Færsluflokkur: Bloggar

Óbreyttur bogliði í Hundrað ára stríðinu

Harlequin CornwellHvernig var líf bogliða í þjónustu Játvarðar þriðja Englandskonungs við upphaf Hundrað ára stríðsins? Hvaða lífsgleði gat hann notið og hvers konar harma upplifað? Hvernig þoldi hann vetrarkulda og sumarbreiskju í herferðum um Norður-Frakkland og hvernig fór orrustan fræga við Crécy fram? Öllum þessum spurningum og miklu fleiri svarar Bernard Cornwell fádæma vel í skáldsögu sinni, Harlequin.

Cornwell er firnagóður skáldsagnahöfundur og langt yfir meðallagi þegar höfð eru í huga gríðarleg afköst hans. Ef það er einhver mælikvarði, þá er Beta Bretadrottning fyrir löngu búin að aðla hann með OBE eins og McCartney og Elton John. Fyrir 15 árum eða svo las ég í einni beit sex bækur eftir Cornwell, hverja annarri betri. Þar bar langhæst þríleikur um Arthúr og Merlín (The Warlord Trilogy), einkar frískleg, frumleg, raunsæ og athyglisverð túlkun á annars útjaskaðri þjóðsögu. Frægustu bækur Cornwells munu samt bækur hans um Sharpe liðþjálfa, sem orðnar eru yfir 20 talsins, en eftir þeim voru búnar til allfrægar sjónvarpsmyndir, sem gerðu leikarann Sean Bean að stórstjörnu. Af öllum bókunum um Sharpe hef ég þó aðeins lesið tvær.

Langflestar skáldsögur Cornwells eru sögulegs eðlis og þá gjarna tengdar hernaði og grimmilegum átökum. Hann hefur skrifað langa bókaflokka um tíma Arthúrs, víkingatímann á Englandi, hundrað ára stríðið og Napóleonsstríðin – og þrátt fyrir að stríð séu miðlæg í bókum hans, með öllum sínum hörmungum og hryllingi virðist uppsprettan óþrjótandi.

Því er Cornwell nefndur hér að ég endurlas nýlega bók eftir hann, Harlequin. Hún kom út rétt eftir aldamót og las ég hana fyrst skömmu síðar, fyrir rúmum áratug, en í samræmi við stefnu mina að endurlesa sem flestar góðar bækur á seinni hluta ævinnar las ég hana aftur nú í sumarfríinu.

 

Harlequin gerist við upphaf Hundrað ára stríðsins á 14. öld og hefur sem lykilpersónu ungan bogliða, Thomas frá Hookton. Heimabær hans hefur verið lagður í eyði og hann hefur gengið til liðs við innrásarher Englendinga á Bretagne-skaga, enda flinkur með bogann. Fyrir ókunna má nefna að í Hundrað ára stríðinu unnu enskir bogliðar stórafrek, vopnaðir bogum frá sínum heimaslóðum, svokölluðum langbogum, og höfðu jafnan betur en Frakkar vopnaðir “nýtísku” lásbogum. Einnig berjast menn þarna miðaldalega sem riddarar á hestbaki, þótt hofmóðurinn fari þverrandi. Þá eru menn einnig að prófa sig áfram með frumgerðir af fallbyssum og skotvopnum – og sjá litla framtíð í þeim. Bókinni lýkur síðan með næstum hundrað blaðsíðna lýsinga á aðdraganda orrustunnar við Crécy og átökunum sjálfum. Sú orrusta er jafnan talin meðal þeim mikilvægustu í sögu Evrópu, því að með sigri þar komst Hundrað ára stríðið á skrið og Englendingar tryggðu að Frakkar yxu ekki öðrum þjóðum Evrópu yfir höfuð löngu fyrr en raunin varð.

Styrkur Harlequin liggur í ýmsu. Varðandi sögulegan áreiðanleika sýnist mér erfitt að gefa höfundi annað en 9.5 í einkunn. Og hann kann þá list að búa til nær ómótstæðilega blöndu klisju og frumleika. Hann þræðir sjaldséðan milliveg væntinga og hins óvænta. Oft virðist sagan stefna í hefðbundna átt – á tímabili hélt ég jafnvel að hún yrði rómantísk ástarsaga – en síðan er lesandinn löðrungaður rækilega og hryllingur, nauðganir, ofbeldi og stríðsógnir blása burt allri rómantík. Lykilpersónur eru myrtar fyrirvaralítið, þeim nauðgað eða þær hrekjast á faraldsfót – hér skal máske hafa um fæst orð til að upplýsa ekki um framgang sögunnar. Látum nægja að nefna að hún kemur margoft á óvart.

Stíll bókarinnar er látlaus og einfaldur og fræðandi á þann hátt að upplýsingum er dreift jafnt án þess að íþyngi sögunni eða atburðarásin hökti. Slíkt kann að virðast áreynslulítið en krefst í raun kunnáttu og þekkingar. Og þegar upp er staðið tekst Cornwell að ná fram sérstökum stíl og sinni eigin rödd með andstæðunum í því sem hann lýsir, fegurðinni og ljótleikanum, þess sem lesandinn væntir og hins óvænta. Einna helst er að orrustan við Crécy, með aðdraganda sínum, verði full fyrirferðarmikill hápunktur – næstum hundrað blaðsíður í 500 síðna bók.

Persónusköpun í Harlequin með ágætum. Lykilpersónur eru dregnar skýrum dráttum og þeirra meginkostur er að þær eru blandaðar að eðli. Thomas frá Hookton kann að vera hjartahreinn, en hann er einnig hégómlegur (hann ber sítt, svart hár sitt í tagli sem hann bregður bogastreng um) og hann tekur oft þátt í ofbeldisverkum, bæði í atvinnuskyni og af öðrum hvötum. Höfuðandstæðingur hans í bókinni, Sir Simon Jekyll, er ef til vill helst til vægðarlaus og einsleitur illvirki, en þó jafnvel kostum gæddur og sýnir jafnvel af sér góðmennsku við tilteknar kringumstæður. Það eru samt máske minni háttar persónur, sem eru öðrum eftirminnilegri: Mordecai, kaldhæðinn læknir af Gyðingaættum, sem telur öruggustu sjúkdómsgreininguna felast í að bragða á hlandi sjúklingsins; munkurinn Germain, sem er fróðleiksnáma um sögu og helga dóma, en kann að efast í trúnni á sinn hátt, enda veit hann um klaustur sem geymir þrjár forhúðir af ungbarninu Jesú; hinn vígreifi klerkur Hobbe sem hatar Frakka eins og pestina. Karakterar af þessum toga detta inn í söguna frá fyrstu blaðsíðu til síðustu og glæða hana lífi og gamansemi.

Best tekst Cornwell þó máske að bregða upp lifandi mynd af stríðsátökum, með öllum þeim hryllingi sem fylgir. Þar er ekkert fært undan og ekkert fegrað. Hestar kviðristir jafnt sem hermenn; þegar kemur á blóðugan vígvöllinn hverfur öll riddaraleg hofmennska á augabragði. Og jafnvel mitt í hryllingnum, á ögurstundu þegar um líf og dauða er að tefla og grimmdin er skefjalaus, geta menn sýnt af sér göfugar hliðar: Hugdirfð og fórnarlund. Mikill hluti hernaðar, sem fram fer í Harlequin, lýsir umsátrum og þegar borgir falla verða fórnarlömbin fyrst og fremst almennir borgarar. Mannslíf verða einskis metin: Morð, rán, nauðganir og allsherjar eyðileggging eru óhjákvæmilegu fylgifiskar stríðs, sama hversu menn vilja hafa hlutina á annan veg. Og líf hermanna er enginn dans á rósum: Þeir þola hungur og pestir, hollusta er til sölu hjá mörgum, svik og prettir á hverju strái og hermennnirnir ragna hraustlegar en Kolbeinn kafteinn. Einn óhugnanlegur þátturinn í stríðsrekstri 14. aldar voru tortímingarleiðangrar, sem farnir voru um sveitir í grennd við umsetnar borgir, bæði til að afla matvæla fyrir umsátursherinn, en ekki síður til að valda almennri ógn og skelfingu um sveitir til að draga úr baráttuþreki andstæðingsins. Öllu þessu er lýst ofan í smæstu atriði í Harlequin.

Annar firnasterkur kostur bókarinnar birtist í kraftmikilli samfélagsmynd. Stéttarskipting er ströng og afdráttarlaus; þeir heppnu hafa fæðst sem aðalsmenn, síðan eru hin ógæfusamari alþýða, og inn á milli þessarar tvískiptingar danglar fjöldi samfélagshópa. Kirkjuhöfðingjar standa nær aðlinum, sóknarprestar nær alþýðu. Sumir aðalsmenn hafa fallið ofan í fátækt og vilja rífa sig upp, einhverjir tilheyra kaupmannastéttum og hafa gifst inn í aðalsættir, oft í óþökk þeirra með bláasta blóðið. Aðalsmenn leggja sér til hest og hertygi, sem er dýrt, og þeim fylgja gjarnan fleiri vopnfærir menn (men-at-arms), hraustir kappar, oft útrústaðir af aðalsmönnum. Miklu skiptir hvort menn fæðist skilgetnir eða sem bastarðar. Og sem við er að búast í stríðssögu er heimur karlmanna í forgrunni. Fáeinar kvenpersónur eru þó í burðarhlutverkum, oftast óþarflega fallegar, en þær eru jafnan varnarlitlar nema þær eigi sér volduga verndara. Þá er togstreita ólíkra fylkinga innan hersins skýrt dregin fram – bogliðar og riddarar lenda stundum í stælum þótt þeir neyðist til að vinna saman. Þegar kemur að því að ráðast inn í borg eða berjast á vígvelli gildir mestmegnis eitt lögmál: Hver maður fyrir sig. Enn má nefna að valdastigi innan hersins, allt frá kokki upp í kóng, kemur aðdáunarlega vel fram. Játvarður Englandskonungur og Filippus Frakkakonungur stíga lítillega fram í bókinni, þó sem heldur fjarlægar og upphafnar persónur.

Cornwell er þó ekki óskeikull fremur en aðrir höfundar og stundum sýnist maður hann hafa annað augað fullmikið á mögulegri bíómynd gerðri eftir sögunni. Samskipti Thomasar frá Hookton og franska riddarans Guilliame d´ Evecque eru heldur ólíkindaleg, sem og samdráttur bogliðans og Elenóru. Þá er reynt að troða fullmiklu inn í líf Thomasar sumarið 1346; hann lifir flökkulífi með Jeanette fram yfir mitt sumar, tekur þátt í umsátrinu um Caen (sem átti sér stað 11. júlí 1346, þótt dagsetning sé ekki nefnd), er þar næstum drepinn, en tekst á næstu vikum að ná heilsu, öðlast djúpa vináttu Guillaume, vinna ástir Elenóru og elta uppi enska herinn svo að hann sé tilbúinn í bardagann við Crécy þann 26. ágúst (dagsetning sem Cornwell nefnir). Hér er höfundur augljóslega í vandræðum með að láta veruleika mannkynssögunnar og lögmál skáldsögunnar ganga upp.

 

Þegar ég las Harlequin fyrst fyrir tólf árum eða svo, vissi ég ekki að hún yrði fyrsta bókin í þríleik; ekkert á bókarkápu míns eintaks gefur til kynna að höfundur hyggist halda áfram. Sú mun þó hafa verið raunin, svo ég verð líklega að fara svipast um eftir seinni bókunum. Ekki nóg með það, heldur var titli sögunnar breytt fyrir Bandaríkjamarkað og mun hún (eða allur þríleikurinn) heita þar The Archer´s Tale. Hvað sem því líður, þá get ég óhikað mælt með Harlequin sem sjálfstæðu skáldverki. Á Goodreads gefa um 11 þúsund lesendur henni meðaleinkunnina 4.08 (af 5 mögulegum) sem þykir býsna hátt, sérstaklega þegar svo margir eru um einkunnagjöfina. Og ég sé að ég þarf brátt að snúa mér að því að endurlesa The Warlord Trilogy eftir sama höfund – í minningunni voru þær stórkostlegar.


Um vinnulag í dómskerfinu

Er ég sá eini á öllu landinu, sem þykir undarlegt að prófessor í fjármálaverkfræði, sem eftir því sem ég best veit hefur ekki yfir að ráða neinni sérþekkingu í dómstörfum og eftir því sem ég best veit hefur ekki nokkra reynslu á því sviði, skuli geta dæmt í dómsmáli? Auðskiljanlegt finnst mér að hægt sé að kalla sérfróða menn sem dómskvadda matsmenn til að aðstoða við og upplýsa um sérfræðileg úrlausnarefni fyrir dómi, en að þeir skuli líka getað kveðið upp dóma sem fullgildir meðdómarar í fjölskipuðum héraðsdómi – er það virkilega hinn eðlilegi framgangsmáti í íslensku réttarkerfi?


Og ef svarið er já, hljóta þá ekki í ljósi framvindu í nýlegu dómsmáli, sem ég veit að ýmsum þykir afar sérkennileg, að vakna ýmsar vangaveltur? Eins og til dæmis, hvernig slíkur tiltekinn maður er valinn til dómstarfa, þ.e. hver benti á hann, hverja aðra var bent á, hvernig fór val hans fram, hver úrskurðaði hann hæfari en aðra og hvaða aðilar samþykktu eða þurftu að samþykkja valið? Og á hverjum hvílir skylda um að upplýsa um möguleg hagsmunatengsl (af hvaða toga sem er) og þá einnig gagnvart hverjum?


Spyr sá sem ekki veit. Er ekki sú stund runnin upp að almenningur sé upplýstur nánar um vinnubrögð í dómkerfinu? Þarf máske að opna umræðu um hvað teljist eðlilegt í þeim efnum?



Af refsigirni

Ég er mjög hugsi yfir þeim fréttum gærdagsins að ríkissaksóknari hafi lagt fram ákæru á hendur heilbrigðisstarfsmanni, sem og spítala, vegna mistaka í starfi, sem leiddu til þess hörmulega atburðar að sjúklingur lést. Nú er svo að sérstaklega er mikil þörf á aðgæslu og nákvæmnum vinnubrögðum í heilbrigðiskerfinu, þar sem mistök geta reynst afdrifarík og jafnvel banvæn, eins og virðist hafa átt sér stað í þessu sorglega tilfelli. Hins vegar er svo að aldrei er hægt að byggja upp mistakalaust samfélag, sama á hvaða sviði er, og mistökin eru með því mikilvægasta sem skilgreinir mennsku okkar allra. Allir gera mistök – starfsmenn ríkissaksóknara líka. Mér vitanlega telur enginn viðkomandi heilbrigðisstarfsmann hafa valdið mannsláti af ásetningi (ef um slík tilvik væri að ræða, væri það allt önnur umræða). Hér er því í sjálfu sér fyrst og fremst um að ræða spurningu um hvar ábyrgð liggi í málinu.

 

Já, hver ber mesta ábyrgð fyrir því hvernig komið er fyrir heilbrigðiskerfinu, með látlausum niðurskurði og viðstöðulausri og nánast ómanneskjulegri kröfu um hagræðingu? Það er einfaldlega ríkisvaldið, nánar tiltekið hið háa Alþingi, sem ákveður fjárveitingar til þessa málaflokks. Þar hefur á undangengnum árum og jafnvel áratugum verið skorið við nögl, sem leitt hefur til lægri launa starfsfólks, versnandi starfsumhverfis og ómanneskjulegs vinnuálags. Er það ekki fjárveitingarvaldið, sem ætti að sitja hér á sakamannabekk, frekar en ógæfusamur heilbrigðisstarfsmaður? Er eitthvað því til fyrirstöðu að ríkissaksóknari bæti við þeim Alþingismönnum, sem samþykktu naum fjárlög til heilbrigðismála fyrir árið 2012 – árið sem mistökin áttu sér stað – í hóp ákærðra í þessu máli? Jafnvel má fara lengra aftur í tímann og tína til alla þá Alþingismenn, sem mundað hafa niðurskurðarkuta í heilbrigðismálum. En ríkissaksóknari hefur bara þröngan skilning á ábyrgð, orsök og afleiðingu, eða hvað?

Það er athyglisvert að fréttin um ákæru ríkissaksóknara birtist sama dag og greint var frá í fréttum að dómur yfir kynferðisbrotamanni hefði verið skilorðsbundinn í undirrétti vegna dráttar í málsmeðferð hjá ríkissaksóknara. Á þeim tíma, sem dráttur varð á undirbúningi í máli kynferðisbrotamannsins, var væntanlega verið að undirbúa kæruna gegn heilbrigðisstarfsmanninum eða hvað? Segir þetta okkur eitthvað um forgangsröð hjá embættinu? Er þetta sú afgreiðsla sakamála, sem við viljum sjá í framtíðinni?

Benda má á að það eru ekki nafnlausir embættismenn, sem taka ákvörðun um að ákæra heilbrigðisstarfsmanninn og spítalann. Þetta eru nafngreindir einstaklingar í háttsettum embættum. Vafalítið er það gert í góðri trú og á grundvelli túlkunar embættisins á tilteknum lögum, en bent hefur verið á að ákvörðun um þessa ákæru geti valdið grundvallarbreytingum á samfélagsgerðinni sjálfri. Í ljósi þess, væri þá ekki eðlilegt að fram færi umræða í samfélaginu um slík grundvallaratriði og að umræddir embættismenn útskýrðu hvað liggi að baki þessari kæru? Til dæmis mætti ræða, hvers vegna er kært núna, ef ekki hefur svo verið gert út af mistökum fyrri ára? Hafa orðið einhverjar þær breytingar á lagaumhverfinu sem réttlæta það?

En nú er víst af stað farið og hverjar verða afleiðingarnar? Svo fremi sem málið verði ekki látið niður falla, sem máske er heilladrýgsta ákvörðunin úr því sem komið er, getur niðurstaða eingöngu orðið á tvo vegu: Sekt eða sýkna. Verði sakborningar sýknaðir, þá hljóta þeir að geta höfðað miskabótamál gegn ríkinu fyrir rangar sakargiftir – og ef mál færu svo að þeim yrðu dæmdar bætur, væri þá ekki eðlilegast að taka þær af fjárveitingum ríkissaksóknaraembættisins vegna handvammar (rétt sisvona til að kóróna hringavitleysuna)? Og til að halda gálgahúmornum áfram: Ef svo færi að sýknað væri, væri þá ekki eðlilegt að ríkissaksóknari höfðaði mál gegn sjálfum sér vegna kostnaðarsamra mistaka með framlagningu tilefnislausrar ákæru?

Ef á hinn bóginn færi svo að starfsmaðurinn og spítalinn yrðu fundnir sekir, mun það vafalítið leiða til þess að færri muni leita í hjúkrunarstörf í framtíðinni, erfiðara verður að manna sjúkrahús með fagfólki og mögulega verður fjölgað þar ófaglærðu starfsfólki vegna eklu – ef einhver fæst þá til að ráða sig til slíkra starfa. Svo má einnig velta fyrir sér áhrifum á aðrar stéttir opinberra starfsmanna; þarf þá ekki í framtíðinni að saksækja lögreglumenn, slökkviliðsmenn, kennara og fleiri opinbera starfsmenn fyrir margvísleg mistök, minni og stærri, sem þeim geta orðið á í starfi? Eða fara ákærur af þessum toga mögulega eftir geðþóttaákvörðun saksóknaraembætta? Er þessi málatilbúnaður ríkissaksóknara líklegur til að efla illa launaðar og vinnuþrælkaðar grunnstéttir samfélagsins? Mun fólk ekki flykkjast í slík störf eftir svona vasklegu framgöngu ríkissaksóknara?

Hitt er svo augljóst að verði dæmt til sektar í þessu tiltekna og hörmulega máli, þá má búast við að reynt verði í auknum mæli að fela mistök opinberra starfsmanna, heilbrigðisstarfsfólks og annarra, þræta fyrir þau eða þagga niður, fremur en að draga lærdóm af. Draumsýn um mistakalaust samfélag getur aldrei orðið að veruleika og síst með þessari nýstárlegu ákæru. Ég tek undir þau orð Ögmundar Jónassonar að hér sé af stað farið með siðferðilegt og samfélagslegt glapræði.


Kanadísk kona í lest yfir ísauðnina

munro runawayÞegar Alice Munro fékk Nóbelsverðlaunin á síðasta ári hafði ég aldrei lesið staf eftir hana, en hélt hins vegar töluvert upp á annan kanadískan kvenkyns smásagnahöfund sem heitir Mavis Gallant. Smásagan Eitur, sem birtist í hefti TMM á síðasta ári, var það fyrsta sem ég las eftir Munro. Og ég las í nýjasta hefti TMM, sem barst mér í fyrradag, þær skemmtilegu fréttir að Silja Aðalsteinsdóttir væri að þýða smásögur Munro með útgáfu fyrir augum.

Hvað um það, um síðustu jól sendi kanadísk vinkona, hreykin af afreki löndu sinni, mér að gjöf smásagnasafn Munro, Runaway (2004), sem telst víst með hennar betri verkum. Og ég las.

Runaway inniheldur 8 smásögur, sú fyrsta ber sama nafn og kverið, en hver um sig heitir aðeins einu orði – sem mér skilst að sé frábrugðið því sem gengur og gerist um sögur höfundar. Erfitt er að lýsa orðagaldri Munro – hann er einhvern veginn áreynslulaus. Munro skrifar eingöngu smásögur, en þær eru í lengra lagi til að kallast hefðbundnar og fullstuttar til að vera álitnar nóvellur, oft um 35 til 40 blaðsíður. Þetta gefur henni svigrúm til að koma að hverju því smáatriði, sem henni dettur í hug – eitt einkenni sagnanna er sægur smáatriða, ekki síst í lýsingum umhverfis eða útlits, en þó þannig að þeim er aldrei hlaðið of mörgum samtímis. Það sem mér dettur fyrst í hug til að lýsa stíl hennar er jöfn dreifing upplýsinga. Sögur hennar byrja iðulega í miðjum klíðum, lesandinn er í senn forvitinn og áttavilltur, en smám saman skýrist myndin, púslin raðast jafnt og þétt, og höfundurinn hefur frábært lag á að koma á framfæri öllu sem máli skiptir, jafnt umhverfislýsingum sem hugsunum persóna. Misjafnt er um innihald sagnanna, hvort þær innihaldi dramatík eða óvænt hvörf eða lýsi bara hversdagslegum atvikum. En ætíð er þó ákveðin spenna fólgin í frásögninni, hversu lítilmótleg sem hún kann að vera. Sérstaklega eru mergjaðar lýsingar á náttúru og veðurfari; þegar sumarrigningin gengur yfir í smásögunni Runaway, þá drýpur nánast af hverri blaðsíðu. Og að sama skapi er tvíþætt lýsing lestarferða, að vetrarlagi og að sumarlagi í sögunni Chance óborganleg; stigið er úr lest í slíkum fimbulkulda að erfitt er um andardrátt; lýst hvernig fjöruborð stöðuvatna er mismikið ísi lagt – ógleymanlegt. Þekking skáldkonunnar er sýnilega yfirgripsmikil, án þess að hún flíki henni beinlínis; hún getur allt í einu romsað upp úr sér tegundum trjáa eða blóma og fyrirvaralítið farið að vitna í lítt þekktar grískar goðsögur og tengsl þeirra við stjörnumerki. En þekkingin ber aldrei sögurnar ofurliði. Hún er meira eins og skrautið utan á jólatré – látlaust er það fegurst.

Þær 9 sögur, sem ég hef nú lesið eftir Munro, gerast allar í Kanada, yfirleitt í smábæjum, oftar en ekki á útjaðri byggðar úti við skóg (ysti ljósastaurinn í bænum lýsir upp rúmið í æskuherbergi Juliet í Soon). Lýsingar á þessum stöðum eru nákvæmar og hnitmiðaðar – þetta er Kanada nákvæmlega eins og ég minnist landsins. Sjaldan berst leikurinn inn í borg, en þó koma þarna Toronto og Montreal og Vancouver fyrir líka.

Annað einkenni er að í nánast hverri einustu sögu kemur fyrir menntamaður eða listamaður. Látni eiginmaðurinn í Eitri er ljóðskáld, ef ég man rétt, og einnig látni eiginmaður frú Jamieson í Runaway. Christa, sem verður besta vinkona Juliet þriggja sagna, er listakona sem sker út í viðardrumba og sjálf er Juliet í fyrstu kennslukona í grísku og latinu (enda fellur þar eikin ekki langt frá eplinu – báðir foreldrar hennar stunduðu kennslu), en seinna spjallþáttastjórnandi í sjónvarpi. Þótt Robin í Tricks sé hjúkrunarkona, þá fer hún að sjá Shakespeare-leikrit á hverju sumri á leiklistarhátíðinni í Stratford, Ontario, sem reynist henna afdrifaríkt. Í lokasögunni, hinni löngu Powers, eru tveir örlagavaldar blaðamaður og píanóleikandi læknir. Í einni bestu sögu bókarinnar, Passion, er lykilpersónan drykkfelldur læknir, sem ekki er leiddur inn á sviðið fyrr en sagan er hálfnuð.

Eðlilega (eða hvað?) eru konur í ráðandi hlutverkum í sögum Munro. Eitt einkenni þessara kvenna er hviklyndi. Þær eyða löngum tíma í að velta fyrir sér ákvörðun, taka hana loks og sjá iðulega eftir henni. Carla hleypst að heiman í Runaway, en sér eftir því. Juliet ætlar að fara að heimsækja Eric í Whale Bay (Chance), en er stöðugt með bakþanka um hvort rétt sé, einkum þegar hún hittir ekki á leiðarenda. Juliet í annarri sögu (Soon) leggur í langferð og heimsækir foreldra sína, en sér eftir því og telur það mistök (Soon). Stúlkan Lauren (Trespasses) á í miklu sálarstríði gagnvart nýrri vinkonu á nýjum stað, Delphine, Robin í Tricks hefur heilt ár til að ákveða endurfundi og velkist í vafa – en lætur slag standa. Óákveðnar konur, tvístígandi konur, hikandi konur – þær virðast ær og kýr Munro.

Einnig eru ekkjur oft í lykilhlutverkum. Konan í Eitri er nýorðin ekkja, frú Jamieson hefur nýlega misst mann sinn (Runaway), Juliet þriggja sagna verður ekkja tiltölulega ung, innnan við fertugt. Nancy, helsti sögumaður lokasögunnar Powers, er ekkja hálfa söguna.

Margvísleg smáatriði birtast aftur og aftur í sögunum. Kanadíska þorpið – sínálægt. Þá kemur Grikkland merkilega oft við sögu, sbr. Grikklandsferð frú Jamieson (Runaway). Juliet kennir grísku, vitnar alloft til hennar og sér Penelope dóttur sína sem eina af karýatíðunum. Enn eitt þrálátt stefið er sífelld nálægð sjúkdóma. Frú Jamieson (Runaway) þurfti að sjá um mann sinn um árabil, besta vinkona Juliet þriggja sagna, Christa, þjáist af MS-sjúkdómi, móðir Juliet úr krabbameini og í sögunni Tricks sér Robin um fatlaða systur sína, svo að fáein dæmi séu talin.

En ef ég ætti að nota annað orð til að lýsa stíl Munro, mundi ég sennilega velja svalur. Og þá á ég ekki við í huglægum skilningi, heldur nánast á líkamlegan máta, eins og dálítið kaldur vindur næði um sálina við lesturinn. Sögurnar einkennir ákveðin tilfinningaleg fjarlægð og hlutlægni; það örlar varla á tilfinningasemi, flest er vegið út frá kaldri skynsemi. Þetta sést t.d. greinilega á sögunni Soon, þar sem hin tuttugu og fimm ára Juliet kemur heim með ársgamla dóttur til foreldra sinna í fyrsta sinn. Í hugarheimi Juliet eru foreldrar hennar nánast gegnumgandi nefndir skírnarnöfnum, Sam og Sara, fremur en Dad og Mom (pör með sömu upphafsstafi koma oftar fyrir, t.d. Clark og Carla). Þá virðast foreldrar hennar næsta áhugalitlir um ungbarnið Penelope. Á svipaðan hátt er fráfalli Eric og vægast sagt óvenjulegri útför lýst án mikilla tilfinninga – Juliet, í gegnum Munro, nálgast nauðsynlegar athafnir af skynsamlegri skyldurækni – hún er engin grátkona. Nancy í Powers, sögu sem nær yfir heila ævi, leggur allt í að rekja sögu Tessu og Ollie, en lífsförunautur hennar, Wilf, virðist algjör aukapersóna. Jafnvel þegar tilfinningar verða þrúgandi, eins og þegar Juliet óttast að hafa misst dóttur sína Penelope í hendurnar á sértrúarsöfnuði (Silence). Stúlkan Lauren (Trespasses) kallar foreldra sína Harry og Eileen, ekki Mom eða Dad. En um leið er Munro gædd eiginleika, sem ég sé hjá fáum íslenskum skáldum öðrum en Gerði Kristnýju, að geta látið ytri aðstæður í efnisheimi endurspegla innra sálarlíf persóna.

Því fer víðs fjarri að allar sögur Munro í þessu safni séu jafngóðar. Þar sem þetta eru sögur frá því seint á ferlinum, þegar hún var komin um sjötugt, þá má telja eðlilegt og óhjákvæmilegt að eldri konur leiki veigamikil hlutverk. En þær eru eins og aðrar kvenpersónur Munro, óöruggar og tilfinnningalega fjarlægar í senn. Þá eru nánast allir sögumenn fremur pempíulegir, þegar kemur að kynlífi; það á sér nánast eingöngu stað bakvið luktar dyr og ekki gægst inn fyrir gættina.

Og Munro drýgir eina höfuðsynd: Hún er aldrei fyndin. Hún kann að vera djúphugul og koma með frábærar persónulýsingar ytra sem innra – en mér stökk aldrei bros við lestur 350 blaðsíðna. Ef hún lýsir hlátri, þá lýsir hún bara hlátri – hún sýnir ekki aðstæðurnar, sem hláturinnn sprettur úr, afhjúpar aldrei sjálfa fyndnina. Það er einna helst faðirinn Harry (Trespasses), sem hefur snefil af skopskyni í öllum þessum sögum. Og Nancy, aðalsögumaður Powers, var býsna bíræfin á aprílgöbbum sínum sem ung stúlka í kringum 1927 – en það er frekar notað til að lýsa persónuleika hennar en að það sé tilfyndið.

Vert er að skoða karlímyndina í smásögum Munro. Oft koma karlar fyrir sem ógn við konur, ekki síst ef þeir eru í eldri kantinum. Stundum er sú ógn raunhæf (Eitur), en stundum á hún ekki fyllilega við rök að styðjast (Runaway). Stundum er þetta ógn eldri karla gagnvart yngri konu, svo sem ónefndi maðurinn, sem sest gegnt Juliet í járnbrautarlestinni (Chance). Þeir karlmenn, sem ekki eru ógn, eru þeir sárafáu sem konur í sögumiðju laðast að (Eric í Chance) eða ættingjar, svo sem feður (t.d. Sam í Soon og Harry í Trespasses). Og í þessu sagnasafni, að minnsta kosti, er karlmaður nánast aldrei í þungamiðju frásagnarinnar og sjaldan skoðaður hugarheimur karlkynsins. Eingöngu einu sinni er sjónarhorn karlmanns (Ollie) valið til frásagnar og það er í öðrum hluta hinnar fimmskiptu sögu Powers, þar sem sjónarhornið miðast annnars alltaf við Nancy. Sagnaheimur Munro í bókinni Runaway er mjög kvenlægur og karlar stundum nánast sem uppfyllingarefni. Hvort svo eigi við um eldri sögur hennar get ég ekki dæmt um.

Sagt hefur verið um Alice Munro að hún geti lýst heilli mannsævi í smásögu og það er rétt að vissu marki. En stundum er einfaldlega um það að ræða að hún lætur sögurnar ná yfir heila mannsævi, byrjar í ungdómi og endar í elli. Það gildir t.d. um söguna Tricks og einnig um lokasöguna, Powers (sem er áberandi lengst, heilar 65 blaðsíður, og fimmskipt að auki). Hið sama má einnig segja um sögurnar þrjár af Juliet (Chance, Soon og Silence); þær gerast á mismunandi æviskeiðum.

Samantekt? Munro er kvenlæg, djúphugul, gædd ríku innsæi, frábær í útlits-, veður- og staðarlýsingum, með ótrúlegt auga fyrir smáatriðum, gríðarlega kanadísk í muna og munni, en einnig stundum einsleit í efnisvali, oft ópersónuleg, ófyndin og dálítið pempíuleg. Ef lesandi leitar þessara eiginleika hjá einum og sama höfundi, þá er Alice Munro hans manneskja.


Söeborg gerði það áður - og betur

olæsinginnÞeir sem námu dönsku í menntaskólum landsins á áttunda áratug síðustu aldar, muna sennilega eftir meinfyndnum sögum Danans Finn Söeborg á borð við Saadan er det saa meget, Her gaar det godt og Navn Ukendt.*) Því er hann hér nefndur, að hann virðist hafa endurfæðst í sænskri útgáfu undir nafninu Jonas Jonasson.

Eins og hálf íslenska þjóðin las ég Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf fyrir fáum misserum og hafði gaman af. Bókin var ekki djúpristin, en það sem á skorti bætti hún upp með fjörlegri frásögn og vafasömum fróðleiksmolum úr mannkynssögunni.

Það var því með dálítilli tilhlökkun að ég réðst á nýjustu bók sama höfundar, Ólæsinginn sem kunni að reikna. Seinni bókin er hóflega frábrugðin fyrri bókinni – og samt ekki. Fer þar fram tveimur sögum framan af: Af áhrifum blökkustúlkunnar Nambeko í S-Afríku á gang veraldarsögunnar annars vegar og sænsku Qvist-fjölskyldunni, þar sem sumir eru kóngahatarar, hins vegar. Sögurnar teygja sig út fyrir heimalöndin, en þegar þriðjungur bókar er liðinn renna þær saman og Svíþjóð verður ráðandi sögusvið.

Víkjum fyrst að kostum Ólæsingjans umfram Gamlingjann: Framan af er farið dýpra ofan í mannkynssöguna en í fyrri bókinni. Ólæsinginn er tímabær upprifjun aðskilnaðarstefnunnar í S-Afríku og ýmsu því sem tengdist málefnum sunnanverðrar álfunnar á síðasta fjórðungi 20. aldar. Þarna stíga sprelllifandi inn á sviðið (hvítir) forsetar landsins á borð við Vorster og Botha, ásamt ýmsum öðrum þjóðhöfðingjum, sem hér skulu ekki nefndir. Í þessum skilningi er Ólæsinginn alvörugefnari bók en Gamlinginn, þótt frásögnin sé ærið galgopaleg. Þá er þetta suðræna sögusvið stór kostur bókarinnar; það er framandi og upplýsandi – en því miður er ekki staldrað þar við nógu lengi. Þess má þó geta að skrifaðar hafa verið mun betri, beittari og fyndnari ádeilur á aðskilnaðarstefnuna, svo sem hinar makalausu gamansögur Tom Sharpe, Riotous Assembly og Indecent Exposure.**)

Segja má um Ólæsingjann að hann er sjaldnast fyrirsjáanlegur í framvindunni og kemur oft á óvart, stundum næsta hugvitssamlega, en að sama skapi sveigir framvindan næstum jafnoft inn á kjánalegar brautir. Enn á ég eftir að fá að vita hvernig fjórar manneskjur fara að því að lyfta 800 kílóa kassa án hjálpartækja, eins og gerist alloft í bókinni, jafnvel þótt tvær þeirra séu fílefldir karlmenn í blóma lífsins (hitt eru konur).

Í Ólæsingjanum er ferskleiki Gamlingjans ekki lengur til staðar. Sagan virkar oft meðvituð um að verið sé að fylgja eftir bók, sem slegið hefur í gegn, þannnig að höfundur þræðir milliveg milli frumleika og væntinga. Ekki skortir hugmyndirnar, grunnhugmyndin um kjarnorkusprengju á vergangi er ógnvekjandi súrrealískt fyndin, en oft er beinlínis illa unnið úr snjöllum hugmyndum - þær virðast settar á blað í formi minnispunkta fremur en fullskapaðs bókmenntaverks. Sagan hefur því yfirbragð hálfkaraðrar þankahríðar, sem hefði átt heilmikla möguleika, ef rækilegar hefði verið unnið úr. Grínið, stundum þunnt, ber allan boðskap ofurliði og útvatnar um leið alvörukenndari þætti sögunnar. Óbein ræða er ráðandi á löngum köflum og lítið fer fyrir trúverðugum samtölum með inntaki; helst þjóna þau tilgangi fimmaurabrandara. Jafnvel verra er að persónusköpunin í Ólæsingjanum er ekki upp á marga fiska, kannski vegna þess hve langt er gengið í karíkatúr. Þannig verða söguhetjurnar stundum of farsakenndar til að hægt sé að taka þær trúverðugar – Persónur eins og Njósnari A og Njósnari B, Holger 1 og Holger 2, Kínversku systurnar þrjár (allar nafnlausar) og Unga reiða konan (sem um síðir fær nafn) – allt minnir þetta fólk á karaktera úr bókum Söeborg, sérstaklega Navn Ukendt. Þá er texti Jonasson stundum með býsna gúglaðri áferð – staðreyndir (um landafræði, vísindi, kjarnorku o.fl.), augljóslega sóttar á netið, verða aldrei beysin uppistaða í verk.

Þýðing Páls Valssonar rennur prýðilega og er oft býsna fjörleg, sem hæfir efninu. Þó þótti mér sérkennilegt orðalag á stöku stað. Sagt er að Brésnev Sovétleiðtogi hafi verið tréhestur, Andrópoff meiri tréhestur og Tsérnenko mesti tréhesturinn. Ekki hef ég sænsku útgáfuna við höndina (þar sem gæti verið notað orðið trähäst), en það hefur, held ég, enga merkingu að tala um tréhest á þennan máta á íslensku og máske nær að tala um eintrjáning eða þurradrumb. Einnig má nefna að nokkrum sinnum bregður fyrir nýyrðinu ofdramb, sem ekki finnst í mínum orðabókum. Virðist þar slegið saman orðunum drambi og oflæti eða ofmetnaði.

Miðað við þær vinsældir, sem Ólæsinginn naut í sölu á nýliðnu ári, furðaði ég mig á því hvers vegna ekki hefði verið meira skrifað eða bloggað um bókina. Ekki lengur. Söeborg var búinn að gera þetta sama á undan. Og betur. Í helmingi styttri bókum.

–---
*) Notast er við gamaldönsku hér, þar sem forritið vill afbaka tákn úr nútímadönsku.

**) Hinn óviðjafnanlegi Tom Sharpe lést síðastliðið sumar. Á sínum tíma las ég allar hans bækur upp til agna. Ætti ég ef til vill að grípa í eina til að blogga um, karli til heiðurs? Erfitt er að gera upp á milli eftirlætisbóka. The Great Pursuit? Einhver af þremur fyrstu Wilt-bókunum? Eða hinar kostulega ofangreindu S-Afríkubækur?


Fræðibókahugleiðing

kaupmannahöfnÁ nýliðnum jólum fékk ég fáeinar bækur að gjöf, sem ekki er í frásögur færandi, nema hvað við það að fletta þeim hugsa ég til þess hvernig tilnefningum til hinna íslensku bókmenntaverðlauna 2013 á sviði fræðibóka er háttað. Tilnefndar bækur má flokka í tvennt, annars vegar fræðirit tengd handritum (Leiftur á horfinni öld – Hvað er merkilegt við íslenskar fornbókmenntir? og Íslenska teiknibókin) og hins vegar náttúrufræði- og útivistarbækur (Vatnið í náttúru Íslands, Fjallabókin og Stangveiðar á Íslandi). Ekki halla ég á þessi verk, sem vafalítið eru makleg hvert á sinn hátt, en heldur þykja mér einsleit fræðasviðin. Hvar eru sagnfræðiritin? spyr ég bara. Mig rak í rogastans, þegar ég sá að stórvirkið Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands eftir sagnfræðingana Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór, í tveimur bindum í stóru broti upp á samanlagt yfir 1100 blaðsíður, kemst ekki á þennan stall. Annað merkilegt og massívt sniðgengið rit er Hér mætast skipin, sem Guðjón Friðriksson hefur einnig samið, í tveimur bindum með á sjöunda hundrað blaðsíðna. Hvers vegna skyldu ofangreind sagnfræðirit – eða önnur - ekki hafa hlotið náð fyrir augum dómnefndar? Máske voru þau ekki nógu vel “auglýst” í bókmenntaþáttum fjölmiðla vikurnar fyrir jól? Eða kannski komu þau ekki út hjá réttu forlagi? Eða skortir dómnefndina máske söguvitund? Eða eru hinar útnefndu bækur virkilega betri en stórvirki þeirra Guðjóns og Jóns?



Freud, Trotskí og endalok heimsins

burgess end of the world news 2Hvað eiga ævisaga Freuds, söngleikur um dvöl Trotskís í New York á útmánuðum 1917 og vísindaskáldsaga um endalok jarðar árið 2000 sameiginlegt? Ekkert – nema hvað þetta eru þrjár stoðir, sem slengt er saman í eina (af betri) skáldsögum Anthony Burgess, The End of the World News (1982).

 

Tenging þessara þriggja ólíku sviða hljómar næsta fjarstæðukennd. Hver saga er rakin fyrir sig og þegar leikar standa hæst, þá – bang! - er lesandanum þeytt inn í aðra og gerólíka frásögn. Hvernig getur nokkrum höfundi flogið annað eins í hug? Í seinni hluta ævisögu sinnar, You´ve Had Your Time (1990) greinir Burgess frá því hvernig hann sat uppi með þrjú verkefni, sem hann hafði verið beðinn um að skrifa, en voru andvana fædd, þ.e. urðu aldrei það sem til stóð. Hið fyrsta var handrit að stórslysakvikmynd frá um 1975 - gott ef hugmyndin kom ekki upphaflega frá sjálfum Sam Goldwyn. Þetta var á tíma þegar stórslysamyndir voru vinsælar – um brennandi stórbyggingar (The Towering Inferno), sökkvandi skip (The Poseidon Adventure) og jarðskjálfta (Earthquake). Nú átti að gera hina endanlegu stórslysamynd, um eyðingu jarðarinnar, og var Burgess ráðinn til að skrifa synopsis, eins og það er kallað af innvígðum. Hafa ber hugfast að þetta var 15-20 árum áður en myndir eins og Deep Impact, Armageddon, Titanic og Independence Day voru gerðar. Raunar var í millitíðinni framleidd stórslysakvikmyndin Meteor (1979) með Sean Connery í aðalhlutverki, byggð í grundvallaratriðum á sömu hugmynd og saga Burgess. En skemmst er frá því að greina, þá féll kvikmyndafélagið frá gerð stórslysamyndar eftir sögu Burgess af fjárhagsástæðum – og hann sat uppi með ónýta grind að sögu. Um 1980 stóð til að settur yrði á svið söngleikur á Broadway um daga Trotskís í New York 1917. Ráðið var tónskáld til að semja tónlistina og Burgess til að semja söngtexta og söguþráð. Tónskáldið skilaði aldrei sínu, en Burgess kláraði textann (og samdi reyndar lög við hluta verksins, því að Burgess var sjálfur liðtækur við tónsmíðar). Þriðja verkið var svo handrit að heimildamynd um Freud, sem kanadísk sjónvarpsstöð bað hann að skrifa. Enn og aftur lauk hann sínum þætti, en verkefnið varð aldrei barn í brók.

Þannig að Burgess sat uppi með þrjú gjörólík verkefni, sem ekkert virtist ætla að rætast úr. Lausnin? Að steypa þeim öllum í eina skáldsögu og leggja fáeina, örfína þræði til að tengja verkin. Og hið ótrúlega er að það gengur upp. Og þótt heimsendasagan drífi lesandann áfram, þá er ævisaga Freud lang-áhugaverðasti hluti verksins. Ætíð var tilhlökkunarefni, þegar þeirri sögu sleppti, að sjá hvernig þráðurinn yrði tekinn upp og henni yndi áfram. Ekki bara kynnumst við Freud og kenningum hans, heldur hittum við alla helstu lærisveina hans, sem sumir hverjir urðu seinna á lífsleiðinni fráhverfir læriföðurnum og frægir á eigin forsendum. Hér stíga fram ljóslifandi Carl Jung, Alfred Adler, Sandor Ferenczi, Otto Rank, Ernest Jones og sægur annarra – og einnig konurnar, Helene Deutsch og Marie Bonaparte, auk eiginkonu Freuds, Mörthu, og dótturinni Önnu. Upphafskafli bókarinnar - þegar Ernest Jones kemur til Vínarborgar vorið 1938, skömmu eftir Anschluss, til að fá gyðinginn Freud til að yfirgefa landið þar sem hann hefur búið alla tíð - er óviðjafnanlegur. Jones, Freud, Martha og Anna skamma embættismenn Gestapo eins og óþekka skólastráka og sýna hvernig sá sem heldur reisn reynist hlutskarpari þeim, sem fer með óskorað vald. Óborganlegur upphafskafli. Svo fylgjum við upprifjun á ævi þessa brautryðjenda sálgreiningar langt aftur í tímann, kynnumst ósigrum hans jafnt sem sigrum, ranghugmyndum jafnt sem tímamótamarkandi kenningum og, síðast en ekki síst, hvernig kenningar hans gætu hafa átt við innan hans eigin fjölskyldu. Þetta er ótrúlega persónuleg, náin og nærfærin nálgun - og varla hægt að skrifa hana betur.

Sagan um Trotskí er afmörkuðust í tíma og rúmi og gerist í New York frá janúar til apríl 1917, en byltingarleiðtoginn er kominn til Stóra eplisins til að kynda undir allsherjarbyltingu verkamanna – það er á vitorði fárra annarra en fræðimanna, en á árunum 1915-25 var ótti við sósíalíska byltingu verulegur í Bandaríkjunum, sbr. IWW, Joe Hill, Sacco og Vanzetti og fleiri mál frá þeim tíma. Söngleikurinn dregur upp ljóslifandi mynd af Trotskí sjálfum og vísi að ástarævintýri, enda óforbetranlegur kvennamaður og – einmitt á þessum árum – meðvitaður um eigið mikilvægi. Einnig er dregin upp óljósari mynd af eiginkonu hans Natalíu – þau bjuggu í opnu hjónabandi – og sonum þeirra tveimur. Söngleikurinn endar þar sem fréttir hafa borist af því að keisarastjórnin er fallin í Rússlandi, Trotskí getur snúið heim – en í sömu andrá berast fréttir um að Bandaríkin hafi byrjað þátttöku í fyrri heimsstyrjöld.

Það er einkennilegt að hafa tvær frásagnir byggðar á sannsögulegum og heimsfrægum persónum og hræra þeim saman við þriðju frásögnina, sem er hreinn skáldskapur og meira að segja vísindaskáldskapur, um yfirvofandi eyðingu jarðarinnar. Hér sýnir Burgess frábæra hugvitssemi. Halastjarna stefnir á jörðina, hrifsar með sér tunglið þegar hún fer framhjá með ægilegum náttúruhamförum og kemur til baka, eftir hring um sólu, til að granda jörðinni endanlega. Gálgafrestinn nota jarðarbúar (þeir sem vita um yfirvofandi áreksturinn) til að byggja sér geimför og koma sér frá deyjandi plánetu. Höfundinum tekst hér frábærlega að dansa á línu persónusögu og almennra lýsinga upplausnar. Sérstaklega er athyglisverð greiningin á trúarbrögðum, sem verða til við yfirvofandi endalokin. Persónugalleríið er gríðarstórt: Vísindaskáldsagnahöfundurinn Val Brodie; ferðafélagi hans Falstaff-leikarinn Willett; eiginkona hans, vísindakonan gullfallega Vanessa Brodie (Doctor Brodie, fyrir Borges-aðdáendur); faðir hennar stórreykingarmaðurinn Frame; hin ólétta Edwina, sem ber máske frelsara undir belti; sjónvarpspredikarinn Calvin Gropius og margir fleiri. Sagan gerist í Bandaríkjunum – enda var hin fyrirhugaða kvikmynd ætluð fyrir Bandaríkjamarkað. Þarna koma fyrir forseti síðustu Bandaríkjanna og ráðgjafar hans, eftirminnilegir mafíósar, öll stórfjölskylda sjónvarpspredikarans ofan í afabörnin, hermenn og varðliðar og lögregluþjónar og tugir af tilfallandi persónum. Þeim mun erfiðara ætti að vera að halda utan um þennan fjölda allan, þar sem frásögnin er reglulega rofin af þeim Freud og Trotskí, en aldrei, ekki einu sinni, er lesandinn í vandræðum með að fylgja þræði. Og heimsendir verður ekki bara ljótur í meðförum Burgess; hann er einnig fullur af lit og leik og söng og dansi og ást og hugrekki og virðingu og reisn, andspænis upplausninni - heimsendir, eins og allt annað, verður lýsandi dæmi um afrek og glappaskot breysks mannkyns.

Og tengjast þessar sögur innbyrðis? Þótt svo virðist varla lengi vel, þá reynist á endanum þannig að það sem geimförunum tekst að hafa með sér af menningararfi jarðarinnar eru tvær myndir: Heimildarkvikmynd um Freud og söngleikur um Trotskí. Og innan þessa marglaga ramma hefur Burgess tekist að steypa alla hugmyndasögu 20. aldar, á sviði innra lífs, samfélagshugmynda og óheftrar vísindahyggju – með öllum kostum og göllum – á uppfræðandi hátt og með stórkostlega eftirminnilegum og ljóslifandi persónum. Talandi um marglaga frásagnir … Og óflokkanlegar skáldsögur.

Eintakið mitt er svo marglesið að það er farið á límingunum og lafir nánast eingöngu á lausum blöðum. Æ, hvað ég vildi að við ættum enn höfunda eins og Burgess ...


Gröndal dvelur við dægrin sín

Ný bók Guðmundar Andra Thorssonar, Sæmd, hefur hlotið verulega athygli. Kalla mætti verkið sögulega skáldsögu – eða jafnvel sögulega nóvellu, þar sem sagan er stutt og nokkuð fljótlesin, ekki ólíkt síðasta verki Andra, sagnasveiginum Valeyrarvalsinn.

Söguþráður Sæmdar snýst um smávægilegan atburð og eftirmál hans. Skólapiltur í Lærða skólanum hnuplar bók í desember 1882 og er gripinn í þann mund þegar hann ætlar að skila henni – en verða reyndar á þau mistök að setja ranga bók í stað hinnar í myrkrinu. Umsjónarmaður skólans, Björn M. Ólsen, stendur fyrir því að drengurinn er yfirheyrður á kennarafundum, með það fyrir augum að fá honum vikið úr skólanum fyrir siðferðisbrest, og beitir Ólsen fyrir sig vildarvini sínum úr hópi kennara, Sigurði slembi, sem gengur hart fram. Uns þriðja kennaranum, Benedikt Gröndal, er misboðið, en hann beitir sér fyrir framvindu, sem leysir stráksa úr úlfakreppunni.

Allar þrjár meginpersónur sögunnar - þeir Gröndal, Ólsen og pilturinn Ólafur – eru nokkuð jafnvægar. Fylgst er með hverjum þeirra við sína iðju og horft inn í hugarheim allra. Sögumaður er drengurinn sjálfur orðinn gamall maður, áratugum síðar, en stundum er erfitt að greina á milli hans og alviturs sögumanns, sem gægst getur inn í hugskot allra. Eins og höfundar er von og vísa, þá er textinn oft á tíðum gullfallegur, hlýr og alltumlykjandi. Sérstaklega eru glæsilegir kaflar framan af í bókinni, þar sem lýst er hugarheimi Gröndals, þegar hann fer á flug. Vandinn er máske sá að sagan er ekki ýkja stór. Persónusköpunin er mjög hefðbundin; við þekkjum þarna Gröndal og Ólsen mjög í samræmi við þær sögulegu heimildir, sem varðveittar eru um þessa menn. Tvennt má teljast sérstætt í dögunni. Annars vegar er það að báðir eru þeir (gerðir) einstæðir feður, sem ekki var algengt á þesssum tíma. Gröndal elur upp Túllu litlu og Ólsen elur upp Sigga litla sem fósturson. Hitt er að sagan er nánast með öllu kvenmannslaus. Tvær svartklæddar konur eru á stjákli sem þústir um bæinn, nánast eins og svipir; tvær þjónustustúlkur Gröndals vappa eitthvað í bakgrunni, sem og móðir og systir Ólsens, sem búa hjá honum, en allt eru þetta lítilsigldar persónur og nánast upptalið. Þetta er heimur karlmanna sem lýst er. Jafnvel er gefið í skyn að Ólsen gæti verið samkynhneigður, þótt ekki sé það beinlínis sagt berum orðum; hann heldur hálfgerða fyrirlestra yfir félögum sínum um fegurð ungra manna og stendur auk þess langtímum í myrkri yfir piltunum á Langalofti. Að sumu leyti eru þeir Gröndal og Ólsen ekki svo ólíkir; báðir eru þeir upprifnir af rómantískum hugmyndum um háleita fegurð.

Höfundur tekur sér skáldaleyfi víða í sögunni. Helst er að nefna að Gröndal er látinn búa í húsinu við Vesturgötu, sem hann keypti ekki fyrr en fimm árum síðar, en að auki eru mörg smáatriðin sem standast ekki sögulega (sjá síðar). Sagan er sýnilega vilhöll og þá Gröndal í hag, en Ólsen er þó ekki með öllu málaður sem ófreskja eða harðstjóri – sú mynd er milduð nokkuð. Vissulega hefur Íslandssagan farið mjúkum höndum um Gröndal, einkum í ljósi þess að hann var á sínum verstu dögum mjög litinn hornauga í bæjarlífinu. Má ef til vill fyrst og fremst þakka tvennu að hlutur hans réttist; annars vegar vitnisburður nokkurra skólapilta, sem líkaði vel við hann og rituðu á þann veg í æviminningar sínar, og hins vegar ævisaga Gröndals sjálfs, Dægradvöl, sem hann gaf fyrirmæli um að yrði ekki gefin út fyrr en nokkru eftir dauða sinn, enda um margt berorð og jafnvel meinyrt. Sjálfur hef ég, eins og höfundur Sæmdar, löngum verið í liði með Gröndal, hef lesið Dægradvöl reglulega með fárra ára millibili, og tekið allt þar sem heilagan sannleik; einnig margsinnis hlegið af Heljarslóðarorrustu, og lesið bréf og greinar skáldsins (og hafði þar sérstaklega gaman af lýsingu hans á fransk-prússneska stríðinu 1870-71 og einnig allfrægri Reykjavíkurlýsingu hans frá aldamótunum), auk þess að lesa lungann úr ljóðum hans, þótt ekki hafi ég nú beinlínis laugað mig í þeim, eins og mér sýnist Guðmundur Andri hafa gert. Það verður verðugt verkefni fyrir bókmenntafræðinga framtíðar að greina hvað höfundur Sæmdar hefur tekið upp úr skrifum Gröndals sjálfs, hvar þeim sleppir og hvar skáldskapur Guðmundar Andra tekur við. Held ég að oft verði erfitt að greina þar á milli, enda má heita svo að Guðmundur Andri taki hér við kefli hinna rómantísku skálda frá s.hl. 19. aldar. Sérstaklega er þetta einkennandi í þeim köflum, þar sem pilturinn Ólafur hugsar heim á eyrina, en það er ómenguð íslensk náttúrurómantík sem trompar eiginlega allt sem áður hefur verið skrifað á því sviði. Samt er óhætt að mæla með Sæmd. Þetta er ekki gallalaust verk, en í bestu köflunum verður lestrarnautnin slík að hún gerist varla ljúfari á íslensku.

–---

Hér læt ég gagnrýni á bókina lokið, en kem með dálitlar viðbætur sem varpa mögulega réttara sögulegu ljósi á þá atburði, sem hún greinir frá. Í Sæmd er þjófnaðarmálið gert sem lítilfjörlegast, en í reynd var það öllu alvarlegra. Pilturinn (sem í alvörunni hét Magnús og varð síðar sýslumaður) virðist hafa haft nokkuð einbeittan ásetning um glæp; hann stal bókinni, lét binda hana inn og merkti sér hana. Frá þeim sjónarhóli verður harka skólayfirvalda í málinu skiljanlegri; í Sæmd virðist harkan ekki í samræmi við (smættað) brotið. Einnig er breytt í Sæmd viðbrögðum Gröndals við málinu; í bók Guðmundar Andra er hann látinn strunsa út af kennarafundi og arka, klæddur stakki föður síns, í ísþoku alla leið suður á Álftanes að hitta fjárhaldsmann drengsins, mektarprestinn Þórarin í Görðum, sem þá hefur afskipti af málinu. En í reynd lagði Gröndal ekki á sig mannraunina, heldur lét hann duga að skrifa bréf suður eftir. Svo má auðvitað velta fyrir sér hvort afskipti af því tagi, sem Gröndal stendur fyrir, séu endilega stjórnsýsla sem er æskileg í augum nútímamanna – séra Þórarinn fær nefnilega landshöfðingja þáverandi til að grípa inn í málið fyrir kunningsskap og með valdboði – þetta er klíkusamfélagið og samfélag valdsins í hnotskurn. Í Dægradvöl lýsir Gröndal oftar en einu sinni hve honum leiddist á kennarafundum; kannski skipti hann sér ekki af þessu máli einvörðungu af mannkærleik til piltsins, heldur til að hraða lokum leiðinlegs fundar. Einstök atriði í Sæmd má vitaskuld líta á sem skáldaleyfi – þannig mun Björn M. Ólsen ekki hafa tekið Sigga litla í fóstur fyrr en eftir drukknun föður hans, Sigurðar slembis árið 1884, auk þess sem aldri Sigga litla er hnikað; í reynd hefði hann átt að vera þriggja ára árið 1882. Dálítið þótti mér skjóta skökku við að nota viðurnefni Sigurðar (eldri) eins og eiginnafn. Vissulega var hann stundum kallaður, stutt og laggott, Slembir og þá var það haft með stórum staf, en annars var hann jafnan skrifaður Sigurður slembir; í Sæmd er nafnið hins vegar jafnan skrifað með stórum stöfum beggja vegna: Sigurður Slembir. Þá eru þættir í útlitslýsingu Björns Ólsen, sem illa ganga upp miðað við sögutímann. Hann er sagður með óvenju gróskumikið skegg, en myndir af honum frá þessum árum sýna ekki að hann hafi verið kominn með hið mikla rostungsskegg, sem hann varð síðar frægur af. Nefnt er einnig að Björn hafi gaman af að ráða krossgátur – en krossgátur fóru varla að þekkjast í blöðum á Íslandi fyrr en töluvert eftir aldamótin 1900, varla fyrr en á síðustu æviárum Ólsens, en hann lést árið 1919. Þá stakk mig í augu að sjá nafn leikfimnikennara Lærða skólans skrifað Ólafur Rósinkransson; ég hef aldrei séð eftirnafnið ritað öðruvísi en sem ættarnafn, Rósinkranz (Rósenkranz, Rósinkrans).

Sem fyrr segir er ég gamall Gröndalssinni. Orðspori hans var haldið á loft af Dægradvöl og ummælum ýmissa nemenda hans. Þess vegna er þörf áminning það sem Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður og þingmaður, hafði að skrifa um þessa tvo herra. Hannes var fæddur 1860, lærði hjá þeim báðum, Gröndal og Ólsen, og átti síðar eftir að tilheyra þeirri broddborgaraklíku sem var í kringum Ólsen (Magnús Stephensen landshöfðingi, Hannes Hafstein, Jónassen landlæknir), sem miklu réði í bæjarlífinu, á meðan Gröndal lapti dauðann úr skel og reyndi í sífellu að kría út styrki frá Alþingi. Hannes Þorsteinsson fór svipaða leið og Gröndal, ritaði endurminningar sínar (stuttu eftir að Dægradvöl kom út) og hélt þeim luktum frá sjónum manna, en þær máttu opnast árið 1960, á 100 ára afmæli höfundar sem þá var löngu horfinn á vit feðra sinna.

Um kennara sinn, Gröndal, segir Hannes Þorsteinsson eftirfarandi (útdráttur):

“Benedikt Gröndal … var væskilslegur að vallarsýn, og lítill fyrir mann að sjá, ófríður sýnum, óþýður í viðmóti og stuttur í spuna, þá er illa lá á honum, sem oft bar við, og var þá ekki unnt að gera honum til hæfis, því að karl hafði þá allt á hornum sér, þá er svo stóð í bólið hans, en stundum gat hann þó verið kátur með glensi og gamanyrðum, því að hann var harla mislyndur, tiltektarsamur og tiktúrufullur, og gat vindstaðan breyst allt í einu úr blæjalogni í rokviðri, af litlu eða engu tilefni. … Eins og skáld skorti hann nauðsynlegt jafnvægi til að halda hugsun sinni og hátterni á réttum kili og komst því út í ýmsar öfgar, svona sitt á hvað. Er nú orðin venja að afsaka alla hnykki og rykki skáldanna út af alfaravegi með því að eigna það “genialiteti” þeirra … En þessi skoðun, sem alls ekki er réttmæt, nema að litlu leyti, hefur gert ýmsa sæmilega gáfaða menn að fíflum, með því að ala hjá þeim þá endemisfirru, að alls konar sérgæðingsháttur til orðs og æðis = genialitet. Benedikt Gröndal var að vísu gáfumaður og listfengur á marga lund, en gáfur hans hafði vantað allt taumhald frá barnæsku … Og Gröndal mun snemma hafa litið svo á, að hann væri og ætti að vera öðru vísi en annað fólk og gert sitt til þess að breikka það djúp milli sín og múgsins með annarlegri og oft ankannalegri framkomu, og í þessu sjálsmati Gröndals á yfirburðum gáfna sinna og hæfileika yfir fjöldann ætla ég, að liggi margar af þeim óráðnu gátum og undarlegu tiktúrum í lund og látæði hans. Og víst er um það að hann leit afar stórt á sig og hafði afar háar hugmyndir um sjálfan sig, þóttist ávallt misskilinn og aldrei metinn að verðleikum og varð af því önugur og beiskur í lund. Og það kvað svo rammt að þessu, að hann stórfyrtist við kunningja sína, ef þeir létu hann hlutlausan og hældu honum ekki upp í eyrun og jafnframt á prenti, og þá varð allt að vera svo hnitmiðað, að þar væri engin smuga á, því að annars mátti ganga að því vísu, að hann yrði sárgramur, ef orðalagið var ekki öldungis sniðið eftir því, sem hann vildi helst kjósa. Og það var þessi dæmalausa fyrtni og undarlega viðkvæmni Gröndals, oft og einatt út af bláberum hégóma, sem bæði fældi kunningja hans frá honum og gerði hann allt í einu móthverfan þeim, sem verið höfðu honum vel. Þess vegna hélst honum svo illa á verulegum vinum, og mun hafa átt þá fáa. Ollu því skapbrestir hans, takmarkalítið sjálfsálit og hégómagirni … menn vissu, að honum var að ýmsu ekki með öllu sjálfrátt, tóku hann ekki alvarlega og afsökuðu hnykki hans, að svona væri nú Gröndal gamli gerður, og svo væri ekkert frekar um það að segja. Hann hafði skapað sér sérstöðu og naut hennar í skjóli “gröndælskunnar” … Gröndal var ekki orðinn hæfur til að gegna embætti sínu við skólann vegna drykkjuskaparóreglu. Það var ómótmælanlegt. En hann tók nærri sér, þótt minni mótgerðir væru en þessi frávikning, og þess vegna hefur hann hallað mjög á Jón rektor og sérstaklega Björn Ólsen út af þessu í “Dægradvöl” eða endurminningum sínum, sem yfirleitt eru mjög hlutdrægt ritaðar og dómar hans um menn oft staðleysur einar og mótsagnir. Það er því mjög viðsjárvert heimildarrit og “ekta gröndalskt” … Um skáldskap, náttúrufræðiþekkingu og listfengi Gröndals verður hér ekki rætt. Þess skal aðeins getið að hin hversdagslega hönd hans, eða þá er hann ritaði hratt, var ekki neitt sérlega falleg og fremur ógreið aflestrar, því að stafagerðin var mjó og nokkuð ógreinileg, en þá er hann vandaði sig, t.d. í skrautrituðum ávörpum, þá var handbragðið hreinasta snilld.”

Svo mörg voru þau orð. Og líkt og til að jafna um metin, þá lætur Hannes svo mælt um Björn M. Ólsen, fyrrum lærimeistara sinn og síðar vin:

“Björn Magnússon Ólsen … var hár vexti og þrekinn, gervilegur sýnum og sópaði að honum, stórleitur í andliti og nokkuð opinmynntur, yfirbragðið hreint og góðmannlegt, en þó alvarlegt, því að hann var alvörumaður mikill, hafði átt við þungt heilsuleysi (lungnatæringu) að berjast á yngri árum og mestan hluta ævi sinnar, og mun það hafa mótað skapgerð hans og gert hann örari í lund og viðkvæmari fyrir utanaðkomandi áhrifum en ella mundi. Hann var prýðisvel að sér í gömlu málunum (latínu og grísku) og ýmsum öðrum vísindagreinum og fyrirtakskennari, áhugamikill um framfarir lærisveina sinna og einkar laginn að vekja áhuga þeirra á náminu. Hann var kennari af lífi og sál, sérstaklega í gömlu málunum, og voru allir einhuga í því að viðurkenna hina miklu kennarahæfileika hans, þótt stundum væru skiptar skoðanir manna um afskipti hans af skólamálum eða stjórn hans á skólanum. Hann var langfremsti kennari skólans á minni tíð … Það sem Ólsen var helst fundið til foráttu, var of mikil eftirgangsemi og rekistefna við pilta út af smámunum einum. Hann lét flest til sín taka í stjórn skólans, áður en hann varð rektor, en sú afskiptasemi mæltist misjafnt fyrir, og skorti Ólsen þá lipurð og lempni til að lagfæra það, er miður fór … Mætti hann oft mótspyrnu ,,, einnig frá kennurunum … Þetta vissu piltar og kunnu að nota sér það, svo að hinn góði vilji og umbótastarfsemi Ólsens strandaði á þessum tvöfalda mótþróa, og tók hann sér það nærri, því að maðurinn var geðríkur og kappsamur í hverju sem hann tók sér fyrir hendur … Ólsen var allra manna trygglyndastur og vinfastastur, þar sem hann tók því, svo að ekki varð um haggað, einlægur og hrekklaus í allri framkomu sinni og yfirleitt mesti mannkosta- og sæmdarmaður, auk þess sem hann var viðurkenndur vísindamaður utan- og innanlands, skarpur og athugull, sérstaklega í íslenskri sögu og málfræði, sem hann ritaði mest um, enda var maðurinn ágætlega vel gefinn og vel að sér um hvatvetna.”




Talnaþraut

Hugsaðu þér töluUm þarsíðustu helgi fór fram býsna merkileg bókmenntaráðstefna, sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis, um glæpasögur, undir nafninu Iceland Noir. Var hún að flestu leyti feikivel undirbúin og eiga þeir, sem að henni stóðu, heiður skilinn fyrir elju og ósérplægni. Að öðrum ólöstuðum held ég að hvatamaðurinn, Ragnar Jónasson, hafi borið hitann og þungann. Sem við var að búast hlaut ráðstefnan litla umfjöllun í fjölmiðlum, enda bókmenntaprelátar og -hofróður bæjarins uppteknari af að dásama ný, meint öndvegisskáldverk.

Þegar ég mætti á umrædda ráðstefnu gaukaði Ragnar að mér tveimur glæpakiljum og virtist önnur nógu áhugaverð til að lesa hana án tafar og skjóta henni þar inn á milli meintra alvörubókmennta. Sagan sú heitir Hugsaðu þér tölu, er frumraun Bandaríkjamannsins Johns Verdon og kom út ytra árið 2010.


Hugsaðu þér tölu greinir frá fyrrum ofurlöggunni Dave Gurney, sem nýlega er kominn á eftirlaun tæplega fimmtugur (!) og hefur flust frá Stóra eplinu til dreifbýlis við Catskills-fjöll í uppsveitum New York-fylkis – en í raun mun hið sama eiga við um höfundinn Verdon, sem áður var mógúll í auglýsingabransanum í stórborginnni, en var nýfluttur á sömu slóðir, þegar hann hætti í sínum bransa og tók að skrifa bækur, orðinn nokkuð roskinn.

Sagan hefst á því að gamall félagi Gurney frá háskólaárum hefur samband við hann, er hann kemst að því að löggan fyrrverandi hefur flust í sveitina sem hann býr í, en félaginn hefur afar sérkennilegt mál að glíma við. Ókunnugur hefur sent honum bréf þar sem honum er boðið að hugsa sér tölu á bilinu einn og þúsund. Og viti menn – meðfylgjandi í umslagi er miði með nákvæmlega þeirri tölu.

Efnileg byrjun, nema hvað hún er ívið langdregin - byrjunin fyrst og síðan bókin öll. Efnið er ekki veigameira en svo að það endist vart þær rúmu fjögur hundruð blaðsíður sem lesa þarf. Jafnvel þótt fjórir hafi verið myrtir áður en yfir lýkur. Sagan fer svo þunglamalega af stað að hún nær engu flugi fyrr en drjúgur þriðjungur er að baki. Þá reynist hún eins og einn þokkalega bitastæður sjónvarpsþáttur samanvöðlaður úr Criminal Minds, NCIS og Psycho.

Einn meginókostur bókarinnar er langdreginn og ofurraunsæislegur stíll á köflum. „Hann skrúfaði frá eldhúskrananum, lét vatnið renna uns það varð nægilega kalt, sótti sér glas í skápinn fyrir ofan eldhúsborðið, fyllti það upp að barmi, teygaði stórum vatnið svo að barkakýlið gekk upp og niður, skrúfaði fyrir og lagði glasið í eldhúsvaskinn í stað þess að setja það í uppþvottavélina eins og hann var vanur.‟ Einhvern veginn á þennan veg hljóma leiðinlegustu vífillengjurnar, þegar hægt hefði verið að segja: „Hann fékk sér vatnsglas.‟ Töluvert rými fer í persónuleg mál Gurneys og er þar sumt gott og annað síðra. Hann býr með seinni konu sinni, Madeleine, og þau dragnast með beinagrind í skápnum. Með fyrri konu á Gurney uppkomna soninn Kyle, sem gert hefur það gott á framandi slóðum í fjármálaheiminum, býsna fjarlægur drengur framan af, en svo dúkka mál hans óvænt upp nærri bókarlokum, með fréttum sem lesandanum finnst með ólíkindum að berist Gurney á þann hátt sem þær gera. Með símtali, reyndar - og í sjálfu sér er með ólíkindum hve stór hluti sögunnar gerist í símtölum; ég held að ég hafi aldrei lesið bók með fleiri símtölum. En það endurspeglar líklega samtímann betur en nokkuð annað – nútímamaðurinn eyðir hálfum deginum í síma. Að sama skapi verður fyrir vikið ótrúverðugt hve erfitt sonurinn Kyle á með að ná sambandi við föður sinn, þegar allir aðrir virðast hafa greiðan aðgang að honum í gegnum símann. Hvert símtalið tekur við af öðru – Gurney er vart búinn að leggja á, þegar aftur er hringt. Og hafi hann verið utan símasambands bíða hans skilaboð í runum á símsvaranum.

Annar galli sögunnar er að látið er ógert að fylgja þræði, sem fram kemur strax í upphafi, og leiðir um síðir til lausnar gátunnar. Ef Gurney eða lögreglan hefðu haft hugsun eða nennu til að rekja það spor frá byrjun hefði mögulega mátt bjarga mannslífum – en sem betur fer drapst fólkið bara í bók, en ekki í alvörunni. Þá má nefna að alloft er farið út í persónulýsingar í gegnum samanburð við kvikmyndir – sjálfur líkist Gurney engum öðrum en Robert Redford úr Butch Cassidy and the Sundance Kid. Á móti má nefna að Verdon tekst líka á köflum býsna vel með upp með persónugallerí sitt; karakterar af lögreglustöðinni eru skrambi skemmtilegum dráttum dregnir og sumir beinlínis eftirminnilegir. Sama máli gegnir um eiginkonuna Madeleine, sem er furðu dulúðug og tvíræð. Að sumu leyti er engin nákomnari Gurney, en á sama tíma verður hann að horfast í augu við að enginn maður getur nokkurn tíma að fullu þekkt aðra persónu; hún kemur stöðugt á óvart, á jákvæðan og neikvæðan máta. Enn má nefna þann galla að rökréttasta skýringin á ráðgátunni reynist rétt, en samt dettur engri löggu hún í hug fyrr en dregur nær bókarlokum. Þótt Gurney eigi að vera ofursnjall, þá fannst mér vanta í hann blaðsíður þegar kemur að slíku hyggjuviti. Loks má minnast á að sjálf kúlmínasjónin í lokin reynist heldur bragðdauf, fyrirsjáanleg og með þeim óþarfa að morðinginn, sem fram að þessu hefur gengið hiklaust og fumlaust til verks í drápum sínum, gefur sér tóm, tíma og tækifæri til að útskýra allt sem að baki liggur – og kemur þar við sögu annar lögregluforingi, John Nardo, sem virðist fádæma skilningssljór og áttar sig ekki á neinu fyrr en löngu eftir að lesandinn skilur allt.

 

Samt. Þegar öllu er á botninn hvolft er Hugsaðu þér tölu samt engan veginn slæm bók – hún er, held ég, nokkuð yfir meðallagi glæpabóka af þessum toga. Hundrað blaðsíðum styttri hefði hún getað verið verulega sterk - og samt ekki misst neitt, sem ekki er óþarft.

-----

P.S. Ég biðst velvirðingar á tvískiptri leturgerðinni. Svona gerist, þegar tölvurnar taka að hugsa sjálfstætt.




Hvaða gamla járnarusl sem er

 any old iron

Fyrir rúmu ári komst ég á þá skoðun að svo langt væri liðið á lífið að nauðsynlegt væri að endurlesa sumt það gæðaefni, sem ég las á yngri árum, því að enginn veit sína ævina og allt það. Máske væri betra að lesa gamlar gæðabækur, sem reynast uppspretta ánægju hverju sinni, en áhættusöm yngri verk, sem oft leiða af sér ergelsi og ófullnægju. Og hvar er betra að byrja en á bókum Anthony Burgess?

Ef til er höfundur, sem ég gæti talist þokkalega lesinn í, þá er það Anthony Burgess - og þá helst skáldverkin. Í heil fimm ár fyrir 1985 las ég varla nokkuð annað en Burgess - þar á meðal skáldsöguna 1985. Burgess var óhemju afkastamikill og bestu bækur hans eru einfaldlega með því albesta sem ég hef rekist á; í þeim skilningi er hann eftirlæti mitt. Snilldarverk á borð við Earthly Powers, Kingdom of the Wicked, End of the World News, Enderby-fjórleikurinn, Nothing Like the Sun og Man of Nazareth færu allar í hóp hundrað eftirlætisbóka minna. Sumar þeirra hef ég lesið tíu sinnum eða oftar. Aðrar frambærilegar bækur eftir Burgess eru Abba Abba (sem fjallar ekki um Muriel´s Wedding, þrátt fyrir titilinn, heldur ævi John Keats) og Honey for the Bears. Nokkuð góðar má telja Tremor of Intent, 1985, Pianoplayers, M/F og frægustu skáldsögu höfundarins, nóvelluna A Clockwork Orange, en engin saga hans er, að mínu mati, óáhugaverð. Sjálfsævisaga meistarans, gefin út í tveimur hlutum, er náttúrlega snilldarverk líka, sérstaklega fyrri hlutinn, sem heitir Little Wilson and Big God, en raunverulegt nafn Burgess var John Wilson.

 

Svo að eitt kvöld fyrir fáum vikum dró ég fram Burgess-bók, sem slagar hátt upp í besta flokkinn. Hún heitir því óspennandi nafni, Any Old Iron (Burgess fjallar töluvert um vandann við að semja áhugaverða bókartitla í ævisögu sinni). Any Old Iron er semsagt harðla ómerkilegur titill á býsna skemmtilegri skáldsögu, í fullgildri fullorðinsstærð, næstum 400 bls með þéttu letri. Hún er ein af síðustu skáldsögum höfundar, frá árinu 1987, en Burgess lést sex árum síðar, úr lungnakrabba, enda óforbetranlegur vindlareykingamaður.

Ekki er auðvelt að lýsa efni Any Old Iron. Sagan gerist nokkurn veginn á árunum 1910-1950 og er í grunninn fjölskyldusaga Walesbúans David Jones, sem strýkur að heiman, kemst að sem hjálparkokkur á Titanic, bjargast úr sjóslysinu og kemst til New York, þar sem hann kynnist rússneskri fegurðardís, Lúdmilu að nafni, og takast með þeim ástir. Þau flytjast heim til Wales (og tóku sér næstum far með
Lúsitaníu vorið 1915), David tekur þátt í fyrri heimsstyrjöld, Lúdmila skreppur heim til Rússlands 1917 og verður vitni að falli keisarastjórnarinnar. Þau eignast síðan þrjú börn, hinn hálfbilaða Reg, fegurðardísina Beatrix og hinn sérlundaða og ómenntaða Dan, sem hefur ekki áhuga á neinu öðru en að hantera fisk. Börnin þrjú, orðin fullorðin, taka svo þátt í seinni heimsstyrjöld, hvert á sinn hátt, rússneskumælandi Wales-verjar, og nýtist þeim sú sérþekking á marga vegu. Sögumaður er hins vegar fjölskylduvinur, sem við fáum í upphafssetningu bókarinnar að vita að er hryðjuverkamaður sprenglærður í vestrænni heimspeki; en nafn hans kemur ekki fyrir nema einu sinni í allri bókinni og það er þegar langt er liðið á, og þá fáum við einnig að vita að hann hefur gerst lífvörður Chaim Weizmann, fyrsta forseta Ísraelsríkis. Semsagt gyðingur. Sem flytur um síðir til fyrirheitna Zíon, ekki að öllu leyti sjálfviljugur, stuttu eftir að Ísraelsríki er stofnað. Systir sögumanns, gyðingastúlkan
og pákuleikarinn Zip, er eiginkona annars þeirra Jones-bræðra.

 

Inn í þessa (hversdagslegu?) fjölskyldusögu blandast svo ýmsir stórviðburðir frá fyrri helmingi 20. aldar og væri óstöðugur ærður að rekja þá hér. Í bakgrunni er svo upphaf sjálfstæðisbaráttu Wales-búa, stundum næsta hjákátleg, en þar er ein helsta þjóðhetjan Artúr konungur, sem á sínum tíma var
hrakinn vestur af Englandi af saxneskum innrásarmönnum, en varðist með Excalibur í hendi. Eða Caledvwlch, eins og sverðið heitir upp á velska gelísku. Og óhætt er að segja að sverðið
atarna komi við sögu; komið frá Atla Húnakonungi, í gegnum rómverska herstjórann Aetíus og Britannakonunginn Ambrósíus Árelíanus, í hendur Artúrs og hefur legið grafið í geymslum
Benediktína-munka í Monte Cassino í árhundruð, uns það dúkkar upp, ryðétið og óhrjálegt á 20. öld sem þjóðarsameiningartákn sjálfstæðishreyfingar Walesbúa, nú orðið Any Old Iron.

 

Burgess er snillingur í að draga upp manngerðir með fáeinum dráttum. Nánast allar persónur bókarinnar, með sínum kostum og göllum, fegurð og ljótleika, standa ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Menntun höfundar er fáránlega breið, kunnátta hans í tungumálum öllum öfundsverð og þekkingin encýklópedísk, enda alfræðiorðabækur í mikilvægu hlutverki. Og nota má þessa skáldsögu næstum sem kennslubók í velsku, jiddísku eða rússnesku, fyrir utan að hún er skrifuð á fremur flókinni ensku. Tvennt stendur þó upp úr, sem gerir Burgess öðrum betri sem höfund. Í fyrsta lagi skrifar hann af lífsþrótti, sem skin úr hverju orði; eitthvað sem ég hef ekki séð hjá neinum höfundi öðrum en Balzac og mætti kalla vitalité eða lífsmátt. Hins vegar skirrist Burgess aldrei við að takast á við stórar spurningar á borð við siðferði, trúmál, almætti, ástina og dauðann - þessar spurningar eru gegnumgangandi í verkum hans. Og þótt ljótleikinn birtist oft í sínum verstu myndum, þá skín jafnan í gegn mannúðin og væntumþykja í garð meðbræðra, hárra sem lágra. Og þetta allt tekst honum að vefja inn í spaug og gamansemi, sem lekur af hverri síðu. Eini galli bókarinnar, sem og fleiri skáldsagna sama höfundar, er endirinn; eftir rússibanareið virðist Burgess oft eiga í mesta basli með að ganga út úr bókinni með því að binda tilhlýðilega lokaslaufu. Og þrátt fyrir alla flugeldasýningu, sem lesturinn var, þá var ég ekki viss um, við bókarlok, um hvað bókin var. En hún var skrambi skemmtileg. Ef til vill er boðskapur hennar, ef einhver er, sá að menn eigi aldrei að lúta valdi, í hverri þeirri mynd sem það birtist; eins og ein sögupersónan orðar það: "The big enemy´s always the government."

 

Ég mun endurlesa fleiri Burgess-bækur á næstunni. Inn á milli gæti ég hugsað mér að grípa í gæðabækur eftir aðra skemmtilega höfunda, sem verið hafa dyggir förunautar á lífsleiðinni, s.s. Tom Sharpe, Bernard Cornwell, George Macdonald Fraser, Steven Pressfield og David Lodge - og máske líka einhverjar Rómarsögur eftir Steven Saylor eða Colleen McCullough.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband