Svo hljóma upphafsorð merkustu bókar Íslandssögunnar, ef marka má ný-vatnsausinn kanón íslenskra bókmennta. Átt er að vísu við Mörð gígju, en síðar í sömu bók kemur fyrir annar Mörður, ólíkt frægari og atkvæðameiri, dóttursonur hins fyrri, og er sá Valgarðsson. Um þann fræga Mörð hefur Bjarni Harðarson skrifað bók.
Fornsögur Íslendinga hafa um langa tíð veitt höfundum þjóðarinnar innblástur; nýleg dæmi eru þríleikur Einars Kárasonar úr Sturlungu og Glæsir eftir Ármann Jakobsson, einnig Morgunþula í stráum eftir Thor og Mörg eru ljónsins eyru eftir Þórunni Erlu-Valdimarsddóttur. Það er líklega ofrausn að skilgreina Mörð eftir Bjarna Harðarson sem sögulega skáldsögu; bókin er innan við hundrað síður að lengd í ekki ýkja stóru broti, stundum með auðar síður á kaflaskilum, og skilgreinist frekar sem nóvella.
Bjarni tekur sér fyrir hendur það stórhuga verk að endurskilgreina persónu Marðar Valgarðssonar og réttlæta ýmsar gjörðir hans sem orka tvímælis í Njálu. Sagt er frá í 1. persónu og hefst sagan þar sem fjörgömul titilpersónan kennir dóttursyni sínum þann leik að etja saman fylkingum og fylgjast með öðrum berast á banaspjót, en standa sjálfur hjá. Annars er Mörður lengst af karlægur í sögunni og rifjar upp atburði lífs síns frá þeim sjónarhóli. Hann hefur lifað tímana tvenna í bókstaflegum skilningi, með heiðni og kristni. Honum er meinilla við prestlinga og förumunka og kenningar þeirra, en er þó blendinn í trúnni; á sér bæði róðukross og smálíkneski af Þorgerði hölgabrúði. Þriðji gripurinn í hans eigu er svo gamla gígjan sem afi hans var kenndur við.
Sem við er að búast fer heilmikið púður í endursögn þeirra atburða úr Njálu sem Mörður kom nálægt. Nú vill svo til að ég er ekkert sérlega vel lesinn í þeirri frægu bók, hef bara farið í gegnum hana þrisvar og oftast með hangandi hendi. Fyrsta skiptið var ég í mennntaskóla og ekkert sérlega viljugur til þessa verks frekar en annarra af bóklegum toga mér þótti skák, brids og stelpur meira spennandi. Um þrítugt las ég bókina svo aftur af sjálfsdáðum og af nokkurri athygli. Þá kom ég auga á margvíslega snilli, en þótti heildin þó heldur sundurleit, eins og fjórum Íslendingasögum hefði verið skeytt saman. Þriðja sinni böðlaðist ég í gegnum Njálu þegar ég setti mér það nánast einhverfukennda markmið að lesa allar Íslendingasögurnar í tveggja binda útgáfu Svarts á hvítu (náði ég næstum að klára allt fyrra bindið og las svo einnig alla Íslendingaþættina aftast í síðara bindi, en tilviljun ein réði því að Brennu-Njáls saga var undir B-i í stafrófsröðinni og þóttu mér þá bæði Egla og Grettla skemmtilegri).
Nóg um það. Bjarni er augljóslega þaullesinn í Njálu, svo vel að hann les oft milli lína, þ.e. útskýrir gerðir og athæfi persóna sem lítt eru útskýrðar eða illskiljanlegar í fornsögunni sjálfri. Hann bætir jafnvel býsna miklu við Íslandssöguna, þegar hann gengur út frá því að í Rangárþingi, og þá helst niðri á svörtum söndunum, búi allmargt manna af írskum uppruna, ýmist sem munkar eða þrælar/ambáttir/leysingjar. Eru þeir í Merði oft nefndir paparnir, hinir stórfættu, hinir berfættu eða annað, en væntanlega byggir hugmyndin á því að hellar í Landssveit hafi í reynd verið íverustaðir fólks af írskum uppruna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar (sem annars er mjög umdeilt meðal sagn- og fornleifafræðinga). Mörður Valgarðsson útskýrir ungur fyrir konuefni sínu, Kötlu Gissurardóttur hvíta, að á hans heimaslóðum séu paparnir hvað fjölmennastir, þótt smáættað undirmálsfólk séu, en næstir komi hinir heiðnu að tiltölu. Gefið er í skyn að kristnitakan hafi verið pólitískt refsbragð að undirlagi hins slæga Gissurar hvíta til að koma á saxneskri kristni, því að samkvæmt henni var írska kristnin full af trúvillu og mætti þannig með réttari kristni undiroka hina fjölmennu papa og halda þeim á mottunni.
Tímarammi sögunnar er nokkuð ljós, þótt hann sé fyrst og fremst gefinn í skyn með vísbendingum á stangli. Hinn langlífi og karlægi Mörður er kominn yfir níu tigu vetra í aldri (21) og á einum stað í frásögninni er þess getið að mágur hans Ísleifur bíði biskupsvígslu (53) sem varð árið 1056. Mörður er goði kominn af tignum norrænum ættum, afkomandi Ketils hængs sem nam stóran hluta Rangárhverfis. Og þá komum við að lykilhugmyndinni sem birtist í Merði, en hún er sú að Njála gangi út á valdabaráttu, þar sem hinir írsku undirmálsmenn eru að reyna að olnboga sig til áhrifa með því að sölsa undir sig goðorð hinna norrænu eða stofna til eigin viðbótargoðorða. Þetta reynist lykillinn að flestum pólitískum aðgerðum (eða aðgerðaleysi) Marðar Valgarðssonar hann er að tryggja völd sín og heiður ættarinnar og honum tekst það flestum betur, með klókindum og flóknu neti vinatengsla, uns hann stendur uppi sem sigurvegari átakanna. Gamall fer hann hins vegar að heyra sögur, til orðnar að undirlagi papa, förukerlinga og undirmálsfólks, þar sem öllu er snúið á haus, hann gerður að illmenni, en þeir Njáll og Höskuldur Hvítanessgoði hafnir til skýjanna nánast sem helgir menn. Þar sjáum við glitta í einhvers konar frumgerð þeirrar Njálu sem við öll þekkjum þar sem sannleikanum var umturnað.
Athyglisvert er að sjá hvernig Bjarni Harðarson fer með karlinn (?) hann Njál. Samkvæmt Merði er Njáll útburður sem papar tóku að sér og ólu upp í eigin hugmyndafræði, svo að hann gekk erinda þeirra, nánast eins og evil mastermind að koma fram áformum sem grafa undan völdum hinna stórættuðu norrænu og færa þau í hendur papanna og alþýðufólksins. Gunnar á Hlíðarenda verður peð í þessu tafli, enda ekki merkilegur í augum Marðar, sem, aðspurður hvers vegna þeir hafi drepið Gunnar, svarar: Drápu og drápu. Öllu má nú nafn gefa. Þessi maður hafði æst á móti sér alla verstu menn héraðsins og brytjað niður. Svo áttum við að gæta hans. Hvaða kenning er það? Ekki nein sem farið er eftir. Hvorki þá né nú. Nei, þar börðust þær mannfýlur sem okkur höfðingjana mátti einu gilda þó allar dræpust. (16) Bjarni leggur nokkra áherslu á tvíkynjun og tvíeðli Njáls, skeggglausan og lágtalaðan, með rödd á undarlegu tónsviði, sem kórdrengur í Saxlandi. (41) Þegar upp er staðið reynist Njáll heldur lítilsigldur. Enda segir Mörður: Engir voru þó svo orðsjúkir og illorðir sem Njálungar og þeirra hyski. (39) Undantekningin er Skarphéðinn, tröllið sem mótsagnakennt er sonur hins fínlega Njáls; með Héðni finnur Mörður til vinarþels, skyldleika og samúðar, ef til vill vegna þess að faðir hans heldur hann sem húskarl, lífvörð og vikapilt.
Þótt stjórnmálaskýringar og klækir séu fyrirferðarmikil í Merði, þá er þar þó engan veginn eina víddin. Titilpersónan á sér margvíslegar persónulegar hliðar, bæði aðlaðandi og fráhrindandi. Hann er oft stærilátur og stórlátur, stóryrtur og stórkarlalegur í tali, sparar ekki stóru orðin um þá sem honum finnst lítið koma til og dómharður í meira lagi. En hann er að sama skapi barngóður, gamansamur og kemur oft vel fyrir sig orði. Af ókunnri ástæðu er hann mikill kattavinur og gerir kona hans ýmist grín að honum eða hæðist vegna þess. Mörður karlinn á þó í dálitlu sálarstríði vegna kattaástúðarinnar, því að honum er nauðsynlegt að verða sér úti um kattagarnir sem strengi í sína gömlu gígju og þær fást ekki nema köttur sé drepinn. Mörður er mannlegur umfram allt, með jákvæðum og neikvæðum formerkjum, og þótt saga Bjarna sé í einhverjum skilningi réttlæting fyrir hann, þá er hann engan veginn hvítþveginn og viðurkennir sjálfur breyskleika sinn. Það er mennskt að vera breyskur: Veröld sem ekki leyfir breyskum mönnum að deyja með reisn, sú veröld er ill. (34)
Hinar frægu kvenhetjur Njálu Hallgerður, Bergþóra og Hildigunnur eru ekki fyrirferðarmiklar í Merði. Þetta er fyrst og fremst karlaheimur sem lýst er. Þó fær ein kona mikið rúm í sögu Bjarna, sjálf eiginkona Marðar, Katla Gissurardóttir. Samband þeirra tveggja er með því þekkilegasta og yndislegasta í allri sögunni. Það er enginn dans á rósum; stundum rífast þau svo heiftarlega að hjónabandið virðist ætla að bresta eftir endilöngu. En svo sættast þau og þá verður lífið aftur yndislegt. Alloft kemur Mörður henni til að hlæja, stundum með stríðni eða ýkjusögum, til dæmis um að Gunnar hafi stokkið hæð sína í öllum herklæðum. Það er ljóst frá fyrstu tíð að þeim Merði og Kötlu líst vel hvort á annað eru eins og sköpuð hvort fyrir hitt en eru ekki að sama skapi ýkja ásjáleg. Mörður lýsir sjálfum sér sem lágvöxnum, ófríðum, breiðum og digrum. Og hann gefur í skyn að aðrir komi ekki auga á fegurð Kötlu sinnar en það sé hann einn sem sjái eldinnn sindra í augum hennar. Og hann stærir sig af því að hafa aldrei slegið til hennar (né hún til hans), eins og algengt virðist vera á öðrum bæjum. Og þegar hann fjörgamall segir söguna hefur Katla verið önduð í þrjá áratugi og hann er hvorki heill né hálfur maður síðan hún dó. Samband þeirra er stormasamt, en einnig gamansamt, heillandi og fagurt. Fölskvalaus ást með meðfylgjandi meinum: Við höfðum elskast og líka hatast. Stundum heila daga og ég var í helvíti. Ég og við bæði. Enda alla tíð elskast með ærslum og ég vissi mig sælastan allra manna. Einnig nú því enginn átti slíkar minningar sem engin orð náðu til. (23) Það eru semsagt hjónin Mörður og Katla sem eru fyrirferðarmest í sögunni og hún er sögð frá sjónarhóli hagsmuna þeirra.
Um stíl Bjarna er margt að segja og flest afar gott. Hann er mergjaður, jafnvel kynngimagnaður á köflum. Hér kemur eitt gott sýnishorn, úr bláupphafi XVI. kafla: Illgirnin. Ég get þreifað á henni og veit hvernig hún lyktar og hvernig hún er í lögun. Löng og slepjuleg getur hún potað sér inn í alla anga og skanka. Rammur er hennar skítaþefur, þefur hinna heimsku og óforsjálu, hinna fótstóru og berfættu, andi hennar er seigur eins og fljótandi hvelja. (73)
Orðfærið er fádæma blæbrigðaríkt og notkun fátíðra orða og orðatiltækja blasir við á hverri síðu; gaman að sjá máltæki á borð við Til þess eru refirnir skornir og Það kostar klof að ríða röftum skynsamlega notuð, en höfundur má jafnvel vara sig að ganga ekki of langt í þeim efnum. Og að einu leyti fer hann yfiir strikið: Mörður notar (einstaka sinnum) nútímaleg orð eins og sefasýki, karnival, bestía og trakteringar, og þótt ég telji fullkomlega liggja í valdi höfundar að velja orð sín, þá finnst mér að sama skapi óþörf lýti þegar auðveldlega má finna orð trúrri texta frá 11. öld. Hvað með þegar Mörður bætir puh og huh aftan við mál sitt? Og þá eru það bara enda-háin sem ég hnýti í; mér vitanlega endar ekkert íslenskt orð á h-i og held ég að þetta hljóti að vera óþörf enskuáhrif.
Rétt er einnig að nefna að staðarlýsingar allar í sögunni eru einkar sannfærandi; Bjarni Harðarson virðist þekkja hverja þúfu úr sögusviði Njálu. Og vert er að nefna athyglisverða bókarkápu: Hálft andlit af bláeygum, bláskeggjuðum og veðurbörnum manni, sem væntanlega á að tákna Mörð. Og það er líka eitthvað táknrænt við að andlitið allt kemur ekki í ljós fyrr en lesandi brýtur í sundur innbrotna kápusíðuna. Þá birtist Mörður allur, íbygginn, íhugull, ögn sposkur og þó alvarlegur, en umfram allt mennskur.
Mál er að linni. Mörður eftir Bjarna Harðarson er fjári snaggaraleg og mestmegnis afar vel stíluð saga. Og til gæti verið önnnur túlkun á sögu Bjarna allri. Alkunna er að orðið lygamörður er komið af nafni Marðar Valgarðarsonar. Og kannski er Mörður Bjarna Harðarsonar að ljúga öllu saman, sem hann segir, og þá stendur eftir að allt sem segir um Mörð í Njálu er rétt.
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Feikna góður pistill og skemmtilegur. Það lúrir margt í fornsögunum. Kærar þakkir.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 23.7.2014 kl. 16:44
Þakkir fyrir innlitið og ummælin, Þorsteinn, en betra þessum pistli er þó bókin sú arna eftir Bjarna. Hann er, held ég, í hópi bestu stílista úr röðum rithöfunda.
Helgi Ingólfsson, 23.7.2014 kl. 16:53
Flottur ritdómur frá þér, Helgi, sem ég er vitaskuld alveg sammála :) Ég var bólusett fyrir Njálu í fyrsta bekk menntaskóla og sór að lesa hana aldrei meir (slík voru áhrif kennarans) en svo lenti ég í að kenna hana sjálf um nokkurra ára skeið og er því þokkalega vel lesin í sögunni. Bjarni turnaði mér á einu kvöldi og hér eftir lít ég söguna allt öðrum augum. Það eina sem mér finnst skorta í þína umfjöllun er kynhneigð Marðar sem er listilega tengd við gígjuna ... og varpar sérstöku ljósi á álit hans á Skarhéðni ... eða ekki ...
P.S. Sagnir herma að kápumynd sé tekin í Afganistan.
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 25.7.2014 kl. 21:48
Átti að standa Skarphéðni ... ég er haldin athyglisbresti, skrifblindu og lesblindu á kvöldin en þjáist svo sem ekkert tiltakanlega þess vegna.
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 25.7.2014 kl. 21:50
Takk fyrir innlitið og ummælin, Harpa. Varðandi kynhneigðina, Skarphéðin og gígjuna, þá ertu ljósárum lengra komin í hugsun en ég - ég hef bara ekki nógu mikið hugmyndaflug fyrir svona lagað. En Mörður nefnir Skarphéðin svo oft "tröll" - meinarðu þá ekki að hann sé haldinn tröllahneigð? Gæti það verið gigantophilia á fræðimáli?
Að vísu rámar mig óljóst í að á einum stað í bókinni nefni Mörður "ergi" sína, en það var í svo sérkennilegu samhengi að ég hélt að það væri smávægileg villa þar sem ætti að standa "ergelsi". Hm? Ég þarf bersýnilega að endurlesa ...
Ég hló upphátt að eftirskriftinni um Afganistan-myndina. Ég hafði alla tíð óljóst á tilfinnningunni að ég kannaðist við kápumyndina, sérlega augun. Og þú gerðir mér samhengið ljóst: Þetta er klárlega náfrændi stúlkunnar sem prýddi forsíðuna af National Geographic hér um árið!
Helgi Ingólfsson, 25.7.2014 kl. 23:18
Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki lesið bókina (Mörð) en las handritið (sem greind alþýðukona). Held samt að litlu hafi verið breytt og ergin sé örugglega inni ;)
Egill Bjarnason Harðarsonar tók forsíðumyndina. Egill er feikilega góður ljósmyndari, sem sjá má á Myndasíðu á http://austurlandaegill.blog.is/blog/austurlandaegill/
Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 26.7.2014 kl. 10:25
Það vildi ég að ég væri greindur alþýðumaður, Harpa mín. En ég fæ aldrei greiningu héðan í frá, ekki einu sinni hjá greiningardeild Íslandsbanka. Og ef svo yrði, þá yrði ég sennilega greindur með ADH-DVD ...
Ljósmyndin af hinum afganska Merði er óneitanlega mjög flott, en eitthvað filteruð, væntanlega. Og er ekki fornsögunum dásamlega snúið á haus og þær glóbalíseraðar með því að gera Mörð afganskan? (Mér datt í hug að skrifa avgang-skan upp á færeysku, svona í samræmi við allt sem þú implíkerar, en hætti við.)
Helgi Ingólfsson, 26.7.2014 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.