Núorðið nenni ég varla að blogga lengur um bækur, enda tímafrekt. Síðasta mánuð eða svo hef ég lesið þær þrjár bækur Laxness, sem fjalla um eða koma inn á ferðir hans til Sovétríkjanna (Í austurvegi, Gerska ævintýrið og Skáldatími), og finnst engin þeirra nógu merkileg bókmenntalega séð til að eyða í þær púðri, nema hvað nefna má að einstaka kaflar í Skáldatíma eru óbærilega fyndnir (t.a.m. Þættir úr ævi bókar og Prógressívur maður og gúmanisti).
Nú bregður hins vegar svo við að mér hefur borist í hendur hvalreki, sem ornar mér marga kvöldstundina. Um er að ræða hlunkinn Grikkland alla tíð, sem er sýnisbók þýðinga úr grísku, fornri og nýrri, í ritstjórn Kristjáns Árnasonar, nýlega útkomin á vegum Hins íslenska bókmenntafélags, en auk Kristjáns skipa ritnefnd þeir Guðmundur J. Guðmundsson, Sigurður A. Magnússon og Þorsteinn Þorsteinsson. Grikkland alla tíð kallast á við aðra öndvegisbók, Grikkland ár og síð, sem Grikklandsvinafélagið Hellas gaf út fyrir rúmum tuttugu árum, á 200 ára afmæli Sveinbjarnar Egilssonar, og hafði að geyma fjölbreyttar greinar eftir íslenska rithöfunda og fræðimenn um hið sólríka land í suðri, þjóðina sem það byggir og merka menningu hennar á ýmsum tímum, séða með augum norrænna manna. Í Grikklandi alla tíð er hins vegar nær eingöngu grískum textum í íslenskum þýðingum leyft að tala (undantekningarnar eru stutt aðfararorð aðstandenda um höfunda á undan textum þeirra). Rúsínan í pylsuendanum er svo hljóðbók, Ilíonskviða, sem fylgir á geisladiski, snilldarlega lesin af Kristjáni Árnasyni.
Sem gefur að skilja eru fornaldartextar fyrirferðarmiklir í Grikkklandi alla tíð og ná yfir ríflegan helming verksins. Margt er kunnuglegt þeim, sem í áranna rás hefur kynnt sér forn-gríska sögu og bókmenntir, en bókin hlýtur þó að verða óinnvígðum aðgengilegur inngangur að gríska fornaldarheiminum. Íslendingar hafa notið þeirrar gæfu að eiga allnokkuð þýtt úr verkum grískra fornskálda, t.d. kviður Hómers í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar (sem vitaskuld er byrjað á í þessari bók), alla harmleiki stórskáldanna þriggja, Æskýlosar, Sófóklesar og Evrípídesar, og nokkur af gamanleikjum Aristófanesar; einnig ýmis heimspekirit Platóns og Aristótelesar, Manngerðir Þeofrastosar, hellenskar og hellenískar ljóðaþýðingar og sitthvað fleira. Allt á þetta sér verðuga fulltrúa í lengri og styttri sýnishornum í Grikklandi alla tíð.
Það sem stóreykur hins vegar gildi ritsins á sviði forn-grískra bókmennta eru þýðingar, sem sjaldan er haldið á loft og hafa jafnvel ekki komið út áður. Ekki vissi ég t.d. að Jón Espólín hefði þýtt úr æviþáttum Plútarks (væntanlega á f.hl. 19. aldar), en hér er að finna hinn bráðskemmtilega kafla þegar spekingurinn Sólon hittir Krösus konung. Áberandi eru einnig ljóðaþýðingar sem þjóðskáldin Grímur Thomsen og Steingrímur Thorsteinsson gerðu á s.hl. 19. aldar og er máske að finna dreift í ljóðmælum þeirra, en er nú safnað markvisst á einn stað; hér getur að líta bráðskemmtilegt ljóðabrot úr Riddurum Aristófanesar, sem Grímur þýðir þannig að falli að lagi Gamla Nóa. Einn texti, mér áður ókunnur, sem ég las mér til óblandinnnar ánægju, var leikritsbrotið Dómur Parísar eftir Lúkíanos, yndislega léttleikandi í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar. Sagnaritararnir forn-grísku - Heródótos, Þúkydídes og Xenófón - hafa löngum legið óbættir hjá garði í íslenskum þýðingum og hingað til hef ég helst þurft að lesa verk þeirra á útlensku, en þeir fá sinn hlut réttan hér að nokkru leyti. Alllöng þýðing úr sögu Persastríða eftir Heródótos er sögð eftir óþekktan þýðanda, og þótt ég sjái þess hvergi beinlínis getið, gæti ég helst trúað, m.a. út frá orðfæri, að um sé að ræða skólapiltaþýðingu frá s.hl. 19. aldar. Gaman er einnig að sjá þýðingarbrot Halldórs Kr. Friðrikssonar úr Austurför Kýrosar frá 1867, en til stendur að endurútgefa þýðingu þá með nútímaorðfæri og las ég hana í heild í sumar sem leið.
Nokkuð hratt er farið yfir grískar bókmenntir frá tímum Býzansríkisins og saknaði ég þess að hafa ekki sýnishorn úr Leyndarsögu Prókópíosar, en eflaust er ekkert slíkt brot til á íslensku. Síðasti þriðjungur Grikklands alla daga er tileinkaður grískum bókmenntum 19. og 20. aldar og þá kveður við töluvert annan tón, mér síður kunnugan, þótt ég hafi ögn nasað af honum áður. Hér eru þýðingar á verkum stórskálda á borð við Konstantínos Kavafis, Níkos Kazantzakis og Nóbelsverðlaunahafarnir Giorgos Seferis og Ódysseas Elýtis, auk fjölmargra annarra verðugra fulltrúa grískra bókmennta seinni tíma.
Sanngjarnt er að segja löst sem kost á hverju verki. Á svo fallegu og metnaðarfullu verki sem Grikkland alla daga er, er einn sá ljóður, sem fór fyrir brjóstið á mér, en það er myndaval og -vinnsla. Myndir af grískum skáldum virðast sumar valdar á hæpnum forsendum, stundum seinni tíma myndir (hugsýn) af fornum mönnum. Verra er þó að myndirnar eru daufar, móðukenndar eða bera með sér að hafa farið í gegnum tölvuvinnslu. Er með ólíkindum að myndvinnsla geti verið verri í bók í dag en var fyrir hálfri öld, og það vegna tilkomu tækni, sem ætti að bæta úr, en gerir ekki alltaf.
Þess ber loks að geta að þýðingarnar í Grikklandi alla tíð eru jafnan einkar fallegar, enda sumar eftir þjóðskáld íslensks gullaldarmáls. Fyrir utan þá Sveinbjörn Egilsson, Steingrím J. Thorsteinsson, Grím Thomsen og Benedikt Gröndal ber að nefna ýmsa frábæra þýðendur frá undangengnum áratugum, svo sem Helga Hálfdánarson, Kristján Árnason, Þorstein Gylfason, Friðrik Þórðarson, Sigurð A. Magnússon, Þorstein Þorsteinsson, Atla Harðarson, Gottskálk Þór Jensson, Svavar Hrafn Svavarsson og fleiri. Hafi þeir allir þökk fyrir sitt óeigingjarna starf og sitt merka framlag í þennan sjaldséna kjörgrip.
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.