Freud, Trotskí og endalok heimsins

burgess end of the world news 2Hvað eiga ævisaga Freuds, söngleikur um dvöl Trotskís í New York á útmánuðum 1917 og vísindaskáldsaga um endalok jarðar árið 2000 sameiginlegt? Ekkert – nema hvað þetta eru þrjár stoðir, sem slengt er saman í eina (af betri) skáldsögum Anthony Burgess, The End of the World News (1982).

 

Tenging þessara þriggja ólíku sviða hljómar næsta fjarstæðukennd. Hver saga er rakin fyrir sig og þegar leikar standa hæst, þá – bang! - er lesandanum þeytt inn í aðra og gerólíka frásögn. Hvernig getur nokkrum höfundi flogið annað eins í hug? Í seinni hluta ævisögu sinnar, You´ve Had Your Time (1990) greinir Burgess frá því hvernig hann sat uppi með þrjú verkefni, sem hann hafði verið beðinn um að skrifa, en voru andvana fædd, þ.e. urðu aldrei það sem til stóð. Hið fyrsta var handrit að stórslysakvikmynd frá um 1975 - gott ef hugmyndin kom ekki upphaflega frá sjálfum Sam Goldwyn. Þetta var á tíma þegar stórslysamyndir voru vinsælar – um brennandi stórbyggingar (The Towering Inferno), sökkvandi skip (The Poseidon Adventure) og jarðskjálfta (Earthquake). Nú átti að gera hina endanlegu stórslysamynd, um eyðingu jarðarinnar, og var Burgess ráðinn til að skrifa synopsis, eins og það er kallað af innvígðum. Hafa ber hugfast að þetta var 15-20 árum áður en myndir eins og Deep Impact, Armageddon, Titanic og Independence Day voru gerðar. Raunar var í millitíðinni framleidd stórslysakvikmyndin Meteor (1979) með Sean Connery í aðalhlutverki, byggð í grundvallaratriðum á sömu hugmynd og saga Burgess. En skemmst er frá því að greina, þá féll kvikmyndafélagið frá gerð stórslysamyndar eftir sögu Burgess af fjárhagsástæðum – og hann sat uppi með ónýta grind að sögu. Um 1980 stóð til að settur yrði á svið söngleikur á Broadway um daga Trotskís í New York 1917. Ráðið var tónskáld til að semja tónlistina og Burgess til að semja söngtexta og söguþráð. Tónskáldið skilaði aldrei sínu, en Burgess kláraði textann (og samdi reyndar lög við hluta verksins, því að Burgess var sjálfur liðtækur við tónsmíðar). Þriðja verkið var svo handrit að heimildamynd um Freud, sem kanadísk sjónvarpsstöð bað hann að skrifa. Enn og aftur lauk hann sínum þætti, en verkefnið varð aldrei barn í brók.

Þannig að Burgess sat uppi með þrjú gjörólík verkefni, sem ekkert virtist ætla að rætast úr. Lausnin? Að steypa þeim öllum í eina skáldsögu og leggja fáeina, örfína þræði til að tengja verkin. Og hið ótrúlega er að það gengur upp. Og þótt heimsendasagan drífi lesandann áfram, þá er ævisaga Freud lang-áhugaverðasti hluti verksins. Ætíð var tilhlökkunarefni, þegar þeirri sögu sleppti, að sjá hvernig þráðurinn yrði tekinn upp og henni yndi áfram. Ekki bara kynnumst við Freud og kenningum hans, heldur hittum við alla helstu lærisveina hans, sem sumir hverjir urðu seinna á lífsleiðinni fráhverfir læriföðurnum og frægir á eigin forsendum. Hér stíga fram ljóslifandi Carl Jung, Alfred Adler, Sandor Ferenczi, Otto Rank, Ernest Jones og sægur annarra – og einnig konurnar, Helene Deutsch og Marie Bonaparte, auk eiginkonu Freuds, Mörthu, og dótturinni Önnu. Upphafskafli bókarinnar - þegar Ernest Jones kemur til Vínarborgar vorið 1938, skömmu eftir Anschluss, til að fá gyðinginn Freud til að yfirgefa landið þar sem hann hefur búið alla tíð - er óviðjafnanlegur. Jones, Freud, Martha og Anna skamma embættismenn Gestapo eins og óþekka skólastráka og sýna hvernig sá sem heldur reisn reynist hlutskarpari þeim, sem fer með óskorað vald. Óborganlegur upphafskafli. Svo fylgjum við upprifjun á ævi þessa brautryðjenda sálgreiningar langt aftur í tímann, kynnumst ósigrum hans jafnt sem sigrum, ranghugmyndum jafnt sem tímamótamarkandi kenningum og, síðast en ekki síst, hvernig kenningar hans gætu hafa átt við innan hans eigin fjölskyldu. Þetta er ótrúlega persónuleg, náin og nærfærin nálgun - og varla hægt að skrifa hana betur.

Sagan um Trotskí er afmörkuðust í tíma og rúmi og gerist í New York frá janúar til apríl 1917, en byltingarleiðtoginn er kominn til Stóra eplisins til að kynda undir allsherjarbyltingu verkamanna – það er á vitorði fárra annarra en fræðimanna, en á árunum 1915-25 var ótti við sósíalíska byltingu verulegur í Bandaríkjunum, sbr. IWW, Joe Hill, Sacco og Vanzetti og fleiri mál frá þeim tíma. Söngleikurinn dregur upp ljóslifandi mynd af Trotskí sjálfum og vísi að ástarævintýri, enda óforbetranlegur kvennamaður og – einmitt á þessum árum – meðvitaður um eigið mikilvægi. Einnig er dregin upp óljósari mynd af eiginkonu hans Natalíu – þau bjuggu í opnu hjónabandi – og sonum þeirra tveimur. Söngleikurinn endar þar sem fréttir hafa borist af því að keisarastjórnin er fallin í Rússlandi, Trotskí getur snúið heim – en í sömu andrá berast fréttir um að Bandaríkin hafi byrjað þátttöku í fyrri heimsstyrjöld.

Það er einkennilegt að hafa tvær frásagnir byggðar á sannsögulegum og heimsfrægum persónum og hræra þeim saman við þriðju frásögnina, sem er hreinn skáldskapur og meira að segja vísindaskáldskapur, um yfirvofandi eyðingu jarðarinnar. Hér sýnir Burgess frábæra hugvitssemi. Halastjarna stefnir á jörðina, hrifsar með sér tunglið þegar hún fer framhjá með ægilegum náttúruhamförum og kemur til baka, eftir hring um sólu, til að granda jörðinni endanlega. Gálgafrestinn nota jarðarbúar (þeir sem vita um yfirvofandi áreksturinn) til að byggja sér geimför og koma sér frá deyjandi plánetu. Höfundinum tekst hér frábærlega að dansa á línu persónusögu og almennra lýsinga upplausnar. Sérstaklega er athyglisverð greiningin á trúarbrögðum, sem verða til við yfirvofandi endalokin. Persónugalleríið er gríðarstórt: Vísindaskáldsagnahöfundurinn Val Brodie; ferðafélagi hans Falstaff-leikarinn Willett; eiginkona hans, vísindakonan gullfallega Vanessa Brodie (Doctor Brodie, fyrir Borges-aðdáendur); faðir hennar stórreykingarmaðurinn Frame; hin ólétta Edwina, sem ber máske frelsara undir belti; sjónvarpspredikarinn Calvin Gropius og margir fleiri. Sagan gerist í Bandaríkjunum – enda var hin fyrirhugaða kvikmynd ætluð fyrir Bandaríkjamarkað. Þarna koma fyrir forseti síðustu Bandaríkjanna og ráðgjafar hans, eftirminnilegir mafíósar, öll stórfjölskylda sjónvarpspredikarans ofan í afabörnin, hermenn og varðliðar og lögregluþjónar og tugir af tilfallandi persónum. Þeim mun erfiðara ætti að vera að halda utan um þennan fjölda allan, þar sem frásögnin er reglulega rofin af þeim Freud og Trotskí, en aldrei, ekki einu sinni, er lesandinn í vandræðum með að fylgja þræði. Og heimsendir verður ekki bara ljótur í meðförum Burgess; hann er einnig fullur af lit og leik og söng og dansi og ást og hugrekki og virðingu og reisn, andspænis upplausninni - heimsendir, eins og allt annað, verður lýsandi dæmi um afrek og glappaskot breysks mannkyns.

Og tengjast þessar sögur innbyrðis? Þótt svo virðist varla lengi vel, þá reynist á endanum þannig að það sem geimförunum tekst að hafa með sér af menningararfi jarðarinnar eru tvær myndir: Heimildarkvikmynd um Freud og söngleikur um Trotskí. Og innan þessa marglaga ramma hefur Burgess tekist að steypa alla hugmyndasögu 20. aldar, á sviði innra lífs, samfélagshugmynda og óheftrar vísindahyggju – með öllum kostum og göllum – á uppfræðandi hátt og með stórkostlega eftirminnilegum og ljóslifandi persónum. Talandi um marglaga frásagnir … Og óflokkanlegar skáldsögur.

Eintakið mitt er svo marglesið að það er farið á límingunum og lafir nánast eingöngu á lausum blöðum. Æ, hvað ég vildi að við ættum enn höfunda eins og Burgess ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband