Óbreyttur bogliði í Hundrað ára stríðinu

Harlequin CornwellHvernig var líf bogliða í þjónustu Játvarðar þriðja Englandskonungs við upphaf Hundrað ára stríðsins? Hvaða lífsgleði gat hann notið og hvers konar harma upplifað? Hvernig þoldi hann vetrarkulda og sumarbreiskju í herferðum um Norður-Frakkland og hvernig fór orrustan fræga við Crécy fram? Öllum þessum spurningum og miklu fleiri svarar Bernard Cornwell fádæma vel í skáldsögu sinni, Harlequin.

Cornwell er firnagóður skáldsagnahöfundur og langt yfir meðallagi þegar höfð eru í huga gríðarleg afköst hans. Ef það er einhver mælikvarði, þá er Beta Bretadrottning fyrir löngu búin að aðla hann með OBE eins og McCartney og Elton John. Fyrir 15 árum eða svo las ég í einni beit sex bækur eftir Cornwell, hverja annarri betri. Þar bar langhæst þríleikur um Arthúr og Merlín (The Warlord Trilogy), einkar frískleg, frumleg, raunsæ og athyglisverð túlkun á annars útjaskaðri þjóðsögu. Frægustu bækur Cornwells munu samt bækur hans um Sharpe liðþjálfa, sem orðnar eru yfir 20 talsins, en eftir þeim voru búnar til allfrægar sjónvarpsmyndir, sem gerðu leikarann Sean Bean að stórstjörnu. Af öllum bókunum um Sharpe hef ég þó aðeins lesið tvær.

Langflestar skáldsögur Cornwells eru sögulegs eðlis og þá gjarna tengdar hernaði og grimmilegum átökum. Hann hefur skrifað langa bókaflokka um tíma Arthúrs, víkingatímann á Englandi, hundrað ára stríðið og Napóleonsstríðin – og þrátt fyrir að stríð séu miðlæg í bókum hans, með öllum sínum hörmungum og hryllingi virðist uppsprettan óþrjótandi.

Því er Cornwell nefndur hér að ég endurlas nýlega bók eftir hann, Harlequin. Hún kom út rétt eftir aldamót og las ég hana fyrst skömmu síðar, fyrir rúmum áratug, en í samræmi við stefnu mina að endurlesa sem flestar góðar bækur á seinni hluta ævinnar las ég hana aftur nú í sumarfríinu.

 

Harlequin gerist við upphaf Hundrað ára stríðsins á 14. öld og hefur sem lykilpersónu ungan bogliða, Thomas frá Hookton. Heimabær hans hefur verið lagður í eyði og hann hefur gengið til liðs við innrásarher Englendinga á Bretagne-skaga, enda flinkur með bogann. Fyrir ókunna má nefna að í Hundrað ára stríðinu unnu enskir bogliðar stórafrek, vopnaðir bogum frá sínum heimaslóðum, svokölluðum langbogum, og höfðu jafnan betur en Frakkar vopnaðir “nýtísku” lásbogum. Einnig berjast menn þarna miðaldalega sem riddarar á hestbaki, þótt hofmóðurinn fari þverrandi. Þá eru menn einnig að prófa sig áfram með frumgerðir af fallbyssum og skotvopnum – og sjá litla framtíð í þeim. Bókinni lýkur síðan með næstum hundrað blaðsíðna lýsinga á aðdraganda orrustunnar við Crécy og átökunum sjálfum. Sú orrusta er jafnan talin meðal þeim mikilvægustu í sögu Evrópu, því að með sigri þar komst Hundrað ára stríðið á skrið og Englendingar tryggðu að Frakkar yxu ekki öðrum þjóðum Evrópu yfir höfuð löngu fyrr en raunin varð.

Styrkur Harlequin liggur í ýmsu. Varðandi sögulegan áreiðanleika sýnist mér erfitt að gefa höfundi annað en 9.5 í einkunn. Og hann kann þá list að búa til nær ómótstæðilega blöndu klisju og frumleika. Hann þræðir sjaldséðan milliveg væntinga og hins óvænta. Oft virðist sagan stefna í hefðbundna átt – á tímabili hélt ég jafnvel að hún yrði rómantísk ástarsaga – en síðan er lesandinn löðrungaður rækilega og hryllingur, nauðganir, ofbeldi og stríðsógnir blása burt allri rómantík. Lykilpersónur eru myrtar fyrirvaralítið, þeim nauðgað eða þær hrekjast á faraldsfót – hér skal máske hafa um fæst orð til að upplýsa ekki um framgang sögunnar. Látum nægja að nefna að hún kemur margoft á óvart.

Stíll bókarinnar er látlaus og einfaldur og fræðandi á þann hátt að upplýsingum er dreift jafnt án þess að íþyngi sögunni eða atburðarásin hökti. Slíkt kann að virðast áreynslulítið en krefst í raun kunnáttu og þekkingar. Og þegar upp er staðið tekst Cornwell að ná fram sérstökum stíl og sinni eigin rödd með andstæðunum í því sem hann lýsir, fegurðinni og ljótleikanum, þess sem lesandinn væntir og hins óvænta. Einna helst er að orrustan við Crécy, með aðdraganda sínum, verði full fyrirferðarmikill hápunktur – næstum hundrað blaðsíður í 500 síðna bók.

Persónusköpun í Harlequin með ágætum. Lykilpersónur eru dregnar skýrum dráttum og þeirra meginkostur er að þær eru blandaðar að eðli. Thomas frá Hookton kann að vera hjartahreinn, en hann er einnig hégómlegur (hann ber sítt, svart hár sitt í tagli sem hann bregður bogastreng um) og hann tekur oft þátt í ofbeldisverkum, bæði í atvinnuskyni og af öðrum hvötum. Höfuðandstæðingur hans í bókinni, Sir Simon Jekyll, er ef til vill helst til vægðarlaus og einsleitur illvirki, en þó jafnvel kostum gæddur og sýnir jafnvel af sér góðmennsku við tilteknar kringumstæður. Það eru samt máske minni háttar persónur, sem eru öðrum eftirminnilegri: Mordecai, kaldhæðinn læknir af Gyðingaættum, sem telur öruggustu sjúkdómsgreininguna felast í að bragða á hlandi sjúklingsins; munkurinn Germain, sem er fróðleiksnáma um sögu og helga dóma, en kann að efast í trúnni á sinn hátt, enda veit hann um klaustur sem geymir þrjár forhúðir af ungbarninu Jesú; hinn vígreifi klerkur Hobbe sem hatar Frakka eins og pestina. Karakterar af þessum toga detta inn í söguna frá fyrstu blaðsíðu til síðustu og glæða hana lífi og gamansemi.

Best tekst Cornwell þó máske að bregða upp lifandi mynd af stríðsátökum, með öllum þeim hryllingi sem fylgir. Þar er ekkert fært undan og ekkert fegrað. Hestar kviðristir jafnt sem hermenn; þegar kemur á blóðugan vígvöllinn hverfur öll riddaraleg hofmennska á augabragði. Og jafnvel mitt í hryllingnum, á ögurstundu þegar um líf og dauða er að tefla og grimmdin er skefjalaus, geta menn sýnt af sér göfugar hliðar: Hugdirfð og fórnarlund. Mikill hluti hernaðar, sem fram fer í Harlequin, lýsir umsátrum og þegar borgir falla verða fórnarlömbin fyrst og fremst almennir borgarar. Mannslíf verða einskis metin: Morð, rán, nauðganir og allsherjar eyðileggging eru óhjákvæmilegu fylgifiskar stríðs, sama hversu menn vilja hafa hlutina á annan veg. Og líf hermanna er enginn dans á rósum: Þeir þola hungur og pestir, hollusta er til sölu hjá mörgum, svik og prettir á hverju strái og hermennnirnir ragna hraustlegar en Kolbeinn kafteinn. Einn óhugnanlegur þátturinn í stríðsrekstri 14. aldar voru tortímingarleiðangrar, sem farnir voru um sveitir í grennd við umsetnar borgir, bæði til að afla matvæla fyrir umsátursherinn, en ekki síður til að valda almennri ógn og skelfingu um sveitir til að draga úr baráttuþreki andstæðingsins. Öllu þessu er lýst ofan í smæstu atriði í Harlequin.

Annar firnasterkur kostur bókarinnar birtist í kraftmikilli samfélagsmynd. Stéttarskipting er ströng og afdráttarlaus; þeir heppnu hafa fæðst sem aðalsmenn, síðan eru hin ógæfusamari alþýða, og inn á milli þessarar tvískiptingar danglar fjöldi samfélagshópa. Kirkjuhöfðingjar standa nær aðlinum, sóknarprestar nær alþýðu. Sumir aðalsmenn hafa fallið ofan í fátækt og vilja rífa sig upp, einhverjir tilheyra kaupmannastéttum og hafa gifst inn í aðalsættir, oft í óþökk þeirra með bláasta blóðið. Aðalsmenn leggja sér til hest og hertygi, sem er dýrt, og þeim fylgja gjarnan fleiri vopnfærir menn (men-at-arms), hraustir kappar, oft útrústaðir af aðalsmönnum. Miklu skiptir hvort menn fæðist skilgetnir eða sem bastarðar. Og sem við er að búast í stríðssögu er heimur karlmanna í forgrunni. Fáeinar kvenpersónur eru þó í burðarhlutverkum, oftast óþarflega fallegar, en þær eru jafnan varnarlitlar nema þær eigi sér volduga verndara. Þá er togstreita ólíkra fylkinga innan hersins skýrt dregin fram – bogliðar og riddarar lenda stundum í stælum þótt þeir neyðist til að vinna saman. Þegar kemur að því að ráðast inn í borg eða berjast á vígvelli gildir mestmegnis eitt lögmál: Hver maður fyrir sig. Enn má nefna að valdastigi innan hersins, allt frá kokki upp í kóng, kemur aðdáunarlega vel fram. Játvarður Englandskonungur og Filippus Frakkakonungur stíga lítillega fram í bókinni, þó sem heldur fjarlægar og upphafnar persónur.

Cornwell er þó ekki óskeikull fremur en aðrir höfundar og stundum sýnist maður hann hafa annað augað fullmikið á mögulegri bíómynd gerðri eftir sögunni. Samskipti Thomasar frá Hookton og franska riddarans Guilliame d´ Evecque eru heldur ólíkindaleg, sem og samdráttur bogliðans og Elenóru. Þá er reynt að troða fullmiklu inn í líf Thomasar sumarið 1346; hann lifir flökkulífi með Jeanette fram yfir mitt sumar, tekur þátt í umsátrinu um Caen (sem átti sér stað 11. júlí 1346, þótt dagsetning sé ekki nefnd), er þar næstum drepinn, en tekst á næstu vikum að ná heilsu, öðlast djúpa vináttu Guillaume, vinna ástir Elenóru og elta uppi enska herinn svo að hann sé tilbúinn í bardagann við Crécy þann 26. ágúst (dagsetning sem Cornwell nefnir). Hér er höfundur augljóslega í vandræðum með að láta veruleika mannkynssögunnar og lögmál skáldsögunnar ganga upp.

 

Þegar ég las Harlequin fyrst fyrir tólf árum eða svo, vissi ég ekki að hún yrði fyrsta bókin í þríleik; ekkert á bókarkápu míns eintaks gefur til kynna að höfundur hyggist halda áfram. Sú mun þó hafa verið raunin, svo ég verð líklega að fara svipast um eftir seinni bókunum. Ekki nóg með það, heldur var titli sögunnar breytt fyrir Bandaríkjamarkað og mun hún (eða allur þríleikurinn) heita þar The Archer´s Tale. Hvað sem því líður, þá get ég óhikað mælt með Harlequin sem sjálfstæðu skáldverki. Á Goodreads gefa um 11 þúsund lesendur henni meðaleinkunnina 4.08 (af 5 mögulegum) sem þykir býsna hátt, sérstaklega þegar svo margir eru um einkunnagjöfina. Og ég sé að ég þarf brátt að snúa mér að því að endurlesa The Warlord Trilogy eftir sama höfund – í minningunni voru þær stórkostlegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband