Dan Brown: Úr Víti í hreinsunareldinn

Þegar ég lagði af stað við lestur nýjustu bókar Dan Brown, Inferno, var það af nokkru yfirlæti, því að ég var næsta viss um að bókin bæri nafn með rentu. Síðasta bók Brown, The Lost Symbol, var með eindæmum slæm og ég hafði lesið nokkra enska ritdóma um Inferno, þar sem höfundur var skotskífa fyrir kastpílur gagnrýnenda.

Eftir lestur bókarinnar er ég ekki að öllu leyti á sömu skoðun. Með Inferno þykir mér Brown sumpart hljóta uppreisn æru og sjálfur hafði ég skemmtan af bókinni á löngum köflum, einkum um miðbikið, eins og ég vík að síðar. Fyrir mér er Brown nefnilega stórmerkileg blanda: Ótrúlega hugmyndaríkur höfundur sem er með afbrigðum klaufalegur við að koma hugmyndunum á blað. Allir þekkja hinn hraða stíl hans - æsingarfullur eltingarleikur sem gengur út á að afhjúpa leyndardóma, sem oftast eru vafðir inn í mörg lög af dulmáli, þar sem gjarnan er krafist djúprar þekkingar á táknfræði - sem Robert Langdon einn getur ráðið, oftar en ekki þó ásamt með laglegri hnátu á hlaupunum (og aðstoðarstúlkan sú er að jafnaði hámenntuð og/eða bráðgreind; það þarf ekki að lesa langt inn í Inferno til að fá að vita að hjálparhella Langdons er með greindarvísitöluna 208!). Þetta er meðal þess, sem mér þykir klisjukennt, formúlukennt og lítt eftirsóknarvert við skrif Brown. En ef þetta er það sem aðdáendur hans vilja, þá er óhætt að nefna strax að allt er þetta til staðar í Inferno, næstum til jafns við hans betri bækur.

Annar handleggur er persónusköpun Brown - eða skortur á henni, réttara sagt, enda lítill tími fyrir langar og djúpar sálarlífslýsingar á harðahlaupum. Langdon sjálfur er ótrúlega einhliða persóna - við vitum að hann er hávaxinn (sex fet), myndarlegur, dökkhærður, miðaldra kennari í táknfræði við Harvard og hann gengur dags daglega í Harris Tweed-jakka af tiltekinni bestu sort og ljósum khaki-buxum og smokruskóm úr leðri, er með Mikka Mús-armbandsúr á handleggnum (og hefur átt í 40 ár, gjöf frá foreldrum hans, sem á að kenna honum að taka lífið ekki of alvarlega og brosa mikið - en það er nú hægara sagt en gert, þegar maður er stöðugt á harðakani í lífshættu). Langdon verður eins og niðurbrotinn maður, þegar hann glatar bernskugripnum og lítur lon og don á úlnliðinn af gömlum vana. Til viðbótar erum við minnt á það hvað eftir annað að hann er haldinn sjúklegri innilokunarkennd, sem er afleiðing af því að Langdon festist ofan í brunni í bernsku, og á fullorðinsárum má hann ekki fara svo inn í kompu eða ruslatunnugeymslu að ekki grípi hann andnauð og svimi.

Komið. Þetta er Robert Langdon, klipptur og skorinn. Ekkert heimilislíf - hann er ókvæntur og virðist helst una einn við að flytja frábæra fyrirlestra í vinnunni á daginn og bókalestur um fag sitt á kvöldin. Hann virðist enga ættingja eiga; ekki systkin eða frændfólk. Áhugamál önnur en vinnan? Jú, lítillega er gefin í skyn sundiðkun hans, en annars virðist hobbí ekki til staðar - þau eru ekki nefnd nein í Inferno. Hann hefur ljósmyndaminni (sem einhverra hluta vegna þarf alltaf - og margsinnis - að kalla eidetic memory í bókunum, í stað photographic memory). Nema hvað í Inferno bregst honum minnislistin; bókin byrjar á því að hann vaknar upp á sjúkrahúsi gjörsamlega án minnis um 2 síðustu daga; var síðast þegar hann mundi staddur í Bandaríkjunum, en vaknar upp minnislaus í Flórens á Ítalíu.

Örfá orð um aldurinn á Langdon sem ég held að sé aldrei nefndur berum orðum, en maðurinn virðist á fimmtugsaldri. Þó eru vísbendingarnar mótsagnarkenndar. Í fyrsta lagi kemur fram að hann hefur átt úrið góða í 40 ár og þegið að gjöf frá foreldrum. Hins vegar er kona, 61 árs gömul, sem hugsar til þess að hann sé vart eldri en svo að hann gæti verið sonur sinn. Hann virðist samt telja sig of gamlan fyrir aðra konu sem er 33 ára að aldri. Lesendur mega nú reikna að vild.

Aðrar persónur Inferno og bóka um Langdon: Þær eru að öllu jöfnu glæsilegar (jafnvel konan, sem er 61 árs, er frámunalega fögur og virðuleg) og yfirmáta vel gefnar, sbr. að honum veitir ekki af aðstoðarmanneskju með greindarvísitöluna 208. Til fróðleiks gúglaði ég lítillega um greindarmælingar og samkvæmt því nær 1 af hverjum milljón einstaklingum IQ upp á 175 (sem þýðir að vart greinist nokkur Íslendingur nálægt því marki), Einstein er metinn einhvers staðar á bilinu 160-190 (hvernig sem það nú passar inn í tossaumræðu undanfarinna vikna) og eingöngu virðast 4 einstaklingar í sögunni (allt karlmenn!) hafa verið metnir með greindarvísitölu yfir 200. Jæja, Langdon veitir ekkert af því að fá með sér á flóttann gullfallega þrítuga enska konu, með greind sem er ekkert slor, þótt hún hafi ílengst sem læknir á ítölsku sjúkrahúsi.

Sem fyrr segir: Aðalpersónur eru greindar og fallegar, eins og Langdon. Ef persónur eru ólögulegar, ljótar eða feitar, þá eru þær aukapersónur. Þarna er líka brjálaði en ofursnjalli og fjallmyndarlegi vísindamaðurinn - það er jú hann sem útbýr allar gáturnar ... og maður veltir fyrir sér hvað eftir annað: Til hvers í ósköpunum eru þær? Þarna er líka útgáfa af Lisbet Salander, þ.e. broddhærður pönkaður leigumorðingi af veika kyninu (þetta orðalag setti ég vísvitandi inn: a) Til að hrella þá sem eru málfarslega rétttrúaðir, og b) Af kaldhæðni því að þetta er kvensa sem ég mundi ekki vilja mæta) á mótórhjóli - hún skýtur á allt sem fyrir verður þegar hún er í drápshug. Svo er þarna myndarlegi sérsveitarforinginn með ísköldu augun - en hann virðist starfa fyrir einkasamtök og samt geta snúið öllu lögregluliði Flórens í sína þágu. Eða hvað? Jú, og svo eru þarna dularfullu leynisamtökin, með stjórnstöð sína á 90 metra löngu og hátæknivæddu skipi á Adríahafinu. Og hafið engar áhyggjur, ég er ekki að ljóstra neinu upp, sem ekki kemur fram á fyrstu 20 blaðsíðum þessarar tæpra 500 síðna bókar.

Ofan á staðlaðar manngerðir og staðlaða framvindu bætist við staðlaður stíll höfundar, sem er merkilega flatur. Setningar eru stuttar og auðlesnar, þótt einstaka sinnum skjóti upp kolli sjaldsén orð. Með reglulegu millibili birtast skáletraðar málsgreinar, sem eiga að vera lykilatriði leyndardómanna, margtuggin eins og lesendur standi ótal þrepum neðar í lestrarskilningi en höfundurinn. Endurtekningar eru miklar (upprifjun fyrir tossana?) og ákveðið dálæti á tilteknum orðum og orðasamböndum (eidetic, gasp audibly). Þá finnst mér alltaf frábær þessi hæfileiki Langdon að geta ýmist flutt eða rifjað upp heilu fyrirlestrana, þegar hann er á hröðum flótta til að bjarga sjálfum sér og mannkyninu. Og þessir fyrirlestrar hugans eru alltaf fullkomnir og flottir, hvort sem þeir hafa verið fluttir í Harvard eða Vín, og áheyrendur éta alltaf úr lófa hans. Annars þótti mér ágætlega orðað það sem einn enskur bókmenntagagnrýnandi skrifaði um Inferno, eitthvað í þessa veru: „Stíll Brown hefur tekið stórstígum framförum, farið frá því að vera hræðilegur upp í að vera afar vondur."

Jæja, er ég búinn að dissa Brown nóg? Nei, ekki alveg. Sjálf atburðarásin er víðáttuvitlaus, með svo mörgum U-beygjum að reynt er að gera lesandann kolringlaðan. Brown gerir beinlínis í því að blekkja lesendur með því að veita innsýn í hugarheim persóna, sem síðan reynist villigata. Yfirgengilegar ráðgátur - til hvers í ósköpunum, veltir maður fyrir sér, þegar upp er staðið - og yfirgengilegir eltingarleikir, þar sem einhver þátttakandi hasarsins, eiginlega hver sem er, hefði á einhverjum tímapunkti getað staldrað við og sagt: „Getum við aðeins stoppað, rætt saman og gert út um málin eins og siðmenntað fólk?"Og sagan hefði fallið flöt.

Nóg af dissinu - nú kemur rúsínan í pylsuendanum. Ég er nefnilega inni á því að Dan Brown búi yfir einhvers konar snilligáfu. Það er með ólíkindum hvað honum detta í hug flóknar ráðgátur (misflóknar og misdjúpar, að vísu, og sumar nokkuð augljósar ef lesandinn er þokkalega vel að sér í viðfangsefninu). Jafnvel er svo komið að listheimurinn dregur dám af skrifum hans og kennir listasögulegar ráðgátur við hann. Ég las nýlega grein í Nature um hið leyndardómsfulla málverk Húðstrýkingin eftir Piero della Francesca, en greinin gekk út á tilgátu um að myndlesturinn fælist í ráðgátu, sem gæti „sómt sér í sögu eftir Dan Brown". Að sjálfsögðu eru ráðgátur Brown tóm hugarleikfimi - sudoku fyrir þá sem kunna að meta - og síst til þess fallnar að gera sögur hans trúverðugri - en það er gaman að þeim.

Brown ber með sér að hann er sprottinn upp úr bandarísku umhverfi. Hann skrifar hraðsoðinn stíl, líklega einkum fyrir bandarískan markað, en hefur í reynd heilmikinn metnað til að draga lesendurna með sér upp á hærra plan, sem ella væri þeim lokað. Best tekst honum upp þegar hann velur sér sögusvið í Evrópu, vegna þess að hann kemur sjálfur að evrópskri menningu með ferskum augum og takmarkaðri virðingu. Samt hefur Brown sýnilega einlægan áhuga á listum og menningu, enda nefnir hann iðulega smáatriði, sem engu máli skipta fyrir framvinduna. Sagan löðrar í fróðleik um endurreisnartímann í Flórens (og í fleiri borgum, sem ekki verða nefndar hér) og á köflum verður Inferno nánast eins og ferðabæklingur, með ártölum bygginga og hæð turna og útlitslýsingum listaverka. Í sögu sinni er Brown þó orðinn nógu slunginn til að sneiða framhjá allra frægustu byggingum og listamönnum. Í Flórens heimsækir hann hvorki Uffizi né Il Duomo í eltingarleiknum, en þræðir frekar „næst-frægustu" staðina, og vísbendingarnar er ekki að finna í verkum þeirra langfrægustu, Leonardo eða Michelangelo, heldur þeim næstfrægustu, Botticelli og Vasari. Reyndar er bókin svo góð kynning fyrir Flórens að borgaryfirvöld eru víst þegar farin að greina aukningu ferðamanna þangað vegna hennar og þá sérstaklega þeirra sem vilja fara á þær slóðir sem Langdon kom á. Sennilega mun Flórensborg í framtíðinni líta á Dan Brown sem sérstakan velgjörðarmann sinn. Svo mikið er víst að ef ég kem einhvern tíma aftur til Flórens, þá eru ákveðnir staðir sem ég mun heimsækja, bara fyrir tilstilli þessarar bókar.

Það er í sjálfu sér stórmerkilegt hvernig Brown grautar saman hinu forna og hinu nýja, endurreisnarmálverkum og fjarstýrðum eftirlitsmyndavélaþyrlum, dauðagrímum og iPhone-um, plágum miðalda og erfðaverkfræði nútímans. Menningarbilið virkar oft fáránlega mikið, en stundum nær hann líka að brúa það ótrúlega vel. Þó þótti mér notkun á þyrlu-dróni með innbyggða myndavél á fjölförnustu ferðamannastöðum í Flórens ekki ganga upp. Einnig þótti mér algjörlega með ólíkindum hvernig tiltekinn hlutur tengdur dauða Dantes gat farið á það flakk, sem hann gerði, eða honum verið komið fyrir á tilteknum ótrúlegum stað *leyndó leyndó*. Annars er ég feginn að Brown kafar ekki dýpra í sjálf Dante-fræðin en hann þó gerir; oftar en einu sinni hefur maður lesið bækur (eða séð sjónvarpsþætti), þar sem höfundar fara flatt á að ætla að gera sér of mikinn mat úr Divina Commedia. Á því þekkjast þó heiðarlegar undantekningar, t.d. Dante-klúbburinn eftir Matthew Pearl.

Mest snilli Brown felst máske í því að sýna fram á hvernig hægt er að komast inn á ýmsa vinsæla ferðamannastaði Flórens án þess að greiða eina evru! Mínar minningar frá Flórens eru þær að maður sneri sér ekki við án þess að þurfa að borga aðgangseyri, en Langdon og fylgikona hans ferðast gratís um Bobolí-garðana, Palazzo Vecchio og - síðast en ekki síst - skírnhúsið á dómkirkjutorginu. Og, það sem meira er um vert, þau fá að vera algjörlega ein og í friði á tveimur síðarnefndu stöðunum, m.a.s. í hinum fræga Sal hinna fimm hundruð í Palazzo Vecchio. Hvernig? Jú, annars vegar með því að vera á flótta nógu snemma morguns og hins vegar þarf til tvo hugvitssama einstaklinga sem samanlagt hafa greindarvísitölu sem slagar eflaust hátt í 400. Og seint í bókinni fær Langdon nánast einn aðgang að jafnvel enn frægari stað, sem maður hélt að væri rækilega vaktaður öllum stundum sólarhrings.

Með því að horfa fram hjá göllum sögunnar - og þeir eru óneitanlega býsna margir - og einblína á kostina - sem einnig eru allmargir - þá fannst mér lengst af hér um nokkuð skemmtilega lesningu að ræða. Nýjabrumið er farið af ævintýrum Langdons, en Brown er ágætu formi í u.þ.b. 400 blaðsíður af 460. Það sem upp úr stendur er þó máske að hann hefur skrifað sögu með nokkuð sterkum boðskap og lesandinn getur vart annað en verið tvíbentur í afstöðu sinni: Er skúrkurinn í reynd svo mikill skúrkur og er Langdon í raun að taka afstöðu með réttum aðilum? Merkilegast finnst mér því máske að Dan Brown hefur - í fyrsta skipti - skrifað bók, sem gerði mig dálítið hugsi, a.m.k. meðan á lestri stóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Þakka þér fyrir þetta forvitnilega yfirlit og pælingar, Helgi. Ég hef ekki lesið bókina ennþá, en það hefur verið á dagskránni. Við lesturinn á pistlinum var farið að hvarfla að mér  hvort Árni Matt. hefði skrifað hann, þar til ég leit betur á nafn höfundar. Var það sumpart vegna vissra stílbragða og skírskotana (af góðu einu saman).

Kristinn Snævar Jónsson, 24.6.2013 kl. 13:20

2 identicon

Þetta er dálítið lokkandi umfjöllun ... kannski maður hraðlesi Inferno og líti framhjá greindarvísitölusummum og einkar óspennandi aðalpersónu. Er búin með Polis (Harry Hole komst lífs af í þeirri bók) og er í þessum skrifuðum orðum að fara að lesa sænska sagnfræði-doktorsritgerð um geðlækningar svo Inferno passar kannski ágætlega meðfram.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 24.6.2013 kl. 14:18

3 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll, Kristinn, og takk fyrir innlitið.

Mér finnst bókin fá óþarflega harða útreið hjá sumum gagnrýnendum og vildi aðeins jafna leika. Bókin er að mínu mati þess virði að lesa hana, þótt ekki sé nema til að sjá í hverju Brown er að pæla núna - og hann kann enn þá list að teyma mann áfram á spennunni, hversu galin sem hún er.

Annars er ég alvanur því að lenda milli tveggja elda með skoðanir mínar; ég er eflaust alltof harður að mati aðdáenda Browns og alltof jákvæður að mati þeirra sem þola hann ekki.

Helgi Ingólfsson, 24.6.2013 kl. 14:22

4 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Harpa (aths. 2):

Endilega lestu bókina, ef þér líst á - en í guðanna bænum, ekki kenna mér um, ef þú kemst að annarri niðurstöðu en ég.

Ég er alltaf hrifinn af því, þegar fólk kemst lífs af í (og úr) bókum, hvort sem það er Harry Hole eða aðrir. Spurningin er reyndar dálítið hverjir komast lífs af hjá Dan Brown ... *leyndó leyndó*

Fer máske að vinda mér í Harry Hole - en ég harðneita að lesa sænska sagnfræði-ritgerð um geðlækningar. En þú, Harpa, værir máske líkleg til að vita eitthvað um "psykiatrisk anstalt" í Vordingborg í Danmörku ca. 1880-90 ...? Er að leita mér upplýsinga um það.

Helgi Ingólfsson, 24.6.2013 kl. 14:27

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ég hef lesið 2 bækur eftir Dan Brown. Þær voru báðar eins. Nöfnum og staðsetningum hafði verið breytt, en að öðru leiti var þetta sama formúlan.

Hef ekki nennt að lesa meira.

Seinast kláraði ég Accelerando eftir einhvern Charles Stross. Ekki hans besta verk - hann hefur gert betur. En hann er betri, og frumlegri en Brown. Og ekki jafn-augljóslega að bulla bara eitthvað.

Ásgrímur Hartmannsson, 24.6.2013 kl. 17:21

6 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Ásgrímur (aths. 5):

Hárrétt hjá þér - þetta eru óneitanlega formúlubókmenntir.

Ég sá einhvern tíma á netinu bráðskemmtilegan Dan Brown-leik, sem fólst í að eyðufylla, svo að útkoman yrði ný DB-bók.

En nú hef ég lesið fjórar DB-bækur - og bara beinlínis leiðst við að lesa eina.

Svo vita sumir það ekki - en Dan Brown er að sjálfsögðu hinn útlenski Óttar M. Norðfjörð.

Helgi Ingólfsson, 24.6.2013 kl. 18:00

7 identicon

Get lánað þér Psykiatriens historie i Danmark (útg. 2008, ritstjóri Jespe Vaczy Kragh) - þar er minnst á Vordingborg öðru hvoru. Á nú að fara að skrifa um vesalings sýslumanninn?

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 30.6.2013 kl. 21:59

8 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæl og blessuð, Harpa.

Áhuginn á Vordingborg stafar af því að sú stofnun á dálítinn snertiflöt við það sem ég er að skrifa. Ekki vesalings sýslumaðurinn, nei, heldur íslensk læknisfrú, sem var þar inni um svipað leyti og hann - en ég þarf nú að módifíkera það allt saman í bókmenntalegum tilgangi.

Þannig að ég væri þakklátur, ef þú tímdir að lána hana í vikutíma eða svo, svona rétt til að glugga í hana. Annars er það ekkert nödvendigt. Kannski bara með haustinu, einhvern tíma þegar þú átt kaupstaðarferð. Ég gæti þá máske boðið þér upp á kaffisopa. Bestu kveðjur.

Helgi Ingólfsson, 1.7.2013 kl. 11:27

9 identicon

Var að fara að skrifa: "Ég sendi hana þá bara" en sá þá þetta með kaffisopann :) Veit sosum ekki hversu mikið gagn er af bókinni, altso hve mikinn almennan fróðleik um lífið á Vordingborg/Oringe á þessum tíma er að finna í henni en kannski má tína einn og einn mola. Kannski er allt eins gott að lesa Prof. Hieronymus og Sct. Hans eftir hana Amaliu Skram ... gerast á svipuðum tíma en að vísu á öðrum geðveikrahælum/stofnunum. Á hvoruga bókina, því miður.

Aumingja læknisfrúin!

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband