endalok stafrófsins. Allt er opið fyrir endalausri túlkun - allt tengist. En svo, þegar upp er staðið, þá eru þetta bara textatengsl innan sögunnar, ekki bein tengsl við veruleika utan bókarinnar. Sagan er heimurinn.

Mitchell tekst á einhvern óskiljanlegan hátt að byggja brú á milli fagurbókmennta og afþreyingar, á milli djúpstæðra hugleiðinga og hversdagslegrar frásagnar. Hér er sitthvað bitastætt jafnt fyrir gáfnaljósið sem spennufíkilinn. Og þótt höfundur sé leiftursnjall orðasmiður, þá er leikurinn með orðin aldrei markmið í sjálfu sér. Tilgangurinn er alltaf að segja skemmtilega sögu, með tilheyrandi spennu, dramatík, ástarævintýrum, hörmungum og örlögum ... máske er það orðið sem lýsir þessum nóvellum best: Þetta eru örlagasögur, þar sem lesandinn fyllist eftirvæntingu og vill vita hver verði örlög sögupersóna. Í flestum, ef ekki öllum sögunum, eru menn myrtir, en það er ekki spennugjafinn, heldur hitt að í sögunum öllum eru menn í margvíslegum skilningi á flótta og það vekur hjá lesandanum forvitni: Tekst flóttinn? Hver verða örlög flóttamannanna? Mitchell kinokar sér ekki við að leika á hörpu tilfinninga, láta lesendur hlæja og tárast á víxl; oft eru sögurnar sorglegar, stundum átakanlegar, en einnig broslegar og gamansamar. Þetta er hinn mannlegi veruleiki í allri sinni vídd, með öllum litum og tónum og lykt og bragði. Myndmálið er auðugt og á öllum tímaskeiðunum má finna djúpar hugleiðingar, ljóðrænar lýsingar og myndrænar líkingar, settar fram í misjöfnum stíl sem hæfir tíðaranda hvers skeiðs. Í Zedelghem skrifar Frobisher um vatnslagnir á nýju heimili sínu: „Plumbing makes noises like elderly aunts" (81). Þegar Luisa Rey gefur bílvél VW-bjöllunnar sinnar til að flýja bráða hættu: „The engine makes a lazy, leonine roar ..." (bls. 143). Þegar Timothy Cavendish yfirgefur ritara sinn til að leggja á flótta lýsir hann því svo: „Mrs. Latham wished me bon voyage. She could handle the Hogginses. Mrs. Latham could handle the Ten Plagues of Egypt" (160). Þegar Cavendish ætlar að kaupa sér lestarmiða, en fær ekki afgreiðslu, fyllist hann reiði: „Anger sparked ... like forks in microwaves" (161). Cavendish kemst í lest, finnur sæti (sem hann hefði ekki gefið eftir þótt Helen Keller sjálf bæði um það) og lítur út um gluggann: „The evening was lemon blue" (164). Þegar Frobisher heimsækir veitingastað (sem einnig er verkstæði og útfararstofa!) í hálfdauðum smábæ í Belgíu er þar að finna: „... many flies who wheeled through the air like drugged angels of death" (461). Og álit Cavendish á glæpum á jafnvel betur við nú á tímum efnahagshremminga heldur en fyrir áratug, þegar Cloud Atlas kom fyrst út: „...in our age crimes are not committed by criminals conveniently at hand but by executive pens far beyond the mob´s reach, back in London´s postmodern HQs of glass and steel" (164).

Cloud Atlas er að mörgu leyti hin endanlega leynilögreglusaga eða ráðgáta, þar sem lesandinn sjálfur er í því hlutverki að leita að vísbendingunum, raða brotunum saman og komast að kjarnanum eða sannleikanum. Svo er spurning hversu langt hann kemst áleiðis, því að sannleikurinn er jú ... ja, er hann einn? Oftar en einu sinni í bókinni velta sögupersónurnar því fyrir sér, en Mitchell predikar aldrei, hann segir okkur ekki hvaða lærdóm við eigum að draga af sögu(-m) hans - það gerir hver og einn. Cloud Atlas er opin fyrir túlkunum tengdum öllu mögulegu: Heimspeki, trúmálum, stjórnmálum, umhverfismálum, samskiptum kynja og kynþátta - og þúsund öðrum málefnum. Samt efast frásögnin alltaf um sjálfa sig, eins og Cavendish efast um frásögnina um Luisu Rey. Jafnvel eftir hina áhrifaríku sögu Zachry í framtíðinni stígur barn hans fram í lokin og efast um sannleiksgildi frásagnar hans: „O, most of Pa´s yarnin´ was jus´ musey duck-fartin´..." (324). Þannig er Mitchell stöðugt að benda lesandanum á eftirfarandi: Trúðu ekki frásögn minni til hlítar; hafðu hana til hliðsjónar, þér til skemmtunar og hugleiðinga. Svo er líka speki af ýmsum toga að finna nánast á hverri síðu. Eftirlæti mitt eru eftirfarandi orð Sonmi~451: „All revolutions are the sheerest fantasy until they happen; then they become historical inevitabilities" (342). Önnur góð, frá Frobisher: „Wars are never cured. They just go into remission for a few years" (471).

David Mitchell býr til sínar eigin reglur, en að sama skapi leyfir hann sér næstum jafnoft að brjóta þær. Fimm af sögunum eru tvískiptar, en sú sjötta stendur heil í miðjunni - og hún er jafnframt sú sagan sem gerist seinast. Sögurnar eru speglaðar um miðju, en það sem er lýti í einum skilningi verður fullkomnun í öðrum. Söguhetjur í fimm af sögunum sex með nákvæmlega eins fæðingarblett, allsérstæðan sem hefur orðið mönnum tilefni til hugleiðinga um að Cloud Atlas fjalli um endurholdgun. Samfélag Dalbúanna á Ha-Why í framtíðinni trúir á endurholdgun eftir góða breytni í lífinu (324 og víðar) og þrátt fyrir afar þrönga og takmarkaða lífsreynslu upplifir Sonmi~451 minningu komna frá Luisu Rey, þegar bíll hennar steypist út af vegi (330). Jafnvel þegar hinn guðlausi Cavendish situr í leigubíl í Hull erum við minnt á endurholdgunina: „A howling singer on the radio strummed a song about how everything that dies some day comes back" (173). Og þetta eru bara fáein dæmi. En endurholdgunarhugmyndin er líka rofin. Vissulega gætu Frobisher, Luisa Rey, Sonmi~451 og Zachry verið endurholdgun hvert af öðru, en Cavendish, sem ber sama fæðingarblett og hin, skarast í tíma við Luisu Rey - hennar saga gerist um 1975, en Cavendish er kominn nokkuð við aldur í nútímanum (árið 2003 miðað við fyrstu útgáfu bókarinnar). Með skörun á æviskeiði hans og Luisu er endurholdgunarkenningin rokin út í veður og vind - þau voru uppi samtíða a.m.k. um nokkurn tíma. Dæmigert fyrir Mitchell að rústa þannig vangaveltum. Í ofangreindu viðtali í Paris Review er hann spurður hvort hann, sem gefi endurholdgun svo sterkt til kynna í ýmsum bókum sínum, trúi á fyrirbærið og svarar því til að sér þyki hugmyndin falleg og vildi að hún væri sönn, en - trúi því ekki, því miður. Sjálfur tel ég að í Cloud Atlas sé leikurinn með endurholdgunina bara bókmenntalegt trikk, sem ber ekki að taka of hátíðlega; það gengur (mestmegnis) ágætlega upp innan sögunnar, ekki utan hennar.

Skáldsögur eru settar saman úr orðum og David Mitchell kemst eins langt með orðin og hægt er að ætlast til af nokkrum höfundi. Cloud Atlas er einfaldlega fyrsta flokks sögumennska, umvafin ótrúlegri hugmyndaauðgi og fullkomnu valdi á málinu; stórvirki sem gæti léttilega réttlætt að höfundur léti aldrei framar stafkrók frá sér fara. En við skulum vona að Mitchell sé rétt að byrja.

-----

P.S. Fáein orð um kvikmyndina: Framleiðendur og leikstjórar hennar réðust í hið ómögulega, þegar þeir tókust þetta verkefni á hendur. Bókin er eins og speglun, en í kvikmyndinni hefur spegillinn verið brotinn upp og raðað aftur saman sem mósaík, í sex línulegar frásagnir, sem raktar eru samhliða. Hversu vel hefur tekist til veltur líkast til á því hve rækilega áhorfandinn fylgist með, hvort hann er vakinn eða sofinn. Minn annmarki var sá að ég hafði lesið bókina tvisvar áður en ég sá kvikmyndina, svo að ég er ekki fær um að meta hvort hið brotakennda frásagnarform kvikmyndarinnar skili sér hjá þeim sem kemur óskrifað blað að henni. Sjálfur varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum með þá staði þar sem verulega var vikið frá bókinni; það hve saga Frobishers varð rýr, sem og frávik í sögu Sonmi~451; í bókinni er t.d. gefið í skyn að hinir tilbúnu klónar hafi ekki líffæri, sem þeir þurfi ekki á að halda, svo sem æxlunarfæri (bls. 331), en í kvikmyndinni er heilmikið gert úr kyn- og ástarlíf í þessum hluta. Endir kvikmyndarinnar finnst mér líka gjörsamlega út úr korti, miðað við bókina. Hins vegar verður ekki af kvikmyndinni skafið að þetta er stórfenglegt bíó, með tilkomumiklum og áhrifamiklum og fögrum og hrífandi sviðsmyndum. Þá er förðunin kapítuli út af fyrir sig; aðalleikararnir leika mismikilvæg hlutverk í hverjum kafla og það er hálfgerður samkvæmisleikur að reyna að finna út hvaða hlutverk Tom Hanks leikur í hverjum kafla. Enn skemmtilegra fannst mér þó að reyna að leita að Hugh Grant; hann á stjörnuleik, er aldrei í aðalhlutverki, en alltaf áberandi (og það er rangt, sem einhverjir hafa haldið fram, að hann leiki eintóma skúrka í Cloud Atlas). Stundum er litarhafti eða kynjahlutverkum víxlað; þeir Hugo Weaving og Ben Whishaw leika t.d. báðir kvenhlutverk, sá fyrrnefndi sem Noakes hjúkrunarkona, sá síðarnefndi sem Georgette, mágkona Cavendish. Halle Berry hefur aldrei verið í miklu uppáhaldi hjá mér, en hún er í reynd stjarna þessarar stjörnum prýddu myndar í hlutverki Luisu Rey. Öllu verri - og á mörkum hins trúverðuga - þótti mér sú hugmynd að lita Berry hvíta, setja á hana grófliðaða og hörkennda hárkollu og segja hana af Gyðingauppruna! (Ekkert af því er að finna í bók Mitchell, þar sem eiginkona Ayrs er á sannfærandi hátt sögð komin af fornum belgískum heldriættum.) Jim Broadbent er stórkostlegur í hlutverki Vyvyan Airs, litlu síðri sem Cavendish. Stundum hjálpar kvikmyndin og bætir upp það sem út af stendur í bókinni; ég átti t.d. erfitt með að sjá fyrir mér Old Georgie af lestrinum einum - allt þar til Hugo Weaving holdgerir hann ógleymanlega í kvikmyndinni. Og hvað sem öðru líður, þá rís svo metnaðarfull kvikmyndagerð hátt upp úr allri meðalmennsku og full ástæða til að hvetja fólk til að sjá myndina - þótt það nenni ekki að lesa bókina. Samt er það að horfa bara á kvikmyndina Cloud Atlas eins og að borða ljúfan eftirrétt - án þess að hafa bragðað á stórkostlegum aðalrétti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það er nú eiginlega of stutt liðið á 21. öldina til að segja svona.

Og ég hef enn ekki lesið þessa bók. Skilst að kvikmyndin sé mjög flókin. Þeir hefðu átt að gera nokkrar, grunar mig. Svona eins og LotR.

Hefurðu lesið eitthvað eftir Charkes Stross? Þú getur borið hans verk saman við þetta.

Hérna: http://www.infinityplus.co.uk/stories/colderwar.htm

Ásgrímur Hartmannsson, 3.6.2013 kl. 00:38

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll, Ásgrímur.

Vitaskuld er stutt liðið á 21. öldina og eflaust mun ég ekki sjá hana á enda - nema vísindin galdri fram einhvern svakalegan lífslengingarelexír.

Samt eru komin 13 ár = 13%. Ég hlakka til, ef kemur fram betra verk og ég næ að lesa það. Velti fyrir mér kandidötum: Julian Barnes, máske. Lawrence Norfolk? Eða enn betri bók frá Mitchell sjálfum.

Nokkrar kvikmyndir upp úr Cloud Atlas? Hver og ein af þessum sex nóvellum hefði getað orðið sjálfstæð kvikmynd, svo að mögulega hefði orðið úr hexalógía. En þá hefði gagnvirkni sagnanna aldrei skilað sér.

Hef ekki lesið neitt eftir Charles Stross, leit á byrjunina á nóvellettunni sem þú vísaðir á og leist ekki illa á - held kannski áfram á morgun.

Annars var ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að lesa næst "Zen and the Art of Motorcycle Maintenance" (í þriðja skipti, enda gamalt og gott) eða "Inferno" eftir Dan Brown (splunkunýtt, mjög líklega vont, en sennilega samt spennandi). Mér þótti fyndið það sem krítíker hjá bresku stórblaði sagði, þegar hann gagnrýndi "Inferno": Dan Brown er í stöðugri framför sem stílisti - hann hefur farið frá því að vera "hræðilegur" upp í það að vera "mjög vondur". Annar gagnrýnandi sagði að það væri stórmerkilegt hversu marga og lærða fyrirlestra Robert Langdon gæti flutt á flótta við að bjarga lífi sínu og mannkynsins alls.

Helgi Ingólfsson, 3.6.2013 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband