Fyrir rúmum 30 árum voru sýndir í ríkissjónvarpinu (einu sjónvarpsstöðinni sem þá var starfrækt á Íslandi) býsna magnaðir þættir sem nefndust Shogun. Þeir fjölluðu um árekstra Evrópuþjóða við verslun og menningarítroðslu í Japan um 1630, þar sem Richard Chamberlain lék ábúðarmikinn Evrópumann, sem kallaður var Anjin-san og náði að verða samúræji. Eftirminnilegast við þættina var þó hvernig menn svöruðu ætíð með hvössu Hai!", nánast eins og þeir hræktu hver á annan. Sjónvarpsþættirnir voru byggðir á samnefndu skáldsögufjalli eftir James Clavell og þóttu mér þeir svo athyglisverðir að ég hnusaði að bókinni, þótt aldrei læsi ég hana til enda, enda innihélt hún töluvert fleiri blaðsíður en símaskráin. Átökum Evrópuþjóðanna þar eystra lauk með því að Japanir útrýmdu kristni og lokuðu á alla verslun og erlend menningaráhrif í landi sínu í rúmar 2 aldir, nema hvað Hollendingum var leyft að sigla á pínulitla manngerða eyju, Dejima, við Nagasaki. Hinn endinn á sögu hins aflokaða Japans er sagður í bíómyndinni The Last Samurai með Tom Cruise, þar sem verið er að opna landið á ný um 1853 - og enn verður hvítur maður samúræji.
Því eru þessi verk nefnd hér að eyjan Dejima, borgin Nagasaki og Japan á umræddum tíma eru meginsögusvið nýjustu skáldsögu David Mitchell, The Thousand Autumns of Jacob de Zoet. Sagan segir frá titilpersónunni, ungum og reynslulitlum bókhaldara, sem sendur er ásamt fleiri embættismönnum á vegum Hollenska Austur-Indíafélagsins til Dejima árið 1799 til að kanna fjárdrátt og viðskiptasvindl starfsmanna félagsins þar um slóðir og ílengist þar sem bókari sem forframast. Þótt Jacob eigi sér festarmey til fimm ára heima í Hollandi verður hann ástfanginn af japanskri stúlku og kynnist einnig japanskri menningu betur en flestir, því að yfirleitt er Hollendingunum á Dejima ekki leyft að stíga á japanska grund, en Jacob de Zoet kemst í land eftir ýmsum leiðum, m.a. í fylgdarliði sér æðri manna.
Óþarfi er að gera grein fyrir efninu frekar; eins og Mitchell er von og vísa, þá er sagan löng, á sjötta hundrað blaðsíðna, og spennandi, enda dvöl de Zoet svo sannarlega ævintýrarík. Þetta er söguleg skáldsaga, mjög bundin sínum samtíma (þótt hún teygi sig um síðir yfir áratugi) og nær því aldrei þeirri óendanlegu vídd og breidd, sem lykilverk Mitchell, Cloud Atlas, hefur. Samanburðurinn er ekki að öllu leyti sanngjarn; í TAJZ er sögð ein stór (þrískipt) saga, en í CA eru sagðar sex styttri.
Mitchell stimplar sig algjörlega inn sem töframaður orðanna í The Thousand Autumns of Jacob de Zoet. Hann er á heimavelli á þessum slóðum, bjó sjálfur í Japan í 9 ár, á japanska eiginkonu og talar japönsku. Dregnar eru upp sannfærandi mannlýsingar af heilum her persóna, oft með sárafáum orðum eða stuttorðri lýsingu, en persónur verksins skipta tugum, ef þær ná ekki hundruðum. Skemmtilegir karakterar eru tvímælalaust hollensku verkamennirnir (the hands") á Dejima, sem sakna heimkynnanna, dreymir um að auðgast í fjarverunni, blóta og ragna heimamönnum þegar þeir heyra ekki, en bugta sig og beygja fyrir þeim við önnur tækifæri, þó með undantekningum. Sem við er að búast eru menningarárekstrarnir margir og margvíslegir, þó ekki alltaf með neikvæðum formerkjum, samanber það að hollenski læknirinn, dr. Marinus, býsna eftirminnileg og stórbrotin persóna, er að kynna evrópska læknisfræði og vísindi fyrir fimm japönskum nemendum, þar af einni stúlku. Þá má nefna að stúlkan Orito og túlkurinn Ogawa eru vel mótuð. Fáir jafnast þó á við þann viðsjárverða japanska aðalsmann Enomoto, býsna stórbrotinn skúrk. En sem ég las einhverju sinni í gagnrýni um Mitchell: Hann kann að gera jafnvel skúrka sína mannlegri og eftirminnilegri en hetjur; eini munurinn felst í markmiðunum.
Sagan skiptist í þrjá hluta, sem hver um sig er hátt í 200 blaðsíður, auk tveggja stuttra eftirmála, sem gerast nokkrum árum síðar. Í fyrsta hluta er Jacob de Zoet í burðarhlutverki og sögusviðið er mestmegnis Dejima, en þó stundum gægst annað. Annar hlutinn gerist að miklu leyti í klaustri upp til fjalla í Japan. Þar eru japanskar persónur algjörlega í miðju frásagnar, en Evrópumennirnir á jaðrinum. Sá þriðji skiptir alloft um sjónarhorn, þó einkum á milli Dejima og ensks skips, sem kemur þangað í vafasömum tilgangi. Hvern hluta fyrir sig má lesa nánast sem sjálfstæða bók, en þó eru þræðir sem flétta þá saman. Og þótt Jacob de Zoet tengi alla hlutana í eina heild, þá stendur fyrst og fremst eftir ljóslifandi mynd af Dejima og af japanskri menningu í kringum 1800.
Mikilvægt einkenni frásagnarinnar er stíltilraunir Mitchell, sem að mestöllu leyti ganga upp. Stundum hef ég á tilfinningunni að höfundurinn sé galdramaður, sem geti ekki bara mótað hina fullkomnu þanka, heldur einnig valið hin fullkomlega réttu orð til að tjá þá hugsun. Þannig leikur dr. Marinus á eina harpsikordið, sem flutt hefur verið til Japan, og í eyrum Jacobs, sem liggur andvaka og hlýðir á, eru tónarnir spidery and starlit and spun of glass" (63). Mér er til efs að nokkur höfundur hafi lýst hljóðum úr harpsíkordi betur. Annað dæmi má nefna, reyndar af sömu síðu, um hvað skordýrin aðhafast á næturnar í Dejima og verður úr eins konar hani, krummi, hundur, svín"-þula: Night insects trill, tick, bore, ring; drill, prick, saw, sting." Texti Mitchell löðrar í ljóðrænu og frumlegu myndmáli, þó þannig að aldrei beri sjálfa söguna ofurliði - Mitchell er fyrst og síðast sagnameistari af æðstu gráðu. Eitt einkenni stílsins er það að þegar samtöl eiga sér stað, er skotið inn stuttum lýsingum úr umhverfinu; hið hversdagslega áreiti sem við verðum öll fyrir; og gengur þetta alla bókina í gegn. Hinn reynslulitli Jacob gengur um Dejima í viðræðum við gamlan sægarp, sem leggur honum lífsreglurnar, en á milli einstakra setninga heyrum við öldur fjara út á sjávargarði, sjáum máva hnita hringi í sólstöfum eða hundshræ í skurði, skynjum lykt af þangi eða nýsöguðum bambus, finnum hlýjan andvara kyssa kinn eða sjáum flöktandi ljósbrot sjávar endurspeglast og flögra um loft í herbergi. Þetta er hið hversdagslega, sem gerist allt í kringum okkur meðan við ræðum saman, og Mitchell reynir að birta heildstæða mynd, jafnvel með skörun skilningarvitanna af því tagi sem Baudelaire og Rimbaud boðuðu 50-70 árum eftir að þessir atburðir eiga að gerast um ævidaga de Zoet. Eftirminnileg mynd er dregin, þegar dr. Marinus leyfir Jacob að hitta ungfrú Aibagawa í hliðarherbergi, meðan hann kennir hinum læknisnemendunum fjórum; kröftug rödd læknisins, sem er að kenna um harla órómantíska líffærafræði, berst stopult inn í klaufalegt samtal parsins. Þetta er snilldarlega gert. Eða hvernig Mitchell getur lesið endalaust úr orðum, t.d. þegar Jacob liggur og hugsar um nafn ungfrúar Aibagawa: Ai, mouth opens; ba, lips meet; ga, tounge´s root; wa, lips" - nafnið eitt og sér verður ígildi ímyndaðs koss (hm, ættu ekki að vera 3 s í kossi í et. ef.?) Nærri bókarlokum stendur ein persóna bókarinnar frammi fyrir býsna hryggilegum örlögum og virðir fyrir sér heimaborg sína Nagasaki í hinsta sinn (bls. 515-516). Þetta er einhver ljóðrænasti kafli bókarinnar, og reyndar dulbúið ljóð, vegna þess að ef hægt er á lestri má finna vísuorð og rím. Og eftir stórkostlega mynd af borginni klikkir viðkomandi persóna út með eftirfarandi hugsun: The world contains just one masterpiece, and that is itself." Stuttu síðar þarf sama persóna að klæðast svörtum silkijakka fyrir dapurlega helgiathöfn og myndmálið verður stórfenglega skemmtilega og fallega mótsagnarkennt: The fine black silk is crisp as snow and heavy as air" (517).
Meira um orðsnilld Mitchell. Sem fyrr segir löðrar sagan í eftirminnilegu líkingamáli og ljóðrænu og má tína dæmi af nær hverri síðu. Þegar jarðskjálfti ríður yfir Nagasaki, þá lifnar rúmfleti Jacobs bókstaflega við. Það brotna undan rúminu tveir fætur, svo að rúmið kastar honum úr sér og hristist þvert yfir gólfið í skjálftanum eins og særð skepna í leit að skjóli, sem hún finnur undir gagnstæðum vegg (80). Túlkurinn Ogawa lýsir á bjöguðu máli fyrir Jacobi hinni örstuttu brú á milli Dejima-eyjar og fastalandsins í Nagasaki: This is longest bridge you ever cross because this bridge go between two worlds" (97). Jacob hittir elskuna sína: The breeze twists a coil of her hair around its finger" (144). Og þegar hann reynir að segja henni brandara af svartara tagi, svarar hún spaklega: Joke is secret language inside words" (143). Jacob er yfir sig ástfanginn, þar sem hann ræðir við hana í garði og þegar hún fer dettur honum eftirfarandi í hug: Creation never ceased on the sixth evening ... Creation unfolds around us, despite us and through us, at the speed of days and nights, and we like to call it ´Love´." (146)
David Mitchell er töframaður þegar kemur að notkun orða. Ég er þeirrar skoðunar að innan tíu ára verði hann talinn meðal áhrifamestu höfunda samtímans og vart útilokað að hann vinni bókmenntaverðlaun Nóbels á lífsleiðinni. Hann hefur helst tvennt á móti sér. Annars vegar er það litlaust nafnið. Hann skrifar undir eigin nafni, sem er svo lítt áberandi að hann gæti heitið Jón Pálsson á íslensku. Ef hann héti eftirminnilegu skírnarnafni (Bruno Mitchell) eða skrautlegu eftirnafni (David Ookaboolawonga), myndi nafn hans ekki tínast í hinni mjög svo háværu bókmenntaumfjöllun samtímans. Hitt, sem hann hefur á móti sér, er hæverskan. Afar lítið fer fyrir hógværum höfundinum, sem lifir kyrrlátu lífi á Írlandi með fjölskyldu sinni og er frekar spar á viðtölin. Mitchell er enginn yfirlýsingaglaður extróvert á borð við Gore Vidal eða Günter Grass. Ef leitað er líkinga í málaralistinni, þá var það hinn hægláti Braque, sem kom fram með ýmsar nýjungar kúbismans, en hinn flamboyant Picasso, sem vakti athygli á þeim á alþjóðavettvangi. Mitchell er bókmenntalegur Braque.
Af sumu því, sem ég skrifa hér, mætti ætla að ég telji Mitchell einhvers konar bókmenntalegan guð, en því fer þó víðs fjarri. Ýmsa meinbugi má finna á The Thousand Autumns of Jacob de Zoet. Um tíma er reynt að draga fram ævisögur sem flestra mikilvægra hliðarpersóna og er það stundum gert á ögn klaufalegan máta. Verkamenn í vinnu Hollenska A-Indíafélagsins setjast að kortspilum með de Zoet og drekka og ræða saman, meðan spilað er, en einhvern veginn þróast það svo að hver og einn þeirra rekur eigin ævisögu á milli þess að sett er í slagina - þetta er heldur ambögulegur frásagnarmáti. Stuttu síðar, á afar svipaðan máta, rekur dr. Marinus ævi sína fyrir de Zoet, meðan þeir spila biljarð, frá fæðingu til fullorðinsára. Einn eða tveir til viðbótar bæta við sögum sínum í lokahlutanum. Flestar þessara sagna eru áhugaverðar, hver á sinn hátt, en David Mitchell er það flinkur penni að honum ætti ekki að vera skotaskuld úr að vefja ævisögurnar inn í frásögnina á annan máta. Þá velti ég nokkuð fyrir mér biljarðspilinu; ég veit að biljarð var til á þessum tíma, en það hvernig Mitchell spinnur hann inn í frásögnina er næstum eins og lýsing á leik með Stephen Hendry í sjónvarpi. Ég hef séð gagnrýni á lítillega sögulega ónákvæmni í bókinni; að japanskar nunnur spili mah-jong um 1800 (leikurinn mun kínverskur og barst ekki til Japan á 20. öld); að persóna tali um slátrun á innfæddum á Van Diemens-landi (=Tasmaníu) árið 1800, þegar umrætt þjóðarmorð hófst ekki fyrr en árið 1805. Oft fann ég eitthvað smávægilegt, sem ég velti fyrir mér hvort gæti staðist (t.d. hvort enskur skipstjóri hefði getað notað Pears Soap um 1800), en í öllum tilvikum, þar sem ég fletti upp, stóðst það sem Mitchell sagði - nema einu sinni: Þegar hann kallar Þjóðverja Kraut", en uppnefnið atarna kom ekki fram fyrr en í fyrri heimsstyrjöld.
Í TAJZ ber mun meira á skopi og gamansemi en ég hef áður séð hjá Mitchell. Flestir Hollendinganna, aðrir en de Zoet, hafa býsna skemmtilegan húmor, t.d. dr. Marinus, Vorstensbosch yfirmaður Hollenska A-Indíafélagsins og verkamennirnir sjálfir, auk enska skipstjórans Penhaligon, en hann saknar látinnar eiginkonu sinnar Meredith, sem nú er eflaust með englunum á himnum að sauma út í púða. Oft er þessi húmor stórkarlalegur og groddalegur, eins og vænta má hjá sæförum, sem búa við stöðuga lífshættu. Í sumum tilvikum er húmorinn sagnfræðilegur; apaköttur þeirra Hollendinga á Dejima heitir í höfuðið á forsætisráðherra erkióvinarins, William Pitt, og fuglahræða þar á eyju heitir Robespierre, enda fýkur höfuð hennar af, eftir því hvernig vindar blása. Má þess geta að sagan hefst næstum nákvæmlega fimm árum eftir að hinn eini og sanni Robespierre var leiddur undir fallöxina. Gaman hafði ég líka af að lesa í eftirmála þakkir Mitchell til Lawrence Norfolk. Nú keppast þeir við að klappa hvor öðrum á öxlina, bókabræðurnir, því að Norfolk þakkaði einmitt Mitchell sérstaklega fyrir góð ráð við gerð síðustu skáldsögu sinnar.
The Thousand Autumns of Jacob de Zoet teygir sig yfir margar víddir. Þetta er söguleg skáldsaga, spennusaga, ástarsaga af fegurstu gerð, saga um grimmd og misrétti og fegurð og hugrekki og ólíka menningarheima. Kannski skör lægra sett en Cloud Atlas - sem ég tel nær ómögulegt að toppa. En ef Cloud Atlas á heima í efstu hillu, þá á The Thousand Autumns of Jacob de Zoet heima í næst efstu.
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.