Í dag eru hæstaréttardómarar 12 að tölu. Allt er þetta hið hæfasta fólk, en athygli vekur misskipting kynja; þegar þetta er skrifað sitja í réttinum 10 karlar og 2 konur. Í dag er uppi allhávær krafa um leiðréttingu kynjahlutfalls í opinberum stöðum og embættum, en einhvern veginn hefur sú umræða vart náð til Hæstaréttar. Samt ætti jafnrétti kynja meðal dómara í réttinum að vera prinsippmál og reyndar grundvallaratriði í samfélagi sem vill tryggja jafnrétti. Að auki hafa á undanförnum misserum fallið umtalaðir dómar í kynferðisbrotamálum (og skyldum málum), þar sem yfirgnæfandi fjöldi karldómara virðist beinlínis hafa ráðið úrslitum um dómsniðurstöðu.
Án þess að leggja mat á umrædda dóma og án þess að hnýta í störf þeirra mætu hæstaréttardómara, sem sitja í dag, þá kýs ég að horfa fram á veginn og ræða lítillega hvernig haga megi framtíðarskipan æðstu dómsmála með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.
Það er löggjafans að tryggja jafnrétti, svo að eðlilegast væri að fest væri í lög að hæstaréttardómarar væru jafn margir af báðum kynjum, 6 og 6 að tölu. (Ef lögum um hæstaréttardómara yrði breytt í þá veru að fjöldi dómara væri oddatala, eins og þekkst hefur í íslenskri réttarsögu, þá mætti festa í lög að aldrei yrði meiri munur á kynjum en einn, þannig að ef heildarfjöldinn yrði aukinn í 13 dómara, þá yrði hlutfallið aldrei annað en 7/6, og aukinheldur að ef einn dómari léti af embætti, bæri að velja dómara af hinu kyninu, svo að annað kynið gæti ekki orðið ráðandi um meirihluta.)
En hvernig má ná þessari kynjajöfnun, 6/6, í Hæstarétti? Ef það yrði gert í einni svipan þyrfti að grípa til fremur harðra, þvíngandi aðgerða á borð við að setja lagaákvæði þaraðlútandi að næstu fjórir dómarar, sem skipaðir verði, yrðu allir konur. Ef svo færi, þá er hætt við að gengið yrði framhjá hæfum karldómurum, sem leitt gæti af sér hvimleitt kynjafræðilegt argaþras. Sjálfur tel ég nauðsynlegt að innleiða breytingar af þessum toga á mildari hátt, t.d. með bráðabirgðalagaákvæðum þess efnis að valið verði sitt á hvað, þegar skipaðir eru næstu 7 hæstaréttardómarar, þ.e. að kona yrði næst valin, þá karlmaður, svo aftur kona og þannig koll af kolli þar til jafnri tölu væri náð. Þannig mætti ná markmiðinu með hægfara innleiðingu, æsingarlaust og án þess að umbylta réttinum að öðru leyti. Auk þess ætti þessi aðferð að tryggja að ekki yrði gengið framhjá hæfum karldómurum.
Tæki þessi innnleiðing of langan tíma? Nei, ég tel ekki. Hafa ber hugfast að hæstaréttardómarar eru jafnan í eldri kanti valdir m.a. með hliðsjón af reynslu, sem eingöngu fæst með árum. Auk þess skilst mér að þeir megi láta af störfum skömmu eftir sextugt frá undangengnum árum man ég eftir a.m.k. tveimur tilvikum, þar sem dómarar í réttinum hafa látið af embætti áður en þeir komust á fullan aldur. Í ljósi þess að allmargir hæstaréttardómarar munu láta af störfum fyrir aldurs sakir (eða af öðrum ástæðum) á næstu 10-20 árum ætti að nást að innleiða þessa breytingu innan viðunandi tímamarka. Ljóst er hins vegar að þessu takmarki verður ekki náð nema til staðar sé markviss og meðvitaður vilji löggjafans, þ.e. Alþingis, um að tryggja jafnt kynjahlutfall í Hæstarétti.
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það væru grundvallarmistök að gera kynjahlutfall að einhverju atriði í Hæstarétti, það EINA sem á að skipta minnsta máli þar er hæfi umsækjenda.
Gulli (IP-tala skráð) 19.8.2013 kl. 07:37
Sammála Gulla. Þessi kynjakvótaumræða er á villgötum.
Erlingur Alfreð Jónsson, 19.8.2013 kl. 09:33
Sælir, Gulli og Erlingur.
Ég er sammála ykkur um að kynjakvótaumræða eigi hvorki að vera öfgakennd né megi fara á villigötur.
Hins vegar vil ég benda á eftirfarandi:
1) "Hæfi" er ekki óumdeilt atriði. Má benda á að við skipun dómara hefur ráðherra gengið a.m.k. einu sinni þvert á álit nefndar virtra lögfræðinga um dómaraskipun og virt "hæfnikröfur" að vettugi.
2) Allir núverandi dómarar í Hæstarétti hafa verið skipaðir af karlkyns ráðherrum. Væri skipan réttarins mögulega önnur, ef kona hefði verið ráðherra dómsmála á undangengnum árum og áratugum? (M.ö.o.: Velja karlar ekki frekar karla?)
3) Af almennri umræðu í þjóðfélaginu má ætla að mönnum þyki sjálfsagt að auka hlut kvenna á Alþingi. Þar hafa konur löngum verið 1/4-1/3 þingmanna (í dag er hlutfallið 38 karlar á móti 25 konum). Í Hæstarétti eru vel um 16,7% dómara konur. Að mínu mati er mikilvægara að jafna hlut kvenna í Hæstarétti en annars staðar í stjórnsýslu, þ.m.t. heldur en á Alþingi, vegna þess að Hæstiréttur fer með æðsta úrskurðarvald laga.
4) Í dag sitja 5 sinnum fleiri karlar í Hæstarétti. Er það þá vegna þess að þeir eru 5 sinnum hæfari, á móti hverju 1 skipti þegar kona er valin?
5) Ég var að reyna að benda einfalda og sársaukalitla leið þar sem jafna mætti hlut kvenna í Hæstarétti þannig að ekki þyrfti í reynd að ganga framhjá hæfum karlkynsdómurum og innleiða breytinguna á hóflega löngum tíma þannig að ekki yrði nein kollsteypa í réttinum eða störfum hans.
6) Og loks: Kann að vera að viðhorf karla til jafnréttisumræðu í stjórnsýslu helgist einmitt af þessu, að þeir eru karlar?
Góðar stundir.
Helgi Ingólfsson, 19.8.2013 kl. 10:53
Mér finnst einmitt fínt að fá umræðuna, alevg besta mál. Það er hins vegar ekkert jafnrétti í því ef tveir einstaklingar, karl og kona, eru metnir jafnhæfir til sama starfans, að þá eigi kyn viðkomandi að hafa úrslitaáhrif. Það er bara ekki jafnrétti í því á hvorn veginn sem er. Ef báðir aðilar eru jafnhæfir eiga þeir að sitja við sama borð þegar ákvörðun er tekin, en ekki á karla- og kvennaborði. Það væri í raun meira jafnrétti að varpa hlutkesti eða láta viðkomandi berjast með blað, skæri og steinn leiknum og láta slembilukku ráða niðurstöðu.
Ráðherra á að sjálfsögðu að vera skylt að fara eftir hæfismati nefndar við skipan í allar stöður. Það er tilgangur vinnu nefndarinnar að meta hæfið. Ef nefndarmenn fara skynja það að vinnu þeirra og tíma sé kastað á glæ við mat á hæfi, er hætta á því að kastað sé til höndunum við matið. Þá er betra heima setið en af stað farið.
Skipunarvald ráðherra er því í raun formsatriði, en ekki alræði.
Erlingur Alfreð Jónsson, 19.8.2013 kl. 11:41
Sæll aftur, Erlingur (#4).
Ánægjulegt að fá hér málefnalega umræðu.
Sem fyrr er ég sammála þér um sum atriðin, en ekki öll.
Varðandi skipunarvald ráðherra og skyldu hans til að fylgja mati faglega skipaðrar nefndar (seinni hluti svars þíns) er ég þér hjartanlega sammála.
Varðandi spurninguna um hæfi er ég þér að hluta til sammála, en ekki öllu. Nýlega fallnir dómar í kynferðisbrotamálum (og skyldum málum) hafa einmitt fengið mig til að efast í öllum tilvikum um hæfi karlkynsdómara (sem í mörgum öðrum málum geta verið fullkomlega hæfir) til að dæma slík mál af réttsýni; þar virðist svo augljóslega fylgt karllægum viðmiðum og skorti á að setja sig inn í heim fórnarlamba. Það varð sumpart kveikjan að þessum vangaveltum mínum; ég held að umræddir dómar hefðu getað farið á annan veg ef fleiri kvenmenn hefðu setið í dómi. Þannig að hæstaréttadómari, þótt almennt sé hæfur til starfans, þarf ekki endilega að vera jafnhæfur til að taka á öllum málum.
En burtséð frá öllum skeikulleika, þá tel ég það eðlilegt grundvallaratriði að tala kynja í Hæstarétti sé jöfn; ekki er hægt að sýna jafnréttishugsun betur í verki. Það er einmitt ekki jafnrétti að hafa 10 hæstaréttardómara af öðru kyninu og eingöngu 2 af hinu. Ég sé fyrir mér að eftir 15-20 ár sætu 6 hæfustu karlarnir og 6 hæfustu konurnar á sviði dómsmála í réttinum. Annað finnst mér ekki sýna raunverulegan vilja til að tryggja jafnrétti. Það er ekki nóg að vilja bara láta "hæfi" ráða skipun, ef öll hæfniviðmið eru mótuð af karllægu réttarfari.
Og reyndar vil ég ganga enn lengra. Hæstaréttardómar eru jafnan felldir af 5 dómurum (í einstaka tilvikum 7). Ég mundi vilja jafna tölu kynjanna í Hæstarétti og jafnframt lögbinda að aldrei mætti fráviki halla meira en um 1 í aðra hvora áttina með alla dóma (2 af öðru kyni á móti 3 af hinu). Og það mætti alveg ráðast af hlutkesti - í reynd held ég að hrein tilviljun ráði í dag hvaða dómarar dæma í hverju máli, þannig að slembilukkan um dómsniðurstöðu er þegar til staðar. En ég vil benda á að miðað við núverandi skipan Hæstaréttar getur það aldrei gerst að konur myndi kynjameirihluta í dómi; karlar eru þar alltaf í meirihluta. Í öllum dómum. Óháð því hvort þeir séu í reynd hæfari til að takast á við alla málaflokka sem koma inn á borð réttarins.
Helgi Ingólfsson, 19.8.2013 kl. 12:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.