Vantrú - heittrú nútímans

Vert er að þakka Berki Gunnarssyni fyrir einstaklega fræðandi og mergjaða grein um félagsskapinn Vantrú í Lesbók Morgunblaðsins í dag. Má segja að þar afhjúpist þessi félagsskapur með orðum sínum, verkum og aðferðafræði. Vantrú virðist byggð á hugmyndafræði af því tagi, sem kölluð er "pólitískur rétttrúnaður" og er að mínu mati að ríða samfélaginu á slig á ýmsum sviðum. Vantrú virðist haldin ofsafenginni trú á tilgang þess málstaðar, sem hún telur sig berjast fyrir, og er í þeim skilningi einn harðsvíraðasti heittrúarhópur á Íslandi. Að hugsa sér, að þetta skuli vera félagsskapur, sem borgaryfirvöld hlýða á, þegar þau ráðast gegn jólahelgihaldi í skólum borgarinnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hefur Vantrú ráðist gegn Jólahelgihaldi í skólum Helgi?  Hefurðu einhverjar tilvísanir til að styðja það?

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2011 kl. 15:25

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jón Steinar, lærðu að lesa. Ég staðhæfi þetta hvergi. Orðið "þau" vísar í borgaryfirvöld.

Síðan má spyrja, Jón Steinar, hefurðu lesið greinina í Lesbók Morgunblaðsins í dag? Hvað þykir þér t.d. um ummæli Þórðar Ingvarssonar um Sigurjörn Einarsson látinn (sem ég geng vitaskuld út frá að séu rétt eftir höfð í greininni)?

Helgi Ingólfsson, 3.12.2011 kl. 15:59

3 identicon

Þú talar um sannleikan í upplýsingadálknum ,Höfundur' hér í hægra horninu.

Hvet þig til að kynna þér þetta mál. Mikið er fjallað um málið á vantru.is og þar sagt frá staðreyndum.

Þessi umfjöllun í lesbók morgunblaðsins er langt frá sannleikanum í þessu máli.

Gott er líka að kynna sér upphaflega erindi Vantrúar en þar er einungis sett út á kennsluefni þessa manns, sem er nb. á háskólastigi!

Félagið fer réttar leiðir vegna málsins og hefur samband við Háskólann. Það sem fylgir í kjölfarið er fjölda aðila innan skólans til til háborinnar skammar. Að þeim sem kærður var til siðanefndar meðtöldum.

Gísli (IP-tala skráð) 3.12.2011 kl. 16:07

4 identicon

Greini í MBL gefur mjög skakka mynd af málinu og er vægast sagt illa unnin og blaðinu til skammar. Ef hún er það eina sem þú hefur lesið um þetta mál þá veistu ekkert um málið. Það sem Þórður skrifar er á hans bloggsíður og kemur félaginu ekkert við. Vantrú hefur ekkert með störf Borgaryfirvalda að gera. Ef þú vilt láta taka þig alvarlega þá þarftu að styðja málflutning þinn betur með rökum og gögnum Hvaða gögn hefur þú um að borgaryfirvöld séu að taka ákvaðranir byggða á óskum Vantrúar? Þetta eru dylgjur af verstu sort.

P.s. ég er ekki félagi í Vantrú svo það fari nú ekki að trufla andsvar þitt.

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 3.12.2011 kl. 16:41

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sem við var að búast hefjast skotgrafakomment, byggð á gífuryrðum sem ætlað er að valta yfir umræðuna og þagga hana. Enda var bent á þessa bloggfærslu mína á síðu Vantrúar í dag og innan klukkutíma komu 2 athugasemdir af því tagi. Þeim skal ég svara hér:

----

Gísli: Meðan þú kemur ekki fram undir fullu nafni, ert þú ómerkingur í umræðunni og ekki svaraverður.

-----

Arnold: Athyglisvert er að þér skuli finnast blogg mitt “dylgjur af verstu sort” (sem ég er þér vitaskuld ekki sammála um). Hvað finnst þér þá um hið tilvitnaða blogg Þórðar? Er það “dylgjur af verstu sort”?

 

Best er að skoða staðreyndir í þessu máli.

 

Rétt er að Þórður birti skoðanir sínar á bloggi og þær eru því ekki skoðanir Vantrúar sem félagsskapar (staðreynd).

 

Það efni, sem Þórður fjallar um, er hins vegar af þeim toga, sem Vantrú lætur sig varða (staðreynd).

 

Ég hef hvergi séð neinn einstakling úr Vantrú fordæma ummæli Þórðar (staðreynd).

 

Þórður er stjórnarmaður í Vantrú (staðreynd).

 

Með bloggi Þórðar fæst innsýn inn í hugarheim stjórnarmanns Vantrúar (staðreynd), um málefni sem Vantrú lætur sig varða (staðreynd).


Hvort hugsunarháttur Þórðar sé dæmigerður fyrir stjórnarmeðlimi Vantrúar, betri eða verri, get ég hins vegar ekkert um dæmt.

-----

 Arnold: Óskandi væri að þú bentir á hvað er rangfært í grein Barkar í Lesbók Morgunblaðsins.

Helgi Ingólfsson, 3.12.2011 kl. 19:50

6 identicon

Dylgjurnar sem ég saka þig um eru þær að þú segir borgayfirvöld láta stjórnast af félaginu Vantrú. Ég bað þig koma með gögn og rökstuðning fyrir því. Mér getur ekki verið meira sama um blogg Þórðar. Það kemur mér ekkert við og ég svara ekki fyrir Vantrú þar sem ég er ekki í félaginu. Varðandi greinina að þá hallar hún mjög í aðra áttina vægast sagt. Það er staðreynd.Hún segir ekkert frá hvernig þessi kennsla Bjarna fór fram. Hún er meira en lítið vafasöm.

Svaraðu nú því sem ég spurði þig um varðandi borgaryfirvöld. Ég stend við að kalla það dylgjur nema þú sýnir fram á annað.

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 3.12.2011 kl. 19:59

7 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Arnold: Æ æ æ! Kannt þú nú ekki heldur að lesa, góurinn? Ég hef hvergi talað um neinar óskir Vantrúar (fyrri færsla þin) né að borgaryfirvöld láti stjórnast af félaginu Vantrú (seinni færsla þín). Og heldur þykir mér frekjulegur tónn þinn, ljúfur ("Svaraðu nú því sem ég spurði þig um..."), einkum í ljósi þess að þú ómakar þig ekki við að svara því sem ég spurði þig um áður um blogg Þórðar, með öllu kurteisara orðfæri vona ég.

Reyndar skil ég ekki til hvers þú þarft að klifa á því að þú sért ekki félagi í Vantrú; það skilst nægilega vel við fyrsta lestur. Hins vegar má sjá að þú ert virkur í athugasemdum inni á síðu þeirra og á hinn kompánlegasta hátt, þannig að maður veltir fyrir sér því meinta "hlutleysi" sem þú gefur í skyn. Og í kommentum á Örvitanum.is þann 21.9. s.l. stingur þú upp á að vera með myndaþátt fyrir Vantrú og átt alloft í vingjarnlegum orðaskiptum á þeirri síðu við flesta helstu forkólfa Vantrúar. Ha? Hlutleysi? Kafbátur, hefði nú einhver kallað það.

Þú segir það "staðreynd" að grein Barkar halli mjög í aðra áttina, en ég hef ekki séð nein rök eða ummerki þess að hann fari með rangt mál, hvorki með samanburði af vef Vantrúar né í andsvörum hér.

Annars hef ég varið nokkrum hluta dags í að kynna mér vef Vantrúar og sýnist þar svo margt óskammfeilið, vígreift, óumburðarlynt og óbilgjarnt að ég ætla að fara eftir helgi á Hagstofuna og skrá mig aftur í Þjóðkirkjuna eftir 16 ára fjarveru. Sjáðu til, það er nefnilega ekki trú (eða trúleysi), sem er rót hins illa, heldur er það vígreift, óumburðarlynt og óbilgjarnt fólk, trúað eða trúlaust. Eigðu ánægjulegar stundir, Arnold. Ég mundi óska þér góðrar gæfu einnig, en ég veit bara ekki hvort þú trúir á hana.

P.S. Ekki er útilokað að ég svari spurningu þinni á endanum. En ég býst við að það taki heilan færsluflokk - svo að spurningin er aðallega hvort ég nenni.

P.S.S. Ég var næstum búinn að nota vef Vantrúar til að skrá mig inn í Þjóðkirkjuna á ný - en þá sá ég að þeir myndu eflaust nýta  það sér til tekna í hina áttina við talningu sína.

Helgi Ingólfsson, 4.12.2011 kl. 01:40

8 identicon

"Að hugsa sér, að þetta skuli vera félagsskapur, sem borgaryfirvöld hlýða á, þegar þau ráðast gegn jólahelgihaldi í skólum borgarinnar."

 Ég er einfaldlegar að biðja þig um að styðja þetta mál þitt sem ég vitna í hérna. En þú segi svo:

"P.S. Ekki er útilokað að ég svari spurningu þinni á endanum. En ég býst við að það taki heilan færsluflokk - svo að spurningin er aðallega hvort ég nenni."

 Þú sem sagt getur ekki staðið við þessa fullyrðing. Þú eyðri hins vegar miklu púðri í félagið Vantrú.  Og þó ég sé þeim hliðhöllur þá kemur það ekki þessu máli við. Þú ert ekki í ríkiskirkjunni. En virðist vera henni hliðhollur. Ertu þá kafbátur?

Ég hef ekki sagt að ég sé hlutlaus. Ég sagðist ekki geta svarað fyrir þetta félag. Ef þú vilt endilega að ég hafi skoðun á þessari færslu Þórðar að þá hefði ég aldrei skrifað þetta og birt. Mig grunar að flestir félagarí Vantrú séu söku skoðunnar enda er þetta ekki skoðun Vantrúar. Þetta er einkablog Þórðar. Á því er grundvallarmunur.

Það sem er að þessari grein er að það er ekkert nefnt hver eru ákæruatriði Vantruar. Það er ekkert farið í hvernig Bjarni beinlínis bjagði svo tilvitnanir að þær höfðu allt aðra merkingu. Bjarni fær silkihanska meðferð. Honum er stillt upp eins og fórnarlambi sem hefur ekkert misjafnt gert. Það er víðsfjarri sannleikanum. Ég gæti talið upp fjölmörg dæmi. En þú getur lesið þetta allt hér http://www.vantru.is/haskolinn/

Eitt að lokum. Ertu til í að benda mér á dæmi á Vantrú sem er "svo óskammfeilið, vígreift, óumburðarlynt og óbilgjarnt" Bara eitt dæmi? Eina grein?

P.s. Þú mátt hafa hvaða skoðanir sem er á minni presónu. En ekkert vera að eyða púðri í það. Ræðum málefnið. 

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 09:56

9 identicon

Þannig að afþví að ég lét ekki nafn föður míns fylgja síðustu athugasemd að þá er ég ómerkingur og ekki svara verður?

Þarna er þægilega skautað framhjá því sem ég skrifa.

Þegar ég fer yfir fyrri athugasem mína að þá sé ég ekkert í henni sem afsakar svona undarlegt svar.

Held að þú ættir aðeins að hugsa þinn gang félagi. Og kynntu þér málið áður en þú ferð að blaðra um hluti sem þú greinilega hefur ekki kynnt þér!

Gísli Árnason (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 10:29

10 identicon

Samkvæmt gleðiboðskap biblíu þá getið þið krissar verið alveg rólegir, Jesú ætlar að pynta okkur að eilífu eftir að við erum dauðir.

Já krakkar, þið getið verið bestu börn í heimi.. en það skiptir engu máli, því aðeins með því að kvitta undir biblíu og gangast á hönd ríkiskirkju/kristni, aðeins þannig er hægt að forðast það að verða sett í lestarnar sem keyra að vítislogum helvítis.
Amen

DoctorE (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 11:44

11 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll, Gísli.

Finnst þér sjálfum ekki betra að vita við hvern þú ræðir? Reyndar verð ég að virða við þig að þú skulir setja föðurnafn núna, en það breytir því ekki að ég veit ekkert hvaða "Gísli Árnason" þú ert. Ég geri þó ráð fyrir því að það sé þitt rétta nafn (ég hef nefnilega enga staðfestingu fyrir tilvist þinni sem Gísla Árnasyni umfram það sem þú segir sjálfur; ég kýs semsagt að taka það trúanlegt).

Málið er að ég eyddi drjúgum hluta gærdagsins í að fara yfir vefsíðu Vantrúar til að skoða málin og kynna mér þau sem rækilegast. Enn hef ég ekki séð neitt hrakið af málflutningi Barkar Gunnarssonar á þeirri síðu né annars staðar. Og hvergi hef ég fundið upplýsingar um orðalag kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri, sem mér þætti einkar fróðlegt að skoða; mér þætti vænt um að þú gætir bent mér á vefslóð, ef hún er aðgengileg á vefnum. Ég verð hins vegar að lýsa aðdáun á æðruleysi Bjarna Randvers í þeirri orrahríð sem yfir hann virðist hafa dunið. Ég hef einnig skoðað glærurnar og kennsluefni Bjarna Randvers, eins og það efni er fram sett á vef Vantrúar  (líkt og þú ráðlagðir mér að gera) og verð að játa, svo að vitnað sé í trúarbragðasöguna, að ég finn enga sök hjá þessum manni.

Það kemur mér á óvart að pistill Barkar skuli ekki hafi hlotið meiri athygli og umræðu, svo eldfimt efni sem það er. Máske er þar um að kenna sæg æsifrétta, sem ber upp á sömu daga og yfirskyggja þessa - þar á ég t.d. við Glitnisrannsókn og þau vondu mál sem félagi minn Gils virðist kominn í.

Ég verð að játa að mér finnst sérkennilegur ógnunar- eða hótunartónn í lokaorðum þínum, Gísli Árnason, og vona að slíkt sé ekki dæmigert fyrir félagskapinn Vantrú eða málsvara þeirra. Þá á ég við þessi lokaorð þín: "Held að þú ættir aðeins að hugsa þinn gang félagi. Og kynntu þér málið áður en þú ferð að blaðra um hluti sem þú greinilega hefur ekki kynnt þér!"

Helgi Ingólfsson, 4.12.2011 kl. 12:08

12 identicon

Ég hef ekki ákæruskjalið enda er það ekki opinbert gagn. En í greinunum á Vantrú kemur fram hvað þeir eru að kæra. Skrumskælingu á textum. Ég kalla það reyndar fölsun. Bjarni er t.d. með gögn af lokuðu spjallsvæði. Það er brot á lögum að dreifa þeim gögnum. Ég er ekki löglærður en ég held ég geti fullyrt að þarna sé Bjarni orðinn uppvís af lögbroti. Ég gæti talið margt fleira til. Ég er ekkert viss um að það skipti þig neinu máli. Þú settir kúrsinn í upphafi með fyrir fram ákveðna fordóma og ætlar að halda þig við þá. 

Ertu til í að benda mér á dæmi á Vantrú sem er "svo óskammfeilið, vígreift, óumburðarlynt og óbilgjarnt" Bara eitt dæmi? Eina grein?

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 13:02

13 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Sæll, Helgi

Sem félagi í Vantrú til fjölda ára (raunar frá því ég var enn nemandi í MR árið 2004) verð ég að segja að mér þykir það leitt að sjá þig svona sannfærðan um vafasaman ásetning Vantrúarmanna. Þar sem ég er nú gamall nemandi og samstarfsmaður þinn þá þekki ég vel réttsýni þína og sannfæringu, og hef ég ætíð metið þína skoðun mikils. Ég held hins vegar að þú hafir alls ekki dregið upp í huga þér sanngjarna eða rétta mynd af Vantrú.

Ég get alla vega alveg sagt að Vantrú er hvorki harðsvíraður félagsskapur né haldinn ofsafenginni trú á eitt né neitt. Sem betur fer, því ég held þá að fáir hefðu enst svo lengi í félaginu, sem raun ber vitni. Í félaginu eru einfaldlega ósköp venjulegir trúleysingjar, fólk á öllum aldri, með alls konar áhugamál og skoðanir, pólitískar sem ópólitískar og spanna þær allt „litrófið“, en flest eigum við sameiginlegt að trúmál og trúfrelsi skipta okkur töluvert miklu máli. Vantrú var upphaflega stofnað sem félagsskapur trúlausra netverja, sem vildu sjá e-r alvöru breytingar á trúmálaumræðunni og landslagi íslenskra trúmála. Vegna þess að þetta er félag stofnað á netinu, þá hefur starfsemin meira og minna farið þar fram, og þá hefur spjallborð Vantrúar gegnt lykilhlutverki í störfum félagsins. Það held ég að sé nú aðalástæðan fyrir því að Vantrú virðist vera svona skipulagt félag út á við, þetta er einfaldlega tiltölulega lítill hópur sem ræðir mikið saman á netinu og því er miklu auðveldara fyrir félagið að bregðast við fréttum og umræðum í þjóðfélaginu heldur en það er fyrir stóra ríkisstofnun eins og kirkjuna. Og fyrir utan að skrifa beittar og á stundum harðorða greinar um trú og kukl hvers konar, sem koma vissulega við kaunin á mörgum, þá hefur umræðan alltaf verið heiðarleg af hálfu Vantrúar, og ég get alveg sagt að ég væri ekki enn þá í þessum félagsskap ef það hefði ekki verið svo. Þannig langar mig t.d. til að benda á þessa grein, sem mér finnst lýsa nokkuð vel andanum innan félagsins: http://www.vantru.is/2011/01/05/09.00/.

Hvað varðar Morgunblaðsgreinina, þá er hún því miður afar hroðvirknislega og á stundum jafnvel einfeldningslega unnin. Það fullyrði ég því ég hef fylgst gaumgæfilega með málinu frá upphafi og lúslesið allt sem tengist því. Í fyrsta lagi er greinin byggð að stórum hluta á alls konar gögnum, sem ekki hafa verið gerð opinber, og verða það líklegast seint (t.d. bréfaskriftum Siðanefndar við aðila málsins) og er þar sumu sleppt til að gera hlut Vantrúar og siðanefndar sem verstan. Út frá því tel ég augljóst að greinin er ekki skrifuð með hlutleysi í huga. Enn fremur er greinin byggð á gögnum af innra spjalli Vantrúar, þar sem orð manna eru slitin alvarlega úr samhengi (svo alvarlega raunar að ég er nokkuð viss um að þú myndir fella nemanda án þess að hika, sem viðhefði svona vinnubrögð hjá þér) og dregin er upp mjög ljót og særandi mynd af ákveðnum félögum Vantrúar. Það sem gerir málið svo enn verra, er að þetta eru stolin gögn af lokuðu svæði félagsmanna, og verða þ.a.l. að öllum líkindum aldrei gerð opinber nema í því formi sem kemur fram í greininni. Svona vinnubrögð eru auðvitað forkastanleg með öllu, og alls ekki sæmandi stórum fjölmiðli eins og Morgunblaðinu. En ef horft er á málið í heild, þá eru þetta auðvitað bara sambærileg vinnubrögð við þau, sem viðhöfð voru í kennslunni, sem Vantrú gerði upphaflega athugasemd við.

Þegar allt kemur til alls þá er málið núna orðið nokkrum stærðargráðum stærra en upphaflega kvörtunin gaf tilefni til. En okkur í Vantrú fannst einfaldlega ómaklega að okkur vegið og orð félagsmanna slitin það illa úr samhengi, að það varð að bregðast á e-n hátt við. Raunar kom það sjónarmið einnig fram á innra spjallinu (ég viðraði það m.a. sjálfur) að það yrði að gera athugasemd við þessi vinnubrögð þótt ekki væri nema með hag háskólans sjálfs að leiðarljósi, enda væru þetta ótæk vinnubrögð og háskólanum síst til sóma.

Þetta er í það minnsta mín sýn á Morgunblaðsgreinina og færsluna þína, og vera má að hún sé að e-u leyti lituð af aðild minni að Vantrú, en vonandi varpar hún þó e-u ljósi á málið.

Með bestu kveðjum,

Snæbjörn

Snæbjörn Guðmundsson, 4.12.2011 kl. 16:24

14 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll og blessaður Snæbjörn.

 

Það er ánægjulegt að heyra rödd skynsemi og yfirvegaðrar umræðu innan úr fúkyrðaflaumi misfeðraðra athugasemda sem á mér hafa dunið. Ég biðst velvirðingar á seinu svari mínu, en í eftirmiðdaginn og í gærkvöldi lifði ég lífi handan tölvuheima.

 

Í athugasemd þinni tjáir þú mér að Vantrú sé hvorki harðsvíraður félagsskapur né haldinn ofsafenginni trú á eitt eða neitt. Ég játa fúslega að sú staðreynd ein að vita af þér þarna í flokki segir mér að augljóslega er um skyni borna menn að ræða. En getur þú, kæri Snæbjörn, gefið syndakvittun upp á orð og athafnir allra í þessum félagsskap? Mér sýnist, því miður, sumt það sem Vantrú stendur fyrir, óverjandi frá siðrænum sjónarhóli.

Fyrstu kynni mín af félagsskapnum Vantrú voru fyrir um fjórum árum, þegar ég ætlaði að fletta upp tilvitnun í Biblíuna, sló inn biblian.is og fékk upp mynd af glottandi geimveru krossfestri. Myndmálið var smekklaust og augljóslega til þess fallið að storka á siðlausan hátt, svo að ég hugsaði með mér að þessum félagsskap vildi ég ekki kynnast nánar.

Næst hafði ég pata af kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri í Háskóla Íslands, en leit máske á hana framan af sem hvern annan brandara fámenns félagsskapar til að vekja á sér athygli. Í dag sé ég hana í miklu víðara ljósi og frekar sem tilraun til þöggunar og árás á akademískt sjálfstæði.

Undanfarna daga hef ég skoðað allrækilega heimasíðu Vantrúar og ég verð að játa að, þrátt fyrir að á köflum sé að finna uppbyggilega og skynsama umræðu, þá sé einnig að finna afar margt smekklaust efni, jafnvel siðlaust. Og þá á ég við efni bæði háð og óháð umræðunni um Bjarna Randver.

Það sem fyrst stakk mig í augu var virðingarleysi fyrir skoðunum annarra. Það virðist vera einn hornsteinn kennisetninga Vantrúar að bera ekki virðingu fyrir skoðunum annarra og vil ég benda á eftirfarandi tilvitnun í Pál Skúlason sem þið takið upp á heimasíðu (http://www.vantru.is/2003/09/19/00.07/):

„Á mannamótum er því oft haldið fram að virða beri skoðanir annarra. Aldrei hef ég samt heyrt nokkurn mann færa rök fyrir þessum boðskap. Vafalaust þykir fólki það óþarft, augljóst sé hvað við er átt og engin þörf á að rökstyðja það: allir hljóti að samsinna þessu.

Ég treysti mér ekki til þess. Ég held að það sé ámælisvert að virða skoðanir annarra, ef maður veit að þær eru ekki réttar.“

Ég veit ekki hvað Páli hefur verið í huga þegar hann ritaði þessi orð eða úr hvaða samhengi þau koma (þau gætu verið slitin úr stærra samhengi og rétt er að geta þess hér að þau eru lítillega stytt miðað við það sem birtist á síðu Vantrúar). Sjónarmiði þessu sé ég allnokkrum sinnum bregða fyrir inni í athugasemdakerfi hjá ykkur Vantrúarmönnum sem einni “trúarkenningu” félagsskaparins. Birgir Baldursson, meðlimur í Vantrú, segir t.d. í athugasemd þann 30. nóv. sl. “Aldrei hefði mig órað fyrir því að sjá á forsíðu Vantrúar kröfuna um að borin sé virðing fyrir skoðunum náungans. Ritstjórnarstefnan hefur ævinlega hljóðað upp á það gagnstæða” og vísar síðan í ofangreinda undirsíðu með ummælum Páls. Í kjölfarið tekur Arnold Björnsson undir í athugasemdakerfinu og segist t.d. aldrei geta virt skoðanir Anders Breivik (sem ég held að flestir heilvita menn hljóta að vera sammála, enda Breivik dæmdur veill á geði). Það sem ég vil hins vegar benda á er að menn eins og Breivik gætu hæglega notað ofangreind orð Páls Skúlasonar/ritstjórnarstefnu Vantrúar til réttlætingar á ódæðum sínum fyrir sjálfum sér. Þess vegna er virðing fyrir skoðunum annarra, innan allra skynsamra og heilbrigðra marka í mannlegu samfélagi, nauðsynleg. Afar óheppilegt hlýtur því að vera að festa í sessi sem ritstjórnarstefnu Vantrúar þá hugmynd að ekki eigi að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Þar eru opnaðar gáttir fyrir Breivika þessa heims, skynsamari mönnum til ófarnaðar. Mér sýnist þið í Vantrú sitja uppi með einkar ósmekkleg ummæli Þórðar Ingvarssonar um Sigurbjörn heitinn Einarsson einmitt út af þessu virðingarleysi, hversu mjög sem þið reynið að sverja það af ykkur, vegna þess að þótt um einkablogg hafi verið að ræða, þá er það a) Skrifað af stjórnarmeðlimi Vantrúar, b) Fjallar um málefni sem Vantrú byggir baráttu sína á, c) Fær viðbrögð (og ekki öll neikvæð) frá meðlimum Vantrúar, og d) Er í anda ofangreindrar ritstjórnarstefnu um að virða ekki skoðanir annarra (sem virðist mega umorða í setninguna: Allt er leyfilegt í baráttu okkar).

Þú bendir mér, Snæbjörn, á grein, sem þér finnst lýsa nokkuð vel andanum innan félagsins (http://www.vantru.is/2011/01/05/09.00/). Ég er sammála því (ef rétt reynist, því að hér höfum við bara orð Vantrúarmanna sjálfra) að þarna virðist heiðarlega að verki staðið. En margt er þó við greinina að athuga. Fyrir það fyrsta er herskár andi hennar athyglisverður (slíkt er víða að finna í öðrum greinum Vantrúar, bæði fyrir og eftir mál Bjarna). Þarna skilgreinir greinarhöfundur t.d. “ríkiskirkjuna” sem “höfuðandstæðing Vantrúar frá stofnun félagsins.” Í öðru lagi kunna þetta líka að vera viðbrögð til að réttlæta “siðferðilega yfirburði” Vantrúar eftir að “andstæðingarnir” hafa orðið sér úti um gögn af innra neti Vantrúar, þ.e.a.s. vopn til þess að láta kirkjunnar menn vita: “Við höfum líka gögn um ykkur, ef þið birtið eitthvað um okkur.” (Nú verð ég að játa að ég veit ekki hvenær eða eftir hvaða leiðum gögn af innra neti Vantrúar komust í hendur andstæðinga ykkar, hvort þeim var “lekið” eða hvort þau voru illa fengin). Svo að ég verð að játa, Snæbjörn, að ég veit ekki hversu mikla “siðferðilega yfirburði” Vantrúar tilvísuð grein þín sýnir, því miður.

Þú segir mér að gögnin, sem “andstæðingar” Vantrúar hafi af innra neti félagsins séu “stolin”. Getur frætt mig nánar um hvernig það atvikaðist? Ef rétt reynist, þá er það alvarlegt lögbrot. Ef þeim hefur verið “lekið” horfir málið ef til vill öðruvísi við. Arnold Björnsson staðhæfir t.d. ekki í athugasemd hjá mér að gögnunum hafi verið stolið, heldur talar um að það sé brot á lögum að dreifa gögnum af lokuðu vefsvæði. Slíkt held ég að hljóti að vera dómstóla að dæma um, ef til þeirra kasta kæmi.

Annars velti ég einnig fyrir mér siðferði Vantrúar þegar kemur að meðferð trúnaðargagna af lokuðu vefsvæði. Mér skilst að Vantrúarfélagar hafi í heimildarleysi útvegað sér fjölda glæra af námskeiði Bjarna Randvers af lokuðu svæði hjá Háskóla Íslands og birt þær í heimildarleysi opinberlega, án þess samhengis kennslu sem fyrirlestrarnir voru fluttir í, með öllum þeim möguleikum til skrumskælingar sem það gefur. Mér skilst einnig á vitnisburði nemenda (annarra en útsendara Vantrúar) sem sátu námskeið Bjarna að hlutleysis og réttsýni hafi verið gætt í umfjöllun hans um félagið. Hafi félagið haft eitthvað upp á hann að klaga, hafði það í reynd 4 möguleika um að velja:

1) Að gera athugasemd.

2) Að bera fram kvörtun.

3) Að kæra, án þess að framvísa gögnum fengnum í heimildarleysi.

4) Að kæra og byggja á gögnum, sem í hið minnsta voru fengin í heimildarleysi, ef ekki illa fengin.

Vantrú valdi fjórða og herskáasta kostinn. Það segir mér sitthvað um hversu hófsamur félagsskapurinn er.

Sjálfur hef ég skoðað þessar glærur á vef Vantrúar og sé ekki margt út úr þeim; það veltur vitaskuld allt á því hvað kennari hefur sagt meðfram þeim. Og á vef Vantrúar tala glærurnar ekki sjálfar, heldur er það Vantrú sem leggur til textann og túlkunina. Athyglisvert er hvernig reynt er að byggja þar upp spennu eða stígandi með því að setja efnið fram í nokkrum pökkum, með tilheyrandi umræðum, athugasemdum og loforðum um að æsilegra efni komi næst. Slíkt er, tja, að mínu viti, áróðurskennt.

Jæja, Snæbjörn minn, ég fer þessu langa svari að ljúka. Ég vil að endingu hvetja ykkur Vantrúarmenn til að taka til á vefsíðunni ykkar (og suma þeirra í hugarfylgsnum sínum), ef þið viljið láta taka ykkur alvarlega; sumt myndefnið á vefsíðunni er fádæma smekklaust, eins og Kristur með vísifingur á lofti; einnig grein um sauði með meðfylgjandi myndskreytingu. Allt í nafni tjáningarfrelsisins, býst ég við.

Að endingu vil ég hvetja alla til að lesa grein Barkar Gunnarssonar úr Lesbók Morgunblaðsins (og af mbl.is) um Vantrú og kæru þeirra á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni, sem og að kynna sér vef Vantrúar sem best, svo að kynnast megi báðum hliðum málsins.

 

Bestu kveðjur,

 

Helgi Ingólfsson.

Helgi Ingólfsson, 5.12.2011 kl. 10:14

15 identicon

Það er rétt. Seinni hluti athugasemdar minnar var með leiðinlegum hætti.

En gott að sjá að þú hefur kynnt þér þetta mál og þú færð auðvitað þá útkomu sem þú telur rétta úr því. En það er meira en margur hefur gert undanfarið í umfjöllun um þetta mál á bloggi og í fjölmiðlum.

En ég biðst afsökunar á fyrri athugasemd, var einungis gramur eftir svarið við þeirri fyrstu. Ekkert illa meint.

En að öðru, ég er ekki í vantrú, á hinsvegar fjölskyldumeðlim sem þekkir þar til. Hann gerði það reyndar reyndar ekki á meðan þetta mál var að byrja og þessi lokaði umræðuþráður varð til. En ég hef heyrt margt um þetta og ástæðan fyrir því að ég hef verið að ræða þetta mál er að mér hefur blöskrað hegðun margra í Háskólanum. Ef skoðað er upphaflega kæra Vantrúar til siðanefndar HÍ að þá sést að þar er farið eftir öllum reglum. En síðan ákveða nokkurir aðilar innan Háskólans að fylkjast að baki kennarans áður en siðanefnd náði að fjalla um málið og hófst þá ótrúleg framvinda sem er þessum Háskóla til mikillar skammar. Fenginn var stolinn þráður af innra lokuðu spjallborði Vantrúar og þaðan stolið gögnum og hafa þau verið notuð gegn ýmsum félögum síðan. Eins og það sé ekki nóg að þá eru þau skrumskæld og tekin úr samhengi. Grín er sett í búning sem á að vera með einhverja alvöru bakvið sig. Og allt eftir því.

En ég þakka fyrir spjallið.

Lifðu vel.

Gísli Árnason (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 13:08

16 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Þakka þér kærlega fyrir spjallið, Gísli, og fyrir einlægnina. Ég leitast við að komast að sannleikanum á öllum sviðum og mér sýnist hér um að ræða harmleik, sem hefur stigmagnast og farinn er úr öllum böndum. Verst þykir mér þó að grafið hefur verið undan akademískum trúverðugleika Háskólans, sem sett hefur mjög ofan.

Eftir því sem mér skilst, þá sótti Vantrú glærur Bjarna á lokaðan vef Háskólans og birti í heimildarleysi á opinberum vettvangi. Mér sýnist þar ekki siðferðilega rétt að verki staðið. Þá er ekki laust við að maður spyrji sig hvort komi ekki vel á vondan, þegar Vantrú missir lokaðan spjallþráð sinn í hendur skilgreindum "andstæðing" sínum. Annars skil ég bara ekki hvernig spjallþræðinum á að hafa verið "stolið"? Gerði það einhver meistarahakkari úr röðum "andstæðinganna"? Eða var honum "lekið" af einhverjum sem ofbauð? Var hann seldur? Hafði flugumanni verið plantað?

Það væri óskandi að aðilar leiddu sannleikann í ljós. Annars verð ég að segja eins og er, að ég var stórlega farinn að efast um siðfræði (sumra) Vantrúarmanna, þegar maður að nafni Arnold Björnsson birtist hér í athugasemdum með sleggjukommentum, sem augljóslega virðist ætlað að þagga niður í mér, gefur sjálfur í skyn að hann hafi ekkert með Vantrú að gera (segist ekki vera félagi í Vantrú, sem getur svo sem verið rétt í augnablikinu), en reynist þar svo innsti koppur í búri. Siðferði hálfsannleika getur varla verið Vantrúarmönnum til hagsbóta. Eftir að hafa kynnt mér málið allvel hef ég dálítið á tilfinningunni að (a.m.k. sumir) Vantrúarmenn spili á gráu svæði: Þetta er allt skens þegar þeim hentar, en fyllast svo heilagri - afsakaðu orðaleikinn - vandlætingu, ef þeim þykir það eiga við. Þannig að það eru engar sammannlegar leikreglur, heldur beri herferð þeirra (eða krossferð) meiri keim af skæruhernaði. En það getur ekki átt við um þá alla; ég mundi seint trúa því um þann góða dreng Snæbjörn Guðmundsson.

En, að sama skapi, þakka þér fyrir spjallið og lifðu heill.

Að svo mæltu er ég farinn að kynna mér hvernig ég geng aftur inn í þjóðkirkjuna.

Bestu kveðjur, Helgi Ing

Helgi Ingólfsson, 5.12.2011 kl. 15:58

17 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Sæll, Helgi

Þakka hlý orð í minn garð, mér þykir mjög vænt um þau.

En að því sem þú segir hér að ofan. Fyrst langar mig aðeins til að impra á því, sem þú segir um Vantrú sem félagsskap. Í fyrsta lagi skil ég ekki alveg hvað þú ert að fara með því að það beri að virða skoðanir annarra. Ég get alls ekki virt allar skoðanir fólks, þótt ég beri almennt virðingu fyrir öllum manneskjum. Þannig gjörsamlega þoli ég t.d. ekki rasískar skoðanir, útlendingahatur eða annan hatursáróður. Berð þú virðingu fyrir þannig skoðunum? Kannski er það utan þessara skynsamlegu marka, sem þú nefnir, en það eru vissulega skoðanir sem heyrast ekkert svo sjaldan, og ég get ekki séð akk í því að ég virði slíkt. Ég er alveg tilbúinn til að hlusta á fólk með þessar skoðanir, tel reyndar að það verði að gera það svo hægt sé að svara því, en ég ber ekki virðingu fyrir t.d. hatursáróðri. En kannski leggjum við bara mismunandi skilning í það að bera virðingu fyrir skoðunum annarra?

Svo varðandi hina margumtöluðu bloggfærslu Þórðar Ingvarssonar, þá var hún harðlega gagnrýnd af mjög mörgum innan Vantrúar á okkar spjallborði, og menn mæltust til þess að þessu yrði sleppt. Auðvitað gerðu þar margir sér grein fyrir því að hún yrði hugsanlega (eða jafnvel örugglega) notuð gegn okkur á e-m tímapunkti, sem nú hefur komið í ljós. Málið er bara að eins og þú segir, þá var þetta einkablogg, og Vantrú hefur ekkert vald yfir því. Ég veit ekki hvort fólk sé svona vant því að lúta valdi e-s, en þannig starfar einfaldlega ekki þetta félag. Auðvitað fór þessi póstur, og jafnvel e-r aðrir frá Þórði, svoleiðis langt yfir strikið að brot af því hefði verið meira en nóg. En Vantrú ræður ekki yfir bloggum félagsmanna, og þannig var þetta einfaldlega sett í hendurnar á Þórði, hvað hann gerði og hann hafði hana inni í e-n tíma. Færslan hefði aldrei nokkurn tímann fengið að birtast á vefritinu sjálfu, en það er alveg rétt að hún verður alltaf tengd við vefritið. Það er mjög leiðinlegt, en hefur engu að síður ekkert með Vantrú að gera svo það er mjög ósanngjarnt að herma þessa grein upp á félagsskapinn. Þarna bloggaði Þórður sem kjaftfori trúleysinginn, ekki sem kjaftfori stjórnarmaðurinn í Vantrú. En svo er alveg merkilegt hvað þessi eina staka bloggfærsla er dregin endalaust fram í dagsljósið, svo fólk geti nú alveg örugglega hneykslast út í eitt yfir þessum kjaftforu Vantrúarmönnum. Hvað með annað sem stendur á Vantrú? Ég hef ekki tekið eftir miklum kjafti eða svívirðingum þar, enda eru félagsmenn meira og minna sómakært fólk, þótt sumir fái vissulega útrás með kjaftinum á sér. Alla vega er orðbragðið ekki neitt í samanburði við svívirðingarnar sem dunið hafa á félaginu og trúleysingjum almennt síðustu árin og áratugina hér á landi. Það helsta sem ég hef sjálfur við efnistökin að athuga er að hann er stundum aðeins of hrokafullur fyrir minn smekk, og menn eru stundum með stæla. En það er nú bara þannig að fólk í félaginu er misjafnt eins og það er margt, og allir hafa sína rödd.

Og þar kemur kannski að því, sem mér sýnist þú þegar allt kemur til alls vera óánægðastur með, hvað Vantrú hefur oft lagt sig fram um að vera stuðandi. Þú vísar í geimverumerkið okkar, sem var nú bara skemmtilegt grín, en vissulega sett fram til að stuða fólk, og þá sérstaklega fólk sem var hvort eð er hneykslað yfir þeirri staðreynd einni að félagsskapurinn væri yfir höfuð leyfður á landinu. Þarna verðurðu hins vegar að hafa í huga andrúmsloftið sem félagsskapurinn sprettur upp úr. Kirkjunnar menn, bæði biskupar og prestar, og margir aðrir í samfélaginu, hafa svoleiðis úthúðað trúleysingjum í ræðu og riti, og þetta hefur tekið mjög mikið á marga innan Vantrúar. Mér finnst nákvæmlega ekkert skrítið að menn hafi brugðist hart við og viljað brjóta svona lagað niður, ég hef sjálfur misst mig ansi oft yfir ummælum kirkjunnar manna um mína lífsskoðun, þótt ég hafi reyndar lítið skrifað um það nema kannski á mínu bloggi og svo facebook, eftir að það kom til sögunnar. Og til þess að brjóta niður það umhverfi, sem leyfir svona ljótt umtal um minnihlutahóp í samfélaginu, nánast án þess að það raski ró nokkurs yfir höfuð, þá hafa menn brugðið á það ráð að reyna að afhelga samfélagið og trúarbrögðin. Kirkjan hefur verið allt of lengi á allt of háum stalli, án þess að nokkur hafi gagnrýnt hana almennilega, og það var einfaldlega kominn tími á að fólk hætti að líta á trúarbrögð sem e-ð háheilagt. Hvaða ástæða liggur að baki því, að það megi ekki gera grín eða hæðast að trú og trúarbrögðum? Það stuðar mig ekkert þótt e-r geri grín að mínu trúleysi eða pólitísku skoðunum. Það að fólk sé hörundssárt á ekki að koma málfrelsi eða lífsgæðum annarra við. Svo er auðvitað deginum ljósara að hluti af vandlætingunni á efnistökum Vantrúarfólks er til kominn vegna þess að það var og er verið að draga úr áhrifum kirkjunnar og trúarbragða, og það fer illa í marga. En þannig hefur bara hlutverk Vantrúar alla tíð verið, að vera ögrandi, setja fram stuðandi gagnrýni og reyna að hrista svolítið hressilega upp í samfélaginu. Það getur vel verið að þér finnist það ekki vera í lagi, en þá er það bara þannig. Mér er það sjálfum mjög að skapi, en kannski er ég líka bara svona kaldlyndur gagnvart þeim, sem finnst þetta heilagt. Málið er bara, að ansi mörgum sem finnst trú og trúarbrögð vera heilög, finnst jafnframt trúleysi nánast ekki eiga rétt á sér, svo af hverju ætti ég að virða skoðanir þessa fólks eða tipla á tánum í kringum það?

Varðandi greinina sem ég benti á um póstlista prestafélagsins, þá er allt sem kemur þar fram að sjálfsögðu satt, ég get alveg borið vitni um það. Tilgangurinn með greininni var hins vegar ekki að hóta einum né neinum, enda tóku Vantrúarmenn engin afrit af póstlistanum og hafa engin gögn þaðan í höndunum. Og þótt Vantrú hefði slíkt, þá kæmi ekki til greina að birta þau nokkurn tímann, því þótt listinn hafi verið opinn þá var augljóst að þetta voru persónuleg gögn, ekki ætluð neinum öðrum en þeim sem voru á póstlistanum. Þannig er þetta ekki rétt túlkun hjá þér, að halda að Vantrú meini þetta sem e-a hótun (“Við höfum líka gögn um ykkur, ef þið birtið eitthvað um okkur”). Þú sérð enda að þetta atvik með póstlistann kom upp fjórum árum áður en greinin var skrifuð, og Vantrú hefur aldrei hrósað sér neitt sérstaklega af þessu, enda varla tilefni til. Ástæðan fyrir því að greinin var skrifuð, var auðvitað sú að við vissum að Bjarni Randver hafði komist yfir gögn af lokuðu svæði Vantrúar, og við vildum benda á að við, „siðlausu trúleysingjarnir“, hegðuðum okkur ekki svona. Þannig var greinin kannski ekki skrifuð af e-m sérstökum „siðferðilegum yfirburðum“, heldur til að sýna fram á að við hegðum okkur ekki eins og andstæðingar okkar.

Með gögnin, sem Bjarni Randver hefur í höndunum og birti m.a. í Kastljósi nú fyrir stundu, þá eru þau illa fengin. Það er ekki ljóst á þessum tímapunkti hvernig hann komst yfir þau, hvort e-r hafi hakkað sig inn á vefinn eða villt á sér heimildir til að komast inn á lokaða spjallið, en hvernig sem hann fékk þau gögn, þá er það þó klárlega lögbrot að nota þau og dreifa þeim út um allan bæ eins og hann hefur verið að gera (sbr. fjarskiptalög). Við vonum bara að það mál fari sína leið í kerfinu.

Þú segir að Vantrúarfélagar hafi ekki hagað sér betur sjálfir, þar sem við birtum glærur námskeiðisins í heimildarleysi. Bjarni Randver talaði einnig um þetta, að glærurnar hefðu aldrei átt að koma fyrir sjónir annarra en þeirra sem sátu námskeiðið. Þarna verð ég að lýsa mig fullkomlega ósammála þér og öðrum sem nefna þetta. Núna er ég sjálfur aðalkennari í stórum kúrsi niðri í Jarðvísindadeild HÍ, þar sem ég útbý glærur fyrir nemendur mína, og hef ég ávallt haft það í huga að þessar glærur eru einfaldlega opinber kennslugögn í opinberum háskóla. Nám í háskólanum er opið öllum, og þess vegna eiga öll kennslugögn að vera opinber, eða alla vega þannig úr garði gerð að þau megi koma fyrir augu almennings. Hvurs lags háskólastofnun væri það, þar sem kennslan færi fram fyrir luktum dyrum, og enginn mætti vita hvað þar fari fram eða hvernig kennslugögnin væru útbúin? Þegar allt kemur til alls er einmitt afar óæskilegt að gögn á heimasvæðum námskeiða séu e-r sérstök trúnaðargögn, enda gefur það færi á slökum vinnubrögðum þar sem ekki er mögulegt að bera gögn frá kennurum undir þriðja aðila eða fá álit annarra. Ég sé ekki betur en að það myndi skerða frelsi nemenda all verulega, þar sem þeir væru fullkomlega upp á kennarann komnir, og það stríðir gjörsamlega gegn öllu því sem háskólakennsla á að standa fyrir. Þannig finnst mér það að Vantrú birti glærur úr námskeiðinu á engan hátt sambærilegt við það þegar Bjarni Randver dreifir gögnum af lokuðu spjallborði út um allan bæ. Þér finnst það bjóða upp á skrumskælingu, en Vantrú birti samt sem áður allar glærurnar óbrenglaðar, í réttri röð, svo allir hefðu möguleika á að móta sér sína eigin skoðun á málinu.

Á vef Vantrúar voru glærurnar svo einfaldlega birtar ásamt hugleiðingum og óstyttum tilvitnunum í félagsmenn Vantrúar. Auðvitað voru þær birtar á áhrifaríkan hátt, en það var gert til að vekja athygli á málinu. Hvernig finnst þér annars heimildavinnan á glærunum? Finnst þér vel farið með tilvitnanir? Finnst þér glærurnar gefa sanngjarna mynd af viðfangsefninu? Athugaðu að Vantrú hefur aldrei nokkurn tímann óskað eftir því að tekið sé á félaginu með e-m silkihönskum. Raunar held ég að félagsmenn hefðu einmitt afar mikla ánægju og jafnvel unun af því að fá almennilega og harðorða gagnrýni á sig, þar sem drepið væri á e-m alvöru atriðum varðandi félagsskapinn, eða starfsemi félagsins túlkuð á e-n skemmtilegan hátt. Það eina sem við hefðum alla vega viljað, væri að fá *heiðarlega* umfjöllun. Enda segir svo í siðareglum Háskólans: „2.1.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur eru gagnrýnir á sjálfa sig og vanda dóma sína. Þeir falsa ekki eða afbaka upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna. Þeir gæta þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu.“ Út frá glærunum þá þótti okkur einráðið að kennslan um Vantrú hefði svo sannarlega gefið mjög einhliða og villandi mynd af félaginu. Vissulega höfðum við ekki aðgang að upptökum af fyrirlestrunum, en ég sé varla að það sé mögulegt að kenna heiðarlega út frá þessum glærum. Varla heldurðu að Bjarni Randver hafi birt tilvitnanir í félagsmenn sundurklipptar og samhengislausar, en farið svo með þær í heilu lagi í fyrirlestrinum með glærunum? Svo hefur mikið verið bent á vitnisburð nemenda í námskeiðinu, en þar hefur aldrei nokkurn tímann komið fram að kennslan hafi verið í e-u ósamræmi við glærurnar. Þannig finnst mér mjög eðlilegt að skoða glærurnar og dæma kennsluna út frá þeim.

Þú vilt svo halda því fram að Vantrú hefði átt að vera hófsamara í kvörtun sinni vegna glæranna. En hvað ef mönnum fannst bara mjög illa að sér vegið? Siðanefnd Háskólans var stofnuð til að taka á svona málum, og hefur raunar þegar tekið nokkur svona mál inn á sitt borð og lokið þeim með sáttum. Er ekki eðlilegt að menn beini þessu strax til hennar, svo málið fái eðlilegan farveg innan háskólans? Það er nákvæmlega ekkert herskátt við það að leggja fram erindi til siðanefndar, það er einfaldlega eðlilegasta leiðin innan háskólans.

Og ég endurtek, finnst þér meðferð tilvitnana í félagsmenn Vantrúar alveg í lagi, Helgi? Hvað með þessa tilvitnun í Matthías Ásgeirsson (tekið héðan: http://www.vantru.is/2010/02/25/13.00/): „Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem ... móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.“? Þetta er stytting á þessum orðum: „Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem halda að þeir geti vaðið uppi í þessu samfélagi, hrópandi yfirlýsingar í allar áttir. Hótandi mönnum heljarvist og eilífðar- kvölum... og móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.“ Þarna er Matti augljóslega að tala um þá herskáu trúmenn, sem hóta öðrum helvítisvist, en í glærunum virðist hann eiga við alla trúmenn. Finnst þér skrítið að Matta hafi fundist að sér vegið með þessu? Finnst þér þetta í lagi? Sjálfum finnst mér þetta einfaldlega ekki vera eðlileg kennsla í háskóla, sem vill láta taka sig alvarlega. Svo var nú glæran um áhrif trúleysingja, eins og okkar í Vantrú: http://www.vantru.is/2010/03/04/13.00/. Þarna er beinlínis sagt að við séum á móti sjálfsögðum mannréttindum, að við viljum skerða málfrelsi trúaðra, leggja fólk í einelti og fordæma minnihlutahópa eins og gyðinga. Þessi glæra er svo yfirgengilega rætin og ófyrirleitin, að ég verð alltaf reiður þegar ég sé hana. Þarna er verið að bera upp á okkur í Vantrú mjög ljóta hluti, sem er algjörlega andstæðir því sem við stöndum fyrir, og mér finnst þetta ekki vera neitt nema rætnar lygar. Finnst þér þetta eðlilegt? Og hvernig í ósköpunum er hægt að ímynda sér eðlilega kennslu í kringum svona glærur?

Mér þykir þetta mál vera allt hið ömurlegasta, og ég held að það sama eigi við alla aðra í Vantrú. Ég held að flestir hafi e-ð betra við tíma sinn að gera en að halda áfram þessari vitleysu. Málið hefur hins vegar verið blásið gríðarlega út, og get ég ekki sagt að þar sé við Vantrúarfólk að sakast, nema þá kannski að því leyti einu að hafa lagt í þessa vegferð í upphafi. En það var því miður ekki annað í boði. Vantrúarmenn hafa svo alla tíð reynt að greiða götu siðanefndar háskólans og ekki staðið í vegi fyrir sátt í þessu máli. Raunar höfum við í þrígang tekið vel í sáttaumleitanir, en þeim hefur alltaf verið hafnað af hinni hliðinni.

Og ég er því ósammála að þetta sé tilraun til þöggunar eða hefting á akademísku frelsi fræðimanna. Það eru mjög margir háskólamenntaðir einstaklingar innan Vantrúar, margir með doktorspróf, og það tæki því enginn léttvægt ef verið væri að ráðast að akademísku frelsi fræðimanna. Sjálfur er ég í doktorsnámi og tæki því ekki vel ef akademískt frelsi sérfræðinga og vísindamanna innan minnar stofnunar væri heft á e-n hátt. En málið er að akademískt frelsi er ekki það sama og að menn geti sagt hvað sem er um hvern sem er. Frelsinu fylgir mikil ábyrgð, og ég tel sjálfur augljóst að sú ábyrgð hafi ekki verið höfð í huga í þeirri kennslu, sem Vantrú kvartaði yfir. Þetta er ekki árás á akademískt frelsi, þetta er kvörtun yfir slælegum vinnubrögðum, sem eiga alls ekki heima í alvöru háskóla. Þess vegna hefur mér sjálfum alltaf fundist mikilvægt að taka á þessu máli, með hag háskólans að leiðarljósi.

En já, þetta er það sem ég hef um málið að segja. Þú afsakar að ég hafi stokkið aðeins upp á nef mér í skrifunum, ég skrifaði seinni hlutann með fram því sem ég horfði á Bjarna Randver í Kastljósinu, og það sauð örlítið á mér. Ég skil hins vegar að vissu leyti að fólk hafi þessa mynd af Vantrú, sem kjaftforum félagsskap öfgafullra trúleysingja, en málið er að flestir þarna inni eru býsna hófsamir. Mér finnst ég alla vega hófsamur í trúleysi mínu, en það er ansi oft vegið illilega að því og mér finnst það mjög mannlegt að bregðast við því á e-n hátt. Þannig varð jú félagsskapurinn Vantrú til. Ég gekk í þann félagsskap mjög fljótlega eftir stofnun, fyrir tæpum átta árum, og er þar enn. Það er ekki vegna þess að ég kunni vel við að valta yfir aðra, gera lítið úr öðrum eða sverta mannorð fólks út í bæ. Það er vegna þess að mér finnst þessi félagsskapur mjög þarfur, þótt ég viðurkenni fúslega að stundum skjóti menn yfir strikið á Vantrúarvefnum. En er það ekki bara skiljanlegt? Greinarnar á vefnum eru jú tæplega þrjú þúsund talsins og þær geta varla allar verið meistarastykki.

Ég vona bara að þessi langloka mín gefi þér smá innsýn í starf félagsins og hvernig þetta mál snýr að okkur og ekki síst mér. Þetta er alls ekki herferð eða einelti, enda held ég að fáir innan félagsins fái e-ð út úr því að knésetja fólk úti í bæ. Þetta eru fyrst og fremst viðbrögð við því, sem okkur finnst vera óréttmætt, en flestir innan félagsins hafa ríka réttlætiskennd. Þess vegna endurtek ég að félagsmenn hafa alltaf gert sér far um að vera heiðarlegir, bæði gagnvart öðrum og sjálfum sér. Ég vona að það hafi skilað sér hér að ofan.

Með kærri kveðju,

Snæbjörn

Snæbjörn Guðmundsson, 5.12.2011 kl. 22:20

18 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll og blessaður Snæbjörn.

Þakka þér fyrir langhundinn, ég met hann mikils og les hann rækilega. Ég hef haldið áfram að kynna mér málið í þaula af vef Vantrúar og víðar. Einna fróðlegasta umfjöllun rakst ég á í gærkvöldi á bloggi Valgarðar Guðjónssonar á eyjunni.is frá 12. maí síðastliðnum, undir yfirskriftinni „Hraunið og Vantrú“, en það eru þó einkum athugasemdirnar og umræðurnar í kjölfarið sem eru fróðlegar, þar sem maður að nafni Magnús skrifar í athugasemdadálk og lýsir yfir samúð með málstað Vantrúar, en lætur samt í ljósi efasemdir eftir að hafa séð útprentun af innri vef Vantrúar. Í kjölfarið spyr hver þungavigtarmaðurinn af öðrum úr Vantrú Magnús út í gögnin (hugsanlega vegna þess að þeim er að verða ljós alvarleiki þess máls að hafa glatað gögnum í hendurnar á aðila, sem þeir vilja ekki að hafi þær undir höndum - ég veit ekki) og líkist umræðan öll rökföstum yfirheyrslum. Er gengið afskaplega langt í að reyna að fá „Magnús“ til að taka afstöðu til orðalags af tiltekinni glæru Bjarna Randvers, en hann víkur sér undan því að svara. Þetta blogg, með yfir 100 athugasemdum, hvet ég alla, sem vilja kynna sér málið, að skoða og meta á yfirvegaðan og hlutlægan hátt.

En nokkur atriði vil ég enn nefna í þessu máli, Snæbjörn. Þar kemur fyrst:

1) Virðing fyrir skoðunum. Ég reyni almennt að fylgja eftirfarandi grundvallarhugsun í samskiptum við fólk: „Bera skal virðingu fyrir skoðunum annarra, svo fremi þær stangist ekki á við gott siðferði eða almannareglu.“ (Einhver mundi hér vilja bæta inn „almennri skynsemi“, en ég er sammála Voltaire um að „almenn skynsemi er ekki svo ýkja almenn“). Grundvallarregla Vantrúar í þessum efnum sýnist mér vera (og leiðréttu mig endilega, ef ég hef rangt fyrir mér): „Ekki þarf að bera virðingu fyrir öllum skoðunum.“ Það sem ég hef við slíka framsetningu að athuga er að ekki þarf nema einn einstakling til að túlka slíka reglu (og með nokkrum rétti, af því að hún er svo opin) sem svo: „Ekki þarf að bera virðingu fyrir nokkurri skoðun“ og þar með er Pandóruboxið opnað. Þess vegna kýs ég að halda mig við fyrri (eigin) skilgreininguna. Annars held ég, í reynd, að ekki sé svo ýkja langt á milli okkar tveggja í þessum efnum. En þú tilheyrir félagsskap, sem virðist kjósa „opnu“ skilgreininguna, og þar sýnist ég standa fjarri siðaskoðunum ýmissa.


2) Um heimild til að nota glærur annarra. Á þessu sviði erum við líklega mest ósammála. Það geta verið ótal ástæður fyrir því að kennari vilji ekki að glærur sínar „komist í umferð“. Eitt getur verið svo einfalt atriði sem höfundarréttur - ég ætla ekki að fara út í deilur um hann, en það breytir því ekki að í gildi eru tiltekin lög um höfundarrétt og þau hefði ég talið að þú, sem háskólakennari í stórum kúrsi við Jarðvísindadeild HÍ, hefðir talið óhjákvæmilegt að virða sem önnur landslög. Annað atriði er það að auðvelt er að slíta glærur úr samhengi sínu, með því að sýna þær óháð þeim munnlega texta, sem kennarinn flytur. Oft felur glæra í sér styttingu sem kennari reynir eftir fremsta megni að fylla upp í munnlega – það liggur nánast í eðli glæra og skal ég fjalla frekar um það í næsta lið. Þriðja atriðið er að sjálfsögð kurteisi er að virða ósk manna um að gera ekki opinbert efni annarra, sem þeir óska eftir að sé ekki gert opinbert. Þetta sáu Vantrúarmenn árið 2007 og breyttu drengilega (í færslu sem þú sendir mér; ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki áttað mig á því fyrr að málið var frá árinu 2007 þótt færslan hafi verið birt árið 2011). En þeir virðast ekki hafa séð það árið 2010, þegar þeir birtu efni Bjarna Randvers í heimildarleysi. Margar aðrar ástæður má finna fyrir að ekki ætti að hafa glærur öllum aðgengilegar ef höfundur óskar. Eitt lítið atriði gæti bara verið að kennari væri svo óöruggur með stafsetningu sína eða málfar að hann vildi ekki að glærur hans komist í almenna dreifingu; hann gæti séð það sem óæskilegt tækifæri annarra til að gera lítið úr málfari hans eða stíl.

Hins vegar finnst mér alveg sjálfsagt (og um það ættum við að geta verið sammála) að tilbúið námsefni kennara sé öllum opið og aðgengilegt, ef hann heimilar það. Mér sýnist svo ekki hafa verið í þessu tilfelli. Ég vil einnig, vegna röksemdarfærslu þinnar þar að lútandi, benda á að það er mikill munur á að menntastofnanir geti borið námsefni/glærur undir þriðja aðila til álits / mats / umsagnar eða að dreifa því á netinu, eins og Vantrú kaus að gera.


3) Um innihald glæra Bjarna Randvers. Eftir að hafa skoðað glærurnar gaumgæfilega sýnast mér einungis tvær þeirra geta beinlínis orkað tvímælis. Önnur þeirra er með þeirri tilvitnun í Matthías Ásgeirsson sem þú rekur, með tilfallandi úrfellingu. Vissulega standa ummælin slitin úr samhengi ein og sér á glærunni. En það liggur í eðli kennsluglæra að oft þarf að stytta og fella út texta sem er of langur fyrir glæruna, það þekki ég af eigin raun. Glæran ein og sér útilokar ekki að Bjarni Randver hafi gefið fullkomlega rétta mynd með því að rekja munnlega hvað stóð þar sem punktalínan er, en áttað sig á að glæran gæti misskilist ef hún færi í umferð án munnlegra skýringa og þess vegna ekki viljað gera glærurnar aðgengilegar öllum á netinu.

Hin glæra Bjarna, sem gæti farið út yfir mörkin, er sú sem hefur að geyma grófu Múhameðsmyndirnar. Þar getur Bjarni mögulega réttlætt textann með því að segja að hann sé almennt að fjalla um Dawkins og margar hreyfingar sem til hans hafa sótt, en ekki sértækt um félagið Vantrú. Hins vegar sýnist mér geta verið ósmekklegt og mögulega ámælisvert að tengja þessar myndir við félagið Vantrú. Hvort það sé tilefni til kæru skal ég hins vegar ósagt látið, sérstaklega í ljósi þess hvers konar myndefni Vantrú birtir á eigin vef.


4) Um hófsemd og hörku.

Þú vitnar á einum stað til þess, kæri Snæbjörn, að ég hafi bent á að Vantrú hefði getað farið fram með hófsamari hætti, t.d. með ábendingu, athugasemd, aðfinnslu eða kvörtun varðandi kennslu Bjarna Randvers í stað kæru. Þetta dregur þú saman á eftirfarandi hátt í bréfi þínu: „Þú vilt svo halda því fram að Vantrú hefði átt að vera hófsamara í kvörtun sinni vegna glæranna. En hvað ef mönnum fannst bara mjög illa að sér vegið?“ Finnst þér ekki sjálfum, Snæbjörn, að Vantrú hafi verið duglegt við að höggva í ýmsar áttir í áranna rás? Sá sem beitir sverði getur varla kveinkað sér undan að verða fyrir stungu sjálfur eða hvað? Ég skil vel að þið séuð sárir út af framgangi málsins. En ég skil einnig að Bjarni Randver hafi orðið sár, þegar hann fékk á sig kæru. Ég vil benda á að það var Vantrú sem ákvað hörkustig málsins í upphafi, ekki Bjarni Randver.


5) Um framgang kærunnar. Geturðu frætt mig um hvers vegna kæran var dregin til baka? Ef það var ykkur Vantrúarmönnum slíkt hjartans mál að fá Bjarna Randver víttan, hvers vegna í ósköpunum er henni ekki fylgt eftir til enda? Ég fæ ekki betur séð en að þið hefðuð á öllum stigum málsins getað sagt: „Ja, við bíðum bara af okkur innbyrðis deilur Háskóla Íslands þar til komin er starfhæf siðanefnd og fáum þá úrskurð í málinu.“ Um leið og þið farið af stað með kæruna er það orðið grafalvarlegt mál og alvarleiki þess hverfur ekki við það að kæran er dregin til baka.

Svo eru það hinn dularfulli 750 þúsund króna útgáfusamningur, sem Börkur Gunnarsson staðhæfir að Vantrú hafi verið boðið til að koma í veg fyrir að vahæfiskrafa væri tekin fyrir í háskólaráði – fer Börkur þar með rétt mál? Ef svo er, tók Vantrú því boði? Ef svo, hvar eru þá þeir fjármunir niðurkomnir (í hvaða verkefni)? Finnst þér sjálfum eðlilegt að slíkur fjárhagslegur ávinningur geti verið í því fólginn að kæra háskólakennara? Þetta er einn dularfullur angi málsins sem mér sýnist enginn spyrja út í.


6) Um skaða og ábyrgð. Þetta mál virðist ein sorgarsaga frá upphafi og mér sýnist ljóst að ýmsir hafi hlotið skaða af: Vantrú, Bjarni Randver, Háskóli Íslands, fræðasamfélagið í heild - já, og jafnvel félagið Siðmennt algjörlega að ósekju, því að sumir gera ekki greinarmun á félögunum Vantrú og Siðmennt (og ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum félagsmanna Siðmenntar, enda sýnast mér þeir starfa samkvæmt eðlilegri virðingu fyrir skoðunum annarra). Ótvírætt er hins vegar að Vantrú var málshefjandi að þessum málatilbúnaði öllum með því að kæra Bjarna (í stað þess t.d. að fara hófsamari leið). Því spyr ég, kæri Snæbjörn: Telur þú Vantrú ekki bera neina ábyrgð á þeim skaða sem hefur af málinu hlotist, af þeirri „vegferð sem þið lögðuð upp í“, eins og þú orðar það? Hér má spyrja um þrenns konar ábyrgð hið minnsta: Siðferðilega, lagalega og fjárhagslega. Hvað telur þú?


7) Um tilfærslu málflutnings. Meðan ég var að skrifa þessa löngu athugasemd birtist á vef Vantrúar grein (án þess að höfundar sé getið, eftir því sem ég best fæ séð) um málið. En undur og stórmerki: Það sem áður var “kæra” Vantrúar hefur orðalagi verið breytt og er nú alls staðar orðið að “erindi” Vantrúar. Er þetta ekki það sem er kallað “að hnika umræðunni”? Finnst þér það boðlegur og siðsamlegur málflutningur eða er þetta bara sem hver önnur leyfileg hernaðartaktík? Einnig hafa orðið þær áherslubreytingar í málflutningnum að Pétur Pétursson er orðinn “vondi gæinn” í málinu (með myndskreytingu af honum) og siðanefnd HÍ “góði gæinn” (án myndbirtinga), en málið virðist nú bara lítillega fjalla um félagið Vantrú og Bjarna Randver. Er mögulega verið að reyna að drepa málinu og alvarleika þess á dreif með því að láta það líta út fyrst og fremst sem innanhúsmál HÍ?


Jæja, Sæbjörn minn, mál er að linni. Ég vil á endanum þakka þér fyrir málefnaleg og upplýsandi skoðanaskipti. Ef þú veist um einhvern, sem gæti svarað mínum mörgu spurningum, þá þætti mér gaman að heyra svörin.


Með kveðju, vinsemd og virðingu,


Helgi Ingólfsson


Helgi Ingólfsson, 6.12.2011 kl. 16:03

19 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Biðst velvirðingar, Snæbjörn, ég misritaði nafn þitt í lokin. :)

Helgi Ingólfsson, 6.12.2011 kl. 16:04

20 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Sæll, Helgi

Ég er býsna vel inni í þessu máli öllu saman, og það er mér bæði ljúft og skilt að svara spurningum þínum, þótt ég sé reyndar kominn með upp í kok af málinu. Það verður hins vegar ekki alveg strax, þar sem ég hef öðrum hnöppum að hneppa í augnablikinu, en það kemur vonandi fljótlega.

Með kærri kveðju,

Snæbjörn

Snæbjörn Guðmundsson, 6.12.2011 kl. 16:28

21 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Sæll, Helgi

Jæja, ég er búinn að hamra inn enn einn langhundinn. Vona að þú hafir þolinmæði og nennu til að lesa þetta.

Fyrst langar mig örlítið til að drepa á þessum umræðum á blogginu hans Valgarðs. Við lestur á því (ég las það á sínum tíma, nenni því varla núna) þá verður að hafa nokkra hluti í huga. Í fyrsta lagi er mikið spurt um gögnin, því þarna vildu félagsmenn vita hvort Bjarni Randver væri að dreifa gögnunum óbrjáluðum eða klipptum eftir sínu höfði. Einnig vissum við ekki hvað nákvæmlega hann væri með í höndunum, þótt við vissum að hann væri með gögn af lokaða spjallborðinu, og það var aldrei spurning um að okkur væri að verða ljós alvarleiki málsins á þessum tímapunkti, alvarleiki málsins alls margfaldaðist um leið og við komumst að því að Bjarni hafði fengið gögnin í hendurnar, sem var nokkrum mánuðum fyrr. Við þurftum ekkert að gera okkur grein fyrir því, það var alveg ljóst frá upphafi. Í öðru lagi voru klipptu gögnin af spjallborði Vantrúar, sem Bjarni Randver hefur dreift út um borg og bý, mjög illa unnin og var þar snúið út úr orðum manna, þau klippt til og Vantrúarmenn látnir líta út eins og verstu sóðakjaftar og nánast illmenni (ætli það sé ekki hluti af „fræðimennsku“ hans). Mönnum var mikið í mun að e-r sæju í gegnum þetta lúalega bragð Bjarna Randvers, og það er kannski helst út af því sem þetta lítur út eins og yfirheyrslur. Í þriðja lagi eru margir í Vantrú líklegast með þrjóskari mönnum á landinu, og kippa sér ekki upp við að taka örlítið „kröftulega“ þátt í svona umræðum. Það má alveg telja Vantrú það til vansa að svo sé, en það er nú samt bara þannig. Við gerum okkur alveg grein fyrir þessum galla hjá okkur og hvaða áhrif hann hefur á utanaðkomandi og höfum reynt að hemja okkur, því það kemur vissulega ekkert sérlega vel út hversu fljótt menn verða heitir í svona umræðum. En það verður samt líka að athugast að í þessu máli er ansi mikið undir, það er nokkuð ljóst að mannorð fólks Vantrúar megin hefur verið dregið í svaðið vegna þessa máls, og það er ekki skemmtilegt að sitja undir slíku. En svo ég spyrji samt fyrir forvitnis sakir, hvað á annars að koma út úr því að menn meti þetta blogg og athugasemdirnar á yfirvegaðan og hlutlægan hátt?

En gott og vel, ég skal gera mitt besta til að svara spurningum þínum.

1) Veistu, ég held að það sé nú ekki mikill munur á þínum skoðunum, og skoðunum flestra í Vantrú, varðandi þetta mál, alla vega ekki í framkvæmd. Ég ber virðingu fyrir flestum skoðunum, þar á meðal trúarskoðunum flestra trúaðra, en ég geri mér alveg grein fyrir því að mér beri ekki skilyrðislaust að bera virðingu fyrir öllum skoðunum. Sumar skoðanir finnast mér ekki virðingarverðar (t.d. rasískar skoðanir og hatur gegn samkynhneigðum), og ég hugsa að það séu svipaðar skoðanir og þær, sem þú telur stangast á við „gott siðferði og almannareglu“. En er ekki alveg eins hægt að teygja þína skilgreiningu til, eins og hina? Kannski finnst sumum trúleysisskoðanir mínar stangast á við „gott siðferði“, er þar með ekki búið að opna á fordæmingu viðkomandi á mér, eða hvað?

2) Hvað varðar „glærustuld“ Vantrúar, þá er ég alveg sammála því að það er alls ekki gott að birta glærur úr námskeiðinu í heimildarleysi. Reyndar gerðu félagsmenn sér grein fyrir því og sendu Bjarna Randveri bréf (sjá http://www.vantru.is/2010/02/17/09.00/) þar sem óskað var eftir því að fá að birta þær á Vantrúarvefnum til umfjöllunar fyrir opnum tjöldum, en hann svaraði því bréfi ekki. Gott og vel, ég er að sjálfsögðu sammála því að höfundarréttur er mikilvægur og hann ber að virða, þótt við höfum ekki séð okkur fært um að gera það þarna. Fyrir mína parta, þá þykir mér reyndar höfundarréttur þess efnis, sem oft er sett á svona kennsluglærur, mikilvægari en höfundarréttur sjálfra glæruhöfundanna (kannski ekki rökrétt, ég veit). Það væri t.d. helsta ástæðan fyrir því að ég myndi aldrei birta glærurnar mínar opinberlega í því ástandi sem þær eru núna (hef oft velt því fyrir mér), því þar eru nokkrar myndir sem ég á ekki höfundarrétt á og hef í raun ekki leyfi til að birta (en ég hef hug á að fá leyfi hlutaðeigandi til birtingar með höfundarréttarmerki, svo ég geti sett glærurnar mínar á opið vefsvæði fyrir alla til að skoða). Að öðru leyti þykir mér mikilvægara að það sé öllum ljóst og að það sé opinbert hvað verið sé að kenna í námskeiðum uppi í háskóla, og að allir geti skoðað það og metið námsefnið. Það er ekki einkamál kennara og nemenda hvað verið er að segja í tímum, svoleiðis leynd á alls ekki heima í opinberum háskóla. Það að slíkt sé lokuð bók býður upp á alls konar kennsluhætti, sem ekki ættu að líðast, þótt nemendur finni kannski ekkert að því. Í þessu máli hef ég t.d. lesið á netinu allmargar lýsingar á kennslu Bjarna Randvers, þar sem nemendur hans hafa lýst henni sem hlutlausri og eðlilegri, en í framhaldinu farið að tala um hvað Vantrú sé slæmt félag og eigi ekkert gott skilið. Vegna þess að glærurnar eru á lokuðu heimasvæði, þá hefði jafnvel miklu verri kennsla alveg getað átt sér stað án þess að nokkur hefði komist að því, þar sem nemendurnir hefðu kannski ekki séð neitt athugavert við slíkt. Þess vegna finnst mér auðvitað mikilvægt að kennsla og kennslugögn séu opinber, og raunar finnst mér Háskólinn gera allt of lítið í því. Því miður er auðvitað alltaf sá möguleiki til staðar að efni missi samhengi sitt þegar texti og orð fylgjast ekki að, en það þætti mér furðuleg og samhengislaus kennsla sem ekki byggði alla vega á anda glæranna. Þannig að ég er alveg sammála þér í því að það eigi ekki að brjóta höfundarrétt kennara, en í þessu tilfelli töldum við okkur ekki geta setið hjá í málinu.

Það sem er þó kannski mikilvægara í þessu samhengi, er að þú skulir nefna þetta nánast eins og e-a réttlætingu („hvort það komi ekki vel á vondan“) á því að Bjarni taki gögn af lokuðu spjallsvæði Vantrúar og dreifi því brengluðu með sínum eigin túlkunum út um allt háskólasamfélagið. Þarna er gífurlegur munur, á því að birta glærur í heilu lagi af opnu námskeiði í opinberum háskóla í heimildarleysi, eða að taka trúnaðargögn af lokuðu spjallsvæði félags út í bæ og dreifa þeim brengluðum í heimildarleysi. Það hefði í raun verið betra ef glærurnar hefðu fengið dreifingu óklipptar, því þá hefðu allir séð að það var ekkert einelti í gangi, og það var aldrei hvatt til „heilags stríðs“. Ef gögnin frá Bjarna Randveri eru borin saman við óklippt gögnin af spjallborði Vantrúar, þá er óheiðarleiki Bjarna Randvers hrópandi. Og það er kannski einmitt út af þessu, sem ég gef ekki mikið fyrir það þegar fólk segir að heimildavinna Bjarna Randvers og meðferð hans á tilvitnunum sé fræðileg. Hún er það svo sannarlega ekki, og þarf ég ekki meiri grunn í sagnfræði eða annars konar „húmanískri fræðimennsku“ og meðferð á heimildum og tilvitnunum en að hafa setið sögutíma og unnið verkefni hjá þér, Helgi minn, til að átta mig á því. En sérð þú ekki þennan mun, á því annars vegar að klippa til og dreifa trúnaðargögnum af lokuðu spjalli félagsmanna eða birta glærur í heilu lagi úr opnu námskeiði í opinberum háskóla? Og athugaðu eitt, að innan Vantrúar eru félagsmenn, sem ekki vilja að það komi opinberlega fram að þeir séu í Vantrú, t.d. vegna vinnu eða stöðu í samfélaginu (grínlaust!). Það er kannski hálfótrúlegt að hugsa til þess, en það er nú samt þannig að fólk innan Vantrúar, sem vinnur sjálfstætt, hefur misst af verkefnum eftir að hafa opinberað trúleysi sitt. Sumir koma aldrei fram í nafni Vantrúar nema undir dulnefni, og sumir þessara félaga urðu mjög stressaðir og liðu fyrir þennan stuld Bjarna Randvers. Enda er þetta orðið að lögreglumáli, og munum við sækja það mál. Ég held raunar að sá sem hafi komið þessum gögnum í hendurnar á Bjarna Randveri hafi ekki verið að gera honum neinn sérstakan greiða.

3) Auðvitað þarf stundum að stytta texta, en það er nú ekki eins og allar glærurnar séu stappfullar, er það nokkuð? Nei, mér finnst það augljóst að tilvitnanir í félagsmenn Vantrúar eru styttar til að þær líti verr út. Tilvitnunin í Matta er alls ekkert mikið lengri óstytt, alla vega ekki lengri en sumar styttu tilvitnanirnar á glærunum. Mér finnst sú túlkun frekar langsótt, að hann hafi stytt tilvitnanir á glærunum en farið samt með þær í heilu lagi fyrir nemendur, og það sé ástæðan fyrir því að hann vilji ekki að þær séu birtar opinberlega. Ég hélt að það væri algjört grundvallaratriði að tilvitnanir væru einfaldlega ekki styttar þannig að merking þeirra breyttist. Myndir þú ekki gera athugasemd við slík vinnubrögð hjá þínum nemanda? Og hvaða tilgang hefur það virkilega að stytta tilvitnunina svona í það sem Matti skrifar? Jú, plássleysi væri eiginlega eina skýringin, en hún er nú samt hálfótrúleg, þar sem hann hikar ekki við að setja stakar klipptar tilvitnanir á heilar glærur hjá sér. Ég get ekki séð neina raunverulega ástæðu fyrir þessum vinnubrögðum, aðra en þá að Bjarni vilji láta Matta líta verr út. Og auðvitað eiga glærurnar ekki að standa þannig, að tilvitnanir séu klipptar sundur og saman, og það svo notuð sem e-r afsökun að það vanti samhengi kennslunnar. Hvað ef nemendur komast ekki í tímann hjá honum og sjá bara glærurnar? Hvað ef fólk glósar ekki nákvæmlega allt sem hann segir, og ætlar svo að skoða glærurnar eftir á? Þetta heldur engu vatni.

Svo í alvöru, Helgi, finnst þér textameðferðin í lagi? Að klippa texta þannig til að það er jafnvel tekið stakt orð héðan og þaðan úr frumtextanum og púslað saman í algjörlega nýja texta. Samhengi er algjörlega sleppt. Það er alveg rétt að sum þessara dæma eru ekkert rosalega særandi fyrir þá sem skrifuðu upprunalegu textana, enda kemur það líka fram í umfjöllun Vantrúar að við sjáum ekkert athugavert við margt eða jafnvel flest þarna, en engu að síður er þessi bútasaumur alls ekki í lagi og segir meira en mörg orð um meinta fræðimennsku mannsins. Í umræðum um þetta mál fæ ég á tilfinninguna að fólk langi bara svo ósköp mikið til þess að þessi kennsla sé í fínu lagi og erindi Vantrúar ósanngjarnt, að fólk er tilbúið til að teygja sig mjög langt við túlkun á glærunum og finna alls konar réttlætingu fyrir þeim. Bjarni Randver hljóti bara að hafa talað svo um e-ð allt annað en það sem stendur á glærunum, og allt í einu haft tilvitnanirnar rétt eftir og sett hlutina í rétt samhengi. Eða eins og þú segir sjálfur, Helgi, um glæruna sem fjallar um „fylgismenn Dawkins“: „Þar getur Bjarni mögulega réttlætt textann ...“ Hvað ef hann gerði það ekki? Hvað ef umfjöllunin var jafneinhliða og glærurnar benda til? Og ef fólki finnst þetta ekkert svakalega slæmar glærur, þá mætti spyrja, hvað ef þessar glærur hefðu fjallað um e-n annan félagsskap? E-a aðra en kjaftfora trúleysingja, sem bera enga virðingu fyrir náunganum og skoðunum hans? Hvað ef þessar glærur fjölluðu um e-n minni háttar trúarhóp í samfélaginu, sem hefur kannski ekki alltaf verið upp á pallborðið hjá landanum? Væri þetta enn þá í lagi? Nei, veistu, mér finnast þessar glærur vera svo langt frá því að vera faglegar eða fræðilegar, og þar að auki ekkert benda til þess að umfjöllunin um Vantrú hafi verið e-ð mikið skárri í tímunum.

4) Jújú, Vantrú ákvað kannski hörkustig málsins í upphafi, og það hefði kannski mátt sleppa því að fjalla um glærurnar á vefnum. Okkur fannst nú tilefnið samt ærið, í fyrsta lagi að senda erindi eða kvörtun inn til siðanefndar, en einnig að benda lesendum okkar og öðrum á það hvernig umfjöllun um félagið sé niðri í guðfræðideild Háskólans. Og athugaðu að þetta setur ýmislegt úr umræðum Vantrúarmanna í gegnum tíðina við annað fólk, sérstaklega guðfræðinema, í samhengi. Þessi kúrs var áður kenndur árið 2005, af sama kennara sem notaði líklegast sömu eða mjög svipaðar glærur. Ég fullyrði þetta með glærurnar, því ári síðar, í ágúst 2006, birtist þessi færsla á Málefnunum.com: http://www.malefnin.com/ib/index.php?s=&showtopic=92677&view=findpost&p=998999. Þarna er e-r sem kallar sig „Veru“ að benda á hvað Vantrúarliðið sé nú dónalegt. Kannastu við tilvitnanirnar? En langa orðalistann þarna? Þetta eru tilvitnanir og ljótur munnsöfnuður Vantrúarmanna tekið beint upp af glærum Bjarna Randvers (sjá þetta: http://www.vantru.is/2010/02/24/13.00/ og þetta: http://www.vantru.is/2010/02/26/13.00/). Þar sem glærurnar voru nú líklegast ekki í almennri dreifingu á þessum tíma, er þá ekki líklegt að þessi „Vera“ hafi setið í tímunum hjá honum? Ekki virðist mikið fara fyrir samhengi þarna, eða óstyttum tilvitnunum. Orðalistinn er sá sami, jafnvel þótt orðin séu alls ekkert öll um nafngreint fólk. Þetta er nefnilega fræðimennskan og heiðarleikinn sem Bjarni Randver býður upp á í kennslu hjá sér, og okkur finnst ekkert í lagi að svona sé fjallað um lítið félag úti í bæ í kennslu uppi í Háskóla. Mér sjálfum finnst það alvarlegt út frá hagsmunum Háskólans, þetta er ekki fræðimennska fyrir fimm aur og á ekki heima þar. Eða eins og annar Vantrúarmaður sagði e-s staðar, það er nánast verið að gjaldfella mína eigin háskólagráðu með því að bjóða upp á svona lagað í mínum skóla. Ég skil hins vegar sérstaklega vel að þeir, sem voru nafngreindir og áttu þarna á glærum orð og setningar, sem slitin voru úr samhengi og hvers merkingu var breytt, hafi viljað fara alla leið með málið til siðanefndar. Kannski var óþarfi að setja þetta svona upp á vefnum, en eins og ég segi, þá setti þetta umræðuna töluvert mikið í samhengi og mér finnst þetta alveg eiga erindi til lesenda Vantrúar. Þarna er boðið upp á þá mynd af Vantrúarmönnum að þeir séu sérstaklega kjaftforir og ófyrirleitnir, en það gefur bara mjög ranga mynd af félaginu. Bjarni Randver talar sérstaklega um Matta (Matthías Ásgeirsson), sem kjaftforan og ósvífinn náunga, eins og brengluð tilvitnunin í hann gefur til kynna, en í rauninni er Matti mjög ljúfur og prúður maður. Ég mæli t.d. með þessum búti úr Silfri Egils þar sem hann birtist í eigin persónu: http://video.google.com/videoplay?docid=1662832043074399401.

5) Já, ég get sagt þér hvernig í þessu stendur, kæran var dregin til baka því málið var ónýtt. Ónýtt, því Bjarni Randver og fylgismenn hans (reyndar virðast fylgdarliðið hafa stýrt ferðinni að miklu leyti) höfðu hamast svo í siðanefnd að hún gat ekki starfað í friði. Þetta hálfótrúlega mál er rakið í tveimur greinum á Vantrú: http://www.vantru.is/2011/05/05/10.00/ og http://www.vantru.is/2011/05/11/09.00/. Þarna er sagt frá því af hverju Vantrú dró kæruna til baka, það var einfaldlega til að skera Háskólann úr snörunni. Því málið var ónýtt, einn formaður siðanefndar þegar búinn að segja af sér vegna þess, og seinni formaðurinn hafði þegar sagt að hann myndi gera slíkt hið sama. Það hefur í raun verið alveg ótrúlegt að fylgjast með þessu máli, og því hvernig aðilar innan háskólans hafa hamast í siðanefndinni og Vantrú. Í Moggagreininni góðu er einmitt sagt berum orðum að siðanefnd og fólk innan háskólans hafi unnið náið með Vantrú að því að koma höggi á Bjarna Randver. Þetta er einmitt gott dæmi um málatilbúnað Bjarna Randvers og félaga gagnvart siðanefndinni, að hún hafi tekið þátt í e-s konar samsæri með Vantrú gegn Bjarna. Núna kann vel að vera að þessir aðilar trúi sínum eigin orðum, en alla hina sem trúa þessu spyr ég bara: Er fólk algjörlega gengið af göflunum? Og ekki misskilja mig, ég á ekki við þig í því efni, Helgi minn, þar sem mér sýnist þú nú hvergi hafa hallmælt siðanefnd. En í alvöru, hverjir trúa því að virðulegir háskólamenn, eins og Þórður Harðarson, professor emeritus og fyrrverandi forseti læknadeildar, og Ingvar Sigurgeirsson, prófessor í kennslufræði og fyrrum deildarforseti við Kennaraháskólann, hafi í alvörunni ætlað að plotta með e-u smáfélagi eins og Vantrú við það að knésetja e-n stundakennara í guðfræðideild? Það er fullkomlega galin hugmynd. Enda er svo auðvitað ekkert hæft í henni. En samt er þetta borið á borð fyrir lesendur moggans og mbl.is, algjörlega hiklaust eins og mönnum finnist ekkert eðlilegra. Annað sem sagt er í moggagreininni er að siðanefndarmenn hafi að ósekju neitað að víkja vegna vanhæfis. Þar fór Ragnar Aðalsteinsson langt yfir strikið, enda vildi hann að allir fulltrúar í siðanefnd (eða því sem næst) vikju vegna vanhæfis. Þar á meðal átti einn að víkja vegna þess að hann hafði á e-m tímapunkti kennt óbreyttum félagsmanni í Vantrú. Tugir félaga í Vantrú hafa lært innan veggja Háskólans, hvar á að finna háskólafólk í nefndina ef kennarar Vantrúarmanna eru ekki hæfir? Auðvitað var hugmyndin einfaldlega að eyðileggja nefndina, til að koma í veg fyrir að hún myndi nokkurn tímann geta fjallað um málið eða úrskurðað í því. Finnst þér þetta, Helgi, benda til faglegra og yfirvegaðra vinnubragða af hálfu Bjarna Randvers og co.? Auðvitað hefðum við í Vantrú bara átt að segja við háskólann að úrskurða í málinu, en þetta var orðinn það mikill drullupollur að það hefði varla nokkur maður fengist til að stýra siðanefndinni, enda þegar búið að mála tvo virta fræðimenn út í horn. Við í Vantrú vildum því af góðmennsku okkar koma á móts við Háskólayfirvöld og aðstoða þau við að greiða úr málinu. Við samþykktum að það yrði skipuð rannsóknarnefnd til að fara yfir alla liði málsins, og vonuðumst við því til þess að þetta yrði allt dregið fram. Síðan kom skýrsla rannsóknarnefndarinnar algjörlega þurr og innihaldslaus, án nokkurrar alvöru niðurstöðu annarrar en þeirrar að siðanefnd hefði átt að klára málið. Ég viðurkenni reyndar að ég hef ekki nennt að lesa þessa skýrslu í gegn, því ég er kominn með svo mikið ógeð á málinu, en ætli maður neyðist nú ekki til þess.

Hvað varðar „útgáfusamninginn“, sem er málaður eins og e-r mútur í moggagreininni, þá var það á e-m tímapunkti hugmynd háskólayfirvalda að það yrði haldin ráðstefna um trúleysi, sögu þess og stefnur auk þess sem ritrýnt fagrit um efnið yrði gefið út, og væri þar komið hið fínasta kennslurit um trúleysi fyrir guðfræðina og trúarbragðafræðina (og aðrar deildir háskólans, að sjálfsögðu). Peningarnir frá háskólayfirvöldum, þessi 750.000 kall, áttu að fara í útgáfu ritsins, og hefði Vantrú auðvitað aldrei séð neitt af þeim. Í þetta rit hefðu svo ýmsir fræðimenn hugvísindasviðs, bæði úr heimspekideild og guðfræði- og trúarbragðadeild, verið fengnir til að skrifa efni og það hefði reynst hin mesta gæfa fyrir skólann og alla aðila málsins ef þetta hefði gengið í gegn. En að sjálfsögðu tóku Bjarni Randver og fylgismenn þetta stinnt upp og ekkert varð af útgáfunni. Athugaðu að þetta var aldrei krafa Vantrúar, og hugmyndin kom ekki frá okkur. Hvar þessir peningar eru núna, veit ég ekki. Ætli þetta hefði ekki verið tekið af ráðstöfunarfé rektors eða yfirstjórnar eða e-ð álíka, og fjármunirnir hafa núna örugglega verið notaðir í e-ð annað skemmtilegt í staðinn, eða það vona ég alla vega. En, bara svo það sé á hreinu, þá hefði Vantrú ekki grætt krónu á þessu. Það er hins vegar í anda andstæðinga Vantrúar að mála þetta sem e-r mútur. Núna skilurður kannski betur af hverju mér og öðrum í Vantrú blöskraði moggagreinin, því hún er svo stútfull af rangfærslum og hálfsannleik að það er yfirgengilegt.

6) Þú spyrð mig um siðferðilega, lagalega og fjárhagslega ábyrgð Vantrúar. Veistu, ég veit satt best að segja ekki hvernig ég á að svara þessu. Jú, við sendum erindi inn til siðanefndar. Í öllum venjulegum háskólum hefði það getað farið á þrenna vegu: 1) Sáttir nást, allir sáttir. 2) Sáttir nást ekki, siðanefnd úrskurðar að erindið eigi rétt á sér, guðfræðideild biðst opinberlega afsökunar á að hafa fjallað einhliða um Vantrú, kennslu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar breytt (og ekkert endilega þannig að Bjarni Randver sé látinn hætta, enda var það ekki krafa af hálfu Vantrúar) og Vantrú hrósar sigri á vefnum sínum. 3) Sáttir nást ekki, siðanefnd úrskurðar að erindið hafi ekki átt rétt á sér, guðfræðideild hrósar sigri, Vantrúarfólk skrifar bitrar greinar á vefinn sinn. Hjá Háskóla Íslands var hins vegar greinilega fjórði möguleikinn til staðar: 4) Sáttir nást ekki vegna þess að annar málsaðilinn neitar ítrekað að taka við sáttum eða ræða við siðanefnd, sami aðili leggur sig fram við að eyðileggja málið og sverta mannorð siðanefndarmanna, allt í köku. Það er nú bara þannig að skv. siðareglum Háskólans, þá á Vantrú ekki að þurfa að líða fyrir það að hafa sent erindi inn til siðanefndar: „3.1 Starfsfólk Háskólans er vakandi fyrir því að halda siðareglur skólans. Ef starfsmaður verður þess áskynja að reglurnar hafi verið brotnar gerir hann viðvart um það, með því að beina erindi til rektors eða siðanefndar Háskóla Íslands. Rökstudd ásökun um brot á siðareglum má aldrei bitna á þeim sem færir hana fram.“ Þannig hefur Vantrú fullkominn rétt til að bera erindið fram og erindið á einfaldlega að hafa sinn gang innan skólans. Þetta var ekki virt, og það var ekki Vantrú að kenna. Þú munt kannski segja að við berum ábyrgð vegna þess að við birtum glærurnar upphaflega og vorum „harkaleg“ í því, en það á samt ekkert að koma framgangi málsins innan Háskólans við. Ef við vorum ósanngjörn í upphafi hefðum við auðvitað tapað málinu. Ferill málsins innan Háskólans er einfaldlega svakalegur, en Vantrú hefur aldrei staðið í vegi fyrir sáttum eða því að siðanefnd og háskólayfirvöld fengju frið til að vinna málið. Það hefur hins vegar Bjarni Randver og vinir hans gert. Og athugaðu að við gáfum ekki siðanefndinni frið vegna þess að við værum svo viss í okkar sök. Þvert á móti vorum við alltaf hrædd um að siðanefnd myndi vísa málinu frá þar sem við værum félag utan háskólans, að guðfræðideildin hefði svo mikil ítök, o.s.frv. Við vildum bara fá úrskurð í málinu. Það voru svo andstæðingar Vantrúar sem fóru með málið í blöðin, þrjár greinar birtust um málið í Pressunni, svo kom þessi moggaumfjöllun og viðtalið í Kastljósinu. Á sama tíma hefur Vantrú ekkert farið með málið í fjölmiðla. Við höfum ekki einu sinni reynt að svara fyrir okkur sérstaklega í fjölmiðlum, t.d. þegar Pressan birti greinarnar um málið. Segir þessi hegðun þér e-ð um mismunandi siðferði þessara andstæðu fylkinga?

Hvað varðar lagalega ábyrgð, þá sé ég ekki alveg hvernig það kemur Vantrú við. Jú, ef Bjarni Randver var sár yfir því að við skyldum birta glærurnar, þá má hann mín vegna alveg gera e-ð í því. Stuldur á trúnaðargögnum af lokuðu spjallsvæði Vantrúar hefur hins vegar þegar verið kærður til lögreglu, svo það er hugsanlegt að hin hliðin beri e-a lagalega ábyrgð á því. Að öðru leyti veit ég ekki hvað þú ert að tala um.

Hvað varðar fjárhagslega ábyrgð, þá vísarðu líklegast til þess að Bjarni hafi lagt út í gríðarlegan lögfræðikostnað vegna málsins. Það er auðvitað ekki á ábyrgð Vantrúar, hann tók þá ákvörðun sjálfur (kannski undir áhrifum „ráðgjafa“ sinna?) og algjörlega án þess að Vantrú ýtti honum út í neitt slíkt. Raunar segir Bjarni Randver sjálfur að hann hafi gert það eftir að hafa komist yfir trúnaðargögnin af innra spjalli Vantrúar, þannig að mér sýnist nú að sá, sem lét honum þau gögn í té, beri ansi mikla ábyrgð á fjárhagslegum vandræðum Bjarna. Ég er ekki hress með þennan kostnað hjá Bjarna Randveri, því það getur nú ekki verið neitt sérstaklega skemmtilegt að þurfa að punga út rúmri milljón í e-n lögfræðing, en það er alls ekki á ábyrgð Vantrúar.

7) Nei, upphaflega var nú einfaldlega talað um erindi eða athugasemd, sem var komið til siðanefndar Háskólans til athugunar. Síðar varð þetta að kæru, ég man ekki á hvaða tímapunkti eða við hvaða tilefni nákvæmlega það gerðist, en hver er svo sem munurinn á erindi, kvörtun, kæru eða athugasemd? Satt best að segja, þá er búið að þvæla málinu það mikið í mínum huga að ég er farinn að nota þessi orð nánast sem samheiti og finnst þetta nú ekki stórmál. Það býr ekkert annarlegt þarna að baki af hálfu Vantrúar, sá sem samdi grunninn að greininni orðaði þetta bara svona, hugsanlega í samræmi við upphaflegt erindi Vantrúar, geri ég ráð fyrir. Við notum orðið kæra víðs vegar á vefritinu, og finnst það bara eðlilegasta mál.

Varðandi umfjöllunarefni greinarinnar þá er þarna einungis verið að gera örlitla tilraun til að bera blak af siðanefnd Háskólans, sem hefur setið undir geigvænlegum árásum af hálfu Bjarna Randvers og fylgismanna hans (sbr. sunnudagsgrein moggans og það sem ég kem inn á hér að ofan). Það hefur verið látið í veðri vaka að siðanefnd hafi gerst sek um ófyrirgefanleg mistök í málinu, að hafa ekki haft samband við Bjarna Randver, en ef þetta bréf Péturs Péturssonar er skoðað þá verður skiljanlegt að nefndin hafi upphaflega aðeins verið í sambandi við Pétur, enda segist hann hafa rætt málin við Bjarna Randver og þeir orðið sammála um að Pétur kæmi fram fyrir hönd Bjarna í málinu. Þarna segir því Pétur, verandi deildarforseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, umsjónarmaður námskeiðsins og leiðbeinandi Bjarna Randvers í doktorsnámi, beinum orðum í undirrituðu bréfi að hann muni koma fram fyrir hönd Bjarna. Síðar segir Bjarni að ekkert slíkt hafi verið samþykkt. Finnst þér þetta ekkert furðulegt, Helgi? Mér finnst það alla vega, og annað hvort hlýtur e-r að vera að segja ósatt eða halla réttu máli, eða þá að samskiptin innan guðfræðideildarinnar eru meira en lítið ankannaleg eða stirð. Annars þarft þú ekki að hafa áhyggjur af því að Vantrú sé að reyna að drepa málinu á dreif, það verður fjallað um það frekar og ekki bara á þessum nótum.

---

Svo að lokum langar mig bara til að segja það, að ég met orð þín og skoðanir mikils, Helgi, og því er það mér afar mikilvægt að þú hafir sem óbrenglaðasta mynd af málinu öllu. Það er þess vegna sem ég rita þessa langloku hér að ofan, svo málið skýrist eins og hægt er. Það er svo sem kannski alveg ljóst að við verðum ekki sammála um allar baráttuaðferðir Vantrúar, greinaskrif, framsetningu efnis, o.þ.h., en ég vil samt biðja þig um að láta ekki álit þitt á félaginu eða stökum félögum hafa áhrif á sýn þína á þetta mál. Þetta mál er Vantrú mjög mikilvægt, sem sést kannski best á því að það sé enn í gangi, næstum tveimur árum eftir kennsluna. Félagsmenn eru löngu komnir með upp í kok af því, en e-r niðurstaða verður að komast í málið.

Með kærri kveðju og vinsemd,

Snæbjörn

Snæbjörn Guðmundsson, 7.12.2011 kl. 21:04

22 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll og blessaður Snæbjörn.

Þakka þér enn og aftur fyrir þetta svar.

Þótt ég sé farinn að orðaskylmast á öðrum vettvangi, þá finnst mér sjálfsögð virðing við þig að svara þér áður en ég lít á athugasemdirnar við hinni færslunni, auk þess sem svar þitt varpar skýrara ljósi margt í þessu sorglega máli, sem ég hef verið að reyna að komast að. Verst er máske að sumt af þessu máli virðist spretta upp af misskilningi og annað af kergju deiluaðila. Ég skil vel að þið Vantrúarmenn séuð ósáttir við það hvernig margt í málsmeðferðinni hefur ómerkst. En þið fóruð vígreifir af stað (ég trúi því enn að þið hefðuð getað sett fram aðfinnslur ykkar eftir hógværari leiðum, þótt Vantrúarmaðurinn Egill hafi í gærkvöldi reynt að sýna mér fram á annað). Og þegar farið er af stað af hörku, þá hljóta menn að geta vænst þess að gagnaðilinn svari fyrir sig, er það ekki? Einn viðmælandi minn í fyrradag sagði við mig í spaugi (þarf ég nokkuð að bæta við broskarli?) í fyrradag: “Þetta mál er farið að minna á fyrri heimsstyrjöldina. Menn héldu af stað til vígstöðvanna gleiðbrosandi og reiknuðu með að vera snúnir heim sigursælir fyrir jól. En svo festist stríðið í skotgröfunum. Af hverju? Af því að andstæðingurinn greip til vopna líka. Á endanum stórsköðuðust allir.” Ef til vill er þessi brandari þó ósmekklegur; maður veit ekki lengur hvað má segja í dag og hvað ekki.

Nú að svari þínu: Fyrst vil ég nefna að ég var ekki að gagnrýna grein Valgarðar (ásamt athugasemdum), heldur þvert á móti að mér fannst þetta stórlega fræðandi, bæði um efnisatriði og starfsaðferðir. Auk þess fannst mér hún ferskur vinkill frá því að kynna mér efnið af vef Vantrúar, þar sem því er ritstýrt. Ég er enn á minni sömu gömlu línu, að hvetja alla til að kynna sér allt efni og allt málið frá öllum hliðum. Ég eyddi sjálfur fjórum klukkustundum í að lesa skýrslu svonefndrar rannsóknarnefndar HÍ og þar kom fram ýmislegt, sem hvorugur aðila hafði áður látið koma fram í sínum gögnum (Bjarni Randver sjálfur hefur reyndar afar lítið sjálfur komið fram í málinu öllu). Sem kemur að öðrum punkti. Þú segir að Bjarni hafi dreift klipptu gögnunum af spjallborði Vantrúar út um borg og bý; veistu hversu mikil sú dreifing er? Hafa þau t.d. borist ykkur í hendur (aftur) eftir slíkum leiðum? Einn vandinn við að mynda sér skoðun í öllu þessu stóra máli er nefnilega að nánast ómögulegt er að verða sér úti um ýmis mikilvægustu gögnin og mynda sér óháða skoðun. Þess vegna verður maður að taka ýmislegt trúanlegt eins og það birtist, t.d. í grein Barkar Gunnarssonar. Og, vel á minnst, ef grein Barkar er svo full af misfærslum og villandi upplýsingum, hefur þá ekki komið til tals af hálfu Vantrúar að höfða meiðyrðamál gegn honum?

Þú segir að mannorð sumra Vantrúarfélaga hafi verið dregið í svaðið og ég er þér innilega sammála. En ég velti því fyrir mér hvort Bjarna Randveri finnist ekki hafa verið reynt að draga mannorð sitt í svaðið, sérstaklega í ljósi þess að kæran hefur verið dregin til baka. Þið Vantrúarmenn leggið ríka áherslu á að Bjarni hafi ekki sýnt sáttfýsi. Ég veit ekki hvort (skv. Rannsóknarskýrslu HÍ) hin svonefnda fyrsta “sátt” geti nefnst því nafni, ef a) hún var ekki gerð með hans þátttöku, heldur eingöngu með aðkomu Vantrúar, Siðanefndar HÍ og yfirmanna guðfræði- og trúfræðideildar, skilst mér, og b) var hún "sátt" ef hún hefur falið í sér “áfellisdóm” yfir vinnubrögðum Bjarna, eins og allmargir kennarar Hugvísindadeildar virðast hafa viljað túlka hana? Mér sýnist líka (af þeim takmörkuðu gögnum sem ég hef um málið, en m.a. rannsóknarskýrslu HÍ) að Bjarni hafi verið reiðubúinn til að biðjast afsökunar á tiltekinni glæru á einum tímapunkti og tilbúinn til sátta að því leyti að hann væri reiðubúinn til að bjóða fulltrúum Vantrúar til að kynna félag sitt í tímum hjá sér. Hvað kom út úr því “sáttatilboði” er mér ekki kunnugt, en alltént virðist Vantrú ekki hafa verið reiðubúið til að fallast á það.

Viðvíkjandi glærunum, þá er ég fús til að viðurkenna að eitt og annað geti þar orkað tvímælis, ef þær eru látnar standa einar og sér. En ef til vill var það þess vegna sem Bjarni vildi ekki að þær færu í dreifingu. Skýrsla rannsóknarnefndar HÍ nefnir að hann hafi verið reiðubúinn til að biðjast afsökunar á a.m.k. einni glæru, sbr. að ofan. Hins vegar er ekki að sjá að kennarahópurinn úr Hugvísindadeild telji þörf á neinni afsökunarbeiðni, eftir því sem ég fæ séð af gögnum málsins, og telji glærurnar vel geta rúmast innan kennslu, ef kennari gerir grein fyrir samhengi þeirra, að mér skilst.

Þú varpar góðu ljósi á þessi undarlegu útgáfumál. Ég skal viðurkenna að í ljósi greinar Barkar virtist mögulega eitthvað annarlegt geta búið að baki þessu sérkennilega sáttatilboði. Þakkir fyrir útskýringuna. Þetta er efnisatriði af því tagi, sem ég held að Vantrú ætti að leitast við að draga fram. Reyndar er ég undrandi á því hvers vegna félagið tekur ekki grein Barkar fyrir, lið fyrir lið, og hrekur allar rangfærslur sem hún getur. Í þess stað finnst mér hún fara þá leið að birta greinar með gamalkunnu sniði, sem virðast meira með stuttaralegum áróðursbrag og peppi til félaganna í athugasemdadálki; þetta eru viðbrögð sem ollu mér vonbrigðum og leiddu til þess að ég bloggaði í gær.

Annars er ég hissa á að HÍ skuli hafa yfir fjármagni að ráða til slíkra verkefna, en ekki til að aðstoða Bjarna vegna útlagðs lögfræðikostnaðar í máli þar sem kæra hefur verið felld niður á hendur honum. En það er vitaskuld mál Háskólans, ekki Vantrúar.

Ég skil vel að þetta mál sé félaginu Vantrú og félögum þess þungbært og hjartfólgið. En mér sýnist ekki, a.m.k. af fjölmiðlaumræðu og þeim viðmælendum sem ég hef rætt við um þessi mál á förnum vegi, að Vantrú hafi beinlínis almenningsálitið með sér í þessum efnum. Fyrir hálfu öðru ári hefur Bjarna Randveri eflaust fundist hann vera í nauðvörn og þurfa að svara fyrir sig, nú hefur dæmið einhvern veginn gjörsamlega snúist við. Þar sem félagið virðist liggja undir ámæli eða jafnvel “árásum”, eins og einhverjir hafa viljað túlka það, þá er spurningin hvort að réttu viðbrögðin séu ekki að draga í land og sýna örlitla auðmýkt. En það orð er ekki vinsælt í orðaforða málsvara félagsins, skilst mér. Eins og þú segir, þá eiga þessir málsvarar það til að taka kröftuglega til orða.

Þetta er orðin nokkuð löng umræða hjá okkur, kæri Snæbjörn, og ég viðurkenni að þótt hún sé sumpart þungbær, þá finnst mér hún einnig sálarhreinsandi og sálarhressandi. Verst er hvers konar tímaþjófur umræðan getur orðið – maður þyrfti eiginlega að geta helgað sig henni allan sólarhringinn. Þú þarft ekkert að svara neinu af því sem ég varpa fram hér að ofan – þetta mega alveg eins kallast hugleiðingar. Og ég vona að svona “smávægilegur skoðanaágreiningur”(!) okkar varpi engum skugga á vináttu að öðru leyti. Virðing mín fyrir þér er full og óskipt, og þú hefur varpað betra ljósi á margt, sem mér var áður hulið, heldur en nokkur annar í þessu máli.


Með þökkum, kveðju, vinsemd og virðingu,


Helgi


Helgi Ingólfsson, 8.12.2011 kl. 10:38

23 Smámynd: Snæbjörn Guðmundsson

Sæll, Helgi

Veistu, ég er ekki frá því að brandari vinar þíns (þessi hugsanlega ósmekklegi) nái örlítið að grípa stemminguna í þessu máli. Okkur í Vantrú óaði í það minnsta ekki fyrir því að málið yrði enn í gangi, núna tveimur árum síðar. Kannski vorum við vígreif í upphafi máls, en við vorum aðallega hundóánægð og hálhneyksluð yfir þessum vinnubrögðum (þótt þau hafi satt best að segja ekki komið okkur neitt sérstaklega á óvart). En eins og ég segi, þá vorum við tilbúin til sátta, og jafnvel þótt sumir innan félagsins hafi verið brjálaðir yfir þessum óskapnaði, þá hefðum við alltaf gengið að sáttum, bara til að ljúka málinu. Þannir voru þeir heitustu flestir tilbúnir til að ganga að sáttum, þótt maður skynjaði alveg að það gerðu þeir með óbragð í munni. Þar kemur líklegast helst til að formaður Vantrúar, Reynir Harðarson, var yfirvegaður í málinu öllu og fór sér að engu óðslega heldur tók vel í allar umleitanir siðanefndar og guðfræðideildar og var alltaf tilbúinn til sátta.

Hvað varðar gögnin af spjalli Vantrúar, þá þekkjum við (því miður) ekki útbreiðslu þeirra en við höfum heyrt af fullt af fólki, sem hefur séð þau. Þar hefur fólk bæði kommentað út frá þeim á Vantrúarvefnum og á bloggum Vantrúarfélaga, eins og þessu hjá Valgarði. Og athugaðu að þar er maður, Magnús, sem segist ekki hafa neina sérstaka tengingu við málsaðila. Það segir okkur alla vega sitt hvað um útbreiðslu gagnanna, sem ég held sjálfur að sé býsna mikil. Það er mjög alvarlegur hlutur. Þannig hafa þau borist í hendur vina og félaga Vantrúarmanna, þannig að það má í sjálfu sér segja að þau hafi komist aftur í hendurnar á okkur, já.

Hvað varðar hugsanlegt meiðyrðamál á hendur Berki, þá held ég að sú hugmynd komi alls ekki til greina. Þar kemur þrennt, eða jafnvel fernt, til. Í fyrsta lagi er það ekki leggjandi á orðspor Vantrúar að leggja upp í slíkan leiðangur, jafnvel þótt umrædd grein hafi m.a. verið stór þáttur við að skaða þetta sama orðspor. Eins og þú segir sjálfur, þá er Vantrú ekki beinlínis allra, og þetta mál hefur skemmt mikið fyrir félaginu, að ósekju að mínu mati. Ef við ætluðum í meiðyrðamál yrði það aldrei túlkað öðruvísi en árás á frelsi blaðamanna, sem merki um klikkun félaga o.s.frv. Í öðru lagi þá snýr grein Barkar ekki nema að hluta til að Vantrú sjálfri, en jafnvel meira að meintum slökum vinnubrögðum siðanefndar. Í þriðja lagi þá vonumst við til að vindast muni hægt og rólega ofan af málinu, sem ég held reyndar að sé þegar farið að gerast. Fyrstu viðbrögð siðanefndarmanna eru t.d. komin í ljós, en Þórður Harðarsonar, fyrrum formaður nefndarinnar, skrifar grein í Moggann í dag, sem ég hvet þig eindregið til að lesa, Helgi. Hún varpar miklu og skýru ljósi á málið, og er raunar í nokkuð miklu samræmi við það sem ég hef einmitt verið að skrifa hérna að ofan. Í fjórða og síðasta lagi, þá erum við í Vantrú komin með allt of mikið ógeð á málinu til að hafa yfir höfuð nennu og áhuga á að standa í frekara stappi, hvað þá fyrir dómstólum.

Hvað sættir varðar, þá held ég því fullum fetum fram, að Vantrú hefði alltaf gengið að þeim. Þetta segi ég, þótt ég viti að menn hafi ekki verið neitt sérstaklega ánægðir með fyrstu drög að sáttum frá siðanefndinni. En Vantrú var ekki í þessu til að knésetja einn né neinn, við vildum bara að það yrði viðurkennt að dregin hefði verið upp ósanngjörn og afar einhliða mynd af félaginu í kennslu í guðfræðinni uppi í Háskóla. Öll sáttatilboð hljóðuðu nokkurn veginn upp á þetta, jafnvel þau sem Pétur Pétursson hafði í raun samþykkt fyrir sitt leyti. Og ég stend fullkomlega við það, ég get ekki séð að þessar glærur séu réttlætanlegar, jafnvel þótt menn vilji meina að „samhengið“ vanti.

Hvað varðar viðbrögð Vantrúar, þá er það bara þannig að í þessu máli höfum við verið sífellt í því að „slökkva elda“, eins og það er stundum orðað. Við megum nefnilega ekki koma út eins og brjálæðingar með málið á heilanum, en ef við svörum ekki almennilega fyrir okkur þá erum við að viðurkenna sekt okkar. Þetta er mikil klípa, og t.a.m. hefði það kannski virkað vel á þig ef Vantrú hefði farið í gegnum öll atriði málsins, líkt og ég hef gert hér að ofan, en þá hefðu aðrir komið og sagt, jafnvel án þess að lesa nokkuð hjá okkur, að við værum með Bjarna Randvers málið á heilanum og værum endalaust að grafa okkur dýpra og dýpra ofan í svaðið. Er ekki einmitt hluti af því að þú skiljir betur afstöðu Vantrúar núna, Helgi, sú staðreynd að við þekkjumst vel og berum virðingu hvor fyrir öðrum? Fólk, sem þekkir engan í Vantrú, telur örugglega margt að þar sé ekkert nema óalandi og óferjandi lið, sem kann sig ekki og þekkir ekki sinn vitjunartíma. Þannig fórum við í varnarstöðu þegar þessi Moggagrein birtist og svo þegar Bjarni Randver fór í Kastljósið, en við reiknuðum heldur ekki beinlínis með því að siðanefndarmenn myndu sitja undir öllum þeim árásum, sem dunið hafa á þeim undanfarna daga. Þess vegna ákváðum við að bíða örlítið, setja örfáar greinar á Vantrúarvefinn til að skýra hluta málsins, en sjá hvað myndi setja. Flestir félagsmenn hafa svo verið á fullu á eigin bloggum, vefsíðum og á facebook við að verja félagið. Það má svo sannarlega velta viðbrögðum Vantrúar fyrir sér, en ég held að þau hefðu alltaf orkað tvímælis, sama hver þau hefðu verið. Svo kemur þessi grein í Mogganum í dag frá Þórði Harðarsyni, siðanefndarmanni, og þá ættu vonandi flestir að gera sér grein fyrir því að sunnudagsgreinin um daginn hafi nú ekki gefið rétta mynd af málinu. Þannig vonum við að það muni vindast ofan af málinu, hægt og bítandi, en við vitum alveg að orðspor Vantrúar er varanlega skaddað í hugum ansi margra. Það mun alltaf vera þannig, sama hvað við segjum eða gerum.

Varðandi þetta með nauðvörnina og að taflið hafi snúist við, þá skil ég alveg að Bjarni Randver bíti frá sér í málinu, þó það nú væri. En það er eitt að reyna að svara fyrir sig á opinberum vettvangi (sem hann gerði raunar með rangfærslum og óheiðarleika að mínu mati), annað að ónýta starf siðanefndar, sem er lögboðin nefnd Háskólans, stofnuð til að taka á svona málum. Það að Bjarni Randver og fylgismenn hans hafi ekki veitt siðanefnd frið til að vinna málið, finnst mér bera vott um óheiðarleg vinnubrögð, og kannski gætu sumir túlkað það þannig að hann hefði ekki viljað úrskurð siðanefndar og hafi þess vegna vitað upp á sig sök í málinu? Margnefnd grein Þórðar Harðarsonar finnst mér alla vega vera nauðsynleg lesning til að gera sér betur grein fyrir málinu.

Og að sjálfsögðu hefur svona skoðanaágreiningur engin áhrif á vináttu okkar eða álit mitt á þér, Helgi minn. Raunar er þetta mjög heilbrigt, eins og þú segir, og það máttu vita að þetta hefur fengið sjálfan mig til að hugsa meira um málið en ég hef nokkurn tímann gert áður. Alla vega er líkt og ég hafi tekið það allt saman í huga mér, flokkað og raðað í möppur, fundist margt gott en öðru hef ég fleygt. Það er ekkert hollara rökhugsuninni, en að sjá hina hliðina, sérstaklega frá utanaðkomandi aðila. Það er kannski líka ástæðan fyrir því að ég hef enst svo lengi hérna hjá þér, því ég nenni vart lengur að gera athugasemdir eða svara fyrir hönd Vantrúar á öðrum vettvangi, og þetta tekur, eins og þú nefnir, gríðarlegan tíma. Þess vegna þakka ég bara kærlega fyrir umræðurnar og hugleiðingarnar. Þetta hefur verið mér mikils virði.

Með kærri kveðju, virðingu og vinsemd,

Snæbjörn

Snæbjörn Guðmundsson, 8.12.2011 kl. 14:41

24 identicon

Aha, hérna fann ég svarið við því hvers lags rit um var fjallað í skýrslu óháðu nefndarinnar og hverjir áttu að semja það rit.

Nú er ég hvorki vel að mér í trú né trúleysi en velti því fyrir mér hvort til sé flokkunin "róttækt trúleysi"? Því Vantrú er enginn huggulegur selskapur fólks sem kýs að trúa ekki á guð heldur félagsskapur sem reynir að fá sem flesta til að segja sig úr Þjóðkirkjunni: Boðar trúleysi! (Sem mér finnst eiginlega refhvörf ... a.m.k. afar írónískt.)

Ég ætla að hugsa mig aðeins betur um en ef ég les aðeins fleiri ofsatrúarpistla eftir Vantrúar-meðlimi (í kommentum, á bloggum og á netmiðlum) held ég að ég fari að dæmi Helga og skrái mig aftur í Þjóðkirkjuna til að gera mitt til að andæfa aðgerðum og skoðunum sem falla mér einkar illa í geð eins og aðrar öfgakenndar hugmyndir. Það eru líklega 34 eða 35 ár síðan ég sagði mig úr þessari kirkju en ég veit að kirkjan fagnar hverjum týndum sauð, sama hversu lengi hann hefur verið á fjalli ;)

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 22:07

25 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Harpa: Ég er þér að mörgu leyti sammála. En ég trúi ekki að í Vantrú sé vont fólk. Hins vegar set ég stórt spurningarmerki við aðferðafræðina og tel að hún hafi sumpart leitt af sér þetta sorglega mál. En ýmsir aðrir þættir spila þar einnig inn í.

Snæbjörn: Þetta er næstum farið að hljóma eins og rómantískt ástarsamband hjá okkur.:) Allavega finnst frúnni minni ég eyða óeðlilega miklum tíma við tölvuna - og þá er ég oftast að svara þér.:) Svo er ég að myndast við að vinna eitthvað - eða jafnvel að sinna fjölskyldunni á milli svara.:) Viðvíkjandi því "að slökkva elda" í svari þínu, þá finnst mér allt þetta mál hafa sýnt fram á hvað gamlir popplagatextar, sem manni virtust löngum, yfirborðslegir, verða allt í einu djúpspakir: "Af litlum neista verður oft mikið bál.":) Ég veit ekki hvort þú þekkir það lag - sennilega komin rúm 35 ár síðan það var vinsælt.:) Meira hvað maður eldist fljótt.

En, alla vega, Snæbjörn, þá verð ég að hætta í kvöld og næ því ekkert lengra með rökræðuna - enda erum við hugsanlega komnir með hana að endimörkum og þurfum ekki að halda lengra. Við sjáum bara til.;)

Bestu kveðjur, vinsemd og virðing.

Helgi

Helgi Ingólfsson, 8.12.2011 kl. 22:52

26 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Já, Harpa, það er orðið hart í heimi þegar maður þarf að ganga í þjóðkirkjuna til að styðja Háskólann.;)

Helgi Ingólfsson, 8.12.2011 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband