Fyrir rúmu ári komst ég á þá skoðun að svo langt væri liðið á lífið að nauðsynlegt væri að endurlesa sumt það gæðaefni, sem ég las á yngri árum, því að enginn veit sína ævina og allt það. Máske væri betra að lesa gamlar gæðabækur, sem reynast uppspretta ánægju hverju sinni, en áhættusöm yngri verk, sem oft leiða af sér ergelsi og ófullnægju. Og hvar er betra að byrja en á bókum Anthony Burgess?
Ef til er höfundur, sem ég gæti talist þokkalega lesinn í, þá er það Anthony Burgess - og þá helst skáldverkin. Í heil fimm ár fyrir 1985 las ég varla nokkuð annað en Burgess - þar á meðal skáldsöguna 1985. Burgess var óhemju afkastamikill og bestu bækur hans eru einfaldlega með því albesta sem ég hef rekist á; í þeim skilningi er hann eftirlæti mitt. Snilldarverk á borð við Earthly Powers, Kingdom of the Wicked, End of the World News, Enderby-fjórleikurinn, Nothing Like the Sun og Man of Nazareth færu allar í hóp hundrað eftirlætisbóka minna. Sumar þeirra hef ég lesið tíu sinnum eða oftar. Aðrar frambærilegar bækur eftir Burgess eru Abba Abba (sem fjallar ekki um Muriel´s Wedding, þrátt fyrir titilinn, heldur ævi John Keats) og Honey for the Bears. Nokkuð góðar má telja Tremor of Intent, 1985, Pianoplayers, M/F og frægustu skáldsögu höfundarins, nóvelluna A Clockwork Orange, en engin saga hans er, að mínu mati, óáhugaverð. Sjálfsævisaga meistarans, gefin út í tveimur hlutum, er náttúrlega snilldarverk líka, sérstaklega fyrri hlutinn, sem heitir Little Wilson and Big God, en raunverulegt nafn Burgess var John Wilson.
Svo að eitt kvöld fyrir fáum vikum dró ég fram Burgess-bók, sem slagar hátt upp í besta flokkinn. Hún heitir því óspennandi nafni, Any Old Iron (Burgess fjallar töluvert um vandann við að semja áhugaverða bókartitla í ævisögu sinni). Any Old Iron er semsagt harðla ómerkilegur titill á býsna skemmtilegri skáldsögu, í fullgildri fullorðinsstærð, næstum 400 bls með þéttu letri. Hún er ein af síðustu skáldsögum höfundar, frá árinu 1987, en Burgess lést sex árum síðar, úr lungnakrabba, enda óforbetranlegur vindlareykingamaður.
Ekki er auðvelt að lýsa efni Any Old Iron. Sagan gerist nokkurn veginn á árunum 1910-1950 og er í grunninn fjölskyldusaga Walesbúans David Jones, sem strýkur að heiman, kemst að sem hjálparkokkur á Titanic, bjargast úr sjóslysinu og kemst til New York, þar sem hann kynnist rússneskri fegurðardís, Lúdmilu að nafni, og takast með þeim ástir. Þau flytjast heim til Wales (og tóku sér næstum far með
Lúsitaníu vorið 1915), David tekur þátt í fyrri heimsstyrjöld, Lúdmila skreppur heim til Rússlands 1917 og verður vitni að falli keisarastjórnarinnar. Þau eignast síðan þrjú börn, hinn hálfbilaða Reg, fegurðardísina Beatrix og hinn sérlundaða og ómenntaða Dan, sem hefur ekki áhuga á neinu öðru en að hantera fisk. Börnin þrjú, orðin fullorðin, taka svo þátt í seinni heimsstyrjöld, hvert á sinn hátt, rússneskumælandi Wales-verjar, og nýtist þeim sú sérþekking á marga vegu. Sögumaður er hins vegar fjölskylduvinur, sem við fáum í upphafssetningu bókarinnar að vita að er hryðjuverkamaður sprenglærður í vestrænni heimspeki; en nafn hans kemur ekki fyrir nema einu sinni í allri bókinni og það er þegar langt er liðið á, og þá fáum við einnig að vita að hann hefur gerst lífvörður Chaim Weizmann, fyrsta forseta Ísraelsríkis. Semsagt gyðingur. Sem flytur um síðir til fyrirheitna Zíon, ekki að öllu leyti sjálfviljugur, stuttu eftir að Ísraelsríki er stofnað. Systir sögumanns, gyðingastúlkan
og pákuleikarinn Zip, er eiginkona annars þeirra Jones-bræðra.
Inn í þessa (hversdagslegu?) fjölskyldusögu blandast svo ýmsir stórviðburðir frá fyrri helmingi 20. aldar og væri óstöðugur ærður að rekja þá hér. Í bakgrunni er svo upphaf sjálfstæðisbaráttu Wales-búa, stundum næsta hjákátleg, en þar er ein helsta þjóðhetjan Artúr konungur, sem á sínum tíma var
hrakinn vestur af Englandi af saxneskum innrásarmönnum, en varðist með Excalibur í hendi. Eða Caledvwlch, eins og sverðið heitir upp á velska gelísku. Og óhætt er að segja að sverðið
atarna komi við sögu; komið frá Atla Húnakonungi, í gegnum rómverska herstjórann Aetíus og Britannakonunginn Ambrósíus Árelíanus, í hendur Artúrs og hefur legið grafið í geymslum
Benediktína-munka í Monte Cassino í árhundruð, uns það dúkkar upp, ryðétið og óhrjálegt á 20. öld sem þjóðarsameiningartákn sjálfstæðishreyfingar Walesbúa, nú orðið Any Old Iron.
Burgess er snillingur í að draga upp manngerðir með fáeinum dráttum. Nánast allar persónur bókarinnar, með sínum kostum og göllum, fegurð og ljótleika, standa ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Menntun höfundar er fáránlega breið, kunnátta hans í tungumálum öllum öfundsverð og þekkingin encýklópedísk, enda alfræðiorðabækur í mikilvægu hlutverki. Og nota má þessa skáldsögu næstum sem kennslubók í velsku, jiddísku eða rússnesku, fyrir utan að hún er skrifuð á fremur flókinni ensku. Tvennt stendur þó upp úr, sem gerir Burgess öðrum betri sem höfund. Í fyrsta lagi skrifar hann af lífsþrótti, sem skin úr hverju orði; eitthvað sem ég hef ekki séð hjá neinum höfundi öðrum en Balzac og mætti kalla vitalité eða lífsmátt. Hins vegar skirrist Burgess aldrei við að takast á við stórar spurningar á borð við siðferði, trúmál, almætti, ástina og dauðann - þessar spurningar eru gegnumgangandi í verkum hans. Og þótt ljótleikinn birtist oft í sínum verstu myndum, þá skín jafnan í gegn mannúðin og væntumþykja í garð meðbræðra, hárra sem lágra. Og þetta allt tekst honum að vefja inn í spaug og gamansemi, sem lekur af hverri síðu. Eini galli bókarinnar, sem og fleiri skáldsagna sama höfundar, er endirinn; eftir rússibanareið virðist Burgess oft eiga í mesta basli með að ganga út úr bókinni með því að binda tilhlýðilega lokaslaufu. Og þrátt fyrir alla flugeldasýningu, sem lesturinn var, þá var ég ekki viss um, við bókarlok, um hvað bókin var. En hún var skrambi skemmtileg. Ef til vill er boðskapur hennar, ef einhver er, sá að menn eigi aldrei að lúta valdi, í hverri þeirri mynd sem það birtist; eins og ein sögupersónan orðar það: "The big enemy´s always the government."
Ég mun endurlesa fleiri Burgess-bækur á næstunni. Inn á milli gæti ég hugsað mér að grípa í gæðabækur eftir aðra skemmtilega höfunda, sem verið hafa dyggir förunautar á lífsleiðinni, s.s. Tom Sharpe, Bernard Cornwell, George Macdonald Fraser, Steven Pressfield og David Lodge - og máske líka einhverjar Rómarsögur eftir Steven Saylor eða Colleen McCullough.
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.