Síðasta varnarræða sófistanna

Í þriðju sögunni í Cloud Atlas eftir David Mitchell er blaðakonan Luisa Rey á kafi við að leysa dularfullt spillingarmál árið 1975. Á einum stað og eingöngu einum, í örstuttri setningu, er nefnt að hún er með bókina Zen and the Art of Motorcycle Maintenance í handtösku sinni. Þessi augnablikstilvísun þenur söguna um Luisu Rey út um margar víddir ef menn hafa lesið umræddar handtöskubókmenntir. Fyrir um 35 árum las ég ZATAOMM og taldi hana þá meðal bestu bóka, þótt hún væri um 400 bls. með afar þéttum texta, sem oft er heimspekilegt fagmál. Svo góð þótti mér hún að ég endurlas ég hana fáum árum síðar. Og í þriðja skiptið fyrir skemmstu.

Erfitt að skilgreina Zen and the Art of Motorcycle Maintenance, því að hún er alls ekki skáldsaga, þótt hún hafi sterk skáldsöguleg element. Ekki er heldur beinlínis hægt að kalla hana sjálfsævisögu; hún er vísvitandi færð í stílinn til að þjóna bókmenntalegum tilgangi, þótt höfundur segi rétt að líta á hana sem sannsögulega í grundvallaratriðum. Vissulega er hún ferðasaga  -  hún fellur ágætlega inn í hefð On the Road eftir Kerouac og Travels with Charley eftir Steinbeck (sem minnir mig á að ég þarf að endurlesa þá dásamlegu bók). ZATAOMM er ferðasaga í ytri og innri skilningi, efnislegum og andlegum, eiginlegum og táknrænum. En þetta er fyrst og fremst heimspekirit - enda ber bókin undirtitilinn An Enquiry into Values - og fjallar um grundvallarspurningu mannlegrar tilveru: Hvað er gott? Í hverju felast gæði? Hvað er gott líf? Og hér gerist hinn merkilegi umsnúningur: Siðfræðilegri spurningu er snúið upp í frumspekilega. Reyndar vilja ekki allir hefðbundnir heimspekingar telja heimspeki bókarinnar marktæka - þetta sé í besta falli einhvers konar síð-hippaheimspeki. Og samt ekki.

Skáldsaga, sjálfsævisaga, ferðasaga, heimspekirit: Stöldrum aðeins við og horfum til þess tíma þegar bókin kom út. Hippaheimspekin hafði lifað góðu lífi fram yfir 1970, þegar tók að fjara undan henni.  Árið 1974 kom ZATAOMM út - síð-hippaheimspeki kannski - og vegur bókarinnar óx á næstu árum. S.hl. 8. áratugar síðustu aldar var um margt merkilegur. Enn eimdi eftir af hippamenningu - í tónlist lifði hún í easy-listening tónlist á borð við Eagles, America og „nýja" Fleetwood Mac (sem var reyndar afar poppuð hljómsveit, en „gamla" Fleetwood Mac hafði verið últra-hippismi svo að þunn brú var til staðar). Progg-rokkið hafði líka haldið hippatónlistinni gangandi meðan grafið var undan henni úr öðrum áttum, í fyrstu með hedónísku glys-rokki, síðan forheimskandi diskói og loks með kúltúrlausu pönki. Sjálfur var ég lítt hrifinn af íkonóklastísku pönkinu sem engu eirði með anarkisma sínum. Flókin og úthugsuð tónlist lærðra músikanta var jörðuð, mannbætandi heimspeki og flögrandi bókmenntir hippanna einnig. Við þessar aðstæður var ég í reynd frekar einhvers konar málsvari síð-hippismans. Við félagarnir vorum þokkalega andlega þenkjandi, heimsóttum af opnum huga alla mögulega sértrúarsöfnuði (þar sem moon-istar voru einkennilegastir allra),  hnusuðum að stjörnuspeki og tarot-spilum og I Ching, lærðum Desiderata utanbókar og drukkum í okkur Bhagavad-Gita og Bókina um veginn, Spámanninn eftir Kahlil Gibran, bækur Alan Watts um Zen og Siddartha eftir Hesse; bækur sem fjölluðu um að lifa í núinu og safna ekki veraldlegum auði. Ekki án kinnroða viðurkenni ég að hafa á sama tíma orðið fyrir einhverjum áhrifum frá lítilsigldari verkum af svipuðum toga, sem síður hafa staðist tímans tönn, eins og ljóðum Susan Polis Schutz eða Illusions eftir Richard Bach. Sumir voru á kafi í verkum Carlos Castaneda, þó ekki ég. Inn í þennan hugmyndaheim kom ZATAOMM sem stormsveipur - og smellpassaði.

Á sínum tíma varð Zen and the Art of Motorcycle Maintenance ekki bara fræg að eigin verðleikum, heldur líka vegna óvenjulegrar útgáfusögu. Höfundur fékk 121 sinni höfnun á handritið, áður en útgefandi þorði að leggja út í ævintýrið, og þá með þeim fyrirvara að höfundur skyldi ekki vænta mikils umfram hefðbundinnar fyrirframgreiðslu, því að bókin væri ekki söluvænleg. En svo varð bókin á skömmum tíma metsölubók. Þetta minnir ögn á harmsögu annarrar bókar, hinnar óviðjafnanlegu A Confederacy of Dunces (Aulabandalagið) eftir John Kennedy Toole, sem gekk milli Heródesar og Pílatusar með handrit sitt, en fékk sífellt neitun, svo að endingu biðu höfundar bara bílskúr, gúmmíslanga og vænn skammtur af kolmónoxíði. Þá má einnig skoða ZATAOMM í samhengi við sprengibækur á borð við Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger og To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee; í öllum tilvikum hlutu verkin svo gríðarlega athygli að höfundarnir nánast hlupu í felur og skiluðu litlu höfundarverki til viðbótar það sem eftir lifði ævinnar. Catch-22 og One Flew Over the Cuckoo´s Nest má telja meðal áþekkra sprengibóka, þótt Heller og Kesey hafi skilað ríkara ævistarfi á sviði bókmennta en Salinger, Lee og Pirsig.

Aftur að Zen and the Art of Motorcycle Maintenance. Höfundur hennar er Robert M. Pirsig og sagan greinir frá því þegar hann ferðast á mótorhjóli á 12 dögum að sumarlagi þvert yfir norðvesturríki Bandaríkjanna með ellefu ára gamlan son sinn, Chris, aftan á hnakknum. Framan af aka einnig með feðgunum vinahjón höfundar á öðru mótorhjóli. Fljótlega kemur í ljós að sögumaður hefur ekki alltaf verið heill á geði, heldur hefur hann á einhverjum tímapunkti „farið yfir um" og verið lagður inn á geðsjúkrahús. Ferðin er farin m.a. til þess að endurheimta traustið og styrkja böndin gagnvart syninum. Sjálfur lýsir sögumaður ferðinni sem Chautauqua, sem voru vinsæl sumarferðalög menntafólks og skemmtikrafta um Bandaríkin fyrr á tímum, ca. 1875-1925, ætluð til að mennta, uppfræða og þroska landslýð til sveita, með fyrirlesara jafnt sem tónlistarfólk í hópnum, en sögumaður ZATAOMM telur að útvarp og sjónvarp hafa riðið þessu merka menningarfyrirbæri Chautauqua að fullu á sinni tíð - og það fyrir tíma tölvu-, net- og símaæðis heimsins. En í ZATAOMM lýsir sögumaður ferð sinni sem einhvers konar persónulegu Chautauqua, uppfræðandi ferðalagi að gamalli fyrirmynd.

Bókin er þó svo miklu miklu meira en ferðasaga. Jafnhliða því að faðirinn reynir að púsla saman eigin sjálfsmynd og endurvekja laskað traust sonarins, er rakin 2500 ára saga heimspekihugsunar, austrænnar sem vestrænnar, af þekkingu og innsýn. Í þeim skilningi gæti bókin fallið í flokk með verkum eins og Veröld Soffíu eftir Jostein Gaarder eða Hver er ég - og ef svo, hve margir? eftir Richard David Precht, nema hvað Pirsig heldur áfram að draga ályktanir, þróa og setja fram eigin heimspeki á grundvelli eldri kenninga, vestrænna og austrænna. Pirsig (f. 1928) á sér býsna merkilega ævi, var í æsku greindur sem undrabarn með greindarvísitölu upp á 170 (svona til að halda áfram með greindarpælingar síðasta bloggs), hóf 15 ára að læra lífefnafræði í háskóla, var kallaður í herinn, gegndi herþjónustu í Kóreu nokkru fyrir Kóreustríðið, fékk þá djúpan áhuga á austrænni heimspeki, lauk háskólaprófi í henni 1950 og hélt síðan til náms á Indlandi fram eftir 6. áratugnum, sem ekki var algengt þá - á þeim árum var hann sumpart á undan sinni samtíð, næstum hippi á tímum bítnikka. Til Bandaríkjanna fór hann aftur og starfaði m.a. sem blaðamaður um hríð, en varð síðan kennari í skapandi skrifum við háskólann í Montana. Hann var einmitt að byrja að móta heimspeki sína sem háskólakennari á þeim tíma þegar Jack Kerouac og Neal Cassady voru að þvælast á vegum úti. Eftir nokkur ár í kennslu fékk hann taugaáfall, sem urðu til að sundra fjölskyldunni, og gekk inn og út af geðsjúkrahúsum um nokkurra ára skeið, um það leyti þegar Steinbeck leitaði að Ameríku á húsbílnum Rosinante. Öll þessi ævisögulegu atriði Pirsigs eru dregin fram í ZATAOMM, en tilheyra fyrra lífi höfundar, því sem hann hefur grafið og gleymt vegna geðveiki og er um leið að rifja upp á ferð sinni. Sögumaður er því að berjast við eigin fortíðardraug, sem hann kallar Phaedrus, en það nafn er vísun í samnefnda samræðu Platóns, Faidros, þann sem skeggræddi við Sókrates. Í útgáfu Platóns er það auðvitað meistarinn Sókrates, sem hefur betur, en Pirsig er inni á því að þarna liggi ákveðin tímamót í vestrænni heimspekihugsun, sem orðið hafa til þess að hún hafi þróast í óæskilega átt með tvíhyggju sinni og aðgreiningu sálar og líkama. Pirsig tekur í raun upp hanskann fyrir andstæðinga Sókratesar, þ.e. sófistana og hina pre-sókratísku heimspekinga (sem koma sterkir inn í lokahluta bókarinnar), og vill beina heimspekihugsun inn á nýjar brautir, þar sem dúalisma er hafnað. Í vissum skilningi ræðst Pirsig gegn þekktasta þríeyki heimspekisögunnar - Sókrates, Plató og Aristóteles - og veitir sófistunum uppreisn æru: Þetta er síðasta varnarræða sófistanna. ZATAOMM lýsir þannig því sem henti Pirsig blessaðan, jafnt persónulega sem frá sjónarhóli heimspekinnar. Sumpart kallast þetta rit á við hina stórfrægu Huggun heimspekinnar eftir Böetíus frá 6. öld; nauðsynlegt er að nálgast heiminn á heimspekilegan hátt til að skilja og græða tilvistarsárin.

ZATAOMM fer hægt af stað. Framan af virðist þetta ferðasaga með óhemjumiklum fróðleik um viðgerð vélhjóla. Þar sem ég er enginn sérstakur áhugamaður um mótorhjól (en þó ekki með öllu áhugalaus um gildi viðgerða) man ég að sá hluti hreif mig lítið fyrr á tímum og skipaði ég honum í óæðra sess - þar til ég las ritdóma eftir lesendur, sem sögðust ekkert botna í heimspeki verksins, en hefðu lært skrambi mikið um vélhjólaviðgerðir við að lesa það. Hvað um það, langar lýsingar á vélahlutum, verkfærum og viðgerðum - af því að það getur komið sér vel að kunna slíkt á ferðalagi. Smám saman afhjúpast árekstrar föður og sonar og í ljós kemur hin ægilega gjá, sem sjúkdómur föðurins hefur valdið í fjölskyldunni. Ferðalagið mun Pirsig, þá fertugur, hafa farið árið 1968, þótt hvergi sé ártal nefnt í sögunni, en annars má ráða það af því að sonurinn Chris er 11 ára í bókinni, en hann mun hafa verið fæddur árið 1957. Má því ætla að bókin sé skrifuð fyrir eða um árið 1970, með tilliti til erfiðleika við útgáfu hennar. Svo má nefna að ZATAOMM hefur harmsögulega vídd utan frásagnarinnar, vegna þess að upplýstur lesandi, sem hefur lesið sér lítillega til um verkið, veit að ein lykilpersóna bókarinnar, sonurinn Chris, var í raun myrt fimm árum eftir útgáfu bókarinnar, að því er virðist af hreinni og óútskýrðri hendingu. Þannig að í hinu stóra samhengi er Pirsig ekki bara að tala við draug eigin fortíðar, heldur líka raunverulegan draug sonar síns. Þetta leiddi til þess að árið 1984 bætti hann stuttum eftirmála við bókina, sem fylgt hefur öllum síðari útgáfum, og þar gerir hann grein fyrir afstöðu sinni til fráfalls sonarins, en eftirmálinn er ekki í þeirri gerð, sem ég las, svo ég fjalla ekki um hann.

Snúum að heimspekinni: Með bókinni reynir Pirsig að ýmsu leyti að sætta tæknihugsun Vesturlanda annars vegar og austræna heimspeki þess að kunna að lifa í núinu í samhljómi við aðra menn, umhverfi og náttúru, m.ö.o. að samræma tæknisamfélagið og hippaheimspekina. En Pirsig er svo sannarlega enginn hippi; þvert á móti gagnrýnir hann oft hugmyndafræði þeirra og þegar hann skrifar bókina er hann fertugur kall, sem á sér heilmikinn borgaralegan bakgrunn, þótt hann kjósi að eyða sumarleyfi á mótorhjólaferðalagi. Ekki kemur á óvart að á þeim tíma sem bókin er skrifuð hefur hann atvinnu af því að ritstýra leiðbeiningabæklingum, m.a. um vélasamsetningar. Stíll bókarinnar er einkennilega rökrænn og blátt áfram, að mestu leyti þannig að lesandinn er aldrei í vafa um hvað sögumaður er að tala. Lítið fer fyrir ljóðrænu myndmáli eða líkingamáli; höfundur viðurkennir blátt áfram að hann velji þá afstöðu að vera square frekar en hip til að koma boðskap sínum áleiðis. Bókmenntalegir eiginleikar verksins felast því ekki svo mikið í stílbrögðum, heldur frekar hvernig hrært er saman hinum ólíku bókmenntagreinum - ferðasögu, viðgerðafræðum, heimspekifróðleik og afar persónulegri harmsögu - svo að gangi upp. Stundum virðist höfundur fara út um víðan völl með efnið, í einhvers konar stóran hring, en lesandinn áttar sig á því að þetta er sefjandi stílbragð; brátt er komið aftur að sama atriði og áður, einu laginu dýpra.

Í reynd segir hinn snilldarlegi titill flest sem segja þarf um bókina. Þar er teflt fram tveimur andstæðum: Zen, þrír stafir, hið örstutta og leiftrandi augnablik innsæis, og the Art of Motorcycle Maintenance, næstum þrjátíu stafir um hvernig eigi að láta tæki virka með þolinmóðum viðgerðum og ígrundun. Og bókin fjallar rækilega um þetta tvennt, zen og viðgerðir á vélhjólum (og reyndar fleira). Stóra spurningin er hvort þetta séu andstæður og höfundur færir fram sannfærandi rök fyrir því að svo sé ekki. Mótorhjólaviðgerðirnar gætu alveg eins verið ræktun á bonzai-trjám. Pirsig leitast við að finna þætti, sem sameina hina ævafornu tvíhyggju vestrænnar heimspeki, sem greinir á milli hughyggju og efnishyggju, líkama og sálar, og kemst að eigin niðurstöðu, býsna áhugaverðri. Þetta er ekki alltaf skemmtilestur - rakin er saga heimspekinnar, fléttuð hugmyndum Pirsig frá „fyrri" árum, áður en hann var lagður inn á geðsjúkrahús. Merkilegt má teljast að hann finnur helst samkennd í vísindaheimspekilegum niðurstöðum franska stærðfræðingsins Poincaré, sem uppi var um aldamótin 1900, en þegar upp er staðið er einnig æði margt líkt með heimspeki Pirsig og samtímamanns Poincaré, landa hans Henri Bergson, þótt Bergson sé eingöngu nefndur á einum stað í allri bókinni, í upptalningu fjölmargra hughyggjuheimspekinga.

Zen and the Art of Motorcycle Maintenance er bók sem verður að lesast hægt og hugleiða jafnóðum. Hún er, sem fyrr segir, enginn skemmtilestur eða page-turner, og fellur því máske illa að þeim nútíma sem heimtar stöðugt meiri hraða og æsing. Sjálf ferðasagan er máske ekki upp á marga fiska - þeir feðgar þeysast yfir strjálbýl héruð í norðvestanverðum Bandaríkjum, frá Wisconsin til Kyrrahafs, staldra við stutt í hverjum smábæ öðrum líkum og bindast litlum tengslum því fólki sem verður á vegi þeirra. Hafa ber í huga að upphaflegt handrit að ZATAOMM var víst nokkuð hundruð blaðsíðum lengra og útgefandinn setti Pirsig það skilyrði að stytta það; líklega hefur hann einkum skorið af ferðasögunni. Sitthvað, sem gerist á ferðalaginu, verður höfundi þó tilefni til hugleiðinga og tenginga við heimspekilega rökleiðslu. Persónulega harmsagan og átakasaga feðganna er mun athyglisverðari - en hún afhjúpast afskaplega hægt og ekki að fullu fyrr en í lokin. Langmerkilegasti hluti bókarinnar er þó heimspekin sjálf - hvort sem menn gangist inn á hana eða hafna, þá er þetta rússibanareið um hinn langa veg heimspekisögunnar, með stórmerkilega eigin niðurstöðu höfundar.

Robert Pirsig lét lítið fyrir sér fara eftir útgáfu metsölubókar sinnar, lagðist í ferðalög og bjó víða um heiminn, oft í skútu sinni, m.a. í Noregi og Svíþjóð, en hann mun sænskættaður í móðurlegg. Með tímanum gerðist hann hreggbarinn sæúlfur, klæddist duggarapeysu, safnaði skeggi og varð dálítið líkur Hemingway á Key West-árunum. Mér vitanlega skrifaði Pirsig einungis eina aðra bók, þar sem hann hugðist gera upp við siðfræði á svipaðan hátt og frumspeki í fyrri bókinni. Seinni bókin hét Lila; An Inquiry into Morals og þar hefur bátasigling um austanverð Bandaríkin leyst af hólmi mótorhjólareið. Þá bók las ég á sínum tíma, en varð ekki fyrir jafn sterkum áhrifum. Máske þarf ég að endurlesa hana einnig.   

Það er eitthvað táknrænt og dæmigert við það að í kvikmyndaútgáfunni af Cloud Atlas er Zen and the Art of Motorcycle Maintenance skipt út fyrir tilvísun í verk Carlos Castaneda, sem eru miklu hippalegri með sinni hugvíkkun og meskalínneyslu. Þeir sem vilja hreinræktaða hippaheimspeki gætu orðið fyrir heilmiklum vonbrigðum með ZATAOMM og bókin er máske ekki fyrir alla. Hún einkennist af ákveðnum fjarlægum tóni, sem gæti jafnvel virkað fráhrindandi og kuldalegur, þótt hann sé máske fyrst og fremst heiðarlegur af hendi sögumanns; það er gjá einmanakenndar milli hans og allra annarra, hvort sem það er sonurinn, meðferðarfólkið eða lesendur. Stundum fær maður á tilfinninguna að sögumaður sé í bestu sambandi við mótorhjólið sitt. Samt er einlægnin ótvíræð; þetta virðist fullkomlega heiðarlegt og vægðarlaust lífsuppgjör. Og mótorhjólið er, þegar upp er staðið, tákn fyrir eitthvað allt annað og miklu stærra - eiginlega hvernig eigi að lifa merkingarbæru og innihaldsríku lífi. Af dómum á lestrarhestasíðum á borð við goodreads, librarything og fleiri sýnist mér mega skipta lesendum ZATAOMM í þrennt: Þeir sem gefast snemma upp á bókinni - og gefa henni þá jafnan (ósanngjarnt) lága einkunn; þeir sem komast á leiðarenda, en finnst heimspekin uppblásin og ómerkileg; og loks þeir sem dást að henni, telja hana stórmerkilegt framlag til heimspeki og mögulega útgönguleið út úr vandamálum nútímalífs. Í báðum seinni hópum, þar sem menn ljúka við bókina, er að finna fjölmarga ritdómara með heimspekimenntun. Bókin virðist bjóða upp á að annað hvort hati menn hana eða dái. Ég tilheyri síðarnefnda hópnum og tel Pirsig ótvírætt djúpan hugsuð. Og mér finnst að margir þeir, sem gagnrýni bókina sem intellektúelt snobberí séu einmitt sekir um ... nákvæmlega það. Það verður ekki oft sagt um bækur að þær breyti lífi lesenda, en ZATAOMM gæti einmitt gert það. Aðrir kunna að fussa og sveia. Vissulega hafa hugmyndir Pirsig eitthvað náð til fólks, því að Zen and the Art of Motorcycle Maintenance hefur selst í fimm milljónum eintaka á heimsvísu og hefur verið sagt um höfundinn að hann sé mest lesinn heimspekinga frá síðustu áratugum; ég veit þó ekki hvar þeir standa í samanburði í sölutölunum, hinn látni Baudrillard eða hinn sprellfjörugi Slavoj Žižek. Heimspeki Pirsig er eins og lóð á reislu, sem fær vogaskálar hlutveru og hugveru til að haldast í fullkomnu jafnvægi. Þar er leitast við að setja fram heildstæða skýringu á tilverunni. Bók Pirsig er ekki alltaf skemmtilestur, stundum jafnvel þrúgandi bersögul ... en hún gæti breytt grundvallarafstöðu lesandans til tilverunnar. Þegar hún var skrifuð, átti hún að styrkja stöðu hlutveruleikans gagnvart þeirri hughyggju, sem einkenndi hippaheimspeki. Í dag hefur bókin þveröfuga virkni, hún gæti eflt andleg verðmæti í heimi yfirgengilegrar efnishyggju. Í þeirri merkingu á hún tvímælalaust erindi til nútímans.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langar einfaldlega að þakka þér fyrir þessa færslu.  Ég las ZATAOMM fyrir aldarfjórðungi þegar ég var rúmlega tvítugur.  Merking bókarinnar fór að miklu leyti fyrir ofan garð og neðan hjá mér.  Nú er ég staðráðinn að dusta rykið af eintakinu mínu og endurnýja kynnin mín.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 22:08

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Ánægjulegt er að heyra, H.T. Bjarnason, og takk fyrir athugasemdina. Samt finnst mér nauðsynlegt að benda á að lestur bókarinnar er ekkert áhlaupaverk, og mætti jafnvel frekar teljast hugarástand í sjálfu sér.

Ég ætti e.t.v. að bæta við að í þessari bók Pirsig hef ég fundið einu trúverðugu skýringuna á því hvers vegna sófistar - mikils metnir menn á Grikklandi á sínum tíma - hafa fengið svo hryllilega útreið í heimspekisögunni. Það virðist allt byggt á misskilningi annars vegar og óverðskuldaðri andúð Platóns (fyrir hönd lærimeistara síns Sókratesar) á þeim hins vegar.

P.S. Ég vil biðja lesendur velvirðingar á því hvernig nafnið Slavoj Zizek hefur afbakast í óskiljanlega táknasúpu. Svona er að treysta því að forrit ráði við útlenda stafi.

Helgi Ingólfsson, 1.8.2013 kl. 23:04

3 identicon

Þakka þér fyrri mjög góða yfirferð um þessa frábæru bók sem ég las fyrir um 20 árum. Stórmerkileg og heillandi bók.

Þór Saari (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 00:09

4 identicon

Þetta er mikill bálkur, Helgi.

Ég hef ekki lesið títtnefna bók, en er ekki einhver misskilningur í gangi um að hún geti verið síðasta varnarræða Sófista?

Vísar það ekki í þá viðleitni að beita mælskurökum til að halda fram lífssýn eftir hentugleikum?

Jóhann (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 00:09

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Þór (aths. 3):

Stórmerkileg og heillandi bók - því er ég fullkomlega sammála.

Hins vegar eru ekki allir á sömu skoðun. Á Goodreads hafa næstum 80 þúsund lesendur gefið stjörnur - meðaltalið er 3.70 af 5 mögulegum, sem telst mjög góð útkoma miðað við fjölda stjörnugjafa.

Þarna er hins vegar áberandi hversu margir lesenda finna þörf hjá sér til að tjá sig um bókina, oft í löngu máli, og þá að menn ýmist elska eða hata bókina - gefa henni 5 stjörnur eða 1 stjörnu. Verst er að fjölmargir lýsa því yfir að þeir hafi ekki enst nema 50 eða 100 blaðsíður af bókinni, gefist þá upp - og gefa henni samt stjörnur, jafnan fáar.

Helgi Ingólfsson, 2.8.2013 kl. 10:45

6 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jóhann (aths. 5):

Biðst velvirðingar á "bálkaskrifum" - þetta er náttúrlega óþolandi munnræpa í mér. En ...

-----

"...  er ekki einhver misskilningur í gangi um að hún geti verið síðasta varnarræða Sófista?

Vísar það ekki í þá viðleitni að beita mælskurökum til að halda fram lífssýn eftir hentugleikum?"

a) Titill bloggsins á að vera kaldhæðinn. Hann vísar til rita Platóns, "Varnarræðu  Sókratesar" og "Síðustu daga Sókratesar" (sem bæði hafa komið út í Lærdómsritaröð Hins íslenzka bókmenntafélags). Titill bloggsins á að benda á að helstu "andstæðingar" Sókratesar, sófistarnir (hafðir í gæsalöppum, því að ég er ekki viss um að þeir hafi litið á sig sem andstæðinga, þótt Platón sjái þá þannig), eiga sér málsvara á s.hl. 20. aldar.

b)  Ég held að ég misskilji ekki neitt um "þá viðleitni að beita mælskurökum til að halda fram lífssýn eftir hentugleikum". Mér finnst líklegra að þú misskiljir, því að af orðum þínum má ráða að þú byggir á meintri afbökun Platóns á kenningum sófistanna. Platón á ríkastan þátt í að sófistar eru í dag taldir málrófsmenn og orðhengilsmenn, en Pirsig telur það sprottið af misskilinni vörn í þágu Sókratesar (og auðvitað ber Platón ekki ábyrgð á því hvernig síðari tímar hafa lyft honum á stall og þá, um leið, niðurtroðið sófistana). Misskilningurinn stafar, að mati Pirsig, að mestu leyti af því hvernig gríska orðið "Arete", sem í fræðum sófistanna þýddi "afbragð" (e. excellence), tók að merkja "dyggð" í skrifum Platóns. Síðan kemur Aristóteles, flokkunarfræðingurinn mikli og lærisveinn Platóns, og byggir upp flokkunarkerfi, þar sem díalektísk rökleiðsla er sett í öndvegi við alla vísindaiðkun, en mælskulistin (eða retórikin), list sófistanna, er undirskipuð henni.

Annars gæti ég skrifað langt svar um sófistana, sem og um jónísku náttúruspekingana (margir vita t.d. ekki að hugmynd Aristótelesar um frumefnin fjögur - eld, jörð, vatn og loft - er komin frá Empedóklesi), en læt hér staðar numið. Bók Pirsig er mun dýpri en athugasemd þín gefur til kynna.

Helgi Ingólfsson, 2.8.2013 kl. 11:07

7 identicon

Mögulega hefuru farið vitlausu megin frammúr, Helgi.

Það var ekki ætlunin að styggja þig, enda sagðist ég ekki hafa lesið bókina.

Hins vegar bar svo við að ég skrapp í Góða hirðinn í dag og þar gekk ég í flasið á bókinni. Nú er ég búinn að lesa um 40 blaðsíður og líkar vel.

Sófismi er þekkingarfræðileg líking, ekki merkingarfræðileg. Og skilgreind af Platóni.

Það má einu gilda um þýðingarblæbrigði "arete". Sófistarnir þóttust geta kennt visku (gegn gjaldi). Sókrates leiddi þá í mótsagnir.

En kannski Pirsig sannfæri mig um meinta afbökun Platóns.

Hefuru annars lesið "Sometimes a Great Notion"  eftir Ken Kesey. Ég gæti trúað að þú hafir gaman af honum, sjálfum erkibítnikk - hippanum.

Jóhann (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 20:26

8 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Blessaður aftur, Jóhann.

Fór engan veginn vitlaust fram úr og er engan veginn styggur.

Vildi bara benda nokkuð rækilega á að Platón hefði mögulega skrumskælt sófismann og svert sófistana.

a) "Sófismi er þekkingarfræðileg líking, ekki merkingarfræðileg. Og skilgreind af Platóni." Einmitt - skilgreind af Platóni. Fyrir alla framtíð - hans skilgreining lifir enn. Mögulega á röngum forsendum. Sófisminn var nefnilega til fyrir daga Platóns - en hann bjó til þann nútímaskilning, sem flestir hafa á hugtakinu. Pirsig andæfir.

b) "Sófistarnir þóttust geta kennt visku (gegn gjaldi). Sókrates leiddi þá í mótsagnir." 1) Af hverju "þóttust"? Af hverju ekki bara "kenndu visku"? Enginn virðist andæfa því að Sókrates hafi kennt visku - hvers vegna skyldu þá sófistarnir hafa verið að "þykjast"? 2) Og hver er heimild okkar um að Sókrates hafi leitt þá í mótsagnir? Það er Platón - sem taldi lærimeistara sinn nánast guðum líkan. Gæti ekki verið að mynd okkar af sófisma væri önnur, ef eitthvað annað bitastætt en rit Platóns væru varðveitt um kenningar þeirra? 3) "...(gegn gjaldi)." Hvað er athugavert við að kenna gegn gjaldi? Það hafa flestir kennarar gert á flestum tímum. Platón lætur það líta út sem eitthvað sóðalegt, þveröfugt við hugsjónamanninn Sókrates, sem kenndi gratís - enda átti hann ýmsa vellauðuga bakhjarla eins og Alkíbíades og Platón sjálfan, sem sáu til þess að hann skorti aldrei neinar nauðsynjar - með öðrum orðum, hann þurfti ekki að kenna gegn gjaldi. 4) Svo er ég ekki sammála því að sófismi sé "líking", hvorki merkingarfræðileg né þekkingarfræðileg. Sófismi virðist einfaldlega samheiti yfir hreyfingu forn-grískra heimspeki- eða viskukennara, sem áttu ýmislegt sameiginlegt og hafa mögulega hlotið ómakleg eftirmæli, það er allt og sumt.

c) Það er (og hefur verið um langan tíma) á efnisskránni hjá mér að lesa meira eftir Kesey en Cuckoo´s Nest. "Sometimes a Great Notion" er hérmeð sett efst á þann lista. En ... svo mikið er til af góðu lesefni og lífið er svo stutt. Ég hef alltaf kunnað að meta tvennt við Kesey, annars vegar hvernig hann er synþesa af bítnikk og hippa ("Ég fæddist of seint til að verða bítnikk og of snemma til að verða hippi",eru fræg ummæli hans.) Hins vegar að hann var vel kunnugur Neal Cassady, sem hefur verið skrambi merkileg menningarsöguleg persóna.

 Friður, shalom, pax.

Helgi Ingólfsson, 2.8.2013 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband