Færsluflokkur: Bloggar
Núorðið nenni ég varla að blogga lengur um bækur, enda tímafrekt. Síðasta mánuð eða svo hef ég lesið þær þrjár bækur Laxness, sem fjalla um eða koma inn á ferðir hans til Sovétríkjanna (Í austurvegi, Gerska ævintýrið og Skáldatími), og finnst engin þeirra nógu merkileg bókmenntalega séð til að eyða í þær púðri, nema hvað nefna má að einstaka kaflar í Skáldatíma eru óbærilega fyndnir (t.a.m. Þættir úr ævi bókar og Prógressívur maður og gúmanisti).
Nú bregður hins vegar svo við að mér hefur borist í hendur hvalreki, sem ornar mér marga kvöldstundina. Um er að ræða hlunkinn Grikkland alla tíð, sem er sýnisbók þýðinga úr grísku, fornri og nýrri, í ritstjórn Kristjáns Árnasonar, nýlega útkomin á vegum Hins íslenska bókmenntafélags, en auk Kristjáns skipa ritnefnd þeir Guðmundur J. Guðmundsson, Sigurður A. Magnússon og Þorsteinn Þorsteinsson. Grikkland alla tíð kallast á við aðra öndvegisbók, Grikkland ár og síð, sem Grikklandsvinafélagið Hellas gaf út fyrir rúmum tuttugu árum, á 200 ára afmæli Sveinbjarnar Egilssonar, og hafði að geyma fjölbreyttar greinar eftir íslenska rithöfunda og fræðimenn um hið sólríka land í suðri, þjóðina sem það byggir og merka menningu hennar á ýmsum tímum, séða með augum norrænna manna. Í Grikklandi alla tíð er hins vegar nær eingöngu grískum textum í íslenskum þýðingum leyft að tala (undantekningarnar eru stutt aðfararorð aðstandenda um höfunda á undan textum þeirra). Rúsínan í pylsuendanum er svo hljóðbók, Ilíonskviða, sem fylgir á geisladiski, snilldarlega lesin af Kristjáni Árnasyni.
Sem gefur að skilja eru fornaldartextar fyrirferðarmiklir í Grikkklandi alla tíð og ná yfir ríflegan helming verksins. Margt er kunnuglegt þeim, sem í áranna rás hefur kynnt sér forn-gríska sögu og bókmenntir, en bókin hlýtur þó að verða óinnvígðum aðgengilegur inngangur að gríska fornaldarheiminum. Íslendingar hafa notið þeirrar gæfu að eiga allnokkuð þýtt úr verkum grískra fornskálda, t.d. kviður Hómers í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar (sem vitaskuld er byrjað á í þessari bók), alla harmleiki stórskáldanna þriggja, Æskýlosar, Sófóklesar og Evrípídesar, og nokkur af gamanleikjum Aristófanesar; einnig ýmis heimspekirit Platóns og Aristótelesar, Manngerðir Þeofrastosar, hellenskar og hellenískar ljóðaþýðingar og sitthvað fleira. Allt á þetta sér verðuga fulltrúa í lengri og styttri sýnishornum í Grikklandi alla tíð.
Það sem stóreykur hins vegar gildi ritsins á sviði forn-grískra bókmennta eru þýðingar, sem sjaldan er haldið á loft og hafa jafnvel ekki komið út áður. Ekki vissi ég t.d. að Jón Espólín hefði þýtt úr æviþáttum Plútarks (væntanlega á f.hl. 19. aldar), en hér er að finna hinn bráðskemmtilega kafla þegar spekingurinn Sólon hittir Krösus konung. Áberandi eru einnig ljóðaþýðingar sem þjóðskáldin Grímur Thomsen og Steingrímur Thorsteinsson gerðu á s.hl. 19. aldar og er máske að finna dreift í ljóðmælum þeirra, en er nú safnað markvisst á einn stað; hér getur að líta bráðskemmtilegt ljóðabrot úr Riddurum Aristófanesar, sem Grímur þýðir þannig að falli að lagi Gamla Nóa. Einn texti, mér áður ókunnur, sem ég las mér til óblandinnnar ánægju, var leikritsbrotið Dómur Parísar eftir Lúkíanos, yndislega léttleikandi í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar. Sagnaritararnir forn-grísku - Heródótos, Þúkydídes og Xenófón - hafa löngum legið óbættir hjá garði í íslenskum þýðingum og hingað til hef ég helst þurft að lesa verk þeirra á útlensku, en þeir fá sinn hlut réttan hér að nokkru leyti. Alllöng þýðing úr sögu Persastríða eftir Heródótos er sögð eftir óþekktan þýðanda, og þótt ég sjái þess hvergi beinlínis getið, gæti ég helst trúað, m.a. út frá orðfæri, að um sé að ræða skólapiltaþýðingu frá s.hl. 19. aldar. Gaman er einnig að sjá þýðingarbrot Halldórs Kr. Friðrikssonar úr Austurför Kýrosar frá 1867, en til stendur að endurútgefa þýðingu þá með nútímaorðfæri og las ég hana í heild í sumar sem leið.
Nokkuð hratt er farið yfir grískar bókmenntir frá tímum Býzansríkisins og saknaði ég þess að hafa ekki sýnishorn úr Leyndarsögu Prókópíosar, en eflaust er ekkert slíkt brot til á íslensku. Síðasti þriðjungur Grikklands alla daga er tileinkaður grískum bókmenntum 19. og 20. aldar og þá kveður við töluvert annan tón, mér síður kunnugan, þótt ég hafi ögn nasað af honum áður. Hér eru þýðingar á verkum stórskálda á borð við Konstantínos Kavafis, Níkos Kazantzakis og Nóbelsverðlaunahafarnir Giorgos Seferis og Ódysseas Elýtis, auk fjölmargra annarra verðugra fulltrúa grískra bókmennta seinni tíma.
Sanngjarnt er að segja löst sem kost á hverju verki. Á svo fallegu og metnaðarfullu verki sem Grikkland alla daga er, er einn sá ljóður, sem fór fyrir brjóstið á mér, en það er myndaval og -vinnsla. Myndir af grískum skáldum virðast sumar valdar á hæpnum forsendum, stundum seinni tíma myndir (hugsýn) af fornum mönnum. Verra er þó að myndirnar eru daufar, móðukenndar eða bera með sér að hafa farið í gegnum tölvuvinnslu. Er með ólíkindum að myndvinnsla geti verið verri í bók í dag en var fyrir hálfri öld, og það vegna tilkomu tækni, sem ætti að bæta úr, en gerir ekki alltaf.
Þess ber loks að geta að þýðingarnar í Grikklandi alla tíð eru jafnan einkar fallegar, enda sumar eftir þjóðskáld íslensks gullaldarmáls. Fyrir utan þá Sveinbjörn Egilsson, Steingrím J. Thorsteinsson, Grím Thomsen og Benedikt Gröndal ber að nefna ýmsa frábæra þýðendur frá undangengnum áratugum, svo sem Helga Hálfdánarson, Kristján Árnason, Þorstein Gylfason, Friðrik Þórðarson, Sigurð A. Magnússon, Þorstein Þorsteinsson, Atla Harðarson, Gottskálk Þór Jensson, Svavar Hrafn Svavarsson og fleiri. Hafi þeir allir þökk fyrir sitt óeigingjarna starf og sitt merka framlag í þennan sjaldséna kjörgrip.
Bloggar | 17.10.2013 | 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir rúmum 30 árum voru sýndir í ríkissjónvarpinu (einu sjónvarpsstöðinni sem þá var starfrækt á Íslandi) býsna magnaðir þættir sem nefndust Shogun. Þeir fjölluðu um árekstra Evrópuþjóða við verslun og menningarítroðslu í Japan um 1630, þar sem Richard Chamberlain lék ábúðarmikinn Evrópumann, sem kallaður var Anjin-san og náði að verða samúræji. Eftirminnilegast við þættina var þó hvernig menn svöruðu ætíð með hvössu Hai!", nánast eins og þeir hræktu hver á annan. Sjónvarpsþættirnir voru byggðir á samnefndu skáldsögufjalli eftir James Clavell og þóttu mér þeir svo athyglisverðir að ég hnusaði að bókinni, þótt aldrei læsi ég hana til enda, enda innihélt hún töluvert fleiri blaðsíður en símaskráin. Átökum Evrópuþjóðanna þar eystra lauk með því að Japanir útrýmdu kristni og lokuðu á alla verslun og erlend menningaráhrif í landi sínu í rúmar 2 aldir, nema hvað Hollendingum var leyft að sigla á pínulitla manngerða eyju, Dejima, við Nagasaki. Hinn endinn á sögu hins aflokaða Japans er sagður í bíómyndinni The Last Samurai með Tom Cruise, þar sem verið er að opna landið á ný um 1853 - og enn verður hvítur maður samúræji.
Því eru þessi verk nefnd hér að eyjan Dejima, borgin Nagasaki og Japan á umræddum tíma eru meginsögusvið nýjustu skáldsögu David Mitchell, The Thousand Autumns of Jacob de Zoet. Sagan segir frá titilpersónunni, ungum og reynslulitlum bókhaldara, sem sendur er ásamt fleiri embættismönnum á vegum Hollenska Austur-Indíafélagsins til Dejima árið 1799 til að kanna fjárdrátt og viðskiptasvindl starfsmanna félagsins þar um slóðir og ílengist þar sem bókari sem forframast. Þótt Jacob eigi sér festarmey til fimm ára heima í Hollandi verður hann ástfanginn af japanskri stúlku og kynnist einnig japanskri menningu betur en flestir, því að yfirleitt er Hollendingunum á Dejima ekki leyft að stíga á japanska grund, en Jacob de Zoet kemst í land eftir ýmsum leiðum, m.a. í fylgdarliði sér æðri manna.
Óþarfi er að gera grein fyrir efninu frekar; eins og Mitchell er von og vísa, þá er sagan löng, á sjötta hundrað blaðsíðna, og spennandi, enda dvöl de Zoet svo sannarlega ævintýrarík. Þetta er söguleg skáldsaga, mjög bundin sínum samtíma (þótt hún teygi sig um síðir yfir áratugi) og nær því aldrei þeirri óendanlegu vídd og breidd, sem lykilverk Mitchell, Cloud Atlas, hefur. Samanburðurinn er ekki að öllu leyti sanngjarn; í TAJZ er sögð ein stór (þrískipt) saga, en í CA eru sagðar sex styttri.
Mitchell stimplar sig algjörlega inn sem töframaður orðanna í The Thousand Autumns of Jacob de Zoet. Hann er á heimavelli á þessum slóðum, bjó sjálfur í Japan í 9 ár, á japanska eiginkonu og talar japönsku. Dregnar eru upp sannfærandi mannlýsingar af heilum her persóna, oft með sárafáum orðum eða stuttorðri lýsingu, en persónur verksins skipta tugum, ef þær ná ekki hundruðum. Skemmtilegir karakterar eru tvímælalaust hollensku verkamennirnir (the hands") á Dejima, sem sakna heimkynnanna, dreymir um að auðgast í fjarverunni, blóta og ragna heimamönnum þegar þeir heyra ekki, en bugta sig og beygja fyrir þeim við önnur tækifæri, þó með undantekningum. Sem við er að búast eru menningarárekstrarnir margir og margvíslegir, þó ekki alltaf með neikvæðum formerkjum, samanber það að hollenski læknirinn, dr. Marinus, býsna eftirminnileg og stórbrotin persóna, er að kynna evrópska læknisfræði og vísindi fyrir fimm japönskum nemendum, þar af einni stúlku. Þá má nefna að stúlkan Orito og túlkurinn Ogawa eru vel mótuð. Fáir jafnast þó á við þann viðsjárverða japanska aðalsmann Enomoto, býsna stórbrotinn skúrk. En sem ég las einhverju sinni í gagnrýni um Mitchell: Hann kann að gera jafnvel skúrka sína mannlegri og eftirminnilegri en hetjur; eini munurinn felst í markmiðunum.
Sagan skiptist í þrjá hluta, sem hver um sig er hátt í 200 blaðsíður, auk tveggja stuttra eftirmála, sem gerast nokkrum árum síðar. Í fyrsta hluta er Jacob de Zoet í burðarhlutverki og sögusviðið er mestmegnis Dejima, en þó stundum gægst annað. Annar hlutinn gerist að miklu leyti í klaustri upp til fjalla í Japan. Þar eru japanskar persónur algjörlega í miðju frásagnar, en Evrópumennirnir á jaðrinum. Sá þriðji skiptir alloft um sjónarhorn, þó einkum á milli Dejima og ensks skips, sem kemur þangað í vafasömum tilgangi. Hvern hluta fyrir sig má lesa nánast sem sjálfstæða bók, en þó eru þræðir sem flétta þá saman. Og þótt Jacob de Zoet tengi alla hlutana í eina heild, þá stendur fyrst og fremst eftir ljóslifandi mynd af Dejima og af japanskri menningu í kringum 1800.
Mikilvægt einkenni frásagnarinnar er stíltilraunir Mitchell, sem að mestöllu leyti ganga upp. Stundum hef ég á tilfinningunni að höfundurinn sé galdramaður, sem geti ekki bara mótað hina fullkomnu þanka, heldur einnig valið hin fullkomlega réttu orð til að tjá þá hugsun. Þannig leikur dr. Marinus á eina harpsikordið, sem flutt hefur verið til Japan, og í eyrum Jacobs, sem liggur andvaka og hlýðir á, eru tónarnir spidery and starlit and spun of glass" (63). Mér er til efs að nokkur höfundur hafi lýst hljóðum úr harpsíkordi betur. Annað dæmi má nefna, reyndar af sömu síðu, um hvað skordýrin aðhafast á næturnar í Dejima og verður úr eins konar hani, krummi, hundur, svín"-þula: Night insects trill, tick, bore, ring; drill, prick, saw, sting." Texti Mitchell löðrar í ljóðrænu og frumlegu myndmáli, þó þannig að aldrei beri sjálfa söguna ofurliði - Mitchell er fyrst og síðast sagnameistari af æðstu gráðu. Eitt einkenni stílsins er það að þegar samtöl eiga sér stað, er skotið inn stuttum lýsingum úr umhverfinu; hið hversdagslega áreiti sem við verðum öll fyrir; og gengur þetta alla bókina í gegn. Hinn reynslulitli Jacob gengur um Dejima í viðræðum við gamlan sægarp, sem leggur honum lífsreglurnar, en á milli einstakra setninga heyrum við öldur fjara út á sjávargarði, sjáum máva hnita hringi í sólstöfum eða hundshræ í skurði, skynjum lykt af þangi eða nýsöguðum bambus, finnum hlýjan andvara kyssa kinn eða sjáum flöktandi ljósbrot sjávar endurspeglast og flögra um loft í herbergi. Þetta er hið hversdagslega, sem gerist allt í kringum okkur meðan við ræðum saman, og Mitchell reynir að birta heildstæða mynd, jafnvel með skörun skilningarvitanna af því tagi sem Baudelaire og Rimbaud boðuðu 50-70 árum eftir að þessir atburðir eiga að gerast um ævidaga de Zoet. Eftirminnileg mynd er dregin, þegar dr. Marinus leyfir Jacob að hitta ungfrú Aibagawa í hliðarherbergi, meðan hann kennir hinum læknisnemendunum fjórum; kröftug rödd læknisins, sem er að kenna um harla órómantíska líffærafræði, berst stopult inn í klaufalegt samtal parsins. Þetta er snilldarlega gert. Eða hvernig Mitchell getur lesið endalaust úr orðum, t.d. þegar Jacob liggur og hugsar um nafn ungfrúar Aibagawa: Ai, mouth opens; ba, lips meet; ga, tounge´s root; wa, lips" - nafnið eitt og sér verður ígildi ímyndaðs koss (hm, ættu ekki að vera 3 s í kossi í et. ef.?) Nærri bókarlokum stendur ein persóna bókarinnar frammi fyrir býsna hryggilegum örlögum og virðir fyrir sér heimaborg sína Nagasaki í hinsta sinn (bls. 515-516). Þetta er einhver ljóðrænasti kafli bókarinnar, og reyndar dulbúið ljóð, vegna þess að ef hægt er á lestri má finna vísuorð og rím. Og eftir stórkostlega mynd af borginni klikkir viðkomandi persóna út með eftirfarandi hugsun: The world contains just one masterpiece, and that is itself." Stuttu síðar þarf sama persóna að klæðast svörtum silkijakka fyrir dapurlega helgiathöfn og myndmálið verður stórfenglega skemmtilega og fallega mótsagnarkennt: The fine black silk is crisp as snow and heavy as air" (517).
Meira um orðsnilld Mitchell. Sem fyrr segir löðrar sagan í eftirminnilegu líkingamáli og ljóðrænu og má tína dæmi af nær hverri síðu. Þegar jarðskjálfti ríður yfir Nagasaki, þá lifnar rúmfleti Jacobs bókstaflega við. Það brotna undan rúminu tveir fætur, svo að rúmið kastar honum úr sér og hristist þvert yfir gólfið í skjálftanum eins og særð skepna í leit að skjóli, sem hún finnur undir gagnstæðum vegg (80). Túlkurinn Ogawa lýsir á bjöguðu máli fyrir Jacobi hinni örstuttu brú á milli Dejima-eyjar og fastalandsins í Nagasaki: This is longest bridge you ever cross because this bridge go between two worlds" (97). Jacob hittir elskuna sína: The breeze twists a coil of her hair around its finger" (144). Og þegar hann reynir að segja henni brandara af svartara tagi, svarar hún spaklega: Joke is secret language inside words" (143). Jacob er yfir sig ástfanginn, þar sem hann ræðir við hana í garði og þegar hún fer dettur honum eftirfarandi í hug: Creation never ceased on the sixth evening ... Creation unfolds around us, despite us and through us, at the speed of days and nights, and we like to call it ´Love´." (146)
David Mitchell er töframaður þegar kemur að notkun orða. Ég er þeirrar skoðunar að innan tíu ára verði hann talinn meðal áhrifamestu höfunda samtímans og vart útilokað að hann vinni bókmenntaverðlaun Nóbels á lífsleiðinni. Hann hefur helst tvennt á móti sér. Annars vegar er það litlaust nafnið. Hann skrifar undir eigin nafni, sem er svo lítt áberandi að hann gæti heitið Jón Pálsson á íslensku. Ef hann héti eftirminnilegu skírnarnafni (Bruno Mitchell) eða skrautlegu eftirnafni (David Ookaboolawonga), myndi nafn hans ekki tínast í hinni mjög svo háværu bókmenntaumfjöllun samtímans. Hitt, sem hann hefur á móti sér, er hæverskan. Afar lítið fer fyrir hógværum höfundinum, sem lifir kyrrlátu lífi á Írlandi með fjölskyldu sinni og er frekar spar á viðtölin. Mitchell er enginn yfirlýsingaglaður extróvert á borð við Gore Vidal eða Günter Grass. Ef leitað er líkinga í málaralistinni, þá var það hinn hægláti Braque, sem kom fram með ýmsar nýjungar kúbismans, en hinn flamboyant Picasso, sem vakti athygli á þeim á alþjóðavettvangi. Mitchell er bókmenntalegur Braque.
Af sumu því, sem ég skrifa hér, mætti ætla að ég telji Mitchell einhvers konar bókmenntalegan guð, en því fer þó víðs fjarri. Ýmsa meinbugi má finna á The Thousand Autumns of Jacob de Zoet. Um tíma er reynt að draga fram ævisögur sem flestra mikilvægra hliðarpersóna og er það stundum gert á ögn klaufalegan máta. Verkamenn í vinnu Hollenska A-Indíafélagsins setjast að kortspilum með de Zoet og drekka og ræða saman, meðan spilað er, en einhvern veginn þróast það svo að hver og einn þeirra rekur eigin ævisögu á milli þess að sett er í slagina - þetta er heldur ambögulegur frásagnarmáti. Stuttu síðar, á afar svipaðan máta, rekur dr. Marinus ævi sína fyrir de Zoet, meðan þeir spila biljarð, frá fæðingu til fullorðinsára. Einn eða tveir til viðbótar bæta við sögum sínum í lokahlutanum. Flestar þessara sagna eru áhugaverðar, hver á sinn hátt, en David Mitchell er það flinkur penni að honum ætti ekki að vera skotaskuld úr að vefja ævisögurnar inn í frásögnina á annan máta. Þá velti ég nokkuð fyrir mér biljarðspilinu; ég veit að biljarð var til á þessum tíma, en það hvernig Mitchell spinnur hann inn í frásögnina er næstum eins og lýsing á leik með Stephen Hendry í sjónvarpi. Ég hef séð gagnrýni á lítillega sögulega ónákvæmni í bókinni; að japanskar nunnur spili mah-jong um 1800 (leikurinn mun kínverskur og barst ekki til Japan á 20. öld); að persóna tali um slátrun á innfæddum á Van Diemens-landi (=Tasmaníu) árið 1800, þegar umrætt þjóðarmorð hófst ekki fyrr en árið 1805. Oft fann ég eitthvað smávægilegt, sem ég velti fyrir mér hvort gæti staðist (t.d. hvort enskur skipstjóri hefði getað notað Pears Soap um 1800), en í öllum tilvikum, þar sem ég fletti upp, stóðst það sem Mitchell sagði - nema einu sinni: Þegar hann kallar Þjóðverja Kraut", en uppnefnið atarna kom ekki fram fyrr en í fyrri heimsstyrjöld.
Í TAJZ ber mun meira á skopi og gamansemi en ég hef áður séð hjá Mitchell. Flestir Hollendinganna, aðrir en de Zoet, hafa býsna skemmtilegan húmor, t.d. dr. Marinus, Vorstensbosch yfirmaður Hollenska A-Indíafélagsins og verkamennirnir sjálfir, auk enska skipstjórans Penhaligon, en hann saknar látinnar eiginkonu sinnar Meredith, sem nú er eflaust með englunum á himnum að sauma út í púða. Oft er þessi húmor stórkarlalegur og groddalegur, eins og vænta má hjá sæförum, sem búa við stöðuga lífshættu. Í sumum tilvikum er húmorinn sagnfræðilegur; apaköttur þeirra Hollendinga á Dejima heitir í höfuðið á forsætisráðherra erkióvinarins, William Pitt, og fuglahræða þar á eyju heitir Robespierre, enda fýkur höfuð hennar af, eftir því hvernig vindar blása. Má þess geta að sagan hefst næstum nákvæmlega fimm árum eftir að hinn eini og sanni Robespierre var leiddur undir fallöxina. Gaman hafði ég líka af að lesa í eftirmála þakkir Mitchell til Lawrence Norfolk. Nú keppast þeir við að klappa hvor öðrum á öxlina, bókabræðurnir, því að Norfolk þakkaði einmitt Mitchell sérstaklega fyrir góð ráð við gerð síðustu skáldsögu sinnar.
The Thousand Autumns of Jacob de Zoet teygir sig yfir margar víddir. Þetta er söguleg skáldsaga, spennusaga, ástarsaga af fegurstu gerð, saga um grimmd og misrétti og fegurð og hugrekki og ólíka menningarheima. Kannski skör lægra sett en Cloud Atlas - sem ég tel nær ómögulegt að toppa. En ef Cloud Atlas á heima í efstu hillu, þá á The Thousand Autumns of Jacob de Zoet heima í næst efstu.
Bloggar | 16.9.2013 | 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Undarleg þykja mér þau rök að ekki skuli sækja menn til skaðabóta fyrir dómstólum á þeim forsendum að hinir ákærðu séu ekki borgunarmenn. Með sömu rökum hefði mátt réttlæta að ekki hefði átt að saksækja Bernie Madoff.
Réttarkerfi eftirhrunsáranna virðist standa höllum fæti. Kann það að stafa, a.m.k. að einhverju leyti, af því að háværir menn í umræðunni virðist líta á það sem köllun sína að vekja auðdólgasamúð með almenningi?
Bloggar | 4.9.2013 | 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Carl von Ossietzky (1889-1938) var þýskur blaðamaður og ritstjóri. Árið 1931 var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að ljóstra upp um brot þýskra stjórnvalda á Versalasamningum, en Þjóðverjar voru þá þegar í leyfisleysi farnir að byggja upp flugher, sem fáum árum síðar varð Luftwaffe. Uppljóstrunum sínum kom von Ossietzky á framfæri sem yfirlýstur friðarsinni og var hann dæmdur sem landráðamaður. Eftir að hafa afplánað dóminn seint á árinu 1932 var hann látinn laus og hóf þá óðara að vara við uppgangi nasista, einnig eftir að þeir höfðu tekið við völdum í Þýskalandi í janúarlok 1933, þegar fáir þorðu að tjá sig um aðgerðir stjórnvalda. Eftir Ríkisdagsbrunann 28. febrúar 1933 var hann meðal þeirra fyrstu sem nasistar tóku höndum og vörpuðu í fangelsi, nú án dóms, en á grundvelli þess að hann teldist hættulegur þjóðaröryggi. Þá hafði hann einungis gengið laus í 2 mánuði.
Carl von Ossietzky var haldið í einangrunarbúðum til dauðadags. Árið 1935 veitti Sænska akademían honum Friðarverðlaun Nóbels. Sagt er að Hitler hafi brugðist æfur við þeirri ákvörðun og bannað að nokkur Þjóðverji mætti taka við Nóbelsverðlaunum framar; hélst svo fram yfir lok seinni heimsstyrjaldar. Sjálfur veiktist von Ossietzky af berklum og lést af slæmri meðferð í búðum nasista árið 1938.
Dóttir von Ossietzkys barðist alla tíð fyrir því að hreinsa mannorð föður síns. Árið 1991 neituðu þýsk stjórnvöld að ógilda dóminn frá 1931, þótt þau viðurkenndu að handtaka nasista 1933 hefði ekki átt sér lagastoð.
Erum við að sigla inn í svipað andrúmsloft og ríkti um seinustu ævidaga von Ossietzkys? Menn fá þunga dóma fyrir að afhjúpa sannleikann um vafasamar aðgerðir stjórnvalda. Og menn eru ákærðir fyrir njósnir fyrir það eitt að afhjúpa mestu njósnir allra tíma. Drýgðir eru stríðsglæpir, en stríðsglæpamennirnir eru ekki dregnir fyrir dóm, heldur sá sem upplýsir um þá. Eins og árið 1933 virðist sannleikanum hafa verið snúið á haus. Og skyldi á okkar dögum vera nokkur töggur í sænsku Nóbelsverðlaunanefndinni, þeirri sömu og veitti Barack Obama friðarverðlaunin fyrir nokkrum árum?
Bloggar | 21.8.2013 | 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Í dag eru hæstaréttardómarar 12 að tölu. Allt er þetta hið hæfasta fólk, en athygli vekur misskipting kynja; þegar þetta er skrifað sitja í réttinum 10 karlar og 2 konur. Í dag er uppi allhávær krafa um leiðréttingu kynjahlutfalls í opinberum stöðum og embættum, en einhvern veginn hefur sú umræða vart náð til Hæstaréttar. Samt ætti jafnrétti kynja meðal dómara í réttinum að vera prinsippmál og reyndar grundvallaratriði í samfélagi sem vill tryggja jafnrétti. Að auki hafa á undanförnum misserum fallið umtalaðir dómar í kynferðisbrotamálum (og skyldum málum), þar sem yfirgnæfandi fjöldi karldómara virðist beinlínis hafa ráðið úrslitum um dómsniðurstöðu.
Án þess að leggja mat á umrædda dóma og án þess að hnýta í störf þeirra mætu hæstaréttardómara, sem sitja í dag, þá kýs ég að horfa fram á veginn og ræða lítillega hvernig haga megi framtíðarskipan æðstu dómsmála með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.
Það er löggjafans að tryggja jafnrétti, svo að eðlilegast væri að fest væri í lög að hæstaréttardómarar væru jafn margir af báðum kynjum, 6 og 6 að tölu. (Ef lögum um hæstaréttardómara yrði breytt í þá veru að fjöldi dómara væri oddatala, eins og þekkst hefur í íslenskri réttarsögu, þá mætti festa í lög að aldrei yrði meiri munur á kynjum en einn, þannig að ef heildarfjöldinn yrði aukinn í 13 dómara, þá yrði hlutfallið aldrei annað en 7/6, og aukinheldur að ef einn dómari léti af embætti, bæri að velja dómara af hinu kyninu, svo að annað kynið gæti ekki orðið ráðandi um meirihluta.)
En hvernig má ná þessari kynjajöfnun, 6/6, í Hæstarétti? Ef það yrði gert í einni svipan þyrfti að grípa til fremur harðra, þvíngandi aðgerða á borð við að setja lagaákvæði þaraðlútandi að næstu fjórir dómarar, sem skipaðir verði, yrðu allir konur. Ef svo færi, þá er hætt við að gengið yrði framhjá hæfum karldómurum, sem leitt gæti af sér hvimleitt kynjafræðilegt argaþras. Sjálfur tel ég nauðsynlegt að innleiða breytingar af þessum toga á mildari hátt, t.d. með bráðabirgðalagaákvæðum þess efnis að valið verði sitt á hvað, þegar skipaðir eru næstu 7 hæstaréttardómarar, þ.e. að kona yrði næst valin, þá karlmaður, svo aftur kona og þannig koll af kolli þar til jafnri tölu væri náð. Þannig mætti ná markmiðinu með hægfara innleiðingu, æsingarlaust og án þess að umbylta réttinum að öðru leyti. Auk þess ætti þessi aðferð að tryggja að ekki yrði gengið framhjá hæfum karldómurum.
Tæki þessi innnleiðing of langan tíma? Nei, ég tel ekki. Hafa ber hugfast að hæstaréttardómarar eru jafnan í eldri kanti valdir m.a. með hliðsjón af reynslu, sem eingöngu fæst með árum. Auk þess skilst mér að þeir megi láta af störfum skömmu eftir sextugt frá undangengnum árum man ég eftir a.m.k. tveimur tilvikum, þar sem dómarar í réttinum hafa látið af embætti áður en þeir komust á fullan aldur. Í ljósi þess að allmargir hæstaréttardómarar munu láta af störfum fyrir aldurs sakir (eða af öðrum ástæðum) á næstu 10-20 árum ætti að nást að innleiða þessa breytingu innan viðunandi tímamarka. Ljóst er hins vegar að þessu takmarki verður ekki náð nema til staðar sé markviss og meðvitaður vilji löggjafans, þ.e. Alþingis, um að tryggja jafnt kynjahlutfall í Hæstarétti.
Bloggar | 18.8.2013 | 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fyrir ári bloggaði ég um afar merkilega og áhrifaríka erlenda bók, sem heitir Mennirnir með bleika þríhyrninginn, sjá hér. Þykir mér sannkallað ánægjuefni að sjá að bókin sú er nýútkomin á íslensku. Hún hefur að geyma frásögn homma, sem lifði af hörmungar útrýmingarbúða nasista. Sagan er sögð umbúðarlaust og blátt áfram, og verður máske átakanlegri og harkalegri fyrir vikið. Þótt hommar séu í forgrunni, þá er sagan í reynd minnisvarði um hörmungar allra þeirra, sem lentu undir þessu andstyggilega oki. Veitt er fádæma innsýn í sjálfsbjargarviðleitni manna; hve langt þeir eru reiðubúnir að seilast til að hjara; hve miklu þeir eru viljugir að fórna af mannlegri reisn til að hanga í líftórunni. Þótt Mennirnir með bleika þríhyrninginn verði seint talin skemmtilestur, þá er þetta mjög þroskandi og upplýsandi lesning, sem ég get mælt með. Bók sem þessi hlýtur að eiga sér lesendahóp langt út fyrir samfélög samkynhneigðra - efni hennar er í reynd siðferðilegar spurningar um grimmd, sjálfsbjargarviðleitni og mannlega reisn.
Bloggar | 11.8.2013 | 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í þriðju sögunni í Cloud Atlas eftir David Mitchell er blaðakonan Luisa Rey á kafi við að leysa dularfullt spillingarmál árið 1975. Á einum stað og eingöngu einum, í örstuttri setningu, er nefnt að hún er með bókina Zen and the Art of Motorcycle Maintenance í handtösku sinni. Þessi augnablikstilvísun þenur söguna um Luisu Rey út um margar víddir ef menn hafa lesið umræddar handtöskubókmenntir. Fyrir um 35 árum las ég ZATAOMM og taldi hana þá meðal bestu bóka, þótt hún væri um 400 bls. með afar þéttum texta, sem oft er heimspekilegt fagmál. Svo góð þótti mér hún að ég endurlas ég hana fáum árum síðar. Og í þriðja skiptið fyrir skemmstu.
Erfitt að skilgreina Zen and the Art of Motorcycle Maintenance, því að hún er alls ekki skáldsaga, þótt hún hafi sterk skáldsöguleg element. Ekki er heldur beinlínis hægt að kalla hana sjálfsævisögu; hún er vísvitandi færð í stílinn til að þjóna bókmenntalegum tilgangi, þótt höfundur segi rétt að líta á hana sem sannsögulega í grundvallaratriðum. Vissulega er hún ferðasaga - hún fellur ágætlega inn í hefð On the Road eftir Kerouac og Travels with Charley eftir Steinbeck (sem minnir mig á að ég þarf að endurlesa þá dásamlegu bók). ZATAOMM er ferðasaga í ytri og innri skilningi, efnislegum og andlegum, eiginlegum og táknrænum. En þetta er fyrst og fremst heimspekirit - enda ber bókin undirtitilinn An Enquiry into Values - og fjallar um grundvallarspurningu mannlegrar tilveru: Hvað er gott? Í hverju felast gæði? Hvað er gott líf? Og hér gerist hinn merkilegi umsnúningur: Siðfræðilegri spurningu er snúið upp í frumspekilega. Reyndar vilja ekki allir hefðbundnir heimspekingar telja heimspeki bókarinnar marktæka - þetta sé í besta falli einhvers konar síð-hippaheimspeki. Og samt ekki.
Skáldsaga, sjálfsævisaga, ferðasaga, heimspekirit: Stöldrum aðeins við og horfum til þess tíma þegar bókin kom út. Hippaheimspekin hafði lifað góðu lífi fram yfir 1970, þegar tók að fjara undan henni. Árið 1974 kom ZATAOMM út - síð-hippaheimspeki kannski - og vegur bókarinnar óx á næstu árum. S.hl. 8. áratugar síðustu aldar var um margt merkilegur. Enn eimdi eftir af hippamenningu - í tónlist lifði hún í easy-listening tónlist á borð við Eagles, America og nýja" Fleetwood Mac (sem var reyndar afar poppuð hljómsveit, en gamla" Fleetwood Mac hafði verið últra-hippismi svo að þunn brú var til staðar). Progg-rokkið hafði líka haldið hippatónlistinni gangandi meðan grafið var undan henni úr öðrum áttum, í fyrstu með hedónísku glys-rokki, síðan forheimskandi diskói og loks með kúltúrlausu pönki. Sjálfur var ég lítt hrifinn af íkonóklastísku pönkinu sem engu eirði með anarkisma sínum. Flókin og úthugsuð tónlist lærðra músikanta var jörðuð, mannbætandi heimspeki og flögrandi bókmenntir hippanna einnig. Við þessar aðstæður var ég í reynd frekar einhvers konar málsvari síð-hippismans. Við félagarnir vorum þokkalega andlega þenkjandi, heimsóttum af opnum huga alla mögulega sértrúarsöfnuði (þar sem moon-istar voru einkennilegastir allra), hnusuðum að stjörnuspeki og tarot-spilum og I Ching, lærðum Desiderata utanbókar og drukkum í okkur Bhagavad-Gita og Bókina um veginn, Spámanninn eftir Kahlil Gibran, bækur Alan Watts um Zen og Siddartha eftir Hesse; bækur sem fjölluðu um að lifa í núinu og safna ekki veraldlegum auði. Ekki án kinnroða viðurkenni ég að hafa á sama tíma orðið fyrir einhverjum áhrifum frá lítilsigldari verkum af svipuðum toga, sem síður hafa staðist tímans tönn, eins og ljóðum Susan Polis Schutz eða Illusions eftir Richard Bach. Sumir voru á kafi í verkum Carlos Castaneda, þó ekki ég. Inn í þennan hugmyndaheim kom ZATAOMM sem stormsveipur - og smellpassaði.
Á sínum tíma varð Zen and the Art of Motorcycle Maintenance ekki bara fræg að eigin verðleikum, heldur líka vegna óvenjulegrar útgáfusögu. Höfundur fékk 121 sinni höfnun á handritið, áður en útgefandi þorði að leggja út í ævintýrið, og þá með þeim fyrirvara að höfundur skyldi ekki vænta mikils umfram hefðbundinnar fyrirframgreiðslu, því að bókin væri ekki söluvænleg. En svo varð bókin á skömmum tíma metsölubók. Þetta minnir ögn á harmsögu annarrar bókar, hinnar óviðjafnanlegu A Confederacy of Dunces (Aulabandalagið) eftir John Kennedy Toole, sem gekk milli Heródesar og Pílatusar með handrit sitt, en fékk sífellt neitun, svo að endingu biðu höfundar bara bílskúr, gúmmíslanga og vænn skammtur af kolmónoxíði. Þá má einnig skoða ZATAOMM í samhengi við sprengibækur á borð við Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger og To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee; í öllum tilvikum hlutu verkin svo gríðarlega athygli að höfundarnir nánast hlupu í felur og skiluðu litlu höfundarverki til viðbótar það sem eftir lifði ævinnar. Catch-22 og One Flew Over the Cuckoo´s Nest má telja meðal áþekkra sprengibóka, þótt Heller og Kesey hafi skilað ríkara ævistarfi á sviði bókmennta en Salinger, Lee og Pirsig.
Aftur að Zen and the Art of Motorcycle Maintenance. Höfundur hennar er Robert M. Pirsig og sagan greinir frá því þegar hann ferðast á mótorhjóli á 12 dögum að sumarlagi þvert yfir norðvesturríki Bandaríkjanna með ellefu ára gamlan son sinn, Chris, aftan á hnakknum. Framan af aka einnig með feðgunum vinahjón höfundar á öðru mótorhjóli. Fljótlega kemur í ljós að sögumaður hefur ekki alltaf verið heill á geði, heldur hefur hann á einhverjum tímapunkti farið yfir um" og verið lagður inn á geðsjúkrahús. Ferðin er farin m.a. til þess að endurheimta traustið og styrkja böndin gagnvart syninum. Sjálfur lýsir sögumaður ferðinni sem Chautauqua, sem voru vinsæl sumarferðalög menntafólks og skemmtikrafta um Bandaríkin fyrr á tímum, ca. 1875-1925, ætluð til að mennta, uppfræða og þroska landslýð til sveita, með fyrirlesara jafnt sem tónlistarfólk í hópnum, en sögumaður ZATAOMM telur að útvarp og sjónvarp hafa riðið þessu merka menningarfyrirbæri Chautauqua að fullu á sinni tíð - og það fyrir tíma tölvu-, net- og símaæðis heimsins. En í ZATAOMM lýsir sögumaður ferð sinni sem einhvers konar persónulegu Chautauqua, uppfræðandi ferðalagi að gamalli fyrirmynd.
Bókin er þó svo miklu miklu meira en ferðasaga. Jafnhliða því að faðirinn reynir að púsla saman eigin sjálfsmynd og endurvekja laskað traust sonarins, er rakin 2500 ára saga heimspekihugsunar, austrænnar sem vestrænnar, af þekkingu og innsýn. Í þeim skilningi gæti bókin fallið í flokk með verkum eins og Veröld Soffíu eftir Jostein Gaarder eða Hver er ég - og ef svo, hve margir? eftir Richard David Precht, nema hvað Pirsig heldur áfram að draga ályktanir, þróa og setja fram eigin heimspeki á grundvelli eldri kenninga, vestrænna og austrænna. Pirsig (f. 1928) á sér býsna merkilega ævi, var í æsku greindur sem undrabarn með greindarvísitölu upp á 170 (svona til að halda áfram með greindarpælingar síðasta bloggs), hóf 15 ára að læra lífefnafræði í háskóla, var kallaður í herinn, gegndi herþjónustu í Kóreu nokkru fyrir Kóreustríðið, fékk þá djúpan áhuga á austrænni heimspeki, lauk háskólaprófi í henni 1950 og hélt síðan til náms á Indlandi fram eftir 6. áratugnum, sem ekki var algengt þá - á þeim árum var hann sumpart á undan sinni samtíð, næstum hippi á tímum bítnikka. Til Bandaríkjanna fór hann aftur og starfaði m.a. sem blaðamaður um hríð, en varð síðan kennari í skapandi skrifum við háskólann í Montana. Hann var einmitt að byrja að móta heimspeki sína sem háskólakennari á þeim tíma þegar Jack Kerouac og Neal Cassady voru að þvælast á vegum úti. Eftir nokkur ár í kennslu fékk hann taugaáfall, sem urðu til að sundra fjölskyldunni, og gekk inn og út af geðsjúkrahúsum um nokkurra ára skeið, um það leyti þegar Steinbeck leitaði að Ameríku á húsbílnum Rosinante. Öll þessi ævisögulegu atriði Pirsigs eru dregin fram í ZATAOMM, en tilheyra fyrra lífi höfundar, því sem hann hefur grafið og gleymt vegna geðveiki og er um leið að rifja upp á ferð sinni. Sögumaður er því að berjast við eigin fortíðardraug, sem hann kallar Phaedrus, en það nafn er vísun í samnefnda samræðu Platóns, Faidros, þann sem skeggræddi við Sókrates. Í útgáfu Platóns er það auðvitað meistarinn Sókrates, sem hefur betur, en Pirsig er inni á því að þarna liggi ákveðin tímamót í vestrænni heimspekihugsun, sem orðið hafa til þess að hún hafi þróast í óæskilega átt með tvíhyggju sinni og aðgreiningu sálar og líkama. Pirsig tekur í raun upp hanskann fyrir andstæðinga Sókratesar, þ.e. sófistana og hina pre-sókratísku heimspekinga (sem koma sterkir inn í lokahluta bókarinnar), og vill beina heimspekihugsun inn á nýjar brautir, þar sem dúalisma er hafnað. Í vissum skilningi ræðst Pirsig gegn þekktasta þríeyki heimspekisögunnar - Sókrates, Plató og Aristóteles - og veitir sófistunum uppreisn æru: Þetta er síðasta varnarræða sófistanna. ZATAOMM lýsir þannig því sem henti Pirsig blessaðan, jafnt persónulega sem frá sjónarhóli heimspekinnar. Sumpart kallast þetta rit á við hina stórfrægu Huggun heimspekinnar eftir Böetíus frá 6. öld; nauðsynlegt er að nálgast heiminn á heimspekilegan hátt til að skilja og græða tilvistarsárin.
ZATAOMM fer hægt af stað. Framan af virðist þetta ferðasaga með óhemjumiklum fróðleik um viðgerð vélhjóla. Þar sem ég er enginn sérstakur áhugamaður um mótorhjól (en þó ekki með öllu áhugalaus um gildi viðgerða) man ég að sá hluti hreif mig lítið fyrr á tímum og skipaði ég honum í óæðra sess - þar til ég las ritdóma eftir lesendur, sem sögðust ekkert botna í heimspeki verksins, en hefðu lært skrambi mikið um vélhjólaviðgerðir við að lesa það. Hvað um það, langar lýsingar á vélahlutum, verkfærum og viðgerðum - af því að það getur komið sér vel að kunna slíkt á ferðalagi. Smám saman afhjúpast árekstrar föður og sonar og í ljós kemur hin ægilega gjá, sem sjúkdómur föðurins hefur valdið í fjölskyldunni. Ferðalagið mun Pirsig, þá fertugur, hafa farið árið 1968, þótt hvergi sé ártal nefnt í sögunni, en annars má ráða það af því að sonurinn Chris er 11 ára í bókinni, en hann mun hafa verið fæddur árið 1957. Má því ætla að bókin sé skrifuð fyrir eða um árið 1970, með tilliti til erfiðleika við útgáfu hennar. Svo má nefna að ZATAOMM hefur harmsögulega vídd utan frásagnarinnar, vegna þess að upplýstur lesandi, sem hefur lesið sér lítillega til um verkið, veit að ein lykilpersóna bókarinnar, sonurinn Chris, var í raun myrt fimm árum eftir útgáfu bókarinnar, að því er virðist af hreinni og óútskýrðri hendingu. Þannig að í hinu stóra samhengi er Pirsig ekki bara að tala við draug eigin fortíðar, heldur líka raunverulegan draug sonar síns. Þetta leiddi til þess að árið 1984 bætti hann stuttum eftirmála við bókina, sem fylgt hefur öllum síðari útgáfum, og þar gerir hann grein fyrir afstöðu sinni til fráfalls sonarins, en eftirmálinn er ekki í þeirri gerð, sem ég las, svo ég fjalla ekki um hann.
Snúum að heimspekinni: Með bókinni reynir Pirsig að ýmsu leyti að sætta tæknihugsun Vesturlanda annars vegar og austræna heimspeki þess að kunna að lifa í núinu í samhljómi við aðra menn, umhverfi og náttúru, m.ö.o. að samræma tæknisamfélagið og hippaheimspekina. En Pirsig er svo sannarlega enginn hippi; þvert á móti gagnrýnir hann oft hugmyndafræði þeirra og þegar hann skrifar bókina er hann fertugur kall, sem á sér heilmikinn borgaralegan bakgrunn, þótt hann kjósi að eyða sumarleyfi á mótorhjólaferðalagi. Ekki kemur á óvart að á þeim tíma sem bókin er skrifuð hefur hann atvinnu af því að ritstýra leiðbeiningabæklingum, m.a. um vélasamsetningar. Stíll bókarinnar er einkennilega rökrænn og blátt áfram, að mestu leyti þannig að lesandinn er aldrei í vafa um hvað sögumaður er að tala. Lítið fer fyrir ljóðrænu myndmáli eða líkingamáli; höfundur viðurkennir blátt áfram að hann velji þá afstöðu að vera square frekar en hip til að koma boðskap sínum áleiðis. Bókmenntalegir eiginleikar verksins felast því ekki svo mikið í stílbrögðum, heldur frekar hvernig hrært er saman hinum ólíku bókmenntagreinum - ferðasögu, viðgerðafræðum, heimspekifróðleik og afar persónulegri harmsögu - svo að gangi upp. Stundum virðist höfundur fara út um víðan völl með efnið, í einhvers konar stóran hring, en lesandinn áttar sig á því að þetta er sefjandi stílbragð; brátt er komið aftur að sama atriði og áður, einu laginu dýpra.
Í reynd segir hinn snilldarlegi titill flest sem segja þarf um bókina. Þar er teflt fram tveimur andstæðum: Zen, þrír stafir, hið örstutta og leiftrandi augnablik innsæis, og the Art of Motorcycle Maintenance, næstum þrjátíu stafir um hvernig eigi að láta tæki virka með þolinmóðum viðgerðum og ígrundun. Og bókin fjallar rækilega um þetta tvennt, zen og viðgerðir á vélhjólum (og reyndar fleira). Stóra spurningin er hvort þetta séu andstæður og höfundur færir fram sannfærandi rök fyrir því að svo sé ekki. Mótorhjólaviðgerðirnar gætu alveg eins verið ræktun á bonzai-trjám. Pirsig leitast við að finna þætti, sem sameina hina ævafornu tvíhyggju vestrænnar heimspeki, sem greinir á milli hughyggju og efnishyggju, líkama og sálar, og kemst að eigin niðurstöðu, býsna áhugaverðri. Þetta er ekki alltaf skemmtilestur - rakin er saga heimspekinnar, fléttuð hugmyndum Pirsig frá fyrri" árum, áður en hann var lagður inn á geðsjúkrahús. Merkilegt má teljast að hann finnur helst samkennd í vísindaheimspekilegum niðurstöðum franska stærðfræðingsins Poincaré, sem uppi var um aldamótin 1900, en þegar upp er staðið er einnig æði margt líkt með heimspeki Pirsig og samtímamanns Poincaré, landa hans Henri Bergson, þótt Bergson sé eingöngu nefndur á einum stað í allri bókinni, í upptalningu fjölmargra hughyggjuheimspekinga.
Zen and the Art of Motorcycle Maintenance er bók sem verður að lesast hægt og hugleiða jafnóðum. Hún er, sem fyrr segir, enginn skemmtilestur eða page-turner, og fellur því máske illa að þeim nútíma sem heimtar stöðugt meiri hraða og æsing. Sjálf ferðasagan er máske ekki upp á marga fiska - þeir feðgar þeysast yfir strjálbýl héruð í norðvestanverðum Bandaríkjum, frá Wisconsin til Kyrrahafs, staldra við stutt í hverjum smábæ öðrum líkum og bindast litlum tengslum því fólki sem verður á vegi þeirra. Hafa ber í huga að upphaflegt handrit að ZATAOMM var víst nokkuð hundruð blaðsíðum lengra og útgefandinn setti Pirsig það skilyrði að stytta það; líklega hefur hann einkum skorið af ferðasögunni. Sitthvað, sem gerist á ferðalaginu, verður höfundi þó tilefni til hugleiðinga og tenginga við heimspekilega rökleiðslu. Persónulega harmsagan og átakasaga feðganna er mun athyglisverðari - en hún afhjúpast afskaplega hægt og ekki að fullu fyrr en í lokin. Langmerkilegasti hluti bókarinnar er þó heimspekin sjálf - hvort sem menn gangist inn á hana eða hafna, þá er þetta rússibanareið um hinn langa veg heimspekisögunnar, með stórmerkilega eigin niðurstöðu höfundar.
Robert Pirsig lét lítið fyrir sér fara eftir útgáfu metsölubókar sinnar, lagðist í ferðalög og bjó víða um heiminn, oft í skútu sinni, m.a. í Noregi og Svíþjóð, en hann mun sænskættaður í móðurlegg. Með tímanum gerðist hann hreggbarinn sæúlfur, klæddist duggarapeysu, safnaði skeggi og varð dálítið líkur Hemingway á Key West-árunum. Mér vitanlega skrifaði Pirsig einungis eina aðra bók, þar sem hann hugðist gera upp við siðfræði á svipaðan hátt og frumspeki í fyrri bókinni. Seinni bókin hét Lila; An Inquiry into Morals og þar hefur bátasigling um austanverð Bandaríkin leyst af hólmi mótorhjólareið. Þá bók las ég á sínum tíma, en varð ekki fyrir jafn sterkum áhrifum. Máske þarf ég að endurlesa hana einnig.
Það er eitthvað táknrænt og dæmigert við það að í kvikmyndaútgáfunni af Cloud Atlas er Zen and the Art of Motorcycle Maintenance skipt út fyrir tilvísun í verk Carlos Castaneda, sem eru miklu hippalegri með sinni hugvíkkun og meskalínneyslu. Þeir sem vilja hreinræktaða hippaheimspeki gætu orðið fyrir heilmiklum vonbrigðum með ZATAOMM og bókin er máske ekki fyrir alla. Hún einkennist af ákveðnum fjarlægum tóni, sem gæti jafnvel virkað fráhrindandi og kuldalegur, þótt hann sé máske fyrst og fremst heiðarlegur af hendi sögumanns; það er gjá einmanakenndar milli hans og allra annarra, hvort sem það er sonurinn, meðferðarfólkið eða lesendur. Stundum fær maður á tilfinninguna að sögumaður sé í bestu sambandi við mótorhjólið sitt. Samt er einlægnin ótvíræð; þetta virðist fullkomlega heiðarlegt og vægðarlaust lífsuppgjör. Og mótorhjólið er, þegar upp er staðið, tákn fyrir eitthvað allt annað og miklu stærra - eiginlega hvernig eigi að lifa merkingarbæru og innihaldsríku lífi. Af dómum á lestrarhestasíðum á borð við goodreads, librarything og fleiri sýnist mér mega skipta lesendum ZATAOMM í þrennt: Þeir sem gefast snemma upp á bókinni - og gefa henni þá jafnan (ósanngjarnt) lága einkunn; þeir sem komast á leiðarenda, en finnst heimspekin uppblásin og ómerkileg; og loks þeir sem dást að henni, telja hana stórmerkilegt framlag til heimspeki og mögulega útgönguleið út úr vandamálum nútímalífs. Í báðum seinni hópum, þar sem menn ljúka við bókina, er að finna fjölmarga ritdómara með heimspekimenntun. Bókin virðist bjóða upp á að annað hvort hati menn hana eða dái. Ég tilheyri síðarnefnda hópnum og tel Pirsig ótvírætt djúpan hugsuð. Og mér finnst að margir þeir, sem gagnrýni bókina sem intellektúelt snobberí séu einmitt sekir um ... nákvæmlega það. Það verður ekki oft sagt um bækur að þær breyti lífi lesenda, en ZATAOMM gæti einmitt gert það. Aðrir kunna að fussa og sveia. Vissulega hafa hugmyndir Pirsig eitthvað náð til fólks, því að Zen and the Art of Motorcycle Maintenance hefur selst í fimm milljónum eintaka á heimsvísu og hefur verið sagt um höfundinn að hann sé mest lesinn heimspekinga frá síðustu áratugum; ég veit þó ekki hvar þeir standa í samanburði í sölutölunum, hinn látni Baudrillard eða hinn sprellfjörugi Slavoj Žižek. Heimspeki Pirsig er eins og lóð á reislu, sem fær vogaskálar hlutveru og hugveru til að haldast í fullkomnu jafnvægi. Þar er leitast við að setja fram heildstæða skýringu á tilverunni. Bók Pirsig er ekki alltaf skemmtilestur, stundum jafnvel þrúgandi bersögul ... en hún gæti breytt grundvallarafstöðu lesandans til tilverunnar. Þegar hún var skrifuð, átti hún að styrkja stöðu hlutveruleikans gagnvart þeirri hughyggju, sem einkenndi hippaheimspeki. Í dag hefur bókin þveröfuga virkni, hún gæti eflt andleg verðmæti í heimi yfirgengilegrar efnishyggju. Í þeirri merkingu á hún tvímælalaust erindi til nútímans.Bloggar | 1.8.2013 | 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þegar ég lagði af stað við lestur nýjustu bókar Dan Brown, Inferno, var það af nokkru yfirlæti, því að ég var næsta viss um að bókin bæri nafn með rentu. Síðasta bók Brown, The Lost Symbol, var með eindæmum slæm og ég hafði lesið nokkra enska ritdóma um Inferno, þar sem höfundur var skotskífa fyrir kastpílur gagnrýnenda.
Eftir lestur bókarinnar er ég ekki að öllu leyti á sömu skoðun. Með Inferno þykir mér Brown sumpart hljóta uppreisn æru og sjálfur hafði ég skemmtan af bókinni á löngum köflum, einkum um miðbikið, eins og ég vík að síðar. Fyrir mér er Brown nefnilega stórmerkileg blanda: Ótrúlega hugmyndaríkur höfundur sem er með afbrigðum klaufalegur við að koma hugmyndunum á blað. Allir þekkja hinn hraða stíl hans - æsingarfullur eltingarleikur sem gengur út á að afhjúpa leyndardóma, sem oftast eru vafðir inn í mörg lög af dulmáli, þar sem gjarnan er krafist djúprar þekkingar á táknfræði - sem Robert Langdon einn getur ráðið, oftar en ekki þó ásamt með laglegri hnátu á hlaupunum (og aðstoðarstúlkan sú er að jafnaði hámenntuð og/eða bráðgreind; það þarf ekki að lesa langt inn í Inferno til að fá að vita að hjálparhella Langdons er með greindarvísitöluna 208!). Þetta er meðal þess, sem mér þykir klisjukennt, formúlukennt og lítt eftirsóknarvert við skrif Brown. En ef þetta er það sem aðdáendur hans vilja, þá er óhætt að nefna strax að allt er þetta til staðar í Inferno, næstum til jafns við hans betri bækur.
Annar handleggur er persónusköpun Brown - eða skortur á henni, réttara sagt, enda lítill tími fyrir langar og djúpar sálarlífslýsingar á harðahlaupum. Langdon sjálfur er ótrúlega einhliða persóna - við vitum að hann er hávaxinn (sex fet), myndarlegur, dökkhærður, miðaldra kennari í táknfræði við Harvard og hann gengur dags daglega í Harris Tweed-jakka af tiltekinni bestu sort og ljósum khaki-buxum og smokruskóm úr leðri, er með Mikka Mús-armbandsúr á handleggnum (og hefur átt í 40 ár, gjöf frá foreldrum hans, sem á að kenna honum að taka lífið ekki of alvarlega og brosa mikið - en það er nú hægara sagt en gert, þegar maður er stöðugt á harðakani í lífshættu). Langdon verður eins og niðurbrotinn maður, þegar hann glatar bernskugripnum og lítur lon og don á úlnliðinn af gömlum vana. Til viðbótar erum við minnt á það hvað eftir annað að hann er haldinn sjúklegri innilokunarkennd, sem er afleiðing af því að Langdon festist ofan í brunni í bernsku, og á fullorðinsárum má hann ekki fara svo inn í kompu eða ruslatunnugeymslu að ekki grípi hann andnauð og svimi.
Komið. Þetta er Robert Langdon, klipptur og skorinn. Ekkert heimilislíf - hann er ókvæntur og virðist helst una einn við að flytja frábæra fyrirlestra í vinnunni á daginn og bókalestur um fag sitt á kvöldin. Hann virðist enga ættingja eiga; ekki systkin eða frændfólk. Áhugamál önnur en vinnan? Jú, lítillega er gefin í skyn sundiðkun hans, en annars virðist hobbí ekki til staðar - þau eru ekki nefnd nein í Inferno. Hann hefur ljósmyndaminni (sem einhverra hluta vegna þarf alltaf - og margsinnis - að kalla eidetic memory í bókunum, í stað photographic memory). Nema hvað í Inferno bregst honum minnislistin; bókin byrjar á því að hann vaknar upp á sjúkrahúsi gjörsamlega án minnis um 2 síðustu daga; var síðast þegar hann mundi staddur í Bandaríkjunum, en vaknar upp minnislaus í Flórens á Ítalíu.
Örfá orð um aldurinn á Langdon sem ég held að sé aldrei nefndur berum orðum, en maðurinn virðist á fimmtugsaldri. Þó eru vísbendingarnar mótsagnarkenndar. Í fyrsta lagi kemur fram að hann hefur átt úrið góða í 40 ár og þegið að gjöf frá foreldrum. Hins vegar er kona, 61 árs gömul, sem hugsar til þess að hann sé vart eldri en svo að hann gæti verið sonur sinn. Hann virðist samt telja sig of gamlan fyrir aðra konu sem er 33 ára að aldri. Lesendur mega nú reikna að vild.
Aðrar persónur Inferno og bóka um Langdon: Þær eru að öllu jöfnu glæsilegar (jafnvel konan, sem er 61 árs, er frámunalega fögur og virðuleg) og yfirmáta vel gefnar, sbr. að honum veitir ekki af aðstoðarmanneskju með greindarvísitöluna 208. Til fróðleiks gúglaði ég lítillega um greindarmælingar og samkvæmt því nær 1 af hverjum milljón einstaklingum IQ upp á 175 (sem þýðir að vart greinist nokkur Íslendingur nálægt því marki), Einstein er metinn einhvers staðar á bilinu 160-190 (hvernig sem það nú passar inn í tossaumræðu undanfarinna vikna) og eingöngu virðast 4 einstaklingar í sögunni (allt karlmenn!) hafa verið metnir með greindarvísitölu yfir 200. Jæja, Langdon veitir ekkert af því að fá með sér á flóttann gullfallega þrítuga enska konu, með greind sem er ekkert slor, þótt hún hafi ílengst sem læknir á ítölsku sjúkrahúsi.
Sem fyrr segir: Aðalpersónur eru greindar og fallegar, eins og Langdon. Ef persónur eru ólögulegar, ljótar eða feitar, þá eru þær aukapersónur. Þarna er líka brjálaði en ofursnjalli og fjallmyndarlegi vísindamaðurinn - það er jú hann sem útbýr allar gáturnar ... og maður veltir fyrir sér hvað eftir annað: Til hvers í ósköpunum eru þær? Þarna er líka útgáfa af Lisbet Salander, þ.e. broddhærður pönkaður leigumorðingi af veika kyninu (þetta orðalag setti ég vísvitandi inn: a) Til að hrella þá sem eru málfarslega rétttrúaðir, og b) Af kaldhæðni því að þetta er kvensa sem ég mundi ekki vilja mæta) á mótórhjóli - hún skýtur á allt sem fyrir verður þegar hún er í drápshug. Svo er þarna myndarlegi sérsveitarforinginn með ísköldu augun - en hann virðist starfa fyrir einkasamtök og samt geta snúið öllu lögregluliði Flórens í sína þágu. Eða hvað? Jú, og svo eru þarna dularfullu leynisamtökin, með stjórnstöð sína á 90 metra löngu og hátæknivæddu skipi á Adríahafinu. Og hafið engar áhyggjur, ég er ekki að ljóstra neinu upp, sem ekki kemur fram á fyrstu 20 blaðsíðum þessarar tæpra 500 síðna bókar.
Ofan á staðlaðar manngerðir og staðlaða framvindu bætist við staðlaður stíll höfundar, sem er merkilega flatur. Setningar eru stuttar og auðlesnar, þótt einstaka sinnum skjóti upp kolli sjaldsén orð. Með reglulegu millibili birtast skáletraðar málsgreinar, sem eiga að vera lykilatriði leyndardómanna, margtuggin eins og lesendur standi ótal þrepum neðar í lestrarskilningi en höfundurinn. Endurtekningar eru miklar (upprifjun fyrir tossana?) og ákveðið dálæti á tilteknum orðum og orðasamböndum (eidetic, gasp audibly). Þá finnst mér alltaf frábær þessi hæfileiki Langdon að geta ýmist flutt eða rifjað upp heilu fyrirlestrana, þegar hann er á hröðum flótta til að bjarga sjálfum sér og mannkyninu. Og þessir fyrirlestrar hugans eru alltaf fullkomnir og flottir, hvort sem þeir hafa verið fluttir í Harvard eða Vín, og áheyrendur éta alltaf úr lófa hans. Annars þótti mér ágætlega orðað það sem einn enskur bókmenntagagnrýnandi skrifaði um Inferno, eitthvað í þessa veru: Stíll Brown hefur tekið stórstígum framförum, farið frá því að vera hræðilegur upp í að vera afar vondur."
Jæja, er ég búinn að dissa Brown nóg? Nei, ekki alveg. Sjálf atburðarásin er víðáttuvitlaus, með svo mörgum U-beygjum að reynt er að gera lesandann kolringlaðan. Brown gerir beinlínis í því að blekkja lesendur með því að veita innsýn í hugarheim persóna, sem síðan reynist villigata. Yfirgengilegar ráðgátur - til hvers í ósköpunum, veltir maður fyrir sér, þegar upp er staðið - og yfirgengilegir eltingarleikir, þar sem einhver þátttakandi hasarsins, eiginlega hver sem er, hefði á einhverjum tímapunkti getað staldrað við og sagt: Getum við aðeins stoppað, rætt saman og gert út um málin eins og siðmenntað fólk?"Og sagan hefði fallið flöt.
Nóg af dissinu - nú kemur rúsínan í pylsuendanum. Ég er nefnilega inni á því að Dan Brown búi yfir einhvers konar snilligáfu. Það er með ólíkindum hvað honum detta í hug flóknar ráðgátur (misflóknar og misdjúpar, að vísu, og sumar nokkuð augljósar ef lesandinn er þokkalega vel að sér í viðfangsefninu). Jafnvel er svo komið að listheimurinn dregur dám af skrifum hans og kennir listasögulegar ráðgátur við hann. Ég las nýlega grein í Nature um hið leyndardómsfulla málverk Húðstrýkingin eftir Piero della Francesca, en greinin gekk út á tilgátu um að myndlesturinn fælist í ráðgátu, sem gæti sómt sér í sögu eftir Dan Brown". Að sjálfsögðu eru ráðgátur Brown tóm hugarleikfimi - sudoku fyrir þá sem kunna að meta - og síst til þess fallnar að gera sögur hans trúverðugri - en það er gaman að þeim.
Brown ber með sér að hann er sprottinn upp úr bandarísku umhverfi. Hann skrifar hraðsoðinn stíl, líklega einkum fyrir bandarískan markað, en hefur í reynd heilmikinn metnað til að draga lesendurna með sér upp á hærra plan, sem ella væri þeim lokað. Best tekst honum upp þegar hann velur sér sögusvið í Evrópu, vegna þess að hann kemur sjálfur að evrópskri menningu með ferskum augum og takmarkaðri virðingu. Samt hefur Brown sýnilega einlægan áhuga á listum og menningu, enda nefnir hann iðulega smáatriði, sem engu máli skipta fyrir framvinduna. Sagan löðrar í fróðleik um endurreisnartímann í Flórens (og í fleiri borgum, sem ekki verða nefndar hér) og á köflum verður Inferno nánast eins og ferðabæklingur, með ártölum bygginga og hæð turna og útlitslýsingum listaverka. Í sögu sinni er Brown þó orðinn nógu slunginn til að sneiða framhjá allra frægustu byggingum og listamönnum. Í Flórens heimsækir hann hvorki Uffizi né Il Duomo í eltingarleiknum, en þræðir frekar næst-frægustu" staðina, og vísbendingarnar er ekki að finna í verkum þeirra langfrægustu, Leonardo eða Michelangelo, heldur þeim næstfrægustu, Botticelli og Vasari. Reyndar er bókin svo góð kynning fyrir Flórens að borgaryfirvöld eru víst þegar farin að greina aukningu ferðamanna þangað vegna hennar og þá sérstaklega þeirra sem vilja fara á þær slóðir sem Langdon kom á. Sennilega mun Flórensborg í framtíðinni líta á Dan Brown sem sérstakan velgjörðarmann sinn. Svo mikið er víst að ef ég kem einhvern tíma aftur til Flórens, þá eru ákveðnir staðir sem ég mun heimsækja, bara fyrir tilstilli þessarar bókar.
Það er í sjálfu sér stórmerkilegt hvernig Brown grautar saman hinu forna og hinu nýja, endurreisnarmálverkum og fjarstýrðum eftirlitsmyndavélaþyrlum, dauðagrímum og iPhone-um, plágum miðalda og erfðaverkfræði nútímans. Menningarbilið virkar oft fáránlega mikið, en stundum nær hann líka að brúa það ótrúlega vel. Þó þótti mér notkun á þyrlu-dróni með innbyggða myndavél á fjölförnustu ferðamannastöðum í Flórens ekki ganga upp. Einnig þótti mér algjörlega með ólíkindum hvernig tiltekinn hlutur tengdur dauða Dantes gat farið á það flakk, sem hann gerði, eða honum verið komið fyrir á tilteknum ótrúlegum stað *leyndó leyndó*. Annars er ég feginn að Brown kafar ekki dýpra í sjálf Dante-fræðin en hann þó gerir; oftar en einu sinni hefur maður lesið bækur (eða séð sjónvarpsþætti), þar sem höfundar fara flatt á að ætla að gera sér of mikinn mat úr Divina Commedia. Á því þekkjast þó heiðarlegar undantekningar, t.d. Dante-klúbburinn eftir Matthew Pearl.
Mest snilli Brown felst máske í því að sýna fram á hvernig hægt er að komast inn á ýmsa vinsæla ferðamannastaði Flórens án þess að greiða eina evru! Mínar minningar frá Flórens eru þær að maður sneri sér ekki við án þess að þurfa að borga aðgangseyri, en Langdon og fylgikona hans ferðast gratís um Bobolí-garðana, Palazzo Vecchio og - síðast en ekki síst - skírnhúsið á dómkirkjutorginu. Og, það sem meira er um vert, þau fá að vera algjörlega ein og í friði á tveimur síðarnefndu stöðunum, m.a.s. í hinum fræga Sal hinna fimm hundruð í Palazzo Vecchio. Hvernig? Jú, annars vegar með því að vera á flótta nógu snemma morguns og hins vegar þarf til tvo hugvitssama einstaklinga sem samanlagt hafa greindarvísitölu sem slagar eflaust hátt í 400. Og seint í bókinni fær Langdon nánast einn aðgang að jafnvel enn frægari stað, sem maður hélt að væri rækilega vaktaður öllum stundum sólarhrings.
Með því að horfa fram hjá göllum sögunnar - og þeir eru óneitanlega býsna margir - og einblína á kostina - sem einnig eru allmargir - þá fannst mér lengst af hér um nokkuð skemmtilega lesningu að ræða. Nýjabrumið er farið af ævintýrum Langdons, en Brown er ágætu formi í u.þ.b. 400 blaðsíður af 460. Það sem upp úr stendur er þó máske að hann hefur skrifað sögu með nokkuð sterkum boðskap og lesandinn getur vart annað en verið tvíbentur í afstöðu sinni: Er skúrkurinn í reynd svo mikill skúrkur og er Langdon í raun að taka afstöðu með réttum aðilum? Merkilegast finnst mér því máske að Dan Brown hefur - í fyrsta skipti - skrifað bók, sem gerði mig dálítið hugsi, a.m.k. meðan á lestri stóð.
Bloggar | 24.6.2013 | 12:25 (breytt kl. 12:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sú var tíð að tíðindum þótti sæta þá gefin voru út ný bókmenntatímarit, einkum ef gert var af metnaði og eldmóði. En það er tímanna tákn að bókagagnrýnendur, flestir starfandi á dagblöðum eða netmiðlum, hlaupa á eftir þúsundustu þýddu norrænu spennusögunni (þar sem þúsundasta austur-evrópska konan sætir mansali eða þúsundasta barninu er rænt og/eða kynferðislega misnotað) ellegar nýjustu skvísusögunni eftir nýútskrifaðan bókmenntafræðing ellegar nýjasta kellingakláminu frekar en að fjalla um nýjabrum og bókmenntagræðlinga.
Á dögunum kom út æði metnaðarfullt tímarit, 1005, sem inniheldur hvorki meira né minna en þrjár gerólíkar bækur í fremur stóru broti, samanlagt upp á um 400 blaðsíður. Höfundar verkanna eru þeir bræður Jón Hallur og Hermann Stefánssynir og svo skáldkonan Sigurbjörg Þrastardóttir, en að útgáfunni stendur auk þeirra her af bókafólki og hönnuðum. Finnst mér sinnuleysi bókmenntarýna fjölmiðla um þetta verk næsta einkennilegt og varla skýrast af öðru en að þeir nenni lítið að fjalla um slíkt efni. Vil ég því leggja mitt litla lóð á vogaskálarnar til að bæta úr.
Fyrst nokkur orð um hönnunina á 1005, sem er í marga staði stílhrein, hugvitssöm og glæsileg, en heiður að því á Ragnar Helgi Ólafsson. Um er að ræða eins konar möppu með breiða gúmmíteygju brugðna um svo að innihaldið haldist á sínum stað. Í möppunni eru verkin þrjú, sem mynda tímaritið, í þremur lausum heftum" (gárungi benti á að með Andrésar Andar-blöð hefði þessi lausavandi verið leystur með því að strengja málmteina á innanverðan kjöl möppunnar til að njörva heftin). Ótvírætt hagræði er þó af því að geta tekið bækurnar í sundur, enda bókin ella óþarflega þung aflestrar (!) t.d. uppi í rúmi. Auk þess undirstrikar þessi aðgreining að um sjálfstæð verk er að ræða, þótt undir sama hatti séu.
Forsíðukápa möppunnar er stílhrein, pappaferningur með stöfunum IOOV raðað svörtum upp í ferning og gulu tákninu 5 bætt aftan við V-ið, eins og um fimmta veldi sé að ræða. Spjöldin eru úr gráum pappa með breiðu gulu taubandi álímdu um kjölinn sem spilar smekklega saman við lit tölunnar 5. Nú er svo að IOOV stendur ekki fyrir 1005 í rómverskum stöfum - þannig ætti ritið máske frekar að heita MV upp á latínu - svo að hér varla um annað en stílfærsluleik að ræða. Stafasamsetningin IOOV er einnig prentuð stórt í lóðréttri röð á kili.
Mappan sjálf er með óhefðbundnu sniði, ferningslaga, og inni í henni eru heftin þrjú laus sem fyrr segir. Það hefur ákveðna kosti, en einnig ókosti, þann verstan að engin þykkspjölduð kápa er utan um hvert hefti fyrir sig, svo að það aflagast við notkun. Forsíður allra heftanna minna eru þegar orðnar rækilega beyglaðar. Hið ferkantaða form leiðir hins vegar af sér að meira er á hverri síðu en maður á jafnan að venjast - og þess vegna er 1005, held ég, dálítið lengri texti en hefðbundinn blaðsíðufjöldi segir til um. Tvennt er nýstárlegt við uppsetningu blaðsíðutala; annars vegar eru þau ekki neðst við útjaðar hverrar síðu, eins og menn eiga að venjast, heldur liggja þau lóðrétt ofarlega á síðu, og hins vegar eru blaðsíðutölin í rómverskum tölum - og þannig séð kærkomin upprifjun þess kerfis. Það sem vekur þó mesta athygli við fráganginn allan er hversu stílhrein heildarmyndin er.
-----
Þá að verkunum sem mynda fyrsta árgang tímaritsins. Fyrst er talin löng fræðigrein Jóns Halls Stefánssonar, Bautasteinn Borgesar, um ráðgátu sem kann að leynast í legsteini þess argentínska bókmenntajöfurs. Þetta er ferðasaga í eiginlegum sem bókmenntasögulegum skilningi. Sjálfur tilheyri ég kynslóð, sem drakk í sig smásögur Borgesar í kringum 1980, las þýðingar Guðbergs og sat í tímum hjá Álfrúnu Gunnlaugsdóttur (gott ef ég var þar ekki samtíða greinarhöfundinum). Ég efast um að finnist hér í heimi sundurslitnara og meira annóterað eintak af Labyrinths, ensku safni sagna Borgesar, en ég á í kassa uppi á háalofti. Sérhver smásaga Borgesar er ráðgáta, sem og höfundarverk hans allt, og því máske viðeigandi að hann haldi áfram að vera ráðgáta eftir dauðann. Til eru orðin sérstök Borgesarfræði, Borgesariðnaður, sérstakur hjáheimur tákna, Borgesarheimur, og sjálfum hefði gamla manninum eflaust þótt gaman af að heyra hvernig bækur geta af sér bækur. Urmull fræðimanna hefur lífsviðurværi sitt af að stúdera og skrifa um Borges og má líta á grein Jóns Halls sem innlegg í þá umræðu. Hann rýnir í ráðgátu steinsins frá ýmsum hliðum, fer listavel yfir táknheiminn þar og dregur fram heimildir tengdar áletrunum og myndum steinsins, en flestar eru þær af frum-germönskum stofni. Þarna er tilvitnun úr forn-ensku kvæði um orrustuna við Maldon 991 og önnur í Völsunga sögu á forn-íslensku, en einnig vísað í ritverk skáldsins sjálfs, sem og myndristur í klappaða steina frá víkingatíma. Máli sínu til stuðnings leitar Jón Hallur ríkulega í smásögur Borgesar, þar sem lykilsagan Úlrika (1975) er í öndvegi. Rakinn er, mjög viðeigandi fyrir þennan ritrisa, táknheimur á mörgum plönum, þar sem, aftur viðeigandi, heimur raunverunnar má þoka úr sessi fyrir heimi drauma, heimi goðsagna, heimi Borgesar. Ritgerðin er lærð og lipurlega skrifuð og gæti eflaust fundið sér samastað í alþjóðlegri umræðu, væri hún þýdd og henni komið á framfæri; mér er til efs að gerð hafi verið betri eða rækilegri úttekt á legsteini nokkurs skálds. Og menn þurfa ekki að vera áhugamenn um Borges til að hrífast af greininni; hún er frábærlega skýr í hugsun og framsetningu og sogar lesandann með sér í ævintýraför. Stíllinn er svo fágaður og vandaður að úr verður hrein lesnautn.
-----
Annað verkið er ljóðabálkur - eða langt ljóðabréf, skipt í LXII erindi, ásamt eftirskrift", upp á 85 blaðsíður - eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og nefnist Bréf frá borg dulbúinna storma. Þarna er einnig ferðalag, andlega og efnislega, til borgar í silfurlandinu Argentínu, væntanlega Buenos Aires, en bréfin virðast flest send til eldspýtnalandsins Svíþjóðar og viðtakendur þeirra virðast vera nokkrir heimasitjandi Svíar - Anton, Emil, Jon, Tomas, Kalle, Lukas, Hermann - nema þetta sé allt einn og sami maðurinn, því að ljóðmælandinn man illa nöfn og finnst menn stundum heita öðrum nöfnum (bls. V). Hver þessara manna eigi grænu buxurnar, þröngu", sem skjóta í sífellu upp kolli í ljóðunum, skal ósagt látið. Megineinkenni bálksins er leikgleði og heillandi galsi orðanna, með orðaleikjum um vonnlænera" og flamberuð hjörtu". Heimurinn er séður ferskum augum, þetta eru leiftrandi mannlífslýsingar úr suðri, samofnar minningum frá Svíþjóð og, í minna mæli, frá Íslandi. Leiðarstef bálksins, sem síendurtekið dúkkar upp, gæti kallast að vera í sínu elementi - þ.e. að allt sé í góðum málum hjá viðkomandi. Ekki er vanþörf á, vegna þess að stundum birtast óvæntar ógnir í nýja landinu, jafnvel innan sviga. Dæmi:
(af / gefnu tilefni: / ef fertugur túristi er stunginn / til ólífis í dimmri hliðargötu la boca-hverfis / fyrir fimm pesóa, hvað eru það margar sænskar?) (bls. XXXIX)
Í borg galsa og glaðværðar liggur semsagt undir niðri dulin ógn; stálpuðum börnum er rænt og fátæklingar tína bréfsnifsi að næturlagi. Buenos Aires - kallaði Laxness hana ekki Góðviðru í Birtíngi? - verður borg dulbúinna storma.
Máske er viðeigandi, miðað við eldspýtnalandið Svíþjóð, að eldspýtur gegni óvenju ríku hlutverki í bálkinum, stundum með siðferðilegum undirtóni hins brennda barns sem forðast eldinn:
manstu, eitt tré nægir / til að búa til / þúsund eldspýtur // svo / dugar ein eldspýta / til að brenna þúsund tré // það er synd (bls. XV)
En eldspýtnaframleiðslan nær einnig til Íslands:
Einu sinni föndraði ég / eldspýtustokk úr hvönn í móanum / fyrir neðan húsið heima / í hann komust fjórar eldspýtur, í mesta / lagi fimm / - ég tímdi aldrei að kveikja á þeim // svo kom rigning / hvönn þolir rigningu / en kveikisandpappír ekki (bls. LIII - LIV).
Annað leiðarstef í bókinni snýst um Heimskringlu og Snorra (Sturluson, væntanlega, þótt föðurnafnið sé aldrei nefnt), en þetta er gert á leikglaðan og óhefðbundinn hátt. Vitnað er til upphafs bókarinnar um hin vogskornu lönd og bent á ofurskiljanlegan galla í verki Snorra:
Og mér finnst engu skipta þótt /snorri hafi / talað um svíþjóð hina miklu, hinu köldu, / eins og hverja aðra heimsálfu, hann /þagði eins og gröfin um / suður-ameríku (bls. LXVIII).
Verulegur hluti bálksins felur í sér tilvistarvanda ljóðmælandans, sem þolir illa snertingu, sbr. að hann afræður að gefa ekki betlandi börnum afgangsaura þegar þau verða of ágeng og fara yfir strikið með því að snerta. Snerting og skinn kemur hvað eftir annað fyrir, iðulega með nokkuð fráhrindandi tóni - strax fremst í ljóðinu er minnst á hamskera, sem höndlar inn að skinni" (hann kann að kallast á við feldskera í sögu Hermanns Stefánssonar, sem síðar kemur). Stundum verður þó skondinn orðaleikur úr þessari skinn-áráttu, sbr.:
fjarskinn er samt / sorglegt orð / einhvern veginn eins og / skinn sem er / fjarri (bls. LXVIII).
Óljós tilvistarangist og sálarkreppa er einnig endurtekin í stefi sem birtist nokkrum sinnum bálkinn í gegn:
sumsé, ég sé ekki / hvernig / mér líður á löngum köflum / nema / aðrir sýni mér það (bls. XI og víðar).
Svo að dregið sé saman, þá er ljóðabókin Bréf frá borg dulbúinna storma í senn fersk, fjörleg og frumleg.
-----
Þriðja verkið og hryggjarstykkið í þessum fyrsta árgangi 1005 er skáldsagan Hælið eftir Hermann Stefánsson, enda töluvert lengra en bæði hin verkin samanlagt, um 240 síður að lengd. Þetta er í senn glæpasaga og paródía á glæpasögur; hefst á því að lík finnst í kjallaranum á Kleppi með hníf standandi upp úr brjósti. Til eru kallaðir leynilögreglurannsóknarfulltrúar, Aðalsteinn og Reynir, en einnig kemur varðstjórinn Oddgeir nokkuð við sögu við lausn málsins. Hér er vísað til hinnar hefðbundnu morðgátu; við höfum tvíeykið til að leysa málið og við höfum aflokaðan vettvang glæpsins. Ekki verður gátan heldur leyst á nútímalegan hátt, með tækni og græjum, heldur upp á gamla mátann, af hugsandi snillingi sem kallar saman hlutaðeigandi í bókarlok til að gera grein fyrir niðurstöðum sínum. Dregið er upp býsna magnþrungið andrúmsloft framan af, þar sem lögreglumennirnir eru leiddir inn í hvert herbergi geðspítalans af öðru og fá að kynnast geðveiki vistmanna. Einn þeirra heitir Hermann Stefánsson (!) og titlar sig rithöfund, þótt hann virðist nokkuð yngri en samnefndur höfundur verksins. Sumpart minnti þetta andrúmsloft á íslenska útgáfu af kvikmyndinni Shutter Island, a.m.k. framan af. Frásögnin reynir að virka trúverðug (þ.e. í anda hefðbundnu glæpasögunnar), en efast þó oft um sjálfa sig eða gerir grín að sér: Reynir varpaði myndinni af Hektori fram á skjávarpann í huganum. Í óeiginlegri merkingu því hann var ekki með skjávarpa í huganum" (bls. XX). Annað dæmi: Hún var ótæmandi fróðleiksnáma um Njálu, ef svo má að orði komast, því vissulega eru ekki til námur sem innihalda fróðleik um Njálu" (bls. CXXXIII).
Framan af er þetta hin ánægjulegasta morðgáta, en eftir því sem á líður ágerast efasemdir um hverju sé treystandi, einkum eftir að í ljós kemur að vistmaðurinn Hermann Stefánsson er að skrifa söguna Hælið. (Ekki ósvipuðu bragði var beitt var í Undantekningu Auðar Övu, nema hvað þar var bara lauslega ýjað að því að Perla í kjallaranum gæti verið að skrifa söguna, en hér er mun sterkar gefið í skyn að lesandinn sé að lesa texta hælismatsins Hermanns Stefánssonar.) Þá renna einnig tvær grímur á lesandann eftir því sem meira afhjúpast um ævi og sálarlíf söguhetjunnar Reynis, en sagan er öll sögð frá hans sjónarhóli. Yfirmaður hans, Aðalsteinn, er dásamlega sérvitur, ekur um á uppgerðum Bentley frá 1963 sem allir innan lögreglunnar öfunda hann af, þ.e. ef hann nennir þá að keyra sjálfur og lætur ekki aðra skutla sér; hann hefur ímugust á tölvum og símum, tekur heimilissímann úr sambandi eftir klukkan 9 á kvöldin, býr í hálfgerðum heilsárs-sumarbústað uppi við Elliðavatn af því að erfitt að hugsa djúpt í skarkala borgarinnar og leggst þunglyndur á gólfið í frakka sínum ef lausnin á morðgátunni reynist of einföld - eða í fýlu yfir að hann skyldi ekki leysa málið. Býsna skýrt dregin persóna, eins og fleiri í bókinni. Albert Seljan, kynningarfulltrúi" Klepps (eins og hann er kallaður í stríðni), Oddgeir varðstjóri, hin íðilfagra og síðhærða og svarthærða Anna sem er með fugla í munninum", hjúkrunarfræðingurinn og ljóskan Sóla sem lætur sér annt um sjúklingana: Allt eru þetta persónur, sem hanga á einhverjum milliveg milli staðlaðra manngerða og sjálfstæðs lífs - eins tvíbentar og sagan öll. Og svo Reynir sjálfur - sem verður dularfyllri og ísmeygilegri eftir því sem á líður. Eggert feldskeri (já, sá eini og sanni!) á einnig nokkuð ríkan þátt í atburðarásinni á tímabili.
Í frásögninni bregður oft fyrir frjóu og bráðskemmtilegu myndmáli, líkingum og myndhverfingum. Dæmi: Samviskubitið nagaði hann innanverðan eins og forljótur djúpsjávarfiskur sem syndir í maganum og stekkur upp í háls til að bíta í barkakýlið" (bls. CLXX). Hvað þá með eftirfarandi mannlýsingu: Hann var eins og Guð hefði skapað hann á mánudegi, hann var í þann veginn að detta í sundur. Kinnarnar voru eins og samfallin lungu. Hárið var eins og það hefði fengið nálgunarbann á allt sem liktist greiðu. Augun voru eins og eitthvað úr krukku. Þau depluðu í sífellu eins og býfluga með hiksta. Hendurnar voru tveimur númerum of stórar, notaðar, fengnar af einhverjum öðrum, hann bar þau klaufalega og af undrun. Munnsvipurinn var eins og innsláttarvilla í konkretljóði. Hann talaði með greinamerkjasetningu, kommum og punktum og greinaskilum, eins og skáldsaga" (bls. CLIX-CLX). Þá þótti mér fyndið þegar einn geðsjúklingurinn, sem hefur greinst með alla þekkta geðsjúkdóma, er kallaður fjölær" (bls. CXXII). Þegar komið er inn í verslun Eggerts feldskera: Verslunin var full af feldum, eins og búningsklefi í sundlaug dýranna í Hálsaskógi" (bls. CXX). Kaffiþamb er dásamlega mikið í bókinni, eins og hælum hæfir, jafnvel svo slái út bækur Guðrúnar frá Lundi, já, jafnvel þannig að sögupersónum sjálfum þykir nóg um (bls. CCVI). Þá má býsna oft finna djúpt hugsaða speki; dæmi: Um leið og þú hefur gert sjúkling úr manneskju geturðu geturðu pyntað hana sjálfviljuga í nafni mannúðar," mælir Aðalsteinn, lögreglufulltrúinn ofgáfaði (bls. LXXVII).
Framan af sögu er hin eiginlega morðgáta fyrirferðarmikil, en samfélagsleg skírskotun verður víðari þegar á líður. Hermann fer samt fínlegar í sakirnar en oft áður; það er frekar sagan í heild sinni sem er samfélagsádeila: Vangaveltur um hvað sé andlegt heilbrigði og hvað geðveiki, þar sem mörkin þurrkast tíðum út, og lesandinn er skilinn eftir í lausu lofti með söguhetjunni Reyni. Draumar gegna veigamiklu hlutverki í sögunni og þótt þeir séu óreiðukenndir, eins og títt er um drauma, þá borgar sig að lesa þá af kostgæfni.
-----
Þar höfum við það: Þrjú gjörólík verk - fræðigrein, ljóðabók, skáldsaga - hvert með sínum ágætum. Og þótt verkin séu ólík, þá liggja um þau sameiginlegir þræðir. Öll skáldin þrjú eiga sterkar tengingar við hinn spænskumælandi heim og máske má segja að það sé Jorge Luis Borges sem sameini; andi hans svífur, mismikið, yfir öllum verkum. Hermann síterar hann í Hælinu (ásamt fleiri s-amerískum skáldum: Bioy Casares, Julio Cortazar, Garcia Marquez). Ljóðmælandinn í bálki Sigurbjargar þykist bíða eftir Borges (heldurasénú)" á kaffihúsi (bls. LVIII) og má þá fara að velta fyrir sér hvort Borges hafi færst úr jarðlífinu og sé nú orðinn að táknmynd fyrir Godot blessaðan. Bioy Casares kemur einnig nokkuð við sögu í grein Jón Halls um Borges, enda þeir Argentínumennirnir tveir nánir vinir um áratuga skeið. Heimskringla kemur við sögu í verkum Jóns Halls og Sigurbjargar, Njála í verkum Hermanns og Sigurbjargar (sem og hamskeri/ feldskeri) og svo mætti áfram telja.
Að öllu framansögðu tel ég að 1005 takist skrambi vel sú ætlun, sem nefnd er í eins konar stefnuskrá ritraðarinnar og sett aftan við hvert verk. Þarna gætir tilraunagleði og fagurfræðilegs margbreytileika", sem útgefendurnir hafa einsett sér, og lögð fæð á hugmyndafræðilegan einhug samtímans". Ég nefndi í upphafi að hér væri um að ræða nýjabrum og græðlinga, en þetta er samt enginn botngróður bókmennta nútímans, heldur fögur, gnæfandi tré. Svona útgáfu ber að fagna fremur en næstu norrænu glæpasögunni, næsta tsjikk-littinu eða næsta kellíngakláminu.
Bloggar | 16.6.2013 | 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í gær brá ég mér á Þjóðminjasafnið í þeim tilgangi að skoða nýopnaða sýningu á ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar frá s.hl. 19. aldar. Skemmst er frá að segja að ég var svo hrifinn að ég fjárfesti í bók, sem gefin er út í tilefni sýningarinnar. Sat ég síðan mestan hluta gærkvöldsins, skoðaði bókina og las í þaula.
Las, segi ég, vegna þess að með hinum stórskemmtilegu myndum fylgir einkar ríkulegt lesmál. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ævisaga Sigfúsar sé púsl, sem vanti inn í þá mynd sem er Íslandssaga landshöfðingjatímabilsins, þ.e. frá um 1870 og fram yfir aldamótin 1900. Sigfús var jú einn helsti skrásetjari Íslandssögu þessa tímabils - þótt ekki fari skráning hans fram í orðum. Fram að þessu hefur saga og ævi myndasmiðsins verið æði brotakennd og verður helst dregin út úr ævisögu mágs hans, Daníels Daníelssonar, sem bjó hjá Sigfúsi um árabil og sá einnig um ljósmyndastofu hans öll seinni árin, þegar umsetning Sigfúsar vegna Vesturheimsflutninga urðu hvað mest. Þessi brot Daníels og fleiri dró Þór Magnússon saman í ágætan formála að eldri bók með ljósmyndum Sigfúsar, sem Almenna bókafélagið gaf út 1976.
En í nýju bókinni, sem Inga Lára Baldvinsdóttir á veg og vanda að, er lesmálið ríkulegt og gefandi. Þarna er ekki einvörðungu mun rækilegri ævisaga Sigfúsar en áður hefur sést á prenti, heldur er einnig að finna margvíslegan annan fróðleik, um ljósmyndun og aðferðir þess tíma, um draum Sigfúsar um að gefa út landslagsmyndaröð af Íslandi, um þá upplifun að fara í atelier-ið hjá Fúsa, um skuggamyndasýningar hans og Þorláks O. Johnson, um aðkomu Sigfúsar að þjóðfrelsismálum (m.a. með notkun á hinu umdeilda fálkamerki), um umdeildan útflutning hans á Íslendingum til Vesturheims, um varðveislu myndasafns hans og margt annað.
Bókin er í allstóru broti (ca 28x28cm) og er í henni að finna um 100 heilsíðumyndir og síðan a.m.k. annan eins fjölda af smærri myndum, bæði mannamyndum og myndum til skýringar lesmáli. Fylgt mun hafa verið þeirri meginreglu að nota eingöngu ljósmyndir, sem (nær) öruggt var að Sigfús hefði fótógraferað sjálfur, en um og eftir 1885 færði hann það verk í sívaxandi mæli, vegna anna á öðrum sviðum, í hendur mágs síns og aðstoðarmanns, Daníels Daníelssonar, sem sá nánast alfarið um ljósmyndastofuna síðustu 20-25 árin, þótt stofan væri kennd við Sigfús alla tíð. Eingöngu 1 mynd er í bókinni (bls. 162), sem öruggt er að Sigfús tók ekki, því að hann er á henni sjálfur í hópi manna við drykkju utandyra á Eyrarbakka - og líklega Daníel myndasmiðurinn. Hér er því beinlínis lagt upp með þá meginhugmynd að sýna starf Sigfúsar sjálfs, en ekki bara þær myndir sem komu frá stofu hans eða gerðar voru í hans nafni.
Vandasamt hefur verið að velja verk í bókina (sem og á samspilandi sýninguna), því að áðurnefnd eldri bók um ljósmyndir Sigfúsar frá 1976 hefur að geyma um 100 myndir, sem bæði eru margar hans frægustu og einnig hans bestu. Til að birta góða mynd af ævistarfi og draga samt úr endurtekningu sýnist mér hér hafa verið farinn sá skynsami millivegur að hafa í báðum bókum nokkrar sömu myndir, en byggja nýju bókina mestmegnis út frá myndum sem ekki eru í hinni fyrri. Kostur við hina nýju bók er að sýndar eru betri myndir jafnt sem hinar síðri, þ.e. gerð er grein fyrir tækninni, sem og hvenær og hvernig hún gat mistekist. Þannig eru fáeinar myndirnar í nýju bókinni skemmdar" eða gallaðar" og ég tel mikinn styrk bókarinnar liggja í að birta þær samt, því að þær hafa mikið heimildagildi, en væru ekki líklegar til að koma ella fyrir almenningssjónir. Þá er fjölbreytileiki myndanna lofsverður; þarna eru mannamyndir, myndir úr bæjarlífinu, reiðmyndir og síðast en ekki síst ljósmyndir af ýmsum náttúruperlum Íslendinga, sem sýna hvað Sigfús hefur lagt á sig til að ljósmynda landið sem hann ann, á tíma afar ófullkominna samganga. Ekki bara Stykkishólmur, Flateyri, Akureyri, Vopnafjörður og Þingvellir, heldur Reykjanes, Hekla, Haukadalur, Gullfoss, Seljalandsfoss, Brúará, Ölfusá, Hvítárvellir og fleiri staðir. Ein hrikalegasta myndin er á bls. 93 af Núpakoti, sem sýnir hvernig íslenskir bæir kúldruðu smáir undir ægibjörgum og ókleifum hömrum. Þessi mynd ein finnst mér segja meira en þúsund orð um sambýli manns og náttúru á Íslandi fyrr á tímum.
Þótt mér finnist gríðarlegur fengur að þessari bók, tel ég hana ekki með öllu gallalausa. Sem fyrr segir er hún í stóru broti, en meginmyndirnar eru staðsettar á þann veg að þær fái að njóta sín eða anda" á hverri síðu, þ.e. hafi heilmikið autt (hvítt) svæði umhverfis. Í mörgum tilvikum er þetta í góðu lagi. En einstaka sinnum eru myndirnar í breiðu kartoni, sem sett er með á síðuna. Verður þá hvítt svæði máske þriðjungur síðu, kartonið annar þriðjungur og sjálf ljósmyndin eingöngu um þriðjungur síðu (eða þaðan af minna). Þetta finnst mér til baga, því að megináhugi minn felst í því að skoða og sjá sem mest af myndunum sjálfum, m.a. að geta greint smáatriði sem hverfa eða verða ógreinileg við smækkun. Á sjálfri ljósmyndasýningunni á Þjóðminjasafni eru myndirnar blásnar upp í tröllastærð og sést þar vel hve þær þola mikla stækkun. Annað aðfinnsluatriði mitt er að myndatexta er safnað öllum saman aftast í bókina (bls. 172-183), með afar smáu letri, en þó með dálítilli thumbnail"-mynd sem auðveldar lesanda að átta sig. Þetta kallar á miklar og nánast endalausar flettingar, því að oft er skoðandinn að athuga mörg atriði á einni mynd, og er ég ekki frá því að hægt hefði verið að koma þessu snoturlega fyrir á auða hvíta andrúmssvæðinu" á myndasíðunum sjálfum. Hér er vitaskuld um smekksatriði að ræða og virðist það listræna sjónarmið höfundar að leyfa hverri mynd að standa fyrir sig, textalausri, hafa verið leiðarljósið. Sjálfum finnst mér betur hafa tekist til með uppsetningu myndatexta í gömlu bókinni um ljósmyndir Sigfúsar frá 1976 og var samt texti þar ekki alltaf á síðu andspænis mynd.
Hér er samt um minni háttar og persónubundnar aðfinnslur að ræða og breytir litlu um það að hin nýja bók um ljósmyndun Sigfúsar Eymundssonar er stórfenglegur happafengur og veisla fyrir augað. Hafi Þjóðminjasafnið, Inga Lára Baldvinsdóttir og allir aðstandendur bókar sem sýningar kæra þökk fyrir.
Bloggar | 11.6.2013 | 12:11 (breytt kl. 12:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar