Sölvi eða Sólon - það er spurningin

Fyrir skemmstu lét ég verða af því, sem ég hafði ætlað mér í háa herrans tíð, að lesa Sólon Íslandus eftir Davíð Stefánsson og varð ekki fyrir vonbrigðum. Sagan er afar góð og ekki langt frá því að teljast frábær. Hver einasta þessara 600 blaðsíðna.

Þannig var frumútgáfan frá 1940, í tveimur ámóta þykkum bindum, samtals um 600 blaðsíður. Það sem kom mér á óvart var hversu miklu efni var varið í undirbyggingu söguhetjunnar; fyrstu 200 blaðsíðurnar fjalla um æsku Sölva Helgasonar og næstu 100 um unglingsárin. Þannig er það bara seinna bindið / seinni helmingurinn, sem fjallar um fullorðinsár snillingsins misskilda.

Sölvi er alinn upp við bág kjör, missir föður sinn ungur, eignast fóstra sem hann lendir upp á kant við, fyrst og fremst vegna eigin stærilætis, og síðan sundrast fjölskyldan. Piltungur leggst snemma í flakk, hikar ekki við að ljúga sig inn á fólk, þykist vera vísindamaður og listamaður og fer víða um; í einum skemmtilegum kaflanum berst leikurinn m.a.s. í fangelsi í Kaupmannahöfn, þangað sem landhlauparinn er dæmdur fyrir flakk sitt, en þess utan er hann sekur um að nauðga blásaklausri bóndadóttur, í þeim tilgangi einum að ná sér niður á föður hennar. Sölvi er sjálfskipað séní, það vantar ekki, og alla söguna í gegn sveiflast lesandinn á milli þess að hafa samúð með honum og að hafa ímugust á honum. Hann á sér fastan viðkomustað hjá Trausta hreppstjóra í Sléttuhlíð, sem tekur hann öðru hvoru inn á sig, þótt aðrir heimilismenn þoli ekki gambrið og gorgeirinn í furðufuglinum. Sölvi kemst að um tíma sem ungur maður hjá amtmanninum á Möðruvöllum (sem á augljóslega að vera Bjarni Thorarensen) og þaðan í frá notar hann það sér til framdráttar að ljúga til um að hann sé frændi amtmannsins. Það er einnig að Möðruvöllum að franskur listamaður gefur honum gullpening vegna listhæfileikanna (og á gefandinn væntanlega að vera Auguste Meyer), en Sölvi veifar gullinu síðar í tíma og ótíma til sönnunar þess að hann stundi vísindastörf á vegum Fransmanna. Eftir því sem á söguna líður verður Sölvi undarlegri og stórlátari og virðist fyllast hreinu mikilmennskubrjálæði. Hann telur sig misskilinn snilling, sem gæti leitt Ísland út úr öllum þess ógöngum, og seinna lítur hann á sig sem postula nýrrar trúar. Svo virðist lesandanum að Sölvi sé - eða verði með tímanum - beinlínis snargalinn, en höfundurinn lýsir honum þó af svo mikilli samkennd og virðist samsama sig honum þannig sem utangarðsmanni að aldrei er stutt í samúðina. Sölvi finnur sér fylgikonu - og hálfpartinn sálufélaga - í hinum krypplaða niðursetningi Júlíönu, sem er á mörkum þess að vera þroskaheft, en er um leið óvenju næm og jafnvel skyggn. Að vori sækir Sölvi þessa vesölu stúlku að Gili, þvælist um með hana að baki sumarlangt og skilar henni svo til síns heima að hausti, af því að hann vill kljást við stórhríðar vetrarins einn síns liðs. Þannig fer það í þrjú sumur og gerir Sölvi henni barn - en hættir þá að vilja eiga eitthvað saman við hana að sælda.

Nokkur orð um skáldsagnastíl Davíðs. Hann á það til að vera upphafinn og rómantískur, oft í ábúðarmiklum Sturm-und-Drang-ham, einkum þegar kemur að náttúrunni og stórlátri upplifun Sölva/höfundar af henni. Fyrir vikið geta náttúrulýsingarnar orðið ögn þreytandi í yfirgengileik sínum, dálítið sykurfroðukenndar þegar lýst er gróanda vorsins eða hvítum sumarnóttum, og að sama skapi óþarfa tilkomumiklar og stórfenglegar þegar lýst er haustkvíða og vetrarhörkum. En orðkynngin er með ólíkindum og þegar skáldið lækkar ögn flug sitt, þá verður úr sannkölluð lesnautn, meitluð á gullaldarmáli. Margt orðafágætið er hér að finna og ekki dylst lesanda lengi að höfundur skáldsögunnar er í grunninn ljóðskáld, svo ljóðrænt er orðfærið.

Sem Davíðs Stefánssonar er von og vísa eru mörg trúarstefin í sögunni. Þegar Sölvi er ungur dvelur hann um hríð hjá afskaplega góðum, en fársjúkum bónda, sem staulast einn góðan veðurdag ásamt unglingspiltinum upp í fellið hjá bænum og reisir þar kross einn mikinn. Krossinn sá á eftir að koma allnokkuð við sögu og verður sérlega eftirminnilegur þegar hann ber við blóðrautt sólarlag á fellsbrúninni. Þá fær Sölvi oftar en einu sinni á sig einhvers konar Kristsmynd, til dæmis þegar hann er hýddur vandarhöggum vestur á Snæfellsnesi, en orð hans til böðulsins verða að áhrínisorðum, eins og spádómur sem rætist.

Samtöl eru líka mörg hver feikilega haganlega gerð og tilsvörin oft eftirminnileg. Þegar Sölvi kemur að bæ einum á Möðrudalsöræfum og lofar næturfegurðina, svarar húsráðandi: „Við höfum annað að gera hér á fjallakotunum en góna út í loftið. Hér lifum við ekki á fegurð, heldur striti ..." (I,12) Þá er lýsing Sölva á fyrirmönnum - presti, faktor og barnakennara - á Siglufirði nærri bókarlokum óborganleg og sýnir að fagurkerinn  Davíð Stefánsson veigrar sér ekki við að nota kjarnyrtustu íslensku blótsyrði.

Ef til vill segir þó mest um lítillæti hins ólærða Sölva Helgasonar undirskriftin, sem hann notar á bréf sitt á gamalsaldri til Briem sýslumanns. Hún hljóðar svo: „Sölvi Helgason Guðmundsen Sólon Islandus Sókrates Platon Cesar Melanchton Newton Spinoza Kant Leonardo da Vinci Vasco da Gama. Málverkasnillingur og skáld. Íslandspostuli. Andaheimayfirstórspekingur. Prófessor og meistari í tölvísum og bókmenntum, stjörnufræði, málfræði, sálfræði, stálfræði, sagnfræði, stjórnfræði og öllum alhliða vísindum og listum. Silfursmiður, gullsmiður, bartskeri, gjörtlari, dröjari m.m." (II, 291).

Eftirminnileg bók, sem fer í flokkinn „Lesist aftur".

P.S.: Rétt sisona í lokin: Ég veitti eftirtekt þeirri einkennilegu tilviljun að Sölvi Helgason átti sér nákvæmlega sömu fæðingar- og dánarár og Grímur karlinn Thomsen; þeir eru nákvæmlega jafnaldrar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband