Ef Baudelaire hefði verið í Stuðmönnum ...

IOOVVormánuðir síðastliðnir voru óvenjufrjóir í íslenskri bókaútgáfu. Þá komu m.a. út nóvellan Mörður eftir Bjarna Harðarson, skáldsagan Gosbrunnurinn eftir Guðmund Brynjólfsson og ágætar ljóðabækur á borð við Ástríði (eða Ástríður) eftir Bjarka Bjarnason, sem byggir á dagbókum Gísla Brynjúlfssonar frá fyrstu Hafnarárum hans, og Þýdd ljóð og smásögur eftir Tryggva V. Líndal, sem hefur m.a. að geyma fjölmargar ljóðaþýðingar úr verkum forn-grískra skálda. Sem og annar árgangur af ritröðinni 1005, sem fjallað mun um hér að neðan. Þótt lítið hafi verið fjallað um þessi verk af bókaskríbentum get ég fullyrt að um auðugan garð er að gresja.

Útgáfa ritraðarinnar 1005 eða IOOV er meðal metnaðarfyllstu útgáfuverkefna íslenskra bókmennta á síðustu misserum. Þar leggja ýmsir hönd á plóg og eftir því sem mér hefur skilist er ætlunin að gefa út í þrjú ár, alltaf þann 10. maí, en í hvert skipti skulu birtir áður óútgefnir textar á íslensku. Í fyrra voru heftin þrjú og annar árgangurinn er aukinn að vöxtum með fjórum heftum/ritverkum. Fjölbreytnin hefur verið mikil í þessum sjö verkum: Frumsamin íslensk skáldsaga, þýdd erlend skáldsaga, smásagnasafn, ljóðabók, prósaljóðabók, fræðigrein og þematískt textasafn margra höfunda.

Það er yfirlýstur tilgangur útgáfu 1005 að feta ekki troðnar götur, enda lögð fæð á hugmyndafræðilegan einhug samtímans." Fyrir vikið er yfirbragð þessara verka stundum tilraunakenndara en gengur og gerist, en metnaður, fjölbreytni og sköpunargleði leyna sér ekki. Í nýjasta pakkanum eru verkin fjögur Hjarðljóð úr Vesturbænum eftir Svein Yngva Egilsson, smásagnasafnið Rússneski þátturinn eftir Braga Ólafsson, skáldsagan Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares í þýðingu Hermanns Stefánssonar og loks textasafnið Styttri ferðir eftir ýmsa höfunda.

Af heftunum fjórum þótti mér mestur fengur í – og hér ber að undirstrika að um huglægt og persónulegt mat er að ræða – safni 50 prósaljóða eftir Svein Yngva Egilsson, sem heitir því skondna nafni Hjarðljóð úr Vesturbænum. Þessir prósar eru fremur stuttir, frá tveimur línum upp í rúmlega eina blaðsíðu, og raðað upp þannig að titill ljóðs byrjar á tilteknum bókstaf og síðan farið nær bókstaflega stafrófsröðina frá A til Ö. Fremur sjaldséð er að tiltekinn stafur komi fyrir fremst í titli oftar en einu sinni, þótt fáeinar undantekningar þekkist þar á. Þetta bendir til að röðin ráðist síður af því hvenær prósarnir voru samdir eða af þematískum forsendum, nema titlarnir hafi verið ákveðnir síðastir, eftir að ljóðin voru tilbúin. Ekki er um eiginlegar örsögur að ræða, því að sjaldnast er rakin atburðarás eða lýst samskiptum persóna. Oft er um stakar minningar að ræða, m.a. frá bernsku, oft með áherslu á hið óvænta, en einnig er viðfangsefnið draumar, leiklist, einstök hversdagsleg atvik eða undarleg fyrirbæri. Sumir textarnir hafa jafnvel yfir sér yfirbragð ljóðrænnar náttúrufræði, til dæmis þegar fjallað er um skóga, flugfiska, íslenska höggorma og jaðrökuna.

Heildaryfirbragð prósa Sveins Yngva er jákvætt og hugljúft, lífsglatt og oftast upplífgandi, en einstaka sinnum angurvært. Ef til vill er það undarleg samlíking, en líklega hefði Baudelaire ort svona, ef hann hefði verið í Stuðmönnum. Frá Baudelaire, frumkvöðli prósaljóðsins, er jú textastrúktúr Sveins Yngva kominn, en leikgleði orðanna gæti verið fengin frá gleðipoppsveit allra landsmanna. Oft er fallega, frumlega eða fersklega komist að orði, eins og: Leiðin að Heklu liggur í gegnum hjartað." Orðaleiki er að finna nánast í hverjum texta; á mannamótum og í veislum hella menn úr skálum ræðunnar" (sbr. skálaræður). Stundum eru orðaleikirnir byggðir á hljóðlíkingum eða hugrenningatengslum orða; jaðrakan lifir á jaðrinum" og fer á harðakani". Meira af skemmtilegri tvíræðni: Landakotskirkjan er kirkjuskip" sem liggur við festar" á Landakotstúni og í skugga þess steinnökkva" lék ljóðmælandi fótbolta í æsku með vinum sínum á sumrin (Rómarfarið). Allnokkrum sinni bregður fyrir sláandi einfaldri speki: Að lesa bók er bara aðferð til að hafa eitthvað á milli andlitsins og heimsins" (Lestur bóka) og svo er haldið áfram með að nefna að dagblöð, tölvur, regnhlífar og skildir fornmanna hafi þjónað sama tilgangi. Stundum eru yrkisefni Sveins Yngva óendanlega hversdagslega lítilmótleg og nánast mínimalísk, eins og að kaupa sér ís í útlendu fjallaþorpi þar sem einnig fást hannyrðavörur og falleg peysa, en í öðrum er tekist á við klassísk viðfangsefni allra tíma, á borð við dauðann (úr ljóðinu Borðsiðir), en jafnvel þá er hann ósköp heimilislegur:

Dauðinn kemur eins og fremur viðkunnanleg boðflenna í eftirmiðdagskaffi, sem enginn var svo sem sérstaklega boðinn í, og sest í besta stólinn. Hann tekur hæglætislega í hornið á borðdúknum og þreifar á efninu með þumli og vísifingri. (Þetta er sænskur hördúkur, þó að það skipti kannski ekki máli í þessu samhengi.) Hraðar en auga á festi rykkir hann dúknum af borðinu undan öllu því sem þar er. Glamrandi bollar og titrandi kökur vita ekki fyrr til en þau standa á berri borðplötunni en hafa þó ekki hreyfst úr stað. / Það er auðvitað engin ástæða til að blása kaffiboðið af en einhvern veginn er stemningin orðin hrárri. Fáið ykkur endilega meira, segir gestgjafinn, ekki vantar veitingarnar./ Þessi í besta stólnum situr með kuðlaðan dúkinn í fanginu eins og sá sem veit upp á sig skömmina en virðist ekki hafa neina lyst. / Maður getur alltaf á sig blómum bætt, segi ég furðu hressilega og teygi mig í síðustu sneiðina."

Titill ljóðakversins er ef til vill villandi, því að eingöngu þrisvar í heftinu man ég eftir beinum vísunum í hjarðmanna- eða sveitasæluskáldskap (Hjarðljóðaraunir í Reykjavík, Sveitasæluljóð og Öskjuhlíð). En náttúran er sínálæg í sínum margbreytilegu myndum, t.d. í ljóðunum Viði vaxið og Skógarlíf; hið síðarnefnda er lengst allra ljóðanna, nær yfir rúma blaðsíðu og hefur að geyma bráðskemmtilega lýsingu og dulítið ljúfsára þroskasögu, um áhyggjuleysi stráka í görðum og trjám í Vesturbænum, uns skógardísirnar breyta þeim í satýra og þeir sem hafa klaufir geta ekki klifrað í trjám. Í öðru ljóði er einnig mjög bein vísun í gríska goðafræði, en það er hið bráðskemmtilega Íkarus:

Maður sem dýfir sér fram af efstu brún á háhýsi nýtur óvenjulegs útsýnis á leið sinni niður. Ef hann hefur stungið sér á réttan hátt í uppstreymið sem gjarnan er við íslenskar blokkir helst hann á hvolfi alla leið og klýfur loftið með lágum en auðþekktum hvin. Margt ber þá fyrir augu sem áður var hulið. Hæð af hæð opnast honum og allt á haus, íbúar jafnt sem innbú, heimilisdýr og húsbúnaður."

Í seinni helmingi ljóðsins skiptir rækilega um sjónarhorn:

Köttur úti í glugga er sá eini sem verður vitni að því undri er maður fellur af himnum ofan og fylgir honum eftir með gulum glyrnum sínum allt á leiðarenda. Svo grípur eitthvað annað athygli dýrsins og það fer að eltast við fiskiflugu í gluggakistunni. Hún hefur verið að reyna að komast gegnum glerið í allan dag. Handan þess er frelsið og kannski getur kötturinn hjálpað henni yfir um. Sólargeislarnir smjúga í gegn eins og ekkert sé og hitinn í stofunni er að verða óbærilegur."

Prósabók Sveins Yngva er prýðisvel heppnuð og ég finn henni fátt til foráttu. Einna helst er að hann ofnoti nokkuð bókmenntahugtakið nykraður". Það er mjög við hæfi að bókinni lýkur með ljóði, þar sem hinn aldurhnigni Steingrímur Thorsteinsson er á heimgöngu ofan frá Öskjuhlíð að húsi sínu niður við Austurvöll og nemur af og til staðar að huga að smáblómi í vegkantinum. Furðu léttur á fæti, gamli maðurinn, og kímir í sífellu ofan í algrátt skeggið." Einhvern veginn fanga þessi ferðalok anda ljóðabókarinnar allrar.

–---

Næst ber að nefna smásagnasafn Braga Ólafssonar, samheita einni sögu: Rússneski þátturinn. Þar getur að líta 9 mislangar smásögur, sem að sönnu má kalla bragískar: Atvik úr hversdagslífinu, stundum örlítið frábrugðin því allra hversdagslegasta, eru blásin upp í fáránlegar víddir til að gera þau frásagnarverð, oft með kímnum eða launfyndnum undirtóni; einnig oft með dulítilli ógn. Getur ókunnur maður, sem bankar upp á klukkan fimm einn nóvembereftirmiðdag til að safna dósum, mögulega átt sér miður góðan ásetning? Er óhætt fyrir móður að keyra þvert yfir bæinn með son sinn sjö ára til að láta hann leika við bekkjarfélaga sinn í öðru hverfi? Er ekki hyggilegast að koma í veg fyrir að strengjakvartett geti látið framleiða geisladiska sína í útlöndum í desember svo að þeir komist nú örugglega ekki á jólamarkað? Gæti verið háskalegt fyrir öryrkja að láta leigusala sinn, sem heitir Grímur Tomsen, vita að bókaútgefandi hefur á kaffihúsi þröngvað öryrkjanum til að kaupa tvær bækur, mögulega til jólagjafa? Gæti maður átt von á því að vera skotinn með haglabyssu þegar maður fer til dyra í miðju símtali við bróður sinn? Bragi dregur upp þær aðstæður, sem leitt geta af sér ofangreindar spurningar, af ótrúlegri smásmygli og minnir helst á niðurlenskan málara frá 15. öld sem málar hvert atriði svo nákvæmlega sem má verða, uns verkið samanstendur af yfirþyrmandi fjölda smáatriða og heildarmyndin fer að týnast. Og oftast svarar höfundurinn ekki eigin spurningum; þetta eru óútskýrðir hálf-súrrealískir brandarar – eða ekki. Fyrir vikið hentar smásagnarformið vel frásagnastíl Braga. Tvær sagnanna gerast í útlöndum og eru skemmtilega ólíkar; önnur greinir frá tragíkómískri og jafnvel voveiflegri uppákomu á suðrænu sólarhóteli í landi sem gæti verið Spánn (Kanaríeyjar?), en í sjálfu sér er engin vísbending um hvert landið er nema tvö orð úr máli þarlendra: Un accidente. Hin er sjálf titilsagan, sem gerist í Tampere í Finnlandi, þar sem stöðum og staðarheitum er lýst af gríðarlegri nákvæmni, þveröfugt við fyrri utanlandssöguna. Óvenju margar sagnanna gerast síðla hausts eða rétt fyrir jólaleytið, að því marki sem slíku er lýst. Sáralítil skörun er á milli sagnanna; þó læðist “Lalli föðurbróðir mömmu” inn í tvær þeirra, Bernskuminningar mínar og Minning hættir að vera minning. Oft er heilu söguhlutunum haldið uppi af samtölum einum, sem þá eru jafnan í senn, sannfærandi og hversdagsleg. Ein sagan, Efniviður fyrir ljóðskáld, sker sig úr í tvennum skilningi, að lengd eða öllu heldur stuttleika, því að hún er tæpra tveggja síðna löng, og einnig að efnistökum, vegna þess að hún felur frekar í sér lýsingu á aðstæðum heldur en frásögn af atvikum; þar er lýst kjallararými í húsi sögumanns, sem lokað er á alla vegu, innan frá og utan. Ef til vill er það í einhverjum skilningi táknrænt fyrir þessar sögur sjálfar.

–---

Þá komum við að þriðja verkinu. Ég hafði heyrt á skotspónum að þessi árgangur af 1005 innihéldi fræga skáldsögu frá árinu 1940 eftir argentíska rithöfundinn Adolfo Bioy Casares og var það mér sérstakt tilhlökkunarefni, ekki síst vegna þess að hann var góðvinur Borgesar sem hafði látið þau orð falla um á sínum tíma að sagan væri fullkomin", Octavio Paz hafði tekið undir þau orð og ég hafði aldrei lesið stafkrók eftir Bioy Casares. Sagan heitir Uppfinning Morels og greinir frá flóttamanni sem hefur sloppið undan óskilgreindum yfirvöldum til eyðieyjar, sennilega í Suðurhöfum, og hefst þar við á fenjasvæðum, í stöðugum ótta við að verða gripinn og látinn gjalda fyrir óútskýrða glæpi sína með lífstíðarfangelsi, en á hæð nokkurri á eyjunni eru nokkrar byggingar og þar birtast einn góðan veðurdag ferðamenn, sem tala frönsku. En þegar hinn nafnlausi flóttamaður reynir að nálgast þá varlega, sýna þeir enga svörun, og þrátt fyrir það verður hann yfir sig ástfanginn af ungri konu úr röðum gestanna …

Uppfinning Morels er eins konar vísindaskáldsaga með stórundarlegu ástarsöguívafi og margvíslegum vísunum í ýmsar áttir, sem ég ætla ekki að rekja hér. Undarlegir atburðir reynast eiga sér skýringar, sem sumpart eru á mörkum hins röklega og skynsamlega. Ég verð að játa að ég átti von á að sagan hrifi mig meira; hún er að ýmsu leyti barn síns tíma, hefur eflaust verið svakalega framúrstefnuleg árið 1940, en það virkar máske dálítið kjánalegt nú á dögum. Alltént er frásögnin fjarri því að lúta lögmálum hversdagslífsins; tvær sólir og tveir mánar eru á lofti; fólk endurtekur í sífellu sömu samræðurnar og sömu hreyfingarnar; þetta er eins og að vera staddur í súrrealísku myndverki eftir Max Ernst eða de Chirico. Ekki er að sakast við prýðisgóða þýðingu Hermanns Stefánssonar, sem líður lipurlega eins og falleg á, heldur frekar að verkið eldist ekki vel. Það er alltént ekki minn tebolli, eins og enskurinnn segir. Ódámurinn ég hef sýnilega ekki sömu þekkingu á fullkomnun" eins og Borges sjálfur. Eigi að síður tel ég mikilvægt að Íslendingar eigi sem mest af heimsbókmenntum í þýðingum á eigin tungumáli, svo að verk reynist aðgengileg sem flestum, og á þeim forsendum er þýðingin á Uppfinningu Morels þjóðþrifaverk.

–---

Fjórða og síðasta verkið í 1005 þetta árið er samansafn ljóða, prósa og frásagna undir yfirskriftinni Styttri ferðir, en þar er safnað saman mislöngum textum, sem eiga það eitt sameiginlegt að lýsa ferðalögum af einhverjum toga, stuttum sem löngum, andlegum sem efnisbundnum. Höfundar textanna eru ýmsir, innlendir sem erlendir, og er þeim (og þýðendum) safnað saman í lista í stafrófsröð í upphafi heftisins, en farin sú óvenjulega leið að nefna ekki hver á hvaða texta. Gefið er í skyn fremst í heftinu af fararstjórunum" Hermanni Stefánssyni og Sigurbjörgu Þrastardóttur að úr megi verða eins konar samkvæmisleikur eða gestaþraut, þar sem menn geti stytt sér stundir við að para texta og höfund, en einnig látið í það skína að upplýst verði síðar. Þótt ég telji mig geta feðrað og mæðrað ýmsa textana ætla ég ekki að gera tilraun til þess á prenti.

Styttri ferðir þykir mér einna sísti hluti þessa árgangs af 1005 og er ekki einhlítt að útskýra hvers vegna, því að fjölmargar sögurnar/textarnir eru prýðilegar/-ir. En það er máske að á þessum tímapunkti verði fjölbreytnin að sundurleysi; gæðin eru afar misjöfn, sumar frásagnir langar og aðrar stuttar, sumar erlendar og aðrar innlendar; sumar leggja áherslu á innri veruleika og aðrar á hinn ytri. Farið er út um víðan völl, til Svíþjóðar, Japan, New York, Vínar og fleiri staða í útlöndum (þar sem t.d. járnbrautir ganga eða leyfilegt er að aka á hraðbrautum á 140 km hraða), sem og ýmissa staða hér innanlands.

Draga ber þó fram það sem vel er gert – og aftur skal undirstrikað að um persónulegt mat er að ræða, því að aðrar sögur gætu fallið öðrum lesendum í geð. Hérna er t.d. að finna nokkrar fullgildar smásögur, þ.á. m. eina sem hefur almennilegt pönsjlæn: Nokkrir dagar í New York. Önnur bráðskemmtileg saga fjallar um endurminningar stráks sem ætlaði ungur að flýja vist úr sveit, eignaðist annan valkost og sér ferlið allt nú með augum fullorðins manns sem kunnáttu hefur í bókmenntakenningum og heimspeki (Meðan á flóttatilrauninni stendur). Feikna snjall þótti mér örtextinn í Seibu-Ikebukuro línunni: Ég er eins og fólk er flest á ferð í neðanjarðarlest; dropi í hafi, kem upp úr kafi, kannski (það er óstaðfest)." Hér þarf ekki að lesa lengi til að átta sig á að um er að ræða hefðbundið ljóð með rími og ljóðstöfum, sem kemur merkingu fyllilega til skila; hrynjandinni er að vísu ábótavant, en það eykur bara á skringilegheitin.

Annar afar skondinn texti er Til hughreystingar fyrir þá sem finna sig ekki í samtíma sínum: „Í framtíðinni þegar tímaferðalög verð a möguleg: Fólk fer ennþá á barinn en skreppur svo aftur í tímann til að fá sér rettu. Flestir munu hafa atvinnu og búsetu í sinni nútíð en ferðast í tíma í frítíma sínum. Í framtíðinnni mun það koma fyrir – sum kvöld – að þar verður enginn." Þessi texti er eiginlega enn fyndnari, þar sem hann kemur beint á eftir öðrum, sem reynir að vera fyndinn en en samt heldur tilgerðarlegur, með ofurnákvæmum leiðbeiningum sínum um hvernig skuli ganga upp stiga.

Þegar á heildina er litið finnst mér þessi annar árgangur máske ögn kraftminni en sá fyrsti, þar sem gæðunum er meira misskipt. Eigi að síður er verkið allt margfalt skemmtilegra, frjórra og líflegra en flest það sem annars kemur út hérlendis. Þessi annar hluti af 1005 er hátt yfir meðallagi og hátt yfir meðalmennsku hafinn.

--- 

P.S. Ég biðst velvirðingar ef tvenns konar leturgerðir birtast í pistlinum. Tæknin hefur tekið völdin af mér og ég hef ekki náð að ráða niðurlögum hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Ég biðst velvirðingar; alltaf er leiðinlegt að þurfa að leiðrétta strax. En ljóðabókin Ástríður eftir Bjarka Bjarnason fjallar vitaskuld um dagbækur Gísla Brynjúlfssonar, en ekki Gísla Konráðssonar (föður Konráðs Fjölnismanns).

Svo biðst ég einnig velvirðingar á því að þetta Moggabloggs-forrit skuli ekki ráða við seinni hluta/ lokun á íslenskum gæsalöppum og umbreyta þeim í táknaþvælu. Allt virtist það eðlilegt meðan ég skrifaði uppkastið, áður en ég vistaði. 

Helgi Ingólfsson, 31.7.2014 kl. 17:45

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Og svona, að gefnu tilefni, vinsamleg ábending, kæru 1005-liðar: Óskandi væri að þið drægjuð greiðslukröfu ykkar, sem verið hefur í heimabanka mínum í tvo mánuði eða svo, til baka þaðan. Ég staðgreiddi báða árganga og finnst leiðinlegt að vera áminntur um að skulda eitthvað (sem ég geri ekki), eins og ómerkilegur vanskilamaður, í hvert sinn sem ég opna heimabankann. Vinsamlega fjarlægið. 

Helgi Ingólfsson, 11.8.2014 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband