Um vinnulag í dómskerfinu

Er ég sá eini á öllu landinu, sem þykir undarlegt að prófessor í fjármálaverkfræði, sem eftir því sem ég best veit hefur ekki yfir að ráða neinni sérþekkingu í dómstörfum og eftir því sem ég best veit hefur ekki nokkra reynslu á því sviði, skuli geta dæmt í dómsmáli? Auðskiljanlegt finnst mér að hægt sé að kalla sérfróða menn sem dómskvadda matsmenn til að aðstoða við og upplýsa um sérfræðileg úrlausnarefni fyrir dómi, en að þeir skuli líka getað kveðið upp dóma sem fullgildir meðdómarar í fjölskipuðum héraðsdómi – er það virkilega hinn eðlilegi framgangsmáti í íslensku réttarkerfi?


Og ef svarið er já, hljóta þá ekki í ljósi framvindu í nýlegu dómsmáli, sem ég veit að ýmsum þykir afar sérkennileg, að vakna ýmsar vangaveltur? Eins og til dæmis, hvernig slíkur tiltekinn maður er valinn til dómstarfa, þ.e. hver benti á hann, hverja aðra var bent á, hvernig fór val hans fram, hver úrskurðaði hann hæfari en aðra og hvaða aðilar samþykktu eða þurftu að samþykkja valið? Og á hverjum hvílir skylda um að upplýsa um möguleg hagsmunatengsl (af hvaða toga sem er) og þá einnig gagnvart hverjum?


Spyr sá sem ekki veit. Er ekki sú stund runnin upp að almenningur sé upplýstur nánar um vinnubrögð í dómkerfinu? Þarf máske að opna umræðu um hvað teljist eðlilegt í þeim efnum?



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Verðum við ekki að setja traust okkar á Hæstarétt í þessu máli? Saksóknari mun alveg örugglega áfrýja þessu. Verst hvað svona uppákomur grafa undan dómskerfinu.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 11.6.2014 kl. 07:18

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Takk fyrir innlegg þitt, Kristján.

Ég er innilega sammála þér um að svona uppákomur séu til þess fallnar að grafa undan trausti á dómskerfinu.

Minn meginpunktur hérna er sá að til að sinna fullgildum dómsstörfum sem héraðsdómari er lögð rík áhersla á ýmsa hæfniþætti (menn sækja um starfið og í umsóknarferli er reynt að velja hæfustu manneskju til starfans). Þegar kemur að slíkum sérstökum meðdómurum (sem hafa NB fullgilt atkvæði í dómsorði á við aðra dómara málsins), þá virðast allar reglur óljósar og hægt að handvelja nánast hvern sem er. Þess vegna tel ég nauðsynlegt og í þágu almennings til að veikja ekki tiltrú á dómskerfinu að upplýst sé hvernig sérstakir meðdómarar eru valdir, t.d. úr hve stórum hópi og hvernig hæfikröfur séu sannreyndar.

Benda má á að í Fréttablaðinu í dag svarar aðaldómari málsins, Guðjón St. Marteinsson, að einhverju leyti fyrir störf héraðsdóms í þessu máli. Þar segir orðrétt: "Ákæruvaldið á við sjálft sig hvernig það kannar bakgrunn sérfróðra meðdómsmanna." Það virðist sem sagt ekki hlutverk aðaldómara að upplýsa ákæruvaldið um stöðu sérstakra meðdómara í málum. Og ég sé ekkert í orðum Guðjóonns minnst á hvernig meðdómandinnn var valinn eða í gegnum hvaða ferli það val fór.

Eins og þú, Kristján, treysti ég á áfrýjun til Hæstaréttar í þessu máli til að fá fram meira traustvekjandi dómsniðurstöðu. Það getur varla talist traustvekjandi þegar menn nátengdir auðmönnnum eru farnir að dæma í málum tengdum auðmönnum, án þess að hafa reynslu eða þekkingu á dómsstörfum.

Helgi Ingólfsson, 11.6.2014 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband