Gröndal dvelur við dægrin sín

Ný bók Guðmundar Andra Thorssonar, Sæmd, hefur hlotið verulega athygli. Kalla mætti verkið sögulega skáldsögu – eða jafnvel sögulega nóvellu, þar sem sagan er stutt og nokkuð fljótlesin, ekki ólíkt síðasta verki Andra, sagnasveiginum Valeyrarvalsinn.

Söguþráður Sæmdar snýst um smávægilegan atburð og eftirmál hans. Skólapiltur í Lærða skólanum hnuplar bók í desember 1882 og er gripinn í þann mund þegar hann ætlar að skila henni – en verða reyndar á þau mistök að setja ranga bók í stað hinnar í myrkrinu. Umsjónarmaður skólans, Björn M. Ólsen, stendur fyrir því að drengurinn er yfirheyrður á kennarafundum, með það fyrir augum að fá honum vikið úr skólanum fyrir siðferðisbrest, og beitir Ólsen fyrir sig vildarvini sínum úr hópi kennara, Sigurði slembi, sem gengur hart fram. Uns þriðja kennaranum, Benedikt Gröndal, er misboðið, en hann beitir sér fyrir framvindu, sem leysir stráksa úr úlfakreppunni.

Allar þrjár meginpersónur sögunnar - þeir Gröndal, Ólsen og pilturinn Ólafur – eru nokkuð jafnvægar. Fylgst er með hverjum þeirra við sína iðju og horft inn í hugarheim allra. Sögumaður er drengurinn sjálfur orðinn gamall maður, áratugum síðar, en stundum er erfitt að greina á milli hans og alviturs sögumanns, sem gægst getur inn í hugskot allra. Eins og höfundar er von og vísa, þá er textinn oft á tíðum gullfallegur, hlýr og alltumlykjandi. Sérstaklega eru glæsilegir kaflar framan af í bókinni, þar sem lýst er hugarheimi Gröndals, þegar hann fer á flug. Vandinn er máske sá að sagan er ekki ýkja stór. Persónusköpunin er mjög hefðbundin; við þekkjum þarna Gröndal og Ólsen mjög í samræmi við þær sögulegu heimildir, sem varðveittar eru um þessa menn. Tvennt má teljast sérstætt í dögunni. Annars vegar er það að báðir eru þeir (gerðir) einstæðir feður, sem ekki var algengt á þesssum tíma. Gröndal elur upp Túllu litlu og Ólsen elur upp Sigga litla sem fósturson. Hitt er að sagan er nánast með öllu kvenmannslaus. Tvær svartklæddar konur eru á stjákli sem þústir um bæinn, nánast eins og svipir; tvær þjónustustúlkur Gröndals vappa eitthvað í bakgrunni, sem og móðir og systir Ólsens, sem búa hjá honum, en allt eru þetta lítilsigldar persónur og nánast upptalið. Þetta er heimur karlmanna sem lýst er. Jafnvel er gefið í skyn að Ólsen gæti verið samkynhneigður, þótt ekki sé það beinlínis sagt berum orðum; hann heldur hálfgerða fyrirlestra yfir félögum sínum um fegurð ungra manna og stendur auk þess langtímum í myrkri yfir piltunum á Langalofti. Að sumu leyti eru þeir Gröndal og Ólsen ekki svo ólíkir; báðir eru þeir upprifnir af rómantískum hugmyndum um háleita fegurð.

Höfundur tekur sér skáldaleyfi víða í sögunni. Helst er að nefna að Gröndal er látinn búa í húsinu við Vesturgötu, sem hann keypti ekki fyrr en fimm árum síðar, en að auki eru mörg smáatriðin sem standast ekki sögulega (sjá síðar). Sagan er sýnilega vilhöll og þá Gröndal í hag, en Ólsen er þó ekki með öllu málaður sem ófreskja eða harðstjóri – sú mynd er milduð nokkuð. Vissulega hefur Íslandssagan farið mjúkum höndum um Gröndal, einkum í ljósi þess að hann var á sínum verstu dögum mjög litinn hornauga í bæjarlífinu. Má ef til vill fyrst og fremst þakka tvennu að hlutur hans réttist; annars vegar vitnisburður nokkurra skólapilta, sem líkaði vel við hann og rituðu á þann veg í æviminningar sínar, og hins vegar ævisaga Gröndals sjálfs, Dægradvöl, sem hann gaf fyrirmæli um að yrði ekki gefin út fyrr en nokkru eftir dauða sinn, enda um margt berorð og jafnvel meinyrt. Sjálfur hef ég, eins og höfundur Sæmdar, löngum verið í liði með Gröndal, hef lesið Dægradvöl reglulega með fárra ára millibili, og tekið allt þar sem heilagan sannleik; einnig margsinnis hlegið af Heljarslóðarorrustu, og lesið bréf og greinar skáldsins (og hafði þar sérstaklega gaman af lýsingu hans á fransk-prússneska stríðinu 1870-71 og einnig allfrægri Reykjavíkurlýsingu hans frá aldamótunum), auk þess að lesa lungann úr ljóðum hans, þótt ekki hafi ég nú beinlínis laugað mig í þeim, eins og mér sýnist Guðmundur Andri hafa gert. Það verður verðugt verkefni fyrir bókmenntafræðinga framtíðar að greina hvað höfundur Sæmdar hefur tekið upp úr skrifum Gröndals sjálfs, hvar þeim sleppir og hvar skáldskapur Guðmundar Andra tekur við. Held ég að oft verði erfitt að greina þar á milli, enda má heita svo að Guðmundur Andri taki hér við kefli hinna rómantísku skálda frá s.hl. 19. aldar. Sérstaklega er þetta einkennandi í þeim köflum, þar sem pilturinn Ólafur hugsar heim á eyrina, en það er ómenguð íslensk náttúrurómantík sem trompar eiginlega allt sem áður hefur verið skrifað á því sviði. Samt er óhætt að mæla með Sæmd. Þetta er ekki gallalaust verk, en í bestu köflunum verður lestrarnautnin slík að hún gerist varla ljúfari á íslensku.

–---

Hér læt ég gagnrýni á bókina lokið, en kem með dálitlar viðbætur sem varpa mögulega réttara sögulegu ljósi á þá atburði, sem hún greinir frá. Í Sæmd er þjófnaðarmálið gert sem lítilfjörlegast, en í reynd var það öllu alvarlegra. Pilturinn (sem í alvörunni hét Magnús og varð síðar sýslumaður) virðist hafa haft nokkuð einbeittan ásetning um glæp; hann stal bókinni, lét binda hana inn og merkti sér hana. Frá þeim sjónarhóli verður harka skólayfirvalda í málinu skiljanlegri; í Sæmd virðist harkan ekki í samræmi við (smættað) brotið. Einnig er breytt í Sæmd viðbrögðum Gröndals við málinu; í bók Guðmundar Andra er hann látinn strunsa út af kennarafundi og arka, klæddur stakki föður síns, í ísþoku alla leið suður á Álftanes að hitta fjárhaldsmann drengsins, mektarprestinn Þórarin í Görðum, sem þá hefur afskipti af málinu. En í reynd lagði Gröndal ekki á sig mannraunina, heldur lét hann duga að skrifa bréf suður eftir. Svo má auðvitað velta fyrir sér hvort afskipti af því tagi, sem Gröndal stendur fyrir, séu endilega stjórnsýsla sem er æskileg í augum nútímamanna – séra Þórarinn fær nefnilega landshöfðingja þáverandi til að grípa inn í málið fyrir kunningsskap og með valdboði – þetta er klíkusamfélagið og samfélag valdsins í hnotskurn. Í Dægradvöl lýsir Gröndal oftar en einu sinni hve honum leiddist á kennarafundum; kannski skipti hann sér ekki af þessu máli einvörðungu af mannkærleik til piltsins, heldur til að hraða lokum leiðinlegs fundar. Einstök atriði í Sæmd má vitaskuld líta á sem skáldaleyfi – þannig mun Björn M. Ólsen ekki hafa tekið Sigga litla í fóstur fyrr en eftir drukknun föður hans, Sigurðar slembis árið 1884, auk þess sem aldri Sigga litla er hnikað; í reynd hefði hann átt að vera þriggja ára árið 1882. Dálítið þótti mér skjóta skökku við að nota viðurnefni Sigurðar (eldri) eins og eiginnafn. Vissulega var hann stundum kallaður, stutt og laggott, Slembir og þá var það haft með stórum staf, en annars var hann jafnan skrifaður Sigurður slembir; í Sæmd er nafnið hins vegar jafnan skrifað með stórum stöfum beggja vegna: Sigurður Slembir. Þá eru þættir í útlitslýsingu Björns Ólsen, sem illa ganga upp miðað við sögutímann. Hann er sagður með óvenju gróskumikið skegg, en myndir af honum frá þessum árum sýna ekki að hann hafi verið kominn með hið mikla rostungsskegg, sem hann varð síðar frægur af. Nefnt er einnig að Björn hafi gaman af að ráða krossgátur – en krossgátur fóru varla að þekkjast í blöðum á Íslandi fyrr en töluvert eftir aldamótin 1900, varla fyrr en á síðustu æviárum Ólsens, en hann lést árið 1919. Þá stakk mig í augu að sjá nafn leikfimnikennara Lærða skólans skrifað Ólafur Rósinkransson; ég hef aldrei séð eftirnafnið ritað öðruvísi en sem ættarnafn, Rósinkranz (Rósenkranz, Rósinkrans).

Sem fyrr segir er ég gamall Gröndalssinni. Orðspori hans var haldið á loft af Dægradvöl og ummælum ýmissa nemenda hans. Þess vegna er þörf áminning það sem Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður og þingmaður, hafði að skrifa um þessa tvo herra. Hannes var fæddur 1860, lærði hjá þeim báðum, Gröndal og Ólsen, og átti síðar eftir að tilheyra þeirri broddborgaraklíku sem var í kringum Ólsen (Magnús Stephensen landshöfðingi, Hannes Hafstein, Jónassen landlæknir), sem miklu réði í bæjarlífinu, á meðan Gröndal lapti dauðann úr skel og reyndi í sífellu að kría út styrki frá Alþingi. Hannes Þorsteinsson fór svipaða leið og Gröndal, ritaði endurminningar sínar (stuttu eftir að Dægradvöl kom út) og hélt þeim luktum frá sjónum manna, en þær máttu opnast árið 1960, á 100 ára afmæli höfundar sem þá var löngu horfinn á vit feðra sinna.

Um kennara sinn, Gröndal, segir Hannes Þorsteinsson eftirfarandi (útdráttur):

“Benedikt Gröndal … var væskilslegur að vallarsýn, og lítill fyrir mann að sjá, ófríður sýnum, óþýður í viðmóti og stuttur í spuna, þá er illa lá á honum, sem oft bar við, og var þá ekki unnt að gera honum til hæfis, því að karl hafði þá allt á hornum sér, þá er svo stóð í bólið hans, en stundum gat hann þó verið kátur með glensi og gamanyrðum, því að hann var harla mislyndur, tiltektarsamur og tiktúrufullur, og gat vindstaðan breyst allt í einu úr blæjalogni í rokviðri, af litlu eða engu tilefni. … Eins og skáld skorti hann nauðsynlegt jafnvægi til að halda hugsun sinni og hátterni á réttum kili og komst því út í ýmsar öfgar, svona sitt á hvað. Er nú orðin venja að afsaka alla hnykki og rykki skáldanna út af alfaravegi með því að eigna það “genialiteti” þeirra … En þessi skoðun, sem alls ekki er réttmæt, nema að litlu leyti, hefur gert ýmsa sæmilega gáfaða menn að fíflum, með því að ala hjá þeim þá endemisfirru, að alls konar sérgæðingsháttur til orðs og æðis = genialitet. Benedikt Gröndal var að vísu gáfumaður og listfengur á marga lund, en gáfur hans hafði vantað allt taumhald frá barnæsku … Og Gröndal mun snemma hafa litið svo á, að hann væri og ætti að vera öðru vísi en annað fólk og gert sitt til þess að breikka það djúp milli sín og múgsins með annarlegri og oft ankannalegri framkomu, og í þessu sjálsmati Gröndals á yfirburðum gáfna sinna og hæfileika yfir fjöldann ætla ég, að liggi margar af þeim óráðnu gátum og undarlegu tiktúrum í lund og látæði hans. Og víst er um það að hann leit afar stórt á sig og hafði afar háar hugmyndir um sjálfan sig, þóttist ávallt misskilinn og aldrei metinn að verðleikum og varð af því önugur og beiskur í lund. Og það kvað svo rammt að þessu, að hann stórfyrtist við kunningja sína, ef þeir létu hann hlutlausan og hældu honum ekki upp í eyrun og jafnframt á prenti, og þá varð allt að vera svo hnitmiðað, að þar væri engin smuga á, því að annars mátti ganga að því vísu, að hann yrði sárgramur, ef orðalagið var ekki öldungis sniðið eftir því, sem hann vildi helst kjósa. Og það var þessi dæmalausa fyrtni og undarlega viðkvæmni Gröndals, oft og einatt út af bláberum hégóma, sem bæði fældi kunningja hans frá honum og gerði hann allt í einu móthverfan þeim, sem verið höfðu honum vel. Þess vegna hélst honum svo illa á verulegum vinum, og mun hafa átt þá fáa. Ollu því skapbrestir hans, takmarkalítið sjálfsálit og hégómagirni … menn vissu, að honum var að ýmsu ekki með öllu sjálfrátt, tóku hann ekki alvarlega og afsökuðu hnykki hans, að svona væri nú Gröndal gamli gerður, og svo væri ekkert frekar um það að segja. Hann hafði skapað sér sérstöðu og naut hennar í skjóli “gröndælskunnar” … Gröndal var ekki orðinn hæfur til að gegna embætti sínu við skólann vegna drykkjuskaparóreglu. Það var ómótmælanlegt. En hann tók nærri sér, þótt minni mótgerðir væru en þessi frávikning, og þess vegna hefur hann hallað mjög á Jón rektor og sérstaklega Björn Ólsen út af þessu í “Dægradvöl” eða endurminningum sínum, sem yfirleitt eru mjög hlutdrægt ritaðar og dómar hans um menn oft staðleysur einar og mótsagnir. Það er því mjög viðsjárvert heimildarrit og “ekta gröndalskt” … Um skáldskap, náttúrufræðiþekkingu og listfengi Gröndals verður hér ekki rætt. Þess skal aðeins getið að hin hversdagslega hönd hans, eða þá er hann ritaði hratt, var ekki neitt sérlega falleg og fremur ógreið aflestrar, því að stafagerðin var mjó og nokkuð ógreinileg, en þá er hann vandaði sig, t.d. í skrautrituðum ávörpum, þá var handbragðið hreinasta snilld.”

Svo mörg voru þau orð. Og líkt og til að jafna um metin, þá lætur Hannes svo mælt um Björn M. Ólsen, fyrrum lærimeistara sinn og síðar vin:

“Björn Magnússon Ólsen … var hár vexti og þrekinn, gervilegur sýnum og sópaði að honum, stórleitur í andliti og nokkuð opinmynntur, yfirbragðið hreint og góðmannlegt, en þó alvarlegt, því að hann var alvörumaður mikill, hafði átt við þungt heilsuleysi (lungnatæringu) að berjast á yngri árum og mestan hluta ævi sinnar, og mun það hafa mótað skapgerð hans og gert hann örari í lund og viðkvæmari fyrir utanaðkomandi áhrifum en ella mundi. Hann var prýðisvel að sér í gömlu málunum (latínu og grísku) og ýmsum öðrum vísindagreinum og fyrirtakskennari, áhugamikill um framfarir lærisveina sinna og einkar laginn að vekja áhuga þeirra á náminu. Hann var kennari af lífi og sál, sérstaklega í gömlu málunum, og voru allir einhuga í því að viðurkenna hina miklu kennarahæfileika hans, þótt stundum væru skiptar skoðanir manna um afskipti hans af skólamálum eða stjórn hans á skólanum. Hann var langfremsti kennari skólans á minni tíð … Það sem Ólsen var helst fundið til foráttu, var of mikil eftirgangsemi og rekistefna við pilta út af smámunum einum. Hann lét flest til sín taka í stjórn skólans, áður en hann varð rektor, en sú afskiptasemi mæltist misjafnt fyrir, og skorti Ólsen þá lipurð og lempni til að lagfæra það, er miður fór … Mætti hann oft mótspyrnu ,,, einnig frá kennurunum … Þetta vissu piltar og kunnu að nota sér það, svo að hinn góði vilji og umbótastarfsemi Ólsens strandaði á þessum tvöfalda mótþróa, og tók hann sér það nærri, því að maðurinn var geðríkur og kappsamur í hverju sem hann tók sér fyrir hendur … Ólsen var allra manna trygglyndastur og vinfastastur, þar sem hann tók því, svo að ekki varð um haggað, einlægur og hrekklaus í allri framkomu sinni og yfirleitt mesti mannkosta- og sæmdarmaður, auk þess sem hann var viðurkenndur vísindamaður utan- og innanlands, skarpur og athugull, sérstaklega í íslenskri sögu og málfræði, sem hann ritaði mest um, enda var maðurinn ágætlega vel gefinn og vel að sér um hvatvetna.”




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir ritdóminn, fróðlegt var að fá nákvæmari vitneskju um þetta mál. Ég er líka MR-stúdent. Mér sýnist aðalatriðið í bókinni vera að draga fram andstæðurnar milli húmanista og þeirra sem hafa andstæð viðhorf. Persónulegir gallar BG skipta ekki máli í þessu samhengi. Mér finnst höf. gera B.M.Olsen að proto-fasista, einmitt þeirri týpu sem hreifst af nasismanum seinna. Ætli GATh hafi heimildir fyrir því að Björn hafi hugsað eins og því er lýst? - eða gefi sér það til að draga fram andstæðuna við húmanisma Gröndals? Veist þú þetta? Vissulega geta fasistar verið fegurðardýrkendur, margir þeirra voru það, eins og Plató, andlegur langafi allra alræðissinna. Hitler o.co. vildu sjálfir ekki sjá áróðurslistina sem þeir létu búa til fyrir almúgann, heldur dáðu 19.aldar rómantíska myndlist og tónlist.

Ingibjörg R. Ingadóttir (IP-tala skráð) 16.12.2013 kl. 20:46

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæl og blessuð, Ingibjörg, og takk fyrir athugasemdina.

Í akademískum skilningi eru þeir báðir húmanistar, skáldið Gröndal og klassíkerinn Ólsen - og mætti jafnvel réttlæta að sá fyrrnefndi standi nær því að vera raunvísindamaður, þar sem hann var náttúrufræðingur með meiru.

Út frá náungakærleiksskýringum á húmanisma, þá er Gröndal ólíkt þekkilegri í bókinni. Samt er eftirtektarvert hvernig hann þegir lengi vel á báðum þeim kennarafundum, sem nefndir eru - það er eins og hann láti fyrst til sín taka, þegar honum fer að leiðast þaulsetan.

Meginheimildir Guðmundar Andra eru augljósar öllum sem til þekkja. Annars vegar er það sjálfsævisaga Gröndals, Dægradvöl, og hins vegar er það all-langur kafli úr frábærri bók Þorsteins Thorarensen, Móralskir meistarar, þar sem B.M. Ólsen er ekki borin ýkja vel sagan. Ekki er heldur ósennilegt að höfundur hafi leitað í blöð skólapilta frá þessum tíma - og ekki síst svokallaðan Velvakenda-pésa, sem gefinn var út í Khöfn af stúdentum, sem nýlega höfðu losnað undan ægivaldi Ólsens.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að Ólsen hafi hlotið verri eftirmæli en hann á skilið í þessu máli. Hins vegar virðast fair vita um að hann hrökklaðist einnig frá sem rektor í hálfgerðu pereati árið 1904, eins og Sveinbjörn Egilsson, faðir Benedikts, rúmri hálfri öld fyrr.

En ég tel afar hæpið að  líta á Ólsen sem einhvern prótó-fasista. Óumdeilt er að hann gat verið harður í horn að taka, þegar kom að agabrotum skólapilta - en komst þó ekki í hálfkvisti við Bjarna rektor Jónsson (1851-67), sem fór ekki í manngreinarálit og löðrungaði kennara jafnt sem lærisveina. Fegurðarvangaveltur Ólsens eru af mjög almennum toga, eins og þekktust sitt hvoru megin við aldamótin 1900, og hafa í sjálfu sér ekkert með nasisma að gera. Og rétt sisona, þá þykir mér að sama skapi býsna langt seilst að kalla Platón "andlegan langafa allra alræðissinna". Platón karlinn var bara að leitast við að setja fram hugmyndir til að leysa vandamál sins samtíma í "Ríkinu" o.s.frv.

Helgi Ingólfsson, 16.12.2013 kl. 22:14

3 identicon

Sæll Helgi, takk fyrir svarið. ÉG var alls ekki að halda því fram að Björn hefði verið proto-fasisti, heldur finnst mér höf. gera hann að því, fyrst og fremst þar sem hann reynir að lýsa sálarlífi Björns. Ég veit að fyrir framkomu Björns eru góðar heimildir, en skrifaði hann e-ð um sjálfan sig sem hægt er að draga þessar ályktanir af? Ég er einmitt að meina að höf. ýki e.t.v. andstæðurnar milli þeirra, alls ekki að þeim sé rétt lýst. Ég veit um óróann í skólanum þegar Björn hrökklaðist frá. Þá var ort vísan: "Hve þrælslegt, bölvað og ófrjálst er/ hjá Ólsen rektor í skóla að vera./ Þar er allt bannað sem óskum vér / og ótal djöflar þar spíonera".

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 16.12.2013 kl. 22:29

4 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæl á ný, Ingibjörg.

BMÓ ritaði hvorki sjálfsævisögu né ævisöguágrip, mér vitanlega, eins og svo algengt var með aldamótakynslóðina svonefndu - hún var nú dálítið sjálfhverf. Ég held að Ólsen hafi álitið nægja að láta verkin tala, enda afreksmaður og afkastamaður á sviði fræða.

Þannig að í þessu máli held ég einfaldlega að sá hafi sigrað, sem skrifaði sympatíska sjálfsævisögu, þ.e. Gröndal (þegar upp er staðið ímynda ég mér að þeir hafi fengið ámóta mörg jákvæð og neikvæð ummæli samtímamanna sinna, hvor fyrir sig, þótt tölfræðilegar upplýsingar um þau efni liggi ekki endilega fyrir).

Guðmundur Andri velur vitaskuld sitt sjónarhorn - og heldur augljóslega með Gröndal. Athyglisvert er að Gröndal sýnir aldrei af sér þóttafulla eða drambsfulla hegðun í bókinni, en Ólsen gerir það alloft - þótt hann eigi einnig mýkri og mannlegri hliðar.

Það sem upp úr stendur er máski að GAT hefur hér skrifað afar lipra og læsilega bók, sem flestum ætti að vera unun af að lesa. Ég tók mér bara það bessaleyfi að vara lesendur við að líta á skáldskap hans sem raunverulegar persónulýsingar eða hinn endanlega sögulega sannleik í málinu, það var allt og sumt.

Helgi Ingólfsson, 16.12.2013 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband