Af kellingaklámi og Kiljunni

Ég er þeirrar ónáttúru að nenna ekki að lesa það kellingaklám sem tröllríður heimsbyggðinni um þessar mundir. Hið sama verður ekki sagt um bókmenntapáfa Ríkissjónvarpsins. Hvaða bækur voru nú valdar til umfjöllunar í fyrsta Kiljuþætti vetrarins í gærkvöldi? Tvær útlendar kiljur. Sem fyrir undarlega tilviljun eru gefnar út af sama stóra bókaforlaginu. Líklega hefur bókmenntarýni á Íslandi sjaldan lagst lægra í efnisvali. Hvers vegna að fjalla um erlendar kiljur? Frá síðasta Kiljuþætti, sem sendur var út síðastliðið vor, hafa komið út tugir íslenskra bóka. Hvers vegna ekki að fjalla um hina stórmerku Örlagaborg Einars Más Jónssonar? Ef þörf er á að fjalla um bókmenntaklám, hvers vegna þarf það að vera útlent? Hví þá ekki frekar að fjalla um hinar íslensku Fantasíur í ritstjórn Hildar Sverrisdóttur? Frá síðasta vori hefur til dæmis komið út a.m.k. eitt smásagnasafn á íslensku og slíkt telst jafnan viðburður. En fjallar íslenskur bókmenntaþáttur um það? Óekki. Og hvað með hinstu ljóðabók Jónasar Þorbjarnarsonar, Brot af staðreynd? Nei, auglýsing fyrir erlent klámrusl er víst mikilvægari.

 

 

Þegar ég horfði á Kiljuþáttinn í gærkvöldi velti ég fyrir mér hvaða efni hefði verið valið til umfjöllunar ef þessi þáttur hefði verið gerður í kringum 1940. Líklega hefði þá verið tekin fyrir frægasta bók í heimi, væntanlega nýjasta Tarzan-saga Edgar Rice Burroughs, og máske líka nýjasta vinsæla sakamálasagan, mögulega nýjasta morðsaga Agöthu Christie. Hefðu þeir máske legið óbættir hjá garði, Laxness með Heimsljós og Davíð Stefánsson með Sólon Íslandus, svo að koma hefði mátt á framfæri erlendum metsölubókum? Næsta örugglega hefði Ólafur við Faxafen ekki fengið neina umfjöllun um Upphaf Aradætra.

 

 

Þess utan var í gærkvöldi rætt við rithöfund í tilefni af útkomu nýrrar bókar. Og viti menn! Sú bók kemur út hjá sama bókaútgáfurisanum og erlendu kiljurnar tvær. Skemmtileg tilviljun! Hér vil ég skýrt taka fram að ég er ekki á neinn hátt að leggja bókmenntalegt mat á umræddar bækur, sem ég hef ekki nema að litlu leyti lesið, ég er öllu frekar að velta upp spurningum um hvort eðlilegt teljist að fjalla um (og auglýsa þar með) erlendar metsölukiljur, jafnvel af ódýrustu sort, í íslenskum bókmenntaþætti, þegar nóg liggur fyrir af innlendu efni, sem og þá einkennilegu staðreynd að allar helstu bækur til umfjöllunar koma frá sama forleggjara. Umfjöllun í Kiljunni er nefnilega í augum flestra íslenskra bókaútgefenda gríðarlega mikilvæg og gratís auglýsing. Gratís? Ænei, hún er það víst ekki. Það eru víst íslenskir skattborgarar sem kosta þáttinn, og þar með auglýsinguna, nauðugir viljugir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Horfði ekki á Kiljuna (enda horfi ég aldrei á Kiljuna) en get upplýst að ég gafst upp eftir u.þ.b. 50% hraðlestur á fyrstu kellingaklámsbókinni. Fyrir það fyrsta reyndist hún afskaplega illa skrifuð en kannski var öllu verra hve klámið var ómerkilegt og vita óerótískt.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 5.10.2012 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband