Lofsöngur til hinna misskildu og misheppnuðu

Banvard's FollyÍ kringum 1850 var Bandaríkjamaður að nafni John Banvard talinn merkasti listamaður heims. Á sama tíma var Englendingurinn Martin F. Tupper eitt frægasta ljóðskáld veraldar. Í dag eru þessir menn – og fleiri sem öðluðust ofurfrægð í samtíma sínum – öllum gleymdir. Hvernig stendur á því?


Fyrir fáeinum vikum gaukaði Eiríkur tengdasonur minn að mér bók og sagði: “Þú hefðir eflaust gaman af að lesa þetta.” Mikið rétt. Bókin heitir Banvard´s Folly og höfundurinn bandarískur Vesturstrandarmaður, Paul Collins að nafni. Banvard´s Folly byggir á þeirri skemmtilegu hugmynd að fjalla um 13 einstaklinga (allir nema einn eru karlmenn), sem urðu stórfrægir í sínum samtíma fyrir ýmsar sakir, en eru nú flestum gleymdir. Þetta eru menn af þeim toga sem gætu dúkkað upp á lemúrnum.is eða í skringilegri sagnfræðipistlum Illuga Jökulssonar. Sumir þeirra hefðu getað breytt gangi sögunnar – en sagan gleymdi þeim. Nokkrir þeirra komust til æðsu mannvirðinga, a.m.k. um stundarsakir, sumir vegna eigin verðleika, aðrir sem furðufuglar eða svikahrappar. Að minnsta kosti tveir þeirra sýndu listir sínar frammi fyrir Viktoríu drottningu (einn raunar meðan hún var enn prinsessa), sumir voru vildarvinir frægs fólks eins og Nathaniels Hawthorne eða Ralph Waldo Emerson. John Banvard sá, sem bókin heitir eftir, málaði stærsta málverk í heimi, um 5 kílómetra að lengd, og sýndi það strandlengju Mississippi-fljóts. Hann var upphafsmaður svokallaðra panorama-sýninga rétt um 1850 og auðgaðist gríðarlega á því, svo mikið að hann reisti sér í New Jersey smækkaða mynd af Windsor-kastala sem íbúðarhús. Charles Dickens sagði hann mesta listamann síns samtíma. Síðan glataði Banvard auði sínum og frægð, m.a. vegna samkeppni við þann fræga P.T. Barnum.

Margir í bók Collins eru ókunnuglegir með öllu. Hver kannast í dag við svikahrappinn George Psalmanazar, sem í upphafi 18. aldar þóttist vera Formósu-búi á Englandi og skrifaði fræðirit um sögu og menningu þeirrar eyjar án þess að hafa nokkurn tíma komið þangað, fyrir utan það að finna upp eigið tungumál og eigið ritmál eyjaskeggja, og komast alla leið með pretti sína inn í Oxford? Aðra hefur maður heyrt lítillega minnst á. Þegar lárviðarskáld Breta, William Wordsworth, lést árið 1850 kom til greina að veita eftirlætisskáldi Viktoríu drottningar, Martin Farquahar Tupper, þann titil, en hann fell svo í skaut Alfred Lord Tennyson. Í dag læra öll ensk skólabörn um Wordsworth og Tennyson, en ljóð eftir Tupper hafa ekki verið endurútgefin í meira en öld; í slíka þyrnirósargleymsku hefur hann fallið. Um stund, í kringum 1870, seldust eiginhandaráritanir Tuppers í Bandaríkjunum á $3.50 og á sama tíma fór eiginhandaráritun Charles Dickens, sem löngu var orðin frægur, á $0.50. Delia Bacon hét bandarísk kona á 19. öld, bekkjarsystir og vinkona Harriet Beecher Stowe, leiftursnjöll sem kennslukona og fræðimaður – hún var líklega fyrst til að halda því fram að Francis Bacon (og reyndar fleiri) hefðu samið leikrit Shakespeares og gekk af göflunum við að reyna að sanna það. W.H. Ireland var prentarasonur undir lok 18. aldar; faðir hans þráði ekkert heitar en að eignast skjal með rithönd Shakespeares og sonurinn ungi vildi gera föður sínum til geðs svo að einn góðan veðurdag fóru að birtast skjöl með rithönd Shakespeares. Fölsuð, vitaskuld, en lengi vel áttaði enginn sig á því að sonurinn, sem var undir tvítugu og þótti hálfgerður auli, stæði á bak við þetta. Hann skrifaði m.a.s. tvö “áður óþekkt” leikrit eftir Shakespeare og var annað þeirra sett á fjalirnar – þó bara einu sinni. Svo komst upp um strákinn Tuma. En jafnvel eftir það urðu falsanir Irelands eftirsóttar og hann hélt áfram að falsa – sínar eigin falsanir! Hann var spurður hvort hann ætti ekki eitthvað eftir af þessum alræmdu plöggum, “Að sjálfsögðu” svaraði hann, fór heim, skrifaði það upp á nýtt og seldi fyrir drjúgan skilding. Þriðji Shakespeare-sérfræðingurinn í heftinu var Robert Coates, vellauðugur plantekrueigandi frá Antigua í Karabíska hafinu, sem fluttist til Englands um 1810 og tók að stíga á svið. Hann var svo dökkur af hitabeltissól að margir töldu hann blökkumann og svo auðugur að skyrtuhnappar hans voru demantalagðir. Hann hafði ungur starfað með áhugaleikhúsum á Antigua, lært Shakespeare utanbókar og dreymdi um frægð á sviðinu. Tók hann nú að setja upp Shakespeare-sýningar á eigin kostnað á Englandi og varð sérstaklega frægur fyrir að leika Rómeó; áhorfendur gerðu óspart gys að honum, en hann tók vart eftir því og oft reis hann upp “frá dauðum” á sviðinu til að endurleika dauðastríð Rómeós að áeggjan lýðsins. Varð hann víðfrægur fyrir þetta um sína daga – en eingöngu um skamma stund. Hvernig var nú aftur lokatilvitnunin í Macbeth, um að lífið sé eins og vesæll leikari sem “struts and frets his hour upon the stage and then is heard no more”? Það átti við Robert Coates.

Bókmenntafólkið í bók Collins er skrautlegt, en vísindamennirnir þó enn skringilegri. Augustus Pleasonton hét Bandaríkjamaður sem fékk einkaleyfi um 1870 á notkun á ljósi í gegnum blátt gler, sem átti hvoru tveggju að hafa græðandi áhrif á allar lífverur og láta þær vaxa betur í öllum skilningi; þetta varð undirstaða bláglers-æðisins sem stóð fram til um 1877. Þaðan munu flestar hugmyndir um ljóslækningar runnar, m.a. hjá okkar eigin Níelsi Finsen, sem nam við Reykjavíkur Lærða skóla og fékk Nóbelsverðlaun fyrir ljóslækningaafrek sín árið 1903. J.C. Symmes hét Bandaríkjamaður sem fékk þá flugu í höfuðið um 1820 að jörðin væri hol að innan og hægt væri að komast inn á Norðurpólnum; ferðaðist hann um, kynnti kenningar sínar, safnaði fé fyrir slíkum leiðangri og kom m.a. fyrir Bandaríkjaþing, enda Bandaríkin þá í örri útþenslu. Leiðangurinn var aldrei farinn, en kenningar Symmes höfðu áhrif á rithöfunda 19. aldar, til dæmis hinn unga Edgar Allan Poe sem skrifaði fyrstu skáldsögu sína um svoddan leiðangur, og síðan einnig á Jules Verne, sem gerði hugmyndina ódauðlega í Leyndardómum Snæfellsjökuls. Thomas Dick hét skoskur fræðimaður, sjálfmenntaður heimspekingur, stjörnufræðingur og kennari, sem hafði mikil áhrif á f.hl. 19. aldar með kenningum sínum um að allir himinhnettir væru byggðir lífverum, að meira eða minna leyti líka mönnum. Kenningin byggði á svokallaðri náttúruguðfræði (Natural Theosophy), en samkvæmt henni skapaði guð náttúruna alla, á jörðu sem himni, til að hún mætti vera byggð vitsmunaverum, en samkvæmt útreikningum Dicks, sem reiknaði af óútskýrðum ástæðum með því að þéttleiki byggðar væri alls staðar í heiminum svipaður og á Englandi, voru íbúar alheimsins 60,573,000,000,000,000,000,000,000 talsins – eða þar um bil. Þetta var maður sem naut viðurkenningar; H. Beecher Stowe og R.W. Emerson dáðu og heimsóttu í virðingarskyni. Sumir sem nefndir eru til sögunnar voru hreinræktaðir vísindamenn sem ætluðu að breyta heiminum – og tókst það næstum því. J.F. Sudre hét Fransmaður sem bjó til stórmerkilegt tungumál út frá tónfræði á 19. öld; tungumálið heitir solresol og er ennþá nokkrum kunnugt. Það er algilt í þeim skilningi að þeir sem kunna að spila sama nótnakerfi - þótt annar kunni bara íslensku og hinn eingöngu swahili - geti rætt saman. Annar Frakki, Blondlot, var víðfrægur vísindamaður, orðaður við Nóbelinn á fyrstu árum hans snemma á 20. öld, en glutraði því niður, þegar hann hélt sig hafa fundið nýja tegund geislunar – en eftir heilmikil skrif og fræðigreinar í vísindaritum í tvö ár kom í ljós að sú geislun var ekki til.

Gott er að hafa sæmilega innsýn í sagnfræði, þegar ráðist er í lestur Banvard´s Folly, m.a. til að skilja tíðaranda hvers tíma, en þó er það ekki nauðsynlegt. Erfitt er að nota þann mælikvarða hvort Banvard´s Folly sé góð eða slæm; framsetning þrettán undarlegra kafla gefur ekki beint tilefni til að meta hana á þeim forsendum. Samt má nefna að í fyrri köflum styðst Collins meira við efni, sem áður hefur verið útgefið að einhverju marki í bókum – og nýtur góðs af, einkum varðandi skipulag og framsetningu. Í sumum seinni köflum ber meira á eigin úrvinnslu höfundar á frumheimildum (t.d. Pleasonton og Dick) og þar er frásögnin ívið þunglamalegri, enda hafa aðrir höfundar ekki náð að straumlínulaga efnið. En að sama skapi vex virðingin fyrir Paul Collins; hann leggur ötullega á sig að grafa upp rykfallnar heimildir um gleymda menn og bera á borð. Þetta er lofsöngur til hinna misskildu og misheppnuðu.

Og þegar upp er staðið er Banvard´s Folly fyrst og fremst það sem hún er: Bráðskemmtileg aflestrar. Þetta er fróðleikur, sem varla nokkrum manni dytti í hug að safna saman eða setja á prent – og þess vegna er hún sérstök. Fyrir fáum árum skrifaði ég stuttan ritdóm um bókina Napoleon´s Buttons, sem fjallaði um þau áhrif sem efnafræði hefði haft á gang sögunnar. Banvard´s Folly er í sama flokki; fágæt bók sem snarlega getur dýpkað skilning á eðli og gangi sögunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Martin Farquahar Tupper -- aldrei heyrt hans getið!

Áhugaverður pistill, en svo langur, að ég verð að geyma mér lengri lestur þar til síðar.

Jón Valur Jensson, 17.8.2014 kl. 14:28

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Sæll Jón Valur.

Aldrei heyrt minnst á Tupper? Um það snýst málið einmitt: Menn sem voru afar frægir um stund - og gleymdust síðan nánast gjörsamlega.

Tupper orti ljóð sem kölluð voru Proverbial Philosophy, þ.e. spakmæli eða speki í ljóðaformi, af því tagi sem við mundum ef til vill í dag kalla vasaspeki.

Talið er að selst hafi 1,5 milljón eintaka af ljóðum hans, en reyndar langmest í Ameríku í sjóræningjaútgáfum, enda höfundarréttarlög þar mun veikari en á Englandi á sama tíma. Í síðarnefnda landinu er talið að um 80 þúsund eintök ljóðabóka hans hafi selst.

Milli 1850 og 1860 auglýsti herrafataverslun í London fatalínur sem samræmdust klæðaburði merkustu þálifandi skálda heims: Browning, Hawthorne, Tennyson, Longfellow ... og Tupper.

Tupper fór að minnsta kosti 2 ferðir til Bandaríkjanna þar sem borgarstjóri New York og fólk af hinni vellríku Astor-ætt báru hann á höndum sér. Viktoría drottning hélt mikið upp á ljóð hans, sem og allur almenningur af borgarastétt á Englandi framan af.

Eftir 1875 fór frægðarsól hans hratt hnignandi og ljóðskáld tóku að hæðast óspart að vasaspekinni úr ljóðum hans. Nafn hans varð að skammaryrði; gagnrýnendur fóru að kalla vond ljóðskáld "a Tupper". Þeim mun hryggilegra er þetta, þar sem heimildum ber saman um að M.F. Tupper hafi verið einstakt góðmenni og mikill mannvinur - hann helgaði sig m.a. líknarmálum.

P.S. Ég hef séð millinafn hans skrifað hvoru tveggja Farquhar og Farquahar og þori ekki að dæma hvort er rétt.

Helgi Ingólfsson, 17.8.2014 kl. 17:18

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Auðvitað náði ég því af hverju þú varst að fjalla um þennan Tupper.

Ég fletti honum núna upp í þremur enskum anthológíu-ljóðasöfnum, en ekki var hann þar. Á þónokkur í viðbót og ætla að ath. þar líka (seinna).

Þakka þér skrifin.

Jón Valur Jensson, 18.8.2014 kl. 02:39

4 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Ég held að antólógíurnar þurfi að vera þeim mun sérhæfðari til að þar sé að finna ljóð eftir Tupper. Þannig rámar mig í sýnishorn eftir hann sé í mýflugumynd inni í The Penguin Book of Victorian Verse, sem kom út um 1965 og ég á einhvers staðar í kassa, en ekki í The Penguin Book of English Poetry frá svipuðum tíma.

Hann er samt ekki með öllu gleymdur úr referens-bókum. Þannig fær hann heilar 12 línur í minni Oxford Companion to English Literature, þar sem segir m.a. að Tupper "became the favourite of millions who knew nothing about poetry"  og í The Penguin Companion to Literature fær hann um 25 stuttar línur þar sem ljóðlist hans er m.a. sögð "full of complacency and jingoism ... presenting banal thoughts in a fatally loose, versified prose". Tupper fær 13 línur í minni gömlu Encyclopædiu Britannicu (frá um 1965) og ekkert mjög skaðvæna dóma, en minnst er á hans "extraordinary popularity".

Annars eru upplýsingar mínar um Tupper nær allar fengnar úr bók Collins, sem gefur allmörg ágæt dæmi af ljóðlist þessa meinta stórskálds. Af þeim sýnishornum að dæma sýnist mér hann hvorki mikið verri né mikið betri en ýmsir miðlungshöfundar samtíma hans - svona út frá því litla viti sem mér er gefið.

Þakkir sjálfur fyrir innlit og athugasemdir.

Helgi Ingólfsson, 18.8.2014 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband