Listmálari á barmi taugaáfalls

Strax frá fyrstu síðu er ljóst að söguhetjan í nýjustu bók Ólafs Gunnarssonar, Málaranum, er á ystu nöf og litar það alla söguna. Söguhetja þessi er listmálarinn Davíð Þorvaldsson - nafn sem gæti verið sett saman úr föðurnafni Kristjáns Davíðssonar og skírnarnafni Þorvaldar Skúlasonar. En hinn uppdigtaði Davíð Þovaldsson nýtur ekki viðlíka virðingar í listaheiminum og hinir nafngreindu raunverulegu kollegar; þótt hann njóti veraldlegrar velgengni, eigi gullfallega konu, búi í einbýlishúsi með eigin vinnustofu og selji málverk í bílförmum, þá skortir einmitt þetta í líf hans - viðurkenningu á gildi listsköpunar hans. Hann málar snotrar og auðseljanlegar myndir, helst af Keili, en er ekki viðurkenndur af menntaelítu landsins. Þetta tekur hann afar nærri sér - reyndar óvenju nærri miðað við flest venjulegt fólk. Það útskýrist ef til vill að einhverju leyti af því að í baksviðinu leynist persónulegur harmleikur úr fortíðinni.

Ólafi Gunnarssyni tekst oft að draga upp frábærlega sannfærandi sviðsmynd fyrir persónur sínar að athafna sig í. Sagan gerist á árunum í kringum 1985, með Hafskipsmálið í bakgrunni, og höfundur teymir okkur inn í kunnuglegt umhverfi - inn á Kjarvalsstaði, niður í Hafnarhús og inn í Kjarvalshúsið vestur í bæ. Þarna liggur tvímælalaust styrkur Ólafs sem höfundar - að byggja upp sannfærandi umgjörð og andrúmsloft. Sjálfur hafði ég gleymt því hvernig var að heyra Sunnudagsmoggann detta inn um lúguna á laugardagseftirmiðdegi og fékk það rækilega rifjað upp. Á hinn bóginn er eitt og annað frá þessum árum, sem ekki kemur fyrir í sögunni, en á þessum árum var vídeóbyltingin nýhafin, fótanuddtækin úr Radíóbúðinni komin inn á hvert heimili og ljósabekkjaæði að byrja að renna á landann. Ekkert af þessu dúkkar upp.

Lýsingar höfundar á náttúru og veðurfari eru sérkapítuli, en þær getur hann dregið upp ljóslifandi í örfáum pensildráttum. Einhver kann að finna að því að í sögunni geysa fulloft stormar og slagviðri ellegar fannfergi og ófærð. Að sama skapi má réttlæta það að veðrið finnur sér samastað í ólgandi og stundum þunglamalegu sálarlífi persóna.

Hér komum við að einu megineinkenni sögunnar: Sálarlíf og samræður sögupersóna einkennast af heldur ýktri dramatík, sem greinilega á að gera þær stærri-en-lífið-sjálft. Stundum tala persónur eins og þær séu meðvitaðar um að þær séu staddar í tilfinningaþrungnu leikriti eftir Ibsen eða Strindberg - eða jafnvel grískum harmleik. Þessi ofur-dramatík (sem mér fannst ganga ágætlega upp í sumum fyrri bókum Ólafs eins og Tröllakirkju) virkar ekki jafnvel á mig hér og þykir mér hún draga úr trúverðugleika. Reyndar stendur og fellur Málarinn nánast með því hvort lesandanum þyki Davíð Þorvaldsson sannfærandi sögupersóna. Fyrir mig virkaði hann ekki, ef til vill vegna þess að hann er svo einstaklega fráhrindandi og eigingjarn - hann er maður sem á nánast allt, en þráir meira (eða jafnvel eitthvað annað), þótt það geti orðið ýmsum að falli. Sjálfar persónur sögunnar minna Davíð oft á hversu sjálfhverfur hann er og get ég heils hugar tekið undir það. Frá upphafi til enda er hann á ystu nöf og í honum býr stöðug hvöt til eyðileggingar eða líkamsmeiðinga. Hann hugleiðir alloft að drepa hatursmenn sína og grípur um ýmis möguleg vopn sem hendi eru næst (hníf, hamar eða annað) við ólík tækifæri. Hann virðist vera mannhatari að upplagi - það er varla sú persóna í bókinni sem hann hugsar hlýlega til nema dóttirin.

Stíll Ólafs í Málaranum er sérstakur kapítuli út af fyrir sig, einkennilega kaldur og nánast laus við mynd- og líkingamál. Eina skiptið, þar sem myndmálið festist í minni mínu, var þegar bölsýni helltist yfir Davíð svo að hann virtist horfa ofan í bleksvarta olíutunnu eða olíutjörn. Sjálft persónugalleríið í sögunni er ekki ýkja stórt: Í grunninn er um að ræða tvær fjölskyldur, með þrjár til fjórar persónur í hvorri, en til viðbótar eru fáeinar aukapersónur, misskýrar, en ýmsar þó eftirminnilega dregnar. Öll sagan er sögð og séð frá sjónarhorni listmálarans og litast lýsing persóna kannski nokkuð af því. Athyglisvert er hvernig fjölskylda Arinbjarnar, eiganda John Rockwell hf., er yfirleitt mun sympatískari - en það stafar kannski af því að auðmenn hafa efni á að vera kumpánlegir við flest tækifæri, þótt þeir verði harðir í horn að taka ef tilefni er til. (Og, vel að merkja, nafn fyrirtækisins kann að vera vísun í þann fræga ameríska Norman Rockwell, sem, líkt og Davíð, naut ekki fullrar virðingar fyrir myndlist sinnar og þótti frekar vera illustratör.) Jafnvel virkar örlæti auðmannsins Arinbjarnar yfirgengilegt: Hann gefur Kjarvalsstöðum fáránlega dýrt málverk og sonum sínum einbýlishús eða jafnvel eitthvað verðmætara. Eins og oft hjá Ólafi (t.d. í Tröllakirkju og Blóðakri) er ekki langt í trúarstef í bókinni, t.d. um glataða soninn, sem snýr heim og fær alikálfinum slátrað. Reyndar er heimkomni sonurinn einnig snjall listmálari og málar í stíl, sem virðist einhvers konar sambland af Erró annars vegar og Komar og Melamid hins vegar.

Aðal Málarans er hins vegar atburðarásin, sem er oft með eindæmum hugvitssöm og tekur óvæntar vendingar, stundum jafnvel þannig að hún fer að endimörkum hins trúverðuga. Sagan er tvímælalaust það sem á ensku er kallað page-turner; lesandinn sogast inn í atburðarásina og bíður spenntur eftir að vita hvað gerist næst. Listmálarinn Davíð er sumpart fórnarlamb aðstæðna, en að sama skapi býr hann til og ber fulla ábyrgð á þróun framvindunnar, gegnsýrður af minnimáttarkennd og hefndarhug. Máske má segja að veiklyndir karlmenn sé eitt einkenni hinna stærri skáldsagna Ólafs Gunnarssonar; svipuðu máli gegndi t.d. um arkitektinn í Tröllakirkju.

Þegar öllu er á botninn hvolft má segja að Málarinn sé saga sem kemur oft bráðskemmtilega á óvart. En þar sem styrkurinn liggur mestmegnis í óvæntri fléttunni, tel ég að bókin þurfi varla annan lestur, öfugt við sumar fyrri öndvegisbækur höfundar, eins og Öxina og jörðina eða Tröllakirkju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Hlakka til að lesa söguna. Heyrði hann lesa upp úr henni á Rósenberg og það sem hann las lofar góðu.

hilmar jónsson, 1.12.2012 kl. 02:21

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Já, Hilmar, þetta er býsna mergjuð saga. Ólafur Gunnarsson er auðvitað einn okkar Dostoíevskí-asti rithöfundur, hvort sem menn kunna að meta það eður ei, og enginn sem kemst í hálfkvisti við hann þar nema máske Hallgrímur Helgason í sínum dramatískustu köflum.

Helgi Ingólfsson, 1.12.2012 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband